Hæstiréttur íslands

Mál nr. 313/2003


Lykilorð

  • Kynferðisbrot


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2003.

Nr. 313/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kynferðisbrot.

Í héraðsdómi var X sýknaður af ákæru um nauðgun. Byggði niðurstaða dómsins, sem skipaður var þremur héraðsdómurum, einkum á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Var talið að þó að ákæruvaldið hafi bent á nokkurn veikleika í mati héraðsdómara á framburði kæranda yrði ekki sagt að líkur væru komnar fram fyrir því að niðurstaða dómsins kynni að vera röng svo nokkru skipti og þar sem önnur gögn málsins töldust ekki veita óræka sönnun fyrir sekt X var niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. ágúst 2003 af hálfu ákæruvaldsins einvörðungu að því er varðar efni ákæru 14. febrúar 2003. Ákæruvaldið krefst sakfellingar og refsiákvörðunar.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Þar eru rakin helstu atriði skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á kæranda, sem fram fór á neyðarmóttöku, ásamt frásögn hennar þar af atburðum og lýsingu á sjáanlegum áverkum. Fyrir Hæstarétti er af hálfu ákæruvaldsins sérstaklega vísað til dómsframburðar læknis þess sem gerði skýrsluna um hvernig hún sé unnin. Er andmælt ályktun héraðsdóms um ósamræmi í frásögn kæranda af atvikum málsins sem meðal annars sé dregin af frumskýrslu hennar hjá lögreglu og skýrslu læknisins af frásögn hennar. Bent er á að hún hafi ekki haft tækifæri til að staðfesta orðalag þessara skýrslna. Fallast má á það að þessar skýrslur séu ekki til þess fallnar að reisa á þeim niðurstöðu um ósamræmi í framburði, sbr. og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þótt þær geti að einhverju leyti verið hafðar til hliðjónar við það mat. Hins vegar verður ekki séð að dómurinn, sem skipaður var þremur héraðsdómurum, hafi metið sönnunargildi framburðar brotaþola eingöngu út frá þessum gögnum heldur fremur af framburði hennar fyrir dómi.

 Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, endurmetur Hæstiréttur ekki niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar sem þar er gefinn fyrir dómi. Þótt ákæruvaldið hafi svo sem að framan greinir bent á  nokkurn veikleika í mati héraðsdóms á framburði kæranda verður ekki sagt að fram séu komnar líkur fyrir því að niðurstaða dómsins að þessu leyti kunni að vera röng svo að einhverju skipti þannig að fella beri hann úr gildi, sbr. 5. mgr. sama ákvæðis. Önnur gögn málsins veita ekki óræka sönnun fyrir sekt ákærða og ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu hans af kröfum ákæruvaldsins, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2003.

                Málið er höfðað með tveimur ákærum ríkissaksóknara útgefnum 14. febrúar og 27. mars 2003 á hendur ákærða, X, fæddum 1975, til refsingar fyrir brot á 194. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992, sem hér segir: 

Með fyrri ákærunni er kveðið á um málshöfðun á hendur ákærða „fyrir nauðgun, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 8. september 2002, í kjallara­herbergi ákærða að A-götu, Keflavík, með ofbeldi og hótunum um ofbeldi þröngvað Y, til holdlegs samræðis.“

Með seinni ákærunni er málið höfðað á hendur ákærða [...]

Í málinu krefst Y, fædd 1958, miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 8. september 2002 til 14. apríl 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

[...]

                Ákærði krefst sýknu af refsikröfu ákæruvalds og frávísunar á bótakröfum.

I.

Ákæra útgefin 14. febrúar 2003.

1.

Að kvöldi laugardagsins 7. september 2002 var Y, ætlaður brotaþoli í málinu, að skemmta sér ásamt eiginmanni sínum.  Þau voru bæði við skál.  Að sögn Y mun eiginmaður hennar hafa sofnað á heimili þeirra og hún farið ásamt sameiginlegum vini þeirra á veitingastaðinn S í H-bæ.  Á leiðinni hefðu þau drukkið saman úr einum pela af blönduðu sterku áfengi og Y í framhaldi drukkið eina áfengisblöndu inni á veitingastaðnum.  Eftir lokun staðarins klukkan 03 um nóttina hefði hún hitt vinkonu sína og farið með henni á veitinga­­staðinn C í I-bæ.  Á leiðinni þangað hefði hún neytt meira áfengis.  Y mun síðan hafa orðið viðskila við vinkonu sína inni á veitingastaðnum og ekki fundið hana fyrir utan staðinn.  Hún hefði því gengið í átt að lögreglustöð bæjarins, sem er í húsinu nr. [..] við [götu], en þar hugðist Y biðja um far heim til sín.  Á leiðinni hefði hún hitt ungan mann, ákærða í málinu, sem hefði tekið hana tali og hún sagt honum hvert för hennar væri heitið.  Að sögn Y fann hún vel til áfengis­áhrifa á þeim tímapunkti. 

J lögreglumaður í I-bæ var á leið til vinnu sinnar um klukkan 07 um morguninn er hann sá ákærða og Y ganga eftir [götu].  Jón bar fyrir dómi að göngulag þeirra beggja hefði bent til mikillar ölvunar.  Hann hefði verið í 2-300 metra fjarlægð frá fólkinu þegar það hefði numið staðar við [...] og farið að ræða saman.  Y hefði legið hátt rómurinn, hún verið snöktandi og baðað út handleggjunum þegar hún talaði.  Á meðan hefði ákærði haldið yfir öxl hennar.  J bar að honum hefði ekki fundist neitt óeðlilegt við samskipti þeirra og því ekki talið ástæðu til afskipta af þeim.  Um það bil tveimur klukkustundum síðar hefði Y komið inn á lögreglustöðina og kært ákærða fyrir kyn­ferðisbrot.

Fyrir dómi mundu ákærði og Y óljóst eftir því að hafa numið staðar við [...], en umrætt fjöleignarhús stendur [...].  Þeim bar saman um að ákærði hefði boðið henni heim til sín og sagst geta hringt þaðan í kunningja sinn, sem myndi aka henni til H.  Er óumdeilt að þau hafi í fram­haldi gengið að fjöleignarhúsinu nr. [...], sem stendur [...], en þar leigði ákærði eitt herbergi í kjallara hússins.

