Hæstiréttur íslands
Mál nr. 301/2014
Lykilorð
- Verksamningur
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 13. nóvember 2014. |
|
Nr. 301/2014. |
Fúsi
ehf. (Grímur Sigurðarson hrl.) gegn Skipalyftunni
ehf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Verksamningur. Skaðabætur.
F ehf., sem tók að sér verk fyrir S
ehf. sem undirverktaki, krafðist skaðabóta úr hendi S ehf. vegna tjóns sem
félagið taldi sig hafa orðið fyrir vegna þess að S ehf. hefði ekki afhent
verkið á umsömdum verktíma. Byggði F ehf. á því að félagið hefði orðið fyrir
auknum kostnaði vegna tafanna og krafðist þess að sér yrði bætt það tjón úr
hendi F ehf. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, var talið
ósannað að aðilarnir hefðu samið um að verkið yrði unnið á tilteknum tímum eða
að því skyldi lokið fyrir tiltekið tímamark. S ehf. gæti þannig ekki borið
skaðabótaábyrgð á því að verkið hefði ekki allt verið tilbúið í einu lagi. Þá
hefði F ehf. ekki sýnt fram á að fullnægt væri skilyrðum 36. gr. samningalaga
til að víkja samningi aðila til hliðar eða breyta honum. Var S ehf. því sýknað.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2014. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.010.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. júlí 2011 til greiðsludags. Til vara krefst hann skaðabóta að álitum úr hendi stefnda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Varakrafa áfrýjanda, sem rúmast innan aðalkröfu hans og kom fyrst fram fyrir Hæstarétti, er byggð á sömu málsástæðum og aðalkrafa hans.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu hans að stefndi beri ekki skaðabótaábyrgð á því tjóni sem áfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir. Þá er fallist á þá niðurstöðu dómsins að verksamningi aðila verði ekki vikið til hliðar eða honum breytt á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, enda hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að fullnægt sé skilyrðum til að það ákvæði geti átt við í málinu. Þegar af þessum ástæðum verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða
stefnda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og
í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Fúsi ehf., greiði stefnda, Skipalyftunni ehf., 1.800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms
Suðurlands 11. febrúar 2014.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 10. janúar sl., er höfðað
með stefnu birtri 30. maí 2013.
Stefnandi
er Fúsi ehf., kt.
440305-0750, Miðtúni 6, Sandgerði.
Stefndi
er Skipalyftan ehf., kt.
450182-0369, Eiði, Vestmannaeyjum.
Endanlegar
dómkröfur stefnanda eru að stefndi greiði
stefnanda kr. 10.010.000,- auk dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001, frá 8. júlí 2011 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi
málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti úr hendi stefnda samkvæmt
málskostnaðarreikningi.
Stefndi
gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda í málinu. Þá
krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Við aðalmeðferð gáfu
skýrslur Sigfús Þórhallur Gunnarsson framkvæmdastjóri stefnanda, Ólafur
Friðriksson tæknifræðingur og stjórnarmaður stefnda, Friðrik Björgvinsson
fyrrverandi verkefnastjóri Vestmannaeyjabæjar, Ólafur Þór Snorrason
framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar, Árni Baldvin
Sigurpálsson verstjóri hjá stefnanda og Aðalsteinn Þórðarson dómkvaddur
matsmaður.
Fyrir uppkvaðningu dóms
var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Málavextir
Stefndi Skipalyftan ehf.
var verktaki við enduruppbyggingu á upptökumannvirkjum í Vestmannaeyjabæ og
gerði samning við Vestmannaeyjabæ þess efnis. Stefnandi tók að sér verkefni
fyrir stefnda vorið 2010 sem undirverktaki. Verkið sem stefnandi tók að sér
fólst í sandblæstri og málningu á skipalyftu í tengslum við þann þátt
endurbyggingarinnar. Fyrir liggur upplýsingabæklingur um verkið frá því í mars
2010 þar sem verkinu er að einhverju leyti lýst, en hvorki kemur þar fram
hvenær hefja skyldi verkið, hvenær því skyldi lokið né heldur magntölur.
Stefndi kveður að um hafi
verið að ræða mikilvægt atvinnu- og byggðamál fyrir Vestmannaeyjar þar sem
miklu hafi skipt að hægt væri að taka togara í skipalyftu og veita tilheyrandi
þjónustu. Upptökumannvirkin hafi skapað umtalsverða atvinnu í byggðarlaginu og
því mörg fyrirtæki unnið að uppbyggingunni. Verktími einstakra verkhluta hafi
miðast við að uppbyggingin truflaði ekki verkefnastöðu viðkomandi fyrirtækja.
Því hafi verið ljóst að verkið tæki umtalsverðan tíma og að verklok yrðu ekki
miðuð við tiltekna dagsetningu. Öllum sem komu að framkvæmdinni hafi verið
þetta kunnugt.
Aðilar eru sammála um að
stefnandi hafi gert skriflegt tilboð í verkið upp á kr. 30.000.000 með tilteknu
einingaverði per fermetra. Kveður stefnandi að
tilboðið hafi svo hækkað um 1.110 kr/m2 því stefndi
hafi beðið um aukaþykkt á málningu.
Stefndi lýsir því í
málavaxtalýsingu sinni að aðdragandi tilboðs stefnanda hafi verið sá að vorið
2010, þegar framkvæmdir hafi verið vel á veg komnar, hafi stefndi leitað til
stefnanda, en það hafi legið beint við þar sem stefnandi hafi þá nýlokið vinnu
fyrir stefnda í m/s Álsey VE 2 í Vestmannaeyjum og verið því með búnað og
tækjakost í Vestmannaeyjum. Tilboðið hafi verið í sandblástur og málningu
þriggja stálgrindarbita, en þar sé um að ræða það verk sem mál þetta varðar.
Stefnandi hafi sjálfur framkvæmt allar nauðsynlegar mælingar sem legið hafi til
grundvallar tilboðinu. Samþykkt tilboð hafi hljóðað upp á 30.000.000 kr. án
vsk., án tillits til verktíma. Hafi
stefndi samþykkt tilboð stefnanda og hafi báðum aðilum verið ljóst að verkið
skyldi unnið án þess að tiltekinn væri lokadagur þess en unnið skyldi eftir
aðstæðum, mannskap og veðri.
Stefnandi kveður að
aðalverk hans fyrir stefnda hafi því alls verið upp á kr. 32.775.000 og hafi
það átt við hluta af stálvirki skipalyftunnar sem ýmist hafi verið nefndir
bitar eða grindur.
Kveður stefnandi að
áætlun stefnanda hafi gert ráð fyrir 1.700 klst. í verkið á 45 dögum og hafi
allar forsendur verið reiknaðar miðað við að verktíminn væri frá júní 2010 til
septemberloka sama ár. Þá hafi einnig aðrir hlutar á stálvirki skipalyftunnar,
svo sem undirstöður, spil, gírar, mótorar o.þ.h., verið sandblásnir og málaðir
en þau verk hafi verið aukaverk og ekki hluti af tilboði í aðalverkið og
reikningar fyrir þau verk gjaldfærð sérstaklega á reikningum.
Stefndi kveður að þar sem
verkið hafi reynst umfangsmeira en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi hafi
verið greiddar aukaeiningar á grundvelli sömu verða, samtals 13.949.850 kr. án
vsk. Verkinu hafi lokið að fullu í apríl
2011 og hafi þá stefnandi fengið greitt af hálfu stefnda samtals 43.949.850 kr.
án vsk.
