Hæstiréttur íslands

Mál nr. 369/2002


Lykilorð

  • Skilasvik
  • Skjalafals
  • Tékkabrot
  • Fjársvik
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. desember 2002.

Nr. 369/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Sigfinni Þór Lúðvíkssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Skilasvik. Skjalafals. Tékkabrot. Fjársvik. Skaðabætur.

S var ákærður fyrir skilasvik, með því að hafa rifið tiltekna bifreið í sundur og notað hluti úr henni í aðrar bifreiðar sömu gerðar, þrátt fyrir að bifreiðin hafi skömmu áður verið sett að veði til tryggingar greiðslu skuldabréfs. Þá var hann ákærður fyrir skjalafals með því að hafa framvísað falsaðri tilkynningu um eigendaskipti að bifreið og jafnframt selt tryggingafélagi skuldabréf með veði í bifreiðinni. Einnig var hann ákærður fyrir brot gegn tékkalögum með því að hafa notað í viðskiptum innistæðulausa tékka og fjársvik með því að hafa svikið til sín lán hjá tryggingafélögum í Reykjavík. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um tólf mánaða fangelsi S, með vísan til forsendna hans og að gættu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

          Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

          Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. júlí 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur að öllu leyti samkvæmt ákærum 16. janúar 2001 og 22. janúar 2002, refsing hans þyngd og ákvæði héraðsdóms um skaðabætur staðfest.

          Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt I. og II. kafla ákæru 16. janúar 2001, öllum ákæruliðum samkvæmt ákæru 22. janúar 2002 og þar tilgreindum bótakröfum. Til vara krefst hann ómerkingar hins áfrýjaða dóms að undanskildum III. kafla fyrrgreindrar ákæru, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og bótakröfum vísað frá eða þær lækkaðar.

          Með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða vegna sakargifta sem lýst er í ákæru 16. janúar 2001 og  1., 2 og 4. til 7. lið ákæru 22. janúar 2002 auk sýknu á sakargiftum samkvæmt 3. lið síðargreindrar ákæru. Á sama hátt er staðfest niðurstaða dómsins um skaðabætur og málskostnað.

          Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þess að brot hans voru skipulögð og framin í atvinnurekstri með því að svíkja út fé í því skyni að afla honum sjálfum og fyrirtæki, sem hann átti hlut í, mikilla fjármuna. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms og að gættu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða.

          Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.        

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

          Ákærði, Sigfinnur Þór Lúðvíksson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2002.

Mál þetta var höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettum 16. janúar 2001 og 22. janúar 2002, á hendur Sigfinni Þór Lúðvíkssyni, kt. 271266-3839, Miðhúsum 40, Reykjavík,

Í fyrri ákærunni er fjallað um:  “... eftirgreind brot á almennum hegningarlögum framin í Reykjavík nema annars sé getið:

I.  Skilasvik með því að hafa, á árinu 1998 sem forráðamaður Impex ehf., kt. 510996-2409, skömmu eftir kaup félagsins á bifreiðinni OB-187 af gerðinni Grand Cherokee árgerð 1993 þann 24. mars sama ár, rifið bifreiðina og notað hluti úr henni í aðrar bifreiðar sömu gerðar þrátt fyrir að bifreiðin hefði þann 17. mars sama ár verið veðsett Samvinnusjóði Íslands hf. samkvæmt skilmálabreytingu á veðskuldabréfi að fjárhæð kr. 1.465.475 útgefnu af Reyni Ástþórssyni, kt. 061132-6519.

Telst þetta varða við 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.  Skjalafals með því að hafa, í febrúar 1999, framvísað hjá Skráningarstofunni hf., Hesthálsi 6-8, tilkynningu, dagsettri 19.2.1999, um eigendaskipti á bifreið ákærða AF-623 til Braga Björnssonar, kt. 030329-3099, sem ákærði hafði fengið annan mann til að falsa með áritun á nafni Braga sem nýs eiganda og jafnframt selt Vátryggingafélagi Íslands, Ármúla 3, skuldabréf nr. 2967  að fjárhæð kr. 1.001.274, með veði í bifreiðinni AF-623 og útgáfudagsetningunni 26.2.1999, sem ákærði hafði falsað með því að rita á það nafn Braga Björnssonar, kt. 030329-3099, sem útgefanda og sitt eigið nafn í reit fyrir áritun vitundarvotts að undirritun Braga á bréfið og framvísað bréfinu á skrifstofum  sýslumannsins í Reykjavík, Skógarhlíð 6, þann 1. mars 1999 og fengið veðinu þinglýst á bifreiðina. 

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

III.  Brot á tékkalögum með því að hafa, í febrúar 2000, notað í viðskiptum eftirgreinda innistæðulausa tékka, samtals að andvirði kr. 533.435, sem hann gaf út á reikninga sína hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar og Landsbanka Íslands, Höfðabakkaútibúi. Ákærði gaf flesta tékkana út til innlausnar nokkra daga fram í tímann:

A. Tékkar gefnir út á reikning ákærða nr. 1451 hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar.

1)         Nr. 6635299, kr. 200.000, dagsettur 1.3. 2000. Notaður til greiðslu á skuld við Straumver ehf., Askalind 7, Kópavogi.

