Hæstiréttur íslands

Mál nr. 622/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann

Reifun

Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og  Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. september 2016, sem barst héraðsdómi 8. sama mánaðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 31. ágúst 2016 um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur, til vara að hann verði felldur úr gildi, en að því frágengnu að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili reisir ómerkingarkröfu sína á því að sóknaraðili hafi ekki stutt kröfu sína um nálgunarbann „öllum nauðsynlegum gögnum“ og hafi héraðsdómari átt að hlutast til um að frekari gagna yrði aflað og þau lögð fram. Tilefni nálgunarbanns þess, sem hér um ræðir, er kæra brotaþola 31. ágúst 2016, þar sem hún greindi meðal annars frá símhringingum frá varnaraðila til hennar í lok þess mánaðar. Sóknaraðili aflaði gagna til stuðnings kröfu sinni um nálgunarbann og var ekkert því til fyrirstöðu að taka afstöðu til hennar á grundvelli þeirra. Kröfu varnaraðila um ómerkingu hins kærða úrskurðar verður því hafnað.

Varnaraðila hefur á þessu ári þrívegis verið gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili sínu og brotaþola að kröfu sóknaraðila. Þá hefur hann sætt gæsluvarðhaldi óslitið frá 2. júní 2016 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hinn 18. júlí 2016 höfðaði héraðssaksóknari mál á hendur varnaraðila í sextán liðum, þar sem honum eru gefin að sök ýmis brot á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Þar er honum í tveimur liðum gefið að sök að hafa nauðgað brotaþola, í annan stað að hafa hótað henni og beitt hana kynferðislegri áreitni, í þriðja lagi að hafa haft í frammi við hana stórfelldar ærumeiðingar með því að hafa með áðurnefndri háttsemi ítrekað móðgað og smánað brotaþola og í fjórða lagi að hafa brotið gegn nálgunarbanni gagnvart brotaþola. Brotaþolar í öðrum liðum ákærunnar eru dætur brotaþola í þessu máli. Ráðgert er að aðalmeðferð málsins fari fram 13. og 14. september 2016.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa raskað friði brotaþola með framangreindum símhringingum, sbr. a. lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2011. Í 2. mgr. 6. gr. laganna er mælt fyrir um að heimilt sé við mat á því hvort nálgunarbanni samkvæmt 1. mgr. verði beitt að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni sem og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig háttað að hætta er talin á að hann muni fremja brot sem lýst er í 4. gr. Svo sem áður greinir hefur varnaraðila í þrígang á þessu ári verið gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili sínu og brotaþola að kröfu sóknaraðila, auk þess sem honum er gefið að sök í framangreindri ákæru að hafa brotið gegn nálgunarbanni. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. september 2016.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 31. ágúst 2016 þess efnis að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann setji sig í samband við A, kt. [...], hvort heldur sem er í gegnum síma, bréflega, með tölvupóstum, aðstoð annarra eða nokkrum öðrum hætti.

                    Í greinargerð sækjanda kemur fram að þann 31. ágúst sl. hafi beiðandi, A, komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu og lagt fram kæru á hendur X eiginmanni sínum fyrir hótanir en hann hafi frá því í júlí sl. hringt margítrekað í hana, frá Litla-Hrauni, og hótað henni að hann muni drepa hana og láta berja hana ef hún komi í dóm við aðalmeðferð máls gegn honum og vitni gegn honum. Forsaga málsins sé sú að sunnudaginn 6. mars sl. hafi lögreglu borist tilkynning frá A um hótanir og áreiti sem hún og dætur hennar, væru að verða fyrir af hendi eiginmanns hennar X. A hafi tjáð lögreglu sem hafi komið á vettvang að X væri búinn að beita hana andlegu og kynferðislegu ofbeldi í mörg ár. Tilefni tilkynningar í dag væri að X hafi viljað hafa samræði við hana en hún ekki viljað. Hann hafi í framhaldi hótað að taka hana með valdi og ríða henni í rassgatið. A sagði að X væri mjög brenglaður kynferðislega og liti á það sem hlutverk hennar að þjónusta hann kynferðislega, gegn vilja hennar. Hún sagði X hafa nauðgað sér árið 2014 í kjölfar þess að hún hafi kallað eftir aðstoð lögreglu vegna hótana og ofbeldis hans í garð hennar. A sagði X einnig hafa áreitt dætur hennar, þá sérstaklega B. Hann hafi sent B sms-skilaboð þess efnis að ef hún svæfi hjá honum myndi hann láta A vera. Þá hafi hann einnig sagt við A að ef hún yrði ekki góð myndi hann hafa samræði við B.

                    B sagði X ekki hafa beitt sig líkamlegu ofbeldi, einungis sé um kynferðislegt áreiti og andlegt ofbeldi að ræða. Hún hafi meðal annars heyrt X hóta móður sinni að ef hún sinni honum ekki kæmi hann til með að nota dætur hennar. Kvað B X hafa lagt hendur á móður sína og systur. C hafi lítið sem ekkert viljað tjá sig við lögreglu á vettvangi en sagði að hún hafi séð X beita móður sína ofbeldi inni í svefnherbergi. Hún hafi reynt að skakka leikinn en X hafi hrint henni með þeim afleiðingum að hún hafi fallið í gólfið. Kvað hún hann hafa hótað því að ríða henni ef móðir hennar vildi ekki fróa honum.