Í umræddu tilboði, sem
aðilar eru sammála um að hafi verið grundvöllur samnings aðila, segir ekkert um
verktíma eða neitt um forsendur tilboðsins, en aðeins er lýst magntölum og
einingaverðum.
Stefndi kveður að tilboð
stefnanda hafi grundvallaðist á einingarverðum þar sem allur tilfallandi
kostnaður hafi átt að vera innifalinn, svo sem flutningur á tækjum og efni auk
gistingar og fæðis starfsmanna. Enginn fyrirvari hafi verið gerður um forsendur
þeirrar hugsanlegu kostnaðaráætlunar sem að baki útreikningum stefnanda hafi
legið.
Eru aðilar sammála um að
ekki hafi verið gerður milli þeirra annar skriflegur samningur. Stefnandi
kveður að á fyrsta verkfundi stefnanda og stefnda hafi komið fram hjá stefnda
að vegna útboðsreglna Vestmannaeyjabæjar mætti ekki semja um meira en kr.
10.000.000.- fyrir hvert verk og stefndi því ekki jafnframt viljað gera
skriflegan verksamning við stefnanda af þeim sökum. Hefur stefndi mótmælt þessu
sem ósönnuðu.
Alls gaf stefnandi út 20
reikninga til stefnda, á tímabilinu frá 30. júní 2010 til 2. apríl 2011, vegna
vinnu við stálvirki skipalyftunnar fyrir aðal- og aukaverk, alls að fjárhæð kr.
41.906.950 án vsk. Auk þess gaf stefnandi út reikning 16. febrúar 2011, að
fjárhæð kr. 2.042.900 án vsk, sem stefndi og
Hafnarsjóður Vestmannaeyjabæjar hafi skipt með sér en um hafi verið að ræða
annað verk ótengt verksamningi aðila. Við uppgjör síðastgreinds reiknings
kveðst stefndi hafa talið að stefnandi hefði þá þegar fengið greitt umfram
samning aðila.
Verkið
hófst 24. júní 2010 og kveður stefnandi að sú verkáætlun hafi verið lögð til
grundvallar að verkinu skyldi ljúka í september 2010, enda hafi það verið ætlun
stefnda að byrja að nota skipalyftuna um áramótin 2010/2011. Því hafi verið
lögð mikil áhersla á það af hálfu stefnda að verkinu yrði lokið um haustið
2010. Þegar hafi liðið fram í septembermánuð 2010 hafi verið orðið ljóst að
ekki væri raunhæft að ljúka verkinu á þeim tíma sem stefnt hafi verið að og
hafi tafirnar allar verið vegna stefnda sem hafi ekki afhent stefnanda hluta af
verkinu á réttum tíma. Ekki kannast stefndi við þá verkáætlun sem stefnandi
vísar til að verkinu skyldi ljúka í september 2010.
Kveður
stefnandi að stefndi og Vestmannaeyjabær hafi lagt á það mikla áherslu að
stefnandi myndi ljúka verkinu og sannfært stefnanda um að hann fengi önnur verk
frá stefnda og Vestmannaeyjabæ þannig að stefnandi gæti haldið mannskap og
tækjum úti án þess að verða fyrir tjóni. Það hafi hinsvegar ekki gengið eftir eftir nema að
mjög litlu leyti og stefnandi hafi þurft að halda úti mönnum og tækjum í 10
mánuði í staðinn fyrir 3 eins og áætlanir hafi gert ráð fyrir og verkinu því
ekki lokið fyrr en í apríl 2011.
Stefnandi
kveðst hafa upplýst stefnda reglulega um tafir á verkinu og skráð í
dagsskýrslur sem hafi verið afhentar stefnda á verkfundum sem yfirleitt hafi
farið fram einu sinni í viku. Upplýst hafi verið að tafir á verkinu hafi verið
vegna þess að stefndi hafi seinkað afhendingu á hlutum í skipalyftunni til
sandblásturs og málunar.
Í
4. fundargerð verkstöðufundar stýrihóps hjá stefnda og Vestmannaeyjabæ þann 25.
ágúst 2010 kemur fram m.a. “Eftir þessa
yfirferð var farið yfir verkáætlanir þar sem verkið er á eftir áætlun, það sem
varð að samkomulagi að hraða allri vinnu við stálviðgerðir eins og hægt er og
ljúka þeim sem fyrst, því það er ekki sjálfgefið að við höfum veður fyrir
sandblástur þegar líða fer á haustið.”
Í lok ágúst 2010 kemur fram
í dagskýrslum stefnanda að einungis hafi verið lokið um 40% af sandblæstri á
grindum og bitum og kveður stefnandi stefnda ekki hafa afhent frekari verk fyrr
en í lok október 2010, eftir þá tveggja mánaða hlé í afhendingu hluta af
verkinu. Þá hafi tvær grindur verið afhentar til sandblásturs. Hafi framkvæmd
verksins verið með svipuðum hætti fram allan veturinn. Stefndi hafi afhent
hluta af verkinu en erfiðlega gengið að sandblása og mála sökum veðurs. Í
byrjun apríl hafi stefnandi svo loks lokið verkinu.
Stefnandi kveður að eftir
lok verksins hafi stefnandi átt í viðræðum við forsvarsmenn stefnda og
Vestmannaeyjabæ um uppgjör vegna þess kostnaðar sem stefndi hafi orðið fyrir
vegna tafanna og sent í kjölfarið á þeim viðræðum reikning til stefnda 8. júní
2011 upp á kr. 10.040.000 með vsk. Um hafi verið að ræða tilboð af hálfu
stefnanda til að ljúka málinu. Reikningurinn var ekki samþykktur af stefnda og
var endursendur. Í reikningnum var
tilgreint að hann væri vegna „aukakostnaðar
vegna tafa og lengingu verks vegna Skipalyftu“. Á reikningnum kom fram að
hann væri vegna 2.500 eininga og að einingarverð hverrar einingar væri 3.200
kr. Engin útskýring eða sundurliðun fylgdi reikningnum, þ.á m. hvort
reikningurinn byggði á samningi aðila eða hvort um skaðabótakröfu væri að ræða.
Með bréfi dags. 12.
október 2011 bauð lögmaður stefnanda
stefnda að „gera bæturnar upp“ með kr. 12.901.400 samkomulagsgreiðslu.
Kveður stefnandi að það tilboð hans hafi fyrst og fremst snúist um beint tjón
vegna aukins kostnaðar við að halda mannafla og tækjum lengur í Vestmannaeyjum,
auk lögfræðikostnaðar. Ekki hafi verið gerð krafa um tjón vegna hagnaðarmissis
eða rekstrartjóns. Lögmaður stefnda hafnaði tilboðinu með bréfi dags. 11.
nóvember 2011 og sendi lögmaður stefnanda þá annað bréf dags. 22. nóvember sama
ár, en því bréfi svaraði lögmaður stefnda með bréfi dags. 19. desember 2011 og
tók fram að málinu væri lokið af hálfu félagsins.
Með matsbeiðni, dags. 6.
mars 2012, fór stefnandi fram á að dómkvaddur yrði óvilhallur matsmaður til að
meta „tjón stefnanda vegna tafa sem urðu á verksamningi um vinnu við
skiptalyftu í Vestmannaeyjum á tímabilinu júní 2010 til apríl 2011“. Aðalsteinn
Þórðarson, efnaverkfræðingur, var dómkvaddur til verksins af Héraðsdómi
Reykjavíkur þann 30. mars 2012. Var matsmaður beðinn um að leggja mat á
eftirfarandi atriði:
1.
„Hvert
var beint tjón matsbeiðanda þar sem verkið tafðist frá september 2010 til apríl
2011?
