Print

Mál nr. 158/2011

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Meiðyrði
  • Ómerking ummæla
  • Friðhelgi einkalífs
  • Skaðabætur

                                     

Fimmtudaginn 15. desember 2011.

Nr. 158/2011.

Guðríður Haraldsdóttir

(Þórður Bogason hrl.)

gegn

Apríl Rún Kubischta

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ærumeiðingar. Meiðyrði.Ómerking ummæla. Friðhelgi einkalífs. Skaðabætur.

A höfðaði mál aðallega á hendur G, en til vara V, vegna ummæla sem birtust í tímaritinu Vikunni. Krafðist A þess að ummælin yrðu ómerkt, að G, en til vara V, yrði dæmd til refsingar með því að hafa með ærumeiðandi ummælum sínum brotið gegn friðhelgi einkalífs, að henni yrðu dæmdar miskabætur og fjárhæð til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum og þess að forsendur dómsins yrðu birtar í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur félli. Í héraði féll A frá kröfum á hendur V. Höfundur greinarinnar var ekki nafngreindur, en neðan við inngang greinarinnar sagði: „Texti: Vikan“. Talið var að G bæri ábyrgð á ummælum í greininni sem ritstjóri blaðsins, sbr. 3. mgr. 15. gr. lagar nr. 57/1956 um prentrétt, og breytti þar engu hvort viðmælandi hennar, V, sem ummælin voru höfð eftir kynni einnig að geta talist höfundur greinarinnar. Fallist var á ógildingu fimm ummæla í greininni með vísan til þess að þau þóttu ýmist móðgandi eða ósannað væri að A hefði látið þau falla. Voru ummælin talin varða við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmd dauð og ómerk samkvæmt 241. gr. sömu laga. Þá var fallist á að G hefði brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga, en henni ekki gerð refsing. Loks var fallist á kröfu A um birtingu forsendna og niðurstaðna dómsins í fyrsta tölublaði Vikunnar eftir uppsögu dómsins, en kröfum um greiðslu kostnaðar vegna frekari birtingar hafnað. Þá var G dæmd til að greiða A 400.000 krónur í miskabætur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 31. maí 2010, en því var vísað frá réttinum með dómi 10. mars 2011 í máli nr. 330/2010. Áfrýjandi áfrýjaði á ný 17. mars 2011 og krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að fjárkrafa hennar verði lækkuð.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Mál þetta á rót sína að rekja til greinar sem birtist 30. júlí 2009 í 30. tölublaði Vikunnar á því ári. Í upphafi greinarinnar kom fram að móðir stefndu hafi látist í Bandaríkjunum á árinu 2005 og forsjá stefndu þá færst til föður hennar, Dante Lynn Kubischta, en síðari eiginkona hans, Alda Karlsdóttir, ættleiddi stefndu 13. janúar 2006. Móðurmóðir stefndu, Valborg F. Svanholt Níelsdóttir, óskaði eftir að fá umgengni við hana, en því hafnaði sýslumaðurinn í Keflavík 13. ágúst 2008 og var kröfunni síðan vísað frá með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 19. janúar 2009. Fram er komið í málinu að fjallað hafi verið um málefni fjölskyldunnar í blaðinu DV 9. apríl 2005, meðal annars um uppeldisskilyrði og atlæti stefndu hjá föður og síðari eiginkonu hans og ættleiðingu hennar á stefndu. Þá er upplýst í málinu að Valborg var viðmælandi Vikunnar og að efni greinarinnar í DV hafi að nokkru verið lagt til grundvallar efnistökum tímaritsins. Í þeim kafla greinarinnar í Vikunni, sem mál þetta lýtur að, hófst umfjöllunin með millifyrirsögninni: „Öskubuska litla“. Sagði þar að faðir stefndu og eiginkona hans ættu fjögur börn, öll nokkuð yngri en stefnda. Síðan sagði eftirfarandi: „Á meðan hún dvaldi hjá þeim sást hún lítið úti við leik og skilst mér að hún hafi varið stórum hluta tíma í ýmis húsverk og það að hjálpa til við barnauppeldið, aðeins átta ára í hlutverki Öskubusku.“ Væri þetta að mati Valborgar allt of mikil ábyrgð fyrir lítið barn. Þá var rakið að faðir stefndu hafi sent hana til Íslands til eiginkonu sinnar, sem hafði sem fyrr segir ættleitt stefndu, og hafi samskipti fjölskyldnanna gengið vel um tíma. Þegar faðirinn hafi komið til Íslands næsta sumar hafi hins vegar allt fallið í sama farið. Síðan sagði: „Núna er Apríl Rún orðin þrettán ára og mér er sagt að hún sjáist litið úti við, fái aðeins að hafa samband við örfáa útvalda einstaklinga og sjáist þá sjaldnast með þeim úti á götu. Það er helst að hún sé í garðinum eða á fótboltavellinum sem er beint fyrir utan heimili hennar. Gamlir vinir og skólasystur sem hún eignaðist þegar hún var yngri fá ekki lengur að tala við hana og ekki heldur ættingjar Öldu. Stúlkan er einangruð. Bræður hennar fylgja henni um allt, virðast sjá til þess að hún tali ekki við ranga aðila og klaga ef hún gerir ekki eins og henni er sagt.“ Eftir þessa umfjöllun kom millifyrirsögnin: „Hróp á hjálp.“ Þar var í upphafi lýst breytingum sem að mati Valborgar hefðu orðið á stefndu eftir að kynmóðir hennar lést. Hafi hún áður verið full af gleði en það hefði gjörbreyst. Grunaði Valborgu að ekki væri allt með felldu heima fyrir, en hún hafi ekki viljað koma stefndu í vandræði og virtist stefnda alltaf passa sig á því hvað hún segði. Smám saman hafi stefnda þó farið að opna sig og nefna hluti sem stutt hafi grun Valborgar um lífið á heimili stefndu. Í kjölfarið hafi Valborgu borist bréf frá stefndu þar sem hrópað hafi verið á hjálp. Síðan kom eftirfarandi setning: „Hún sagðist finna sig knúna til að taka eigið líf ef hún þyrfti að vera lengur hjá föður sínum.“ Með bréfið í hendinni hafi Valborg kært föður stefndu fyrir andlegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart henni. Næst kom millifyrirsögnin: „Vildi frekar deyja.“ Sagði þar í byrjun að það hafi ekki verið í fyrsta skipti sem stefnda hafi lýst yfir vilja sínum til að deyja þegar hún hafi gert það í áðurnefndu bréfi. Hún hafi aðeins verið átta ára þegar það hafi gerst, en það hafi verið stuttu eftir lát móður hennar. Síðan sagði: „Hún sagðist frekar vilja deyja en að þurfa að fara á heimili föður síns og stjúpu“. Eftir viðtöku bréfsins og kæruna hafi Valborg haft samband við barnavernd í sveitarfélaginu og í kjölfarið hafi stefnda verið tekin út af heimili sínu í viku. Eftir rannsókn málsins hafi verið sagt að þetta væri uppspuni hjá stefndu og hún send aftur inn á heimili föður síns og eiginkonu hans.