2)  Nr. 6633194, kr. 100.000, dagsettur 25.2.2000.  Sama notkun

3)  Nr. 6633193, kr. 100.000, dagsettur 18.2.2000.  Sama notkun.

 4)      Nr. 6633196, kr. 78.435, dagsettur 18.2.2000. Notaður til greiðslu á skuld við Grétar Þórisson,                         kt. 060464-5299.

 

B. Tékki á reikning ákærða nr. 1288 hjá Landsbanka Íslands, Höfðabakkaútibúi:

 

5)         Nr. 2072584, kr. 55.000, dagsettur 18.1.2000. Notaður sem greiðsla á skuld við Hífi ehf., kt. 441290-1369.

Telst þetta varða við 73. gr. tékkalaga nr. 94, 1933, sbr. lög nr. 35, 1977.

 

Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta: 

Straumver ehf., kt. 680193-2159, kr 400.000 auk dráttarvaxta frá 18.2.2000 - 19.10.2000 kr. 57.129 og innheimtukostnaðar kr. 60.201.

Grétar Þórisson, kt. 060464-5299, kr. 78.435 ásamt dráttarvöxtum frá 18.2.2000 til greiðsludags auk lögfræðikostnaðar kr. 19.005 og virðisaukaskatts kr. 4.656.

Hífir, ehf., kt. 571097-2149, kr. 55.000 auk innheimtukostnaðar kr. 19.088. 

Vátryggingafélag Íslands, hf., kt. 960689-3099, kr. 1.009.943  auk vaxta frá 26.2.1999 - 2.5.1999 kr. 14.442 og dráttarvaxta frá þeim degi til 3.10.2000 kr. 288.179.” 

Í síðari ákærunni er ákærða gefið að sök:  “... að hafa, tímabilinu frá ágúst til 30. desember 1998, svikið í 7 skipti hjá tryggingafélögum í Reykjavík til sín lán að andvirði alls kr. 11.798.165 gegn veðtryggingu í bifreiðum, sem ákærði hafði keypt skemmdar af tryggingafélögum stuttu áður og fengið sökum ógjaldfærni sinnar skráðar á önnur nöfn, með því að leyna lánveitendur og þá sem gengust í skuldir og ábyrgðir fyrir hann á veðskuldabréfunum því að bifreiðarnar voru skemmdar og að raunvirði langt undir lánsfjárhæðum og eytt andvirði lánanna í eigin þágu, nema annars sé getið, þrátt fyrir að honum mætti vera ljóst að fjárhag hans væri þannig komið að hann gæti ekki staðið í skilum með lánin, sem öll eru í vanskilum svo sem rakið er:

1.

Þann 9. desember 1998 lán að andvirði kr. 948.637 hjá Vátryggingafélagi Íslands, Ármúla 3, Reykjavík, með veði í bifreiðinni MN-522 af gerðinni Subaru Legacy árgerð 1995, sem ákærði hafði keypt hjá Lloyd's á Íslandi 6. nóvember sama ár á kr. 300.000, samkvæmt skuldabréfi nr. IBV-5218, gefnu út af systur ákærða Guðrúnu B. Lúðvíksdóttur, kt. 200575-5639. Ekkert hefur verið greitt af láninu.

2.

Þann 10. nóvember 1998 lán að andvirði kr. 1.267.761 hjá Vátryggingafélagi Íslands með veði í bifreiðinni UL-516 af gerðinni Daihatsu Terios árgerð 1988, sem ákærði hafði keypt á kr. 180.000 hjá Sjóvá-Almennum 3. nóvember sama ár í nafni Gunnars Valgeirs Reynissonar, kt. 191071-3799, samkvæmt skuldabréfi nr. IBV-4702-1, útgefnu af nefndri Guðrúnu. Greiðst hafa kr. 16.927 af höfuðstól bréfsins. 

3.

Þann 9. desember 1998 flutt veðlán að andvirði kr. 3.167.501 samkvæmt skuldabréfi nr. 9808682 í eigu Sjóvár-Almennra trygginga hf., gefið út 12. nóvember sama ár af  nefndum Gunnari Valgeiri fyrir hönd Vökvalagna með sjálfskuldarábyrgð Gunnars Valgeirs og Sigrúnar Sigurgeirsdóttur, kt. 021041-2979, af bifreiðinni AL-386 yfir á bifreiðina LM-354 af gerðinni Mitsubitsi 3000GT árgerð 1997, sem ákærði hafði flutt til landsins í september sama ár í nafni Vökvalagna, kt. 561274-0109, á tollverðinu kr. 387.845 en var þann 2. júní 2001 verðmetin á kr. 20.000. Greiðst hafa kr. 175.972 af höfuðstól bréfsins.

4.

Þann 10. september 1998  lán að andvirði kr. 1.738.119 hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, með veði í bifreiðinni VF-425 af gerðinni Pontiac Grand Am. árgerð 1997, sem ákærði hafði keypt á uppboði af Sjóvá-Almennum hf. 13. júlí sama ár í nafni nefnds Gunnars Valgeirs á kr. 180.000 en var verðmetin á kr. 50.000 þann 8. júní 2001, samkvæmt skuldabréfi nr. 20321 útgefnu 10. september 1998 af  Lúðvíki P. Jónassyni, kt. 160248-3199, sem ákærði hafði til málamynda skráð sem eiganda bifreiðarinnar, sem ekki hefur fundist enn.

