Hæstiréttur íslands
Mál nr. 696/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Laugardaginn 24. desember 2011. |
|
|
Nr. 696/2011. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Á. Hermannsson fulltrúi) gegn X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. janúar 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að einangrun verði aflétt.
Sóknaraðili [krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2011.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafðist þess fyrr í dag, fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að X, kt. [...], [...], [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 5. janúar 2012 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Krafa er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði mótmælir kröfunni. Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá mótmælir hann því að krafa sækjanda um að hann sæti einangrun komist að í málinu, verði krafan um gæsluvarðhald tekin til greina, þar sem sú krafa komi ekki fram í dómkröfum sækjanda, eingöngu í greinargerð með kröfunni. Þá krefst hann þess, ef kröfur sækjanda verða teknar til greina, að honum verði ekki gert að sæta einangrun.
Í greinargerð með kröfunni kemur fram að Tollgæslan hafi haft þann 22. desember 2011 um kl. 02:07 afskipti af X í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) við komu hans til landsins frá Kaupmannahöfn með flugi HCC-904A. Lögreglustjóranum á Suðurnesjum hafi borist tilkynning frá Tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í nótt, um að kærði hefði verið stöðvaður á tollhliði við komu frá Kaupmannahöfn. Við skoðun á ferðatösku kærða hafi komið í ljós að taskan hafi vegið u.þ.b. 6,55 kg. tóm. Í viðræðum við tollverði kvaðst kærði telja að um 750 gr. af amfetamíni væru í töskunni, þá hafi kærði einnig verið með í töskunni neysluskammta af kannabisefnum. Efnið í töskunni hafi verið prófað í Itemiser prófunartæki Tollstjórans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og var niðurstaðan há svörun á kókaíni. Tæknideild lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu er að rannsaka meint fíkniefni.
Kærði hafi verið yfirheyrður einu sinni frá komu sinni til landsins, þ.e. í dag, 22. desember 2011. Hafi kærði veitt lögreglu takmarkaðar upplýsingar um meintan innflutning á framangreindum meintum fíkniefnum og um mögulega samverkamenn sína hér á landi eða erlendis. Kærði hafi sagt í yfirheyrslunni að hann hefði farið til Danmerkur í þeim tilgangi að sækja tösku sem kærði taldi að í væri amfetamín. Vísast nánar til meðfylgjandi gagna málsins.
Þá segir ennfremur að rannsókn þessa máls sé á algjöru frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar kærða til landsins og tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Magn hinna meintu fíkniefna, sem þegar hafa fundist í fórum kærða, þykir eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæða laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus. Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni, telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. janúar 2012 kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur fangelsi. Með vísan til alvarleika brotsins, og rannsóknargagna þykja skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála vera uppfyllt í málinu. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sækjandi gerði kröfu fyrir dóminum um að kærði sætti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stæði. Kærði mótmælti því að sú krafa kæmist að í málinu þar sem hún kæmi einungis fram í greinargerð en ekki í dómkröfum á dómskjali 1. Ljóst er að þrátt fyrir að krafa sækjanda hafi verið lögð fyrir dóminn skriflega, þá komast allar kröfur að við fyrirtöku málsins þegar krafan er tekið fyrir og kærða kynnt krafan, þar sem ekki er lagaskilyrði til þess að krafan sé í skriflegu formi. Þegar kærða var kynnt krafan í dag, var honum einnig kynnt krafan um að hann sætti einangrun. Er sú krafa því nægjanlega fram sett og mótmæli kærða ekki tekin til greina að þessu leyti.
Vegna rannsóknarhagsmuna og þess að rannsókn málsins er á algjöru frumstigi og með vísan til gagna málsins, verður krafan um að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi tekin til greina þannig að takmarkanir verða á a-f liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. janúar nk. kl. 16.00.
Kærði sæti einangrun skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.