Hæstiréttur íslands

Mál nr. 500/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Barnavernd
  • Vistun barns
  • Gjafsókn


Þriðjudaginn 6

 

Þriðjudaginn 6. desember 2005.

Nr. 500/2005.

A

(Sigurður B. Halldórsson hrl.)

gegn

Félagsmálaráði Kópavogs

(Helgi Birgisson hrl.)

 

Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.

Staðfest var að skilyrðum 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr.80/2002 hafi verið fullnægt þegar F úrskurðaði að dætur A skyldu vistaðar utan heimilis í tvo mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2005 þar sem staðfestur var úrskurður varnaraðila 20. október sama ár um að tvær dætur sóknaraðila skyldu kyrrsettar og vistaðar utan heimilis á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, frá og með 6. október 2005. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að honum verði tafarlaust falin umráð dætra sinna. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

          Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Fallast verður á það með héraðsdómi að fram sé komið að aðkoma og aðstæður á heimili sóknaraðila og dætra hans hafi verið með þeim hætti 6. október síðastliðinn að vinda hafi þurft bráðan bug að því að forða stúlkunum þaðan, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 80/2002, svo sem gert var. Stúlkunum var komið í vist utan höfuðborgarsvæðisins og sækja þær skóla þar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar bar félagsmálaráði að svo búnu að taka málið til meðferðar og kveða upp úrskurð innan 14 daga og átti málsmeðferðin að fara eftir VIII. kafla laganna. Nefndin kvað upp úrskurð 20. sama mánaðar og komst þar að þeirri niðurstöðu að kyrrsetning stúlknanna skyldi staðfest og jafnframt að þær skyldu með heimild í a-lið 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002 dvelja áfram í allt að tvo mánuði á sama stað. Jafnframt var starfsmönnum félagsmálaráðs falið með bókun sama dag með heimild í 29. gr. sömu laga að undirbúa höfðun máls fyrir héraðsdómi um sviptingu sóknaraðila á forsjá stúlknanna, þar sem ljóst væri að hann gæti ekki sinnt daglegri umönnun þeirra og uppeldi þeirra. Mál þetta hefur nú verið höfðað.

       Ráðstafanir samkvæmt úrskurðinum og bókuninni voru gerðar að lokinni rannsókn Guðrúnar Hrefnu Sverrisdóttur félagsráðgjafa og eftir að lögmaður sóknaraðila hafði tjáð sig um hans hlið málsins og talsmaður stúlknanna hafði gert grein fyrir afstöðu þeirra. Er ekki annað fram komið en að með málið hafi verið farið að VIII. kafla laga nr. 80/2002.

          Þegar metið er réttmæti þessara ráðstafana barnaverndaryfirvalda í Kópavogi verður ekki hjá því komist að líta til forsögu málsins allt frá því er sóknaraðili fékk forræði stúlknanna að móður þeirra látinni. Í úrskurði héraðsdóms er því lýst að hún hafi einkennst af því að ítrekað hefur verið haft samband við barnaverndaryfirvöld og lýst áhyggjum af velferð stúlknanna. Sóknaraðili hefur ítrekað fært þær milli skólahverfa og skráð heimili sitt og þeirra milli sveitarfélaga að því virðist til þess að komast undan eftirliti yfirvalda. Hann hefur hvorki svarað ítrekuðum fyrirspurnum né verið til samráðs um velferð stúlknanna. Er þetta í annað sinn sem gripið er til sambærilegra ráðstafana gagnvart honum og eru stúlkurnar nú vistaðar á sama heimili og í fyrra sinnið. Með vísan til framangreinds og með velferð stúlknanna í huga er úrskurður héraðsdóms staðfestur.

         Kærumálskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Úrskurður héraðsdóms skal vera óraskaður.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun til lögmanns hans fyrir Hæstarétti 120.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. nóvember 2005.

Mál þetta, sem er barnaverndarmál, barst héraðsdómi 26. október 2005. Því var úthlutað til dómara 27. október, þingfest 1. nóvember og tekið til úrskurðar 14. sama mánaðar að loknum munnlegum málflutningi. 

Sóknaraðili er A, til lögheimilis að [...], Reykja­vík, búsettur að [...], Kópavogi. Varnaraðili er Félagsmálaráð Kópavogs, Fannborg 4, Kópavogi.

Sóknaraðili krefst ógildingar á úrskurði varnaraðila 20. október 2005 um að dætur hans, B, [kt.] og C, [kt.], skuli kyrrsettar á heimili á vegum varnaraðila og þær vistaðar þar áfram í allt að tvo mánuði. Jafnframt er þess krafist að dómari úrskurði um að sóknaraðila verði falin tafarlaus umráð stúlknanna. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Varnaraðili krefst staðfestingar á úrskurðinum og málskostnaðar.

I.

Hinn 3. október 2005 heimilaði Héraðsdómur Reykjaness að gerð yrði húsleit á heimili sóknaraðila að [...] í því skyni að handtaka hann og færa til yfir­heyrslu vegna lögreglurannsóknar á ætluðum hegningarlagabrotum. Fyrir þann tíma mun sóknaraðili ekki hafa sinnt ítrekuðum boðum um að mæta til skýrslutöku. Þegar lögregla fór á staðinn að morgni 6. október neitaði sóknaraðili að opna fyrir henni þrátt fyrir að honum væri kynntur úrskurður dómara. Beitti lögregla því valdi til að komast inn í húsið, handtók sóknaraðila og færði hann til skýrslugjafar. Við nefnda lögregluaðgerð kom í ljós gríðarlegur óþrifnaður á heimili sóknaraðila, svo mikill að lögregla óskaði eftir tafarlausri úttekt á húsnæðinu af hálfu barnaverndaryfirvalda, varnar­­aðila í málinu. Einnig voru kvaddir á staðinn starfsmenn heilbrigðiseftirlits, sem skiluðu álitsgerð vegna málsins. Dætur varnaraðila, B 14 ára og C 13 ára, voru í skóla þegar nefndir atburðir gerðust.

Aðkomu á heimili sóknaraðila umrætt sinn er lýst í lögregluskýrslu og öðrum gögnum málsins. Greint er frá miklum sóðaskap og óhreinindum og vægri ýldulykt innandyra. Umgengni hafi verið svo hrikaleg, að vandkvæðum hefði verið bundið að stíga fæti á gólf vegna óreiðu. Föt og kassar hafi verið út um allt. Katta­skítur hafi verið á gólfum og hefði verið komið tölu á einn hund og að minnsta kosti sex ketti á heimilinu. Þá hafi ein kanína verið í búri úti á svölum. Fjöldi ljósmynda, sem lögregla tók á vettvangi, staðreyna framangreinda lýsingu, svo hvorki verður um villst né dregið í efa að aðstæður á heimilinu hafi verið vægast sagt hörmulegar.