Stefnda höfðaði mál þetta 25. ágúst 2009, aðallega á hendur áfrýjanda, en til vara Valborgu F. Svanholt Níelsdóttur. Krafðist hún ómerkingar á sjö ummælum sem merkt voru stafliðunum A til G, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Þá krafðist hún þess að áfrýjandi, en til vara Valborg, yrði dæmd til refsingar með því að hafa með ærumeiðandi ummælum sínum brotið gegn friðhelgi einkalífs, sbr. 229. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ennfremur gerði hún kröfu um að sér yrðu greiddar 5.000.000 krónur í miskabætur og 400.000 krónur til að standa straum af birtingu forsendna og dómsorðs í tveimur dagblöðum auk þess sem skyldað yrði til sams konar birtingar í næsta tölublaði Vikunnar efir að dómur félli. Í þinghaldi 15. febrúar 2010 féll stefnda frá kröfum á hendur Valborgu, en hélt fast við kröfur á hendur áfrýjanda.         

II

Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfur stefndu um ómerkingu á ummælum í A, B, E, F og G lið dómkrafna hennar, en ómerkingu hafnað að því er varðar C og D lið og unir stefnda við þá niðurstöðu. Ennfremur var fallist á að áfrýjandi hafi brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga, en henni ekki gerð refsing. Þá var áfrýjanda gert að greiða stefndu 800.000 krónur í miskabætur og 300.000 krónur til að standa straum að opinberri birtingu dómsins ásamt nánar tilgreindum vöxtum, auk þess sem kveðið var á um skyldu til að birta forsendur og niðurstöðu dóms í Vikunni.

Í dómi Hæstaréttar 10. mars 2011 í máli nr. 329/2010 var fjallað um ummæli í sömu tímaritsgrein og hér um ræðir, en það mál hafði faðir stefndu höfðað meðal annars til ómerkingar tiltekinna ummæla í greininni. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í reit neðan við inngang að henni segði: „Texti: Vikan.“ Hafi höfundur greinarinnar því ekki verið nafngreindur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. mars 2009 í máli nr. 328/2008. Yrði áfrýjandi, sem hafi verið ritstjóri blaðsins er greinin var birt, látin bera ábyrgð á þeim ummælum, sem ómerkt voru, sbr. þágildandi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Breytti þá engu hvort amma stefndu kynni einnig að teljast höfundur ummælanna. Engin efni eru til að komast að annarri niðurstöðu í þessu máli. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að áfrýjandi beri sem ritstjóri ábyrgð á birtingu greinarinnar.

