Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-153
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Kjarasamningur
- Túlkun samnings
- Veikindaforföll
- Veikindalaun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 30. nóvember 2022 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 4. nóvember 2022 í máli nr. 414/2021: A ehf. gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu launa í veikindaforföllum á grundvelli laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla og á grundvelli kjarasamnings sem gilti á milli aðila.
4. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda en héraðsdómur hafði fallist á kröfu hans. Í byrjun árs 2020 óskaði leyfisbeiðandi eftir tveggja mánaða leyfi frá störfum fyrir gagnaðila vegna brjóstnámsaðgerðar sem hann hugðist ganga undir. Degi áður en umbeðið leyfi skyldi hefjast var leyfisbeiðanda sagt upp störfum hjá gagnaðila. Við uppsögnina tilkynnti gagnaðili að fallist væri á beiðni um leyfi, þó þannig að það yrði launalaust. Þá var óskað eftir því að leyfisbeiðandi ynni út þriggja mánaða uppsagnarfrest. Leyfisbeiðandi sneri ekki aftur til starfa hjá gagnaðila og höfðaði mál gegn honum. Deila aðila laut einkum að því hvort kynmisræmi væri sjúkdómur í skilningi laga og bókunar við fyrrgreindan kjarasamning þegar leyfisbeiðandi gekkst undir umrædda aðgerð. Í dómi Landsréttar var rakið að frá og með gildistöku laga nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði hefði í íslenskum rétti verið horfið frá því að skilgreina kynmisræmi sem sjúkdóm. Því væri ekki unnt að fallast á að leyfisbeiðandi hefði sem trans einstaklingur verið haldinn sjúkdómi er hann gekkst undir brjóstnámsaðgerðina. Af því leiddi að ekki væri unnt að líta svo á að aðgerðin hefði leitt af sjúkdómi svo að leyfisbeiðandi ætti rétt á launum í veikindaforföllum.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi fyrir réttarstöðu launafólks með tilliti til gildis læknisvottorða og réttarstöðu trans fólks. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Hann vísar einkum til þess að Landsréttur dragi ranga ályktun af lögum nr. 80/2019 og greinargerð með þeim með því að komast að þeirri niðurstöðu að kynmisræmi sé ekki sjúkdómur. Þannig segi í greinargerð með lögunum að ekki eigi að hrófla við flokkunarkerfum læknisfræðinnar til að tryggja aðgengi trans fólks að heilbrigðisþjónustu, meðal annars í tengslum við kynleiðréttingu. Með niðurstöðu Landsréttar sé blandað saman sjálfsákvörðunarrétti til að velja sér kyn og flokkun trans innan læknisfræðinnar. Jafnframt sé vikið frá skýru læknisvottorði sem tilgreini hvaða sjúkdómi leyfisbeiðandi sé haldinn samkvæmt gildandi sjúkdómaskrám og nauðsyn þeirrar aðgerðar sem leyfisbeiðandi gekkst undir.
6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi um skýringu og túlkun laga nr. 80/2019 um hvort kynmisræmi skuli skilgreint sem sjúkdómur með tilliti til réttar til greiðslu launa í veikindaforföllum. Beiðnin er því samþykkt.