Hæstiréttur íslands
Mál nr. 420/1998
Lykilorð
- Vátrygging
|
|
Fimmtudaginn 25. mars 1999. |
|
Nr. 420/1998. |
Kristinn Ó. Kristinsson (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Vátrygging.
K keypti innbústryggingu hjá vátryggingafélaginu V og var hann þá búsettur í einbýlishúsi einu. Vátryggingarfjárhæð var 4.000.000 kr. Ári síðar var vátryggingin endurnýjuð, en þá hafði K flutt úr húsinu og leigt það út, en komið búslóð sinni fyrir á lofti hússins. Á miðju síðara vátryggingartímabilinu fór K fram á við V að vátryggingarfjárhæð yrði hækkuð í 5.500.000 kr. Talið var, að K hefði mátt vera ljóst að við afgreiðslu beiðni um hækkun vátryggingarfjárhæðar hefðu upplýsingar um þá óvissu, sem ríkti um aðstæður á geymslustað skipt V miklu máli. Var V ekki talið skuldbundið af beiðni K um hækkun vátryggingarfjárhæðar. Matsmenn töldu verðmæti þess lausafjár, sem K hélt fram að stolið hefði verið úr húsinu hafa verið 6.135.000 kr. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að samkvæmt vátryggingarskilmálum skyldu verkfæri, sem voru á loftinu bætt með allt að 5% af vátryggingarfjárhæðinni. Sönnunarbyrði um hvað farið hefði forgörðum var talin hvíla á K, en ekki var talið unnt að gera ríkar kröfur til sönnunar um muni, sem voru týndir. Talið var, að K hefði vanrækt upplýsingaskyldu sína vegna tjóns síns og voru bætur til K lækkaðar vegna þessa. Var niðurstaða héraðsdóms um heildarfjárhæð vátryggingarbóta staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 1998. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 5.364.700 krónur, en til vara 3.901.600 krónur, aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. júlí 1995 til greiðsludags, en til vara með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 21. júlí 1995 til 26. febrúar 1998, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi kvaðst hafa keypt vátryggingu á innbúi hjá Vátryggingarfélaginu Skandia hf. gegn tjóni af völdum eldsvoða, vatns eða innbrots í ágúst 1993. Innbústrygging þessi var endurnýjuð og varðar mál þetta vátryggingartímabilið frá 1. ágúst 1994 til 1. ágúst 1995. Vátryggingarfjárhæð var 4.000.000 krónur og vátryggingarstaður Skólatún I í Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi. Stefndi tók síðar við réttindum og skyldum Vátryggingarfélagsins Skandia hf.
Innbú það, sem málið varðar, var ekki allt í eigu áfrýjanda. Nokkur hluti þess var eign Hrafnhildar Þórarinsdóttur, þáverandi sambúðarkonu hans. Óumdeilt er að vátryggingin tók til innanstokksmuna þeirra beggja, en í 1. gr. skilmála fyrir innbústrygginguna segir meðal annars, að auk vátryggingartaka sé sambúðarmaki hans vátryggður. Hefur Hrafnhildur samþykkt að áfrýjandi fari einn með aðild sóknarmegin í máli þessu.
Í dómi Hæstaréttar í dómasafni 1997, bls. 2440, var skorið úr ýmsum ágreiningsefnum, er risu um greiðsluskyldu stefnda vegna muna, sem hurfu af vátryggingarstaðnum eða skemmdust. Í dóminum var talið leitt í ljós, að brotist hafi verið inn í íbúðarhúsið að Skólatúni I á vátryggingartímabilinu og að þá hafi verið stolið munum úr innbúi áfrýjanda. Hins vegar vísaði Hæstiréttur málinu frá héraðsdómi vegna þess að krafa áfrýjanda þótti vanreifuð.
Aðilar deila nú einkum um þrennt. Í fyrsta lagi hvort stefndi sé bundinn af beiðni áfrýjanda 31. janúar 1995 um hækkun vátryggingarfjárhæðar í 5.500.000 krónur, í annan stað hverjir hinna vátryggðu muna hafi týnst eða skemmst og loks um fjárhæð vátryggingarbóta.
II.
Í héraðsdómi er því lýst að áfrýjandi og sambúðarkona hans fluttu úr íbúðarhúsinu að Skólatúni I til Spánar síðla árs 1993. Þá um haustið var húsið leigt nafngreindri konu, en innbúið, sem deilt er um í málinu, var geymt í húsinu, að mestu á háalofti. Kona þessi bar fyrir dómi, að engin hurð eða hleri hafi verið fyrir geymslunni „bara op upp á loft og opinn stigi beint upp“. Hún flutti úr húsinu seinni hluta árs 1994 í húsnæði í Skólatúni II, sem áfrýjandi notaði áður sem verkstæðishús, en það stendur rétt hjá fyrrnefndu húsi. Um sama leyti tók maður að nafni Ottó Sigurðsson húsið á leigu. Annaðist þáverandi lögmaður áfrýjanda fyrir hans hönd samskipti við þann leigutaka.
Í hinum áfrýjaða dómi er sagt frá tilefni þess að lögmaðurinn gerði sér ferð suður í Voga 21. desember 1994 til að kanna ástand hússins ásamt manni, sem var honum til aðstoðar. Þar var fyrir Rúnar nokkur Jóhannsson, sem sagðist dvelja í húsinu með leyfi leigutakans. Lögmaðurinn lét aðstoðarmann sinn þá skipta um skrá í útidyrum og tók lykla að henni með sér, en skildi við Rúnar innan dyra.
Svo sem greinir í héraðsdómi ritaði lögmaðurinn áfrýjanda og sambúðarkonu hans bréf 6. janúar 1995 og lýsti heimsókn sinni í húsið og hvernig komið væri leigumálum. Er í dóminum tekið upp orðrétt úr bréfinu, þar sem fram kom að nágrannar væru óttaslegnir vegna framferðis leigutaka og manna, sem voru með honum í húsinu. Um væri að ræða „einhvern dópistalýð og þjófa“. Þar kom og fram, að lögmaðurinn hafi fengið staðfest að lögregla hefði gert leit að fíkniefnum í húsinu. Í bréfinu lét lögmaðurinn þess einnig getið að nefndur Rúnar hafi virst vera í annarlegu ástandi í umrætt sinn. Þá segir svo í bréfinu: „Ég vil gjarnan vita hvað þið viljið gera í þessu. Ég tel það affærasælast að ganga í þessi mál strax og er reiðubúin að liðsinna ykkur við það. Mín skoðun er sú að betra sé að leigja húsið aftur þótt leigumarkaður þarna sé sjálfsagt þungur. Þegar þið hafið gert upp hug ykkar hafið þá samband í faxi eða símleiðis. Viljið þið „leigjendurnar“ út er nauðsynlegt að fá sent skriflegt umboð til þess að gera leigusamning fyrir Hrafnhildi svo ég geti farið með málið til Héraðsdóms Reykjaness í þeim tilgangi að reyna að fá útburð. Búslóðin uppi virtist alveg ósnert við skoðun mína. Þekkið þið einhvern þarna á staðnum sem gæti fylgst með búslóðinni og/eða staðnum fyrir ykkur?“ Bréfi lögmannsins lýkur með þessum orðum: „Vonast eftir að heyra frá ykkur án tafar!“
Ekki er komið fram að áfrýjandi eða sambúðarkona hans hafi í kjölfar þessa bréfs brugðist við með þeim hætti að hirða um húsið eða innanstokksmuni þar. Bar lögmaðurinn fyrir dómi, að áfrýjandi hafi hvorki svarað bréfinu né beðið sig um að flytja búslóðina eða gera einhverjar sérstakar ráðstafanir. Kvaðst lögmaðurinn aldrei hafa farið í húsið í janúar 1995. Samkvæmt framburði fyrrnefndrar konu, sem fluttist í Skólatún II, var leigutakinn Ottó Sigurðsson í Skólatúni I ásamt öðru fólki fram í janúar 1995. Kvað konan fólk hafa búið í húsinu fram til mánaðamóta janúar og febrúar. Þegar rannsóknarlögreglumenn komu á vettvang 30. janúar var húsið mannlaust og ekkert, sem benti til að í því væri búið. Aðaldyr voru þá opnar og rúða brotin í útihurð. Tekið var fram í skýrslunni að ljóst væri að húsið lægi undir skemmdum, ef ekkert yrði að gert. Rannsóknarlögreglumennirnir tilkynntu lögreglunni í Keflavík um atvikið og komu lögreglumenn þaðan samdægurs á vettvang.
III.
Ágreiningslaust er að áfrýjandi átti símtal við skrifstofu Vátryggingarfélagsins Skandia hf. 31. janúar 1995 og bað um að vátryggingarfjárhæð innbústryggingar sinnar yrði hækkuð úr 4.000.000 krónum í 5.500.000 krónur. Hafði hann komið til landsins frá Spáni tveimur dögum áður. Stefndi hefur til stuðnings því að hann sé óbundinn af hækkunarbeiðni þessari vísað til 4. gr., 6. gr. og 7. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.