5.

Þann 29. desember 1998 lán að andvirði kr. 1.567.835 hjá Sjóvá-Almennum hf. með veði í bifreiðinni ME-992, Subaru Legacy 2000 árgerð 1998, sem ákærði hafði keypt skömmu áður af Tryggingamiðstöðinni hf. á kr. 180.000, samkvæmt skuldabréfi útgefnu 29. desember sama ár af nefndum Gunnari Valgeiri með sjálfskuldarábyrgð Gunnars Valgeirs og Sigurgeirs Reynissonar, kt. 270870-3769. Bifreið þessi hefur ekki fundist.

6.

Þann 20. ágúst 1998 lán að andvirði kr. 2.480.425 hjá Sjóvá-Almennum hf. með veði í bifreiðinni MX-500 af gerðinni Ford Explorer Limited árgerð 1996, sem ákærði hafði keypt þann 6.  ágúst sama ár af Tryggingamiðstöðinni hf. í nafni Gunnars Valgeirs á kr. 840.000, samkvæmt skuldabréfi útgefnu 20. ágúst sama ár af nefndri Guðrúnu, sem ákærði fékk að skrá sem eiganda bifreiðarinnar sama dag. Bifreið þessi hefur ekki fundist.

7.

Þann 30. desember lán að andvirði kr. 627.887 hjá Sjóvá-Almennum hf. með veði í bifreiðinni SG-001 af gerðinni Opel Corsa árgerð 1997, sem ákærði hafði keypt 28. sama mánaðar af Vátryggingafélagi Íslands hf. á kr. 207.000, samkvæmt skuldabréfi útgefnu af nefndri Guðrúnu 30. sama mánaðar með sjálfskuldarábyrgð Gunnars Valgeirs.

Framangreind brot teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

...

Í málinu krefjast eftirgreindir skaðabóta:

Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009:  Kr. 948.637 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 9. desember 1998 til 9. janúar 1999, en síðan dráttar­vöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og kr. 1.250.834 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 5. janúar 1999 til 5. febrúar 1999 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu Sjóvár-Almennra trygginga hf., kt. 701288-1739, krefst Sveinn Jónatansson, hdl., skaðabóta svo sem rakið er, ásamt málskostnaði samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun:

1.  1.673.203 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 10.01.1999 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að fjárhæð 551.994,00 kr., og dragast þær frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi auk málskostnaðar að fjárhæð 162.324,- kr. ásamt virðisaukaskatti og alls sannanlegs útlagðs- og áfallins kostnaðar til greiðsludags.

2.  529.611 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 05.11.1999 til greiðsludags, málskostnaðar að fjárhæð 61.955,00 kr. ásamt virðisaukaskatti og sannanlegs útlagðs- og áfallins kostnaðar til greiðsludags. 

3.  1.915.831 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 03.04.2000 til greiðsludags, málskostnaðar að fjárhæð kr. 162.175,00 kr. ásamt virðisaukaskatti og alls sannanlegs útlagðs- og áfallins kostnaðar til greiðsludags.

4.  3.058.192 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 03.05.1999 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að upphæð 66.400,00 kr., og dragast þær frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá er krafist málskostnaðar að fjárhæð 244.973,00 kr. ásamt virðisaukaskatti auk alls sannanlegs útlagðs- og áfallins kostnaðar til greiðsludags.

5.  1.286.911 kr. og bankakostnað, 275,00 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 10.08.2000 til greiðsludags, málskostnaðar að fjárhæð 117.513,00 kr. ásamt virðisaukaskatti auk alls sannanlegs útlagðs- og áfallins kostnaðar til greiðsludags.”

Ákæruvald krefst refsingar. 

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds, til vara vægustu refsingar er lög leyfa.  Þá krefst hann þess að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi.

Mál þetta var þingfest 16. mars 2001 er lögð var fram fyrri ákæra málsins.  Málinu var síðan frestað þar sem upplýst var um frekari rannsókn á meintum brotum ákærða.  Síðari ákæran var síðan gefin út 22. janúar 2002 og var þingfest og málin sameinuð 8. febrúar.  Málið var dómtekið 13. júní 2002 að lokinni aðalmeðferð.

 

Atvik máls þessa gerðust á árinu 1998 og upphafi ársins 1999.  Þá eru tékkar þeir sem um ræðir í lið III í fyrri ákærunni gefnir út í febrúarmánuði árið 2000.  Í skýrslu ákærða kom fram að hann rak á þessum tíma verkstæði í Reykjavík og var með menn í vinnu.  Keypti hann talsvert marga svonefnda tjónabíla af trygginga­félögum og gerði upp og seldi aftur.  Framburður ákærða og vitna verður reifaður nánar í umfjöllun um einstaka liði. 

Rétt er þó að reifa nú þegar framburð systur ákærða, Guðrúnar Bjargar Lúðvíksdóttur.  Hún sagði fyrir dómi að hún hefði leyft ákærða að skrá bifreiðar á sitt nafn og því hafi hún skrifað undir skuldabréf vegna bílalána.  Þetta hafi hún gert fyrir bróður sinn.  Hún kvaðst hafa vitað að ákærði stundaði það að kaupa tjónabíla og gera upp og selja.  Hún kvaðst ekki hafa spurt neitt um þá bíla sem hún var skráð fyrir. 