Sama dag tók Kolbrún Ögmundsdóttir formaður varnaraðila þá ákvörðun að stúlkurnar yrðu teknar tíma­bundið úr umsjá sóknaraðila og þær kyrrsettar á heimili á vegum varnaraðila til 20. október. Var í því sambandi vísað til neyðarráðstafana samkvæmt 31. gr. barna­verndar­laga nr. 80/2002.

Barnaverndarmálið sætti sjálfstæðri rannsókn og var sóknar­­aðila gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum. Herdís Hjörleifsdóttir félags­ráðgjafi var skipaður talsmaður stúlknanna samkvæmt 46. gr. barna­verndarlaga og fór til viðræðna við þær 17. október, þar sem þær dvöldu að [...]. Í greinargerð tals­mannsins 18. sama mánaðar kemur fram að stúlkurnar hafi hvor um sig lýst sig sátta við kyrrsetninguna og verið jákvæðar gagnvart þeirri hugmynd að vera vistaðar utan heimilis sóknaraðila til 18 ára aldurs. Báðar munu þær hafa lýst góðum aðbúnaði að [...], að þeim liði ágætlega hjá vistforeldrum sínum og að þær vildu helst sækja X-skóla á [...] eða Y-skóla.

Á fundi varnaraðila, sóknaraðila og lögmanns hans 20. október var aðgerðum varnaraðila mótmælt. Bent var á að það væri eindreginn vilji beggja dætra sóknaraðila að búa áfram hjá honum og ganga í Y-skóla. Var meðal annars vísað til umsagnar skólayfirvalda um að mætingar hefðu verið góðar, umhirða stúlknanna í lagi, að þeim sæktist námið vel og að ekkert benti til þess að stúlkunum liði illa í umsjá sóknaraðila. Aðgerðir varnar­aðila gengju því þvert á hagsmuni stúlknanna. Sóknar­aðili gat þess einnig að hann væri búinn að gera hreint á heimilinu og skoraði á varnaraðila að ganga úr skugga um það áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Þá lýsti sóknaraðili því yfir að hann legðist ekki gegn því að fá reglulega aðstoð við heimilis­þrif.

Í framhaldi af mótmælum sóknaraðila færði varnaraðili til bókar á fundinum, að þrátt fyrir kyrrsetningu stúlknanna og ábendinga til sóknaraðila um slæman aðbúnað hefði ekki náðst sam­vinna við hann. Þar sem ljóst þætti, samkvæmt fyrir­liggjandi upplýsingum, að ekki myndi nást slík samvinna var ákveðið í úrskurði upp­kveðnum sama dag að staðfesta ákvörðunina 6. október um kyrrsetningu stúlknanna og jafnframt kveðið á um að þær skyldu dvelja áfram að [...] „í allt að tvo mánuði á grundvelli a-liðar 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002“.

Við sama tækifæri lagði formaður varnaraðila fyrir starfsmenn hans að undir­búa höfðun dómsmáls til forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. barnaverndarlaga, enda þætti ljóst að sóknaraðili gæti ekki sinnt daglegri umönnun og uppeldi dætra sinna.

II.

Mál til forsjársviptingar hefur ekki verið höfðað og kemur slíkt álitaefni því ekki til skoðunar í máli þessu, sem varðar einungis kæru sóknaraðila á úrskurði varnar­aðila 20. október. Engu að síður þykir nauðsynlegt, samhengi máls vegna, að rekja forsögu kærumálsins, enda horfir slík reifun til beinna skýringa á ólíkum máls­ástæðum, sem teflt er fram af hálfu hvors aðila um sig.

Rökréttur upphafspunktur slíkrar frásagnar er forsjárdeila milli sóknaraðila og móður stúlknanna, sem var til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur frá lokum árs 1995 og lauk með dómi 18. september 1997. Undir rekstri þess máls var móðurinni falin forsjá stúlknanna til bráðabirgða 23. janúar 1996 og varð sú niðurstaða einnig ofan á í dómi. Réðist hún einkum af matsgerð tveggja dómkvaddra sálfræðinga og áliti þess þriðja um líðan stúlknanna. Þótt móðirin væri talin veikburða einstaklingur, með lítinn sjálfstyrk og mótstöðuafl og ætti vanda til að leita í áfengi þegar þunglyndi og vanlíðan sækti að henni, var hagsmunum stúlknanna talið betur borgið hjá henni en sóknaraðila, að áliti fjölskipaðs dóms. Í rökstuðningi dómsins er meðal annars bent á að saga sóknaraðila vitni um ákveðið festuleysi og skort á skýrum markmiðum, þar sem góð greind nýttist ekki sem skyldi. Þá sé hann hirðulaus um nánasta umhverfi sitt og stúlknanna, geti verið ágengur og taki djúpt í árinni og lendi því stundum í samskipta­erfiðleikum. Þótt hann tali hlýlega, af skilningi og ábyrgðar­tilfinningu um dætur sínar hafi hann ekki búið þeim þær heimilisaðstæður, sem ætla mætti að metnaður hans stæði til. Ef hann fengi forsjá stúlknanna mætti því búast við að ýmsum praktískum atriðum yrði ábótavant, svo sem hreinlæti, almennum aðbúnaði á heimilinu, reglufestu og stöðugleika í umönnun þeirra. Er hér í dóminum vísað til nefndrar matsgerðar og þess álits sérfræðinganna að atlæti á heimili sóknar­aðila teljist ábótavant.

B var 6 ára og C 5 ára þegar dómur féll. Í kjölfar hans naut móðir þeirra aðstoðar og stuðnings barnaverndar­yfir­valda í Reykjavík þar til hún flutti í [...] vorið 2001. Þar bjó hún ásamt eiginmanni þegar hún ákvað að svipta sig lífi í lok nóvember sama ár. B var þá 10 ára og C árinu yngri. Stúlkurnar voru búsettar hjá sóknaraðila í Kópavogi þegar hinn voveiflegi atburður gerðist.

III.

Afskipti varnaraðila af málefnum sóknaraðila og stúlknanna hófust í desember 2001, í kjölfar tilkynningar um að uppeldi og aðbúnaði systranna kynni að vera ábóta­vant. Liggja frammi í málinu bréf varnaraðila 10. og 17. þess mánaðar, sem og bréf 8. og 20. febrúar 2002, þar sem sóknaraðili er boðaður til viðræðna um málefni dætra sinna. Frá sama tíma liggja einnig fyrir umsagnir Z-skóla, þar sem stúlkurnar fá prýðiseinkunn og engar athugasemdir eru gerðar við aðbúnað þeirra.

Þá gerðist það 11. febrúar 2002, að sýslumaðurinn í Kópavogi staðfesti samning milli eiginmanns móður stúlknanna annars vegar og sóknaraðila hins vegar um að sá síðarnefndi færi eftirleiðis með forsjá dætra sinna. Mun sóknaraðili þá hafa verið fluttur ásamt stúlkunum heim til aldraðrar móður sinnar að [...], þar sem hann býr enn í dag, en móðirin er nú látin.