Ósannað er að áfrýjandi hafi, þegar símtalið fór fram, haft beina vitneskju um hvernig komið var fyrir húsinu eða um ferðir lögreglumanna á staðinn daginn áður. Áfrýjandi var staddur erlendis, er þáverandi lögmaður hans ritaði honum áðurgreint bréf 6. janúar 1995. Er ómótmælt að áfrýjandi hafi fengið bréfið. Þegar hann kom til landsins 29. janúar 1995 var liðinn nokkur tími frá því að honum hlaut að vera ljóst að ekki var allt með felldu að Skólatúni I. Af málsgögnum verður ekki séð, að hann hafi þá kannað eða látið kanna ástand hússins eða hverjir höfðust þar við. Hafði hann þó ríkt tilefni til að gera það, til dæmis með því að leita fregna hjá lögmanninum um hvort ætlaðir fíkniefnaneytendur eða afbrotamenn hefðu verið fjarlægðir úr húsinu eða væru þar enn. Í stað þess að sinna þessu bað hann um að fjárhæð innbústryggingar sinnar yrði hækkuð. Telja verður að áfrýjanda hafi mátt vera ljóst, að máli skipti við afgreiðslu vátryggingafélagsins á beiðninni að það fengi vitneskju um að mikil óvissa ríkti um aðstæður á geymslustaðnum, þar á meðal hvernig varðveislu hinna vátryggðu muna væri háttað. Það að áfrýjandi lét hjá líða að skýra frá þeim sérstöku breytingum, sem orðið höfðu á aðstæðum á vátryggingarstaðnum, varð til þess að félagið hafði ekki ástæðu til að kanna þær og ástand húss og búslóðar, áður en það tók afstöðu til beiðni um hækkun vátryggingarfjárhæðar. Þegar til alls framangreinds er litið þykir beiðni áfrýjanda 31. janúar 1995 ekki vera skuldbindandi fyrir stefnda, sbr. niðurlagsákvæði 4. gr. laga nr. 20/1954.
Verður því lagt til grundvallar að vátryggingarfjárhæð hafi verið 4.000.000 krónur, svo sem áfrýjandi gerir í varakröfu sinni. Við gerð varakröfu sinnar miðar hann við að vátryggingarverð allra hinna vátryggðu muna hafi verið 8.663.500 krónur. Frá þeirri fjárhæð dregur hann 213.000 krónur, sem er metið verð þeirra hluta, sem komu í leitirnar eftir vátryggingaratburðinn. Mismuninn 8.450.500 krónur telur hann vera fjárhæð heildartjónsins, en þar sem vátryggt var undir verði telur hann að stefnda sé skylt að greiða sér 97,54% af vátryggingarfjárhæðinni 4.000.000 krónum eða 3.901.600 krónur.
IV.
Málsaðilar fengu tvo menn til að meta til fjár lausafé það, sem áfrýjandi heldur fram að stolið hafi verið úr Skólatúni I. Er matsgerð þeirra dagsett 27. janúar 1998. Eru í héraðsdómi teknar upp orðrétt athugasemdir matsmanna, en í þeim kemur meðal annars fram, að matsmenn höfðu lítil önnur gögn til að styðjast við en lista, sem gerðir voru af áfrýjanda og Hrafnhildi Þórarinsdóttur.
Lausafé þetta er annars vegar innanstokksmunir og hlutir, sem áfrýjandi heldur fram að tilheyri almennu heimilishaldi. Niðurstaða matsmanna var sú, að verð þeirra í heild hafi verið 6.135.000 krónur. Hins vegar eru vélar, verkfæri, byggingarefni og annar varningur, sem virðist hafa tengst atvinnurekstri áfrýjanda, að heildarverðmæti 2.528.500 krónur. Sagði áfrýjandi fyrir dómi að öll verkfæri, sem hann taldi týnd, hafi verið geymd á loftinu í Skólatúni I, en gaskútar hafi ekki verið þar. Meðal þessara muna, sem matsmenn kalla verkfæri, er eldvarnarkerfi, skrifstofukallkerfi, kallkerfi fyrir atvinnuhús, hátalarar, ljósker, ljóskastarar, vatnsslökkvitæki, kolsýruhleðslutæki, fjöldi handverkfæra, trésmíðavélar, gastæki og tilheyrandi mælar, stór og smá tæki til bifreiðaviðgerða, varahlutir, loftverkfæri, iðnaðarrykksuga, vatnssuga, suðuvél, rafmagnsgirðing, raflagnaefni, rafmagnsmælar og múráhöld. Eftir gögnum málsins verður að fallast á með stefnda að litlar líkur séu á að allur þessi varningur hafi verið geymdur á háalofti Skólatúns I með innbúi áfrýjanda. Það má meðal annars ráða af vætti fyrrverandi lögmanns áfrýjanda og framburði áðurnefndar konu, sem bjó í húsinu frá því um haustið 1993 til jafnlengdar næsta árs, er hún flutti í næsta hús, Skólatún II. Síðargreinda vitnið bar, að á lofti Skólatúns I hafi verið búslóð, að mestu í kössum. Engin stór verkfæri hafi verið sýnileg, en vitnið taldi þó að verkfæri hefðu getað verið í einhverjum kassanna. Samkvæmt þessu er ekki loku fyrir það skotið, að eitthvað af lausafé því, sem talið er til verkfæra í matsgerðinni og metið er á samtals 2.528.500 krónur, hafi verið í geymslurisinu og horfið við innbrot á vátryggingartímanum.
Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdóms, að eftirfarandi ákvæði í 2. gr. vátryggingarskilmálanna taki til muna þessara: „Verkfæri, varahlutir og áhöld, sem vátryggður á og notar sjálfur í atvinnu sinni, bætast með allt að 5% af vátryggingarfjárhæðinni ...”. Svo sem greinir í III. kafla hér að framan var vátryggingarfjárhæðin 4.000.000 krónur og er hámark greiðsluskyldu stefnda vegna þessara muna 200.000 krónur.
V.
Eiginlegt innbú áfrýjanda og Hrafnhildar Þórarinsdóttur var samkvæmt framansögðu metið í heild á 6.135.000 krónur. Eins og greinir í I. kafla hér á undan lagði Hæstiréttur í fyrra dómsmáli aðila þessa máls til grundvallar að munum úr innbúi áfrýjanda hafi verið stolið við innbrot á vátryggingartímabilinu. Stefndi vefengir að allir framtaldir munir hafi verið á vátryggingarstaðnum og týnst vegna innbrots. Hann heldur fram að ekki sé líklegt að allir þessir munir hafi verið á staðnum og bendir meðal annars á að hluti innbús áfrýjanda og Hrafnhildar hafi verið í íbúð þeirra á Spáni. Þá séu ekki talin á listum áfrýjanda og Hrafnhildar ýmis verðmæt heimilistæki, sem alla jafna fylgi venjulegu heimilishaldi, svo sem þvottavél, þurrkari og frystikista. Matsmenn telji verðmæti þess, sem geymt var á loftinu hafa verið 8.663.500 krónur, þar af innbúsmuna 6.135.000 krónur, þrátt fyrir að áðurnefnd heimilistæki vanti. Sú fjárhæð sé mun hærri en almennt nemur verðmæti innbúsmuna.
Áfrýjandi hefur hins vegar bent á að meðal munanna hafi verið innbúshlutir, sem hann hafi fengið í arf eftir föður sinn, er hafi látist 14. maí 1992, og einnig munir, sem þáverandi sambúðarkona hans hafi fengið í arf eftir foreldra sína. Meðal annars af þeim sökum hafi heildarverðmæti búslóðarinnar verið meira en ella.
Sönnunarbyrði um hvað farið hafi forgörðum hvílir á áfrýjanda, en eðli málsins samkvæmt verða ekki gerðar ríkar kröfur til sönnunar um muni, sem týndir eru. Eins og sönnunaraðstöðu er háttað þykir mega miða við að innbúshlutir þeir, sem taldir eru í matsgerðinni, hafi verið í húsinu og horfið eða skemmst á vátryggingartímanum.
Í matsgerð er getið verðs muna úr innbúi, sem komu í leitirnar síðar. Hluti þeirra er þýfi, sem samkvæmt skýrslum lögreglu var rakið til leigutakans Ottós Sigurðssonar og áðurnefnds Rúnars Jóhannssonar, sem dvaldist um skeið í Skólatúni I. Stefndi hefur í þessu máli ekki reist kröfur á því að einhverjir af hinum vátryggðu munum hafi horfið af öðrum orsökum en innbroti.
VI.
Stefndi ber fyrir sig, að áfrýjandi hafi ekki fært viðhlítandi sönnur fyrir verðmæti þeirra muna, sem hann haldi fram að hafi horfið eða skemmst. Áfrýjandi bendir hins vegar á að krafa sín styðjist við mat tveggja manna, sem valdir hafi verið í samræmi við ákvæði í gr. 6.4 í vátryggingarskilmálunum. Sé stefndi bundinn af því. Stefndi telur matið haldið annmörkum, sem valdi því að það verði ekki notað við ákvörðun vátryggingarbóta.
Matsmenn mátu til fjár muni, sem áfrýjandi og Hrafnhildur Þórarinsdóttir töldu týnda eða eyðilagða. Þeir kváðust fyrst og fremst hafa haft til hliðsjónar 37. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.
Stefndi hefur ekki gert athugasemdir við að matsmenn miðuðu verð við þann tíma, sem matið var gert, en ekki verðlag, sem síðast var á hlutunum áður en vátryggingaratburðurinn gerðist, svo sem segir í 37. gr. laga nr. 20/1954. Málsaðilar hafa heldur ekki borið fyrir sig að matsmenn virðist ekki hafa beitt ákvæðum gr. 6.3 í vátryggingarskilmálunum að því leyti, sem þau víkja frá reglum 37. gr. laganna.