                    Skv. málaskrákerfi lögreglu hafi A tvívegis kallað eftir aðstoð á heimilið þann 20. september 2014 vegna ofbeldis og hótana X. Í viðræðum við lögreglu kvað hún X hafa ráðist á sig og hótað sér. Kvað hún hann hafa heimtað að hún uppfyllti eiginkonuskyldur sínar en ef hún yrði ekki við því hafi X gefið í skyn að hann myndi þá svala þörfum sínum á dóttur hennar, C. (mál lögreglu nr. [...]).

          Þann 2. júní sl. hafi X verið úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur vegna ítrekaðra brota gegn nálgunarbanni og hótana í garð A og dætra hennar. Þrátt fyrir að kærði sitji enn í gæsluvarðhaldi og bíði nú dóms hafi hann margítrekað sett sig í samband við A, svo sem með síma og einnig hafi hann reynt að senda henni fjölda bréfa.

                Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en X liggi undir rökstuddum grun um refsiverða háttsemi gagnvart bæði eiginkonu sinni og dætrum hennar, m.a. kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi og þá sé hann undir rökstuddum grun um að hóta A stöðugt lífláti og líkamsmeiðingum vegna málsins. Þá sé talin hætta á að hann muni halda háttseminni áfram og með því raska friði hennar í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði verndað með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

                Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat lögreglustjóra að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.

Niðurstaða:

Í greinargerð lögreglu kemur fram að forsaga málsins sé sú að sunnudaginn 6. mars sl. hafi lögreglu borist tilkynning frá A um hótanir og áreiti sem hún og dætur hennar, væru að verða fyrir af hendi eiginmanns hennar þ.e. varnaraðila. Í kjölfarið kom ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. mars sl., sem staðfest var með úrskurði héraðsdóms í máli nr. [...], og varnaraðila gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili gagnvart stjúpdætrum sínum, þeim, B og C og móður þeirra og eiginkonu sinni, A, þannig að lagt var bann við því að hann kæmi á eða í námunda við lögheimili sitt og þeirra að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt var lagt bann við því að varnaraðili veitti A, B og C eftirför, nálgaðist þær á almannafæri eða setti sig í samband við þær með öðrum hætti. Úrskurður héraðsdóms var staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 198/2016.

Varnaraðila var með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 4. apríl sl., gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni og brottvísun af heimili í kjölfar þess að þær mægður höfðu ítrekað tilkynnt um brot hans gegn nálgunarbanninu og lögðu fram kæru á hendur honum vegna brotanna. Ákvörðun lögreglustjóra hafi verið staðfest með úrskurði héraðsdóms í máli nr. [...] og hafi úrskurður héraðsdóms verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 258/2016.

Með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 2. maí, sl. var varnaraðila aftur gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni og brottvísun af heimili í kjölfar ítrekaðra brota hans gegn nálgunarbanninu. Var ákvörðunin staðfest með úrskurði héraðsdóms í máli nr. R-149/2016.

Með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 30. maí sl., var varnaraðila enn aftur gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili gagnvart þeim B og C. Varnaraðili var handtekinn vegna þessa og hinn 2. júní sl. var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-173/2016. Hæstiréttur staðfest úrskurð héraðsdóms. Héraðsdómur hefur framlengt gæsluvarðhaldi, fyrst 28. júlí sl. og síðan aftur 25. ágúst sl. og rennur það út 22. september n.k. hafi dómur ekki gengið í máli hans fyrr.

Nú hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess að staðfest verði sú ákvörðun hans frá 31. ágúst 2016 að varnaraðila, verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann setji sig í samband við A, hvort heldur sem er í gegnum síma, bréflega, með tölvupóstum, aðstoð annarra eða nokkrum öðrum hætti.

Í a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 segir að beita megi nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola. Í b-lið ákvæðisins segir að beita megi nálgunarbanni ef hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola samkvæmt a-lið. Fyrir dóminn hafa verið lögð rannsóknargögn lögreglu, sem eru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra frá 31. ágúst sl.  Það verður að telja, þegar litið er heildstætt á atvik málsins og gögn þess, að án nálgunarbanns sé varnaraðili líklegur til að halda áfram háttsemi sinni gagnvart brotaþolum, sbr. b-lið áðurnefndra ákvæða. Með hliðsjón af framangreindu þykja því vera uppfyllt skilyrði a- og b-liðar. 4. gr. laga nr. 85/2011 til þess að nálgunarbanni verði beitt enda verður ekki talið, eins og málum er háttað, að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, einnig er hér litið til 2. mgr. ákvæðisins. Óhjákvæmilegt er þannig að líta til þess að þrátt fyrir að hafa sætt nálgunarbanni frá 7. mars sl. hefur varnaraðili margítrekað brotið gegn því, einkum með símtölum á heimili brotaþola, en sú háttsemi er sem fyrr litin alvarlegum augum. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um nálgunarbann eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknanir skipaðs verjanda varnaraðila Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl. 150.000 krónur og réttargæslumanns brotaþola Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl. 150.000 krónur greiðast úr ríkissjóði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

            Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra, dags. 31 ágúst 2016, um að X, kt. [...], verði gert að sæta nálgunarbanni í 6 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann setji sig í samband við A, kt. [...], hvort heldur sem er í gegnum síma, bréflega, með tölvupóstum, aðstoð annarra eða nokkrum öðrum hætti.

Þóknanir skipaðs verjanda varnaraðila Jóns Bjarna Kristjánssonar hdl. 150.000 krónur og réttargæslumanns brotaþola Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl. 150.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.