2.
Hvert
er rekstrartjón matsbeiðanda af því að endurheimta ekki tæki og vinnuafla frá
Vestmannaeyjum fyrr en í apríl 2011.
3.
Hvert
var raunvirði verksamningsins miðað við verktíma.
4.
Hvað
er sanngjarnt endurgjald fyrir vinnu og útlagðan kostnað matsbeiðanda?
5.
Hver
er áætlaður tímafjöldi við vinnu á verkinu.
6.
Hver
var aukinn kostnaður matsbeiðanda vegna tafa á verkinu frá september 2010 til
apríl 2011, til dæmis vegna launa-, húsnæðis-, fæðis, ferða-,
flutningskostnaðar o.s.frv.“
Matsgerð hins dómkvadda
matsmanns hefur verið lögð fram í málinu og er það niðurstaða matsmanns að
kostnaður stefnanda vegna framlengingar á verkinu til apríl 2011 sé í samræmi
við kröfu stefnanda á umframkostnaði vegna tafa í skiptalyftunni, alls kr.
10.010.000 án virðisaukaskatts.
Kveður stefndi matsmann
hafa haldið matsfund í Vestmannaeyjum þann 2. maí 2012. Á matsfund hafi verið
mættir lögmenn og fulltrúar beggja aðila svo og lögmaður Vestmannaeyjarbæjar.
Hafi lögmaður stefnanda þá lagt fram dagskýrslur vegna verksins í fyrsta
skipti, en auk þess hafi lögmaður stefnda lagt fram athugasemdir við
matsbeiðni. Á fundinum hafi matsmaður beint spurningum til aðila, auk þess sem
hann hafi óskað eftir viðbótargögnum um einstök atriði. Í lok matsfundar hafi
komið fram að matsmaður hygðist boða aðila til annars matsfundar „og kynna [
]
heildarsýn yfir verkið, áður en hann hefjist handa við lokafrágang á
matsgerðinni.“ Að fundi loknum hafi báðir aðilar sent matsmanni tölvupósta. Lögmaður
stefnanda hafi óskað eftir því að koma að frekari gögnum og skýringum til
matsmanns, en lögmaður stefnda óskað eftir því að fá afrit allra framlagðra
gagna þannig að unnt væri að gera athugasemdir ef tilefni væri til. Í þessum
tölvupóstsamskiptum hafi matsmaður
áréttað að hann hygðist halda matsfund áður en hann skrifaði matsgerðina.
Enginn matsfundur var
hins vegar haldinn af hálfu matsmanns eftir þetta og kveðst stefndi ekkert hafa
heyrt af málinu fyrr en 8. janúar 2013 þegar afrit matsgerðarinnar hafi verið
sent lögmanni stefnda.
Með bréfi, dags. 25. febrúar 2013, sendi lögmaður stefnanda
tilboð til stefnda um að ljúka málinu með greiðslu á kr. 8.000.000 til
stefnanda og var því svarað og hafnað með bréfi, dags. 11. mars 2013.
Stefnandi kveður kröfu
sína vera um skaðabætur í samræmi við niðurstöðu
matsgerðar og á grundvelli þeirra forsendna sem fram koma í matsgerð. Er
dómkrafan sundurliðuð þannig:
Launakostnaður
umfram áætlun: 8.300.000.-
Húsaleiga
umfram áætlun: 810.000.-
Fæðiskostnaður
umfram áætlun: 670.000.-
Ferðakostnaður
umfram áætlun: 230.000.-
Samtals án vsk. 10.010.000.-
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst byggja
kröfu sína á því að hafa orðið fyrir tjóni vegna þess að verkið sem hann hafi
tekið að sér að vinna fyrir stefnda hafi tafist af ástæðum sem rekja megi til
stefnda. Orsök tafanna sé atvik sem stefnanda verði ekki kennt um heldur beri
stefndi ábyrgð á því að hafa ekki afhent verkið til stefnanda á umsömdum
verktíma sem hafi verið frá júní 2010 til loka september sama ár.
Vegna vanefnda stefnda
hafi stefnandi ekki getað ráðist í samningsbundnar framkvæmdir við að sandblása
og mála bita og grindur skipalyftunnar eins og áformað hafi verið.
Vegna þeirra tafa sem
hafi orðið á verkinu hafi stefnandi orðið fyrir miklu tjóni. Tjónið felist í
auknum kostnaði sem hafi farið umfram áætlun, þ.e. launa-, húsnæðis-, fæðis-,
ferða- og flutningskostnaði. Krafa stefnanda byggi þannig á skaðabótum innan
samninga vegna þess tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna vanefnda
stefnda.
I.
Kveður stefnandi að
stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna þeirra tafa sem hafi
orðið á afhendingu á verkinu til stefnanda. Stefnandi hafi mátt og orðið að
geta treyst því að verktíminn sem tilboð stefnanda og verkáætlun hafi miðast og
sem samið hafi verið um við stefnda, myndi standast. Sá kostnaðarauki sem
stefnandi hafi orðið fyrir feli í sér tjón sem leitt hafi af því að stefndi
hafi ekki efnt loforð sitt um verkáætlun sem samið hafi verið um og stefnandi
hafi haft réttmætar væntingar um að myndi standast. Gildi einu hvort svo verði
litið á, að um sé að tefla kostnaðarauka stefnanda vegna verksins eða tjón
hans.
Vanefnd
stefnda felist í því að hafa ekki afhent stefnanda verkið á umsömdum verktíma.
Af dagskýrslum stefnanda, sem stefnandi hafi afhent stefnda reglulega, megi
ráða að verulega hafi dregið úr framvindu verksins í ágúst 2010 þar sem stefnandi
hafi ekki komist í að mála bita og grindur skipalyftunnar vegna tafa hjá
stefnda. Í september 2010 hafi enn dregið úr framvindu verksins þar sem
einungis ein grind af stálvirki skipalyftunnar hafi verið afhent undir málun. Í
lok október 2010 hafi hlutar verksins svo verið afhentir eftir nær tveggja
mánaða stöðvun á afhendingu verksins. Af greiðsluflæði reikninga megi jafnframt
ráða að einungis hafi 40% verið lokið af verkinu í lok september 2010 þegar
verkinu hafi átt að vera lokið samkvæmt verksamningi.
Eftir
því sem afhending á verkinu hafi dregist á langinn fram á haustið hafi orðið æ
erfiðara fyrir stefnanda að athafna sig við framkvæmdina. Vinnudagurinn hafi
styst og allar veðurfarslegar aðstæður orðið erfiðari. Komi skýrlega fram í
dagskýrslum stefnanda að erfiðleikar hafi verið við að sandblása og mála
stálvirki skipalyftunnar vegna slæms veðurfars.
Kveður
stefnandi það ekki standast að enginn fastur tími hafi verið ákveðinn á
verklokum. Í fyrsta lagi hafi stefnda mátt vera ljóst að stefnandi hafi miðað
tilboð sitt við ákveðna verkáætlun sem hafi falið í sér að verktíminn fyrir
sandblástur og málun á stálvirki skipalyftunnar ættu sér stað frá júní til loka
september 2010. Kveður stefnandi að ef ekki hefði verið miðað við fastan tíma
þá hefði stefnanda ekki verið unnt að gera tilboðið enda meginatriði í
verktakarétti að verktaki geti reiknað út kostnað við framkvæmd verksins. Í
öðru lagi bendi gögn málsins til þess að stefndi hafi sjálfur á verkstöðufundi
í lok ágúst 2010 gert sér grein fyrir að verkið væri á eftir áætlun. Sé það í
samræmi við þá áherslu sem stefndi hafi lagt á við stefnanda í upphafi
verktímans að byrja ætti að nota skipalyftuna um áramótin 2010/2011. Í þriðja
lagi megi lesa í ályktun bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, dags. 22. október
2009, að miðað hafi verið við að endurbygging upptökumannvirkja skipalyftu
Vestmannaeyjahafnar yrði lokið á árinu 2010. Samkvæmt því fái það ekki staðist
að verkkaupinn Vestmannaeyjabær hafi samið um ótilgreind verklok á
endurbyggingunni.