Samkvæmt skýrslum K rannsóknarlögreglumanns er umrætt fjöleignarhús á þremur hæðum, auk kjallara.  Gengið er upp tröppur inn í and­dyri hússins og þaðan um dyr inn á stigagang.  Frá stiga­palli eru tröppur niður í kjallara.  Þar eru dyr inn á herbergisgang, þar sem ákærði leigði eitt herbergi af sex á greindum tíma.  Umrætt herbergi er fremst á ganginum, við dyrnar, en innst á ganginum er salerni, sem er sameiginlegt fyrir öll herbergin.  Salernið er gluggalaust.  Við skoðun í herbergi ákærða 8. september 2002 sáust ekki merki um átök.  Í her­berginu var borð, stóll og skápur og einbreitt rúm, óumbúið.  Við vettvangsskoðun 26. maí 2003 var sérstaklega kannað hversu hljóðbært væri á milli herbergja á ganginum og bar K fyrir dómi að heyra mætti háværar raddir milli herbergjanna, en þó ekki orðaskil.  Að sögn K mun hafa verið algengt að ungt fólk leigði her­bergin í kjallaranum og hafi mikil óregla og ónæði fylgt leigjendunum.

2.

Ákærði greindi frá því fyrir dómi að hann hefði boðið Y heim til sín og sagst geta hringt þaðan og útvegað henni far.  Þau hefðu síðan farið inn í herbergi hans í kjallara fjöleignarhússins og sest á rúmið.  Þar hefðu þau látið vel hvort að öðru og hann suðað í henni og beitt hana fortölum þar til hún hefði gefið eftir og leyft honum að hafa við hana samfarir.  Ákærði kvaðst á engum tímapunkti hafa beitt hana ofbeldi eða ógnað henni á nokkurn hátt í því skyni að fá hana til við sig og hefði henni verið frjálst að fara hvenær sem hún vildi.  Hann viðurkenndi að hafa logið að Y að hann hefði hringt í kunningja sinn, sem myndi aka henni heim og sagðist ekki hafa verið með neinn síma í herberginu.  Jafnframt kvaðst hann frá upphafi kynna þeirra Y hafa haft í huga að reyna að fá hana til kynmaka.  Ákærði lýsti samförum þeirra nánar á þann veg að þau hefðu byrjað að kyssast og hann kelað við Y og þuklað á henni utan klæða.  Hún hefði í fyrstu ýtt hendi hans frá, en hann ekki gefið sig og haldið áfram að káfa á henni.  Hann hefði meðal annars reynt að setja aðra höndina ofan í buxur hennar og hún þá sagt „ekki“.  Hann hefði þá dregið höndina til baka, en engu að síður haldið áfram að gæla við hana og þrábeðið hana um að afklæðast og hafa við hann samfarir.  Á endanum hefði hún gefið eftir og þau haft „venjulegar“ samfarir í rúminu, þar sem Y hefði legið á bakinu og hann ofan á henni.  Til að hefja samfarirnar hefði hann lyft fótleggjum Y upp með síðum hennar og haldið þeim í þeirri stöðu meðan á samförunum stóð.  Að sögn ákærða hefði hann á einhverjum tímapunkti rofið samfarirnar, reist sig upp og beðið Y að snúa sér við í rúminu þannig að hann gæti tekið hana aftan frá.  Hún hefði ekki viljað gera það og því hefðu þau haldið samförunum áfram í fyrri stellingu.  Ákærði kvað Y aldrei hafa kveinkað sér meðan á samförunum stóð og sagðist einnig hafa sleikt kynfæri hennar nokkrum sinnum í atlotum þeirra og hún notið þeirra munn­­­gæla.  Ákærði kvaðst telja að samfarir þeirra hefðu staðið yfir í 30-40 mínútur og að fljótlega eftir að þeim lauk hefðu þau klætt sig og farið saman út úr húsinu.  Y hefði verið hin rólegasta og hann smellt kossi á kinn hennar að skilnaði og bent henni á að fara á lögreglustöðina og biðja um far.  Ákærði hélt því stað­fastlega fram að hann hefði aldrei ógnað Y og ekki þröngvað henni til sam­faranna.  Hún hefði í eitt skipti þurft að fara á salernið og hann beðið inni í herberginu á meðan.  Á þeirri stundu hefði hún hæglega getað farið burt, hefði hún viljað.  Ákærði sagði að þau hefðu bæði verið með áfengisáhrifum umrætt sinn, en kvaðst sjálfur muna vel eftir málsatvikum.  Hann kvaðst hafa frétt af því í kringum hádegi sama dag að lög­reglan í Keflavík væri að leita að honum, hann þá hringt í lögregluna og í framhaldi gefið skýrslu vegna málsins.

K rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi að ákærði hefði haft samband við lögreglu á hádegi og verið yfirheyrður um málsatvik sama dag.  Að sögn K hefði ákærði ekki óskað eftir skipun verjanda, hann verið rólegur og samvinnuþýður við skýrslu­­tökuna og greinargóður í frásögn sinni.  Hann hefði gengist greiðlega við því að hafa haft samfarir við Y og kvaðst K hafa haft á tilfinningunni að ákærði hefði ekki séð neitt athugavert við fram­komu sína gagnvart konunni og verið sáttur við það að hafa fengið hana til lags við sig.  Ákærði hefði heimilað húsleit í herbergi sínu að honum fjar­stöddum, en hann hefði verið tímabundinn og verið að fara á sjó.  J lögreglumaður tók í sama streng í vitnisburði sínum fyrir dómi, en J var við­­staddur nefnda yfir­heyrslu og vottaði undirritun ákærða á fram­burðar­skýrsluna.  Að sögn J hefði ákærði ekki virst hafa neitt að fela í frásögn sinni um atburði næturinnar.

3.

