Hæstiréttur íslands

Mál nr. 360/2004


Lykilorð

  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi heimilis
  • Börn
  • Barnavernd
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005.

Nr. 360/2004.

Fljótsdalshérað

Fljótsdalshreppur og

Borgarfjarðarhreppur

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

gegn

A

(Logi Guðbrandsson hrl.)

og gagnsök

 

Stjórnarskrá. Friðhelgi heimilis. Börn. Barnavernd. Stjórnvaldsákvörðun. Gjafsókn.

Barnaverndaryfirvöld höfðu um langt árabil haft afskipti af A og syni hennar, B, og hafði að mati Hæstaréttar verið leitað allra úrræða til að aðstoða A við uppeldi drengsins, en hún átti við andleg veikindi að stríða. Í janúar 2001 tók barnaverndarnefnd ákvörðun um að B skyldi vistaður á meðferðarheimili. Í ljósi rökstudds gruns nefndarinnar um sjálfsvígshugmyndir B og fenginnar reynslu af samskiptum við A taldi nefndin nauðsynlegt að gera ekki viðvart fyrirfram um fyrirhugaða vistun drengsins. Talið var að barnaverndarnefnd hafi verið skylt að grípa skjótt inn í atburðarásina og fallist á mat nefndarinnar að B hafi á þessum tíma verið í slíkri hættu að fara hafi mátt inn á heimili A án þess að leita fyrst samþykkis hennar. Var því ekki fallist á miskabótakröfu A.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Guðrún Erlendsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi 27. ágúst 2004. Þeir krefjast sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 13. október 2004. Hún krefst þess, að aðaláfrýjendur verði dæmdir til að greiða sér in solidum miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. janúar 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 8. apríl 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt fyrir báðum dómstigum með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis 17. febrúar 2005

Hinn 1. nóvember 2004 voru sveitarfélögin Austur-Hérað, Norður-Hérað og Fellahreppur sameinuð í eitt sveitarfélag, Fljótsdalshérað, sem hefur tekið við aðild málsins í þeirra stað fyrir Hæstarétti. Félagsþjónusta Héraðssvæðis er sameiginleg fyrir  sveitarfélög þau, sem eru aðilar máls þessa, og falla barnaverndarmál undir starfssvið hennar.

I.

Í máli þessu krefst gagnáfrýjandi bóta úr hendi aðaláfrýjenda vegna ákvörðunar barnaverndarnefndar Héraðssvæðis samkvæmt 47. gr. þágildandi barnaverndarlaga nr. 58/1992, sbr. nú 31. gr. laga nr. 80/2002, um að vista son hennar, B, á Stuðlum, meðferðarstöð ríkisins fyrir unglinga, frá 15. til 31. janúar 2001.

Samkvæmt gögnum málsins höfðu barnaverndaryfirvöld fyrst afskipti af heimili gagnáfrýjanda og sonar hennar 1993 og haustið 1994 bárust upplýsingar um, að gagnáfrýjandi ætti við geðsjúkdóm að stríða og ætti í erfiðleikum með uppeldi B. Hann hafði þá skýrt frá því, að faðir hans hafi misnotað hann kynferðislega, er hann var sjö ára gamall, en faðirinn svipti sig síðan lífi eftir að upp komst um málið. Upp úr því mun B hafa fengið ofsaköst og hótað að veita sjálfum sér og gagnáfrýjanda áverka. Barnaverndarnefnd skipaði tilsjónarmann með heimili gagnáfrýjanda og bauð henni aðstoð sálfræðings. Af gögnum málsins verður ráðið, að þörf gagnáfrýjanda fyrir beinan stuðning við uppeldið hafi orðið ljósari eftir því sem B nálgaðist unglingsárin og auknar kröfur voru gerðar til hans. Sumarið 1996 skipaði nefndin stuðningsmann með fjölskyldunni og átti frumkvæði að því, að B var lagður inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans sumarið 1997. Fyrri hluta árs 1998 var málum svo komið, að B mætti stopult í skóla og réðst ítrekað á kennara sína, og taldi stuðningsmaður fjölskyldunnar að tilsjón með heimilinu væri tilgangslítil. Í kjölfar þess að B var lagður inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans sumarið 1998 ákvað nefndin að sækja um langtímavistun fyrir hann á meðferðarheimili, og var hann vistaður á meðferðarheimilinu að Hvítárbakka 15. nóvember 1998.

