Hæstiréttur íslands
Mál nr. 482/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 5. september 2008. |
|
Nr. 482/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi) gegn X (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.) |
Kærumál. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu lögreglustjóra um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. ágúst 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 6. október 2008 kl. 16.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann verjendaþóknunar vegna meðferðar máls í héraði og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Hvorki eru skilyrði til að dæma varnaraðila kærumálskostnað, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, né kostnað vegna þóknunar verjanda í héraði, sbr. 1. mgr. 44. gr. sömu laga.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. ágúst 2008.
Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 26. þ.m., er þess krafist að X kt. og heimilisfang [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. október 2008, kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglustjórans segir að mál sem kærði hefur viðurkennt aðild að og sæta rannsókn hjá lögreglu sé eftirtalin:
Að hafa þann 22. desember 2006 haft í vörslum sínum 9,9 g af amfetamíni og úðavopn er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...], (034-2006-13095)
Að hafa þann 8. maí 2007 haft í vörslum sínum 3,23 g af kannabisefni, 1,79 g af amfetamíni og 10 ml. af testosterone stungulyfi, er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...]. (008-2007-7551)
Að hafa þann 19. maí 2007 haft í vörslum sínum 0,57 g af hassi og 4,73 g af kókaíni er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...] (008-2007-8145)
Að hafa þann 8. júní 2007 haft í vörslum sínum 10,46 g af amfetamíni, 25,08 g af hassi, 20,05 g af ofskynjunarsveppum, 8 ml. af stungulyfinu Sustanon og 57 stk. af LSD er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...]. (008-2007-9475)
Að hafa þann 22. júlí 2007 haft í vörslum sínum 0,88 g af hassi er lögreglan lagði hald á er hann ók bifreiðinni [...] á Langholtsvegi við Laugarásveg, Reykjavík. (007-2007-56200)
Að hafa þann 25. júlí 2007 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna á Hafnargötu, Reykjanesbæ, uns bifreið hans og bifreiðinni YI-482 rákust á. (008-2007-12021)
Að hafa þann 31. ágúst 2007 haft í vörslum sínum 56,58 g af kannabislaufum, 19,24 g af marihuana og 13 kannabisplöntur er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...]. (008-2007-13800)
Að hafa þann 2. september 2007 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna á Suðurgötu við Faxabraut, Reykjanesbraut.(008-2007-13924)
Að hafa þann 20. mars 2008 haft í vörslum sínum til söludreifingar 392 stk. af Ecstasy-töflum er lögreglan lagði hald á í leigubifreið fyrir utan hús nr. [...] Reykjanesbæ. (008-2008-3512)
Að hafa þann 11. apríl 2008 haft í vörslum sínum 0,54 g af amfetamíni, 1,05 g af kannabisefni og eina ecstasy-töflu er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...]. (008-2008-4463)
Að hafa þann 30. apríl 2008 haft í vörslum sínum 0,53 g kannabisefni er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...]. (008-2008-5290)
Að hafa þann 17. maí 2008 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökuréttindum og án þess að hlýða stöðvunarmerkjum lögreglu norður Njarðarbraut, Reykjanesbæ. (008-2008-6034)
Að hafa þann 4. júlí 2008 haft í vörslum sínum 8,64 g af amfetamíni er lögreglan hafði afskipti af honum á tjaldstæði við Kalmansvík, Akranesi. (012-2008-2539)
Að hafa þann 19. júlí 2008 haft í vörslum sínum 2,35 er hann faldi í nærfötum sínum og lögreglan fann við líkamsleit á honum er hann var farþegi í bifreið við Klapparstíg, Reykjanesbæ. (008-2008-9315)
Að hafa þann 4. ágúst 2008 haft í vörslum sínum 5,38 g af amfetamíni er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...]. (008-2008-10087)
Að hafa þann 9. ágúst 2008 haft í vörslum sínum 1,89 g af kannabisefni er lögreglan fann við leit í bifreiðinni [...] þar sem kærði var farþegi greint sinn á Víkurbraut, Reykjanesbæ. (008-2008-10280)
Að hafa þann 25. ágúst 2008 haft í vörslum sínum um 30 g af amfetamíni er lögreglan lagði hald á á heimili hans að [...]. (008-2008-10991)
Þau mál sem lögregla hefur rökstuddan grun um að kærði hafi átt aðild að eru eftirtalin:
Að hafa þann 9. mars 2008 tekið bifreiðina [...] ófrjálsri hendi þar sem hún stóð bak við hús nr. [...] Reykjanesbæ og ekið henna undir áhrifum vímuefna og sviptur ökuréttindum á Reykjaensbraut við Strandarheiði, Reykjanesbæ þar sem hann ók á bifreiðina [...]. (008-2008-3003)
Að hafa þann 26. júlí 2008 í samvinnu við fleiri aðila ráðist að [...] aftan við [...] Reykjanesbæ, með þeim afleiðingum [...] fótbrotnaði.