Þá voru leidd sem vitni fimm starfsmenn Sjóvár-Almennra og Vátrygginga­félags Íslands.  Lýstu starfsmennirnir almennu reglunum sem farið er eftir við lán­veitingar til bifreiðakaupa.  Enginn þeirra mundi sérstaklega eftir þeim tilvikum sem ákært er fyrir í málinu, með einni undantekningu er síðar getur, en gátu skýrt skjöl málsins að nokkru leyti.  Bæði félögin gera það að skilyrði að viðkomandi bifreið sé kaskótryggð hjá félaginu.  Töldu starfsmennirnir að ekki væri hægt að fá kaskó­tryggingu nema sýna bifreiðina, en jafnframt væri treyst upplýsingum bílasala. 

Ákærði bar að hann hefði yfirleitt fengið bíla kaskótryggða með einu símtali og ekki sýnt neinn bíl. 

A.       Ákæra 16. janúar 2001.

Liður I.

Þennan lið játar ákærði.  Hann lýsir því að hann hafi verið í sambandi við starfsmann Samvinnusjóðs Íslands og rætt við hann um hugsanlegan veðflutning, því umrædd bifreið hafi alls ekki staðið undir láninu.  Þetta hafi verið ónýt bifreið.  Hann hafi notað hluti úr henni.  Hann kveðst hafa greitt þetta lán að fullu og lagði hann fram gögn því til stuðnings.  Samkvæmt þeim var skuldin gerð upp í febrúar 2001.

Vitni voru ekki leidd um þennan lið.  Ákærði hefur með því að rífa bifreiðina, vitandi það að hún var veðsett til tryggingar skuld að fjárhæð tæplega ein og hálf milljón króna, brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru segir.  Greiðsla á skuldinni síðar breytir þessu ekki.  Líta ber til þess við ákvörðun refsingar hins vegar, að umræddur kröfuhafi hafði sennilega ekki fulla tryggingu fyrir kröfu sinni með veði í bifreiðinni og að ákærði hefur síðar greitt kröfuna að fullu. 

 

Liður II.

Hér er um að ræða tilkynningu um eigendaskipti og skuldabréf með veði í bifreið.  Tilkynningin var afhent Skráningarstofunni þann 26. febrúar 1999, en skuldabréfið var afhent til þinglýsingar á skrifstofu Sýslumannsins í Reykjavík 1. mars 1999. 

Er ákæran var borin undir ákærða fyrir dómi 3. apríl 2001 er bókað að hann gangist við sakargiftum þessum, með þeirri athugasemd að sonur Braga hafi falsað nafnritunina á tilkynningareyðublaðið óumbeðinn.  Við aðalmeðferð sagði ákærði að hann hefði talið sig hafa samþykki Braga fyrir undirrituninni á skuldabréfið, í gegnum son hans, Jón Þorberg. 

Jón Þorbergur Bragason staðfesti fyrir dómi að hann hefði skrifað nafn föður síns á umrædda tilkynningu.  Það hefði hann gert í greiðaskyni við ákærða, þetta hefði bara átt að standa í nokkra daga.  Hann hefði gert þetta að beiðni ákærða.  Ákærði hefði spurt hvort þetta væri ekki í lagi í nokkra daga og hann hefði þá ákveðið að skrifa nafn föður sins.  Hann hefði ekki rætt neitt við föður sinn um þetta.  Þá mundi hann ekki eftir því að faðir sinn ræddi eitthvað um þessi eigendaskipti, en hann hlyti að hafa fengið senda tilkynningu um skráningua.  Jón Þorbergur sagðist ekki hafa vitað um neitt skuldabréf. 

Bragi Björnsson sagði fyrir dómi að hann hefði ekki skrifað undir umrædd skjöl og ekki veitt leyfi til undirritunar þeirra.  Hann minntist þess ekki að hafa fengið tilkynningu um eigendaskipti senda í pósti, fyrsta sem hann myndi var að hafa fengið rukkun fyrir tryggingariðgjöldum.  Hann kvaðst aldrei hafa fengið senda rukkun fyrir bílaláninu. 

Með játningu ákærða er sannað að hann vissi að undirritun Braga Björnssonar á tilkynningu um eigendaskipti var fölsuð.  Hann hafði ekki forsendu til að halda að Jóni Þorbergi væri heimilt að undirrita skjalið.  Fullyrðingar hans um að þeir hefðu talið að þetta yrði í lagi duga ekki til að leysa hann undan sök.  Þá framvísaði ákærði umræddu skuldabréfi með falsaðri undirskrift Braga sem útgefanda á skrifstofu sýslumanns til þinglýsingar.  Skýringar hans á þessu eru heldur ekki haldbærar.  Verður ákærði sakfelldur fyrir brot þau sem lýst er í þessum lið og eru réttilega færð til refsiákvæðis. 

Liður III.