Ummælin, sem ómerkt voru með hinum áfrýjaða dómi, voru eftirfarandi: A. „Öskubuska litla.“ B. „Á meðan hún dvaldist hjá þeim sást hún lítið úti við leik og skilst mér að hún hafi varið stórum hluta tímans í ýmis húsverk og það að hjálpa til við barnauppeldið, aðeins átta ára í hlutverki Öskubusku.“ E. „Hún sagðist finna sig knúna til að taka eigið líf ef hún þyrfti að vera lengur hjá föður sínum.“ F. „Vildi frekar deyja.“ G. „Hún sagðist frekar vilja deyja en að þurfa að fara á heimili föður síns og stjúpu“. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á að ummæli þessi hafi verið meiðandi í garð stefndu, en þau varða öll við 234. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því verða þessi ummæli ómerkt eftir 241. gr. sömu laga.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að áfrýjandi hafi brotið gegn 229. gr. almennra hegningarlaga með birtingu efnis, sem á þar greindan hátt varðaði einkamálefni stefndu, en jafnframt að áfrýjanda verði ekki gerð refsing vegna þessa.

Fallist verður á með héraðsdómi að stefnda eigi rétt á miskabótum úr hendi áfrýjanda samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þær eru hæfilega ákveðnar 400.000 krónur og bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að skylt sé að birta forsendur og niðurstöðu dóms í málinu í næsta tölublaði Vikunnar, sem út kemur eftir uppsögu hans. Að því virtu eru ekki efni til að dæma áfrýjanda til að greiða stefndu fjárhæð til að standa straum af birtingu dómsins í öðrum blöðum.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest, en áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um ómerkingu ummæla, svo og um að áfrýjanda, Guðríði Haraldsdóttur, verði ekki gerð refsing í málinu.

Birta skal forsendur og niðurstöðu dóms þessa í fyrsta tölublaði Vikunnar, sem út kemur eftir uppsögu hans.

Áfrýjandi greiði stefndu, Apríl Rún Kubischta, 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júlí 2009 til 1. október sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 24. mars 2010.

Mál þetta var höfðað 25. ágúst 2009 og dómtekið 3. mars 2010. Stefnandi er Apríl Rún Kubischta, Stafnesvegi 14 í Sandgerði. Stefnda er Guðríður Haraldsdóttir, Jaðarsbraut 41 á Akranesi.

Stefnandi gerir eftirfarandi kröfur:

1.      Að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til G, sem birt voru á blaðsíðum 31 og 32 í 30. tölublaði Vikunnar 2009, og stefnda ber ábyrgð á sem ritstjóri samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956, verði dæmd dauð og ómerk, en ummælin varði við 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga:

A.     Öskubuska litla

B.     Á meðan hún dvaldist hjá þeim sást hún lítið úti við leik og skilst mér að hún hafi varið stórum hluta tímans í ýmis húsverk og það að hjálpa til við barnauppeldið, aðeins átta ára í hlutverki Öskubusku.

C.     Núna er Apríl Rún orðin þrettán ára og mér er sagt að hún sjáist lítið úti við, fái aðeins að hafa samband við örfáa útvalda einstaklinga og sjáist þá sjaldnast með þeim úti á götu. Það er helst að hún sé í garðinum eða á fótboltavellinum sem er beint fyrir utan heimili hennar. Gamlir vinir og skólasystur sem hún eignaðist þegar hún var yngri fá ekki lengur að tala við hana og ekki heldur ættingjar Öldu.

D.     Stúlkan er einangruð. Bræður hennar fylgja henni um allt, virðast sjá til þess að hún tali ekki við ranga aðila og klaga ef hún gerir ekki eins og henni er sagt.

E.      Hún sagðist finna sig knúna til að taka eigið líf ef hún þyrfti að vera lengur hjá föður sínum.

F.      Vildi frekar deyja ...

G.     Hún sagðist frekar vilja deyja en að þurfa að fara á heimili föður síns og stjúpu ...

.

Til vara er byggt á því að ofangreind ummæli varði við 234. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og á þeim grundvelli verði ummælin dæmd dauð og ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

2.      Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir:

A.     Að hafa með ólögmætum myndbirtingum og ummælum sínum um viðkvæm einkamálefni stefnanda, sem birtust á forsíðu, bls. 2 og bls. 30-32 í 30. tölublaði Vikunnar 2009, brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. mgr. 15. gr. prentlaga nr. 57/1956.

B      Að hafa viðhaft ærumeiðandi aðdróttanir, sem tilgreindar eru í stafliðum A til I í kröfulið 1, um stefnanda í 30. tölublaði Vikunnar 2009, sem teljast varða við 235. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. mgr. 15. gr. prentlaga nr. 57/1956. Til vara er byggt á því að hin tilvitnuðu ummæli varði við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga.

3.      Þess er krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. málsl. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 30. júlí 2009 til 1. október sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

4.      Þess er krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda 400.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum.

