Hæstiréttur íslands
Mál nr. 314/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Hjón
- Fjárskipti
|
|
Þriðjudaginn 13. júní 2006. |
|
Nr. 314/2006. |
M(Jón G. Briem hrl.) gegn K(Sigurmar K. Albertsson hrl.) |
Kærumál. Hjón. Fjárskipti.
Í máli vegna ágreinings um fjárskipti við hjónaskilnað þóttu ekki efni til að víkja frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2006, þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum varðandi opinber skipti til fjárslita milli aðilanna vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að felldur verði úr gildi kaupmáli 16. október 2004 og að við skiptin verði byggt á kaupmála aðila 24. ágúst 1992 eða að byggt verði á 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um skiptin. Ennfremur krefst hann staðfestingar á þeirri niðurstöðu héraðsdóms að hafna kröfu varnaraðila um að fyrirframgreiddur arfur teljist séreign hennar og jafnframt verði hafnað kröfu varnaraðila um að helmingur nettóandvirðis fasteignarinnar að A, komi í hlut hennar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti 31. maí 2006. Hún krefst þess aðallega að um fjárskipti milli aðila verði farið að reglu 103. gr. hjúskaparlaga, þó þannig að fyrirframgreiddur arfur teljist séreign hennar. Til vara krefst hún staðfestingar hins kærða úrskurðar en að því frágengnu að hún fái í sinn hlut helming nettóandvirðis fasteignarinnar að A. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2006.
Með bréfi skiptastjóra mótteknu 21. desember 2005 var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 20. janúar 2006 og tekið til úrskurðar 28. apríl sl.
Sóknaraðili er M, [kt.].
Varnaraðili er K, [kt.].
Sóknaraðili gerir aðallega þær dómkröfur að kaupmáli dags. 16.10.2004 verði metinn ógildur og að fjárskipti milli aðilja verði byggð á kaupmála dags. 24.8.1992. Til vara er þess krafist að vikið verði frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 og byggt á 104. gr. þeirra laga.
Þá krefst sóknaraðili þess að kröfu varnaraðila um að fyrirframgreiddur arfur til hennar teljist séreign verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi:
1. Að um skipti milli aðila fari eftir reglum 103. gr. laga nr. 31/1993, þ.e. að um helmingaskipti verði að ræða og kaupmáli frá 16.10.2004 verði metinn gildur.
2. Þá er þess krafist að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að vikið verði frá reglum 103. gr. og byggt verði á 104. gr. laga nr. 31/1993.
3. Að fyrirfram greiddur arfur til varnaraðila þann 21.2.2005 teljist séreign.
4. Til vara er þess krafist að varnaraðili teljist eiga helming af nettó andvirði [fasteignarinnar að A] og reglu 104. gr. laga nr. 31/1993 verði beitt á þann hátt að fyrirfram greiddur arfur komi allur í hlut varnaraðila.
5. Þá er krafist málskostnaðar.
I
Áður en málsaðilar gengu í hjónaband á árinu 1992 gerðu þeir með sér kaupmála og er hann dagsettur 24. ágúst það ár. Í kaupmálanum er kveðið á um að íbúð í húsinu B í Reykjavík, bifreið, hlutabréf í C hf. og hlutabréf í D hf. skuli vera séreignir sóknaraðila. Þá er kveðið á um að arður og það sem í stað séreignar kemur skuli vera séreign. Varnaraðili átti ekki eignir við hjúskaparstofnun.
Með kaupmála dagsettum 16. október 2004 felldu aðilar niður kaupmálann frá 1992. Kaupmálinn ber með sér að hafa verið skrásettur 29. október 2004 og heldur sóknaraðili því fram að hann hafi verið undirritaður þann dag. Varnaraðili telur hins vegar að kaupmálinn hafi verið undirritaður um miðjan október.
Í kaupmálanum dags. 16. október 2004 er kveðið á um að í hjúskap málsaðila verði eftirleiðis eingöngu um hjúskapareignafyrirkomulag að ræða, sbr. lög nr. 31/1993. Kaupmálinn, sem ber með sér að hafa upphaflega verið dagsettur 16. mars 2004, var undirritaður á skrifstofu Sigurðar Georgssonar hrl. sem vottar rétta dagsetningu, undirritun og fjárræði aðila.