II.
Þá kveðst stefnandi
byggja á því að stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda vegna þess að stefndi
hafi, með því að afhenda stefnanda ekki allt verkið á réttum tíma, stöðvað þar
með framkvæmdir verksins. Stöðvun verksins hafi alfarið verið á ábyrgð stefnda.
Verksamningur aðila hafi ekki gert ráð fyrir stöðvun á verkinu. Þá hafi stöðvun
á verkinu ekki verið í tengslum við rétta framkvæmd á verkinu né hafi stöðvun
verið þörf vegna öryggismála eða slíkra atriða.
Ef verkkaupi stöðvi
framkvæmdir þá eigi verktaki rétt á greiðslum fyrir þau aukagjöld sem af
stöðvuninni leiðir. Þessi regla hafi stoð í langri venju á sviði
verktakaréttar, en um það vísar stefnandi einkum til almennu útboðs- og
samningsskilmálanna ÍST 30, grein 25.2.
III.
Þá
byggir stefnandi jafnframt á að það sé ósanngjarnt af hálfu stefnda að bera
fyrir sig að enginn fastur verklokatími hafi verið á verkinu og að stefndi geti
af þeim sökum tafið framkvæmdir með því að afhenda stefnanda ekki verkið á
réttum tíma. Sé það ósanngjarnt vegna þess mikla kostnaðarauka sem af þessu
hafi leitt fyrir stefnanda. Þá sé ljóst að ef enginn fastur verklokatími
teljist hafa verið á verkinu að forsendur tilboðs stefnanda bresti. Því beri að
víkja þeim atriðum í verksamningi aðila til hliðar eða breyta á grundvelli 36.
gr. laga nr. 7/1936.
Kveður
stefnandi að þessi málsástæða byggi líka á túlkunarreglu verktakaréttar um að
leitast skuli við að koma í veg fyrir, að annar aðili geti byggt rétt á
verksamningi, sem telja verði ósanngjarnan eða óhæfilega íþyngjandi gagnvart
viðsemjanda hans.
Stefnandi
vísar jafnframt til þess að stefndi sem verkkaupi verði að bera hallann af því
að hafa ekki kveðið skýrt á um verktíma og verkáætlun í útboðsgögnum eins og 2.
mgr. 3. gr. laga nr. 65/2993 kveði á um.
Um
lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna samninga- og kröfuréttar. Þá sé
byggt á meginreglum verktakaréttar, reglum um skyldu til greiðslu skaðabóta
innan samninga vegna vanefnda gagnaðila á samningsskuldbindingum sínum. Kröfu
um dráttarvexti styður stefnandi við 9.
gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga
nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um
málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Almennt kveðst stefndi
mótmæla öllum málsástæðum stefnanda sem röngum og ósönnuðum og byggir á því að
samkomulag aðila hafi verið efnt að fullu af hálfu stefnda.
Stefndi
kveðst hafna þeirri málstæðu stefnanda að reikningur sá sem stefnandi gaf út 8.
júní 2011 sé í raun krafa um
skaðabætur, en það hafi fyrst komið fram í stefnu.
Stefndi byggir á því að
bótagrundvöllur sé ekki fyrir hendi í málinu, engar skráðar eða óskráðar
lagareglur leiði til þess að stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi
stefnda. Stefndi hafi ekki vanefnt samning aðila svo leitt hafi til tjóns fyrir
stefnanda, ekki sé sýnt fram á orsakasamband milli meintrar vanefndar og meints
tjóns auk þess sem ekki sé sýnt fram á að hið meinta tjón sé sennilega
afleiðing vanefnda stefnda. Þá sé matsgerð þeirri sem stefnandi aflaði alfarið
hafnað sem ónothæfri þar gerð hennar hafi verið í andstöðu við IX. kafla laga
nr. 91/1991 auk þess sem hún geti ekki með nokkru móti staðið til sönnunar á
tjóni stefnanda.
Þá hafi stefnandi ekki
sannað að stefndi hafi vanefnt samning aðila og að meintar vanefndir hafi
valdið stefnanda fjártjóni. Líta beri til þess að stefnandi beri
sönnunarbyrðina fyrir því að samningur aðila hafi verið vanefndur og að hann
hafi orðið fyrir tjóni. Slíkt liggi ekki fyrir í málinu. Jafnvel þó slíkt tjón
væri fyrir hendi kveðst stefndi ekki telja það á sína ábyrgð enda virðist
stefnandi ekki hafa sinnt þeirri skyldu að takmarka tjón sitt. Bendir stefndi á
að í málinu sé deilt um ákvæði munnlegs samnings. Slíkir samningar séu
jafngildir skriflegum samningum í íslenskum rétti. Verði hins vegar ágreiningur
milli aðila um ákvæði slíks samnings sé sönnunarbyrðin lögð á þann sem haldi fram
frekari rétti en aðilar séu sammála um. Slík sönnunarbyrði sé á stefnanda og
hafi hann í engu lagt fram gögn sem undirbyggi málatilbúnað hans.
Að frágengnum ofanlýstum
málsástæðum sem stefndi tilgreinir sem almennar eru málsástæður stefnda
númeraðar og kaflaskiptar og verður þeirri framsetningu haldið hér.
Um stofnun verksamnings aðila og efni hans
1. Stefndi byggir á því að stefnandi sé
bundinn af þeim samningi sem aðilar gerðu á grundvelli tilboðs stefnanda.
Verksamningar séu ekki formbundnir fremur en samningar almennt í íslenskum
rétti og því jafngildir hvort heldur þeir séu munnlegir eða skriflegir.
Stefnandi hafi gert stefnda fast tilboð, þ.e. tilboð um að verkið yrði unnið
fyrir tiltekna ákveðna peningagreiðslu. Tilboðið hafi verið gert á forsendum stefnanda
og á grundvelli eigin mælinga stefnanda sem hafi byggst á sérþekkingu hans.
Stefndi hafi tekið tilboðinu og engar breytingar gert á því og hafi því
stofnast samningur á milli aðila í samræmi við tilboð stefnanda. Í tilboði
stefnanda hafi engir fyrirvarar verið gerðir um verktíma. Fullyrðingum
stefnanda um annað sé hafnað sem röngum og ósönnuðum.
2. Stefnandi beri alfarið hallann af því
að hafa ekki útbúið skriflegan samning eða sett aðrar forsendur fram skriflega
sem kunni að hafa legið að baki tilboðsgerð hans. Fjárhæð sú sem stefnandi
krefji stefnda um sé langt umfram umsamið verð og hafi stefnandi misreiknað
tilboðsfjárhæðina í upphafi verði hann að bera hallann af slíkum útreikningum.
Kveður stefndi að ekki sé unnt á síðari stigum að setja frekari kröfur fram í
búningi skaðabóta, ekki síst þegar ekkert samningsbrot sé til staðar af hálfu
stefnda.