L lögreglumaður tók á móti Y í anddyri lögreglu­stöðvarinnar í I.  L bar fyrir dómi að Y hefði verið grátbólgin og sagt frá því að sér hefði verið nauðgað og hún nefnt ákærða á nafn og heimilisfang hans.  Að sögn L hefði hann ekki rætt frekar við Y heldur vísað henni inn í varð­stjóra­herbergi til viðræðna við M lögreglumann.  M bar fyrir dómi að hún hefði rætt einslega við Y og fengið hjá henni lýsingu á atburðum næturinnar.  Fram hefði komið að Y hefði hitt ákærða um nóttina og hann boðist til að hringja heiman frá sér í kunningja sinn, sem myndi aka Y heim.  Hún hefði síðan beðið á einhverjum gangi eða í herbergi ákærða og hann í kjöl­farið sagst vera búinn að hringja.  Y hefði svo viljað bíða fyrir utan, en ákærði þá læst hurðinni að herbergi sínu, tekið Y kverkataki með báðum höndum og þrýst henni ofan á rúm í herberginu.  M bar að hún hefði ekki spurt Y nánar út í eftirfarandi atburði, en hún svarað því játandi að ákærði hefði náð að þröngva fram vilja sínum.  Einnig hefði komið fram hjá Y að hún hefði verið svo hrædd að hún hefði ekki þorað að veita neina mótspyrnu.  Af frásögn hennar hefði mátt ráða að ákærði hefði ekki beitt hana frekara ofbeldi.  Y hefði greint frá því að hún hefði reynt að sleppa undan ákærða með því að biðja um að fá að fara á salerni, en ákærði ekki leyft henni það fyrr en allt hefði verið yfirstaðið.  Hún hefði þá komist út úr húsinu og gengið að lögreglustöðinni, sem M kvað vera [...].  M bar að Y hefði verið skýrmælt og greinargóð í frásögn sinni.  Hún hefði verið útgrátin við komu á lögreglustöðina og farið fljótlega að gráta þegar hún greindi frá atvikum.  Á meðan hefði Y setið í hnipri á stól og ruggað sér fram og til baka.  Örlítinn áfengiskeim hefði lagt frá vitum hennar.  M ritaði frumskýrslu lögreglu vegna málsins, þar sem framangreind atvika­lýsing kemur einnig fram.

Samkvæmt gögnum málsins kom Y á neyðarmóttöku Landspítalans klukkan 11:00 að morgni 8. september.  Þar ræddi hún við Arnar Hauksson kven­sjúk­dóma­lækni, sem skráði eftir henni frásögn af atburðum næturinnar.  Arnar bar fyrir dómi að Y hefði grátið meðan á samtalinu stóð, hún verið í losti og greinilega liðið afar illa.  Frásögn hennar hefði þó verið skýr miðað við aðstæður og hann skráð jafn­harðan eftir henni lýsingu á atburðum.  Í skýrslu Arnars um viðtalið við Y, sem ber heitið „Frásögn sjúklings“, er meðal annars haft eftir Y að hún hefði hitt ákærða á gangi og hann boðist til að útvega henni far heim.  Ákærði hefði í fram­haldi farið afsíðis og síðan sagst hafa hringt í kunningja sinn, sem myndi aka henni heim.  Því næst hefði hann boðið henni heim til sín og þau farið inn í fjöl­eignar­hús [...].  Þar hefðu þau farið inn í herbergi ákærða í kjallara hússins og hann sagt að kunninginn myndi banka á glugga þegar hann kæmi.  Ákærði hefði því næst kveikt sér í hasspípu, en Y sagt að hann skyldi ekki reykja hass í návist hennar.  Við þetta hefði ákærði snögg reiðst, „grýtt“ henni upp í rúm, tekið um háls hennar með báðum höndum og því næst reynt að rífa buxurnar af henni með annarri hendi.  Að sögn Y hefði hún streist á móti, en hann þá sagt henni að ef hún gerði það myndi hann drepa hana.  Við þetta hefði hún stirðnað upp og orðið svo hrædd að hún hefði látið undan og vonað að hann yrði bara fljótur að ljúka sér af.  Ákærði hefði hins vegar verið lengi að og allan tímann sagt „þér finnst þetta gott, þér finnst þetta gott“.  Þá hefði hann ítrekað reynt að snúa henni við, en hún óttast slíkt enn meira þar sem [...].  Ákærði hefði loks hætt, lagst á bakið og sagt „o, þetta er svo gott.“  Að sögn Y hefði hún haldið að honum hefði ekki orðið sáðlát og hún hugsað hvernig hún gæti komist í burtu.  Hún hefði því ákveðið að þýðast hann sem vin­kona og spurt hvort hún mætti ekki skreppa á salernið.  Ákærði hefði meinað henni það í fyrstu, en að lokum látið undan, en fylgst með henni og staðið við dyrnar á meðan.  Hún hefði síðan haldið áfram að þykjast vera vinkona hans, kysst hann á kinnina og spurt hvenær þau ættu að hittast næst.  Eftir þó nokkra stund hefði ákærði sannfærst um að hún hyggðist ekki kæra hann til lögreglu og hann þá viljað hafa sam­ræði að nýju, en hún verið því mótfallin og sagt að þau myndu bara hittast fljótlega aftur.  Ákærði hefði í framhaldi hleypt henni út úr húsinu og hún sagt að hún færi á lög­reglu­stöðina aðeins í því skyni að biðja um far heim.  Leiðir þeirra hefði skilið fyrir utan húsið og Y hlaupið inn á lögreglustöð og lagt fram kæru.  [...]  Af skýrslunni má ráða að hinn kærði atburður hafi átt sér stað á tímabilinu frá klukkan 05-07 um morguninn.