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi lengi verið búinn að reyna að fá hann til að fella niður kaupmálann frá 1992 en hann alltaf neitað því staðfastlega. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að það hafi verið sameiginleg ákvörðun þeirra, sem átt hafi sér aðdraganda, að fella niður kaupmálann. Kveður varnaraðili sóknaraðila sjálfan hafa hringt til lögmannsins um helgi í lok febrúar 2004 og beðið hann að útbúa kaupmálann en farist hafi fyrir að undirrita hann og svo hafi hann ekki fundist um sumarið þegar hafi átt að gera það. Sóknaraðili kveður það hins vegar vera rangt að hann hafi beðið lögmanninn að útbúa kaupmálann.
Fyrir liggur að í umrætt sinn komu málsaðilar á skrifstofu hæstaréttar-lögmannsins ásamt E vini sóknaraðila og að fundað var um fasteign í Danmörku sem sóknaraðili kveðst hafa verið niðurbrotinn út af. Sóknaraðili lýsir aðdraganda þess að hann ritaði undir kaupmálann þannig að þegar búið hafi verið að afgreiða málið varðandi húsið hafi varnaraðili spurt lögmanninn hvort hann væri ekki með einhvern pappír. Lögmaðurinn hafi þá dregið kaupmálann upp og hann skrifað undir skjalið en hann muni ekki hvort hann las það áður. Kveður sóknaraðili lögmanninn ekki hafa útskýrt fyrir honum þýðingu þess að hann undirritaði kaupmálann. Hann hafi þegar þetta var verið illa haldinn af þunglyndi og því látið undan þrýstingi varnaraðila án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Lýsir sóknaraðili ástandi sínu þannig að á þessum tíma hafi hann ekki haft uppburði til að takast á við lífið.
Vitnið E sem var á umræddum fundi hefur borið á sama veg og sóknaraðili um aðdraganda þess að kaupmálinn var undirritaður og staðfest að engar umræður hafi átt sér stað um hann.
Varnaraðili heldur því hins vegar fram að byrjað hafi verið á því að undirrita kaupmálann. Lögmaðurinn hafi ekki útskýrt þýðingu kaupmálans en hann hafi verið búinn að því margsinnis áður.
Meðal gagna málsins er bréf Sigurðar Georgsson hrl., dagsett 9. nóvember 2005, þar sem fram kemur að málsaðilar hafi í mars 2004 farið þess á leit við hann að hann drægi upp skjal sem felldi niður kaupmála sem þau hefðu gert á árinu 1992. Eitthvað hafi dregist að þau kæmu og undirrituðu niðurfellinguna og svo þegar þau hafi komið um sumarið í fyrra hafi hann ekki fundið afsalið. Í október sama ár hafi þau svo komið saman á skrifstofuna og undirritað og farið sjálf til sýslumanns, að því er hann best viti, til skráningar. Hann kannist ekki við að aðstæður eða ástand sóknaraðila hafi verið að neinu leyti óeðlilegt þegar undirskriftir fóru fram að minnsta kosti hafi hann ekki orðið slíks var.
Fyrir liggur að sóknaraðili leitaði til bráðaþjónustu geðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahús 21. október 2004 vegna þunglyndiseinkenna. Var varnaraðili með honum í för. Heldur varnaraðili því fram að andlegt ástand sóknaraðila umrætt haust hafi ekki verið verra en oft áður.
Meðal gagna málsins er læknisvottorð Þórunnar Ársælsdóttur geðlæknis, dagsett 9. nóvember 2004, en í samantekt þess kemur fram að sóknaraðili hafi greinst með þunglyndi af meðalalvarlegu stigi í október 2004. Geðrofseinkenni hafi ekki verið til staðar, sjúkdómsinnsæi hans hafi verið gott og hann ekki verið metinn með skerðingu á vitrænni starfsemi á þessu tímabili. Almennt megi segja að það geti verið auðveldara að fá fólk sem er veikt til að láta undan þrýstingi annarra, en það sé ógerlegt að fullyrða um hvernig málum hafi verið háttað í þessu tilefni.