Í athugasemdum í matsgerðinni tóku matsmenn fram, að þeir hafi afskrifað einstaka hluti lítið sem ekkert, enda hafi varla verið fyrir hendi upplýsingar um aldur hlutanna, brúkun þeirra eða minnkað notagildi, sem hafa skuli til hliðsjónar við afskriftir. Í framburði annars matsmanna fyrir dómi kemur þó fram, að við mat á notuðum hlutum, sem rýrna við aldur, hafi matsmenn miðað við verð á sams konar notuðum hlutum. Þegar litið er til óvissuþátta varðandi tegund, aldur, ástand og gerð horfinna muna og þess, sem fram er komið um aðferðir, er matsmenn beittu við ákvörðun vátryggingarverðs, verður ekki fallist á með stefnda að víkja beri verðákvörðun matsmanna til hliðar.
VII.
Stefndi styður mál sitt meðal annars við 22. gr. laga nr. 20/1954. Bendir hann á að áfrýjandi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt þeirri lagagrein, ekki síst með því að hafa ekki veitt upplýsingar, sem nauðsynlegar séu til að ákveða fjárhæð þá, er stefnda beri að greiða.
Eftir að áfrýjandi tilkynnti Skandia hf. um vátryggingaratburðinn fékk félagið í hendur tvö bréf, annað frá áfrýjanda, en hitt frá þáverandi sambúðarkonu hans, þar sem taldir voru margir hlutir, sem þau héldu fram að horfið hefðu við innbrot í Skólatún I. Auk þess liggur fyrir í málinu skjal frá áfrýjanda með fyrirsögninni „Listi yfir verkfæri og búnað sem ég hef keypt af Bílasm. Kyndli h/f.”, en á því eru engir innanstokksmunir. Í bréfunum tveimur eru greindir fjölmargir munir, sem taldir eru hafa horfið úr Skólatúni I, en engin grein gerð fyrir ætluðu verðmæti innbúsmuna.
Um þetta segir í matsgerð, að lítið sem ekkert sé tiltekið í gögnunum um tegund, aldur, ástand eða gerð munanna. Þá vanti víða tilgreiningu á magni muna. Úr skorti á upplýsingum um innbúsmuni hefur ekki verið bætt. Matsmenn fóru reyndar yfir listana með áfrýjanda, en af framburði þeirra fyrir dómi verður ráðið að upplýsingar frá honum hafi verið takmarkaðar.
Þótt fallist verði á með áfrýjanda, að ekki verði gerðar strangar kröfur til sönnunarfærslu af hálfu vátryggðs um týnda muni, verður að telja að áfrýjanda hafi verið unnt að veita frekari upplýsingar um ýmsa þeirra en raun ber vitni. Má þar nefna eftirfarandi dæmi. Í matinu er trékistill með skartgripum metinn í heild á 200.000 krónur og silfur á þjóðbúning og stokkabelti í heild á 150.000 krónur. Vegna ákvæðis í 2. gr. vátryggingarskilmálanna um að einstakir skartgripir bætist með allt að 1% af vátryggingarfjárhæðinni hefði verið þörf nánari tilgreiningar um þessa muni frá vátryggðum. Þá eru 4 pör kuldastígvéla kvenna metin alls á 332.000 krónur og 2 sett minkapelsa og húfur á 325.000 krónur án þess að þeim sé lýst frekar. Um tvö sett af kjólfötum, sem samtals eru talin 80.000 króna virði, liggja ekki fyrir skýringar með tilliti til aldurs og ástands. „Sauna ofn”, sem metinn er á 65.000 krónur, virðist fremur verða talinn til fylgifjár með fasteign en lausafé, sem fylgir almennu heimilishaldi, sbr. 2. gr. vátryggingarskilmálanna. Sama á við um mótor og dælu úr nuddpotti að verðmæti 30.000 krónur. Skýringar frá áfrýjanda hefðu sennilega getað varpað ljósi á þetta. Ekki verður annað séð en að áfrýjandi hefði getað veitt einhverjar upplýsingar um leirpotta, sem í heild eru metnir á 50.000 krónur og vökvunarkerfi og dælu, sem einnig er metið alls á 50.000 krónur. Metið verð framangreindra muna er samtals 1.282.000 krónur.
Í upphafi sinnti áfrýjandi ekki áskorun um að sundurliða kröfu sína. Þess í stað hélt hann fram, að um vátrygginguna giltu reglur um verðsetningu í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954 og ætti hann því kröfu til óskertrar vátryggingarfjárhæðar innbústryggingar sinnar að frádregnu andvirði þeirra búsmuna, sem síðar komu fram. Var það ekki fyrr en að gengnum áðurnefndum dómi Hæstaréttar, að áfrýjandi léði máls á að hafa annan hátt á uppgjöri við stefnda og beiddist mats með vísun til ákvæðis í vátryggingarskilmálum.
Telja verður að áfrýjandi hafi haft sérstaka ástæðu til koma á framfæri við matsmenn upplýsingum, er skipt gátu máli um mat á munum þeim, sem hann taldi verðmætasta. Matsmenn komu fyrir héraðsdóm. Eru skýrslur þeirra misnákvæmar og ber þeim ekki alveg saman um nokkur atriði. Samkvæmt framburði matsmannsins, er tilnefndur var af áfrýjanda, veitti hann að vísu upplýsingar, sem að gagni komu við mat á ákveðum hlutum, en framburðinn má að öðru leyti að skilja svo, að upplýsingar frá áfrýjanda hafi ekki breytt miklu. Hinn matsmaðurinn bar fyrir dómi að ekki hafi fengist miklar upplýsingar frá áfrýjanda.
Samkvæmt framansögðu þykir áfrýjandi hafa vanrækt upplýsingaskyldu, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 20/1954, en í 2. mgr. þeirrar greinar er mælt svo fyrir, að slík vanræksla hafi þau áhrif, sem segir í 2. mgr. 21. gr. laganna. Telja verður líkur að því leiddar, að stefndi hafi vegna þessarar vanrækslu áfrýjanda misst af tækifæri til að leiða sönnur að atvikum, sem myndu hafa orðið til þess að ábyrgð stefnda yrði minni en ella. Þykir því með heimild í síðasttöldu lagaákvæði rétt að lækka bætur til áfrýjanda. Þegar litið er til þess og að vátryggt var undir verði, sbr. grein 6.2 í vátryggingarskilmálum og 40. gr. laga nr. 20/1954, þykir mega staðfesta ákvörðun héraðsdóms um heildarfjárhæð vátryggingarbóta.
Samkvæmt 24. gr. laga nr. 20/1954, sbr. 7. gr. laga nr. 33/1987, ber vátryggingafélagi að greiða vexti af bótunum eftir ákvæðum vaxtalaga frá gjalddaga, sem kveðið er á um í 1. mgr. fyrrnefndu greinarinnar. Þegar niðurstaða matsgerðar lá fyrir í janúar 1998 skorti enn frá áfrýjanda upplýsingar, sem þörf var á til að meta fjárhæð bóta, sbr. 1. mgr. 24. gr. Hefur áfrýjandi ekki bætt þar úr. Verður niðurstaða héraðsdóms um upphafstíma dráttarvaxta því staðfest.
Eftir þessum úrslitum og þegar litið er til þess að stefndi hafnaði í upphafi greiðsluskyldu verður hann dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði áfrýjanda, Kristni Ó. Kristinssyni, samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 1998.
Mál þetta var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu af lögmanni stefnda 25. febrúar 1998. Það var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. febrúar 1998 og dómtekið að afloknum munnlegum málflutningi 1. október sl.
Stefnandi málsins er Kristinn Ó. Kristinsson, kt. 100640-7599 til heimilis Hoybratenbeien 3E, Oslo, Noregi, en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík (hér eftir nefnt stefndi).
Dómkröfur.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði aðallega dæmdur til greiðslu vátryggingarbóta að fjárhæð 5.364.700 krónur, en til vara til greiðslu vátryggingarbóta að fjárhæð 3.901.600 krónur, aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. júlí 1995 til greiðsludags, en til vara með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá 21. júlí 1995 til þingfestingardags máls þessa 26. febrúar 1998, en með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Í öllum tilvikum gerir stefnandi kröfu til málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda.
Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu mati dómsins
Stefndi gerði upphaflega kröfu til frávísunar málsins. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 18. júní sl.
Málavextir, málsástæður og lagarök.
Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir í meginatriðum, sem hér segir: Stefnandi keypti tryggingu á innbúi sínu og sambýliskonu sinnar Hrafnhildar Þórarinsdóttur hjá Vátryggingafélaginu Skandia hf. gegn tjóni af völdum bruna, vatns og innbrots í ágústmánuði 1993. Vátryggingarfjárhæðin nam 4.000.000 króna. Þessi viðskipti áttu sér stað símleiðis, án nokkurrar könnunar tryggingafélagsins á umfangi og verðmæti hins tryggða. Tryggingin var síðan framlengd til eins árs frá 1. ágúst 1994 að telja. Stefnandi og sambýliskona hans voru búsett í húsi sínu að Skólatúni I í Vogum á Vatnsleysuströnd, þegar tryggingin var fyrst tekin. Í októbermánuði s.á. fluttist stefnandi búferlum til Spánar. Kom hann búslóð sinni fyrir í geymslu upp á lofti í húsinu, en tók óverulegan hluta þess með sér til Spánar að eigin sögn. Húsið var leigt Margréti Ingimarsdóttur í nóvembermánuði sama ár. fyrir milligöngu Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns. Um það bil ári síðar eða í byrjun nóvember 1994 þurfti að leigja húseignina að nýju og sá Helga Leifsdóttir hdl. einnig um þann leigumála. Leigutaki var maður að nafni Ottó Sigurðsson.
