Hæstiréttur íslands
Mál nr. 505/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 18. nóvember 2002. |
|
Nr. 505/2002. |
Íslenska auglýsingastofan ehf. (Hanna Lára Helgadóttir hrl.) gegn Friðriki Eysteinssyni (Ragnar Halldór Hall hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Í ehf. höfðaði mál á hendur F þar sem það krafðist þess að ummæli er F hefði haft í frammi á tveimur fundum hjá Samtökum garðyrkjubænda yrðu dæmd dauð og ómerk. Málinu var vísað frá héraðsdómi á þeirri forsendu að nauðsynlegt væri að tilgreina nákvæmlega þau orð, sem ómerkja ætti, en ekki væri nægilegt að krefjast þess að efnisinnihald þeirrar orðræðu sem F ætti að hafa viðhaft um Í ehf., yrði dæmt dautt og ómerkt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. nóvember 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Íslenska auglýsingastofan ehf., greiði varnaraðila, Friðriki Eysteinssyni, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2002.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 2. október sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, var höfðað fyrir dómþinginu af Íslensku auglýsingastofunni ehf., kt. 690488-1599, Laufásvegi 49-51, Reykjavík, á hendur Friðriki Eysteinssyni, kt. 120159-3999, Hamrahlíð 23, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 17. maí 2002.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: „Að ummæli stefnda er hann hafði í frammi á tveimur fundum hjá Samtökum garðyrkjubænda þann 22. apríl 2002 verði dæmd dauð og ómerk. Ummæli stefnda voru á þann veg að stefnandi hefði fé af viðskiptavinum sínum með því að framselja ekki fríbirtingar frá ljósvakamiðlunum til viðskiptamanna stefnanda.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 250.000 til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt eftir því sem ástæða þykir til á Málpípunni, vef RÚV um markaðsmál í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins. Málskostnaður beri dráttarvexti skv. 10. sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 að liðnum 15 dögum frá dómsuppsögu til greiðsludags.”
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara krefst hann sýknu. Þá krefst stefndi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, að skaðlausu, úr hendi stefnanda.
Hinn 2. október sl. fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda, og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær, að frávísunarkröfunni verði hrundið, en auk þess krefst hann málskostnaðar.
II
Stefnandi er auglýsingastofa, sem annast gerð auglýsinga. Stefndi er rekstararhagfræðingur og starfar hjá Vífilfelli ehf. Hefur hann, að eigin sögn, tekið að sér að ráðleggja Sambandi garðyrkjubænda á sviði stefnumótunar og markaðsmála, m.a. að því er varðar samninga við auglýsingastofur um auglýsingar. Þá er hann formaður Samtaka auglýsenda.
Hinn 22. apríl 2002 var haldinn fundur hjá Samtökum garðyrkjubænda að Súðavogi 2e, Reykjavík. Stefndi kveður, að það, sem fram hafi farið á þessum fundi, hafi átt að vera algjört trúnaðarmál, að ósk fyrirsvarsmanna stefnanda. Á fundinn mættu stefndi, sem ráðgjafi Samtaka garðyrkjubænda, Ragnar Kristinn Kristjánsson, sveppabóndi, Pálmi Haraldsson, fyrirsvarsmaður Sölufélags garðyrkjumanna hf., Almar Hilmarsson, framkvæmdastjóri Banana ehf., og Gunnlaugur Karlsson, starfsmaður stefnanda. Stefnandi hafði annast markaðs- og auglýsingamál fyrir Samtök garðyrkjubænda, og var tilefni fundarins að ræða samstarf þessara aðila. Stefndi kveður, að með fundi þessara aðila hafi garðyrkjubændur viljað láta á það reyna, hvort þeir gætu náð samningi við stefnanda, annaðhvort um auglýsingagerð án birtingarþjónustu eða auglýsingagerð auk birtingaþjónustu og að þóknun fyrir hana yrði þá á grundvelli tímagjalds. Stefndi kveður niðurstöðu þessa fundar hafa verði þá, að starfsmaður stefnanda, Gunnlaugur, hafi þurft umhugsunarfrest. Var því ákveðinn annar fundur seinna um daginn.
Stefnandi kveður, að á fyrrgreindum fundi hafi stefndi haft uppi þau ummæli um stefnanda, sem hafi verið á þann veg, að stefnandi hefði fé af viðskiptavinum sínum með því að framselja ekki fríbirtingar frá ljósvakamiðlunum til viðskiptavina sinna. Stefndi mótmælir þessari fullyrðingu stefnanda í greinargerð, sem rangri.