Ákærulið þennan, útgáfu fimm innistæðulausra tékka, játaði ákærði fyrir dómi.  Hann sagði að þeir hefðu allir verið afhentir með þeim fyrirvara að ekki mætti inn­leysa þá fyrr en hann samþykkti, en viðtakendur hafi vitað að þeir voru innistæðu­lausir.  Jónas Árni Lúðvíksson, bróðir ákærða, kom fyrir dóm.  Ekki er ástæða til að rekja framburð hans. 

Útgáfa ákærða á þessum fimm innistæðulausu tékkum varðar hann refsingu samkvæmt tékkalögum eins og segir í ákæru.  Fyrirvari um innlausn við afhendingu þeirra breytir ekki þeirri niðurstöðu.

B.       Ákæra 22. janúar 2002

Um gjaldfærni ákærða eru ekki fram komin nákvæm gögn.  Lausleg könnun lögreglu leiddi í ljós að hann virðist ekki eiga umtalsverðar eignir, en skuldar talsvert.  Fram kom í skýrslum ákærða að hann hafi ekki verið lánshæfur hjá trygginga­félögunum þar sem hann skuldaði félögunum umtalsvert fé vegna fyrri lánveitinga.  Kveðst hann hafa verið með talsvert af dýrum bílum.  Til tryggingar skuldum samkvæmt bréfunum, sem rakin verða hér á eftir, voru veð í tjónabílum, sem ákærði hafði fest kaup á í eigin nafni eða annarra og hugðist gera upp.  Ætlun hans var sú að söluverð bifreiðanna að viðgerð lokinni hrykki til að greiða upp lánin, þ.e. að kaupendur greiddu fyrir bifreiðarnar með yfirtöku lánanna.  Ekki er bersýnilegt að sú ráðagerð hans hafi verið óraunhæf.  Þó ætlun hans um viðgerð og að þá stæðu bílarnir undir láninu hafi ekki gengið eftir, er ekki unnt af því einu að draga þá ályktun að honum hafi hlotið að vera ljóst að svo færi.  Verður ekki talið að hann hafi gerst sekur um fjársvik með því einu að taka við fé og takast á hendur fjárskuldbindingar í nafni annarra.  Öðru máli gegnir um það hvort hann hafi með blekkingum látið veðsetja verðlitla tjónabíla til tryggingar skuldum sem námu mun hærri fjárhæð.  Í þeim tilvikum að sannað er að hann hagnýtir sé þá hugmynd lánveitanda að um sé að ræða venjulegan og óskemmdan bíl af umræddri gerð, eru með því framin fjársvik.  Verður nú farið yfir hvern lið ákærunnar fyrir sig. 

Liður 1.

Hér er ákærða gefið að sök að fá Vátryggingafélag Íslands hf. til að lána fé með veði í bifreið sem var fjarri því jafn mikils virði og lánsfjárhæðinni nam.  Viðskiptin voru gerð í nafni systur ákærða, Guðrúnar Lúðvíksdóttur.  Bifreiðin var keypt 6. nóvember fyrir 300.000 krónur, en skuldabréf var gefið út 9. desember að höfuðstól 948.637 krónur. 

Ákærði staðfesti fyrir dómi að hann hefði annast kaupin á þessari bifreið og lántöku hjá VÍS.  Hann hefði bæði sótt um lánið og kaskótryggingu í gegnum síma.  Hann hefði ekki verið spurður að því hvort þetta væri tjónabíll. 

Guðrún Lúðvíksdóttir, sem er systir ákærða, sagði fyrir dómi að hún hefði fjórum sinnum leyft ákærða að kaupa bifreiðar og veðsetja í sínu nafni.  Hún hefði vitað að hann stundaði viðskipti með tjónabíla.  Hún taldi sig ekki hafa verið svikna. 

Enginn starfsmaður Vátryggingafélags Íslands mundi sérstaklega eftir þessu tilviki. 

Ákærði bendir á að starfsmenn tryggingafélaganna hafi vitað að hann stundaði viðskipti með tjónabíla og því hafi þeir hlotið að vita að lánin voru veitt gegn veði í tjónabílum óháð því hvort viðgerð var lokið eða ekki.  Þessi mótbára er ekki haldbær, ákærði upplýsti lánveitendur sína aldrei um raunverulegt ástand bifreiðanna sem hann veðsetti.  Þá samdi hann um húftryggingu fyrir þær allar án þess að gera sérstaka athugasemd um ástand þeirra.  Að sönnu er óupplýst hvers vegna ákærða tókst að ná samningum um húftryggingu fyrir allar bifreiðarnar.  Ekki er sennilegt að hann hafi sýnt tjónabíla er frá tryggingum var gengið, en þar sem ákæran lýtur ekki að þeim viðskiptum beinlínis þarf ekki að leysa úr um þetta. 

Með því að láta veðsetja bifreið sem sennilega var ekki meira virði en þær 300.000 krónur sem greiddar höfðu verið fyrir hana hefur ákærði hagnýtt sér þá röngu hugmynd lánveitandans að bifreiðin væri í lagi og ekki mikið minna virði en óskemmdar bifreiðar sömu gerðar, til að fá lánaðar rúmlega 900.000 krónur.  Hlaut honum vera ljóst af langri reynslu sinni í slíkum viðskiptum með tjónabíla að ástand bifreiðarinnar skipti lánveitandann verulegu máli.  Hefur hann með þessu brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga.  Svikin beinast hins vegar einungis að Vátrygginga­félagi Íslands hf. 