Í gögnum neyðarmóttökunnar er einnig skráð eftir Y að ákærði hefði haft kyn­mök við hana um leggöng, káfað á kynfærum hennar, brjóstum og rassi, sett fingur inn í leggöngin og sleikt kynfæri hennar.  Fram kemur að sæðisfrumur hafi ekki fundist við líkamsskoðun.  Mun síðari rannsókn á teknum sýnum hafa leitt sömu niðurstöðu í ljós.  Fyrir liggur að Y var ekki tekið blóð til alkóhólrannsóknar og hún ekki beðin um þvagsýni til slíkra rannsókna.  Í gögnunum kemur fram að Y hafi verið með einkenni áfallastreitu (kreppuviðbrögð), svo sem skjálfta, hraða öndun, hjartslátt og ógleði.  Þá hafi hún verið óttaslegin, grátið samfellt, hniprað sig saman og virst endur­lifa atburði næturinnar.  Við líkamsskoðun hafi fundist örlítill, rauðleitur blettur, vinstra megin á hálsi, sem Arnar Hauksson bar fyrir dómi að gæti hafa verið myndun á mar­bletti.  Þá hafi Y verið með örlitla rispu á hægri úlnlið og þrjá nýja, samstæða marbletti á vinstra læri; hver um það bil 1 cm að stærð, sem gætu hafa verið eftir fingur.  Henni mun hafa verið bent á að leita aftur til neyðarmóttökunnar ef fleiri áverkar kæmu fram á næstu dögum.

Samkvæmt endurkomuskýrslu neyðarmóttökunnar leitaði Y þangað aftur 7. apríl 2003.  Var þá meðal annars skráð eftir frásögn Y að henni liði enn illa og að hún fengi martraðir á hverri nóttu og færi helst ekki ein út úr húsi í H.  Líðan hennar hefði þó batnað.  Fram kemur í skýrslunni að Y hefði leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi í H.

4.

Y gaf tvívegis skýrslu vitnis hjá lögreglu, 10. september og 13. desember 2002.  Hún greindi frá því að hún hefði umrætt sinn hitt ákærða á förnum vegi og aðspurð sagt honum frá því að hún væri á leið á lögreglustöð til að biðja um far heim.  Ákærði hefði latt hana til fararinnar og sagst geta hringt í félaga sinn, sem myndi skutla henni.  Hún hefði því næst fylgt honum að fjöleignarhúsi og beðið fyrir utan húsið á meðan ákærði hefði farið eitthvert.  Hann hefði svo komið aftur, sagst vera búinn að hringja og stungið upp á því að hún biði í her­bergi hans í kjallara hússins, en þangað myndi félagi ákærða koma og banka á glugga.  Y hefði á þeim tímapunkti verið óhrædd við ákærða, enda litið á hann sem „krakka­kjána“, sem hefði getað verið sonur hennar og því hefði hún fylgt honum inn í húsið.  Þar hefði hún sest á rúm ákærða og beðið komu félaga hans.  Ákærði hefði síðan læst herbergishurðinni og hún þá fundið fyrir ótta og hugsað með sér að eitthvað væri ekki í lagi.  Ákærði hefði því næst sest við hlið hennar í rúminu og hún nokkrum mínútum síðar haft á orði, í örvæntingu sinni, að hún þyrfti að fara á salerni til að pissa, en eina hugsun hennar á þeirri stundu hefði verið að komast út úr húsinu.  Ákærði hefði svarað því til að hún þyrfti ekkert að pissa og hún myndi bara stinga af.  Að sögn Y hefði hún aftekið slíkt með öllu, sagst ætla að bíða eftir félaga hans og í framhaldi reynt nokkrum sinnum að rísa á fætur og beðið um að fá að fara að pissa.  Ákærði hefði hins vegar dregið hana niður á rúmið jafnóðum og að lokum kýlt hana í bringuna, undir bringspalir og sagt „þú ferð ekkert að pissa“.  Við höggið hefði hún fallið aftur fyrir sig í rúminu, ákærði lagst ofan á hana og sagt henni að þegja, ellegar myndi hann drepa hana.  Jafnframt hefði hann sagst ætla að „ríða“ henni.  Hún hefði beðið hann um að gera ekkert slíkt og reynt að snúa sér frá honum, en þá hefði ákærði togað í hár hennar, haldið öðrum framhandlegg sínum að hálsi hennar og byrjað að draga niður buxur hennar með hinni hendinni.  Í kjölfarið hefði hún ætlað að öskra, en ákærði þá tekið fyrir munn hennar og sagt „viltu að ég berji þig, ég lem þig ef þú þegir ekki.“  Að sögn Y hefði hún á þeim tímapunkti byrjað að gráta og beðist vægðar, en ákærði orðið enn verri og trylltari fyrir vikið og skipað henni að segja að henni fyndist þetta gott.  Hann hefði í framhaldi náð að draga buxur hennar og nær­buxur niður á ökkla, því næst opnað fyrir buxnaklauf sína og rekið lim sinn inn í leg­göng hennar.  Vegna mótspyrnu hennar hefði ákærði þó ekki náð að setja liminn almenni­lega inn í hana og því reynt að hagræða sér betur og farið með aðra hönd sína inn í leggöngin.  Hún hefði kveinkað sér við þetta og reynt að ýta hendinni frá, en ákærði þá haft á orði hvort hún væri ein af þeim, sem vildi hörku.  Í framhaldi hefði hann rifið í hár hennar og einhvern veginn náð að ýta fótum hennar upp þannig að hné hennar hefðu numið við enni.  Í þeirri stöðu hefði hann rekið lim sinn harkalega inn í leggöng hennar, viðhaft samfarahreyfingar og klifað á því aftur og aftur „segðu að þér finnist þetta gott“.  Að sögn Y hefði hún nánast ekkert getað hreyft sig í nefndri stellingu og átt erfitt með að anda eðlilega.  [...].  Eftir því sem hún hefði streist meira á móti hefði hann hins vegar orðið harka­legri í athöfnum sínum.  Y kvaðst halda að ákærði hefði haldið uppteknum hætti í 10-15 mínútur, en á meðan hefði svitinn bogað af honum, svo harkalegar hefðu sam­ræðishreyfingar hans verið.  Á meðan hefði hana verkjað í allan líkamann og hún haft þá hugsun eina í kollinum að láta athæfi ákærða ganga yfir sig og komast lífs undan honum.  Y kvaðst halda að ákærði hefði ekki verið búinn að fella til hennar sæði þegar hann hefði hætt samræðinu, lagst við hlið hennar í rúminu og haldið henni niðri með annarri hönd sinni.  Hann hefði í fram­haldi vakið máls á því að hún hefði viljað þetta og spurt hvort þau ættu að endur­taka þetta.  Hún hefði svarað því neitandi og samþykkt þess í stað, til að halda ákærða góðum, að hitta hann aftur síðar.  Ákærði hefði síðan leyft henni að fara á salernið og beðið fyrir utan.  Þegar þau hefðu svo verið komin út fyrir húsið hefði ákærði spurt hvort hún myndi nokkuð kæra hann, hún lofað að gera það ekki og sannfært hann um það, en því næst farið rakleiðis á lög­reglu­stöðina eftir að leiðir þeirra hefðu skilið.  Y kvaðst ekki átta sig vel á tíma­setningum, en taldi að hún hefði verið í 60-90 mínútur inni í her­bergi ákærða.  Hún kvaðst ekki muna hvenær í atburðarásinni ákærði hefði ætlað að reykja hass og boðið henni að taka þátt í reykingunum, sem hún hefði hafnað.        