5.      Þess er krafist að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur gengur, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

6.      Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.

               

Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að krafa um miskabætur verði stórlega lækkuð. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Stefnandi er dóttir Dante Kubischta, sem er bandarískur ríkisborgari, og Ágústu Þóreyjar Brynjólfsdóttur. Foreldrar stefnanda gengu í hjúskap 17. desember 1995 og eignuðust stefnanda 3. apríl 1996. Hjónin skildu 7. janúar 1999 og fékk móðirin forsjá stefnanda. Móðir stefnanda andaðist 26. febrúar 2005 en við það hvarf forsjáin til föður stefnanda. Með úrskurði áfrýjunardómstóls Farifax County í Virginíu í Bandaríkjunum frá 13. janúar 2006 var stefnandi ættleidd af Öldu Karlsdóttur, síðari eiginkonu föður stefnanda.

Með beiðni 10. júní 2008 óskaði Valborg Fríður Níelsdóttir, amma stefnanda í móðurætt, eftir því við sýslumanninn í Keflavík að fá umgengni við stefnanda. Þeirri kröfu hafnaði sýslumaður með úrskurði 13. ágúst sama ár. Valborg skaut þeim úrskurði til dómsmálaráðuneytisins sem vísaði kröfunni frá stjórnvöldum með úrskurði 19. janúar 2009. Niðurstaða bæði sýslumanns og ráðuneytisins var reist á því að lagatengsl stefnanda við ömmu sína hefðu rofnað við ættleiðinguna, en þau tengsl hefðu verið forsenda fyrir umgengni á grundvelli 47. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Í 30. tölublaði tímaritsins Vikunnar, sem kom út 30. júlí 2009, var fjallað um fjölskylduhagi stefnanda, skilnað foreldra hennar og samskipti föður við móðurfjölskylduna. Einnig var rætt um atlæti stefnanda hjá föður sínum, samskipti þeirra feðgina og um ættleiðingu núverandi eiginkonu föður á stefnanda. Umfjöllun þessi spannar þrjár blaðsíður, auk þess sem efninu er slegið upp á forsíðu tímaritsins með fyrirsögn og mynd af Valborgu, ömmu stefnanda. Lögráðamenn stefnanda telja að með umfjöllun þessari hafi verið vegið gróflega að æru stefnanda með því að líkja henni og högum hennar á heimil sínu við Öskubusku úr ævintýrinu. Það sama eigi við um fullyrðingar um að stefnandi hafi ítrekað hugleitt sjálfsvíg, fyrst átta ára að aldri, og með myndbirtingum af stefnanda.  

Áður höfðu málefni fjölskyldunnar verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi í helgarblaði DV, sem út kom 9. apríl 2005. Þar var rætt um andlát móður stefnanda, skilnað foreldra stefnanda og um deiluna innan fjölskyldunnar. Einnig var fjallað um líðan stefnanda og önnur málefni hennar.

II.

Kröfur stefnanda eru reistar á því að með umfjöllun Vikunnar hafi gróflega verið vegið að stefnanda og fjölskyldu hennar. Af hálfu stefnanda er fullyrt að engin tilraun hafi verið gerð af hálfu tímaritsins við vinnslu greinarinnar til að bera efnið undir foreldra stefnanda svo þeim væri kleift að koma að athugasemdum.

Því er haldið fram að umfjöllunin í heild sinni eða í einstökum atriðum hafi falið í sér ærumeiðandi aðdróttanir í hennar garð og brot gegn friðhelgi hennar. Til stuðnings þessu er bent á að í stafliðum A til D í kröfulið 1 sé stefnanda líkt við Öskubusku og fullyrt að hún hafi þurft að verja stórum hluta af lífi sínu í ýmis húsverk og banauppeldi. Það er talið gefa augaleið hversu erfitt það sé fyrir stúlku á viðkvæmum aldri að sitja undir nafngift af þessu tagi í litlu samfélagi þar sem stefnandi sé að hefja nám í nýjum skóla. Einnig sé öllum aðstæðum stefnanda lýst með einkar niðrandi móti og fullyrt að henni sé haldið í einangrun frá vinum og skólafélögum. Þessar fullyrðingar séu rangar og með ólíkindum að ummæli í þessa veru séu viðhöfð um stefnanda sem hafi ekkert til sakar unnið. Þá sé í staflið E til G í kröfulið 1 fullyrt að stefnandi hafi sagt að hún vildi frekar taka eigin líf en búa hjá foreldrum sínum. Með þessu sé skírskotað á óviðfeldinn hátt til meintrar sálarangistar stefnanda og ummæla sem hún á að hafa látið falla níu ára að aldri þegar hún hafði orðið fyrir miklu áfalli við andlát móður sinnar. Að birta þessi ummæli fjórum árum eftir að þau eiga að hafa fallið sé í senn særandi og meiðandi fyrir stefnanda, auk þess sem það sé bæði óviðurkvæmilegt og smekklaust. Þar fyrir utan kannist stefnandi ekki við að hafa látið þessi orð falla. 