Að hafa þann 24. ágúst 2008 haft í vörslum sínum um 30 g af amfetamíni er lögreglan fann á bifreiðastæði við Stekkjagötu, Reykjanesbæ.
Þá hefur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum þegar gefið út ákæru, dagsetta 24. júní sl., á hendur kærða, fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Vísast nánar til meðfylgjandi ákæruskjals varðandi þá ákæruliði. (mál nr. 008-2007-2958 og 10628 og 24-2007-6030)
Brot þau sem kærði er grunaður um að hafa framið, varða flest við ákvæði laga um ávana- og fíkniefna nr. 65/1974 en kunna jafnframt að varða við 259. og 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði hefur viðurkennt hjá lögreglu að vera fíkniefnaneytandi í töluverðri neyslu en hann hefur jafnframt viðurkennt að hafa stundað sölu og dreifingu fíkniefna og samkvæmt upplýsingum virðist sem hann sé nokkuð stórtækur á því sviði, mikil umferð er jafnan í kringum heimili hans og hann virðist vera mjög tengdur undirheimum fíkniefna. Ljóst er að brotaferill kærða er nær óslitinn frá vormánuðum 2007 og er það mat lögreglustjóra að brýn hætta sé á að kærði haldi áfram afbrotum meðan málum hans er ólokið fyrir dómi. Þá er það mat lögreglustjóra að kærði sé nú í mjög mikilli fíkniefnaneyslu og veruleg hætta sé á að lífi og heilsu hans sé ógnað vegna þess.
Vísar lögreglustjóri til framangreinds, hjálagðra gagna, c- og d-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Niðurstaða:
Við mat á því hvort fallast beri á kröfu um síbrotagæslu á grundvelli c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 vegna tíðra og endurtekinna brota sem framhald sé líklegt að verði á telur dómari að hafa verði í huga hvort brotahrinan ógni hagsmunum annarra en þess sem brotin fremur. Þau brot sem tíunduð hafa verið af sóknaraðila eru ólík að því leyti að mörg þeirra verða að teljast smávægileg en fæst alvarleg. Vegna meints brots gegn fíkniefnalögjöfinni, og vitnað er til, sem fólst í vörslum 392 taflna af ecstasy til söludreifingar var kærði úrskurðaður í gæsluvarðhald í viku á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þann 24. júní 2008 var gefin út ákæra á hendur kærða fyrir að hafa haft fíkniefni í fórum sínum. Samkvæmt sakavottorði kærða þá hefur hann á árunum 2003 til 2007 fimm sinnum sætt viðurlögum sem tengjast fíkniefnaneyslu hans. Fram kom í skýrslu kærða fyrir dóminum að hann neyti fíkniefna einu sinni til tvisvar sinnum í viku og að hann bíði þess að komast í meðferð sem hann hafi sótt um að fá. Brotaferill kærða virðist í meginatriðum tengjast fíkniefnaneyslu hans sjálfs en ekki fjármögnun hennar eða sölu fíkniefna. Fyrir liggur að kærði hefur haft ágætar tekjur undanfarið. Að öllu virtu telur dómari ekki efni til að fallast á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald. Er dómari þeirrar skoðunar að vísun til d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 geti ekki átt við í máli þessu eins og rökstuðingi er háttað af hálfu sóknaraðila.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum um að [...] sæti gæsluvarðhaldi er hafnað.