3. Í stefnu komi fram að áætlun
stefnanda hafi gert ráð fyrir 1.700 klst. í verkið á 45 dögum og allar
forsendur hafi verið reiknaðar miðað við að „verktíminn væri frá júní 2010 til
septemberloka sama ár“. Í framlagðri matsgerð komi þó fram að áætlun stefnanda
hafi gert ráð fyrir 2.880 klst. Væri með því gert ráð fyrir 64 vinnustundum á
sólarhring.
4. Hvorki við tilboðsgerð né síðar hafi
stefnda verið kynnt nefnd áætlun stefnanda og því ókunnugt um þær forsendur sem
hafi hugsanlega legið að baki tilboðsgerð hans. Mótmælir stefndi því að slík
áætlun hafi nokkurt gildi og telur fráleitt að hún hafi sönnunargildi fyrir
verktíma. Staðreyndin sé sú að milli stefnanda og stefnda hafi ekki verið samið
um fastan verktíma, hvorki skriflega né munnlega, heldur skyldi verkið unnið á
sem hagkvæmastan hátt með tilliti til annarra verka sem þyrfti að vinna á sama
tíma.
5. Stefndi hafnar sem röngum og
ósönnuðum fullyrðingum um að ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um
verkið vegna útboðsreglna Vestmannaeyjabæjar. Vísar stefndi til þess að
samningur stefnanda og stefnda hafi ekki verið útboðsskyldur, sbr. 3. gr. laga
nr. 84/2007 um opinber innkaup.
Um framkvæmd og framvindu verks
6. Ljóst sé að ekki hafi verið samið um
verktíma í upphafi verksins en vinna við verkið hafi hafist 24. júní 2010 og
lokið 2. apríl 2011. Í stefnu komi fram að verkáætlun stefnanda hafi verið lögð
til grundvallar því að verkinu „skyldi ljúka í september 2010“. Kveðst stefndi
hafna þessum forsendum stefnanda, annars vegar með vísan til þess sem fram sé
komið um að ekki hafi verið samið um föst verklok, og hins vegar með vísan til
þess að umrædd verkáætlun hafi ekki verið lögð fram og stefnda því alls
ókunnugt um hana.
7. Óumdeilt sé að framvinda verksins
hafi verið hægari eftir því sem leið á haustið 2010, en við því hafi mátt búast
þar sem veður geti verið með ýmsu móti hér á landi. Vegna þessa hafi stefnandi til dæmis óskað eftir því að komið
yrði upp tjaldi til þess að verjast veðuraðstæðum á vinnusvæðinu. Tjald hafi
verið keypt en hvorki sett upp né notað af hálfu stefnanda þar sem hann hafi
farið fram á að þeir hlutir sem kæmust á vörubíl hans yrðu fluttir til
Sandgerðis og unnir þar. Fyrir þann flutning hafi Hafnarsjóður greitt beint til
stefnanda 700.000 kr. auk vsk., en fyrir tjaldið hafi verið greiddar um 300.000
kr. af sama aðila. Stefndi telur lengd verktíma orsakast af eðlilegum ástæðum
sem hann geti ekki borið ábyrgð á enda hafi verið gert ráð fyrir því í upphafi
að veður gæti sett strik í reikninginn.
8. Stefnandi hafi fyrst á matsfundi þann
2. maí 2012 lagt fram dagskýrslur svo unnt væri að staðreyna framvindu
verksins. Í framlögðum dagskýrslum sé varla minnst á tafir fyrr en 2/3 séu
liðnir af hinum meinta verktíma, eða í byrjun september. Stefndi bendir á að
skýrslur þessar séu ekki undirritaðar af stefnda og telur stefndi þær því hafa
takmarkað sönnunargildi í málinu. Margvíslegar athugasemdir megi gera við
skráningar í framlögðum dagskýrslum. Sem dæmi megi nefna skýrslu fyrir 5. júlí
2010 þar sem skráð sé að farið hafi að rigna og því hafi sandblæstri verið
hætt. Þrátt fyrir þessar veðurfarsaðstæður séu skráðar 10 vinnustundir á þrjá
aðila eða þrjátíu vinnustundir í allt. Mörg dæmi séu um slíkar skráningar. Í
skýrslu 13. júlí séu skráðar 40 vinnustundir (4 starfsmenn x 10 klst.) vegna
„farið með Herjólfi suður“. Í næstu skýrslu frá 19. júlí 2010 séu svo skráðar
30 vinnustundir vegna „farið með Herjólfi til Vestmannaeyja með seinniferð“.
Alls séu því skráðar 70 vinnustundir dagana 13.-19. júlí vegna ferða með
Herjólfi. Þá komi fram í skýrslu frá 22. júlí 2010 að vinnu hafi verið hætt kl.
14:00 vegna rigningar og að starfsmenn hafi farið með Herjólfi kl. 17:00. Þrátt
fyrir að engin vinna hafi þannig átt sér stað eftir kl. 14:00 séu þar
tilgreindar 12 klst. í vinnu fyrir hvern starfsmann. Aukin heldur bendir
stefndi á skýrslu frá 12. ágúst 2010 þar sem fram komi „Rigning ekkert hægt að
gera, farið suður kl 14“, en allt að einu séu skráðar 12 klst. á tvo starfsmenn
stefnanda, samtals 24 klst.
9. Með vísan til þessara dæma kveður
stefndi færslur stefnanda á dagskýrslum haldlausar og telur að þær gefi til
kynna að dráttur hafi orðið framkvæmd verksins vegna vinnulags stefnanda
sjálfs, en í því efni vísar stefndi til þess að í júlí hafi einungis verið
unnið í 17 virka daga af 22 og í ágúst einungis unnið í 13 virka daga af 21.
10. Stefndi kveðst byggja á því að hann
hafi ekki verið látinn vita, hvorki formlega né óformlega, um að stefnandi
hygðist gera sérstaka kröfu til þess að dráttur á framkvæmd verksins yrði
reikningsfærður í andstöðu við samning aðila. Það dragi úr gildi málatilbúnaðar
stefnanda, en við mat á réttmæti
fullyrðinga hans beri að taka tillit til háttsemi hans við samningsgerð og á
meðan unnið hafi verið samkvæmt samningi aðila. Í því samhengi vísar stefndi
til þess að þeir verkfundir sem vísað sé til í stefnu hafi ekki verið formlegir
en á þeim hafi engar athugasemdir komið fram af hálfu stefnanda vegna meintra
tafa á verkinu. Stefndi hafi ekki heyrt af slíkum töfum fyrr en í apríl 2011.
11. Stefndi kveðst hafna því sem röngu og
ósönnuðu að það hafi verið alfarið á ábyrgð stefnda að halda uppi mannskap og
tækjum stefnanda í Vestmannaeyjum. Aðstæður stefnanda til verksins hafi verið
mjög sveigjanlegar, starfsmenn stefnanda hafi ferðast á milli og hafi þeir ekki
verið staddir í Vestmannaeyjum hafi þeir ekki verið kallaðir til nema það væri
tilbúið fyrir þá verk að vinna. Stefndi hafi unnið að því með stefnanda að afla
verkefna t.d. hjá Vinnslustöðinni hf. og Vestmannaeyjabæ. Stefndi hafi í
einhverjum tilvikum reynst dýrari í tilboðum og því ekki fengið þau verk en þó
fengið einhver verk t.d hjá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. og unnið slík verk
jafnvel samhliða verki hans fyrir stefnda. Auk þess hafi stefnandi unnið annað
verk fyrir stefnda á sama tíma sem hafi verið tvískipt, fyrri hlutinn hafi
verið unninn vorið 2010 og sá síðari vorið 2011. Stefndi hafi í tengslum við
það verk verið með tækjabúnað og mannafla í Vestmannaeyjum vorið 2010 og einnig
frá miðjum mars og út maí 2011. Stefndi bendir á að ekkert liggi fyrir um að
stefnandi hafi gætt að þeirri skyldu að takmarka hið meinta tjón sitt eða með hvaða
hætti það hafi verið gert.