                               Því er haldið fram að öll ummæli í stafliðum A til G í kröfulið 1 séu ærumeiðandi aðdróttanir sem feli í sér brot gegn 235. gr. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að varpa rýrð á stefnanda. Verði ekki fallist á að ummælin varði við 235. gr. almennra hegningarlaga er á því byggt til vara að þau varði við 234. gr., sbr. 2. mgr. 236. gr. sömu laga. Í báðum tilvikum beri að ómerkja ummælin, sbr. 1. mgr. 241. gr. laganna, auk þess sem dæma beri stefndu til refsingar. Við ákvörðun refsingar er talið horfa til þyngingar að stefnandi sé aðeins þrettán ára gömul.

                Á því er byggt að með umfjölluninni hafi freklega verið brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda sem njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 16 gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Brot þessi feli í sér ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og því hafi stefnda fellt á sig miskabótaábyrgð, sbr. b-lið 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, auk þess sem gerð sé krafa um að stefnda sæti refsingum samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga. Til stuðnings þessu er bent á ýmis ummæli í greininni um málefni stefnanda, allt frá því að móðir hennar lést og til dagsins í dag. Öll þessi umfjöllun um líðan og hagi stefnanda og um önnur viðkvæm málefni eigi ekkert erindi við almenning og hafi falið í sér gróft brot gegn persónuvernd hennar. Sama eigi við um birtingu á þremur myndum af stefnanda í þeim tilgangi að skreyta umfjöllunina. Við ákvörðun miskabóta er talið horfa til hækkunar að stefnandi sé barn auk þess sem Vikan sé gefin út í hagnaðarskyni. Þá hafi útgefandi eða blaðamenn á hans vegum í fjölda mála undanfarið verið sakfelldir fyrir ærumeiðingar.

Til stuðnings refsi- og fébótaábyrgð stefndu er vísað til 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956. Krafa um greiðslu kostnaðar til að birta dóm í málinu í dagblöðum er reist á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, en krafa um að forsendur og niðurstaða dómsins verði birt í næsta tölublaði Vikunnar er reist á 1. og 2. mgr. 22. gr. laga um prentrétt.

III.

Stefnda bendir á að fjölmiðlar hafi verulegt svigrúm til umfjöllunar um menn og málefni og sá réttur sé varinn af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar stefnda til þess að gjalda beri varhug við því að takmarka rétt fjölmiðla til að taka á móti og miðla upplýsingum. Einnig geti fjölmiðlar ekki borið ábyrgð á öllu því sem nafngreindir heimildarmenn hafi að segja, enda væri slíkt til þess fallið að kæfa niður alla umræðu og upplýsingamiðlun, eins og Mannréttindadómstóll Evrópu hafi bent á í dómum sínum. Stefnda telur að umfjöllun um mál þetta í Vikunni hafi í senn verið sanngjörn og fagleg í öllu tilliti, auk þess sem hún hafi áður birst í öðum fjölmiðlum.

Stefnda vísar til þess að höfundur beri ábyrgð á efni rits ef hann hefur nafngreint sig, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956. Stefnda heldur því fram að höfundur hljóti að vera sá sem lætur ummæli falla, þ.e. sá sem ummæli eru eignuð ef hann er nafngreindur. Því geti höfundur í þessu tilfelli ekki verið neinn annar en Valborg F. Svanholt Níelsdóttir. Hún beri því ábyrgðina en ekki stefnda og því beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu. Þar fyrir utan fari í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar að láta stefndu sem þriðja mann bera ábyrgð á ummælum Valborgar, enda verði hún sjálf að bera ábyrgð á eigin ummælum fyrir dómi.

