Hæstiréttur íslands
Mál nr. 396/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 6. september 2005. |
|
Nr. 396/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. september 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. október 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður á það fallist að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. október 2005 kl. 16.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt. og heimilisfang], verði á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. október 2005 kl. 16.00.
I greinargerð lögreglunnar kemur fram að lögreglan í Reykjavík rannsaki nú tilraun til manndráps og/eða sérstaklega hættulegar líkamsárásir sem átti sér stað í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins 20. ágúst sl. Kærði liggi undir sterkum grun um að hafa umrætt sinn veitt A, [kt.], tvo alvarlega stunguáverka og B, [kt.], sár á baki.
Samkvæmt vottorði Þórarins Arnórssonar, sérfræðings á Landspítala háskólasjúkrahúsi, dags. 21. ágúst sl., hafi A reynst vera með tvö stungusár á baki. Önnur stungan hafi náð í gegnum brjóstvegg og reynst vera um 3-4 cm langur skurður á lunga A. Að mati Þórarins hafi um lífshættulega áverka reynst vera að ræða og hafi blæðing verið metin um 7 lítrar blóðs og hafi A þurft að gangast undir brjóstholsaðgerð með hraði. Samkvæmt læknisvottorð Theodórs Friðrikssonar, sérfræðings á spítalanum, komi fram að áverkar A teljist lífshættulegir og hafi hann verið stunginn í brjósthol með þeim afleiðingum að slagæðar bæði í lunga og brjóstvegg hafi farið í sundur. Samkvæmt vottorði Theódórs hafi B reynst vera með skurðsár á herðablaði ca 1 Vi cm langan neðan við vinstra herðablað.
Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að til mikilla átaka kom í miðbæ Reykjavíkur umrædda nótt. Af upptökum úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni sjáist að til nokkurra átaka hafi komið á svipuðum stað og hin kærðu atvik hafi átt sér stað. Ekki verð af upptökunum ráðið að kærði hafi tekið þátt í þeim. Upptökurnar sýni hins vegar að tveir menn gangi í burtu og hópur manna á eftir þeim. Samkvæmt framburði vitna hafi það verið A og félagi hans C sem hafi verið að ganga í burtu en kærði og félagar hans hafi farið á eftir þeim. Kærði hafi viðurkennt að til einhverra ryskinga hafi komið með honum og A annars vegar og B hins vegar. Kærði viðurkenni að hafa verið með hníf sem hann hafi tekið upp og sveiflað að A en beri því við að það hafi verið í sjálfsvörn. Um áverka á B segi kærði að hafi hann valdið þeim hafi það ekki verið af ásetningi. Kærði telji hins vegar að áverkar á A séu tilkomnir af hans völdum. Vitnið C hafi borið að hann hafi séð kærða með hníf sem hann hafi haldið upp að A en vitnið kveðjist ekki hafa séð hann stinga hann með hnífnum. Vitnið D kveðjist hafa séð kærða kýla A þrisvar sinnum í bakið en vegna myrkurs hafi vitnið ekki tekið eftir því hvort kærði hafi verið með hníf í hendi þegar hann hafi kýlt hann. Vitnið E hafi borið að hann hafi gengið að A eftir að slagsmálunum hafi lokið og hafi A þá sagt honum að hann væri að „drepast í bakinu". Vitnið hafi strokið yfir peysu hans að aftan og nokkru síðar hafi hann uppgötvað að hann hafi verið blóðugur í lófanum. Vitnið hafi þá ásamt fleirum farið að leita að A og hafi þá komið í ljós að hann hafi verið mikið særður.
Með úrskurði héraðsdóms þann 21. ágúst sl. hafi kærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 26. sama mánaðar. Þann dag hafi gæsluvarðhald hans verið framlengt til dagsins í dag. Hæstiréttur hafí staðfest þann úrskurð með dómi þann 30. sama mánaðar.
Rannsókn máls þessa sé vel á veg komin en ekki þyki nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna úr því sem komið er. Rétt sé að taka fram að nú sé beðið eftir niðurstöðum úr DNA-rannsókn sem fram fer í Noregi en óskað hafi verið eftir flýtimeðferð á þeirri rannsókn. Þegar rannsókn máls sé lokið verði málið sent til ríkissaksóknara sem fari með ákæruvald í málinu, sbr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Lögreglan í Reykjavík telji að sterkur grunur sé til staðar um að kærði hafi gerst sekur um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, og/eða við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981. Kærði hafi farið niður í miðbæ Reykjavíkur á svokallaðri menningarnótt þar sem tugir þúsunda manna safnaðist saman og var með í fórum sínum „butterfly" hníf sem hann lagði til tveggja manna með. Hnífur þessi verður að teljast hættulegt vopn og ljóst er að mikil hætta var samfara brotum kærða. Hending ein virðist hafa ráðið því að kærði varð ekki manni að bana umrætt sinn. Kærði hefur borið í skýrslum hjá lögreglu að hann hafi skapað sér vissa ímynd vegna fyrri lífsstíls síns og eigi því alltaf von á að einhver ráðist á hann vegna þessa. Hann noti því hnífinn til að fæla fólk í burtu frá sér ef hann þurfi þess. Gangi hann því með hníf á sér þegar hann fari niður í miðbæ. Með hliðsjón af framangreindu telur lögreglan að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, enda geta brot hans varðað að lögum 10 ára fangelsi og eru þess eðlis að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú þann atburð er A hlaut tvo alvarlega stunguáverka með hnífi á „menningarnótt" í miðbæ Reykjavíkur. Samkvæmt gögnum málsins er rökstuddur grunur um að kærði hafi veist að A og valdið honum þessum áverka með hnífi, en kærði hefur viðurkennt að hafa borið hníf þessa nótt. Samkvæmt gögnum málsins er sá hnífur með 10,1 cm löngu blaði, sem telja verður ákaflega hættulegt vopn. Samkvæmt vottorði Þórarins Arnórssonar, sérfræðings á Landspítala háskólasjúkrahúsi, frá 21. ágúst sl., reyndist A vera með tvö stungusár á baki og hafi önnur stungan náði í gegnum brjóstvegg og reynst vera um 3-4 cm langur skurður á lunga A. Að mati Þórarins reyndist vera um lífshættulega áverka að ræða og hafi blæðing verið metin um 7 lítrar blóðs og hafi A þurft að gangast undir brjóstholsaðgerð með hraði. Samkvæmt læknisvottorð Theodórs Friðrikssonar sérfræðings á spítalanum, teljist áverkar A hafa verið lífshættulegir en hann hafi verið stunginn í brjósthol með þeim afleiðingum að slagæðar bæði í lunga og brjóstvegg hafi farið í sundur. Þessu til viðbótar liggur fyrir í rannsóknargögnum málsins grunur um að kærði hafi veitt B sár á baki, einnig með hnífi. Brot þessi, og þá sér í lagi brotið gegn A, geta varðað við 211. gr., sbr. 20. gr., eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með síðari breytingum. Brot samkvæmt fyrra ákvæðinu getur varðað allt að ævilöngu fangelsi, en samkvæmt því síðara allt að 16 ára fangelsi. Að þessu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda er það þess eðlis að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Verður krafa lögreglu því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 14. október 2005 kl. 16.00.
.