Hæstiréttur íslands

Mál nr. 311/2016

Veitustofnun Skútustaðahrepps (Guðjón Ármannsson hrl.)
gegn
Önnu Skarphéðinsdóttur, Elínu S. Kristjánsdóttur, Gísla Rafni Jónssyni, Gunnari Rúnari Péturssyni, Hermanni Kristjánssyni, Hjördísi Sigríði Albertsdóttur, Jakobi Stefánssyni, Jóhanni Fiðriki Kristjánssyni, Jónasi Pétri Péturssyni, Jóni Inga Hinrikssyni, Jóni Árna Sigfússyni, Leifi Hallgrímssyni, Ólöfu Þórelfi Hallgrímsdóttur, Sólveigu Erlu Hinriksdóttur, Valla sf., Vogabúi ehf., Vogum 4 ehf., Þórdísi Guðfinnu Jónsdóttur og Þórhalli Kristjánssyni (Helgi Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gerðardómur
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli VS á hendur A o.fl. var að hluta vísað frá dómi, þar sem dómurinn taldi að krafa VS um viðurkenningu á því að tiltekinn samningur milli aðila væri í gildi ætti undir gerðardóm. Í dómi Hæstaréttar var rakið að ákvæði laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma fælu í sér heimild handa aðilum til að semja um ráðstöfun á rétti samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir almennum dómstólum ríkisins. Þyrfti að hafa það að leiðarljósi þegar metið væri hvort skýrlega hafi verið samið um að leggja tiltekið ágreiningsefni undir gerðardóm. Í samningi aðila hefði verið ákvæði um að ágreiningur milli þeirra „vegna túlkunar“ samningsins ætti undir gerðardóm. Þar sem úrlausn um fyrrgreinda dómkröfu VS varðaði ekki túlkun á samningi aðila var talið að ágreiningurinn ætti ekki undir gerðardóm. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka dómkröfuna til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. apríl 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var að hluta vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið í heild til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara að kærumálskostnaður verði felldur niður.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerðu þáverandi eigendur jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi, sem varnaraðilar leiða rétt sinn frá, samning 25. mars 1971 við íslenska ríkið, þar sem því var lýst yfir að jarðhitaréttindi í landi jarðarinnar á svæði, sem nánar væri afmarkað á uppdrætti með samningnum, ásamt jarðhita sem þar væri að finna og aðstöðu til mannvirkjagerðar til að nýta hann væri ríkinu „til frjálsra umráða og ráðstöfunar.“ Að endurgjaldi fyrir þetta skuldbatt ríkið sig til að greiða eigendum jarðarinnar 1.900.000 krónur til að koma upp aðrennslisæð „úr 80 mm víðum asbestpípum frá vegamótum þjóðvegar og Hlíðarvegar við Reykjahlíð að Vogum III ... ásamt viðeigandi búnaði“ til að flytja heitt vatn frá varmaveitu „í Reykjahlíðarhverfi til Vogahverfis.“ Jafnframt skuldbatt ríkið sig til að afhenda eigendum jarðarinnar án endurgjalds 4,5 sekúndulítra af heitu vatni úr safnþró sem komið yrði upp í Bjarnarflagi. Í samningnum var hvorki kveðið á um gildistíma hans né heimild til að segja honum upp, en honum var þinglýst 11. júní 1971.