Verði stefnda gerð ábyrgð fyrir þeim ummælum sem Valborg lét falla er því haldið fram að ummælin fari ekki í bága við almenn hegningarlög. Af þeirri ástæðu beri því einnig að sýkna stefndu. Til stuðnings þessu bendir stefnda á að ummæli í stafliðum A, B, C og D í kröfulið 1 feli ekki í sér neinar ærumeiðingar í garð stefnanda. Þannig hafi samlíking við persónu Öskubusku í ævintýrinu aðeins að geyma huglægt mat Valborgar á högum stúlkunnar í því samhengi að stúlkan bæri of mikla ábyrgð. Þessa skoðun hafi Valborg fulla heimild til að láta í ljós og í þessu felist engin ásökun um harðræði af hálfu föður eða kjörmóður. Að því er varðar ummælin að öðru leyti um einangrun stefnanda bendir stefnda á að ekki sé um að ræða fullyrðingar heldur sé Valborg að hafa eftir það sem hún hafi heyrt frá öðrum. Að auki séu ummælin mistúlkuð í málatilbúnaði stefnanda. Þannig þurfi það að stefnandi sjáist lítið úti við ekki að þýða annað en að hún sjálf kjósi að halda sig innan dyra. Þessi ummæli verði með engu móti túlkuð þannig að stefnanda sé meinað að fara úr húsi eða haldið fanginni á heimili sínu. Jafnframt séu þessi ummæli mjög matskennd og feli aðeins í sér gildisdóma. Þá bendir stefnda á að ummæli í þá veru að stefnanda sé haldið á heimili sínu beinist ekki að persónu hennar. Því væri nær að krafa um ómerkingu yrði sett fram af hálfu þeirra sem sakaðir væru um að standa að slíkri frelsisskerðingu. Sama marki séu brennd ummæli um að gamlir vinir fái ekki að tala við stefnanda. Varðandi ummæli í stafliðum E, F og G í kröfulið 1 bendir stefnda á að þau lýsi samskiptum stefnanda við ömmu sína þegar hún var 8 og 9 ára gömul og fyrir ári síðan. Þessi ummæli hafi áður komið fram opinberlega og því sé aðeins um að ræða endurtekningu á því sem áður hafi komið fram. Stefnda telur óhugsandi að ómerkt verði ummæli sem hafi að geyma upplýsingar sem stefnandi hafi trúað ömmu sinni fyrir, einkum með hliðsjón af því að fimm ár eru liðin frá því þessi ummæli voru fyrst viðhöfð. Í því sambandi tekur stefnda fram að útlokað sé að leitt verði í ljós að stefnandi hafi ekki tjáð sig í þessa veru og því sé enginn grundvöllur til að ómerkja ummælin.

Stefnda andmælir því að refsingar geti legið við því að birta opinberlega myndir sem Valborg hafi átt, jafnvel þótt þessar myndir hafi verið af stefnanda. Slík birting á myndum, sem á þeim tíma hafi verið teknar með samþykki allra hlutaðeigandi, geti með engu móti talist refsivert brot gegn friðhelgi einkalífs. Einnig bendir stefnda á að 229. gr. almennra hegningarlaga geti ekki átt við þar sem upplýsingar um þetta málefni hafi þegar verið á vitorði almennings vegna umfjöllunar í DV um sama mál. Þá telur stefnda að refsikrafa á hendur sér sé of almenns eðlis og með öllu skorti lýsingu á því hvernig hver og ein ummæli getið bakað refsiábyrgð. Þannig hefði stefnandi þurft að tiltaka hvernig tilvitnuð ummæli í einstökum atriðum varði við 229. gr., 234. gr., 235. gr. eða 236. gr. almennra hegningarlaga.

Stefnda andmælir miskabótakröfu stefnanda á þeim grundvelli að hún beri ekki ábyrgð að lögum á ummælunum. Þar fyrir utan hafi ummælin ekki falið í sér ærumeiðingar í skilningi almennra hegningarlaga, en verði svo talið séu allt að einu ekki fyrir hendi skilyrði til að dæma miskabætur, enda hafi ummælin aðeins verið endurtekin á opinberum vettvangi. Af sömu ástæðu komi ekki til greina að dæma miskabætur vegna ætlaðra brota gegn friðhelgi einkalífs, auk þess sem þeir hagsmunir stefnanda geti ekki komið í veg fyrir að Valborg tjái sig opinberlega um sína reynslu og persónuleg málefni. Sama eigi við um birtingar á myndum í eigu Valborgar sem birtar hafi verið með hennar samþykki. Þá skipti engu máli í þessu tilliti gagnvart stefndu dómar á hendur útgefanda Vikunnar eða blaðamönnum á hans vegum. Allar þessar sömu ástæður telur stefnda leiða til þess að miskabætur verði lækkaðar.

Kröfu um kostnað vegna birtingar dóms er mótmælt á þeim grundvelli að engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings þeirri kröfu. Þar fyrir utan hafi stefnandi enga hagsmuni af því að fá dóminn birtan opinberlega í dagblöðum sökum þess að dómar séu hvort sem er birtir opinberlega, en það ætti að duga í þessu tilviki. Jafnframt er fjárhæð kröfunnar mótmælt sem of hárri. Einnig er kröfu um birtingu dómsins í næsta tölublaði Vikunnar andmælt, enda verði ekki um það dæmt án aðildar útgefanda blaðsins. Í öllu falli verði ekki í senn krafist kostnaðar af birtingu dómsins og birtingar í Vikunni. Loks er vaxtakröfu mótmælt og því haldið fram að dráttarvextir verði ekki dæmdir nema frá dómsuppsögu.  

IV.

1.

Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956, ber höfundur blaðs eða tímarits refsi- og fébótaábyrgð á efni ritsins ef hann hefur nafngreint sig og er auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi þegar ritið kemur út eða undir íslenskri lögsögu þegar mál er höfðað. Ef enginn höfundur er nafngreindur fer um ábyrgðina í þeirri röð sem talin er í 3. mgr. sömu greinar, en hún hvílir fyrst á útgefanda rits eða ritstjóra.