Hinn 3. apríl 2002 barst varnaraðila enn tilkynning um slæman aðbúnað stúlknanna, en kærandi, sem ekki óskaði nafnleyndar, lýsti afar skítugum aðstæðum á heimilinu og miklu drasli út um allt hús. Kattasandur og -skítur hafi verið á gólfi í stofu, við hlið svefnrýmis stúlknanna. Að áliti tilkynnanda virtist ástandi stúlknanna og líðan hafa hrakað frá síðustu jólum.

Í álitsgerð Margrétar Arnardóttur félagsráðgjafa 4. apríl, sem unnin var á vegum varnaraðila, er ferill barnaverndarmálsins rakinn, því lýst að sóknaraðili hafi ekki sinnt ítrekuðum boðum um að mæta á viðtalsfundi og hann hreytt ónotum í starfs­­menn varnaraðila þegar þeir hafi ætlað að ná tali af honum og dætrunum á heimili þeirra. Er bent á að full ástæða sé til að bregðast við þessum kringumstæðum með úrskurði um að ræða eigi við stúlkurnar og kanna líðan þeirra og aðstæður, en ella verði að loka málinu á þeim grunni að ekki hafi náðst samstarf við föður þeirra.

Til að gera langa sögu stutta má segja að sambærilegt ferli hafi verið í gangi næstu vikur og mánuði á eftir, með svipuðum samskiptum eða öllu heldur samskipta­leysi milli málsaðila. Þannig liggja fyrir í málinu boðunarbréf til sóknar­aðila og fundar- og álitsgerðir varnaraðila á víxl; dagsett 4., 8., 9., 17., 18., 22. og 29. apríl, 29. maí og 26. ágúst. Á þessu tímabili munu hafa borist fleiri barna­verndar­tilkynningar, að minnsta kosti 24. maí og 19. júlí. Segir um ferlið í heild í álitsgerð Margrétar Arnardóttur 26. ágúst, að samvinnu­leysi sóknaraðila hafi verið algert á tíma­bilinu og hann hafnað allri samvinnu við starfsmenn varnaraðila. Sem fyrr bendir Margrét á hverra úrræða sé þörf til að kanna og meta aðstæður stúlknanna.

Sóknaraðili mætti á fund varnaraðila 29. ágúst 2002, í samræmi við boðunar­bréf 27. sama mánaðar. Mun sóknaraðili hafa mótmælt veru Margrétar Arnardóttur á þeim fundi, sagt álitsgerð hennar byggða fyrst og fremst á söguburði, hann látið í ljós vantraust á starfsmönnum varnaraðila og því hefði hann ekki verið reiðubúinn til sam­starfs. Á fundinum samþykkti sóknaraðili engu að síður að hlutlaus sál­fræðingur ræddi við dætur hans og kannaði líðan þeirra. Bréfi varnaraðila þar að lútandi 30. ágúst var ekki svarað og því var sóknaraðili boðaður á fund varnaraðila 5. september. Sóknaraðili mætti ekki á fundinn og var því samdægurs kveðinn upp úrskurður í sömu veru, jafnframt því sem kveðið var á um önnur stuðningsúrræði samkvæmt 26. gr. barnaverndarlaga.

Í kjölfar úrskurðarins var ítrekað reynt að birta hann fyrir sóknaraðila, en án árangurs. Hinn 6. september staðfesti skólastjóri Z-skóla að stúlkurnar hefðu ekki mætt í skólann frá því 27. ágúst. Samkvæmt vottorðum Þ-skóla 12. og 13. nóvember 2002 munu systurnar hafa byrjað skólagöngu þar í byrjun september og líki vel. Í sama mánuði mun sóknaraðili hafði skráð lögheimili sitt og dætranna að [...], Reykjavík.

Af greinargerð varnaraðila 2. desember 2002 er sosum fátt nýtt að frétta af þróun mála, en áhyggjur varnaraðila af velferð stúlknanna eru þar tíundaðar í bak og fyrir. Svipað er uppi á teningnum í bókun fundar 5. desember, sem sóknaraðili mun ekki hafa mætt á þrátt fyrir boðun. Þar kemur þó fram að samkvæmt umsögn Þ-skóla virðist umönnun stúlknanna vera viðunandi, mætingar þeirra í skólann góðar og almenn líðan og félagsleg staða góð. Við sama tækifæri var bókað, að þar sem sóknaraðili hefði ekki verið fáanlegur til samvinnu við varnaraðila og ekki hefði reynst unnt að kanna aðstæður stúlknanna á heimili hans verði áfram unnið í málinu, án þess þó að það verði lagt fyrir á fundi varnaraðila að óbreyttum forsendum.

Með ofangreindum rökum og í ljósi þess að sóknaraðili var talinn fluttur frá Kópavogi var ákveðið að útskrifa mál fjölskyldunnar í lok janúar 2003.

IV.

Næst gerðist það, að B og C mættu ekki í Þ-skóla þegar kennsla hófst í ágúst 2003. Við eftirgrennslan Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur kom í ljós, að þótt systurnar væru skráðar til lögheimilis að [...] hefðu þær aldrei búið þar. Í bréfi fræðslumiðstöðvarinnar 18. nóvember 2003 segir að því hafi verið hafin leit að stúlkunum í grunnskólum Reykjavíkur og nágrannasveitar­félaga, en sú könnun hafi engan árangur borið.

Á þessum tíma mun ítrekað hafa verið tilkynnt um áhyggjur af líðan og aðstæðum stúlknanna hjá sóknar­aðila. Í kjölfar fleiri tilkynninga, í nóvember og desember, meðal annars í þá veru að móðir sóknar­aðila, 86 ára gömul, hefði flúið út af eigin heimili vegna ofríkis hans og leitað hælis í Kvenna­athvarfinu, fóru starfsmenn varnar­aðila 22. desember til fundar við sóknar­­aðila að [...]. Þar hittu þeir fyrir C. Segir meðal annars um viðtal við hana í greinargerð Guðrúnar Hrefnu Sverrisdóttur félagsráðgjafa 2. febrúar 2004, að stúlkan hafi virst vera ánægð að hitta einhvern. Hún hefði verið föl ásýndum og með rauða augnhvarma. Þegar henni hefði verið boðið að fylgja starfs­mönnum á stjórnarstöð varnaraðila hefði hún tárast. Aðspurð um skólagöngu sína hefði stúlkan brostið í grát og lokað útidyra­hurðinni.

Eftir frekari könnun málsins í janúar 2004 og árangurslausar tilraunir til að ná tali af sóknaraðila og boða hann á fundi varnaraðila var 5. febrúar kveðinn upp úrskurður þess efnis að systurnar skyldu teknar af heimili sóknaraðila og þær vistaðar utan heimilis í allt að tvo mánuði á heimili á vegum varnaraðila. Var í því sambandi vísað til b-liðar 1. mgr. 27. gr. barna­verndar­laga og bent á nauðsyn þess að stúlkunum yrði veitt nauðsynleg aðhlynning og líðan þeirra og aðstæður yrðu rannsakaðar. Daginn eftir voru systurnar teknar af heimilinu með aðstoð lögreglu og fóru þá í sína fyrstu dvöl að [...] .

