Hæstiréttur íslands
Mál nr. 91/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 1.apríl 2004. |
|
Nr. 91/2004. |
Halldór Baldvinsson (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Ræsi hf. (Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Máli R hf. á hendur H var fellt niður að kröfu þess fyrrnefnda eftir að H hafði lagt fram greinargerð í málinu. H krafðist þess að R yrði gert að greiða sér hærri málskostnað en í úrskurði héraðsdóms. Í Hæstarétti var talið að þegar aðstaðan í málinu væri virt í heild sinni, umfang þess og þeir hagsmunir, sem um væri deilt, væri rétt að fallast á niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað til handa H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 1. mars 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2004, þar sem mál varnaraðila gegn sóknaraðila var fellt niður og varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 160.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað „er taki mið af tímaskýrslu lögmanns“ hans. Þá er þess krafist með vísan til „c-liðar 1. mgr. 131. gr. eml. að kæruþola verði gert að greiða sérstakt álag á málskostnaðinn.“
Varnaraðili krefst þess aðallega að málskostnaður sá, sem honum var gert að greiða sóknaraðila með hinum kærða úrskurði, verði felldur niður, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og kemur aðalkrafa hans þegar af þeirri ástæðu ekki til álita í málinu.
I.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði varnaraðili mál á hendur sóknaraðila þar sem hann krafðist þess að sóknaraðili yrði dæmdur til að láta afskrá lénið mercedes.is og netfang hjá Interneti á Íslandi að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 10.000 krónur á dag. Var krafa varnaraðila byggð á því að hann hefði umboð frá fyrirtækinu DaimlerChrysler AG til að skrá lénið í eigin nafni, en fyrirtækið væri meðal annars eigandi vörumerkisins Mercedes á Íslandi. Málið var þingfest 6. maí 2003. Sóknaraðili tók til varna í málinu og lagði fram greinargerð. Á dómþingi 17. september sama árs óskaði hann eftir að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins um túlkun á ákvæðum reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1400/2002. Eftir það var málið tekið þrisvar sinnum fyrir og kveðinn upp úrskurður 7. nóvember 2003 þar sem beiðni hans var hafnað. Sú niðurstaða var staðfest í Hæstarétti 12. desember sama árs í máli nr. 461/2003 jafnframt sem sóknaraðili var dæmdur til að greiða varnaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað. Á dómþingi 12. janúar 2004 var aðalmeðferð málsins ákveðin 18. febrúar sama árs. Á því dómþingi óskaði varnaraðili hins vegar eftir að málið yrði fellt niður sem og málskostnaður. Gerði sóknaraðili þá kröfu um að sér yrði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila auk álags. Gekk hinn kærði úrskurður sama dag.
II.
Sóknaraðili heldur því fram að málshöfðun varnaraðila hafi verið tilhæfulaus þar sem samningi hans og DaimlerChrysler hafi verið sagt upp á árinu 2002. Hafi varnaraðili því ekki haft einkaumboð fyrir fyrirtækið eins og málshöfðun hans fyrir héraðsdómi var byggð á. Þá heldur sóknaraðili því fram að af bréfi DaimlerChrysler til hans 10. febrúar 2004, þar sem óskað var eftir að sóknaraðili umskráði umrætt lén yfir á nafn DaimlerChrysler, megi ráða að varnaraðili hafi verið sviptur heimild til notkunar lénsins talsvert fyrr en hann hefur haldið fram.
Varnaraðili bendir á að þegar hann höfðaði málið og allt þar til í byrjun febrúar 2004 hafi hann haft ríka hagsmuni af því að sóknaraðili yrði dæmdur til að láta afskrá umrætt lén. Hafnar hann þeim fullyrðingum sóknaraðila að hann hafi mátt sjá fyrir að forsendur myndu breytast. Þrátt fyrir að legið hafi fyrir frá árinu 2002 að endurnýja þyrfti sölusamning við DaimlerChrysler fyrir 30. september 2003 vegna fyrrnefndrar reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar hafi varnaraðili engu að síður verið umboðsmaður hins erlenda félags á Íslandi og keypt Mercedes bíla beint frá því til sölu hér á landi og notað vörumerki fyrirtækisins með fullu samþykki þess. Bréf það, sem sóknaraðili vísi til, hafi verið sent honum um leið og upp úr samningaviðræðum slitnaði eða 10. febrúar 2004. Ekki sé unnt að fallast á fullyrðingar sóknaraðila um að hann hafi verið sviptur þessum rétti fyrr.
III.
Krafa sóknaraðila er reist á því að dæma beri honum málskostnað í samræmi við málskostnaðaryfirlit, sem hann lagði fyrir héraðsdóm. Þar kemur fram að vinnuframlag lögmanns hans hafi verið samtals 50,25 klukkustund. Útseld tímavinna hans sé 9.600 krónur á klukkustund og nemi málskostnaðarkrafan því 482.400 krónum. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili bætt við einni klukkustund vegna þinghalds 18. febrúar 2004 þegar málið var fellt niður. Er heildarmálskostnaðarkrafan því 492.000 krónur „auk þeirrar vinnu sem fer í kæru þessa.“ Af málskostnaðaryfirlitinu má ráða að um 20 klukkustundir hafa beinst sérstaklega að þeim þætti málsins, sem skorið var úr um með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 12. desember 2003. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað ef máli er vísað frá dómi eða það er fellt niður af annarri ástæðu en þeirri að stefndi efni þá skyldu, sem hann er krafinn um í máli. Er aðila rétt að krefjast greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila síns eftir mati dómsins eða samkvæmt sundurliðuðum reikningi, sem er lagður fram ekki síðar en við aðalmeðferð máls, sbr. 3. mgr. 129. gr. laganna. Þegar aðstaðan í máli þessu er virt í heild sinni, umfang þess og þeir hagsmunir, sem um var deilt, er rétt að fallast á niðurstöðu héraðsdóms um málskostnað til handa sóknaraðila. Þá verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að ekki sé ástæða til að dæma varnaraðila til greiðslu álags á málskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2004.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Mál þetta er fellt niður.
Stefnandi Ræsir hf., greiði stefnda, Halldóri Baldvinssyni, 160.000 krónur í málskostnað.