Hæstiréttur íslands
Mál nr. 723/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 27. nóvember 2013. |
|
Nr. 723/2013. |
Í Paradís ehf. (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Arion banka hf. (Karl Óttar Pétursson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli ÍP ehf. á hendur A hf. vegna uppboðsbeiðni þess síðarnefnda um uppboð á tiltekinni eign og uppboðsmeðferðar sýslumanns, var vísað frá dómi. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að A hf., sem var gerðarbeiðandi við meðferð málsins hjá sýslumanni, hefði ekki fallist á það eða samþykkt fyrir sitt leyti að ágreiningur yrði borinn undir héraðsdóm á þessu stigi málsins en samkvæmt nánar tilgreindum ákvæðum IV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu væri samþykki A hf. skilyrði þess að svo mætti vera. ÍP ehf. hefði ekki fært fyrir því rök að bera mætti ágreining um héraðsdóm allt að einu. Þá væru málsástæður ÍP ehf. auk þess þannig fram settar að örðugt væri að glöggva sig á hvaða málsástæða ætti við um hvaða dómkröfu og væri rökstuðningur fyrir kröfum hans ekki svo skýr sem skyldi. Staðfesti Hæstiréttur hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. október 2013, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila vegna „uppboðsbeiðni varnaraðila frá 10. maí 2012, um uppboð á“ Hallkelshólum „lóð 168504, Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. 227-5317“ og uppboðsmeðferðar sýslumannsins á Selfossi, var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur en til vara að honum verði hrundið og „að dómkröfur sóknaraðila í héraði verði teknar til efnislegrar úrlausnar.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Í Paradís ehf., greiði varnaraðila, Arion banka hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 24. október 2013.
Mál þetta, sem þingfest var 12. júní 2013 og tekið til úrskurðar 26. september 2013, barst dóminum þann 6. maí 2013 með beiðni, dags. 3. maí 2013.
Sóknaraðili er Í Paradís ehf., kt. [...], fyrirsvarsmaður Sverrir Sverrisson, kt. [...], Borgarbraut 40, Selfossi en varnaraðili er Arion banki hf., kt. [...], Borgartúni 9, Reykjavík.
Kröfur sóknaraðila eru þær aðallega að uppboðsbeiðni varnaraðila frá 10. maí 2012, um uppboð á Hrafnkelshólum lóð 168504, Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. 227-5317 verði hafnað. Til vara að öll uppboðsmeðferð málsins hjá sýslumanninum á Selfossi verði ómerkt og dæmd ólögmæt. Til þrautavara að aðgerðir og ákvörðun sýslumannsins á Selfossi þann 26. apríl 2013 um að vísa fyrirsvarsmanni Í Paradís ehf. Sverri Sverrissyni og aðstoðarmönnum hans út úr skrifstofu sýslumannsins á Selfossi, þar sem uppboðsmálið var tekið fyrir, verði ómerkt og dæmd ólögmæt og sú fyrirtaka sem þá fór fram samkvæmt lögum um nauðungarsölu. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu.
Af hálfu varnaraðila er þess aðallega krafist að öllum kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi. Til vara krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins á Selfossi, dags. 26. apríl 2013, um að uppboðsmeðferð skuli framhaldið á sumarhúsinu Hallkelshólar lóð 168504, fnr. 227-5317, Grímsnes- og Grafningshreppi, verði framhaldið. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu.
Í þessum þætti verður leyst úr frávísunarkröfu varnaraðila, en munnlegur málflutningur um hana fór fram 26. september 2013 og var krafan tekin til úrskurðar að honum loknum.
Málavextir
Í tilkynningu sinni til héraðsdóms lýsir sóknaraðili málavöxtum svo að krafa varnaraðila um uppboð á eigninni sé byggð á veðskuldabréfi nr. 322804409, upphaflega að fjárhæð kr. 8.000.000. Útgefið 7. október 2004 af S.S. húsum ehf., kt. 600104-2170 og eignin Hallkelshólar lóð nr. 168504 í Grímsnes- og Grafningshreppi sett að veði til tryggingar skuldinni. Hafi bréf þetta verið útgefið 7. október 2004 til Kaupþings Búnaðarbanka hf. kt. 560882-0419, Kópavogi.