12. Stefndi hafnar því sem röngu og
ósönnuðu að stefndi hafa stöðvað framkvæmdir verksins. Verkið hafi aldrei verið
stöðvað, hvorki um stundarsakir né að fullu, enda sé ekki rökstutt nánar í
stefnu með hvaða hætti stöðvun eigi að hafa átt sér stað. Verksamningnum hafi
aldrei verið sagt upp eða hann afturkallaður, hvorki formlega né óformlega.
Ekki hafi samningnum verið rift, hvorki af hálfu stefnanda né stefnda. Allt
fram til móttöku reiknings þann 8. júní 2011 hafi stefndi talið að báðir aðilar
hefðu innt sína skyldu af hendi með fullnægjandi hætti þannig að hvorugur aðili
ætti kröfu á hinn.
Um skaðabótakröfu stefnanda
13. Stefndi kveðst hafna því sem röngu og
ósönnuðu að hann hafi bakað stefnanda tjón með saknæmum og ólögmætum hætti með
því að hafa ekki „afhent verkið til stefnanda á umsömdum verktíma sem var frá
júní 2010 til loka september sama ár“ og að tafir stefnda hafi í raun „stöðvað
þar með framkvæmdir verksins“. Þegar sé komið fram að ekki hafi verið samið um fastan verktíma á verkinu og því
ekki unnt að halda því fram að um afhendingardrátt hafi verið að ræða.
14. Í matsgerð sé ekkert mat lagt á
ástæður meintra tafa á verkinu, þ.e. hve mikið verktíminn hafi lengst vegna atvika er hafi varðað
matsbeiðanda og hann beri ábyrgð á, ástæðna sem matsþoli hafi borið ábyrgð á
eða ástæðna sem engin beri ábyrgð á en réttlæti engu að síður lengri verktíma,
t.d. óhagstætt veðurfar. Þá sé ekki lagt sjálfstætt mat á þann kostnað sem
stefnandi kveðist hafa orðið fyrir m.a. vegna aðstöðusköpunar fyrir starfsmenn
sína og annan kostnað vegna þess að verktíminn hafi orðið lengri en stefnandi
hafi talið að staðið hafi til. Sé matsgerðin m.a. af þessum sökum ótæk sem
sönnunargagn í máli þessu.
Um 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr.
11/1986
15. Stefndi telur að 36. gr. samningalaga
nr. 7/1936 geti ekki átt við um samning aðila. Ákvæðinu sé ætlað að tryggja
réttarstöðu neytenda og ógilda ósanngjörn samningsákvæði, en slíkt eigi ekki
við í tilviki aðila máls þessa. Hér deili tveir lögaðilar um uppgjör sín í
milli og sé því haldlaust að byggja á umræddri lagagrein.
16. Stefndi kveður stefnanda byggja á því
að ef enginn fastur verklokatími hafi verið á verkinu beri að „víkja þeim
atriðum í verksamningi aðila um (sic) til hliðar eða
breyta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936“. Engar nánari útskýringar eða
röksemdir sé að finna í stefnu um það hvaða ástæður eigi að leiða til þess að
beita beri þessari heimild samningalaga og sé stefnda því óhægt um vik að
verjast þeirri málsástæðu efnislega. Kveður stefndi að þessi heimild, sem feli
í sér þrönga undantekningarreglu frá meginreglunni um samningsfrelsi og
skuldbindingargildi samninga, geti á engan hátt átt við um samning aðila í máli
þessu.
17. Stefndi hafnar því að túlkunarreglur
verktakaréttar leiði til þess að stefndi geti ekki byggt rétt sinn á
verksamningi aðila þar sem hann sé „ósanngjarn eða óhæfilega íþyngjandi“,
enda liggi fyrir að samningur aðila sé
grundvallaður á tilboði sem stefnandi hafi lagt fram á grundvelli eigin
útreikninga. Þvert á móti leiði túlkunarreglur verktakaréttarins til þeirrar
niðurstöðu að túlka beri skilmála eins samningsaðila, sem hafi samið þá
einhliða, honum í óhag. Tilboð stefnanda, sem samið hafi verið af honum og á
grundvelli mælinga hans, verði ekki túlkað þannig að það verði talið skuldbinda
stefnda umfram það sem hann sannanlega samdi um.
18. Stefndi hafnar því að lög nr.
65/1993, um framkvæmd útboða, gildi um lögskipti aðila. Samningur aðila verði
ennfremur ekki grundvallaður á lögum um opinber innkaup nr. 84/2007 sbr. 1. og
3. gr. þeirra laga. Með sömu rökum að breyttu breytanda sé því hafnað að
Íslenskur Staðall, ÍST30, eigi við um lögskipti aðila, enda hafi ekki verið
ekki byggt á þeim staðli við gerð tilboðs stefnanda eða við framkvæmd
samningsins að öðru leyti.
Málsmeðferð vegna matsgerðar
19. Stefndi byggir á því að á
matsgerðinni í heild séu alvarlegir anmarkar sem snúi bæði að formi og efni
hennar og leiði til þess hún sé ónothæf með öllu sem sönnunargagn í skilningi
IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
20. Hinir formlegu annmarkar lúti
aðallega að því að stefnda hafi ekki verið gefinn kostur á að kynna sér, né
gera athugasemdir við, þau gögn málsins sem niðurstaða matsins byggi á, áður en
matsmaður lauk áliti sínu. Stefndi hafi verið boðaður á matsfund þann 2. maí
2012 og á þeim fundi lagt fram athugasemdir sínar við matsbeiðni. Á fundinum
hafi m.a. komið fram að matsbeiðendur hygðust leggja fram viðbótargögn og að
matsmaður hygðist boða til annars matsfundar. Getur stefndi þess sérstaklega að
í tölvupósti lögmanns stefnda til matsmanns þann 7. maí 2012 hafi sérstaklega
verið óskað eftir því að fá afrit af þeim viðbótargögnum og skýringum sem matsbeiðandi
hugðist leggja fram og fá tækifæri til að gera athugasemdir við þau. Ekki
aðeins liggi fyrir að slík viðbótargögn hafi verið afhent matsmanni án þess að
stefnda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um þau heldur hafi verið byggt á
þeim að öllu leyti í niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns.
21. Stefndi telur þannig fullljóst að
ekki hafi verið staðið réttilega að matsgerðinni og þegar af þeirri ástæðu
fullnægi matsgerðin ekki þeim kröfum sem gerðar séu í lögum nr. 91/1991 um
meðferð einkamála, sbr. t.d. 2. mgr. 62. gr. laganna. Hafi matsgerðin því
ekkert sönnunargildi í máli þessu. Getur stefndi þess sérstaklega að dómari sé
óbundinn af niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns, sbr. 2. mgr. 66. gr. og 1.
mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
22. Um efnislega ágalla kveðst stefndi
byggja á þeim athugasemdum sem lagðar hafi verið fram á matsfundi þann 2. maí
2012. Með vísan til þessa kveður stefndi að spurningar í matsbeiðni hafi verið
óljósar og ómarkvissar og aðeins hafi verið á færi matsmanns að meta ákveðna
þætti í matsbeiðni, s.s hin eiginlegu einingaverð, en mat um önnur atriði væri
í höndum dómara. Þá telur stefndi að matsmaður svari lögfræðilegum atriðum í
matsgerð og séu því aðrir hlutar hennar litaðir af því að matsmaður gefi sér
hinar ýmsu forsendur sem ekki séu réttar og svari spurningum sem ekki er að
finna í matsbeiðni og er svar matsmanns við þriðju spurningu í matsbeiðni nefnt
sem dæmi. Með því fari matsmaður út fyrir valdsvið sitt og matsgrundvöll eins
og hann hafi verið afmarkaður af stefnanda. Þá sé sá hluti matsgerðar, sem
bótakrafa stefnanda byggi á, aðeins byggður á tilvísun til forsendna
matsbeiðanda sem séu órökstuddar með öllu. Fari því fjarri að lagt sé
raunverulegt mat á það verk sem um ræðir og teljist rökstuðningur matsmanns því
með öllu ófullnægjandi.