Eftir fundi með sóknaraðila 11. og 17. febrúar, þar sem sóknaraðili hafi látið afar ófriðlega að áliti varnaraðila, hann haft í frammi hótanir og svívirðingar í garð einstakra starfsmanna og neitað allri aðstoð og samvinnu við áætlanagerð varðandi með­ferð barnaverndarmálsins, var kveðinn upp úrskurður 19. febrúar um að dvalar­stað dætranna skyldi haldið leyndum fyrir sóknaraðila og að hann hefði enga umgengni við þær á vistunartímabilinu. Er þessum atriðum öllum nánar lýst í greinar­gerð Guðrúnar Hrefnu Sverrisdóttur félagsráðgjafa 1. mars 2004, sem og því að stúlkunum virðist farnast vel að [...] og líka vel í nýjum skóla, X-skóla. Þess er og getið að sálfræðiprófanir séu nýlega hafnar og mælst til þess að systurnar verði vistaðar áfram utan heimilis til loka skólaárs í júní 2004, annars vegar til að unnt sé að meta betur stöðu þeirra og hins vegar svo að reyna megi til þrautar að fá sóknaraðila til samvinnu um málefni og velferð stúlknanna.

Sóknaraðili kærði úrskurð varnaraðila 5. febrúar til héraðsdóms. Á dóm­þingi 17. mars tókst dómsátt þess efnis, að stúlkurnar yrðu vistaðar áfram utan heimilis og myndu dvelja hjá vistforeldrum að [...] fram til loka skóla­­árs í maí/júní 2004, en þá myndu þær snúa aftur heim til sóknar­aðila. Jafnframt var gert samkomulag um umgengnisrétt sóknaraðila við stúlkurnar.

Brynjólfur G. Brynjólfsson sálfræðingur var fenginn til að gera greindarmat á stúlkunum, kanna tilfinningalega líðan þeirra og félagslega stöðu og leggja fyrir þær tengslapróf. Sú athugun fór fram 26. febrúar og skilaði sálfræðingurinn álitsgerðum 20. og 21. mars 2004. Þar kemur fram að stúlkurnar séu báðar með mjög góða greind og hafi góðar forsendur til að standa sig vel í námi. Fjölskyldutengslapróf hafi sýnt mjög lítil tilfinningaleg tengsl milli B og sóknaraðila, sem og við annað nánasta skyld­fólk. Niðurstaðan hafi verið svipuð að því er C varðar, en tengsl hennar og sóknaraðila hafi mælst frekar lítil. Systrunum þyki þó báðum greinilega vænt um föður sinn, en hafi verið neikvæðar í garð hvor annarrar. B hafi jafnframt lýst því að hún væri ekki viss um að nokkrum þætti vænt um hana.

Í málinu liggur einnig fyrir greinargerð Hjördísar Hjartardóttur félagsráðgjafa 17. mars 2004, en hún var talsmaður stúlknanna á vistunartímabilinu. Þar kemur fram að systurnar hafi sagst helst vilja búa hjá sóknaraðila. Þar hefði fjölskyldan það mjög gott og vildi fá að vera í friði. Hvorug stúlknanna vildi frekari afskipti barna­verndar­yfirvalda og töldu ekki þörf á stuðningi af þeirra hálfu, en sögðust myndu sætta sig við hann, ef þær fengju að fara heim. Stúlkurnar létu þó vel af skólagöngu sinni fyrir vestan og sögðust kunna vel við nemendur og kennara. Ekki hefði annað komið fram í máli systranna en að þeim liði vel á vistheimilinu að [...]. Í umsögn X-skóla 24. maí 2004 fá stúlkurnar prýðiseinkunn í alla staði.

V.

Systurnar sneru heim til föður strax og skóla lauk fyrir vestan. Í september 2004 hófu þær nám í Y-skóla, eftir að skólastarf var hafið, en fyrir liggur að fram að þeim tíma hafi þær setið heima. Í umsögn Y-skóla 3. desember 2004 fá stúlkurnar prýðiseinkunn, líðan þeirra er sögð góð, umhirða og aðbúnaður virðist í lagi, mætingar eru sagðar góðar og námsleg staða þeirra ágæt. Að fengnum þessum upplýsingum og að undangengnum árangurs­lausum boðunum til sóknar­aðila um að mæta á fund með varnaraðila var ákveðið á meðferðar­fundi 10. janúar 2005 að útskrifa mál stúlknanna. Fer ekki frekari sögum af afskiptum varnaraðila fyrr en starfsmenn hans voru kvaddir á heimili sóknaraðila 6. október síðastliðinn. 

VI.

Í þágu meðferðar þessa kærumáls og með samþykki beggja aðila ræddi dómari við B og C, hvora í sínu lagi, 5. nóvember 2005. Tilefni viðtalanna var að veita stúlkunum kost á að tjá sig um málið samkvæmt reglum 1. mgr. 61. gr., sbr. 3. mgr. 55. gr. og 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga, en í viðtölunum naut dómari aðstoðar Páls Magnússonar sálfræðings. Í framhaldi samdi sálfræðingurinn svo­kallaða viðtalsskýrslu, sem dagsett er 6. nóvember og er meðal framlagðra málsskjala. Verður nú rakið það helsta sem fram kom í máli stúlknanna.

B lét vel af sér hjá núverandi vistforeldrum að [...]. Hún kvartaði helst yfir því að hátalar í heimilistölvu væru bilaðir og því gæti hún ekki hlustað á tónlist eins og hún gjarnan vildi. Fram kom hjá B að henni fyndist ekki skipta máli hvort hún byggi á sama stað og C systir hennar, en C væri pirrandi og afar stríðin. B kvaðst hafa stundað nám í sex grunnskólum og vera ánægð í X-skóla, en utan hans hefði henni líkað best í Æ-skóla í Reykjavík. Hún kvaðst hafa hug á því að læra viðskiptalögfræði að loknu framhaldsskólanámi. Aðspurð hvers hún myndi óska sér, ef hún mætti fá þrjár óskir uppfylltar, kvaðst B í fyrsta lagi vilja geta hlustað á útvarpsstöðvar, sem ekki nást að [...], í öðru lagi vildi hún eiga fullt af peningum og loks óskaði hún þess að engin hungursneyð ríkti í heiminum. Í viðtalinu, sem tók tæpa klukkustund, minntist B aldrei á sóknar­aðila að fyrra bragði, en ræddi hlýlega um hann þegar dómari og sálfræðingur véku talinu að honum. Í skriflegri samantekt sálfræðingsins um viðtalið segir svo:

„B er 14 ára stúlka sem kemur fyrir sem eðlilegt barn í andlegum og líkam­legum þroska og verður ekki annað séð en að hún sé í góðu tilfinningalegu jafnvægi. Hún vill ekki taka afstöðu í þeirri deilu sem yfir stendur um vistun hennar. Hún lætur vel af núverandi búsetu sinni, unir sér vel í skóla og virðist vera að ná þar árangri í samræmi við getu. Ekki koma fram neinar óskir um breytingar á núverandi fyrirkomulagi búsetu.“

