Hæstiréttur íslands

Mál nr. 257/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Opinber skipti
  • Fjárslit milli hjóna
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                         

Mánudaginn 23. ágúst 1999.

Nr. 257/1999.

Maríanna Friðjónsdóttir

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

Birgi Þór Bragasyni

(enginn)

Kærumál. Opinber skipti. Fjárslit milli hjóna. Varnarþing. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Talið var að M væri heimilt að leita opinberra skipta til fjárslita hér á landi á milli sín og fyrrverandi eiginmanns síns B samkvæmt lögjöfnun frá 2. mgr. 1. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., en síðasta sameiginlega lögheimili M og B hafði verið í Danmörku og þar hafði kröfu M um opinber skipti verið hafnað. Þar sem M hafði ekki leitað eftir ákvörðun dómsmálaráðherra um hvert kröfu um opinber skipti yrði beint samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 20/1991 var skilyrðum ekki fullnægt til þess hún gæti krafist skipta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa kröfu M frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 1999, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka til efnismeðferðar kröfu hennar um opinber skipti.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Samkvæmt gögnum málsins gengu aðilar þess í hjúskap 5. júlí 1981 og bjuggu hér á landi til ársins 1990, þegar þau munu hafa flust til Danmerkur. Þar munu þau hafa slitið samvistum í desember 1996 og fengið lögskilnað með dómi 14. ágúst 1997. Sóknaraðili mun síðan hafa verið búsett í Danmörku, en varnaraðili á Íslandi. Sóknaraðili kveður fjárslit ekki hafa farið fram milli þeirra vegna hjónaskilnaðarins. Hún hefur lagt fram gögn til staðfestingar því að dómstóll í Danmörku hafi hinn 3. desember sl. hafnað kröfu hennar um opinber skipti til að koma fram fjárslitunum, því heimild bresti til leita skipta þar í landi, enda eigi sóknaraðili ekki lengur heimili í dómumdæmi, þar sem aðilarnir áttu síðast sameiginlegt heimili, samningur hafi ekki verið gerður á milli þeirra um varnarþing við skiptin og varnaraðili, sem kröfu um opinber skipti sé beint að, eigi nú heimili á Íslandi.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga nr. 20/1991 verður leitað opinberra skipta til fjárslita á milli hjóna fyrir héraðsdómstólnum í því umdæmi, þar sem hjón áttu síðast sameiginlegt lögheimili, nema þau semji um annað. Af gögnum málsins verður ráðið að síðasta sameiginlega lögheimili aðilanna hafi verið í Farum í Danmörku. Því er ekki borið við að þau hafi samið um að beina mætti kröfu um opinber skipti til Héraðsdóms Reykjavíkur. Getur sóknaraðili því ekki leitað opinberra skipta fyrir þeim dómstóli með stoð í tilvitnuðu ákvæði. Hins vegar liggur ekki annað fyrir en að aðilarnir séu bæði íslenskir ríkisborgarar. Fjárslitum verður samkvæmt áðursögðu ekki komið fram í því ríki, þar sem aðilarnir áttu síðast sameiginlegt heimili. Að svo vöxnu máli getur sóknaraðili krafist opinberra skipta hér á landi með stoð í lögjöfnun frá 2. mgr. 1. gr. laga nr. 20/1991. Áður en það verður gert verður sóknaraðili þó að leita ákvörðunar dómsmálaráðherra um hvert kröfu um skiptin verður beint, sbr. 3. mgr. 3. gr. sömu laga. Þar sem það hefur ekki verið gert eru ekki skilyrði til að krefjast skipta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 1999.

Með beiðni dagsettri 14. maí sl., sem móttekin var í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. maí sl., krefst Maríanna Friðjónsdóttir, kt. 131153-5389, Ryesgade 1, Kaupmannahöfn, Danmörku, opinberra skipta á félagsbúi hennar og Birgis Þórs Bragasonar, kt. 070257-3199, Háaleitisbraut 115, Reykjavík.

Aðilar málsins gengu í hjúskap 5. júlí 1981 en samkvæmt gögnum málsins var þeim veittur lögskilnaður með dómi héraðsdóms í Hilleröd í Danmörku 14. ágúst 1997. Birgir Þór, varnaraðili málsins, gekk að nýju í hjúskap í október 1998.

Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa reynt að ná samkomulagi við varnaraðila um skipti á félagsbúi þeirra án árangurs. Hún hafi reynt að knýja fram opinber skipti í Danmörku en skiptabeiðni hennar þar hafi verið vísað frá dómi á grundvelli varnarþingsreglna. Um lagarök fyrir kröfu sinni um opinber skipti vísar sóknaraðili til 2. mgr. 98. gr. laga nr. 20/1991.

Í 98. – 99. gr. framan greindra laga er mælt fyrir um þau tilvik sem heimilt er að krefjast opinberra skipta til að koma fram fjárslitum milli hjóna. Í 98. gr. er mælt fyrir um heimildir til opinberra skipta til fjárslita milli hjóna vegna yfirvofandi hjúskaparslita, annars vegar í 1. mgr. þegar leitað hefur verið skilnaðar fyrir yfirvaldi, og hins vegar í 2. mgr. þegar dómsmál hefur verið höfðað til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar. Í 99. gr. er mælt fyrir um heimildir annars hjóna eða þeirra beggja til að leita fjárslita sín á milli með opinberum skiptum án tengsla við hjúskaparslit.

Eins og fram er komið fengu aðilar lögskilnað í ágúst 1997. Ákvæði 98. – 99. gr. skiptalaga gera ráð fyrir því að þeim sé beitt þegar um er að ræða bú hjóna annað hvort við skilnað eða meðan á hjúskap stendur. Ekki verður talið að þessu úrræði verði beitt þegar fjárfélag er niður fallið og lögskilnaður genginn í gegn svo sem hér er. Verður því ekki séð að þessi réttarfarsleið sé aðilum máls þessa fær og er því beiðni sóknaraðila hafnað með vísan til 43. gr. laga nr. 20/1991. 

Arngrímur Ísberg, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu Maríönnu Friðjónsdóttur um opinber skipti á félagsbúi hennar og Birgis Þórs Bragasonar.