Fyrir dómi bar Y á sama veg og áður um að hún hefði hitt ákærða á leið sinni á lögreglustöðina í I og þekkst boð hans um að hringja í félaga sinn, sem myndi aka henni til H.  Ákærði hefði sagt að þetta væri ekkert mál og því hefði hún látið tilleiðast og fylgt honum eftir, enda ekki haft minnstu áhyggjur á þeim tímapunkti og litið á ákærða sem hvern annan „krakka“.  Þegar þau hefðu komið að umræddu fjöleignarhúsi hefði hún í fyrstu viljað bíða úti á meðan hann færi inn og hringdi í félaga sinn, en ákærði sagt að það væri of kalt og hún því ákveðið að bíða í anddyri hússins.  Ákærði hefði farið upp stigaganginn, komið til baka skömmu síðar og sagst vera búinn að hringja úr íbúð foreldra sinna, sem byggju á einhverri hæðinni fyrir ofan.  Hann hefði síðan talið hana á að bíða niðri í kjallara, í herbergi sem hann hefði þar til umráða, en félagi hans myndi svo banka þar á glugga þegar hann kæmi.  Þegar þau hefðu komið inn í herbergið hefðu þau sest á rúm ákærða og talað saman um stund.  Á þeim tíma hefði ákærði ekki sýnt henni minnstu ástleitni.  Um 15-20 mínútum síðar hefði hún farið að ókyrrast og haft á orði að félagi hans myndi ekkert koma.  Við þetta hefði ákærði orðið reiður.  Hún hefði síðan ætlað að rísa á fætur, sagst þurfa á salerni og spurt hvar það væri, þegar ákærði hefði sagt „þú ferð ekki neitt“.  Hún hefði síðan gert aðra tilraun til að standa á fætur og sagst þurfa að pissa, en þá hefði ákærði ýtt henni niður á rúmið með því að þrýsta á bringu hennar og sagt „þú ferð ekki neitt, ég ætla að ríða þér“.  Að sögn Y hefði hún aftekið slíkt, en á sama tíma orðið verulega hrædd og fundist framkoma ákærða hafa breyst mikið til hins verra.  Hún kvaðst í skelfingu sinni hafa minnst svipaðrar aðstöðu úr æsku, þegar henni hefði verið nauðgað og ákveðið að streitast sem minnst á móti, enda hefði hún talið að hún hefði hvort sem er ekki roð við ákærða, þar sem hún væri 75% öryrki eftir umferðar­slys.  Y kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað síðan hefði gerst, en ákærði hefði verið kominn ofan á hana og verið að reyna að klæða hana úr fötunum.  Á meðan á því stóð hefði hún byrjað að gráta og beðið hann um að nauðga henni ekki.  Ákærði hefði þá sagt henni að þegja og hótað að drepa hana ella.  Að sögn Y hefði hún ákveðið að láta þetta yfir sig ganga og hugsað um það eitt að lifa af.  Ákærði hefði síðan náð að draga buxur hennar og nærbuxur niður á ökkla, en á meðan hefði hann þrýst á háls hennar með öðrum fram­handlegg sínum.  Því næst hefði hann keyrt fót­leggi hennar upp undir enni, þröngvað lim sínum inn í leg­göng hennar og hafið samræðis­hreyfingar.  Meðan á þeim stóð hefði hann ítrekað sagt við hana „segðu að þetta sé gott“.  Milli táranna hefði henni tví­vegis orðið það á að horfa í andlit hans og hann þá skipað henni að horfa ekki á hann og því næst reynt að snúa henni yfir á magann.  Í þeirri viðleitni hefði ákærði tekið með annarri hendi um háls hennar, en hún streist á móti og hann því ekki náð að koma henni yfir á magann.  Á þeim tímapunkti hefði hún hugleitt hvort ákærði væri hneigður til beggja kynja og hyggðist einnig nauðga henni í endaþarm, en við þá til­hugsun hefði skelfing hennar orðið enn meiri.  Þegar ákærði hefði verið búinn að fá nóg hefði hann lagst við hlið hennar og haldið henni niðri svo að hún kæmist ekki fram úr rúminu.  Hann hefði síðan spurt hvort þau ættu að halda samræðinu áfram og hún þá reynt að tala hann til og stungið upp á því að myndu frekar hittast aftur síðar þegar þau væru ekki undir áhrifum áfengis.  Ákærði hefði að lokum trúað því að henni væri alvara með því boði.  Þau hefðu síðan farið saman út úr húsinu og ákærði smellt kossi á kinn hennar, eftir að hún hefði fullvissað hann um að hún hyggðist ekki kæra hann.  Við það hefði hann róast og þau gengið sitt í hvora áttina. 