Liður 2. 

Hér er ákært fyrir viðskipti sem ákærði átti í nafni Gunnars Valgeirs Reynissonar.  3. nóvember 1998 var bifreiðin UL-516, Daihatsu Terios, keypt af Sjóvá-Almennum fyrir 180.000 krónur.  Viku síðar var hún veðsett Vátryggingafélagi Íslands til tryggingar skuld að höfuðstól 1.267.761 krónu.  Árgerð bifreiðarinnar hefur misritast í ákæru, en bifreiðin er skráð árgerð 1998, en ekki 1988. 

Í skýrslu sinni fyrir dómi taldi Sólveig Birgisdóttir, þjónustufulltrúi hjá Vátryggingafélagi Íslands, sig muna eftir því að hafa skoðað þennan bíl hjá ákærða er gengið var frá kaskótryggingu á hann. 

Um þetta tilvik má að öðru leyti segja flest það sama og um lið 1 hér á undan.  Ákærði kannast við þessi viðskipti og gerir sama fyrirvara um vitneskju lánveitanda um starfsemi sína.  Gunnar Valgeir, sem er frændi ákærða, vissi til þess að ákærði stæði í viðskiptum með tjónabíla.  Hann heldur því fram um þetta tilvik að ákærði hafi skráð bifreiðina á sig án leyfis, en því neitar ákærði.  Verður að þessu virtu ekki talið sannað að ákærði hafi blekkt Gunnar í þessum viðskiptum svo varði hann refsingu.  Hins vegar hefur hann með launung blekkt starfsmenn Vátryggingafélags Íslands hf. til að veita sér lán gegn veði í bifreið sem var mun verðminni en lánveitandinn taldi.  Hefur hann með þessu brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga. 

Liður 3.

Hér er ákærða gefið að sök að hafa flutt veðlán að andvirði liðlega þrjár milljónir króna á bifreiðina LM-354, sem nokkru áður hafði verið flutt inn og þá verið metin til tollverðs á kr. 387.000.  Þessi viðskipti, innflutningur bifreiðarinnar og veðflutningur, voru gerð í nafni Vökvalagna, sem var einkafirma Gunnars Valgeirs Reynissonar.  Fyrir dómi reifuðu málflytjendur þennan lið með hliðsjón af því að brotið varðaði refsingu samkvæmt 261. gr. almennra hegningarlaga. 

Ákærði sagði fyrir dómi að þessa bifreið hafi hann keypt í Ameríku fyrir Gunnar Valgeir Reynisson, sem hefði flutt hana inn.  Hugmyndin hafi verið sú að búa til peninga handa föður hans með því að gera við og selja bílinn.  Ákærði sagði að hann hefði átt að gera við bílinn, en neitaði því að Gunnar Valgeir hefði verið búinn að vinna fyrir hann í staðinn.  Þar hafi verið um að ræða önnur viðskipti.  Ákærði kvaðst ekki hafa séð um veðsetningu á bifreiðinni, það hafi Gunnar Valgeir gert.  Hann hafi vitað að um tjónabíl var að ræða.  Ákærði kvaðst hafa fengið hluta af láninu, en það hafi verið endurgreiðsla til sín, en hann kveðst hafa lagt út fyrir bílnum í Ameríku.  Hann hafi ekki átt neinn þátt í veðflutningnum. 

Gunnar Valgeir Reynisson sagði fyrir dómi að hugmyndin hefði verið að afla peninga fyrir föður hans, Reyni Valgeirsson, þar sem hann var undir gjaldþrotaskiptum og hafði gengist undir nauðasamning.  Fluttir hefðu verið inn fjórir bílar í þessu skyni.  Bíll sá sem ræðir um í þessum ákærulið sagði Gunnar að hefði verið fluttur inn á sínu nafni. 

Gunnar staðfesti að hann hefði undirritað skjöl um veðflutning þennan 12. nóvember og þá hefði ekki verið búið að gera við bílinn.  Það hafi verið talað um að tímabært væri að flytja lánið á bílinn, það styttist í að hann yrði tilbúinn.  Ákærði hafi komið með skjölin til sín á Selfoss til undirritunar.  Ákærði hafi verið milligöngu­maður um kaup og innflutning á bílnum og hafi síðan átt að gera við hann.  Gunnar kvaðst hafa unnið mikið fyrir ákærða og þetta hafi átt að koma á móti. 

Fleiri vitni tjáðu sig ekki um þetta tilvik fyrir dómi.  Gegn neitun ákærða er ekki fram komið skýrlega hvort og þá hvern hlut hann átti að því að fá umrætt veð flutt á hinn mikið skemmda bíl.  Er því ekki fram komin sönnun þess að ákærði hafi beitt svikum eins og segir í þessum lið ákæru og verður hann sýknaður af honum. 

Liður 4. 

Hér er ákært vegna viðskipta í nafni Gunnars Valgeirs og föður ákærða, Lúðvíks Pers Jónassonar.  Þann 8. júní 1998 var bifreiðin VF-425 keypt af Sjóvá-Almennum hf. á 180.000 krónur, en þann 10. september 1998 var bifreiðin veðsett til tryggingar skuld að höfuðstól 1.738.119 krónur.  Af gögnum máls er ljóst að ekki var gert við bifreiðina. 