Í framhaldi af þessu gerðu eigendur Voga samning 1. júlí 1971 við Hitaveitu Reykjahlíðar, sem sóknaraðili mun nú vera kominn í stað fyrir, en þar voru þeir fyrrgreindu nefndir leigusali og sá síðargreindi leigutaki. Í samningnum var kveðið á um að eigendur Voga skyldu „leggja asbestpípu frá skiptistöð í Reykjahlíð (á mörkum þjóðvegar og Hlíðarvegar) að Vogum ... með öllum nauðsynlegum búnaði, þar á meðal brunnum við báða enda“ og bæru þeir allan kostnað af því. Eftir lagningu pípunnar og prófun hennar skyldu landeigendurnir afhenda hana hitaveitunni, sem bæri „allan kostnað af rekstri hennar, viðhaldi og endurnýjun.“ Mælt var fyrir um skyldu landeigendanna til að leggja án endurgjalds land undir pípuna og rétt hitaveitunnar til umferðar um jörðina til að viðhalda henni og öðrum mannvirkjum í tengslum við hana. Þá var kveðið á um að eigendur Voga legðu hitaveitunni til „allt að 4,5 lítra á sekúndu af heitu vatni“, sem hún skyldi greiða nánar tilgreint árgjald fyrir. Fjárhæð þess átti að ráðast af magni vatnsins og breytast á tiltekinn hátt á árabilinu fram til 1992, en verða föst upp frá því. Gjaldið átti jafnframt að breytast í samræmi við vísitölu byggingarkostnaðar miðað við grunntölu hennar í október 1971. Áskilið var að eigendur Voga mættu „nota til eigin þarfa afgangsvatn til heyþurrkunar og ræktunar endurgjaldslaust“, en það yrði ekki talið með við ákvörðun árgjalds úr hendi hitaveitunnar. Í samningnum voru engin fyrirmæli um gildistíma eða heimild til uppsagnar. Þar var á hinn bóginn svofellt ákvæði: „Verði ágreiningur í samskiptum leigusala og leigutaka vegna túlkunar á samningi þessum, skal hann útkljáður á þann hátt, að hvor aðili um sig getur skotið honum til úrskurðar 3ja manna gerðardóms, og er úrskurður hans endanlega bindandi fyrir báða aðila. Hvor aðili skal útnefna einn mann í gerðardóminn, en sýslumaður Þingeyinga útnefna oddamann. Skulu allir gerðardómsmenn fullnægja skilyrðum eml. nr. 85/1936.“

Í hinum kærða úrskurði er vikið að ágreiningi, sem hefur risið eftir gerð síðastnefnds samnings milli eigenda Voga og Hitaveitu Reykjahlíðar, síðar sóknaraðila, um ýmis atriði í tengslum við samninginn, en landeigendur sögðu honum upp með tilkynningu 20. júlí 1992. Frá þeim tíma munu eigendur jarðarinnar hvorki hafa greitt fyrir heitt vatn, sem þeir hafa nýtt frá hitaveitunni, né hefur sóknaraðili greitt árgjald samkvæmt samningnum frá 1. júlí 1971.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðilum 10. febrúar 2015 og krafðist þess að viðurkennt yrði annars vegar að samningurinn 1. júlí 1971 væri gildur og hins vegar að sóknaraðili væri eigandi „að asbestpípu sem liggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga“. Í héraði kröfðust varnaraðilar þess aðallega að málinu yrði vísað í heild frá dómi með vísan til þess að ágreiningsatriði að baki báðum kröfum sóknaraðila ættu undir gerðardóm eftir fyrrgreindu ákvæði samningsins frá 1. júlí 1971. Með hinum kærða úrskurði var fyrri dómkröfu sóknaraðila vísað frá dómi, en hafnað á hinn bóginn kröfu varnaraðila um frávísun síðari dómkröfunnar.

II

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma geta aðilar ákveðið með samningi að leggja í gerð ágreining sín á milli, enda hafi þeir forræði á sakarefninu, en slíkan samning má hvort heldur gera um ágreining sem kominn er eða kann síðar að koma upp í tilteknum lögskiptum þeirra. Eftir 1. mgr. 3. gr. laganna skal í skriflegum gerðarsamningi koma meðal annars skýrt fram úr hvaða réttarágreiningi eigi að leysa á þennan hátt. Samkvæmt 2. gr. laganna verður máli, sem höfðað er fyrir héraðsdómi en á undir gerðardóm eftir gildum gerðarsamningi, vísað frá ef krafa kemur fram um það, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Þegar leyst er úr slíkri kröfu verður að gæta að því að 2. mgr. 1. gr. laga nr. 53/1989 felur í sér heimild handa aðilum til að semja um ráðstöfun á rétti samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir almennum dómstólum ríkisins. Verður að hafa þetta að leiðarljósi þegar metið er eftir 1. mgr. 3. gr. laga nr. 53/1989 hvort skýrlega hafi verið samið um að leggja tiltekið ágreiningsefni undir gerðardóm.

Í samningnum 1. júlí 1971 var sem fyrr segir ákveðið að „ágreiningur í samskiptum leigusala og leigutaka vegna túlkunar á samningi þessum“ ætti undir gerðardóm. Eins og áður greinir voru hvergi í samningnum fyrirmæli um gildistíma hans, heimild til að segja honum upp eða brottfall réttinda eða skyldna samkvæmt honum af öðrum sökum. Úrlausn um dómkröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því að samningurinn sé í gildi er af þessum sökum ekki háð túlkun á honum, en eftir orðanna hljóðan tekur ákvæði hans um gerðardóm eingöngu til ágreinings um slíka túlkun. Hinn kærði úrskurður verður því felldur að þessu leyti úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þessa dómkröfu sóknaraðila til efnismeðferðar.