Fyrir dómi dró Y ekki dul á að hún hefði verið verulega ölvuð umrædda nótt, en kvaðst engu að síður muna vel eftir því sem gerst hefði í herbergi ákærða.  Aðspurð um misræmi í fyrstu frásögn hennar, bæði hjá lög­reglu og á neyðarmóttöku Land­spítalans, um það hvernig ákærði hefði tekið hana kverkataki með báðum höndum, kvaðst Y ekki muna eftir að hafa greint frá slíku og sagði ákærða hafa tekið um háls hennar með annarri hendi, þrengt að öndunarvegi hennar og haldið henni niðri með framhandlegg á meðan hann hefði legið ofan á henni og dregið buxur hennar niður á ökkla.  Þar hefðu þær haldist vegna þess að hún hefði verið í skóm.  Þá áréttaði Y að ákærði hefði kýlt hana í bringuna í upphafi atlögunnar og haldið henni niðri með því að toga í hár hennar.  Hún hefði í fyrstu streist á móti, reynt að sparka og ýta honum af sér og sagt að hún vildi þetta ekki, en þá hefði hann aðeins tekið fastar á henni og viðhaft meiri hörku í samræðishreyfingum.  Y kvaðst ekki minnast þess að ákærði hefði sleikt kynfæri hennar meðan á þessu hefði staðið.  Í lok skýrslugjafarinnar kom fram hjá Y að ákærði hefði leyft henni að fara á salerni eftir að hún hefði fyrst vakið máls á því að hún þyrfti að pissa, en á meðan hefði ákærði staðið á herbergisganginum og fylgst með henni og hún því ekki getað flúið út úr húsinu, eins og hún hefði haft í huga.  Að sögn Y hefði því ekki verið annað í stöðunni en að fara aftur inn í herbergi hans.  Í framhaldi af því hefði ákærði fyrst læst hurðinni og í kjölfarið kýlt hana í bringuna og nauðgað henni, eftir að hún hefði lýst efasemdum sínum um að félagi hans væri á leiðinni.  Þegar ákærði hefði verið búinn að ljúka sér af hefði hún svo farið aftur á salernið og kastað upp.

5.

Y hefur verið í viðtalsmeðferð í H hjá N sál­fræðingi frá 6. janúar 2003.  N bar fyrir dómi að Y hefði leitað til hennar í kjöl­far ætlaðs kynferðisbrots og sótt alls 15 við­tals­tíma fram til 26. maí.  Meðferðin væri enn í gangi.  Að sögn N hefði meðferðin ekki einskorðast við ætlað brot ákærða og afleiðingar þess, heldur miðast við heildstæða skoðun á lífi Y, [...].  Núverandi eiginmaður Y hefði tekið þátt í meðferðinni og sýnt henni mikinn skilning, en á tímabili hefði Y óttast að til skilnaðar kæmi, þar sem erfiðleikar hefðu skapast í sambúð þeirra hjóna.  Meðferðarvinnan hefði þannig beinst að læknandi ferli, þar sem áhersla væri lögð á uppbyggingu og styrkleika Y.  Þá vinnu hefði Y unnið af einurð og ákveðni.  N staðfesti fyrir dómi álits­gerð sína vegna málsins, en þar kemur meðal annars fram að Y hafi greint frá því að hún ætti við svefntruflanir og einbeitingar­erfið­leika að stríða í kjölfar ætlaðs brots og hún upplifað vanmætti, þreytu og óþægilegar minningar tengdar háttsemi ákærða, sem hún hafi talið hafa ógnað lífi hennar.  Þá hafi í viðtölum við Y komið fram brestir í grund­vallar­trausti gagnvart öðru fólki og hrikt í stoðum sjálfsvirðingar hennar.  Einnig hafi komið fram að Y upplifði kyn­ferðis­lega niðurlægingu í kjöl­far ætlaðs brots, sem kæmi fram í óbeit hennar fyrir náinni snertingu og hefði valdið erfiðleikum í samlífi þeirra hjóna.  N bar fyrir dómi að hún teldi framangreindar afleiðingar einvörðungu tengjast háttsemi ákærða, en ekki fyrri áföllum í lífi Y.  Sú skoðun styddist við frásögn Y í við­tölum, en fram kom hjá N að hún hefði ekki lagt fyrir hana próf af neinu tagi.  N kvaðst telja að Y hefði þann grunnstyrk að geta unnið sig út úr því áfalli, sem hún hefði orðið fyrir af völdum ákærða og náð að lifa góðu lífi.  Henni hefði þegar orðið vel ágengt, en óvíst væri hversu langan tíma hið læknandi ferli tæki.    

6.

Í málinu liggur fyrir að ákærði og Y hittust fyrir tilviljun laust fyrir klukkan 07 að morgni sunnudagsins 8. september 2002, þar sem þau voru á gangi í I.  Þau voru bæði undir áhrifum áfengis.  Y var á leið á lögreglu­stöð bæjarins, sem stendur við [...], en þar hugðist hún biðja lögreglu um að aka henni til H.  Ákærði var á leið heim til sín, en á þeim tíma leigði hann kjallara­herbergi að [...], sem er fjöleignarhús og stendur [...].  Fyrir liggur að ákærði tók Y tali, spurði hana hvert hún væri að fara og bauð henni í framhaldi heim til sín, þaðan sem hann sagðist geta hringt í kunningja sinn, sem myndi koma á staðinn og aka henni heim.  Ákærði varð þannig valdur að því að Y hætti við að fara á lögreglustöðina, en fram kom í vitnisburði hennar fyrir dómi að hún hefði áður leitað þangað við svipaðar kringumstæður og verið ekið heim af lögreglu.  Ákærði hefur viðurkennt við rannsókn og meðferð málsins að hann hefði strax í upphafi haft hug á því að fá Y með sér heim í því augnamiði að hafa við hana samfarir.  Einnig hefur hann viðurkennt að hafa hvorki verið með farsíma né haft tök á því að hringja heiman frá sér og því hafi aldrei komið til álita að hringja í neinn kunningja hans.  Er þannig ljóst að áliti dómsins að ákærði hafi með ósannindum blekkt Y heim til sín í þeim tilgangi að reyna að fá hana til lags við sig.  Það eitt telst þó ekki refsivert.

