Hæstiréttur íslands
Mál nr. 174/2003
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2003. |
|
Nr. 174/2003. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Jóhannesi Guðmundssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Þjófnaður. Ítrekun. Vanaafbrotamaður.
Í samræmi við játningu J var hann sakfelldur fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til 71. gr., 255. gr. og 72. gr. laga nr. 19/1940, en J var vanaafbrotamaður. Var J dæmdur í 4 mánaða fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Ákærði hefur þrisvar sinnum verið dæmdur til refsingar eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk. Nánar tiltekið var ákærði 6. júní 2003 dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot framin 31. mars og 4. maí sama árs. Hinn 16. júní 2003 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot framin 12. ágúst 2002, 2. apríl 2003 og 22. maí sama árs og var hann þá jafnframt sviptur ökurétti ævilangt. Var refsing sú sem ákærða var gerð metin sem hegningarauki að hluta við þann dóm sem nú er til endurskoðunar og einnig við dóminn frá 6. júní 2003. Að auki var ákærði 26. september 2003 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir þjófnað 8. maí sama árs og var um að ræða hegningarauka við dómana frá 6. og 16. júní 2003.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var ákærði dæmdur í Hæstarétti 13. apríl 2000 fyrir þjófnað, en ákærði hafði auk þess einu sinni á því ári og tvisvar á árinu 1999 hlotið fangelsisrefsingu fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Hafa þeir dómar ítrekunaráhrif á þá refsingu sem ákærða verður nú gerð. Ber því að ákveða honum refsingu með vísan til 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá er refsing ákærða einnig ákveðin eftir ákvæðum 72. gr. almennra hegningarlaga, en ákærði er vanaafbrotamaður. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Jóhannes Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2003.
Málið er höfðað með ákæruskjali dags. 25. febrúar á hendur Jóhannesi Guðmundssyni, [ . . . ].
“fyrir þjófnað með því að hafa, laugardaginn 14. janúar 2003, í versluninni Nettó, Þönglabakka 1, Reykjavík, stolið handtösku viðskiptamanns verslunarinnar sem innihélt seðlaveski er í voru kreditkort og kr. 2.000.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og kvað háttsemi sinni rétt lýst í ákærunni.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem studd er öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er út af og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru.
Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Verjandi ákærða krafðist vægustu refsingar er lög leyfa og skilorðsbindingar hennar, jafnframt að dómurinn ákvarðaði málsvarnarlaun verjanda.
Ákærði hefur játað brot sitt skýlaust og verður tilliti tekið til þess við ákvörðun refsingar.
Ákærði hlaut síðast dóm í Hæstarétti, 13. apríl 2000, fangelsi í 4 mánuði fyrir þjófnað. Þegar ákærði framdi brot það sem hér er til meðferðar hafði hann hlotið 32 dóma alla nema einn fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Þá hafði hann gengist undir fjölda sátta fyrir brot gegn sömu lögum, umferðarlögum, áfengislögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Með hliðsjón af þess og að gættu ákvæða 72. og 255. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfileg 4 mánaða fangelsi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Ólafsdóttir, fulltrúi lögreglustjóra.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Jóhannes Guðmundsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.