Hæstiréttur íslands
Mál nr. 66/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 21. febrúar 2003. |
|
Nr. 66/2003. |
M(Kristján Stefánsson hrl.) gegn K (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni K um að dómkvaddur yrði matsmaður til að vinna sérfræðilega álitsgerð í máli þar sem M og K deildu um forsjá barns. Úrskurður héraðsdóms var staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2003, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns verði hafnað.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2003.
Mál þetta er höfðað 29. ágúst 2002 af K, [...], á hendur M, [...].
Stefnandi krefst þess að henni verði falin forsjá sonar málsaðila, A, fæddur [...] 1988, en málsaðilar hafa farið sameiginlega með forsjá drengsins eftir að þeim var veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng 17. júlí 1992. Stefndi krefst þess að honum verði falin forsjá drengsins. Í þinghaldi 22. janúar sl. lagði lögmaður stefnanda fram beiðni um dómkvaddur verði matsmaður til að vinna sérfræðilega álitsgerð og er farið fram á að matsmaður kanni og meti ákveðin atriði sem tilgreind eru í matsbeiðninni. Lögmaður stefnda mótmælti því að dómkvaðning færi fram og er úrskurðinn kveðinn upp til úrlausnar á þessum ágreiningi málsaðila.
I.
Stefnandi krefst þess að Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur verði dómkvödd samkvæmt 2. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 20/1992 til þess að vinna sérfræðilega álitsgerð í málinu. Af stefnanda hálfu er vísaði til þess að ekki lægju fyrir fullnægjandi upplýsingar í málinu um þau atriði sem krafist er að könnuð verði og metin samkvæmt matsbeiðninni. Óskað er könnunar á eftirfarandi atriðum í tengslum við álitsgerðina:
Aðstæðum foreldra og hæfni þeirra til að fara með forsjá drengsins. Forsjárhæfnipróf verði lögð fyrir aðila og önnur próf sem hinn sérfróði aðili meti nauðsynleg.
Að tengsl drengsins við foreldra og þeirra við hann verði könnuð og að nauðsynleg próf verði lögð fyrir í þeim efnum.
Að staða foreldra, uppeldisaðstæður á heimili og atvinnusaga verði könnuð.
Að tengsl barnsins við hálfbróður og stjúpbróður verði könnuð svo og tengsl þess við föður- og móðurfjölskyldu.
Að félagslegt tengslanet barnsins, bæði á [...] og í Reykjavík, verði kannað.
Að aðstæður barnsins til náms, bæði á [...] og í Reykjavík, verði kannaðar, þar á meðal með tilliti til lesblindu þess.
Annað sem álitsgjafi kunni að telja nauðsynleg vegna forsjármálsins.
Af stefnda hálfu er þess krafist að dómurinn synji kröfu stefnanda um dómkvaðningu matsmanns en til vara krefst hann þess að matsbeiðnin verði þrengd þannig að hún verði einskorðuð við 2 lið beiðninnar, þ.e. að könnuð verði tengsl drengsins við foreldra og þeirra við hann svo og að nauðsynleg próf verði lögð fyrir í þeim efnum.
II.
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992 ákveður dómur í úrlausn sinni í ágreiningsmáli um forsjá barns hvoru foreldrinu verði falin forsjá og ber honum að gera það eftir því sem barni er fyrir bestu. Við úrlausn á slíkum ágreiningi er mikilvægt að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um þau atriði sem skipt geta máli í því sambandi. Þótt fyrir liggi ýmis gögn í málinu, sem lögð hafa verið fram í því skyni að upplýsa hver tilhögun á forsjá verði barninu sem hér um ræðir fyrir bestu, verður að telja að önnur atriði en þau sem þar koma fram geti haft þýðingu við úrlausn málsins. Sama á við um afstöðu barnsins til þess hjá hvoru foreldrinu það kýs að búa, sem könnuð hefur verið undir rekstri málsins, en á þessu stigi verður ekki leyst úr því á hvern hátt önnur atriði kunni jafnframt að skipta máli þegar forsjárdeilan verður ráðin til lykta. Verður beiðni stefnanda því ekki synjað með þeim rökum að engin þörf sé á að afla matsgerðar um þau atriði sem matsbeinin tekur til.
Ekki verður fallist á að annmarkar séu á því að matsmaður afli upplýsinga um aðstæður foreldra og meti þær, svo og hæfni þeirra til að fara með forsjá drengsins, þar með talið að lögð verði viðeigandi próf fyrir málsaðila. Slíkar upplýsingar eru almennt til þess fallnar að varpa ljósi á það hvað barni sé fyrir bestu við ákvörðun á forsjá þess. Sama á við um upplýsingar um málsaðila, uppeldisaðstæður á heimilum þeirra og atvinnusögu.
Tengsl barns við foreldra og aðra nákomna eða þá sem barnið er í samskiptum við geta skipt máli við úrlausn deiluefnisins og verður því að telja beiðni stefnanda um slíka könnun réttmæta.
Fallist er á að matsmaður kanni námsaðstæður þar sem drengurinn hefur verið í skóla eftir því sem unnt er svo og að matsmaður kanni önnur atriði sem hann telur nauðsynlegt að kanna í málinu. Með vísan til þessa þykir rétt að verða við framkominni beiðni um dómkvaðningu matsmanns.
Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti en af hálfu stefnda er þess krafist að ákvörðun um málskostnað verði tekin við endanlega úrlausn málsins. Ekki þykir ástæða til að ákveða málskostnað í þessum þætti málsins.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Fallist er á framkomna beiðni um að dómkvaddur verði matsmaður til að meta það sem um er beðið í matsbeiðni á dskj. nr. 16.