Vinir sóknaraðila, þeir E, F og G hafa með utanréttarvottorðum sem þeir hafa staðfest fyrir dómi borið um bága andlega heilsu sóknaraðila á umræddum tíma.
Vitnið E kveður sóknaraðila hafa leitað til hans og spurt hann ráða vegna andlegs ástands síns í september 2004 en sóknaraðili hafi vitað að hann þekkti til þunglyndis af eigin raun. Ástand sóknaraðila hafi einkennst af miklum kvíða fyrir öllu sem hann þurfti að takast á við, svefntruflunum og minnisleysi. Þá hafi hann átt erfitt með að taka ákvarðanir og verið haldinn andlegri vanlíðan. Hann hafi ráðlagt sóknaraðila að fara til læknis.
Vitnið F, sem kveðst hafa þekkt sóknaraðila vel undanfarin sex ár, kveðst hafa séð greinileg merki um andlega erfiðleika hjá honum. Hann hafi verið þunglyndur og minnið lélegt. Haustið 2004 hafi allur andlegur kraftur verið úr honum horfinn. Sóknaraðili hafi að hans mati alls ekki verið fær um að taka ákvörðun um niðurfellingu kaupmálans í því ástandi sem hann var. Hann hafi verið gjörsamlega ófær um að taka alvarlegar ákvarðanir.
Vitnið G kveðst hafa haustið 2004 farið að taka eftir breytingum á sóknaraðila og séð hjá honum einkenni eins og hjá manni sem hann hafi unnið með og haldinn var þunglyndi. Sóknaraðili hafi verið ráðvilltur, helst ekki viljað tala við neinn, sofið mikið og átt erfitt með að taka ákvarðanir. Það hafi verið mjög auðvelt að hafa áhrif á hann og stjórna því sem hann gerði. Hann hafi samsinnt öllu sem sagt var við hann.
Með kaupsamningi dags. 28. október 2004 seldi sóknaraðili fasteignina H. Með kaupsamningi dags. 26. nóvember s.á. keyptu málsaðilar fasteignina A.
Þann 21. febrúar 2005 fékk varnaraðili fyrirframgreiddan arf frá föður sínum.
Þann 14. mars 2005 sækir varnaraðili um skilnað að borði og sæng frá sóknaraðila. Varnaraðili kveðst hafa gefist upp á hjúskapnum í kjölfar þess að sóknaraðili krafðist þess að hún krefði föður sinn um fé til að standa straum af rekstri og peningaútlátum vegna meðferðarheimilis í Danmörku, sem málsaðilar höfðu lagt fé í, en hún hafi ekki viljað það. Í kjölfarið hafi sóknaraðili hótað henni skilnaði. Sóknaraðili neitar að þetta sé rétt.
Með yfirlýsingu dagsettri 26. apríl 2005 lýsir faðir varnaraðila því yfir að fyrirframgreiddi arfurinn og það sem kunni að koma í hans stað skuli vera séreign barna hans.
Með úrskurði uppkveðnum 8. ágúst 2005 var bú aðila tekið til opinberra skipta.