23.1. Stefndi telur matsmann strax í
inngangskafla draga taum stefnanda, ítrekað sé um að ræða beinar tilvitnanir í
matsbeiðni sem stangist á við frásögn stefnda. Þar sem ekki sé um að ræða
óumdeild atriði hefði stefndi talið eðlilegt að geta jafnframt um athugasemdir
stefnda við tilvitnaðar fullyrðingar þar sem slíkar fullyrðingar liti alla
frekari umfjöllun.
23.2. Í öðrum kafla, sem fjalli um
matsfund, komi fram í lið vi) að matsmaður hafi óskað upplýsinga frá lögmanni matsbeiðanda á
matsfundi, sbr. lið 14 í fundargerð matsfundar. Fram komi að þann 7. júní 2010,
sem eigi væntanlega að vera 2012, hafi komið „tölvupóstur með tveim viðhengjum
frá Teiti“. Matsþoli kveðst ekki kannast við að hafa verið kynnt umrædd gögn né
gefinn kostur á að gera athugasemdir við þau. Auk þessa vekur stefndi athygli á
15. lið
fundargerðar þar sem fram komi að matsmaður muni „kalla saman annan matsfund og
kynna fyrir málsaðilum sína heildarsýn yfir verkið, áður en hann hefjist handa
við lokafrágang á matsgerðinni.“ Aldrei hafi þetta verið gert og hafi stefndi
ekkert heyrt af málinu frá 10. maí 2012, þegar stefndi hafi sent aðilum
umbeðnar upplýsingar sem óskað hafi verið eftir á matsfundi, þar til 8. janúar
2013 þegar afrit matsgerðarinnar hafi verið sent lögmanni stefnda.
23.4. Í fjórða kafla sé fjallað um verktíma
og komi þar réttilega fram í inngangsorðum að enginn verksamningur hafi verið
gerður né samið sérstaklega um tímamörk verksins. Stefndi kveðst gera
alvarlegar athugasemdir við 2. málsgrein í kafla 4.1 í matsgerð þar sem fram
komi það mat matsmanns að: „mjög
ótrúverðugt [er] að enginn verksamningur hafi ekki [sic]
verið gerður um verkið. Verkkaupi, matsþolar Skiplyftan [sic]
ehf. og Bæjarfélag Vestmannaeyja voru sterkir aðilar, sem sömdu munnlega við verktaka með mun veikari stöðu.“
Þá sé ennfremur gerð athugasemd við
fullyrðingu matsmanns um að „[ö]ll réttarfarsleg staða beggja málsaðila var fyrir borð
borin
“ Ekki verði séð að matsmaður teljist bær aðili að lögum til að meta
framangreind atriði enda beri dómara að gera slíkt, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga
nr. 91/1991.
Um kröfugerð stefnanda
26. Stefndi telur kröfugerð stefnanda
ábótavant í verulegum atriðum. Sundurliðun dómkröfu sé með öllu órökstudd og
engir reikningar eða útlistun á útlögðum kostnaði, sem skaðabótakrafan byggi á,
liggi fyrir. Umfjöllun í matsgerð bæti þar engu við en niðurstaða hennar byggi
alfarið á órökstuddri kröfugerð stefnanda.
Um lagarök kveðst stefndi vísa til meginreglna
samningaréttar og kröfuréttar s.s. um efndir samninga, meginreglna
verktakaréttar og skaðabótaréttar. Varðandi málskostnað vísar stefndi til 129.
og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu krefst
stefnandi greiðslu á kr. 10.010.000, sem hann kveður vera tjón sem hann hafi
orðið fyrir vegna ofangreinds verks sem hann hafi tekið að sér samkvæmt
samningi við stefnda. Hafi tjónið falist í auknum kostnaði sem hafi fram úr
áætlunum vegna þess að stefndi hafi vanefnt samninginn fyrir sitt leyti með því
að afhenda ekki verkið til stefnanda á réttum tíma. Kveðst stefnandi þannig
byggja kröfur sínar á reglum um skaðabætur innan samninga vegna vanefnda
stefnda.
Byggir stefnandi á því að
um ákveðinn verktíma hafi verið samið og að stefndi hafi samkvæmt því átt að
afhenda sér verkið á umsömdum verktíma frá júní til september 2010. Hefur
stefndi neitað þessu og kveður að ekki hafi verið samið um neinn tiltekinn
verktíma og að öllum aðilum hafi verið ljóst að ætlast væri til þess að verkið
yrði unnið eftir aðstæðum en verkþáttur stefnanda hafi verið síðastur í röð
annarra verkþátta sem önnur fyrirtæki og aðilar hafi séð um.
Skrifleg gögn í málinu um
samning aðila eru afar rýr. Fram hefur
verið lagt í málinu skriflegt tilboð sem stefnandi gerði stefnda vegna
verksins. Er það ódagsett og óundirritað. Segir í fyrirsögn að um sé að ræða
tilboð í sandblástur og málun Skipalyftu Vestmannaeyjum. Eru gefin upp einingaverð per
fermetra á sandblástur, epoxy sink, epoxy þykk og epoxy lakk. Segir
að verð séu án virðisaukaskatts og sandblástur í „SA 2.5“ og þvottur ekki
innifalinn. Segir ekkert annað í
skjalinu en þetta, þ.m.t. ekkert um verktíma, annan kostnað, forsendur að baki
tilboðinu eða annað. Eru engir fyrirvarar í skjalinu um þessi atriði eða nein
önnur.
Til fyllingar hinu
skriflega tilboði hefur stefnandi lagt fram skjal sem er á enskri tungu, með
fyrirsögninni „refurbishment of syncrolift
shiplift“ og er tímasett í mars 2010. Kemur þar fram
ýmislegt um þær kröfur sem gerðar eru til efnisnotkunar og efnisþykktar, sem og
vinnubragða sem ætlast sé til að verði viðhöfð við verkið. Ekkert kemur hins
vegar fram í skjalinu hversu langan tíma gert sé ráð fyrir að verkið muni taka
eða hvenær verkinu eigi að vera lokið í síðasta lagi. Þá liggur ekkert fyrir
handfast um það í málinu hvort um hafi verið að ræða raunveruleg útboðsgögn eða
hvort tilboðið hafi verið gert á grundvelli eða með hliðsjón af téðu skjali.
Rennir skjal þetta þannig ekki stoðum undir kröfugerð og fullyrðingar stefnanda
í málinu.
Þá hefur stefnandi lagt
fram afrit af fundargerð verkstöðufundar þann 25. ágúst 2010. Segir þar m.a. að
farið hafi verið yfir verkáætlanir þar sem verkið sé á eftir áætlun. Kveður
stefnandi þetta sýna glögglega að um tiltekinn verktíma hafi verið samið.