Ákærði hefur verið stöðugur í framburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi um hvað gerst hafi milli hans og Y eftir að þau komu inn í herbergi hans og hann alfarið neitað því að hafa beitt hana ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til að fá hana til samræðis við sig.  Telur dómurinn þann framburð ákærða bera þess merki að hann hafi trúað því og trúi því enn að samræðið þeirra í milli hafi verið með vilja Y.  Til stuðnings því áliti dómsins má benda á þá stað­reynd, að ákærði hringdi á lög­reglu­stöðina í I um hádegi sama dag, lét vita hvar hann væri staddur, gaf í fram­haldi greinargóða skýrslu um málsatvik og dró ekki dul á að hann hefði þurft að beita Y miklum fortölum áður en hún hefði gefið eftir og fallist á að eiga mök við hann.  Þá bendir vætti lögreglu­mannanna K og J í sömu átt, en þeir önnuðust yfir­heyrsluna yfir ákærða.  K gat þess fyrir dómi, að eigin frumkvæði, að hann hefði haft á tilfinningunni, meðan á yfir­­heyrslunni stóð, að ákærði sæi ekkert athuga­vert við fram­komu sína gagnvart Y og virtist vera sáttur við það að hafa fengið hana til lags við sig.  J svaraði því hins vegar aðspurður að ákærði hefði ekki virst hafa neitt að fela í frásögn sinni um atburði næturinnar og hann gengist greiðlega við því að hafa haft samfarir við Y.

Lýsing ákærða á atburðarás inni í kjallaraherberginu umrædda nótt er út af fyrir sig trúverðug að áliti dómsins og fær samkvæmt framansögðu nokkra stoð í ofan­­greindum vitnisburði lögreglumannanna tveggja.  Við mat á sönnunargildi vættis þeirra ber þó að hafa í huga að lögreglumennirnir báru aðeins um atriði, sem eftir atvikum má draga ályktanir af við úrlausn málsins, en ekki um þær staðreyndir, sem varða beinlínis ætlað brot ákærða.

Öfugt við ákærða hefur gætt nokkurs ósamræmis í frásögn Y um hvað gerst hafi í samskiptum hennar og ákærða umrætt sinn.  M ræddi fyrst allra við Y á lögreglustöðinni í I um klukkan 09 að morgni 8. september eða strax í kjölfar ætlaðs brots.  Sam­kvæmt frumskýrslu, sem M ritaði vegna málsins og vitnisburði hennar fyrir dómi, greindi Y meðal annars frá því að hún hefði beðið inni á einhverjum gangi eða herbergi á meðan ákærði hefði þóst hringja í félaga sinn.  Hún hefði í framhaldi viljað bíða úti, en ákærði þá læst hurð að herbergi sínu, tekið hana kverkataki með báðum höndum, þrýst henni ofan á rúm og þröngvað henni til samræðis.  Jafnframt hefði Y greint frá því að hún hefði orðið svo hrædd að hún hefði ekki þorað að veita neina mótspyrnu.  Þá hefði komið fram hjá Y að hún hefði beðið um að fá að fara á salerni, áður en ákærði hefði nauðgað henni, en hann meinað henni för þar til að verknaði loknum.  M bar fyrir dómi að Y hefði verið skýrmælt og greinargóð í frásögn sinni um nefnda atburða­­rás.

Y tjáði sig næst um atburðarás í viðtali við Arnar Hauksson kven­sjúk­dóma­lækni á neyðarmóttöku Landspítalans, en þangað kom hún klukkan 11:00 sama dag.  Svo sem áður er rakið skráði Arnar jafnharðan eftir Y frásögn hennar af því sem gerst hefði og bar læknirinn fyrir dómi að frásögn hennar hefði verið skýr miðað við aðstæður.  Samkvæmt skýrslu Arnars um viðtalið, sem hann staðfesti fyrir dómi, greindi Y meðal annars frá því að ákærði hefði boðist til að útvega henni far heim um nóttina, hann farið eitthvert afsíðis og síðan þóst hafa hringt í félaga sinn.  Ákærði hefði því næst boðið henni heim til sín, sagt að hún gæti beðið þar og þau í framhaldi farið inn í umrætt fjöleignarhús og þar niður í kjallaraherbergi ákærða.  Er þangað kom hefði ákærði kveikt sér í hasspípu, orðið reiður vegna neikvæðrar afstöðu hennar til hassreykinga og þá hent henni upp í rúm, tekið um háls hennar með báðum höndum og þröngvað henni til samræðis, meðal annars með hótunum um að drepa hana.  Líkt og í samtalinu við M lögreglumann skráði Arnar eftir Y að hún hefði viljað fara á salerni, en ákærði ekki leyft henni það fyrr en eftir að hann hefði náð að koma fram vilja sínum.  Á neyðarmóttökunni var skráð eftir Y að ákærði hefði sleikt kyn­færi hennar inni í herberginu.

Við skýrslugjöf sína hjá lögreglu greindi Y meðal annars frá því að hún hefði beðið fyrir utan umrætt fjöleignarhús á meðan ákærði hefði vikið sér frá og þóst hringja í félaga sinn.  Því næst hefðu þau farið inn í húsið og þar niður í herbergi ákærða.  Y hefði sest þar á rúmið hans og ákærði læst herbergishurðinni.  Við það hefði hún byrjað að óttast að ekki væri allt með felldu.  Hún hefði í framhaldi ítrekað beðið um leyfi til að fara á salerni, en ákærði meinað henni för og að lokum kýlt hana í bringuna, þannig að hún hefði fallið aftur fyrir sig í rúminu.  Ákærði hefði í framhaldi togað í hár hennar, þrýst öðrum framhandlegg sínum að hálsi hennar og hótað að berja hana eða drepa, ef hún þegði ekki og leyfði honum að hafa við hana sam­ræði.  Að sögn Y hefði hún streist á móti, en við það hefði ákærði orðið enn harkalegri í samræðishreyfingum sínum.  Þegar hann hefði verið búinn að ljúka sér af hefði hann fyrst leyft henni að fara á salernið.  Aðspurð af lögreglu mundi Y ekki hvenær í atburðarásinni ákærði hefði ætlað að reykja hass og virðist hún ekki hafa tengt neikvæða afstöðu sína við slíku til upphafs ofbeldis af hans hálfu.