Á framhaldsfundi fyrrgreindra aðila, sem haldinn var síðar sama dag, mættu auk þeirra, sem sátu fyrri fundinn, forsvarsmenn stefnanda, Jónas Ólafsson og Ólafur Ingi Ólafsson. Kveður stefnandi, að stefndi hafi þar ítrekað fyrri ummæli sín og neitað að taka þau til baka, þrátt fyrir að honum hafi ítrekað verið gefinn kostur á því. Í stefnu er tilgreint, að Ólafur Ingi Ólafsson, fyrirsvarsmaður stefnanda, hafi þar spurt stefnda, hvort hann gæti staðfest ummæli sín á eftirgreindan hátt: „Getur þú ekki Friðrik að minnsta kosti staðfest að þú getir ekki staðfest að við framseljum ekki fríbirtingar til kúnnanna okkar? Nei það get ég ekki. En getur þú þá staðfest að við framseljum þær ekki? Já. Getur þú staðfest það skriflega? Nei. Hvernig getur þú þá staðfest það. Ja, jú ég man það núna að ég get staðfest það.” Stefndi kveðst ekki muna orðrétt, hvað hver sagði, en fyrirsvarsmenn stefnanda hafi átt frumkvæðið að umræðunni, og hafi stefndi leitast við að svara þeim.
Stefndi kveður niðurstöðu fundarins hafa verið þá, að stefnandi hafi hafnað fyrrgreindri beiðni Sambands garðyrkjubænda um greiðslukjör.
III
Stefndi byggir aðalkröfu sína, um frávísun málsins, á því, að kröfugerð stefnanda og málatilbúnaður allur sé andstæður meginreglu réttarfars um skýra og ákveðna kröfugerð. Í stefnu skuli greina dómkröfur, svo sem refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir, ómerkingu tilgreindra ummæla. Kröfugerð stefnanda í stefnu sé bæði óljós og óákveðin, og þau orð, sem krafist er að dæmd verði dauð og ómerk, séu ekki tilgreind. Kröfugerðin sé því andstæð fyrirmælum 1. málsl. 4. mgr. 114. gr. og d- lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málatilbúnaður stefnanda sé vanreifaður og óljós. Þau ummæli, sem stefndi hafi átt að hafa uppi, séu hvergi tilgreind. Engin útlistun sé á því, hvað sé átt við með „fríbirtingu frá ljósvakamiðlunum”. Ekki sé heldur lýst, við hvaða aðstæður ummæli stefnda hafi átt að vera sögð eða í hvaða samhengi og ekki lýst afstöðu stefnanda til sannleiksgildis ummælanna. Reifun stefnanda á málsástæðum sé verulega áfátt og uppfylli ekki fyrirmæli e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Af þessum sökum beri að vísa málinu frá dómi, án kröfu.
Stefnandi hafnar því, að taka beri frávísunarkröfu stefnda til greina, þar sem stefna og kröfugerð fullnægi skilyrðum laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Ummæli stefnda um stefnanda hafi hvorki verið tekin upp né rituð niður, en það sem skipti máli sé efnisinnihald þess, sem sagt var. Stefndi hafi ekki hafnað því að hafa viðhaft þau ummæli, sem stefnt sé vegna. Ummæli stefnda hafi verið ærumeiðandi og sögð í þeim tilgangi að kasta rýrð á stefnanda.
IV
Kröfugerð stefnanda lýtur að því að fá dæmd dauð og ómerk ummæli stefnda, sem hann á að hafa viðhaft á tveimur fundum hinn 22. apríl 2002. Er dómkröfunnar getið hér að framan, í kafla I. Í kafla um málsástæður og lagarök í stefnu segir, að „krafa stefnanda sé, að ummæli stefnda er hann hafði frammi á fundum hjá Samtökum garðyrkjubænda og getið er í dómkröfum og málavaxtalýsingu verði dæmd dauð og ómerk.”
Samkvæmt c-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skal, eins og þar segir, í stefnu greina svo glöggt, sem verða má, dómkröfur stefnanda:
„refsingu fyrir tilgreind orð eða athafnir, ómerkingu tiltekinna ummæla”. Í meiðyrðamáli og samkvæmt fyrrgreindu ákvæði laga um meðferð einkamála er gerð sú krafa, að skýrt sé og afmarkað, hver þau ummæli séu, sem krafist er ómerkingar á, og tilgreind nákvæmlega þau ummæli ein, sem átalin eru. Eins og dómkrafa stefnanda er fram sett og lýsing á henni í stefnu, er ekki ljóst, hvaða ummæli það voru, sem stefndi lét falla um stefnanda og stefnandi telur vera ærumeiðandi. Með því að dómkrafa verður að vera skýrt afmörkuð var nauðsynlegt að tilgreina nákvæmlega þau orð, sem ómerkja á, en nægir ekki að krefjast þess, að efnisinnihald þeirrar orðræðu, sem stefndi á að hafa viðhaft um stefnanda, verði dæmt dautt og ómerkt. Bresta því lagaskilyrði fyrir því, að efnisdómur verði lagður á málið. Ber því þegar af þeirri ástæðu, að fallast á kröfu stefnda um frávísun málsins.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 60.000 krónur þar með talinn virðisaukaskattur.
Úrskurðinn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Íslenska auglýsingastofan ehf., greiði stefnda, Friðriki Eysteinssyni, 60.000 krónur í málskostnað.