Í veðskuldabréfinu séu samningsskilmálar í 11 liðum. Undir lið 1. segi „skuld þessi er budin [sic.] vísitölu til verðtryggingar. Höfðustóll [sic.] skuldarinnar breytist í hlutfalli við vísitölu neysluverðs frá ofanskráðri grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll skuldarinnar breytast á hverjum gjalddaga í hlutfalli við breytingar á vísitölunni, áður en vextir og verðbætur eru reiknuð út. Afborganir eru reiknaðar þannig út að á hverjum gjalddaga er vísitöluálagi bætt við höfuðstól skuldarinnar og síðan deilt í útkomun [sic.] með þeim afborgunum sem þá er [sic.] eftir, að meðtöldum þeim gjalddag [sic.] sem er í það sinn.“
Undir 3. lið séu vanskilaákvæði og undir lið 6 heimild veðhafa til að láta selja eignina á nauðungaruppboði til lúkningar skuldinni og er vísað til ákveðinna lagaákvæða um það.
Kveður sóknaraðili að eftir mikla hækkun skuldarinnar eftir svokallað hrun árið 2008 hafi hann hætt að geta greitt af skuldinni og varnaraðili, sem þá hafi haft bréfið í fórum sínum, sent greiðsluáskorun og beðið um uppboð á veðinu, sbr. greiðsluáskorun 5. júlí 2011 og uppboðsbeiðni frá 10. maí 2012.
Hafi uppboðsbeiðnin verið til meðferðar hjá sýslumanninum á Selfossi og sóknaraðili gripið til varna.
Eftir framlögð mótmæli 24. apríl 2013 við fyrirtöku málsins hafi varnaraðili lagt fram greinargerð dagsetta 18. apríl 2013 þar sem brugðist hafi verið við frambornum mótmælum sóknaraðila og uppboðsbeiðni varnaraðila verið útskýrð, en samkvæmt greinargerðinni verði að álykta sem svo að uppboðsheimild varnaraðila sé ekki nægilega skýr og augljós til að ganga megi að eign sóknaraðila eins og gert hafi verið, án þess að dómur hafi gengið um kröfur varnaraðila.
Þá kveður sóknaraðili að við fyrirtöku málsins 26. apríl 2013 hjá sýslumanni hafi fyrirsvarsmanni sóknaraðila, Sverri Sverrissyni og aðstoðarmönnum hans verið vísað út í skrifstofu sýslumanns og það verið kært til lögreglu, en ekki hafi Sverrir fengið fullkomið endurrit fyrirtökunnar fyrr en 3. maí 2013.
Í greinargerð sóknaraðila er málavöxtum ekki lýst sérstaklega.
Af greinargerð varnaraðila og gögnum málsins verður það ráðið að framangreint veðskuldabréf hafi verið gefið úr af S.S. húsum til Kaupþings Búnaðarbanka 7. október 2004 eins og að ofan er lýst. Í 3. lið bréfsins segir að gjaldfella megi skuldina án fyrirvara og án uppsagnar verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta/vísutöluálags. Þá skuli jafnframt greiða dráttarvexti ásamt vanefndaálagi eins og það er nánar útskýrt. Þá segir í 6. lið bréfsins að þegar skuldin er fallin í gjalddaga geti veðhafi látið selja eignina nauðungarsölu til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms skv. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991. Nái nauðungarsölu- og aðfararheimildin ekki aðeins til höfuðstóls heldur og líka til vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta, málskostnaðar, innheimtukostnaðar, kostnaðar af gerðinni sjálfri og kostnaði af frekari fullnustuaðgerðum. Undir þetta ritaði Sverrir Sverrisson fyrirsvarsmaður útgefandans S.S. húsa ehf. í votta viðurvist.
Þann 9. október 2008 urðu skuldaraskipti á bréfinu þannig að sóknaraðili gerðist skuldari í stað S. S. húsa ehf. Lýsti sóknaraðili því að hann hafi kynnt sér eftirstöðvar skuldarinnar, öll ákvæði skuldabréfsins, og að hann undirgengist allar skuldbindingar samkvæmt því. Ritaði Sverrir undir þetta í votta viðurvist.
Þann 9. október 2009 yfirtók Fjármálaeftirlitið vald hluthafafundar Kaupþings banka hf. og 21. október s. á. ákvað Fjármálaeftirlitið að umrætt veðskuldabréf væri meðal þeirra eigna sem yfirfærðust til varnaraðila.