 Af gögnum málsins verður ráðið, að líðan B hafi almennt breyst til batnaðar meðan hann dvaldist á meðferðarheimilinu að Hvítárbakka, en þar var hann fram á sumar 2000. Gagnáfrýjandi var hins vegar mótfallin vistun hans og fann henni flest til foráttu. Hún samþykkti ekki að tilsjónarmaður hefði eftirlit með heimili hennar meðan B dvaldist þar um helgar og í fríum af meðferðarheimilinu, og allt sótti í fyrra horf, er hann dvaldist hjá gagnáfrýjanda. Hann hafi þá að mestu verið eftirlitslaus og meðal annars í eitt sinn ekið bifreið gagnáfrýjanda, lent í árekstri og brotist inn. Á þessum tíma mun gagnáfrýjandi hvorki hafa tekið lyf vegna veikinda sinna né þegið boð um aðstoð geðlæknis eða sálfræðings.

Eftir heimkomu B frá Hvítárbakka samþykkti gagnáfrýjandi áætlun nefndarinnar 7. september 2000 sem hafði það að markmiði að tryggja B viðunandi uppeldisskilyrði og stuðla að því að gagnáfrýjandi gæti framvegis haft hann hjá sér. Þegar á reyndi hafnaði gagnáfrýjandi því hins vegar ítrekað að barnaverndarnefnd skipaði tilsjónarmann með heimilinu. B mætti stopult í skóla og var farinn að neyta áfengis aftur. Um miðjan nóvember óskaði gagnáfrýjandi eftir því, að nefndin hætti öllum afskiptum af B og vildi jafnframt að hann hætti í skóla. Í kjölfarið fóru gagnáfrýjandi og B til Reykjavíkur. Þar hvarf hann að heiman á bifreið gagnáfrýjanda 15. desember 2000. Um miðjan desember sótti barnaverndarnefnd aftur um vistun á meðferðarheimili fyrir B, og í samráði við barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákvað nefndin 15. desember 2000 á grundvelli 47. gr. laga nr. 58/1992 að vista hann á Stuðlum. Þar dvaldist hann aðeins í tvo daga og fór aftur til Egilstaða ásamt gagnáfrýjanda skömmu fyrir jólin.

Fram kemur í gögnum málsins, að gagnáfrýjandi hafi á gamlárskvöld 2000 skilið B eftir einan ásamt félögum sínum á heimili þeirra. Hafi B dáið áfengisdauða fyrir miðnætti og gengið berserksgang, er hann vaknaði að morgni nýársdags, og þurfti að binda hann niður. Í samtali við lækni, sem til var kallaður, sagði B, að honum fyndist hann vera „ansi þungur, hafa jafnvel hugleitt sjálfsvíg.” Þá hafi hvort tveggja lyf og áfengi horfið af heimilinu. Í gögnum málsins kemur einnig fram, að 8. janúar hafi B tekið inn 26 verkjatöflur, en fullyrt eftir á, að ekki hafi verið um tilraun til sjálfsvígs að ræða. Gagnáfrýjandi sagði á fundi með formanni nefndarinnar og félagsmálastjóra 10. janúar 2001, að B liði mjög illa, hann talaði um „tilgangsleysi lífs síns og löngun til að sofna.“ Samkvæmt framburði félagsráðgjafa, sem hafði haft afskipti af B frá 1999, höfðu sjálfsvígshugmyndir komið fram í samtölum hennar við B frá upphafi samskipta þeirra og talaði hann um, að hann myndi fara eins að og faðir hans hafði gert. Þegar hér var komið sögu lá fyrir, að vista mætti B á meðferðarheimilinu að Skjöldólfsstöðum, en forstöðumaður þess hafði farið fram á, að hann yrði áður vistaður um skamman tíma á Stuðlum til undirbúnings vistunar á Skjöldólfsstöðum. Á fundi barnaverndarnefndar 10. janúar kom fram, að vitað var að B hefði notað fíkniefni. Var ákveðið að hann skyldi fara á Stuðla, en af ótta við „afdrifarík viðbrögð” hans var ákveðið að láta hann eða gagnáfrýjanda ekki vita fyrirfram, hvað stæði fyrir dyrum. Taldi nefndin nauðsynlegt að gæta varúðar til að koma í veg fyrir hugsanleg afdrifarík viðbrögð B. Ekki var laust pláss á Stuðlum fyrr en 15. janúar en þann dag fór formaður félagsmálanefndar ásamt öðrum nefndarmanni og lögreglu inn á heimili gagnáfrýjanda og sótti B, sem fór með þeim á Stuðla, án þess að til valdbeitingar kæmi. Þaðan strauk hann þremur klukkustundum eftir komuna þangað. Tveimur dögum síðar gaf hann sig fram og dvaldist á Stuðlum til 31. janúar 2001. Ákvörðun nefndarinnar um að vista B á Stuðlum var staðfest á fundi hennar 22. janúar. Í gögnum málsins liggja aðeins fyrir takmarkaðar upplýsingar um hvernig mál B þróuðust fram til ársins 2003, en 3. maí það ár svipti hann sig lífi.

