Hæstiréttur íslands

Mál nr. 113/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði
  • Kröfugerð


                                     

Þriðjudaginn 26. febrúar 2013.

Nr. 113/2013.

A

(Leifur Runólfsson hdl.)

gegn

B og

C

(Gunnhildur Pétursdóttir hdl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. Kröfugerð.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár. B og C höfðu í upphafi máls gert þá kröfu að A yrði sviptur sjálfræði í sex mánuði en eftir að málið var tekið til meðferðar kröfðust þau þess að það yrði gert ótímabundið. Í dómi Hæstaréttar kom fram að héraðsdómari hefði verið bundinn af upphaflegri kröfu B og C og var A því sviptur sjálfræði í sex mánuði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2013, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.

Í 1. mgr. 8. gr. lögræðislaga er kveðið á um form og efni kröfu um lögræðissviptingu, þar á meðal segir í d. lið hennar að sé krafist tímabundinnar lögræðissviptingar skuli tilgreina til hve langs tíma það skuli gert. Ekki er tekið fram í lögræðislögum að breyta megi slíkri kröfu undir rekstri máls, en eftir 7. mgr. 10. gr. laganna getur sóknaraðili afturkallað kröfuna á hvaða stigi máls sem er.  Samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar sæta mál til sviptingar lögræðis almennri meðferð einkamála með þeim frávikum sem í lögunum greinir. Af þessu verður ráðið að dómari sé bundinn af kröfu um tímabundna sviptingu lögræðis að því leyti að hann geti ekki markað henni lengri tíma en þar er krafist.

Í upphafi kröfðust varnaraðilar þess að sóknaraðili yrði sviptur sjálfræði tímabundið í 6 mánuði á grundvelli a. og b. liðar 4. gr. lögræðislaga. Eftir að málið hafði verið tekið til meðferðar í samræmi við ákvæði 10. gr. og 11. gr. lögræðislaga var af hálfu varnaraðila lögð fram bókun þar sem þess var krafist að sóknaraðili yrði sviptur sjálfræði ótímabundið. Samkvæmt framansögðu var héraðsdómari hins vegar bundinn af upphaflegri kröfu varnaraðila um tímabundna sviptingu sóknaraðila í sex mánuði. Í ljósi þess, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á þá kröfu eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Sóknaraðili, A, er sviptur sjálfræði í sex mánuði frá 14. febrúar 2013 að telja.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Leifs Runólfssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur, og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, B og C, Gunnhildar Pétursdóttur héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

                                               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2012.

                Með beiðni, dagsettri 28. janúar sl. hefur Gunnhildur Pétursdóttir hdl. krafist þess fyrir hönd B, kt. [...], og C, [...], til heimilis í [...], Reykjavík, að sonur þeirra, A, [...], [...], [...], verði sviptur sjálfræði í 6 mánuði vegna geðsjúkdóms og efnafíknar, sbr. a- og b- liði 4. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Þá hefur lögmaðurinn krafist þess með bókun 13. þ.m. að sjálfræðissviptingin verði ótímabundin.

Var málið þingfest og tekið til úrskurðar 13. þ.m. Um aðild sóknaraðila vísast til 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.  

Beiðninni er mótmælt. Jafnframt er því mótmælt að viðbótarkrafa sóknaraðila um ótímabundna sjálfræðissviptingu fái að komast að í málinu þar sem hún sé of seint fram komin.  Dómurinn getur ekki fallist á það að síðari krafa sóknaraðila sé of seint fram komin í málinu, enda er hún gerð eftir að nýjar upplýsingar hafa komið fram í því.

Í staðfestu vottorði D geðlæknis kemur fram að ástæða hennar er sú að sterkur grunur sé um það að varnaraðili, sem nú sé í geðrofsástandi, sé haldinn geðrofssjúkdómi og jafnframt sé fyrir að fara fíkniefnavanda vegna neyslu kannabis, amfetamíns og kókaíns. Hann sé algerlega innsæislaus í sjúkdóm sinn og neiti að taka geðlyf.  Auk þess sé hann haldinn [...], [...], og hugsanlega einnig [...].  Í beiðninni og vottorðinu er lýst ýmsum sjúkdómseinkennum og undarlegum tiltækjum varnaraðila.  Varnaraðili hefur komið fyrir dóminn og er tal hans með annarlegum blæ.  Í vottorðinu segir að lokum að nauðsynlegt sé að svipta varnaraðila sjálfræði til þess að unnt sé að meðhöndla hann með lyfjum og vista hann á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild á Kleppsspítala.  Þar sé hægt að veita honum lengri meðferð en á móttökugeðdeild. 

Geðlæknirinn hefur komið fyrir dóm og látið í ljósi þá skoðun að 6 mánaða sjálfræðissvipting sé í styttra lagi.  Muni varnaraðili ekki öðlast innsæi í sjúkdóm sinn á þeim tíma og því ekki fást til þess að taka lyf við sjúkdóminum.  Til þess þurfi eins til tveggja ára sviptingu.  Kveðst læknirinn álíta að undirliggjandi sé geðrofssjúkdómur, geðklofi, en formleg greining sé nú geðrof af völdum vímuefna.  Þegar hins vegar sé höfð hliðsjón af frásögn foreldra af hátterni varnaraðila og því sem sjáist í fari hans á geðdeildinni virðist hann haldinn geðklofa.  Upp á síðkastið hafi varnaraðili verið fremur rólegur en stökkvi þó upp á nef sér annað veifið.  Hann sofi á næturnar alklæddur í setustofu og gangi með ranghugmyndir.  Hans sé vel gætt til þess að fyrirbyggja strok, enda hafi hann þegar strokið þaðan tvisvar sinnum.  

                Af því sem rakið hefur verið álítur dómurinn að varnaraðili sé haldinn geðsjúkdómi og að hann geti af þeim sökum ekki ráðið persónulegum högum sínum.  Ber að fallast á beiðni sóknaraðila og ákveða með heimild í a- lið 4. gr. lögræðislaga að A, kt. [...], [...], [...], skuli vera sviptur sjálfræði.  Þykir vera rétt að ákveða að sjálfræðismissirinn skuli vara í tvö ár.  

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þar með talda þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 180.000 krónur, og Leifs Runólfssonar hdl. 150.000 krónur.  Þóknunin er ákvörðuð með virðisaukaskatti.  Þá ber einnig að greiða úr ríkissjóði kostnað vegna læknisvottorðs, 47.700 krónur. 

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í tvö ár.

Kostnaður af málinu, þóknun til skipaðra talsmanna málsaðila, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 180.000 krónur, og Leifs Runólfssonar hdl. 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði svo og 47.700 krónur vegna læknisvottorðs.