Þann 3. júní 2009 var gerð skilmálabreyting á bréfinu þannig að afborgunum var frestað til 1. ágúst 2011 en vaxtagjalddagar skyldu greiðast mánaðarlega frá og með 1. ágúst 2010. Vanskil skyldu leggjast við h0öfuðstól. Var skilmálabreytingin undirrituð af varnaraðila.
Þann 1. mars 2011 greiddi sóknaraðili ekki vaxtagjalddagann sem honum bar þá að greiða og hefur sóknaraðili ekki síðan greitt af bréfinu, sem þannig hefur verið í vanskilum síðan 1. mars 2011.
Varnaraðili sendi sóknaraðila milliinnheimtubréf 8. mars, 28. apríl og 16. maí 2011 og skoraði á sóknaraðila að greiða kröfuna til að forðast frekari kostnað og innheimtu, en jafnframt tekið fram að krafan færi í löginnheimtu ef áskorunum yrði ekki sinnt. Kveður varnaraðili sóknaraðila ekki hafa sinnt þessum áskorunum neitt.
Eftir birtingu greiðsluáskorunar sendi varnaraðili nauðungarsölubeiðni til sýslumannsins á Selfossi, dags. 10. maí 2012. Var beiðnin fyrst tekin fyrir hjá sýslumanni 15. nóvember 2012 og var mætt fyrir varnaraðila en ekki var mætt fyrir sóknaraðila. Var ákveðið að byrjun uppboðs myndi hefjast á skrifstofu sýslumanns 4. apríl 2013. Við byrjun uppboðs mætti Sverrir Sverrisson fyrirsvarsmaður sóknaraðila ásamt Brynjari Ragnarssyni og Bjarna Bergmann Vilhjálmssyni, en Steinunn Erla Kolbeinsdóttir hdl. fyrir varnaraðila. Af hálfu sóknaraðila var því mótmælt að gerðin næði fram að ganga og var henni frestað til 8. apríl 2013 og þá var hún tekin fyrir á ný. Þann dag óskaði sóknaraðili eftir fresti til að skila greinargerð og samþykkti varnaraðili það og var gerðinni frestað til 12. apríl 2013 og lagði sóknaraðili fram greinargerð sína þann dag. Var gerðinni þá frestað til greinargerðarskila varnaraðila til 18. apríl 2013 og var greinargerð varnaraðila lögð fram þann dag.
Þann 23. apríl 2013 tilkynnti sýslumaðurinn á Selfossi að hann myndi taka ákvörðun í málinu 26. apríl 2013 og ef ekki yrði mætt yrði ákvörðunin send með tölvupósti. Var ákvörðun sýslumanns kynnt 26. apríl 2013 kl. 10:00 um að gerðinni skyldi framhaldið þar sem nauðungarsölubeiðni væri lögformleg með vísan til 16. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 90/1991. Síðastgreindan dag kl. 10:15 var nefnd ákvörðun sýslumanns lesin upp fyrir Sverri Sverrissyni og fleirum sem voru mættir við fyrirtökuna. Mættu óskuðu eftir að bókað yrði að 3. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 ætti við í málinu og að ákvörðuninni yrði skotið til héraðsdóms. Neituðu mættu að rita nöfn sín í gerðabók sýslumanns til staðfestingar beiðni sinni.
Varnaraðili mótmælir öllu í málavaxtalýsingu sóknaraðila sem gengur gegn málavaxtalýsingu varnaraðila.
Málsástæður sóknaraðila
Í tilkynningu sinni til héraðsdóms vísar sóknaraðili aðallega til 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 vegna embættistakmarka yfirvalda. Þá kveðst sóknaraðili vísa til 73. gr. laga nr. 90/1991 og þess að ágreiningur hafi orðið við uppboðsmeðferðina. Kveðst sóknaraðili ítreka að hann hafi, ásamt föruneyti sínu, verið rekinn út af skrifstofu sýslumanns þann 26. apríl 2013.
