Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-277

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Guðberg Þórhallssyni (enginn) og Rúnari Má Sigurvinssyni (enginn)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Mútur
  • Refsiákvörðun
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 5. nóvember 2021 leitar ákæruvaldið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. október sama ár í málinu nr. 524/2020: Ákæruvaldið gegn Guðberg Þórhallssyni og Rúnari Má Sigurvinssyni á grundvelli 4. mgr. 215. gr., sbr. 1. mgr. 216. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærðu hafa ekki tekið afstöðu til beiðninnar.

3. Með dómi Landsréttar var ákærði Rúnar Már Sigurvinsson sakfelldur fyrir umboðssvik og ákærði Guðberg Þórhallsson fyrir hlutdeild í þeim. Talið var sannað að ákærðu hefðu, að frumkvæði ákærða Rúnars Más, haft samráð um að hann myndi í krafti stöðu sinnar hjá Isavia ohf. sjá til þess að félagið keypti, í nánar tilgreind skipti, aðgangsmiða fyrir bílastæðahlið félagsins af Boðtækni ehf. á hærra verði en eðlilegt gat talist og náð samkomulagi um að skipta með sér ávinningnum. Einnig voru ákærðu sakfelldir fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var ákærði Rúnar Már sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 264. a sömu laga. Landsréttur taldi hins vegar að háttsemi ákærða Guðbergs yrði ekki felld undir verknaðarlýsingu 1. mgr. sömu lagagreinar og sýknaði hann af því ákæruefni.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt. Hann telur að það hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um túlkun á 264. gr. a almennra hegningarlaga um mútugreiðslur í einkarekstri að því er varðar ákærða Guðberg. Í málinu reyni í fyrsta sinn á beitingu ákvæðisins, sbr. 4. gr. laga nr. 125/2003, með síðari breytingum. Því sé mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um beitingu þess og ákvörðun viðurlaga. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar um sýknu ákærða Guðbergs af broti gegn 1. mgr. 264. gr. a sé bersýnilega rangur að efni til.

5. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess, meðal annars um beitingu 264. gr. a almennra hegningarlaga og um ákvörðun viðurlaga, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.