Ákvörðun um málskostnað í héraði í þessum þætti málsins verður að bíða efnisdóms, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kærumálskostnað.

Dómsorð:

Fellt er úr gildi ákvæði hins kærða úrskurðar um að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila, Veitustofnunar Skútustaðahrepps, um að viðurkennt verði að gildur sé samningur 1. júlí 1971 milli Hitaveitu Reykjahlíðar og eigenda jarðarinnar Voga.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. apríl 2016.

Mál þetta, sem var höfðað 10. febrúar 2015 var tekið til úrskurðar um frá­vísunarkröfu stefndu hinn 11. febrúar s.l.

Stefnandi er Veitustofnun Skútustaðahrepps. Hlíðavegi 6, Skútustaðahreppi. Stefndu eru Vogabú ehf., Vogum I, Skútustaðahreppi, Anna Skarphéðinsdóttir, sama stað, Leifur Hallgrímsson, Hraunborg, sömu sveit, Ólöf Þórelfur Hallgrímsdóttir, Hraunbergi, sömu sveit, Jóhann Friðrik Kristjánsson,  Sogavegi 129, Reykjavík, Hermann Kristjánsson, Birkihrauni 12, Skútustaðahreppi, Elín S. Kristjánsdóttir, Stekkjarholti 14, Húsavík í Norðurþingi, Þórhallur Kristjánsson, Björk, Skútu­staðahreppi,  Hjördís Sigríður Albertsdóttir, Hólmum, sömu sveit, Þórdís Guðfinna Jónsdóttir, Vogum II, sömu sveit, Gunnar Rúnar Pétursson, sama stað, Jónas Pétur Pétursson, Skútahrauni 16, sömu sveit, Jón Árni Sigfússon Víkurnesi, sömu sveit, Gísli Rafn Jónsson, Arnarnesi, sömu sveit, Jakob Stefánsson, Skútahrauni 18, sömu sveit, Valla sf., Laugarbrekku 24, Húsavík, Sólveig Erla Hinriksdóttir, Stekkholti, Skútustaðahreppi, Jón Ingi Hinriksson, Bergholti, sömu sveit og Vogar 4 ehf., Dalsgerði 5f, Akureyri.

Stefnandi gerir þær efniskröfur í málinu að viðurkennt verði með dómi að samningur milli stefnanda og stefndu frá 1. júlí 1971 sé gildur, sem og að viðurkenndur verði eignarréttur stefnanda að asbestpípu sem liggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga, eins og nánar er lýst í kröfugerð stefnanda.

Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu.

Stefndu gera þá kröfu að dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara sýknu.  Einnig krefjast þau málskostnaðar, en til vara að hann verði felldur niður.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið.  Er sá þáttur málsins til umfjöllunar hér.

I.

Með samningi undirrituðum annars vegar í Vogum 25. mars 1971 og hins vegar í Reykjavík 4. maí 1971, afhentu eigendur Voga í Skútustaðahreppi ríkissjóði jarðhitaréttindi í landi Voga á afmörkuðu jarðhitasvæði ásamt jarðhita sem þar væri að finna og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans.  Í endurgjald skyldu þeir fá (g)kr. 1.900.000,- til að koma upp aðrennslisæð hitaveitu frá vegamótum þjóðvegar og Hlíðarvegar við Reykjahlíð að Vogum III ásamt viðeigandi búnaði við upphaf hennar til að mæla rennsli í henni og ókeypis allt að 4,5 sekúndulítra af heitu vatni frá varmaveitu í Bjarnarflagi, sem skyldi afhendast með vatni er ríkissjóður hefði með samningi við eigendur Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi skuldbundið sig til að afhenda þeim.

Þann 28. febrúar 1971 ákvað sveitarstjórn að verða við ósk væntanlegra hita­veitunotenda um að gerast eignar- og rekstraraðili væntanlegrar hitaveitu ef viðunandi samningar næðust við landeigendur um hitaveituréttindi.  Þann 1. júlí sama ár voru undirritaðir samningar milli landeigenda í Reykjahlíð og Skútustaðahrepps annars vegar og hins vegar eigenda Voga og Skútustaðahrepps.