Nánar tiltekið kveðst sóknaraðili vísa til eftirfarandi málsástæðna:
A. Uppboðsheimildin, þ.e. veðskuldabréfið sjálft, verði að bera með sér bæði hver sé kröfuhafi og hvernig greitt hafi verið af bréfinu. Vísar sóknaraðili til tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 1878 og reglna um neytendavernd sbr. lög um neytendalán nr. 121/1994. Þá verði að upplýsa hvernig varnaraðili hafi eignast bréfið og á hvaða kjörum, en hafi hann eignast það með miklum afföllum sé ósanngjarnt að hann krefji sóknaraðila nú um fullar efndir. Geti sóknaraðili mögulega borið fyrir sig ógildingarákvæði samningalaga eftir að þetta hafi verið upplýst og skorar hann á varnaraðila að upplýsa þetta.
B. Sóknaraðili vísar til þess að grundvallaratriði sé að höfuðstóll kröfunnar sé skýr og skiljanlegur, sbr. 6. gr. laga nr. 90/1991 og 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr 90/1989, í málum til fullnustu krafna. Í 11. gr. laga nr. 38/2001 komi fram að afleiðusamningar falli ekki undir ákvæði 14. gr. laganna né annarra ákvæða kaflans. Útreikningur kröfunnar feli ekki í sér að ákveðið hafi verið í settum lögum að höfuðstóllinn skuli reiknaður út eins og gert sé. Greinilega sé farið að 4. gr. III. kafla reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 og það séu reglur sem ekki falli undir skilgreiningu sem hafa verði við skilyrði 11. gr. laga nr. 38/2001. Um sé að ræða afleiðusamning miðað við hvernig framkvæmdin sé á grundvelli vísitöluútreiknings Hagstofunnar.
C. Sóknaraðili vísar til þess að gerðar hafi verið skilmálabreytingar án þess að það hafi verið upplýst í uppboðsbeiðni sem og að skuldskeyting hafi verið gerð, en hvort tveggja geti haft réttaráhrif.
D. Kveðst sóknaraðili byggja á lögum um neytendalán eftir því sem við geti átt.
E. Þá vísar sóknaraðili til þess að afgreiðsla málsins hjá sýslumanni hafi ekki verið lögum samkvæm.
Þá útlistar sóknaraðili málsástæður sínar frekar í greinargerð sinni.
Ekki vísar sóknaraðili til lagaákvæða vegna málskostnaðarkröfu sinnar.
Málsástæður varnaraðila
Af hálfu varnaraðila er almennt vísað til þess að kröfur sóknaraðila séu verulega vanreifaðar og óskýrar og þannig upp settar að erfitt sé að taka til varna í málinu. Beri að áliti varnaraðila að vísa ætti málinu frá dómi ex officio þar sem málatilbúnaður sóknaraðila uppfylli ekki kröfur 80. gr. laga nr. 91/1991.
Þá mótmælir varnaraðili öllum málsástæðum sóknaraðila sem röngum, ósönnuðum og vanreifuðum. Þær eigi það sammerkt að ekkert augljóst samhengi sé milli þeirra og kröfu sóknaraðila um ógildingu en sá annmarki geti einnig varðað frávísun en ella því að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Sóknaraðili beri það ekki fyrir sig að meintir annmarkar séu þess eðlis að sóknaraðili hefði getað varnað nauðungaruppboði en þegar af þeirri ástæðu verði ekki fallist á kröfu sóknaraðila.
Vegna frávísunarkröfu sinnar byggir varnaraðili sérstaklega á því að vísa beri málinu í heild sinni frá dómi þar sem varnaraðili hafi ekki samþykkt að ágreiningur um gildi nauðungarsölunnar verði borinn undir dóm, sbr. áskilnað um það í 4. mgr. 22. gr. laga nr. 90/1991. Hafi sóknaraðili kært framgang nauðungarsölunnar í kjölfar byrjunar uppboðs. Sé skýrt í umræddu ákvæði að aðrir en gerðarbeiðandi geti leitað úrlausnar héraðsdóms eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 90/1991 ef gerðarbeiðendur eru því allir samþykkir, eða ef ákvörðunin varðar aðeins einn gerðarbeiðanda, að hann sé þá samþykkur fyrir sitt leyti. Í athugasemdum sínum við mótmælum sóknaraðila hafi varnaraðili tekið það skýrt fram að hann krefðist þess að nauðungarsölunni yrði framhaldið og að kröfu sóknaraðila um stöðvun nauðungarsölunnar yrði hafnað. Þar sem varnaraðili, sem sé eini gerðarbeiðandinn, samþykki ekki að sóknaraðili geti leitað úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns, beri að vísa málinu frá dómi. Sóknaraðili geti kært framgang nauðungarsölunnar að uppboði loknu skv. V. kafla, sbr. XIV. kafla, laga nr. 90/1991.