C lét einnig vel af sér hjá núverandi vistforeldrum og kvaðst ekki hafa yfir neinu að kvarta. Hún sagði það ekki vera höfuðatriði að búa með B systur sinni, en þær ættu stundum góðar stundir saman og henni þætti býsna gaman að stríða B. C sagði að sér liði afar vel í X-skóla, vildi engu breyta í því sambandi og kvað skólann líklega vera þann besta sem hún hefði verið í. Hún kvaðst sjá fyrir sér að ljúka framhaldsskóla og læra í framhaldi iðnhönnun eða dýralækningar. Aðspurð hvers hún myndi óska sér, ef hún mætti fá þrjár óskir uppfylltar, kvaðst C í fyrsta lagi vilja fá stafræna myndavél, iPod, farsíma og fartölvu, í öðru lagi langaði hana til að eiga kost á að hitta hálfbræður sína, D og E og loks óskaði hún þess að geta boðið nánustu ættingjum, vinum og fjölskyldunni að [...] í fermingar­veislu næsta vor. Í viðtalinu, sem tók tæpa klukkustund, minntist C aldrei á sóknar­aðila að fyrra bragði, en ræddi hlýlega um hann þegar dómari og sálfræðingur véku talinu að honum. Í skriflegri samantekt sálfræðingsins um viðtalið segir svo:

„C er 13 ára gömul, vellíðanleg stúlka sem virðist í ágætu jafnvægi. Fram kemur að hún er ánægð með þær aðstæður sem henni eru búnar á heimili og í skóla og engin ósk kemur fram um breytingu á núverandi búsetu. Hins vegar er skýrt að hana langar að hafa meira samband við nánustu ættingja og við vinkonur sínar.“

VII.

Sóknaraðili gaf einn skýrslu fyrir dómi 14. nóvember. Hann kvaðst ekkert hafa heyrt frá varnaraðila frá 6. október og þar til fundur hefði verið haldinn 20. þess mánaðar. Á fundinum hefði hann verið reiðubúinn að samþykkja tilsjón með heimilinu og lýst sig fúsan til samvinnu við varnaraðila, en starfsmenn hans hafi ekkert viljað ræða við hann um þau mál. Sóknaraðili kvað ljósmyndir lögreglu teknar á heimili hans 6. október „falsa“ aðstæður og nefndi að hann væri illa slasaður á fæti og ætti því erfitt með almenn heimilisþrif. Hann hefði því beðið um aðstoð varnaraðila við þrifin, en því hefði ekki verið ansað. Aðstæður í dag væru allt aðrar og mun betri en 6. október. Hann hefði tekið til á heimilinu og komið á annan tug kettlinga í lóg. Sóknaraðili kvaðst hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að dætur hans byggju við slæman kost að [...] og að ekki væri annast vel um þær. Aðbúnaður stúlknanna að [...] væri afleitur og vistforeldrum þeirra til háborinnar skammar. Að sögn sóknaraðila væri þetta altalað [...] og ólíkt aðstæðum á hans heimili. Sóknaraðili vildi ekki gera of mikið úr viðtalsskýrslu Páls Magnússonar sálfræðings og kvaðst telja að stúlkurnar hafi verið að ræða um og meint þær aðstæður, sem þeim væru búnar á heimili hans og í Y-skóla, enda væru þær „búsettar“ hjá honum. Sóknaraðili lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn að gangast undir forsjárhæfispróf og myndi fúslega samþykkja öll stuðningsúrræði barna­verndarlaga ef hann fengi dætur sínar til baka.  

VIII.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að kyrrsetning dætra hans 6. október 2005 hafi verið óheimil samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga, enda sé þar um neyðarúrræði að tefla, sem ekki beri að beita nema barni sé bráð hætta búin á heimili sínu. Í greinar­gerð skipaðs talsmanns stúlknanna 18. október 2005 komi ekkert fram sem bendi til þessa. Þá hnígi umsögn frá Y-skóla í þveröfuga átt. Stúlkurnar vilji báðar búa hjá sóknaraðila, í því umhverfi sem þær þekkja best og fá að ganga áfram í Y-skóla. Aðgerðir varnaraðila gangi því þvert gegn vilja og hagsmunum þeirra barna, sem hlut eiga að máli. Breyti engu í því sambandi viðtalsskýrsla Páls Magnússonar sálfræðings 6. nóvember 2005, en álit hans skýri ekki vilja og afstöðu stúlknanna framar því sem sóknaraðili heldur fram og styðji ekki málatilbúnað varnaraðila.

Með sömu rökum fái það ekki staðist að vista stúlkurnar utan heimilis sóknar­aðila á grundvelli a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, svo sem kveðið hafi verið á um í hinum umþrætta úrskurði 20. október 2005. Í því sambandi mótmælir sóknaraðili fullyrðingu varnaraðila í fundargerð 20. október, að ekki hafi náðst sam­vinna við hann um bættan aðbúnað stúlknanna á heimili hans. Á sama fundi hafi hann þvert á móti samþykkt reglubundið eftirlit með heimilinu og óskað eftir aðstoð félags­málayfirvalda við þrif á heimilinu, en ekki fengið nein viðbrögð við þeirri beiðni. Sjálfur ætti hann við langvarandi fótamein að stríða eftir slys og ætti því óhægt um vik með almenn heimilis­þrif. Með aðgerðum sínum hafi varnaraðili því brotið gegn meðal­hófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda ljóst að hann hefði getað gripið til mun vægari úrræða en gert var, svo sem með eftirliti og aðstoð inn á heimili sóknaraðila á grundvelli 26. gr. barnaverndarlaga.

Sóknaraðili byggir einnig á því að varnaraðili hafi með aðgerðum sínum brotið gegn málsmeðferðar­reglum 22. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barna­verndarnefnd, en samkvæmt henni beri barnaverndarnefnd ávallt að gera skrif­lega áætlun um frekari málsmeðferð ef könnun viðkomandi nefndar leiðir í ljós að þörf sé á beitingu úrræða samkvæmt barnaverndarlögum. Áætlun sem þessa beri og að gera í samráði við aðila barnaverndarmálsins. Slík áætlun hafi ekki verið gerð í máli sóknaraðila, hvorki fyrir né eftir að lögregla ruddist inn á heimili hans 6. október, en fyrri afskiptum varnaraðila vegna málefna dætra hans hefði lokið 10. janúar 2005, þegar ákveðið hefði verið að útskrifa mál þeirra á meðferðarfundi varnaraðila, svo sem fram komi í greinargerð Guðrúnar Hrefnu Sverrisdóttur félagsráðgjafa 17. október 2005. Með slíkri útskrift verði ekki dregin önnur rökrétt ályktun en að sóknar­aðili hafi verið búinn að bæta úr öllum annmörkum í aðbúnaði og uppeldi stúlknanna.