Í 1. gr. síðastnefnds samnings kemur fram að leigusali skuli á eigin kostnað leggja asbestpípu frá skiptistöð í Reykjahlíð (á mörkum þjóðvegar og Hlíðarvegar) að Vogum, í samræmi við uppdrætti Fjarhitunar h.f., með öllum nauðsynlegum búnaði, þar á meðal brunnum við báða enda.  Einnig kemur fram að leigusali skuli bera allan kostnað af pípulögninni, bæði efni og vinnu.  Í 2. gr. samnings kemur fram að áðurnefndri pípulögn skuli vera lokið fyrir 1. október 1971 og skuli hún þá prófuð og afhent leigutaka sem frá þeirri afhendingu beri allan kostnað af rekstri hennar, viðhaldi og endurnýjun.

Í 12. gr. samningsins kemur fram að komi til ágreinings milli samningsaðila vegna túlkunar á samningnum skuli úr honum leyst fyrir þriggja manna gerðardómi og skuli niðurstaða þess dóms vera endanlega bindandi fyrir báða aðila.  Um skipun gerðardómsins segir einnig í 12. gr. samningsins að hvor aðili skuli tilnefna einn aðila til setu í dómnum, en að sýslumaður Þingeyinga skuli tilnefna oddamann.

Ekki er að finna nein uppsagnarákvæði í samningnum.

Stefnandi mun nú vera ,,leigutaki“ í skilningi þessa samnings og stefndu ,,leigusali.“  Verður hér á eftir vísað til stefnanda og stefndu, þótt þau hafi komið í stað aðila sem gerðu samninginn í öndverðu.

Stefnandi tekur fram að 14. nóvember 1985 hafi verið sett ný reglugerð, nr. 432/1985, fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar.  Þar hafi verið kveðið á um eignarrétt hennar að lagnakerfi sínu.  Árið 1985 hafi verið ráðist í stækkun á Hitaveitu Reykjahlíðar.  Samhliða henni hafi verið ráðist í stofnun vatnsveitu og farið að reisa varmaskiptistöð hitaveitunnar.  Í kjölfar þessara framkvæmda hafi Hitaveita Reykjahlíðar selt umrædda asbestpípu til Vatnsveitu Reykjahlíðar og lagt plastpípu til flutnings á heitu vatni.  Engin mótmæli hafi borist frá stefndu fyrr en erindi hafi borist sveitarstjórn, dagsett 5. febrúar 1990.  Þar hafi stefndu óskað þess að formlegar viðræður yrðu teknar upp, með endurskoðun samningsins frá 1971 að markmiði.  Niðurstaða varð ekki af viðræðum. Stefnandi ákvað að vísa ágreiningi aðila til gerðardóms til úrskurðar í samræmi við 12. gr. samnings aðila frá 1. júlí 1971.  Þann 20. júlí 1992 sögðu stefndu samningnum upp.  Hafnaði stefnandi uppsögninni.  Var málinu vísað til gerðardóms 10. nóvember 1993.  Eftir sáttatilraunir kvað hann upp úrskurð um það 4. nóvember 1996 að ágreiningsefnið væri ekki innan lögsögu hans.  Vísaði hann til þess að ágreiningur aðila sneri að eignarrétti og ætti heima hjá dómstólum.

Stefndu höfðuðu síðan mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem þeir kröfðust viðurkenningar á uppsögn samningsins frá 1. júlí 1971.  Með úrskurði dómsins 9. maí 1997 var málinu vísað frá dómi með skírskotun til þess að það varðaði samskipti aðila og ætti þar með undir gerðardóm, sbr. 12. gr. samningsins frá 1. júlí 1971.  Úrskurðinum var ekki skotið til æðri réttar.

II.

Stefndu reisa frávísunarkröfu sína á því að samningi aðila frá 1. júlí 1971 hafi verið sagt upp með löglegum hætti þann 20. júlí 1992.  Geti stefnandi því ekki byggt á honum.  Krafa stefnanda um viðurkenningu á gildi samningsins hljóti að fela í sér að með hana eigi að fara í samræmi við ákvæði 12. gr. samningsins um gerðardóm.  Ágreiningsmál um gildi samningsins eigi því ekki undir lögsögu dómstóla og þar með beri að vísa því frá. Stefndu vísa einnig til þess að með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. maí 1997 í máli nr. E 125/1996 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að vísa bæri frá ágreiningi aðila er sneri að túlkun og samskiptum þeirra þar sem slíkt ætti að bera undir gerðardóm.