Varnaraðili vísar til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um málskostnað.
Niðurstaða.
Sóknaraðili byggir mál sitt á 73. gr. laga nr. 90/1991, sem er í XIII. kafla laganna. Í 1. mgr. 73. gr. laganna segir að eftir því sem mælt sé fyrir um í öðrum ákvæðum laganna megi leita úrlausnar héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum þess kafla um ágreining sem rís við nauðungarsölu.
Í IV. kafla laga nr. 90/1991 er fjallað um fyrstu aðgerðir við nauðungarsölu á fasteign. Í 19. gr. laganna er því lýst að auglýsa skuli nauðungarsölu og skal birta auglýsinguna skv. fyrirmælum í 20. gr. laganna. Í 21. gr. segir að sýslumaður taki beiðnina fyrir á áður auglýstum tíma og gögn skuli þá lögð fram. Í 22. gr. laganna er því lýst að sýslumaður skuli gæta þess af sjálfsdáðum að fyrirmælum laganna hafi verið fylgt. Séu slíkir annmarkar getur sýslumaður stöðvað frekari aðgerðir eða frestað frekari aðgerðum. Í 2. mgr. 22. gr. kemur fram að verði ágreiningur við fyrirtöku skv. 21. gr. um hvort nauðungarsala fari fram eða hvernig að henni verði staðið taki sýslumaður ákvörðun um ágreiningsefnið þegar í stað. Að jafnaði skuli mótmæli gerðarþola eða þriðja manns ekki stöðva nauðungarsöluna nema þau varði atriði sem sýslumanni ber að gæta af sjálfsdáðum, eða sýslumaður telur þau annars valda því að óvíst sé að gerðarbeiðandi eigi rétt á að nauðungarsalan fari fram. Taki sýslumaður mótmælin ekki til greina stöðvi það ekki frekari aðgerðir að viðkomandi lýsi því yfir að hann muni bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm skv. ákvæðum XIV. kafla laganna. Í 3. mgr. 22. gr. segir að fallist gerðarbeiðandi ekki á ákvörðun sýslumanns skv. 1. eða 2. mgr. 22. gr. geti hann leitað úrlausnar héraðsdóms um ákvörðunina eftir ákvæðum XIII. kafla laganna. Síðan segir í 4. mgr. 22. gr. laganna að aðrir en gerðarbeiðendur geti leitað úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns eftir ákvæðum XIII. kafla laganna ef gerðarbeiðendur eru því allir samþykkir, eða ef ákvörðun varðar aðeins einn gerðarbeiðanda, þá hann fyrir sitt leyti.
Fyrir liggur í málinu að varnaraðili, sem er gerðarbeiðandi við meðferð málsins hjá sýslumanni, hefur ekki fallist á það eða samþykkt fyrir sitt leyti, að ágreiningur verði borinn undir héraðsdóm á þessu stigi, en samkvæmt framanröktum ákvæðum er samþykki varnaraðila skilyrði þess að svo megi verða. Þvert á móti hefur varnaraðili krafist þess að nauðungarsölu verði fram haldið. Sóknaraðili hefur ekki fært fyrir því rök að bera megi ágreining undir héraðsdóm allt að einu. Jafnframt er þess að geta að ekkert liggur fyrir um að atvik hafi farið svo sem sóknaraðili lýsir í þrautavarakröfu sinni. Eru málsástæður sóknaraðila auk þess þannig fram settar að örðugt er að glöggva sig á hvaða málsástæða á við um hvaða dómkröfu og eru vara- og þrautavarakröfur ekki rökstuddar sérstaklega, en málatilbúnaður sóknaraðila er að þessu leyti ekki svo skýr sem skyldi.
Er við svo búið óhjákvæmilegt að vísa frá dómi öllum kröfum sóknaraðila, jafnt aðalkröfu, varakröfu sem og þrautavarakröfu.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 300.000 í málskostnað.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Í Paradís ehf. greiði varnaraðila, Arion banka hf., kr. 300.000 í málskostnað.