Í lok desembermánaðar sama ár. hafði lögmaðurinn spurnir af því, að í húsinu þrifist margs konar ólifnaður m.a. væru þar fíkniefni höfð um hönd. Jafnframt fékk hún vitneskju um það, að nýi leigjandinn stæði ekki í skilum með húsaleigugreiðslu desembermánaðar, en útibú Landsbanka Íslands í Keflavík hafði átt að sjá um móttöku húsaleigugreiðslna og ráðstöfun þeirra. Fór hún því suður í Voga 21. desember 1994 í fylgd lögreglumanna úr Keflavík og manns, sem ætlað var það hlutverk að komast inn í húsið án lykla og skipta um skrá í útidyrum þess. Er þangað var komið var leigutaka hússins ekki að finna, en þar hittu þau fyrir Rúnar Jóhannsson, sem sagðist vera þar á vegum leigutaka, sem lítið hefði búið í húsinu. Rúnari var gerð grein fyrir því, að hann væri þar í heimildarleysi en honum var leyft engu að síður að dveljast áfram í húsinu. Helga litaðist um í húsinu m.a. fór upp á loft, þar sem búslóð stefnanda var geymd. Sá hún þar fullt af dóti, sem breitt hafi verið yfir með plasti og ábreiðum og allt hafi virst óhreyft og í réttu og eðlilegu horfi að hennar sögn. Skipt var um skrá í útidyrum hússins, eins og ráðgert hafði verið.
Helga Leifsdóttir hdl. ritaði stefnanda bréf dags. 6. janúar 1995, þar sem hún lýsti heimsókn sinni í húsið og hvernig komið væri leigumálum. Í bréfi hennar kom fram, að sveitarstjórinn í Vogum hafi hringt í hana og sagt henni frá því, „að nágrannarnir væru óttaslegnir yfir leigutakanum/fólkinu í Skólatúninu. Um væri að ræða einhvern dópistalýð og þjófa. Ég hef haft samband við lögregluna út af þessu og hef fengið staðfest símleiðis að gerð var húsleit á vegum fíkniefnalögreglunnar í húsinu, þessi Ottó væri ekki með hreinan sakaferil og væri auk þess dópisti.” Í bréfinu segir ennfremur: „Búslóðin uppi virtist alveg ósnert við skoðun mína. Þekkið þið einhvern þarna á staðnum sem gæti fylgst með búslóðinni og/eða staðnum fyrir ykkur?”.
Hinn 30. janúar 1995 gerðu lögreglumenn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins sér ferð að Skólatúni I þeirra erinda að hafa tal af Rúnari Jóhannssyni. Í skýrslu þeirra um ferðina segir m.a. svo: „Er við komum á staðinn kom í ljós að aðaldyr hússins voru opnar upp á gátt og rúða brotin í dyrunum. Gerðum við vart við okkur og gengum inn í húsið og blasti þá við okkur mikill sóðaskapur, bækur, matarleifar og ýmsir munir á víð og dreif en ekkert sem benti til þess að í húsinu væri búið, utan rotnandi matarleifar í eldhúsi. Við athugun á bílskýli sem fylgir húsinu kom í ljós að hann var opin og lá hurðin að honum á jörðinni, brotin upp. Virðist okkur að Rúnar Jóhannsson, sem er skráður leigjandi að húsinu hafi ekki búið þar um skeið. Ennfremur er ljóst að húsnæðið liggur undir skemmdum ef ekkert verður að gert. Fórum við af vettvangi kl. 15.30 og lokuðum húsinu en auðvelt er að komast inn í húsið þar sem rúða er brotin í aðaldyrum. Ekki tókst að loka bílskýlinu og liggur það sem geymt er þar inni undir skemmdum.”
Einnig fóru lögreglumenn úr Keflavík að húsinu sama dag að ábendingu rannsóknarlögreglumannanna, sem þangað höfðu komið fyrr um daginn í því skyni að eyða framköllunarvökva, sem lægi á víð og dreif umhverfis húsið, eins og segir í skýrslu þeirra. Í niðurlagi skýrslunnar segir svo: „Enginn var í húsinu þegar við komum á staðinn og svo virtist sem að ekki væri búið þar þar sem að engin húsgögn var að sjá í húsinu. Vitað er að Ottó Sigurðsson kt. 110454-3279 Bergþórugötu 51 Reykjavík og Sigurjón Pétursson kt. 110464-4289 Suðurhólum 22, Reykjavík hafa haft aðgang að húsinu ásamt fleirum”.
Stefnandi kom til landsins í lok janúar 1995 til að gangast undir læknisaðgerð. Kveðst hann hafa haft símasamband við Þórð Þórðarson framkvæmdastjóra vátryggingasviðs Skandia hf. daginn eftir heimkomu sína eða 30. janúar og óskað eftir því, að innbústrygging hans yrði hækkuð úr 4.000.000 í 5.500.000 krónur. Stefndi telur að símtal þetta hafi átt sér stað 31. janúar eða daginn eftir heimsókn lögreglu, sem fyrr er lýst.
Að sögn stefnanda var honum tilkynnt um það 11. febrúar sama ár að brotist hafi verið inn í húsið. Gerði hann sér ferð þangað daginn eftir og sá þá að búið var að fjarlægja mikinn hluta búslóðar hans, sem geymd var á lofti hússins. Gerði hann lögreglunni í Keflavík viðvart, sem kom á staðinn. Í skýrslu lögreglunnar í Keflavík um atburðinn segir m.a. svo: „Er við komum að húsinu veittum við athygli að búið var að brjóta rúðu í útidyrahurðinni. Þegar inn var komið blasti við okkur bækur, tímarit og myndbandahylki á víð og dreif um gólf svefnherbergisins, gangsins og stofunnar. Búið var að taka niður veggljós í stofu, gangi svefnherbergi, geymslu, og hafa á brott úr húsinu. Einnig var búið að fjarlægja ljósakrónu úr stofu. Kristinn vísaði okkur upp á geymsluloft hússins. Þar var búið að dreifa búslóð hans um loftið. Ekki var hægt að átta sig á hvað var skemmt eða hvað vantaði þar sem ekkert rafmagn var í húsinu og því var notast við vasaljós til þess að skoða geymsluloftið. Það dót sem var á gólfi hússins var allt tekið úr búslóðinni sem var til geymslu á loftinu”. Í skýrslunni kemur og fram og haft eftir stefnanda, að hann hafi lánað Margréti Ingimarsdóttur, fyrri leigjandi hússins nokkur heimilistæki og hafi þau vantað, þegar hún fór úr húsinu. Síðan segir orðrétt: „Kristinn sagði að fljótt á litið sæi hann að málverk, verkfærasett, bækur og húsgögn hafi verið fjarlægð úr búslóðinni. Hann kvaðst ætla að skrá niður þess sem hann saknaði og það sem skemmt var og koma því til lögreglu. Hann sagði að vitjað var um húsið í gær og var það í lagi með rúðuna í útidyrunum. Hann kvaðst telja að farið hafi verið inn í húsið í nótt sem leið” Loks er þess getið í skýrslunni, að Ólafur Ólafsson flokksstjóri, sem hana skráði, hafi komið þangað í embættiserindum 16. desember 1994 og hitt fyrir Rúnar Jóhannsson. Sá hefði sagt sér, að veggljós og ljósakróna, sem þá voru í heilu lagi væru eign húseigenda.
Í kjölfar þessa atburðar sneri stefnandi sér til vátryggingafélagsins með kröfu um greiðslu vátryggingarbóta. Miðaði hann kröfu sína við það, að öll búslóð hans hefði farið forgörðum við innbrotið. Sendi hann félaginu lista gerða eftir minni hans og þáverandi sambýliskonu, þar sem upp voru taldir þeir munir, sem horfið höfðu við innbrotið. Hinn 24. febrúar s.á. tókst rannsóknarlögreglu að hafa upp á nokkrum þeim munum, sem taldir voru upp á lista stefnanda.
Vátryggingafélagið Skandia hf. hafnaði kröfum stefnanda og leitaði hann sér því lögmannsaðstoðar. Lögmaður hans ritaði félaginu bréf dags. 21. júní 1995, þar sem gerð var krafa til greiðslu vátryggingarfjárhæðarinnar 5.500.000 krónur, enda lægi ekki annað fyrir en allt innbúið hefði farið forgörðum, eins og segir í bréfi lögmannsins. Að sögn stefnanda var kröfu hans hafnað en félagið hafi gert munnlegt boð um að greiða 2.000.000 króna í heildarbætur. Samkomulag náðist ekki á þessum grundvelli. Stefnandi höfðaði því mál á hendur félaginu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 30. nóvember 1995 aðallega til greiðslu á 5.400.000 krónum en til vara til greiðslu á 3.927.200 krónum. Aðalkrafan var byggð á því, að vátryggingarfjárhæðin hafi numið 5.500.000 krónum, en varakrafan miðaðist við vátryggingarfjárhæðina 4.000.000 króna. Fjárhæðin var lækkuð lítillega vegna þeirra muna, sem fundust eftir innbrotið, eins og segir í stefnu málsins. Félagið krafðist sýknu og byggði kröfu sína m.a. á því, að stefnandi og sambýliskona hans hafi ekki búið sjálf á staðnum, stefnandi hafi fyrirgert bótarétti vegna aukningar áhættu, hann hafi ekki gert viðeigandi ráðstafanir til að varna tjóni, ekki sinnt varúðarreglu vátryggingarskilmálanna, og leynt félagið upplýsingum. Héraðsdómur gekk 7. október 1996, þar sem Vátryggingafélagið Skandia hf. var dæmt dæmt til að greiða að álitum 3.000.000 króna í vátryggingarbætur, auk málskostnaðar.