Stefndu telja að síðari viðurkenningarkrafa stefnanda falli einnig undir valdsvið gerðardóms.  Vísa þau til þess að ágreiningur sé nú uppi um það hvort títtnefndur samningur milli aðila frá 1. júlí 1971 hafi falið í sér framsal á áðurnefndri asbestpípu.  Það sé túlkunaratriði og beri að leysa úr ágreiningi um það með gerðar­dómi. Niðurstaða gerðardóms frá 4. nóvember 1996 verði ekki lögð hér til grundvallar.  Sé hún ekki bindandi fyrir almenna dómstóla og gerðardómurinn hafi ekki leyst úr ágreiningsmáli aðila með réttum hætti.

 

III.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma er dómari óbundinn af áliti sem liggur til grundvallar úrskurði ef á það reynir í dómsmáli síðar.  Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 ber að vísa máli frá dómi, eigi sakarefni ekki undir dómstóla samkvæmt samningi.  Samkvæmt 2. gr. laga nr. 53/1989 ber að vísa máli frá dómi sem höfðað er um ágreiningsefni sem á undir gerðardóm samkvæmt gildum gerðarsamningi, sé þess krafist.

Til stuðnings frávísunarkröfu sinni hafa stefndu m.a. vísað til 12. gr. samnings aðila frá 1971, sem rakin er hér að framan.  Í samningnum eru engin gildistíma- eða uppsagnarákvæði.  Úr ágreiningi milli aðila um gildi samningsins verður að leysa m.a. á grundvelli túlkunar hans.  Þykir úrlausn slíks ágreinings því heyra undir valdsvið gerðardóms, samkvæmt framangreindu samningsákvæði.  Ber samkvæmt þessu að vísa fyrri viðurkenningarkröfu stefnanda frá dómi.

Efnislegt innihald síðari kröfu stefnanda er að viðurkenndur verði eignarréttur stefnanda á asbestpípu.  Slík viðurkenningarkrafa er í fullu samræmi við heimild 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, sem kveður á um að hver sá sem sýnir fram á hann hafi lögvarða hagsmuni á því að fá skorið úr um tilvist eða efni réttinda geti leitað viðurkenningardóms um slíka hagsmuni.  Með áðurnefndum úrskurði gerðardóms var komist að þeirri niðurstöðu að ágreiningur samningsaðila er sneri að eignarrétti yrði ekki lagður fyrir gerðardóm til efnislegrar niðurstöðu.  Við þá niðurstöðu situr og verður því að leysa úr þessari kröfu fyrir dómstólum.  Ber því að hafna kröfu stefndu um frávísun hennar.  Ákvörðun um málskostnað verður látin bíða efnisdóms.

Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda, Veitustofnunar Skútustaðahrepps, um að viðurkennt verði með dómi að gildur sé samningur oddvita Skútustaðahrepps f.h. Hitaveitu Reykjahlíðar og eigenda jarðarinnar Voga í Skútustaðahreppi vegna Hitaveitu Reykjahlíðar, dags. 1. júlí 1971.

Hrundið er kröfu stefndu, Vogabús ehf., Önnu Skarphéðinsdóttur, Leifs Hallgrímssonar, Ólafar  Þórelfar Hallgrímsdóttur, Jóhanns Friðriks Kristjánssonar, Hermann Kristjánssonar, Elínar S. Kristjánsdóttur, Þórhalls Kristjánssonar, Hjördísar Sigríðar Albertsdóttur, Þórdísar Guðfinnu Jónsdóttur, Gunnars Rúnars Péturssonar, Jónasar Péturs Péturssonar, Jóns Árna Sigfússonar, Gísla Rafns Jónssonar, Jakobs Stefánssonar, Völlu sf., Sólveigar Erlu Hinriksdóttur, Jóns Inga Hinrikssonar og Voga 4 ehf. um að vísað verði frá dómi kröfu stefnanda um að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur hans að asbestpípu sem liggur frá skiptistöð í landi Reykjahlíðar að landi Voga í Skútustaðahreppi.

Málskostnaður bíður efnisdóms.