IX.

Varnaraðili styður aðgerðir sínar þeim rökum að málefni dætra sóknaraðila hafi verið til meðferðar hjá sér allt frá árslokum 2001 til þessa dags. Starfsmenn varnaraðila hafi því lengi haft áhyggjur af líðan og aðbúnaði stúlknanna og tilraunir til að leið­beina sóknaraðila í uppeldinu og fá hann til samstarfs við varnaraðila hafi engan árangur borið. Sóknaraðili líti á afskipti barnaverndaryfirvalda sem ofsóknir í sinn garð. Hann hafi ítrekað neitað að ræða við starfsmenn varnaraðila, ekki viljað hleypa þeim inn á heimili sitt og ekki viljað eiga formlega fundi með þeim. Allar áætlanir um aðstoð, samvinnu eða samstarf við sóknaraðila séu því augsýnilega þýðingar­­lausar.

Gögn málsins beri með sér að hreinlæti og öllum aðbúnaði á heimili sóknar­­aðila sé óviðunandi og aðstæðum dætra hans því alvarlega ábótavant. Öll forsaga málsins og brýnir hagsmunir stúlknanna hafi því krafist kyrrsetningar þeirra 6. október 2005 og úrskurðar um vistun utan heimilis í allt að tvo mánuði, í því skyni að rannsaka megi á ný andlegt og líkamlegt ásigkomulag stúlknanna, tengsl þeirra við sóknar­aðila og bera saman við álitsgerðir Brynjólfs G. Brynjólfssonar sál­fræðings 20. og 21. mars 2004. Umrædd rannsókn standi nú yfir og sé enn ekki lokið. Þá sé nú talin nauðsyn á því að fram fari ítarleg könnun á forsjár­hæfi og hæfni sóknar­aðila sem foreldris, en í dómi um forsjá stúlknanna 18. september 1997 hafi sóknar­aðili tapað fyrir móður þeirra. Í þeim dómi hafi komið fram efasemdir um forsjárhæfi hans og spádómar um framtíð stúlknanna í hans umsjá, sem þar hafi verið settir fram, hafi nú rætst.

Varnaraðili bendir einnig á að samkvæmt greinargerð talsmanns stúlknanna séu þær sáttar við kyrrsetninguna og núverandi vistun að [...] og hafi bæði í viðtalsskýrslu talsmannsins og Páls Magnússonar sálfræðings lýst yfir vilja til að búa utan heimilis sóknaraðila fram að 18 ára aldri. Telur varnaraðili að ummæli stúlknanna í skýrslu Páls beri augsýnilega með sér að þær séu að kalla á hjálp. Eins og málið sé vaxið telur varnaraðili því að hann hafi orðið að bregðast við með þeim hætti sem gert var og að óraunhæft hefði verið í stöðunni að grípa til annarra og vægari úrræða en þeirra, sem lýst sé í a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. barna­verndar­laga, enda sé í bígerð að höfða mál á hendur sóknaraðila til forsjársviptingar samkvæmt 29. gr. barna­verndarlaga. Meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi því ekki verið brotin við meðferð málsins af hálfu varnaraðila, enda liggi þegar fyrir í ljósi forsögu málsins að skilyrðum 26. gr., sbr. 24.-25. gr. barnaverndarlaga hafi verið fullnægt og því tilgangs­­laust að reyna á ný vægari úrræði en kyrrsetningu og tímabundna vistun utan heimilis sóknaraðila.

X.

Markmiði barnaverndarlaga nr. 80/2002 og meginreglum í barnaverndarstarfi er lýst í 1.-4. gr. laganna. Þar segir meðal annars í 1. gr., að börn eigi rétt á vernd og umönnun foreldra sinna, sem beri að sýna börnunum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum, svo sem best hentar hag og þörfum barnanna. Í því felst að foreldri eða foreldrum ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldis­aðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Af nefndri lagagrein má ráða að inntak réttinda barna felist í skyldum foreldra. Samkvæmt 2. gr. er markmið laganna meðal annars að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð, en leitast skal við að ná því mark­miði með því að styrkja fjölskyldur í upp­eldis­hlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Getur þá komið til afskipta barnaverndaryfirvalda, sbr. 4. gr., en í starfi sínu skulu þau ávallt beita þeim ráðstöfunum, sem ætla má að barni sé fyrir bestu. Barnaverndar­starf skal stuðla að stöðugleika í uppvexti barna, þar sem tekið er tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur og þroski gefur tilefni til. Barnaverndaryfirvöld skulu leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra, sem þau hafa afskipti af og skulu eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skulu jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná því markmiði sem að er stefnt og aldrei beita íþyngjandi ráð­stöfunum nema lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Framangreindum markmiðum og meginreglum er nánar lýst í athugasemdum við sömu lagagreinar, sem fylgdu frumvarpi til barnaverndarlaganna á sínum tíma. Við lestur þeirra er meðal annars ljóst „að barnaverndaryfirvöldum er ekki falið það verkefni að stuðla að því að öll börn búi við bestu mögulegu aðstæður, heldur fyrst og fremst að aðstæður einstakra barna sem yfirvöld hafa afskipti af séu viðunandi.“ Í ljósi þess hlutverks skal ávallt reyna fyrst að ná tökum á vanda foreldra og barna, í samvinnu við hlutaðeigandi og með því skapa þær aðstæður innan fjölskyldu að þær teljist viðunandi fyrir barnið. Helgast þetta af því almenna sjónarmiði, að hagsmunir barna séu alla jafna best tryggðir með því að þau alist upp hjá eigin fjölskyldu og að stöðug­leiki ríki í fjölskyldu þeirra.

XI.

Í máli því sem hér er til meðferðar reynir fyrst á 31. gr. barnaverndarlaga og hvort skilyrðum hennar hafi verið fullnægt 6. október 2005 þegar formaður barna­verndar­yfirvalda í Kópavogi, varnaraðila í málinu, ákvað að taka dætur sóknaraðila, B og C af heimili hans að [...]. Samkvæmt 31. gr. er slík ákvörðun því aðeins heimil að vinda þurfi bráðan bug að ráðstöfun, sem heyrir undir barnaverndaryfirvöld og er þá ekki þörf á undangenginni málsmeðferð, sem lúta myndi að könnun og rannsókn máls og rétti til andmæla. Við mat á því hvort slík neyð hafi verið uppi í þessu máli, að beita þurfti svo róttækri aðgerð sem raun ber vitni, ber að hafa í huga þau sjónarmið 1., 2. og 4. gr. laganna, sem rakin eru hér að framan.

Með hliðsjón af skýrslum lögreglu og barnaverndaryfirvalda, sem getið er í I. kafla, þeirri aðkomu og aðstæðum á heimili sóknaraðila og dætra hans, sem þar er lýst og síðast en ekki síst 30 litljósmyndum, sem lögregla tók 6. október og liggja frammi í málinu, telur dómurinn að því megi slá föstu, kinnroðalaust, að allur aðbúnaður og heimilisumgjörð að [...] hafi verið hreint og beint óviðunandi umræddan dag og húsnæðið í heild óíbúðarhæft, hvort heldur fyrir fullorðna eða börn. Ákvörðun formanns varnaraðila 6. október var því eðlileg og réttmæt í alla staði.

