Hæstiréttur íslands
Mál nr. 270/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 14. júlí 2003. |
|
Nr. 270/2003. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Haraldur Henrysson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. október 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2003 var varnaraðila gert að sæta fangelsi í sex ár fyrir fíkniefnabrot, en frá refsivistinni skyldi dragast gæsluvarðhald hans frá 20. júní til 6. júlí 1998, frá 22. desember 1998 til 26. janúar 1999 og frá 14. febrúar 2002 til dómsuppsögu. Við uppkvaðningu dómsins lýsti varnaraðili því yfir að hann hygðist áfrýja dóminum. Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili þýskur ríkisborgari. Fram er komið að hann fór af landi brott til Þýskalands áður en tókst að birta honum ákæru út af hluta þeirra sakargifta, sem komu til úrlausnar í fyrrnefndum dómi. Reyndist fyrst unnt að fá hann framseldan hingað til lands eftir að hann hafði verið handtekinn í Hollandi á síðasta ári. Með vísan til þessa er fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga nr. 19/1991 til áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir varnaraðila, en ekki verður fallist á að farbann geti komið í þess stað. Þegar af þessum sökum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. júlí 2003.
Ríkissaksóknari hefur krafist þess með skírskotun til 106. gr., sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 að dómþola, X, verði gert að sæta áfram gæsluvarhaldi á meðan fresti skv. 2. mgr.151. gr. laga nr. 19/1991 stendur svo og á meðan mál hans er til meðferðar hjá Hæstarétti en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 29. október nk. kl. 16:00.
Málavextir eru þeir að í dag var dómþoli X dæmdur í 6 ára fangelsi vegna brota á 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar 2002.
Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 lýkur gæsluvarðhaldi þegar dómur hefur verið kveðinn upp í máli. Eftir kröfu ákæranda getur dómari þó úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á fresti skv. 2. mgr. 151. gr. stendur svo og meðan mál er til meðferðar fyrir Hæstarétti. Ber því að fallast á kröfu ríkissaksóknara og verður dómþola gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. október nk. kl.16:00.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ.
Dómþoli, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. október nk. kl.16:00.