II.

Gagnáfrýjandi telur, að óheimilt hafi verið að taka B frá heimili hennar án samþykkis hennar eða dómsúrskurðar, sbr. 4. mgr. 43. gr. laga nr. 58/1992 og að skilyrðum 47. gr. hafi ekki verið fullnægt.

Í c-lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 58/1992 er kveðið á um það, telji barnaverndarnefnd sýnt, að heilsu barns eða þroska geti verið hætta búin vegna vanrækslu, vanhæfni eða framferðis foreldra, þá geti hún ákveðið töku barns af heimili meðal annars til innlagnar á sjúkrahús eða aðra stofnun til að tryggja öryggi barnsins. Slíkum málum skal ráðið til lykta með úrskurði barnaverndarnefndar að undangenginni málsmeðferð samkvæmt 45. gr. og 46. gr. laganna. Í 47. gr. er heimild til að víkja frá þessu ef „vinda þarf bráðan bug“ að ráðstöfun, sem ber undir barnaverndarnefnd. Þegar svo stendur á, getur formaður nefndarinnar eða starfsmaður í umboði hans framkvæmt ráðstöfun, en leggja skal hann málið fyrir barnaverndarnefnd til staðfestingar án tafar og eigi síðar en innan viku. Feli ráðstöfun í sér aðgerðir á grundvelli c-liðar 1. mgr. 24. gr. skal hún staðfest með fullnaðarúrskurði barnaverndarnefndar innan tveggja mánaða. Við þessar aðstæður er heimilt að fara inn á heimili, þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 43. gr., enda sé ástæða til að ætla að barn sé í bráðri hættu.

Afskipti barnaverndaryfirvalda eru til þess fallin að raska að meira eða minna leyti einkalífi viðkomandi fjölskyldu. Tilgangur slíkra afskipta er að koma barni til hjálpar, þegar foreldrar bregðast skyldum sínum gagnvart því, og hlýtur það að einhverju leyti að vera háð mati barnaverndaryfirvalda. Ákvæði 47. gr. laga nr. 58/1992 um heimild formanns barnaverndarnefndar eða starfsmanns í umboði hans til að framkvæma ráðstöfun, sem ber undir nefndina, verður að skýra með tilliti til hagsmunanna sem kunna að vera í húfi, ef framkvæmd slíkrar ráðstöfunar dregst þar til kveðinn hefur verið upp úrskurður samkvæmt 45. gr. laganna.

Eins og að framan er lýst höfðu barnaverndaryfirvöld um langt árabil haft afskipti af gagnáfrýjanda og syni hennar. Höfðu þau aflað glöggra upplýsinga um hagi B, sbr. 18. gr. og 43. gr. laga nr. 58/1992. Leitað hafði verið allra úrræða til að aðstoða gagnáfrýjanda við uppeldi drengsins. Þegar barnaverndarnefnd ákvað 10. janúar 2001 að B skyldi vistaður á Stuðlum var ljóst að andleg líðan hans hafði farið hratt versnandi mánuðina og vikurnar á undan. Nefndin taldi heilsu hans hætta búin og vildi tryggja öryggi hans. Hún hafði rökstuddan grun um sjálfsvígshugmyndir hans og ljóst var, að gagnáfrýjandi réð ekki við að setja honum mörk og ráða persónulegum högum hans. Vegna fenginnar reynslu af samskiptum nefndarinnar við gagnáfrýjanda taldi nefndin nauðsynlegt að gera ekki viðvart fyrirfram um það, sem gera skyldi. Í ljósi alls þessa verður að telja, að barnaverndarnefnd hafi verið skylt að grípa skjótt inn í atburðarásina. Nægar upplýsingar lágu fyrir hjá nefndinni, áður en ákvörðun var tekin. Ekki skiptir máli, þótt framkvæmd ráðstöfunarinnar hafi dregist um nokkra daga. Er jafnframt fallist á mat nefndarinnar um, að B hafi á þessum tíma verið í slíkri hættu að fara hafi mátt inn á heimili gagnáfrýjanda, án þess að leita fyrst samþykkis hennar, enda fullreynt að hún væri ekki til samstarfs. Samkvæmt framansögðu eru ekki skilyrði til að dæma gagnáfrýjanda miskabætur úr hendi aðaláfrýjenda, og er fallist á kröfu þeirra um sýknu.

Rétt er, að aðilar beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur og Borgarfjarðarhreppur, eru sýknir af kröfur gagnáfrýjanda, A.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar í héraði, 300.000 krónur, og lögmanns hennar fyrir Hæstarétti, 300.000 krónur.