Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2004
Lykilorð
- Skaðabætur
- Einkahlutafélag
|
|
Fimmtudaginn 9. desember 2004. |
|
Nr. 285/2004. |
York Linings International Ltd. (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn Konráði Eyjólfssyni (Þorbjörg Inga Jónsdóttir ) |
Skaðabætur. Einkahlutafélög.
K ehf. annaðist ýmsa þjónustu fyrir Y Ltd. hér á landi, þar á meðal að útvega bílaleigubíla fyrir starfsmenn Y Ltd. og greiða reikninga í því sambandi. Y Ltd. greiddi inn á bankareikning K ehf. nánar tiltekna fjárhæð til greiðslu slíkra reikninga. K ehf. hélt eftir hluta hennar en greiddi mismuninn áfram til bílaleigunnar A ehf. Í máli sem Y Ltd. höfðaði gegn E, framkvæmdastjóra og hluthafa í K ehf., til greiðslu á þessum mismun voru ekki talin skilyrði til að leggja skaðabótaábyrgð á E sem leitt gæti til þess að honum yrði gert að greiða kröfuna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.661.917 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. júlí 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um skaðabætur vegna þess að fyrirtækið Konson ehf., sem stefndi veitti forstöðu, hafi ekki skilað áfram til bílaleigunnar ALP ehf. nema hluta greiðslna sem áfrýjandi innti af hendi til fyrirtækisins í því skyni að það greiddi reikninga bílaleigunnar. Er óumdeilt í málinu, að áfrýjandi lagði inn á bankareikning Konson ehf., á tímabilinu febrúar til júlí 2001, samtals 4.367.366 krónur til greiðslu á reikningum bílaleigunnar, sem út voru gefnir í janúar til maí sama árs og námu samanlagt þessari fjárhæð. Einnig er óumdeilt, að Konson ehf. hafi ekki greitt allt þetta fé áfram til bílaleigunnar. Eftir standa 1.661.917 krónur sem áfrýjandi krefur stefnda um í máli þessu. Áfrýjandi byggir málsókn sína á hendur stefnda á því að hann beri skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem áfrýjandi telur sig hafa orðið fyrir við að reikningar bílaleigunnar voru ekki greiddir að fullu þrátt fyrir að hann hafi sent Konson ehf. fé til greiðslu þeirra.
Áfrýjandi átti viðskipti sín við einkahlutafélagið Konson. Stefndi bar ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum þess. Til þess að geta beint kröfu sinni að stefnda, þarf áfrýjandi að sýna fram á að stefndi hafi valdið honum tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti. Það eitt getur ekki leitt til skaðabótaábyrgðar stjórnanda einkahlutafélags, að félagið hafi ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sem á því hvíla. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á nein atvik í málinu, sem leitt geti til þessarar ábyrgðar stefnda. Reyndar hefur áfrýjandi ekki heldur sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þeirra atvika sem hann byggir kröfu sína á, þar sem hann hefur ekki gert neinar ráðstafanir til að fá fullnustu hennar hjá skuldaranum Konson ehf. Liggur því ekki fyrir í málinu að Konson ehf. hafi ekki getu til að greiða kröfu áfrýjanda ef eftir því væri gengið. Þar að auki hefur stefndi haldið því fram, að ekki hafi farið fram endanlegt uppgjör milli þessara fyrirtækja vegna viðskipta þeirra og Konson ehf. eigi fjárkröfur á hendur áfrýjanda , sem eigi að mæta kröfu hans.
Samkvæmt framansögðu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að lögð verði skaðabótaábyrgð á stefnda sem leitt geti til þess að honum verði gert að greiða kröfu áfrýjanda. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, York Linings International Ltd., greiði stefnda, Konráði Eyjólfssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars 2004, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af York Linings Internatonal Ltd., Millfield Industrial Estate, Wheldrake, York, YO19 6NA, Englandi, gegn Konráði Eyjólfssyni, kt. 280654-5909, Grensásvegi 44, Reykjavík, með stefnu sem birt var 8. október 2003.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.661.917 kr. ásamt vöxtum og dráttarvöxtum frá 10. júlí 2001. Þess er jafnframt krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, fyrst 10. júlí 2002 og svo árlega. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað ásamt virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara að stefnukrafa verði lækkuð verulega. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu að mati dómsins.
Stefnandi heldur fram að aðdragandi þessa máls sé að hann hafi fengið Konson ehf. til umsýslu og umboðsstarfa fyrir sig hér á landi. Meðal þeirra verkefna sem Konson ehf. hafi haft með höndum hafi verið að útvega bílaleigubíla fyrir starfsmenn stefnanda hér á landi og greiða reikninga vegna þess. Leitað hafi verið til bílaleigunnar ALP ehf. og hafi bílaleigan gert stefnanda reikninga í samræmi við veitta þjónustu. Stefnandi hafi lagt inn fé á bankareikning Konson ehf. til greiðslu reikninganna 23. febrúar, 28. mars, 24. apríl, 23. maí og 10. júlí 2001 og hafi Konson ehf. borið að sjá um að greiða þessa peninga til ALP ehf. Konson ehf. hafi ekki greitt reikninga bílaleigunnar að fullu, er samtals hafi verið að fjárhæð 4.367.366 kr., heldur hafi stefndi tekið 1.661.917 kr. af þessari fjárhæð. Stefnandi hafi því orðið að greiða aukalega 1.661.917 kr. til bílaleigunnar ALP ehf.