II
Sóknaraðili byggir á að hann geti gefið þá skýringu eina á því að hann hafi að lokum fallist á niðurfellingu kaupmálans að hann hafi á þeim tíma verið það andlega veikur að hann hafi ekki haft nokkurt þrek til að standa gegn ósk varnaraðila þar að lútandi. Vottorð læknis og kunnugra staðfesti það. Telur sóknaraðili varnaraðila hafa vitað um andlegt ástand hans og það að hann var mjög veikur fyrir þrýstingi og hafa notfært sér það til að eignast hlut í eignum hans. Hann hafi verið mættur á skrifstofu lögmanns út af allt öðru máli þegar afturköllunin hafi verið lögð fyrir hann án nokkurra umræðna eða skýringa lögmannsins sem hana samdi. Telur sóknaraðili að varnaraðili hafi verið búinn að ákveða að skilja við hann um leið og hún hefði eignast hlutdeild í eignum hans. Það byggi hann á tvennu, þ.e. að varnaraðili hafi verið farin að halda við annan mann á þeim tíma sem kaupmálinn var felldur niður, þótt hann hafi ekki komist að því fyrr en löngu síðar. Þá sæki varnaraðili um skilnað eftir 12 ára hjónaband innan 5 mánaða frá því að hún fékk hlutdeild í eignum sóknaraðila. Telja verði afar ósennilegt með tilliti til þess hve lengi hjúskapurinn hafði staðið að hugmynd sem þessi kvikni og sé framkvæmd á svona skömmum tíma, nema undirbúningur og ákvörðun hafi verið tekin miklu fyrr. Sóknaraðili telji sig ekki hafa haft neina ástæðu til að ætla á þessum tíma að hjúskapnum væri að ljúka, þvert á móti hafi varnaraðili ítrekað lýst því yfir að hún ætlaði að eyða því sem eftir væri ævinnar með honum.
Sóknaraðili telur að í samningum sem þessum verði að leggja höfuðáherslu á vilja þess sem gefur en ekki á hvað móttakandi mátti ætla. Telur sóknaraðili að varnaraðili hefði ekki átt að taka við því sem fólst í afturköllun kaupmálans þar sem henni hafi verið fullljóst hvernig andlegt ástand hans var og því algerlega óvíst að hann vildi raunverulega breyta fjárhagsskipan þeirri sem var. Sóknaraðili telur það einnig óheiðarlegt af varnaraðila að geta þess ekki að hún væri farin að halda við annan mann og að hún hefði í hyggju að skilja innan fimm mánaða. Hafi varnaraðili mátt vita að þótt sóknaraðili hefði aðeins vitað um annað þessara atriða myndi hann ekki hafa fallist á niðurfellingu kaupmálans, jafnvel ekki þótt hann væri eins veikur og raun ber vitni.
Telur sóknaraðili að við túlkun á þeim gerningi sem fram fór með afturköllun kaupmálans skuli byggt á að hér hafi verið um gjafagerning að ræða sem verði ekki efndur fyrr en við lok fjárslita. Þar með hafi dómstóll mun rýmri heimild til að fallast á að hann verði ekki bundinn við afturköllunina.
Verði fallist á þessa kröfu telur sóknaraðili það eiga að leiða til þess að hann eigi I ehf. og A sem séreign sem haldið verði utan skipta. I ehf. hafi þróast af þeirri eign sem fram komi í c-lið 1. gr. kaupmálans frá 1992, þ.e. hlutabréfunum í C hf. Þá hafi A verið greidd beint með andvirði H en þá eign hafi sóknaraðili keypt fyrir m.a. andvirði B, sem hafi verið séreign hans samkvæmt a-lið kaupmálans.
Málsaðilar hafi við gerð kaupsamnings um A verið skráðir eigendur að jöfnu en það hafi verið gert vegna þeirrar skipunar sem var á fjármálum þeirra eftir niðurfellingu kaupmálans.
Um lagarök í þessum þætti vísar sóknaraðili til meginreglna um almennan heiðarleika í samningum og annarra sjónarmiða sem fram koma í III. kafla laga nr. 7/1936 sem hafa megi til hliðsjónar svo og sambærileg ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er byggt á almennum reglum um túlkun samninga og brostnar forsendur.