Ákærði játar að hafa átt þessi viðskipti, en gerir sömu athugasemdir og í öðrum tilvikum.  Verður þeim hafnað með þeim sömu rökum og rakin eru undir liðum 1 og 2. 

Brot ákærða samkvæmt þessum lið er réttilega fært til 248. gr. í ákæru.  Miða verður við að svik beinist að Sjóvá-Almennum hf., en ekki er forsenda til að telja svik gagnvart öðrum sönnuð. 

Liður 5. 

Hér er um að ræða veðsetningu bifreiðar, sem keypt var sama dag á 180.000 krónur, til tryggingar skuld að höfuðstól 1.567.835 krónur.  Þessi viðskipti voru gerð í nafni Gunnars Valgeirs og var bróðir Gunnars, Sigurgeir, sjálfskuldarábyrgðarmaður á skuldabréfinu. 

Ákærði játar að hafa átt þessi viðskipti.  Ekki er gerð önnur athugasemd um tilvikið en getið er um lið nr. 1 og verður henni hafnað hér með sömu rökum og þar greinir. 

Framburður Gunnars Valgeirs fyrir dómi um þetta tilvik er ekki afgerandi.  Hann virðist muna atvikið óljóst, vill meina að hann hafi talið að um heilan bíl væri að ræða, en ekki hræ.  Virðist annars ljóst af gögnum málsins að bifreið þessi var aldrei endurbyggð. 

Sigurgeir Reynisson gaf ekki skýrslu fyrir dómi. 

Með því að láta gefa út umrætt skuldabréf og afhenda Sjóvá-Almennum gegn greiðslu lánsfjárhæðarinnar hefur ákærði gerst sekur um fjársvik.  Ekki er forsenda til að telja sannað að ákærði hafi svikið Gunnar Valgeir og Sigurgeir Reynissyni í þessu tilviki.  Brot ákærða samkvæmt þessum lið er réttilega fært til 248. gr. í ákæru. 

Liður 6. 

Hér er um að ræða viðskipti sem fóru fram í nafni Gunnars Valgeirs og Guðrúnar Lúðvíksdóttur.  Bifreið var keypt fyrir 840.000 krónur 6. ágúst 1998 og veðsett Sjóvá-Almennum tveimur vikum síðar til tryggingar skuld að höfuðstól 2.480.425 krónur. 

Gunnar Valgeir kvaðst ekki hafa vitað af þessum bíl fyrr en hann fékk tilkynningu frá Skráningarstofu.  Hann hafi þá strax haft samband við ákærða.  Hafi hann síðan undirritað tilkynningu um eigendaskipti til systur ákærða. 

Ákærði kvað þessar skýringar Gunnars rangar.  Hann taldi að bíllinn hefði á sínum tíma verið greiddur með ávísun frá föður Gunnars.  Annars játaði ákærði verknaðarlýsingu ákæru. 

Með því að láta gefa út umrætt skuldabréf og afhenda Sjóvá-Almennum gegn greiðslu lánsfjárhæðarinnar hefur ákærði gerst sekur um fjársvik.  Ekki er forsenda til að telja sannað að ákærði hafi svikið Gunnar Valgeir Reynisson og Guðrúnu Björgu Lúðvíksdóttur í þessu tilviki.  Brot ákærða samkvæmt þessum lið er réttilega fært til 248. gr. í ákæru. 

Liður 7.

Viðskipti sem hér um ræðir voru gerð í nafni systur ákærða, Guðrúnar.  Þann 28. desember var keypt bifreið af Vátryggingafélagi Íslands hf. fyrir 207.000 krónur, en veðsett tveimur dögum síðar til tryggingar skuld að höfuðstól 607.887 krónur.  Gunnar Valgeir Reynisson er sjálfskuldarábyrgðarmaður á skuldabréfinu. 

Ákærði bar um þennan bíl að hann hefði byrjað strax að gera við bílinn, en viðgerð hefði ekki verið lokið þegar lánið var tekið. 

Áður er getið skýrslu Guðrúnar um viðskipti ákærða í hennar nafni. 

Gunnar Valgeir mundi ekki eftir þessu tilviki.  Hann þvertók ekki fyrir að hafa skrifað sjálfur undir skuldabréfið. 

Með því að láta gefa út umrætt skuldabréf og afhenda Sjóvá-Almennum gegn greiðslu lánsfjárhæðarinnar hefur ákærði gerst sekur um fjársvik.  Meta verður atvik svo að viðgerð hafi verið byrjuð og að verðmæti bifreiðarinnar hafi verið nokkuð aukið, en ekki er grundvöllur til að telja notkun skuldabréfsins refsilausa.  Ekki er forsenda til að telja sannað að ákærði hafi svikið Gunnar Valgeir Reynisson og Guðrúnu Björgu Lúðvíksdóttur í þessu tilviki.  Brot ákærða samkvæmt þessum lið er réttilega fært til 248. gr. í ákæru, en það beinist að Vátryggingafélagi Íslands hf. 

Viðurlög.

