Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/1999
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 13. apríl 2000. |
|
Nr. 449/1999. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Jóhannesi Guðmundssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Þjófnaður. Ítrekun. Vanaafbrotamaður.
J var sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar litið var til sakaferils J og gætt var ákvæða 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga þótti refsing hans hæfilega ákveðin í héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. nóvember 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærði krefst þess aðallega að honum verði ekki gerð sérstök refsing, en til vara að hún verði milduð.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Áður en ákærði framdi brot þetta 23. ágúst 1999 hafði hann í 31 skipti hlotið dóm á tímabilinu frá 27. apríl 1978, þar af 30 sinnum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Frá 7. febrúar 1977 hafði hann gengist undir 15 sáttir fyrir brot gegn sömu lögum, umferðarlögum, áfengislögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Af dómum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum voru 24 fyrir auðgunarbrot og hafa 4 þeirra, þar sem ákærða var alls ákveðin óskilorðsbundin fangelsisrefsing í 28 mánuði, ítrekunaráhrif þegar refsing er nú ákveðin. Þegar litið er til sakaferils ákærða og gætt ákvæða 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Jóhannes Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. október 1999.
Mál þetta var höfðað með ákæru sýslumannsins á Hvolsvelli, dagsettri 15. september 1999, á hendur Jóhannesi Guðmundssyni, kt. 260761-5529, nú refsifanga á Litla-Hrauni. Hann er í ákæru sakaður um tvö þjófnaðarbrot, sem talin eru varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga, annars vegar með því að hafa " mánudaginn 23. ágúst 1999 farið inn í verslunina Príl, Hvolsvelli, stolið þaðan tvennum peysum og einum buxum að verðmæti samtals kr. 14.900.-", hins vegar " síðar sama dag stolið skópari að verðmæti 7.000.- úr Rangárapóteki, Hvolsvelli."
Ákæruvald krefst refsingar og greiðslu sakarkostnaðar. Við þingfestingu málsins féll sækjandi frá fyrri hluta ákærunnar, þannig að einungis er til úrlausnar ákæra fyrir brot samkvæmt síðari liðnum.
Ákærði krefst þess aðallega að ekki verði gerð sérstök refsing, til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa.
Málið var dómtekið fyrr í dag.
Ákærði hefur játað brot það sem lýst er í síðari hluta ákæru og er játning í samræmi við önnur gögn málsins. Ekki er nauðsynlegt að reifa málsvexti frekar, en brotið er rétt fært til refsiákvæðis í ákæru. Verður hafnað þeirri viðbáru verjanda að taka skónna hafi falið í sér gripdeild.
Ákærði er vanaafbrotamaður. Hann hefur reglulega frá árinu 1978 verið dæmdur til óskilorðsbundinnar refsivistar, auk sekta, mest vegna auðgunarbrota og skjalafals. Hann afplánar nú 12 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí sl.
Refsing hans er ákveðin fangelsi fjóra mánuði. Honum ber að greiða sakarkostnað, þar á meðal málsvarnarlaun, 35.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Jóhannes Guðmundsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun Kristjáns Stefánssonar hrl., 35.000 krónur.