Varakrafa sóknaraðila er byggð á því að sóknaraðili hafi við stofnun hjúskapar lagt fram allar eignir sem þau hafi átt og staðið straum af kostnaði við rekstur þeirra og aukið verðgildi með sínum eigin framlögum. Hann hafi allan hjúskapartímann haft ágæt laun, mun meiri en varnaraðili. Varnaraðili hafi aðeins lagt fram skuldir í upphafi hjúskapar. Einnig hafi sóknaraðili fengið tryggingabætur um kr. 20.000.000 á árinu 1993 vegna báts sem fórst 1989. Árið 1996 eða 1997 hafi sóknaraðili selt hlutabréf í J ehf. fyrir kr. 20.000.000 en þau hafði hann fengið í fyrirframgreiddan arf. Það verði því að teljast bersýnilega ósanngjarnt að varnaraðili eignist hlut í eignum sóknaraðila við skilnaðinn. Ennfremur megi líta til þess að það eina sem varnaraðili hafi lagt til eignamyndunar í hjúskap þeirra sé fyrirframgreiddur arfur sem hún geri kröfu um í máli þessu að teljist séreign hennar. Megineignir sóknaraðila við upphaf hjúskapar séu taldar upp í kaupmálanum. Eignir þær sem komi í staðinn séu I ehf. og A, auk helmingshlutar í fasteign aðilja á Spáni. Sóknaraðili krefjist þess að I ehf. og A verði haldið utan skipta og hann fái að taka þær til sín af óskiptu.
Sóknaraðili mótmælir því að arfur sá er varnaraðili fékk í febrúar 2005 teljist séreign hennar og byggir á að samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 77. gr. hjúskaparlaga skuli ákvörðun um slíkt vera í erfðaskrá. Yfirlýsingu föður varnaraðila dags. 26.4.2005 sé ekki erfðaskrá. Þá sé ljóst að varnaraðili hafi fengið arfinn með undirritun erfðafjárskýrslu dags 21.2.2005, staðfestri 22.2.2005. Byggt sé á að eftir að arfur fellur geti arfleifandi ekki ákveðið að hann verði séreign þess sem hann fékk. Þá sé þess að geta að viðmiðunardagur við skiptin sé 14. mars 2005 og sé því mótmælt að arfleifandi geti eftir það haft áhrif á skiptin með því að gera hluta hjúskapareigna að séreign.
III
Varnaraðili byggir á að fyrri kaupmáli hafi verið felldur niður með sameiginlegri ákvörðun aðila þann 16. október 2004 en hann hafi verið tilbúinn til undirskriftar 16. mars 2004. Staðfest sé af sameiginlegum lögmanni málsaðila að þau hafi bæði viljað fella eldri kaupmála niður en það hafi dregist að þau kæmu til undirskrifta og síðan hefði skjalið ekki fundist þegar til átti að taka og loks hafi verið skrifað undir í október 2004. Það hafi því verið liðið rúmt ár frá því að ákveðið var að fella niður kaupmálann þar til að skilnaði dregur. Þá sé fullyrt í bréfi lögmannsins að engar óeðlilegar aðstæður hafi verið við undirskriftir né eitthvað athugavert við ástand sóknaraðila.
Sem frekari rök fyrir því að niðurfelling eldri kaupmála sé góð og gild bendir varnaraðili á að málsaðilar hafi selt eign í [...], sem einungis var á nafni sóknaraðila, og keypt aðra í [...] þar sem eignarhlutföll séu jöfn.
Varnaraðili mótmælir því harðlega að hún hafi fengið sóknaraðila með blekkingum til að fella niður kaupmálann. Ekkert komi fram í læknisvottorði um að sóknaraðili hafi verið ófær um að ráða gjörðum sínum, þó svo að þar sé lýst ýmsum persónulegum vandamálum. Þá hafi vottorð vina ekkert að segja um niðurstöðu málsins.
Hins vegar bendi margt til þess að allt sé með eðlilegum hætti með niðurfellingu eldri kaupmála. Áréttað sé að ákvörðun um niðurfellingu var tekin rúmu ári áður en til skilnaðar kom. Þar hafi verið tekin ákvörðun um nýtt heimili í [...] sem aðilar kaupi í jöfnum hlutföllum og hafi báðir tekið þátt í að undirbúa. Varnaraðili hafi fengið stórar fjárhæðir í fyrirframgreiddan arf þremur vikum áður en til skilnaðar kom, en því samt ekki sinnt að eyða öllum efasemdum um að arfurinn sé séreign varnaraðila.
Því er mótmælt að 104. gr. laga nr. 31/1993 eigi við. Lagagreinin sé undantekning frá þeirri meginreglu sem komi fram í 103. gr. s.l. og er vísað til dómafordæma þar sem iðulega sé hafnað beitingu greinarinnar og þar sem henni hafi verið beitt sé vísað til þess að hjúskapur hafi staðið skamma hríð eða mjög afbrigðilegra aðstæðna.