Y tjáði sig síðast um málsatvik í skýrslu sinni fyrir dómi og kvaðst þá hafa beðið í anddyri fjöleignarhússins á meðan ákærði hefði farið eitthvert upp og þóst hringja í félaga sinn.  Þau hefði síðan farið niður í kjallaraherbergi hans, sest á rúmið og talað saman á góðum nótum í 15-20 mínútur.  Þegar hana hefði byrjað að lengja eftir félaga hans og fært það í tal við ákærða hefði hann reiðst og í framhaldi meinað henni að fara á salerni.  Ákærði hefði síðan ýtt eða kýlt í bringu hennar, fellt hana þannig með bakið niður á rúmið og þröngvað henni til samræðis með lífláts­hótunum og með því að toga í hár hennar og þrýsta öðrum framhandlegg sínum að hálsi hennar.  Aðspurð fyrir dómi kvaðst Y ekki muna eftir því að hafa greint frá því á fyrri stigum málsins að ákærði hefði tekið hana hálstaki með báðum höndum í upp­hafi atlögu sinnar að henni og kvaðst ekki minnast þess að hann hefði sleikt kyn­færi hennar inni í her­berginu.  Hún neitaði því ekki að svo hefði getað verið.  Þá brá svo við fyrir dómi að Y gat þess í lok skýrslugjafar sinnar að ákærði hefði leyft henni að fara á salerni áður en hann hefði fyrst sýnt henni ofbeldisfulla hegðun, en í framhaldi af för hennar á salernið hefði hann læst hurðinni að herbergi sínu, kýlt hana í bringuna og þröngvað henni til sam­ræðis, eftir að hún hefði lýst efasemdum um að félagi hans myndi koma á staðinn.

Samkvæmt vitnisburði lögreglumannanna M og L var Y „útgrátin“ eða „grátbólgin“ við komu á lögreglustöð umræddan morgun.  M bar jafnframt fyrir dómi að Y hefði grátið á meðan hún greindi frá atburðarás, setið í hnipri á stól og ruggað sér fram og til baka.  Er sú lýsing í samræmi við lýsingu Arnars Haukssonar kvensjúkdómslæknis á ástandi Y á neyðarmóttöku Landspítalans og samrýmist hvort tveggja þeirri ályktun að eitthvað alvarlegt hafi hent Y um nóttina.  Á hinn bóginn er á það að líta að Y fór sjálfviljug heim til ákærða þrátt fyrir að vera stödd við hlið lögreglu­stöðvarinnar, en þar hafði hún áður mætt velvilja lögreglumanna, sem hefðu ekið henni heim eftir gleðskap að næturlagi í I .  Y var að eigin sögn verulega ölvuð umrædda nótt.  Einhverra hluta vegna hefur hún, eins og að framan er rakið, verið margsaga um ýmis atriði er varða ætlaða háttsemi ákærða, bæði um aðdraganda að því að þau fóru saman inn í herbergi hans í kjallara umrædds fjöleignarhúss og einnig um nánari atvik að því hvernig ákærði á að hafa veist að henni inni í herberginu og þröngvað henni til samræðis.  Dregur þetta óhjákvæmilega úr trúverðugleika frá­sagnar hennar. 

Ákærði hefur fullyrt fyrir dómi að hann muni vel eftir atvikum umræddrar nætur, þrátt fyrir að hafa verið búinn að neyta áfengis.  Honum var hvorki tekið blóð­sýni í þágu rannsóknar málsins né heldur beðinn um að láta í té þvagsýni.  Samkvæmt því er óvíst hversu ölvaður ákærði hafi verið umrætt sinn, en ósannað er að hann hafi verið með svo miklum áfengis­­áhrifum að geti hafa haft áhrif á minni hans um atburði næturinnar.  Fyrir liggur í málinu að engin ummerki hafi verið um átök í herbergi ákærða.  Við læknisskoðun á neyðarmóttökunni sáust ekki áverkar, svo sem roði eða mar, sem styðja frásögn Y um að ákærði hafi tekið hana hálstaki eða með öðrum hætti þrýst harkalega að hálsi hennar.  Þá eru áverkar, sem sáust á líkama Y við nefnda skoðun, ekki þess eðlis, að áliti dómsins, að þeir gætu ekki hafa myndast við samfarir og önnur atlot tveggja einstaklinga, sem í þeim taka þátt með fullum vilja.  Vitnisburður Arnars Haukssonar læknis fyrir dómi hvorki hnekkir þeirri ályktun né veikir hana, svo nokkru nemi.

Samkvæmt öllu framansögðu og einkum með hliðsjón af misvísandi lýsingu Y á atvikum er það álit dómsins að staðföst frásögn ákærða um atburðarás inni í herbergi hans kunni að eiga við rök að styðjast.  Er því slíkur vafi um sekt hans í málinu, sem dómurinn metur skynsamlegan með tilliti til fyrirliggjandi sakargagna, að ekki þykir tæk önnur niðurstaða en að sýkna hann af þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála.

II.

Ákæra útgefin 27. mars 2003.

[...]

III.

Með því að ákærði hefur verið sýknaður af refsikröfu ákæruvalds ber með skírskotun til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að vísa skaðabótakröfum Y og Z frá dómi.

Með vísan til 1. mgr. 166. gr. laga nr. 19/1991 ber að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur. Til sakarkostnaðar samkvæmt 164. gr. sömu laga, sbr. 35. gr. laga nr. 36/1999, telst ennfremur þóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y, og þóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z, sem þykir hæfilega ákveðin 175.000 krónur til hvors lögmanns um sig.

Þorgeir Ingi Njálsson og Jónas Jóhannsson héraðsdómarar ásamt Ólöfu Pétursdóttur dómstjóra kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, er sýkn af refsikröfu ákæruvalds.

                Skaðabótakröfum Y og Z er vísað frá dómi.

                Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur, þóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y, 175.000 krónur, og þóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Z, 175.000 krónur.