Kemur þá til álita hvort lögmætt hafi verið af hálfu varnaraðila að ákveða með úrskurði 20. október 2005 og samkvæmt a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga að stúlkurnar skyldu vistaðar utan heimilis síns í allt að tvo mánuði, gegn vilja sóknar­aðila. Við mat á því vegast á þau sjónarmið öll, sem rakin eru í X. kafla.

Í málinu liggur fyrir að systurnar voru vistaðar að [...] þegar hinn umþrætti úrskurður féll. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 27. gr. títtnefndra laga má kveða á um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði, að uppfylltum sömu skilyrðum og fram koma í 26. gr. og ef brýnir hagsmunir barnsins mæla með því. Úrræði 27. gr. er að mun meira íþyngjandi en þau úrræði, sem lýst er í 26. gr. og verða, líkt og í 27. gr., ákveðin án samþykkis foreldra. Um skilyrði fyrir beitingu 26. gr. er annars vísað til ákvæða 24. og 25. gr. laganna og svo mælt fyrir, að hafi úrræði samkvæmt þeim lagagreinum ekki skilað árangri að mati barna­verndar­yfirvalda, eða yfirvöld hafi eftir atvikum komist að þeirri niðurstöðu að þau úrræði séu ófullnægjandi, megi úrskurða um málefnið gegn vilja foreldra.

Úrræði 24. gr. eru ýmis og koma til framkvæmda innan heimilis, á meðan 25. gr. felur í sér úrræði utan heimilis, svo sem tímabundna vistun barns, hvort tveggja með samþykki foreldra. Í öllum tilvikum er vísað til undangenginnar áætlunar um með­ferð barnaverndarmáls samkvæmt 23. gr. laganna. Þar segir að þegar mál hafi verið nægjanlega kannað að mati barnaverndaryfirvalda, skuli viðkomandi yfirvald taka saman greinargerð, þar sem lýst sé niðurstöðum könnunar, tiltekið er hverra úrbóta sé þörf og settar fram tillögur að heppilegum úrbótum ef því er að skipta. Leiði slík könnun í ljós að þörf sé á beitingu sérstakra barnaverndarúrræða skuli við­komandi yfirvald, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn, gera skriflega áætlun um frekari meðferð málsins. Náist á hinn bóginn ekki samkomulag við foreldra eða barn, skal viðkomandi yfirvald einhliða semja áætlun um framvindu málsins og beitingu úrræða samkvæmt lögunum. Allar slíkar áætlanir skulu gerðar til ákveðins tíma og endurskoðaðar eftir þörfum.

Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. barnaverndarlaga skal barnaverndarnefnd, hér varnaraðili, leggja fram í dómi staðfest afrit allra gagna, sem ákvörðun er byggð á. Skrifleg meðferðaráætlun, svo sem lýst er í 23. gr. laganna, liggur ekki frammi í þessu máli. Verður því ekki ályktað á annan veg en að slík áætlun hafi aldrei verið samin.

Af hálfu sóknaraðila er í þessu sambandi vísað til 22. gr. reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Fjallar sú grein um stuðnings­úrræði með samþykki foreldra og kemur því ekki til sérstakra álita í þessu máli, en greinin er annars efnislega samhljóða ákvæðum barnaverndarlaga. Í 24. gr. sömu reglu­­gerðar eru hins vegar tekin af öll tvímæli um að náist ekki samkomulag við foreldra eða barn um beitingu stuðningsúrræða 24. og 25. gr. barnaverndarlaga, skuli viðkomandi barnaverndarnefnd, hér varnaraðili, engu að síður semja einhliða með­ferðar­­áætlun og kynna hana fyrir foreldri og barni. Sem fyrr segir, verður ekki ráðið af gögnum málsins að þetta hafi verið gert og tekur niðurstaða málsins mið af því.

Að þessum orðum sögðum ber að meta hvort vegi þyngra form eða efni þegar niðurstaða málsins verður ráðin. Um formið hefur þegar verið fjallað og er niðurstaða dómsins sú að ýtrustu formskilyrða hafi ekki verið gætt, með því að látið var undir höfuð leggjast að semja einhliða meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndar­laga.

Eins og áður segir setur a-liður 1. mgr. 27. gr. laganna tvenn skilyrði fyrir því að vista megi barn utan heimilis án samþykkis foreldra, annars vegar að brýnir hags­munir barnsins mæli með því og hins vegar að uppfyllt séu fyrrnefnd skilyrði 26. gr. Varðandi fyrra skilyrðið telur dómurinn að hafa verði hliðsjón af þeirri atburðarás, sem lýst er í I. kafla hér að framan og forsögu málsins í heild, eins og hún er rakin í II.-V. kafla og skjölum málsins. Þannig er það álit dómsins, að þótt sóknaraðila virðist mjög annt um dætur sínar og sé umhugað um velferð þeirra hafi hann engu að síður brugðist mikilvægum forsjár- og uppeldisskyldum gagnvart þeim, líklegast allt frá þeim tíma er þær fluttu til hans árið 2001. Dóminum er í þessu sambandi ekki gjarnt á að taka undir þann málflutning varnaraðila að rökstuðningur í dómi um forsjá stúlknanna 18. september 1997, sem gerð er grein fyrir í II. kafla, hafi falið í sér forspá um hvað myndi gerast ef sóknaraðili hefði forsjá dætra sinna, en því miður virðist sú spá hafa gengið eftir í öllum meginatriðum. Framburður sóknaraðila fyrir dómi styður aðeins þetta álit dómsins, en annars vegar virðist hann aðeins sjá óvin í hverju horni þegar kemur að afskiptum barnaverndaryfirvalda í Kópavogi gegnum árin og hins vegar virðist honum með öllu fyrirmunað að sjá nokkurn ljóð á eigin umönnun og uppeldi dætra sinna. Þess í stað kaus sóknaraðili fyrir dómi að ausa vist­foreldra stúlknanna að [...] auri, á mjög svo ómaklegan og órökstuddan hátt og lítilsvirða, með útúrsnúningum, frásögn dætra sinna í viðtali við dómara og sér­fróðan aðila 5. nóvember síðastliðinn.