Ákærði sætti á árinu 1993 skilorðsbundinni refsingu vegna þjófnaðarbrots.  Hann stóðst skilorðið.  Hann er hér sakfelldur fyrir auðgunarbrot.  Ef dregið er frá kaupverð umræddra bifreiða er auðgun ákærða samt sem áður liðlega sex og hálf milljón króna, en þá er einnig litið fram hjá fyrsta ákærulið fyrri ákærunnar, þar sem auðgun ákærða er óviss.  Þá er hann að auki sakfelldur fyrir skjalafals þar sem fölsuð var undirritun undir skuldabréf að höfuðstól um ein milljón króna.  Rannsókn málsins tók nokkurn tíma, en ekki er að sjá að ákærði hafi tafið rannsóknina.  Refsing hans er ákveðin fangelsi í tólf mánuði.  Brot hans eru umfangsmeiri en svo að fært sé að skilorðsbinda refsinguna. 

Bótakröfur.

Vegna sakarefnis í fyrri ákæru eru hafðar uppi bótakröfur vegna hins falsaða skuldabréfs og þeirra innistæðulausu tékka sem taldir eru í III. lið ákærunnar.  Með brotum sínum hefur ákærði valdið þessum aðilum tjóni sem nemur annars vegar fjárhæð skuldabréfsins og hins vegar fjárhæð tékkanna.  Verða kröfur þessara aðila viðurkenndar eins og hér greinir. 

Vátryggingafélag Íslands hf. krefst bóta að fjárhæð 1.009.943 krónur, auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 26. febrúar 1999 til 2. maí sama ár,  kr. 14.442 og dráttarvaxta frá þeim degi til 3. október 2000 kr. 288.179.  Í kæru sinni krafðist félagið dráttarvaxta allt til greiðsludags, en sú krafa var ekki tekin upp í ákæru.  Verður krafan dæmd eins og hún birtist í ákærunni, en hún er samtals að fjárhæð  1.312.564 krónur. 

Straumver ehf. krefst bóta sem svara til fjárhæðar þriggja tékka, dráttarvaxta til 19. október 2000 og innheimtukostnaðar.  Fjárhæð innheimtukostnaðar er ekki rökstudd sérstaklega og má ákveða hann að meðtöldum virðisaukaskatti 40.000 krónur.  Verður krafan því dæmd með krónum 497.129.

Grétar Þórisson krefst bóta sem svara til tékkafjárhæðarinnar auk vaxta og kostnaðar.  Er krafan nægilega rökstudd og verður hún dæmd eins og í dómsorði greinir.  Verður þóknun vegna lögfræðiaðstoðar ákveðin 20.000 krónur og er þá virðisaukaskattur ekki innifalinn. 

Hífir ehf., krefst bóta sem svara til tékkafjárhæðarinnar auk vaxta og kostnaðar.  Verður krafa þessi dæmd, en hún er að fjárhæð 55.000 krónur auk innheimtukostnaðar, 19.088 krónur.

Í síðari ákærunni eru teknar upp bótakröfur Vátryggingafélags Íslands hf. og Sjóvár-Almennra trygginga hf. 

Vátryggingafélag Íslands hf. krefst hér annars vegar bóta að fjárhæð 948.637 krónur auk vaxta, hins vegar 1.250.834 krónur auk vaxta.  Kröfur þessar eru vegna svika sem ákærði beitti félagið og lýst er í ákæruliðum 1 og 2.  Verða kröfur þessar dæmdar með þeim vöxtum sem krafist er. 

Kröfur Sjóvár-Almennra trygginga hf. eru byggðar á fjárhæðum þeirra skuldabréfa sem gefin voru út að tilhlutan ákærða.  Auk þess er gerð krafa um endurgreiðslu kostnaðar eða þóknun vegna ýmissa innheimtu­aðgerða, sem ekki er studd frekari gögnum.  Um dráttarvexti er þar vísað til vaxtalaga nr. 38/2001 þó um sé að ræða tímabil sem að mestu fellur innan gildistíma laga nr. 25/1987.  Eru ekki uppfyllt skilyrði laga um meðferð einkamála um skýran málatilbúnað.  Verður ekki hjá því komist að vísa kröfum þessum frá dómi. 

 

Sakarkostnaður.

Ákærði er sakfelldur að miklu leyti í samræmi við ákæruskjöl.  Verður hann því dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Málsvarnarlaun verjanda hans eru ákveðin 325.000 krónur. 

Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Ákærði, Sigfinnur Þór Lúðvíksson, sæti fangelsi í tólf mánuði. 

Ákærði greiði Straumveri ehf. 497.129 krónur. 

Ákærði greiði Grétari Þórissyni 78.435 krónur með dráttarvöxtum frá 18. febrúar 2000 til greiðsludags og 20.000 krónur í lögfræðikostnað.  

Ákærði greiði Hífi ehf. 74.088 krónur. 

Ákærði greiði Vátryggingafélagi Íslands hf. 

a)        1.312.564 krónur.

b)       948.637 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. desember 1998 til 9.    janúar 1999, en dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. 

c)       1.250.834 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. janúar 1999 til 5.     febrúar 1999 en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. 

Skaðabótakröfu Sjóvár-Almennra trygginga hf. er vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Sveins Andra Sveinssonar, hæstaréttarlögmanns, 325.000 krónur.