Stefndi, Vátryggingafélagið Skandia hf. áfrýjaði dóminum en stefnandi gagnáfrýjaði fyrir sitt leyti. Fyrir Hæstarétti tók Vátryggingafélag Íslands hf. við aðild málsins úr höndum Vátryggingafélagsins Skandia hf.
Hæstiréttur felldi dóm í málinu 25. september 1997 (Hæstaréttarmál nr. 385/1996) og vísaði málinu frá héraðsdómi. Frávísun Hæstaréttar var m.a. á því byggð, að gagnáfrýjandi hafi enga grein gert fyrir verðmæti þeirra muna, sem glötuðust við innbrotið né heldur hafi þeir munir verið verðlagðir, sem síðar komu í leitirnar eða skildir voru eftir í húsinu, sbr. 22. gr. vátryggingasamningalaga nr. 20/1954. Því sé ekki unnt að taka afstöðu til þess, hvert hafi verið vátryggingarverð þeirra muna, sem gagnáfrýjandi krefjist bóta fyrir. Við ákvörðun bóta beri því að fara eftir 6. gr. vátryggingaskilmála innbústryggingarinnar og almennum reglum um vátryggingarverð í lögum nr. 20/1954, sbr. einkum 37. gr. og 1. mgr. 39. gr. þeirra. Hæstiréttur hafnaði þeim málsástæðum áfrýjanda (stefnda hér), sem byggt var á í héraði og lýst er að framan.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar ritaði lögmaður stefnanda stefnda bréf, dags. 16. október 1997, og fór fram á það, að félagið tilnefndi mann til mats á innbúi stefnanda samkvæmt þeim skrám, sem hann og Hrafnhildur Þórarinsdóttir fyrrverandi sambýliskona hafi gert um muni þá sem forgörðum fóru við innbrotið í hús hans að Skólatúni I, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi. Í bréfinu segir m.a. „Félagið seldi vátrygginguna á sínum tíma án þess að hafa fyrst skráð innbúsmunina, hvað þá verðmetið þá. Er því ekki annarri aðferð til að dreifa heldur en þeirri að byggja þetta á frásögn vátryggingartakans eftir að tjónið er orðið og munirnir farnir forgörðum.” Jafnframt tilkynnti lögmaðurinn, að stefnandi tilnefndi Valdimar Johnsen til matsins af sinni hálfu.
Eftir nokkur bréfaskipti milli stefnda og lögmanns stefnanda tilnefndi stefndi Jón Trausta Guðjónsson starfsmann sinn til starfsins með bréfi dags. 7. nóvember 1997. Í niðurlagi bréfsins segir: „Þar sem það eru eindregin tilmæli yðar, að mat fari fram með þeim hætti sem þér óskið, getum vér eftir atvikum fallist á málaleitan yðar, en viljum taka fram, að í því fellst ekki viðurkenning á því, að þau verðmæti, sem talin eru upp á lista, hafi verið til staðar.”
Matsgerð tilnefndra matsmanna er dags. 27. janúar 1998. Niðurstaða þeirra var sú, að verðmæti innbús næmi 6.135.000 krónum, en verkfæra 2.528.500 krónum. Matsmenn mátu verðmæti þeirra muna, sem fundust eða skildir voru eftir í húsinu og tilheyrðu innbúi á 213.000 krónur.
Matsmenn gerðu eftirfarandi athugasemdir um matsgerð sína:
„Í máli þessu voru lítil önnur gögn til að verðmeta innbú það sem meint er að stolið hafi verið heldur en listar sem gerðir voru af Kristinn (þannig) Ó Kristinssyni og þáverandi sambýliskonu hans á sínum tíma. Þessir listar voru einfaldir að gerð og lítið sem ekkert tiltekið þar um tegund, aldur, ástand eða gerð þeirra muna sem meint er að saknað sé. Sömuleiðis vantar víða tilgreiningu á magni muna í safni. Matsgerð þessi hlýtur því að vera gerð með þeim fyrirvara sem að ofan greinir og með tilliti til þess að metnir voru munir sem hofnir eru og engin leið er að skoða eða staðreyna. Matsnefndarmenn höfðu fyrst og fremst til hliðsjónar 37. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga og mátu hluti eftir áætluðu enduröflunarvirði þeirra á þeim tíma sem matið er gert og afskrifuðu einstaka hluti lítið sem ekkert enda voru varla til staðar upplýsingar um aldur hlutanna, brúkun þeirra eða minnkaðs notagildis sem skv. 37. gr. laga nr. 20/1954 skal m.a. hafa til hliðsjónar við afskriftir. Þá voru á listum þessum ýmsir munir sem hafa hugsanlega antikgildi. Matsmenn töldu að útilokað væri að finna verð á óséða, meinta antikmuni þannig að til grundvallar var lagt verð á nýjum sambærilegum hlutum.”
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar í fyrsta lagi á því, að Hæstiréttur hafi í fyrrnefndum dómi sínum tekið af öll tvímæli um greiðsluskyldu stefnda. Þar hafi öllum andmælum stefnda verið hafnað. Stefnandi hafi að forsögn Hæstaréttar farið þá leið, sem skilmálar vátryggingarinnar geri ráð fyrir um ákvörðun fjárhæðar vátryggingarbótanna. Ákvörðun matsmanna um fjárhæð á tjóni stefnanda liggi fyrir og sé bindandi fyrir stefnda, samkvæmt því sem berum orðum segi í vátryggingarskilmálunum. Vátryggingafélagið hafi selt stefnanda innbústrygginguna, án þess að hið vátryggða innbú væri fyrirfram skoðað eða skráð. Í því hljóti að felast skuldbinding af hálfu félagsins til að hlíta upptalningu vátryggingartaka á innbúshlutum, eftir að bótaskylt tjón hafi orðið og hlutir farið forgörðum. Félagið geti ekki fyrst selt mönnum vátryggingar án skoðunar á hinu vátryggða og innheimt iðgjöld, en borið síðan brigður á það, hvaða hlutir hafi verið í innbúi eftir að tjón hafi orðið og gert tjónþola að sanna það, þegar það sé ekki lengur hægt.
Ágreiningslaust sé, að stefnandi hafi haft símasamband við Vátryggingafélagið Skandia hf. 31. janúar 1995 og hækkað innbústryggingu sína úr 4.000.000 krónum í 5.500.000 krónur. Hann hafi þá verið nýkominn til landsins til læknismeðferðar.
Félagið hafi í bréfi dags. 23. febr. 1995, en eigi að vera 23. maí s.á., neitað að taka til greina hækkun vátryggingarfjárhæðarinnar, sem samið hafi verið um 31. janúar sama ár eða degi eftir „að lögreglan í Keflavík hafi tilkynnt eigendum eða umboðsmanni hans að húsið hafi staðið opið er að því var komið. Hér sé um misskilning að ræða. Fyrir liggi í málinu lögregluskýrsla, þar sem greint sé frá heimsókn tveggja lögreglumanna frá Rannsóknarlögreglu ríkisins að Skólatúni 30. janúar 1995. Húsið hafi þá verið mannlaust en aðaldyr opnar og rúða brotin í hurðinni. Þeir segist hafa lokað húsinu en taka fram, að auðvelt sé að komast inn í það, þar sem rúða hafi verið brotin. Rannsóknarlögreglumennirnir hafi aðeins látið lögregluna í Keflavík vita af þessari heimsókn sinni, sem hafi af því tilefni farið samdægurs á staðinn til að fjarlægja þaðan plastbrúsa með framköllunarvökva, sem lágu utan við húsið og stafaði hætta af. Hvorki stefnandi né heldur Helga Leifsdóttir, þáverandi umboðsmaður hans, hafi haft vitneskju um þessar heimsóknir, þegar viðbótartryggingin var keypt. Stefnandi hafi gert þá grein fyrir hækkun tryggingarinnar, að hann hafi átt inni fé hjá vátryggingafélaginu vegna niðurfellingar bifreiðatryggingar og hafi starfsmaður félagsins ráðlagt honum að nota féð til að hækka vátryggingarfjárhæð innbústryggingarinnar. Það hafi hann gert.
Því sé á því byggt af hálfu stefnanda að komist hafi á samningur um hækkun fjárhæðarinnar, sem stefndi sé skuldbundinn við. Aðalkrafan sé við þetta miðuð.
Varakrafan miðist við vátryggingarfjárhæðina, eins og hún hafi verið fyrir hækkun.
Stefnandi miðar aðalkröfu sína við það, að umsamin vátryggingarfjárhæð hafi numið 5.500.000 krónum. Samkvæmt niðurstöðu tilkvaddra matsmanna hafi heildarverðmæti innbúsins verið samtals 8.663.500 krónur. Verðmæti þeirra hluta, sem fundust síðar eða voru skildir eftir hafi numið 213.000 krónum, samkvæmt niðurstöðu matsmanna. Tjón stefnanda sé því 8.450.000 krónur, sem sé 97,54% af heildarverðmæti hins vátryggða. Ljóst sé, að vátryggt hafi verið undir verði, eins og það sé orðað í 2. mgr. 6. gr. vátryggingarskilmálanna. Stefnda beri að greiða 97.54% af vátryggingarfjárhæðinni, sem svari til 5.364.700 króna, sem sé aðalkrafa stefnanda.
Varakrafan hljóði um greiðslu á 3.901.600 krónum, sem sé 97,54% af 4.000.000 króna, verði talið, að sú vátryggingarfjárhæð hafi gilt í skiptum aðila.
Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við ólögfestar meginreglur í kröfu- og samningarétti og ákvæði laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga (vsl.), einkum 37. gr. og 1. mgr. 39. gr. Vaxtakröfur séu studdar við þau lagaákvæði sem í þeim greini, sbr. 3. mgr. 24. gr. vsl. Dráttarvaxtakrafan miðist við 21. júlí 1995, en þá hafi verið liðinn einn mánuður frá dagsetningu kröfubréfs lögmanns stefnanda til Vátryggingafélagsins Skandia hf. Þá þegar hafi félagið haft í höndum upptalningu frá stefnanda og sambýliskonu hans á þeim innbúsmunum, sem forgörðum fóru í innbrotinu og hafi félagið þá getað gert viðeigandi ráðstafanir til að meta fjárhæð bótanna. Raunar sé sá frestur, sem félagið hafi ekki nema 14 dagar samkvæmt 1. mgr. 24. gr. vsl. Stefnandi vísar til 21. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnanda, að starfsmaður Skandia hf. hafi ráðlagt honum að nota iðgjaldsinneign hans af bifreiðatryggingum til hækkunar á innbústryggingunni í símtali í lok janúar 1995. Samkvæmt framlögðum gögnum hafi beiðni um endurgreiðslu bifreiðatryggingar fyrst verið sett fram af hálfu stefnanda í júní 1995.
Þá mótmælir stefndi lýsingu stefnanda á umfangi tjónsins. Í lögregluskýrslu, sem lýsir heimsókn lögreglu í hús stefnanda hinn 12. febrúar 1995, geri stefnandi grein fyrir þeim hlutum sem horfið höfðu sjá bls. 4 efst hér að framan. Sú lýsing sé í engu samræmi við þann lista, sem stefnandi og þáverandi sambýliskona hans gerðu síðar og matsmenn lögðu til grundvallar. Í sömu skýrslu segi, að bækur, matarleifar og ýmsir munir hafi legið á víð og dreif um gólf „svefnherbergisins, gangsins og stofunnar” og eins komi þar fram, að munir á geymslulofti hafi verið dreifðir um loftið, sjá bls. 3 neðst. Engin lýsing liggi fyrir á þeim munum, sem skildir voru eftir við innbrotið og því síður verðmæti þeirra.
Þá byggir stefndi á því, að stefnandi hafi haft vitneskju um ástand hússins þann 31. janúar 1995, þegar tryggingarfjárhæðin var hækkuð. Hann bendir á í því sambandi, að Helga Leifsdóttir hdl., sem gætti hagsmuna stefnanda, hafi í kjölfar heimsóknar lögreglunnar 31. janúar 1995, sent skriflega kæru til Lögreglunnar í Keflavík, dags. 10. febrúar sama ár. Þar komi fram, að hún hafi verið í sambandi við lögregluna í fjóra til fimm daga þar á undan. Eggert Bjarnason, lögreglumaður, sem litið hafi eftir húsinu fyrir stefnanda, hafi látið hana vita um fyrrnefnda komu lögreglunnar í hús stefnanda. Í kærunni segi m.a. „Líklega í byrjun janúar hafa umræddir aðilar flutt allt sitt hafurtask úr húsinu. Hinn 31.1.1995 fór Rannsóknarlögregla ríkisins á vettvang og kom í ljós að húsið lá þá undir skemmdum og meira að segja skilið eftir galopið fyrir gestum og gangandi, veðrum og vindum og var aðkoman í einu orði sagt hryllileg. Tvisvar hefur verið skipt um sílinder og húsinu lokað, auk þess hefur verið neglt fyrir glugga sem brotinn var upp. Þrátt fyrir þetta hefur verið brotist inní húsið síðan. M.a. hefur komið í ljós að stolið hefur verið riffli í eigu húseiganda.”
Því sé ljóst, eins og áður segi, að stefnanda og umboðsmanni hans hafi verið kunnugt um, hvernig aðkoman hafi verið, þegar lögregla kom að húsinu þann 31. janúar 1995, auk þess sem fullyrt sé í kærunni að brotist hafi verið inn í húsið áður. Þessi kæra sé send, áður en stefnandi telji sig hafi fengið vitneskju um að brotist hafi verið inn í húsið.
Einnig liggi fyrir, að stefnandi hafi fengið bréf Helgu Leifsdóttur dags. 6. janúar s.á. þar sem hún lýsir ferð sinni suður í Voga 21. desember 1994, sjá bls. 2 neðst.
Því megi vera ljóst, að stefnandi hafi haft vitneskju um það, að óreglumenn hefðust við í húsi hans, án þess að upplýsa tryggingafélagið þar um, þegar vátryggingarfjárhæðin var hækkuð. Ekkert tilefni hafi verið til hækkunar vátryggingarfjárhæðarinnar, enda hafi innbúið, sem var í geymslu á þessum tíma, verið það sama og upphaflega hafi verið komið fyrir á geymsluloftinu að frádregnum munum sem fluttir voru til Spánar í desember 1994 og muna, sem lánaðir voru Margréti Ingimarsdóttur leigutaka.
Stefndi byggir málsvörn sína að öðru leyti á eftirfarandi málsástæðum.
Sönnunarbyrðin um það, hvaða munir hafi horfið í umræddum atburðum hvíli á vátryggingartaka. Stefndi mótmæli því, að þeir munir, sem tilgreindir séu á framlögðum listum og ekki hafi fundist síðar eða verið til staðar að Skólatúni eftir meintan tjónsatburð, hafi verið staðsettir í húsinu að Skólatúni, þegar meintur tjónsatburður eða atburðir hafi átt sér stað. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn, sem styðji það, að hann hafi átt þessa muni og að þeir hafi verið að Skólatúni, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir. Á hinn bóginn gefi ýmis gögn og aðrar upplýsingar í málinu það sterklega til kynna, að tilgreiningar á listunum séu rangar:
a. Áður sé þess getið, að í upphaflegri lögregluskýrslu komi fram, að búslóðin, sem geymd var á loftinu, hafi að mestu verið dreifð um loftið og gólfin í húsinu. Í upphaflegri lögregluskýrslu tilgreini stefnandi aðeins fáeina muni, sem horfið höfðu, t.d. málverk, verkfærasett, bækur og húsgögn. Málatilbúnaður stefnanda og listi hans byggi hins vegar á því, að öll búslóðin hafi farið forgörðum í innbrotinu. Á myndum, sem liggi frammi í málinu og teknar voru í kjölfar tilkynningar um innbrotið, sjáist mikið af búslóð. Sé þetta í samræmi við lýsingu í lögregluskýrslu. Einnig komi fram á myndum, sem teknar voru við sama tilefni, fjölmargir munir, sem finnist á lista stefnanda og stefnandi krefjist að bættir verði.
b. Í vitnisburði, sem Margrét Ingimarsdóttir, leigutaki, gaf fyrir dómi í fyrra málinu komi fram, að stefnandi hafi fullyrt að engin verkfæri væru geymd á loftinu heldur eingöngu í verkstæðisbyggingu. Þá liggi fyrir í gögnum málsins, að Landsbanki Íslands hafi tekið í sínar vörslur öll þau verkfæri, sem í verkstæðinu voru og selt þau til fullnustu á kröfum sínum á hendur stefnanda. Þetta komi fram í framburði Ársæls Más Gunnarssonar og Brynjólfs Þórs Brynjólfssonar í fyrri dómsmáli stefnda, sem varði sama sakarefni.
Margrét hafi einnig borið fyrir dómi í fyrra dómsmálinu, að stefnandi hafi tjáð henni, að geymsludótið væri drasl sem skipti þau ekki máli.
c. Í bréfi stefnanda til Helgu Leifsdóttur, lögmanns, dags. 14. febrúar 1995 komi fram, að eitthvað af þeim munum sem krafist sé bóta fyrir hafi verið lánað Margréti leigutaka.
d. Hluti hinna horfnu muna, sem sé að finna á lista stefnanda, hafi fundist og liggi lýsing þeirra fyrir í málinu, sbr. skýrslu Sigurðar V. Benjamínssonar, rannsóknarlögreglumanns, dags. 24. febrúar 1995. Þessir munir hafi verið mávastell, spánskt kaffistell, og 34 eintök af skálum, vösum, karöflum ofl.
e. Í gögnum málsins komi fram, að stefnandi hafi flutt innbú sitt a.m.k. í tveimur ferðum til Spánar. Fyrst er hann fluttist upphaflega af landi brott á árinu 1993 og einnig komi fram í framburði Helgu Leifsdóttir í fyrra máli stefnanda, að eitthvað af innbúi hafi verið fjarlægt af Jórunni dóttur stefnanda og sé hún þar að vísa til flutninganna í desember 1994.
f. Þrátt fyrir að stefnandi hafi flutt búslóð sína til Spánar, séu verðmæti þess sem sett var upp á geymsluloft talið vera rösklega 8,6 milljónar króna virði. Á listanum sé þó ekki að finna muni, sem oft séu dýrustu hlutir innbús eins og þvottavél, þurrkara og frystikistu. Í vátryggingum sé meðalinnbú talin vera að verðmæti 4.0 milljónir króna, eins og upphafleg vátryggingarfjárhæð sýni. Samkvæmt þessu ætti að vera um sérstakt innbú að ræða og því eðlilegt, að ríkari kröfur verði gerðar til sönnunar en ella.
Af öllu þessu leiði, að stefnandi hafi ekki stutt það neinum gögnum, að þeir munir, sem hann tilgreini, hafi horfið frá Skólatúni. Framangreind atvik málsins bendi hins vegar sterklega til þess, að listi stefnanda eigi ekki við rök að styðjast.