Stefndi heldur hins vegar fram að stefnandi hafi samið við Konson ehf. um að félagið hefði milligöngu um kaup á þjónustu frá öðrum aðilum hér á landi fyrir stefnanda svo og samið um aðra þjónustu félagsins, sem stefnandi hafi átt að greiða félaginu beint. Staðhæft er að Konson ehf. hafi tekið við greiðslum frá stefnanda sem innborgun inn á heildarviðskipti félagsins og stefnanda. En þar sem ákvörðun um þóknun félagsins hafi ekki legið fyrir, hafi félagið ekki greitt allan útlagðan kostnað stefnanda hér á landi. Stefndi mótmælir ásökunum stefnanda að hafa nýtt í eigin þágu 1.661.917 kr. af peningum sem stefnandi hafi sent Konson ehf.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti haldið eftir fjármunum stefnanda, er hann hefði tekið að sér að greiða þriðja aðila. Með því hafi stefndi valdið stefnanda verulegu fjárhagslegu tjóni og orðið skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar, sérstaklega sakarreglunni.
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti. Stefnandi hafi samið við Konson ehf. en ekki við stefnda. Konson ehf. hafi tekið við fé frá stefnanda til ráðstöfunar en ekki stefndi. Yrði að einhverju leyti fallist á málsástæður og kröfur stefnanda væri það vegna þess að félagið hefði ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda. Þá er byggt á því að ágreiningur sé milli Konson ehf. og stefnanda um uppgjör á þjónustusamningi Konson ehf. við stefnanda. Félaginu sé því heimilt að leggja hald á fé frá stefnanda þar til úr því verði greitt. Einnig er byggt á því að ætlað tjón stefnanda hafi ekki verið sannað og ekkert liggi fyrir í málinu um greiðslufærni Konson ehf.
Í skriflegri yfirlýsingu, sem lögð var fram af stefnanda við upphaf aðalmeðferðar málsins 19. mars sl. segir m.a. að Stephen Jackson, sem tjáist gefa yfirlýsinguna, hafi gegnt stöðu forstjóra byggingarframkvæmda hjá stefnanda. Hann staðfesti, að stefnandi hafi virt allar skuldbindingar sínar á Íslandi „and that it is my belief and their admission that Konson Ehf withheld monies paid by York Linings International Ltd to discharge it´s debts to ALP".
Konráð Eyjólfsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann væri framkvæmdastjóri Konson ehf. og eigandi félagsins að hluta. Helstu verkefni sem félagið hafi sinnt á síðustu árum hafi verið að útvega tæki og eiga eignir til að leigja, bæði bifreiðar og lyftara og húsnæði. Hann sagði að félagið hefði unnið fyrir stefnanda. Hann sagði að hann hefði samið við Steve Jackson [forstjóra byggingarframkvæmda hjá stefnanda] að hann útvegaði þeim bifreiðar og önnur tæki á leigu á árinu 1998. Hann sagði að stefnandi hafi í tveimur áföngum komið að framkvæmdum á Grundartanga, í síðara skiptið í október 2000. Verkinu hafi lokið seinni hluta maí 2001. Konráð sagði að félagið hafi þjónað stefnanda á ýmsan hátt, en ekki hafi verið gengið frá uppgjöri fyrir störf Konson ehf. vegna stefnanda á árinu 2001.
Konráð sagði að hann hefði ekki tekið persónulega við fé frá stefnanda heldur í nafni Konson ehf. og lagt inn á reikning félagsins.
Óli Konráðsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði unnið fyrir Konson ehf. á Grundartanga á árinu 2001. Hann hefði unnið þar sem verkamaður og túlkur fyrir stefnanda þar sem stefnandi hefði farið fram á við Konson ehf. að útvega stefnanda þannig starfskraft til að sjá um almenn samskipti starfsmanna stefnanda við Íslendinga þarna á svæðinu. Hann hefði verið þar í fullu starfi frá því í byrjun janúar 2001 og þar til í maí sama ár.
Ályktunarorð: „Konson Ehf. withheld monies paid by York Linings International Ltd. to discharge it´s debts to ALP", svo sem segir í yfirlýsingu er lögð var fram af stefnanda.
Konson ehf. er ekki sótt í máli þessu til endurgreiðslu. Sótt er að Konráði Eyjólfssyni persónulega fyrir að hafa með ólögmætum og saknæmum hætti haldið eftir 1.661.917 krónum af fjármunum stefnanda. Ekki liggur fyrir í málinu með ótvíræðum hætti að stefndi hafi dregið sér umrætt fé, en stefndi staðhæfir, að fé þetta sé lögmæt eign Konson ehf. sem greiðsla fyrir veitta þjónustu við stefnanda.
Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.
Rétt er að stefnandi greiði stefnda 360.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur af þóknun lögmanns stefnda.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Konráð Eyjólfsson, skal sýkn af kröfum stefnanda, York Linings International Ltd.
Stefnandi greiði stefnda 360.000 krónur í málskostnað.