Stefnandi átti ekki fulltrúa á verkstöðufundi þessum. Ekki hefur verið lagður
fram í málinu neinn samningur milli stefnda og Vestmannaeyjabæjar eða án annan
hátt sýnt fram á að milli þeirra hafi verið samið um tiltekinn verktíma. Í
framburði Ólafs Friðrikssonar, stjórnarmanns stefnda, sem sat téðan
verkstöðufund, kom fram að ekki hafi verið sett niður neitt um verktíma og
aldrei hafi verið sett nein eða rætt um nein tímamörk á verjkinu
af hálfu bæjarins. Friðrik Björgvinsson, fyrrverandi verkefnastjóri
Vestmannaeyjabæjar, sem einnig sat téðan verkstöðufund, bar um það við
aðalmeðferð að ekki hafi verið neitt „deadline“ á
verkinu. Ólafur Þór Snorrason framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs
Vestmannaeyjabæjar bar um það við aðalmeðferð að aldrei hafi verið raunveruleg
áætlun um að verkinu yrði lokið á ákveðnum tíma og að ekki hafi verið ákveðið
að verkþætti stefnda skyldi ljúka í september 2010. Hafi verið meira lagt upp
úr því að kostnaðaráætlun við verkið stæðist frekar en að einhver ákveðinn tími
væri á verklokum. Einmitt þess vegna hafi verið óskað eftir tilboði sem byggt
væri á einingaverði.
Þá hefur stefnandi vísað
til fundargerðar bæjarstjórnar Vestmannaeyja 22. október 2009 þar sem fram
kemur að bæjarstjórn hafi samþykkt að taka þátt í endurbyggingu
upptökumannvirkja skipalyftunnar og miðað sé við að endurbyggingunni verði að
fullu lokið á árinu 2010, en þetta renni stoðum undir það að ákveðin umsamin
verklok hafi verið á verkinu líkt og stefnandi heldur fram. Að virtum
framangreindum framburði Ólafs Þórs Snorrasonar framkvæmdastjóra umhverfis- og
framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar verður ekki talið, gegn neitun stefnda, að í
fundargerðarinni felist nokkur sönnun fyrir því að
milli stefnanda og stefnda hafi verið samið um tiltekin verklok eða verktíma á
verki því sem stefnandi vann fyrir stefnda.
Að framangreindu virtu
verður ekki talið að stefnanda hafi tekist sönnun þess að um það hafi verið
samið í upphafi að verkið yrði unnið á tilteknum tíma eða að því ætti að vera
lokið fyrir tiltekið tímamark. Þvert á móti virðast gögn málsins benda til þess
að gert hafi verið ráð fyrir því að verkið yrði unnið eftir því sem aðrir
verkþættir annarra gengju fram, en fram hefur komið að verkþáttur stefnanda var
síðastur í röð fleiri verkþátta og að ýmis fyrirtæki og einstaklingar í
Vestmannaeyjum komu að verkinu. Til þess ber jafnframt að líta að stefnandi
útbjó sjálfur sitt tilboð og hafði allt ákvörðunarvald um það hvað í því
fælist. Hafi vilji hans og forsendur staðið til þess að verkið yrði allt unnið
í einni samfellu og að því yrði lokið fyrir ákveðinn tíma var honum í lófa
lagið að útbúa tilboð sitt á þann veg, en það gerði hann ekki. Þá liggur ekkert
fyrir um að stefnandi hafi kynnt stefnda einhverjar slíkar forsendur við
samningsgerðina.
Stefnandi kveður að
stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna þess að stefndi hafi ekki
afhent sér allt verkið á umsömdum tíma og með því stöðvað framkvæmdir við
verkið. Hafi stöðvunin verið alfarið á ábyrgð stefnda. Vísar stefnandi m.a. til
ÍST 30 til stuðnings þessu. Á þetta fellst dómurinn ekki. Hér að framan var að
því komist að ekki hafi verið um að tefla eða samið um neinn ákveðinn verktíma.
Í framburði Ólafs Friðrikssonar stjórnarmanns stefnda kom fram að það hafi
verið öllum ljóst frá upphafi að verkið yrði unnið af mörgum aðilum og eins og
það lá fyrir á verjum tíma og væri hver verkþáttur öðrum háður í tímaröð, en
þetta nýtur ríkulegs stuðnings í framburði Friðriks Björgvinssonar fyrrverandi
verkefnastjóra Vestmannaeyjabæjar og Ólafs Þórs Snorrasonar framkvæmdastjóra
umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar. Verður ekki talið við þessar
aðstæður að stefndi hafi getað borið á því skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda
að verkið skyldi ekki allt vera tilbúið í einu lagi. Ljóst virðist að við
tilboðsgerð stefnanda, sem og við samningsgerð aðilanna, var ekkert litið til
eða höfð hliðsjón af ákvæðum ÍST 30, hvorki um þetta né annað og verður skaðabótaábyrgð
ekki byggð á ákvæðum hans að þessu leyti eða ákvæði hans talin efnislegur hluti
samnings aðila málsins.
Þá hefur stefnandi byggt
á því að það sé ósanngjarnt af stefnda að bera það fyrir sig að enginn
verklokatími hafi verið ákveðinn, en þetta sé ósanngjarnt vegna þess mikla
kostnaðarauka sem leitt hafi af töfum á verkinu. Þá sé ljóst að ef enginn
verklokatími hafi verið ákveðinn þá bresti forsendur tilboðs stefnanda og beri
því að víkja þeim ákvæðum verksamningsins til hliðar eða breyta á grundvelli
verksamnings aðila. Vísar stefnandi til þess að leitast skuli við að koma í veg
fyrir að annar aðili geti byggt á verksamningi sem telja megi ósanngjarnan eða
óhæfilega íþyngjandi fyrir viðsemjanda hans og að stefndi verði að bera hallann
af því að hafa ekki kveðið skýrt á um verktíma og verkáætlun í útboðsgögnum. Á
þetta fellst dómurinn ekki. Til þess ber að líta að um er að tefla tvo lögaðila
sem gerðu samning sín á milli á sviði atvinnurekstrar sem báðum var kunnugur.
Stefnandi gerði sjálfur sitt tilboð og hafði á því allt forræði hvað kom fram í
tilboðinu, bæði um verklok og önnur efnisatriði, sem og um á hvaða forsendum
það væri gert. Þá verður að líta til þess að um er að ræða verksamning sem er á
sviði atvinnurekstrar stefnanda og hann því kunnugur slíkri samningsgerð og
verktöku.
Að framansögðu virtu
verður því hafnað að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi
kveðst hafa orðið fyrir í málinu, en þess ber raunar að geta að um tjón
stefnanda er allt ósannað enda liggur það fyrir að matsgerð hins dómkvadda
matsmanns er um fjárhæðir byggð á gögnum sem stefnandi kom einhliða á framfæri
við matsmann eftir að matsfundur var haldinn og stefnda var ekki gefinn kostur
á að tjá sig um eða kynna sér, en jafnframt hefur komið fram að matsmaður naut
ekki frumgagna um ætlað tjón, s.s. um vinnulaun og húsaleigukostnað, heldur
byggði niðurstöður sínar á tölum sem voru ekki studdar neinum gögnum en sem
stefnanda hefði átt að vera auðvelt að afla.
Verður því stefndi
sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Samkvæmt 130. gr. laga
nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað og þykir
hann hæfilega ákveðinn 1.300.000 kr.
Sigurður G. Gíslason
héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndi,
Skipalyftan ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Fúsa ehf.
Stefnandi
greiði stefnda 1.300.000 kr. í málskostnað.