Verði talið, að stefnandi hafi fært viðhlítandi sönnur fyrir því, hvaða munir hafi horfið, byggir stefndi á því, að hann hafi ekki sett fram nægilegar sönnur fyrir verðmæti þeirra muna, sem talið sé að horfið hafi. Í dómi Hæstaréttar komi skýrlega fram, að sönnun um þetta atriði hvíli á stefnanda.
Matsgerð sú, sem liggi frammi í málinu, verði ekki lögð til grundvallar við mat á verðmætum, þótt stefnandi gæti sannað að einhverjir munir hafi horfið. Í athugasemdum matsmanna komi fram, að greinargerð þeirra sé gerð með þeim fyrirvara, að þeir hafi ekki fengið neinar lýsingar á hinum horfnu munum og því sé matið byggt á ágiskunum t.d. um aldur muna, fjölda þeirra og gerð ofl. Þá sé sérstaklega tekið fram, að matsmenn treysti sér ekki til að afskrifa verðmæti hluta vegna þess skorts á upplýsingum um aldur þeirra eða notagildi. Ágallar þessir á undirstöðu matsins séu svo verulegir, að matsgerðin uppfylli á engan hátt skilyrði ákvæða 6.3. í vátryggingarskilmálum eða ákvæða 1. mgr. 37. gr. og 39. gr. laga 20/1954.
Í 2. gr. vátryggingarskilmálanna séu tilgreindir þeir munir, sem falli undir vátrygginguna og takmarkanir á bótafjárhæðum vegna tiltekinna tegunda af lausafé. Undir trygginguna falli venjulega innbú, þ.e. lausafjármunir er fylgi almennu heimilishaldi. Verulegur hluti þeirra muna, sem krafist sé bóta fyrir samkvæmt upptalningu stefnanda séu ýmiss konar verkfæri til bifreiðaviðgerða, sem stefnandi hafi notað í atvinnurekstri. Á dómskjali nr. 26 sem sé forsíða á skilmálum, sem stefnandi hafi lagt fram í héraði í fyrra málinu, sé handrituð athugasemd hans um, að verkfærin séu að stærstum hluta flutt inn af honum til endursölu. Þessi munir falli því ekki undir vátryggða muni. Í öllu falli eigi verkfæri, varahlutir og önnur áhöld ekki að bætast nema með 5% af vátryggingarfjárhæðinni.
Ennfremur sé sérstaklega tilgreint í 2. gr. að vátryggingin taki ekki til dýra, vélknúinna farartækja, hjólhýsa, tjaldvagna, báta eða hluta sem tilheyri nefndum tækjum. Í lista stefnanda sé að finna kompás og rafmagnstöflu, og segi þar, að þessir munir séu úr bát. Þá sé tilgreint á lista hans hnakkar, beisli og hnakktaska, sem tilheyri væntanlega dýrum.
Í 2. gr. skilmálanna komi einnig fram, að m.a. skartgripir, handrit og teikningar bætist ekki nema með 1% af vátryggingarfjárhæðinni. Munir af þessum toga séu einnig tilgreindir á lista stefnanda.
Til þess að unnt sé að reikna tjónið út, verði að taka tillit til þessara þátta til lækkunar.
Stefndi byggir ennfremur á því, að stefnandi hafi vísvitandi eða í öllu falli af gáleysi leynt félaginu upplýsingum, þegar hann óskaði eftir hækkun á vátryggingunni þann 31. janúar 1995. Hefðu réttar upplýsingar legið fyrir, hefði það leitt til þess, að hækkunarbeiðninni hefði verið hafnað. Þessar upplýsingar séu þær, í fyrsta lagi, að stefnandi og umboðsmaður hans höfðu strax í desember 1994 fengið upplýsingar um að afbrotamenn byggju í húsinu. Í öðru lagi, að legið hafi fyrir vitneskja um það, áður en beiðni um hækkun hafi verið sett fram, að þá þegar hafi verið brotist inn í húsið. Í þriðja lagi, að þeir munir sem teknir hafi verið, hafi þegar verið horfnir þegar vátryggingarfjárhæðin var hækkuð, sbr. skýrslu lögreglunnar um heimsókn í húsið þann 30. janúar 1991 og kæru Helgu Leifsdóttur frá 10. febrúar 1992, svo og framburð Helgu fyrir dómi í fyrra málinu.
Stefndi byggir ennfremur á því, að búslóð stefnanda hafi verið undirtryggð. Samkvæmt reglum 40. gr. laga 20/1995 sé ábyrgð félags aðeins hlutfallsleg, ef verðmæti hins vátryggða sé hærra en vátryggingarfjárhæðin. Verði þessari lagareglu beitt við útreikning bóta í þessu máli, geti bætur ekki orðið nema 63,5% af vátryggingarfjárhæðinni í aðalkröfu eða 3.492.500 krónur og 46,2% í varakröfu eða 1.848.000 krónur. Samkvæmt matinu nemi heildarverðmæti hinna vátryggðu hagsmuna, sem kröfur stefnanda byggjast á, 8.663.500 krónum og hlutföllin miðað við mismunandi vátryggingarfjárhæðir svari því til þess sem að ofan greini.
Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda bæði að því er varðar upphafstíma og vaxtafót.
Hæstiréttur hafi staðfest, að kröfur stefnanda hafi verið vanreifaðar og að stefndi hafi því ekki haft undir höndum nægjanleg gögn að meta honum bætur. Dráttarvextir verði því ekki dæmdir, fyrr en að gengnum dómi Hæstaréttar. Verði skaðabætur dæmdar, geti dráttarvextir í fyrsta lagi lagst á dómkröfu stefnanda eftir að matsgerð lá fyrir eða eftir atvikum frá dómsuppsögudegi.
Stefndi byggir og á því, að því er varðar málskostnað, að stefnandi hafi ekki, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir, látið félaginu í té nauðsynlegar upplýsingar til þess að ákvarða greiðsluskyldu þess eða til þess að meta tjónið. Fyrirliggjandi misvísandi upplýsingar hafi gefið stefnda fulla ástæðu til að sýna ítrustu varfærni í tjónsuppgjörinu. Í ljósi þessa sé rétt, að stefnandi greiði stefnda málskostnað eða í öllu falli, að málskostnaður verði felldur niður verði stefnanda tildæmdar einhverjar bætur.
Stefndi vísar til stuðnings kröfum sínum til þeirrar almennu reglu í vátryggingarétti, að vátryggingartaki verði að sanna að skilyrði séu fyrir hendi til greiðslu bóta og vísar þessu til frekari stuðnings til laga 20/1954 um vátryggingasamninga, einkum til 4., 6. og 7. gr. um rangar upplýsingar við samningsgerð, 37. og 38. gr. um mat á tjóni, 40. gr. um undirtryggingu.
Um vexti á vátryggingabætur vísar stefndi til 24 gr. laga 20/1954 og ákvæða vaxtalaga nr. 25/1987, en styður málskostnaðarkröfu sína við 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og a. lið 1. mgr. 131. gr. sömu laga.
Forsendur og niðurstaða.
Við aðalmeðferð málsins mættu matsmennirnir Jón Trausti Guðjónsson og Valdimar Johansen og staðfestu matsgerð sína. Þeir greindu frá því, að þeir hafi leitað upplýsinga hjá verslunum og öðrum þeim, sem til þekktu við verðákvörðun á þeim munum á listum þeim, sem stefnandi gerði og horfið höfðu við innbrotið. Við verðmat á málverkum hafi þeir haft samband við listaverkasala, sem þekkt hafi til einhverra mynda á lista stefnanda. Valdimar kvað matsmenn hafa í mati sínu fremur hallað á stefnanda en stefnda, einkum þar sem matið hafi beindist að því að meta safn muna, þar sem talað hafi verið um mikið magn. Þegar svo stóð á hafi þeir miðað við fjölda slíkra hluta á meðalheimili. Þeir hafi ennfremur reynt að verðmeta þá hluti, sem fundust í húsi stefnanda eftir innbrotið. Hafi þeir stuðst við ljósmyndir þær, sem teknar voru á vettvangi 12. febrúar 1995 og metið þá hluti, sem heillegir virtust. Verðmat þessara hluta sé innifalið í niðurstöðutölu í matsgerðinni undir liðnum "hlutir sem eftir voru og skiluðust" að fjárhæð 213.000 krónur. Þeir hafi leitast við að standa eins vel að þessu verki og frekast var kostur og haft til hliðsjónar í mati sínu 37. gr. og 1. mgr. 39. gr. laga nr. 20/1954 (vsl) og 6. gr. í vátryggingaskilmálum vátryggingafélagsins Skandia hf.
Ágreiningslaust er, að stefnandi hafði gilda innbústryggingu hjá vátryggingafélaginu Skandia hf., þegar innbrotið í hús stefnanda átti sér stað. Ekki er heldur ágreiningur um það, að stefnandi hafi 31. janúar 1995 hringt í Þórð Þórðarson, starfsmann Skandia hf. og hækkað tryggingarfjárhæðina í 5.500.000 krónur. Hins vegar greinir málsaðila á um umfang tjóns stefnanda og eins hvort hækkun tryggingarfjárhæðarinnar hafi gildi gagnvart stefnda.
Fyrst verður tekin afstaða til þess, hvort hækkun vátryggingarfjárhæðarinnar hafi gildi gagnvart stefnda, eins og á stóð, þegar til hennar var stofnað.