Stefnda var ritstjóri Vikunnar þegar út kom 30. tölublað 71. árgangs ritsins 30. júlí 2009 en í því blaði er að finna umfjöllun um málefni fjölskyldu Valborgar F. Svanholt Níelsdóttur, fyrrverandi tengdamóður stefnanda. Höfundur greinarinnar er ekki tilgreindur en í reit með knöppum útdrætti um efni greinarinnar segir að texti sé blaðsins. Stefnda hefur borið því við að Valborg sé höfundurinn, enda sé allt efni greinarinnar haft eftir henni. Af þeim sökum beri stefnda ekki ábyrgðina á grundvelli 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956.

Þótt efni greinarinnar sé að stórum hluta ummæli innan tilvitnunarmerkja sem sögð eru höfð eftir Valborgu er inni á milli að finna umfjöllun um málefnið sem augljóslega er blaðsins. Einnig hefur Valborg borið fyrir dómi að hún hafi vísað blaðamanni Vikunnar á umfjöllun um málið í DV frá 9. apríl 2005 til að komast hjá því að endurtaka söguna, en samræmi í umfjöllun Vikunnar og DV um málið er greinilegt. Þá sagði Valborg að orðavalið væri blaðamannsins, sem hún ræddi við, þótt innihaldið væri rétt að efni til. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á það með stefndu að Valborg ein geti talist höfundur greinarinnar. Því hvílir ábyrgðin á stefndu sem ritstjóra þar sem höfundur greinarinnar var ekki nafngreindur og skiptir þá engu þótt Valborg kunni einnig að teljast höfundur greinarinnar. Þá er haldlaus með öllu sú málsástæða stefndu að lög um prentrétt fari í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar að því leyti sem þau geri þriðja mann ábyrgan fyrir ummælum sem aðrir láti falla.

2.

Í stafliðum A og B í kröfulið 1 krefst stefnandi ómerkingar á millifyrirsögninni „Öskubuska litla“ og ummælum þess efnis að stefnandi hafi aðeins átta ára að aldri verið í hlutverki Öskubusku með því að verja stórum hluta þess tíma sem hún dvaldi hjá föður og síðari eiginkonu hans í ýmis húsverk og að hjálpa til við barnauppeldið. Í málinu hafa með engu móti verið leiddar líkur að því að þessi ummæli eigi við rök að styðjast. Í ummælum þessum felst ekki aðdróttun af neinu tagi sem varðað getur við 235. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn er sárlega móðgandi fyrir unga stúlku á viðkvæmu aldursskeiði að vera líkt við persónuna úr ævintýrinu þekkta en með því er augljóslega skírskotað til aðstæðna sem eru niðurlægjandi. Samkvæmt þessu verða greind ummæli ómerkt með vísan til 241. gr., sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga.

Í stafliðum C og D í kröfulið 1 er krafist ómerkingar á ummælum sem fela það í sér efnislega að stefnandi sé einangruð og fái ekki að hitta vini og kunningja. Þær aðstæður sem hér er lýst og stefnandi er sögð búa við vega með engu móti að æru hennar sjálfrar. Af þeim sökum verða ummælin ekki talin varða við ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga og verða þau því ekki ómerkt.

Í staflið G í kröfulið 1 er krafist ómerkingar á ummælum um að stefnandi vildi frekar deyja en að þurfa að fara á heimili föður síns og stjúpu. Þessi ummæli eiga að hafa fallið í samtali stefnanda við ömmu sína í kjölfar þess að móðir hennar andaðist árið 2005, þegar stúlkan var átta ára eða níu ára að aldri. Jafnframt er krafist ómerkingar í staflið F í kröfulið 1 á millifyrirsögn sem vísar til þessara ummæla. Með öllu er ósannað að stefnandi hafi látið þessi orða falla í samtali við ömmu sína á fyrrgreindu tímabili. Loks er gerð krafa í staflið E í kröfulið 1 að ómerkt verði ummæli um að stefnandi hafi tjáð ömmu sinni í bréfi að hún fyndi sig knúna til að taka eigið líf ef hún þyrfti að vera lengur hjá föður sínum. Í málinu liggur frammi bréf stefnanda 10. júní 2008 til ömmu sinnar þar sem hún kvartar undan aðstæðum sínum og segir að miklu betra væri að vera hjá látinni móður sinni. Af þessu verður með engu móti ráðið að stefnandi hafi hugleitt að taka eigið líf. Að því gættu og þar sem fyrrgreind ummæli, sem eiga að hafa fallið í samtali við ömmu stúlkunnar árið 2005, eru ósönnuð verða öll þessi ummæli ómerkt með vísan til 241. gr. almennra hegningarlaga þar sem í þeim felst aðdróttun í skilningi 235. gr. sömu laga.