Óumdeilt sé að ekki sé kveðið á um það í erfðafjárskýrslu að fyrirframgreiddur arfur til varnaraðila sé séreign en úr því hafi hins vegar verið bætt með yfirlýsingu arfláta sem sé skráð hjá sýslumanni Snæfellinga og færð þar til bókar. Því sé í sjálfu sér fullnægt ákvæðum 77. gr. hjúskaparlaga. Þá er á því byggt að arfláti hljóti að hafa fullt vald til þessa gernings og að ákvörðun um þessa skipan mála sé tekin í lifanda lífi.
Um varakröfu vísar varnaraðili til þess að kaupin á A séu gerð í nafni beggja aðila og ekki nokkur fyrirvari þar af hálfu sóknaraðila við þann gerning og eigninni þinglýst á nafn beggja aðila. Þá sé vísað til 1. mgr. 104. gr. laga nr. 31/1992 vegna kröfu um að fyrirframgreiddur arfur frá föður varnaraðila komi allur í hennar hlut.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega sem röngum utanréttarvottorðum vina sóknaraðila.
IV
Mál þetta snýst aðallega um gildi kaupmála milli málsaðila sem er dags. 16.10.2004 en með honum var felldur úr gildi kaupmáli aðila dags. 24.8.1992 sem kvað á um að tilteknar eignir sóknaraðila og það sem að í stað þeirra kæmi skyldi vera séreign sóknaraðila.
Fyrir liggur að umræddur kaupmáli var upphaflega dagsettur 16. mars 2004. Hefur Sigurður Georgsson hrl. með bréfi sem er meðal gagna málsins staðfest að málsaðilar hafi í mars 2004 farið þess á leit við hann að hann útbyggi niðurfellingu á kaupmálanum frá árinu 1992. Eitthvað hafi dregist að þau kæmu og undirrituðu skjalið og svo þegar þau hafi komið um sumarið hafi hann ekki fundið það. Sigurður Georgsson hæstaréttarlögmaður lést fyrir aðalmeðferð málsins og er því ekki við vitnaframburð hans að styðjast í málinu. Varnaraðili hefur skýrt frá aðdraganda þess að kaupmálinn dags. 16. október 2004 var undirritaður með sama hætti og fram kemur í bréfi hæstaréttarlögmannsins. Þá er á það að líta að skjalið sjálft ber með sér að hafa upphaflega verið dagsett 16. mars 2004. Að þessu virtu þykir ekki óvarlegt við það að miða að kaupmálinn hafi verið tilbúinn til undirritunar í mars 2004 eða um ári áður en varnaraðili sækir um skilnað frá sóknaraðila.
Sóknaraðili ber að í lok fundar með lögmanninum í október 2004 hafi varnaraðili lögmanninn eftir pappír og að hann hafi þá dregið kaupmálann upp og lagt fyrir hann til undirritunar án nokkurra umræðna eða skýringa. Hefur vitnið E, sem var á fundinum, staðfest að aðdragandi undirritunarinnar hafi verið með þessum hætti og að engar umræður hafi átt sér stað um skjalið.
Varnaraðili, sem heldur því fram að undirritun kaupmálans hafi farið fram við upphaf umrædds fundar, hefur staðfest að lögmaðurinn hafi ekki útskýrt hvaða þýðingu undirritun kaupmálans hefði á fundinum en kveður hann hafa verið margbúinn að gera það áður.
Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi notfært sér andlegt ástand hans til að fá hann til að fella niður kaupmálann frá 1992 og beitt svikum í því skyni að eignast hlutdeild í eignum hans.
Fyrir liggur að sóknaraðili leitaði til bráðaþjónustu geðdeildar Landspítala Háskólasjúkrahús 21. október 2004 vegna þunglyndiseinkenna.