B og C misstu móður sína á sviplegan hátt í árslok 2001. Í viðtölum við stúlkurnar 5. nóvember kom fram að þeim hefði aldrei verið boðin nein hjálp til að vinna úr því áfalli og hvorug þeirra sagðist þekkja til eða minnast þess að hafa fengið stuðning, skilning eða hlýju föður síns í kjölfar and­látsins. Stúlkurnar hafa frá sama tíma flakkað á milli fjölmargra grunnskóla eftir geð­þótta sóknaraðila, sumra í Reykjavík, þótt þær hafi á sama tíma átt heimili í Kópavogi. Af einhverri ástæðu, sem aldrei hefur verið skýrð, tók sóknaraðili þá ákvörðun að láta þær hætta í Þ-skóla fyrir upphaf skólaárs 2003 og sóttu þær alls engan skóla fyrr en varnaraðili greip inn í málefni þeirra í febrúar 2004 og kom þeim í framhaldi í vistun að [...], þaðan sem þær sóttu síðan X-skóla og líkaði sú náms­dvöl vel.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið og að teknu tilliti til alls þess, sem fram kom í viðtölum við B og C 5. nóvember, þar á meðal þess er skráð var í skýrslu Páls Magnússonar sálfræðings, ekki síst um það að stúlkunum sagðist báðum svo frá að þeim liði vel við núverandi aðstæður að [...] og í X-skóla og hvorug þeirra setti fram óskir um breytingar á því fyrirkomulagi búsetu, telur dómurinn að úrskurður varnaraðila 20. október 2005 hafi ekki aðeins verið í þágu brýnna hagsmuna stúlknanna heldur hafi hagsmunir þeirra beggja krafist slíkrar ákvörðunar.

Hinu skilyrðinu fyrir beitingu a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, sem einnig þarf að vera fullnægt svo að ákvörðun varnaraðila fái mögulega staðist, er að úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. laganna hafi ekki skilað árangri að mati varnaraðila, eða að varnaraðili hafi eftir atvikum, og réttilega svo, komist að þeirri niðurstöðu að þau úrræði væru ófullnægjandi til að ná lögmæltu markmiði, sem stefnt hafi verið að með úrskurðinum 20. október. Með hliðsjón af forsögu málsins, eins og hún er áður rakin, telur dómurinn sér skylt að fallast á með varnaraðila, þrátt fyrir og einnig með vísan til þeirra meginreglna og grunnsjónarmiða barnaverndarlaga, sem lýst er í X. kafla, að varnaraðili hafi verið búinn að reyna til þrautar að finna viðunandi og síður íþyngjandi úrræði til lausnar á alvarlegum og langvarandi vandamálum sóknaraðila og dætra hans, í samráði og samvinnu við varnaraðila. Hvort sem því er um að kenna, að sóknaraðili hafi ekki áttað sig á því hve alvarlegt vandamál hér væri á ferð eða því að hann hafi af öðrum ástæðum skirrst við að taka á vandamálinu af þeirri festu og ábyrgð, sem krefjast verður af forsjármanni barns, er staðfest sú niðurstaða varnar­aðila 20. október 2005, að réttmætt hafi verið, að teknu tilliti til hagsmuna dætra sóknaraðila, að þær skyldu vistaðar tímabundið utan heimilis síns. Með nefndum úrskurði braut varnaraðili því hvorki gegn meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. barnaverndar­laga né samkynja reglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi verður ekki fallist á það með sóknaraðila að líta beri á málsmeðferð varnaraðila frá 6. október 2005 sem einangraða og sjálfstæða rannsókn barnaverndarmáls, heldur liggur þvert á móti, í hlutarins eðli, að líta á könnun, rannsókn og alla málsmeðferð varnaraðila í heild á málefnum dætra hans, þegar afstaða er tekin til lögmætis úrskurðarins 20. október. Er það álit dómsins að sú rannsókn fullnægi skilyrðum barnaverndarlaga í hvívetna, að öðru leyti en því er áður segir um vanhöld á skriflegri meðferðaráætlun.

Úrræði a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga gerir fyrst og fremst ráð fyrir að því sé beitt þegar foreldri hefur samþykkt aðrar og vægari ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna, en snýst síðan hugur og krefst þess að barninu verði skilað á fyrra heimili að nýju. Að þessu leyti má ætla að b-liður 1. mgr. 27. gr. falli betur að þeim aðstæðum, sem hér eru til úrlausnar. Varnaraðili vísaði aukinheldur til b-liðarins í skriflegri greinargerð og málflutningi fyrir dómi, án mótmæla af hálfu sóknaraðila. Með hliðsjón af 111. gr., sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála þykir mega byggja á þeirri málsástæðu og lagarökum varnaraðila við úrlausn þessa máls.

Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins að brýnir hagsmunir B og C hafi krafist þess að varnaraðili brygðist við með þeim hætti sem hann gerði, fyrst með ákvörðun 6. október 2005 og síðar með úrskurði 20. sama mánaðar og að engu breyti í því sambandi þótt varnaraðili hafi ekki gætt ýtrustu formskilyrða 23. gr. barnaverndarlaga áður en nefndur úrskurður var kveðinn upp. Vega hér mun þyngra efnisástæður en forms- að baki nefndum úrskurði, en dómurinn telur að velferð stúlknanna og stöðugleika í uppvexti sé stefnt í bráða hættu miðað við þær uppeldisaðstæður, sem sóknaraðili hefur búið þeim undanfarin ár, sbr. 1., 2. og 4. gr. barnaverndarlaga. Ber því að staðfesta niðurstöðu úrskurðar varnaraðila 20. október 2005. Varðandi tímamörk úrskurðarins, sem hvorugur málsaðila hefur talið ástæðu til að reifa sérstaklega, er þess að geta að hin tímabundna vistun rennur sitt skeiða á enda 6. desember 2005. Óháð því telur dómurinn ekki efni til að kveða svo á um að kæra þessa úrskurðar til Hæstaréttar fresti réttaráhrifum hans, sbr. 2. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga.

Með hliðsjón af 1., sbr. 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir önnur niðurstaða ótæk en að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins. Kostnaður af sérfræðiaðstoð Páls Magnússonar sálfræðings greiðist þó úr ríkissjóði. Þykir hann hæfilega ákveðinn 60.000 krónur.

Sóknaraðili hefur gjafsókn samkvæmt leyfi dómsmálaráðherra þar að lútandi 11. nóvember 2005 og í samræmi við 60., sbr. 61. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt því ber að greiða allan kostnað sóknaraðila úr ríkissjóði, þar með talda þóknun lögmanns hans, Sigurðar B. Halldórssonar hæstaréttarlögmanns. Með hliðsjón af eðli og umfangi máls og að teknu tilliti til málskostnaðaryfirlits lögmannsins, sem þykir í hóf stillt, er sú þóknun hæfilega ákveðin 271.161 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.       

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðs­dómara.

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfestur er úrskurður varnaraðila, Félagsmálaráðs Kópavogs, 20. október 2005 um að B [kt.] og C [kt.], dætur sóknaraðila, A, skuli kyrrsettar og vistaðar utan heimilis og á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði, frá og með 6. október 2005.

Málskostnaður fellur niður.

Kostnaður Páls Magnússonar sálfræðings, krónur 60.000, greiðist úr ríkissjóði.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin 271.161 króna þóknun lögmanns hans, Sigurðar B. Halldórssonar hæstaréttar­­lög­­manns.