3.

Svo sem rakið hefur verið í næsta kafla hér á undan varða nokkur af þeim ummælum sem birtust í Vikunni í umrætt sinn við 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Einnig voru aðdróttanir í garð stefnanda birtar og bornar út opinberlega, enda þótt ekki hafi verið fyrir hendi sennileg ástæða til að telja þær réttar, eins og málið horfði við þeim sem ritaði greinina. Varðar þetta því jafnframt við 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga. Til stuðnings refsikröfu vísar stefnandi að auki til 229. gr. almennra hegningarlaga um refsinæmi þess að skýra opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi sem réttlætt geti verknaðinn.

Það málefni sem fjallað var um í Vikunni snerti hjónaband og skilnað foreldra stefnanda, auk þess sem fjallað var um persónuleg málefni hennar. Þessi skrif Vikunnar lutu því að einkamálefnum stefnanda í skilningi 229. gr. almennra hegningarlaga. Kemur þá til skoðunar hvort nægar ástæður hafi verið fyrir hendi sem réttlætt geta umfjöllunina.

Af vitnisburði Valborgar fyrir dómi verður ráðið að fyrir henni vakti fyrst og fremst að fjalla um að ættleiðing stjúpmóður á stefnanda kom í veg fyrir að krafa hennar um umgengni við stefnanda yrði tekin til greina, sbr. úrskurður sýslumannsins í Keflavík 13. ágúst 2008 og úrskurður dómsmálaráðuneytisins 19. janúar 2009. Fullt tilefni var til að ræða opinberlega um þá umdeilanlegu niðurstöðu stjórnvalda að úrlausn dómstóls í Bandaríkjunum um ættleiðingu kæmi í veg fyrir að amma barnsins teldist náinn vandamaður í skilningi 3. mgr. 47. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Umfjöllun tímaritsins um einkamálefni stefnanda gekk hins vegar mun lengra en helgast getur af þeim tilgangi og varðaði hún við 229. gr. almennra hegningarlaga. Skiptir þá engu þótt málefni fjölskyldunnar hafi fyrir fimm árum verið til umfjöllunar í DV. 

Í málinu liggur fyrir að stefnda vann ekki greinina heldur blaðamaður á tímaritinu. Kom fram í skýrslu stefndu fyrir dómi að hún hefði aðeins lesið yfir greinina í því skyni að leiðrétta ritvillur og málfar, auk þess sem hún hefði stytt inngang blaðamanns. Eins og áður greinir hvílir ábyrgðin á stefndu sem ritstjóra tímaritsins, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956. Að þessu virtu og þegar litið er til niðurstöðu dómsins um kröfur að einkarétti, sem og málsatvika að öðru leyti, þykja almannahagsmunir ekki standa til að stefndu verði refsað.

4.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fól umfjöllun Vikunnar í sér ærumeiðingar í garð stefnanda auk þess sem brotið var gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, en sá réttur nýtur verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Með þessu hefur verið framin meingerð gegn friði og persónu stefnanda sem stefnda ber miskabótaábyrgð á samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993. Við ákvörðun miskabóta til stefnanda er þess að gæta að birtar voru myndir af stefnanda en með því var enn frekar vegið að friðhelgi einkalífs hennar. Að öllu virtu þykja miskabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 800.000 krónur með vöxtum svo sem greinir í dómsorði. Samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, er tekin til greina krafa um upphafsdag dráttarvaxta frá því liðinn var mánuður frá þingfestingu málsins.                

Með vísan til 1. og 2. mgr. 22. gr. laga um prentrétt, nr. 57/1956, er fallist á kröfu stefnanda um að forsendur og niðurstaða dóms þessa skuli birta í næsta tölublaði Vikunnar, sem út kemur eftir uppsögu dómsins. Breytir engu um þá kröfugerð þótt útgefandi tímaritsins eigi ekki aðild að málinu, enda hvílir þessi skylda á honum lögum samkvæmt. Með hliðsjón af því að málefninu var slegið upp á forsíðu Vikunnar, en blaðinu er gjarnan stillt upp á áberandi stöðum í blaðsöluhillum á sölustöðum, auk þess sem ritið liggur víða frammi löngu eftir útgáfu, þykir jafnframt rétt með vísan til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga að gera stefndu að greiða stefnanda 300.000 krónur til að standa straum af opinberri birtingu dómsins.

Eftir þessum úrslitum verður stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í dómsorði greinir.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Framangreind ummæli í stafliðum A, B, E, F og G í kröfulið 1 skulu vera dauð og ómerk.

Stefndu, Guðríði Haraldsdóttur, er ekki gerð refsing.

Stefnda greiði stefnanda, Apríl Rún Kubischta, 1.100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af 800.000 krónum frá 30. júlí 2009 til 1. október sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.