Þá liggur fyrir í málinu vottorð geðlæknis þar sem fram kemur að sóknaraðili hafi greinst með þunglyndi af meðalalvarlegu stigi í október 2004. Sjúkdómsinnsæi hans hafi verið gott og hann ekki verið metinn með skerðingu á vitrænni starfsemi á þessu tímabili. Almennt megi segja að það geti verið auðveldara að fá fólk sem er veikt til að láta undan þrýstingi annarra, en það sé ógerlegt að fullyrða um hvernig málum hafi verið háttað í þessu tilefni.
Af vitnisburði læknisins fyrir dóminum og vottorði hans, sem hann staðfesti, þykir ljóst að ekki liggi fyrir að veikindi sóknaraðila hafi haft áhrif á vitræna starfsemi hans og að ógerlegt sé að fullyrða að veikindi hans hafi haft þau áhrif að auðveldara hafi verið að fá hann til að láta undan þrýstingi. Samkvæmt því þykir, þrátt fyrir framburði vina sóknaraðila sem meta verður með hliðsjón af tengslum þeirra við sóknaraðila og því að þeir eru leikmenn, ekkert það fram komið í málinu sem byggjandi er á sem styður þá fullyrðingu sóknaraðila að þunglyndi hans hafi verið með þeim hætti að hann hafi ekki getað staðið gegn ósk sóknaraðila um að hann undirritaði kaupmálann. Þykir því að verða að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi verið svo heill heilsu andlega, að hann hafi verið hæfur til að undirrita kaupmálann, en ósannað þykir að hann hafi verið beittur einhverskonar þrýstingi af hálfu varnaraðila til þess. Þessu til frekari stuðnings er það sem fram kemur í tilvitnuðu bréfi lögmannsins varðandi það að hann kannist ekki við að aðstæður eða ástand sóknaraðila hafi verið að neinu leyti óeðlilegt þegar undirskriftir fóru fram að minnsta kosti hafi hann ekki orðið slíks var.
Fyrir liggur að í beinu framhaldi af fundinum hjá lögmanninum var farið með kaupmálann til skráningar hjá sýslumanni og að E var með í för. Í utanréttarvottorði vitnisins sem það hefur staðfest fyrir dóminum kemur fram að sóknaraðili hafi meðan varnaraðili var inni hjá sýslumanni tjáð honum að skjalið væri aflýsing á kaupmála þeirra á milli og síðan bætt við “ætli hún noti ekki sjensinn og skilji við mig þegar hún er búin að fá þetta í gegn og henni liggur það mikið á að ég má ekki keyra þig fyrst”.
Með hliðsjón af framangreindu þykir staðfest að sóknaraðila var vel ljóst hvert skjal hann hafði undirritað þó svo að skort hafi á útskýringar af hálfu lögmannsins við undirritun þess.
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi beitt hann svikum þ.e. leynt hann því að hún héldi við annan mann og að hún ætlaði að skilja við sóknaraðila. Ekkert þykir fram komið í málinu sem byggjandi er á sem styður þessar staðhæfingar sóknaraðila. Þá er á það að líta ,eins og áður greinir, að við það þykir verða að miða að umræddur kaupmáli hafi verið tilbúinn til undirritunar 16. mars 2004 eða u.þ.b. ári áður en varnaraðili sækir um skilnað.
Samkvæmt öllu framanröktu er það niðurstaða dómsins að sóknaraðila hafi ekki tekist að hnekkja gildi kaupmálans frá 16. október 2004.
Þann 21. febrúar 2005 fékk varnaraðili fyrirframgreiddan arf frá föður sínum sem samkvæmt yfirlýsingu föðurins dags. 26. apríl s.á. skal vera séreign sóknaraðila.
Verður því að hafna kröfu varnaraðila um að arfurinn verði talinn séreign hennar við skiptin á búi aðila.
Hjúskapur aðila stóð í nærri 13 ár. Liggur ekki annað fyrir en að á þeim tíma hafi myndast með þeim fjárhagsleg samstaða. Að öllu virtu verður ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 104. gr. laga nr. 31/1991 til að víkja frá reglum um helmingaskipti.
Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að um skipti á búi aðila skuli fara eftir helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Við opinber skipti milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, skal fara samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Málskostnaður fellur niður.