Stefndi byggir á því í þessu sambandi, að stefnandi hafi vísvitandi eða í öllu falli af gáleysi leynt viðkomandi starfsmann vátryggingafélagsins Skandia hf. þýðingarmiklum upplýsingum, sem leitt hefði til þess, að hækkunarbeiðninni hefði verið hafnað, a.m.k. þar til könnun hefði farið fram á vettvangi og upplýsingar lægju fyrir um ástand búslóðarinnar Stefnanda hafi verið kunnugt um það, að afbrotamenn hefu haft leiguafnot af húsinu, sbr. bréf Helgu Leifsdóttur dags. 6. janúar 1995 (sjá neðst á bls. 2 hér að framan), sem hann upplýsti tryggingafélagið ekki um. Einnig hafi legið fyrir á þessum tíma, að brotist hafði verið inn í húsið, sem hlaut að auka áhættu tryggingasala. Loks byggir stefndi á því í þessu tilliti, að þeir hlutir, sem stefnandi geri kröfu til að bættir verði, hafi þá þegar verið horfnir, þegar vátryggingarfjárhæðin var hækkuð sbr. kærubréf Helgu Leifsdóttur dags. 10. febrúar 1995, (sjá leturbreytingu á bls. 8 um miðja síðu).
Dómurinn lítur svo á, að stefnanda hafi borið að gera viðkomandi starfsmanni vátryggingafélagsins Skandia hf. grein fyrir efni bréfs Helgu Leifsdóttur í símtali því, sem leiddi til hækkunar tryggingarfjárhæðarinnar. Stefnanda var á þessum tíma kunnugt um, að leigjandi hússins var óreglumaður og fíkniefnaneytandi, sem lögreglan hafði haft afskipti af. Stefnanda mátti vera það vel ljóst, að aukin áhætta er því samfara að slíkur maður og fylgdarlið hans hefðu aðgang að húsinu. Búslóð stefnanda var geymd á geymslulofti hússins, eins og áður er vikið að, sem leigjandi og/eða fólk á hans vegum gátu hæglega komist að og hagnýtt sér. Að fengnum réttum upplýsingum hefði tryggingafélagið átt þess kost að kanna aðstæður og ástand húss og búslóðar, áður en tekin var afstaða til hækkunar vátryggingarfjárhæðarinnar.
Þykir stefnandi hafa sýnt af sér svo stórkostlegt gáleysi og skeytingarleysi með því að hafa látið hjá líða að upplýsa viðkomandi starfsmann Skandia hf. um rétta stöðu mála að leiða eigi til þess að hækkun tryggingarinnar er metin ógild með vísan til 7. gr. sbr. 6. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954.
Í fyrrnefndum Hæstaréttardómi er talið sannað að brotist hafi verið inn í hús stefnanda á vátryggingartímanum og munum stolið úr innbúi stefnanda. Þar eru einnig tekin af öll tvímæli um greiðsluskyldu stefnda og því ennfremur því slegið föstu að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því, að einstakir hlutir hafi horfið eða skemmst af öðrum orsökum en innbroti í læst íbúðarhús. Á hinn bóginn leggur Hæstiréttur þá skyldu á herðar stefnanda að sanna umfang tjóns síns, sbr. 22. gr. vsl. m.a. með því að verðsetja þá muni, sem glötuðust við innbrotið svo og þá muni, sem eftir voru skildir í húsinu og þá er síðar fundust.
Í 6. gr. vátryggingaskilmálanna, sem Hæstiréttur vísaði til, er fjallað um bótaákvörðun og uppgjör tjóns. Í 4. mgr. 6. gr. skilmálanna er mælt svo fyrir, að hvor málsaðila um sig geti krafist þess, að bætur séu ákveðnar með mati og velji hvor aðili sinn matsmann, ef ágreiningur rís um fjárhæð vátryggingarbóta. Oddamann skal tilkveðja komi matsmenn sér ekki saman og ræður þá afl atkvæða úrslitum. Ákvörðun matsmanna skuli vera bindandi fyrir báða aðila.
Næst liggur fyrir að fjalla um bótakröfu stefnanda á hendur stefnda.
Matsgerð sú, sem liggur frammi í málinu og áður er lýst tekur alfarið mið af upptalningu stefnanda á þeim munum, sem hann telur að horfið hafi, eða eyðilagst við innbrotið í hús hans.
Stefndi gerði fyrirvara er laut að réttmæti lista stefnanda yfir horfna muni, þegar hann tilnefndi matsmann sinn. Verður að telja, þann fyrirvara eiga rétt á sér, eins og hér háttar til.
Samkvæmt 22. gr. vsl. sem Hæstiréttur vísar til í fyrrnefndum dómi sínum, ber vátryggðum að veita félaginu allar þær upplýsingar, er honum er unnt að veita um atvik, er máli kunna að skipta, er dæma skal um vátryggingaratburðinn eða er ákveða skuli fjárhæð þá, er félaginu ber að greiða.
Þegar svo stendur á sem í máli þessu er stefnanda óhægt um vik um sönnur á því, hvað forgörðum fór við innbrotið. Hlutirnir eru horfnir. Vátryggingafélagið Skandia hf. seldi stefnanda tryggingu, án þess að kanna umfang og verðmæti hins tryggða. Verður því við mat á umfangi á tjóni stefnanda og ákvörðun á skaðabótum honum til handa að líta til þessa.
Stefnandi hefur aftur á móti ekkert aðhafst til að færa sönnur á tjón sitt, þrátt fyrir áskoranir stefnda. Í framburði sínum fyrir héraðsdómi í fyrra dómsmálinu, upplýsti stefnandi, að hluti þeirra muna, sem hurfu við innbrotið hafi stafað frá tveimur dánarbúum. Stefnanda ætti að vera auðvelt að færa sönnur á þessa frásögn sína með því að leggja fram erfðafjárskýrslur, sem sýni það a.m.k. að hann hafi hlotið arf. Þá hefur stefnandi ekkert afhafst til reyna að færa sönnur á eignarhald sitt að verðmætum munum s.s. málverkum, minkapelsum og öðrum verðmætum sérstæðum munum, sem upp eru taldir á listum hans og fyrrverandi sambýliskonu með framburði vitna, listaverkasala, fjölskylduljósmyndum eða með öðrum hætti í samræmi við áskoranir stefnda en slík sönnunarfærsla í einhverri mynd hefði átt að vera stefnanda möguleg.
Í 2. tl. vátryggingaskilmálanna er því lýst til hvaða muna vátryggingin taki. Þar kemur fram, að með innbúi sé átt við lausafjármuni, er fylgja almennu heimilshaldi og talið upp í dæmaskyni ýmsir hlutar búslóðar, sem tryggingin taki til, m.a. málverk, viðleguútbúnaður og tómstundaáhöld o.fl. Þá er þess ennfremur getið, að verkfæri, varahlutir og áhöld, sem vátryggður á og notar í atvinnu sinni bætist með allt að 5% af vátryggingarfjárhæðinni, enda verði tjónið á þeim stað, sem nefndur sé í vátryggingarskírteininu. Loks er lýst nokkrum eignum, sem vátryggingin tekur ekki til, m.a. dýra, báta eða hluta, sem tilheyra nefndum tækjum.
Stefndi byggir á því, með vísan til síðastgreinds ákvæðis í vátryggingaskilmálunum, að líta eigi á tæki þau, sem upp eru talin á lista stefnanda sem tæki tengd atvinnu hans, enda hafi stefnandi starfað sem bifvélavirki, áður en hann hvarf af landi brott á árinu 1993. Sama gildi um reiðtygi, sem talin séu upp í listum stefnanda.
Ljóst þykir, þegar litið er til upptalningar stefnanda á tækjum þeim, sem hann telur að horfið hafi, að umfang þeirra og gerð er langt umfram það, sem tilheyrir venjulegu heimilishaldi. Verður því að fallast á það með stefnda að bætur fyrir þau skuli nema 5% af matsverði þeirra. Samkvæmt niðurstöðu matsmanna nam heildarverðmæti tækja stefnanda 2.528.500 krónum og skulu bætur fyrir þau því nema 126.425 krónum.
Að því er varðar reiðtygi og fleira tengt hestamennsku, sem stefnandi tilgreinir á listum sínum, ber að mati dómsins að líta á þau, sem tæki til tómstundaiðkunar sem bæta skuli að fullu.
Eins og áður er lýst hefur stefnandi ekki uppfyllt skilyrði 22. gr. vsl. og ekki orðið við tilmælum stefnda um að renna frekari stoðum undir bótakröfur sínar en hann hefur þegar gert.
Þrátt fyrir það þykir sannað, að stefnandi hefur orðið fyrir tjóni, sem er þess eðlis að erfitt er að sanna með fullnægjandi og ótvíræðum hætti. Í ljósi þessa og með vísan til þess, að tryggingarfélagið Skandia hf. veitti stefnanda vátryggingarvernd m.a. gegn innbroti, án þess að kanna áður umfang og verðmæti innbús hans, þykir verða, eins og hér stendur á að ákvarða stefnanda skaðabætur að álitum, sem þykja hæfilegar 3.000.000 króna. Er þá tekið tillit til ákvarðaðra bóta vegna tækja stefnanda hér að framan.
Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að tildæmd fjárhæð beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá uppsögudegi dóms þessa til greiðsludags og er þá m.a. litið til þess, að stefndi bauð stefnanda munnlega 3.000.000 króna í heildarbætur, þegar niðurstaða matsmanna lá fyrir.
Með vísan til tilboðs stefnda þykir rétt, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.
Skúli J. Pálmason héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf. greiði stefnanda, Kristni Ó. Kristinssyni, 3.000.000 króna og skal tildæmd fjárhæð bera dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá uppsögudegi dóms þessa til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.