Hæstiréttur íslands

Mál nr. 380/2007


Lykilorð

  • Frelsissvipting
  • Kynferðisbrot
  • Líkamsárás
  • Sakhæfi
  • Skaðabætur


         

Fimmtudaginn 31. janúar 2008.

Nr. 380/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Karl Ó. Karlsson hdl.)

 

Frelsissvipting. Kynferðisbrot. Líkamsárás. Sakhæfi. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás og kynferðisbrot gagnvart sambúðarkonu sinni Y. Í málinu byggði X sýknukröfu sína á því að skilyrði 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um sakhæfi væru ekki uppfyllt. Hefði hann orðið fyrir slysi árið 1999 sem hafi leitt til framheilaskaða og taldi hann að af þeim sökum hafi andlegu ástandi hans verið svo háttað þegar atvik málsins urðu í byrjun desember 2006 að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms voru að kröfu X dómkvaddir tveir sérfróðir menn til að leggja mat á hvort X hefði orðið fyrir framheilaskaða í slysi 1999, hvort sá áverki hefði haft áhrif á sakhæfi hans samkvæmt 15. gr. laga nr. 19/1940 og hvort refsing gæti borið árangur samkvæmt 16. gr. sömu laga. Í niðurstöðu matsmanna kom fram að engin merki væru um framheilaskaða eða að háttsemi ákærða yrði rakin til áverka af þeim toga. Mun líklegri skýring á hegðun hans og sjúklegri afbrýðisemi væri uppsöfnuð áhrif af langvarandi og mikilli áfengisneyslu. Var afdráttarlaust álit matsmanna að X væri sakhæfur og að ekkert mælti gegn því að refsing bæri árangur. Að virtum þessum gögnum var sýknukröfu X hafnað. Við munnlegan flutning fyrir Hæstarétti var varakrafa X um ómerkingu héraðsdóms einkum studd þeim rökum að ekki hefðu verið teknar skýrslur af matsmönnum fyrir dómi. Um þetta atriði sagði í niðurstöðu Hæstaréttar að X hefði átt þess kost að leita sjálfur eftir því að skýrslur yrðu teknar af matsmönnum og endurrit þeirra lögð fyrir Hæstarétt. Það gerði hann ekki og ekki var heldur haldið fram af hans hálfu að einstök atriði í matsgerðum væru óljós. Voru þessi andmæli X því haldlaus. Í héraðsdómi var X að hluta sýknaður af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Fyrir Hæstarétti var af hálfu ákæruvalds krafist sakfellingar fyrir öll atriði samkvæmt ákæru. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að fjölskipaður héraðsdómur hefði reist úrlausn sína um sönnun á sekt ákærða á fyrirliggjandi gögnum og skýrslum fyrir dómi og yrði niðurstaða hans um það í öllum þáttum ákæru staðfest. Var refsing X ákveðin fangelsi í fimm ár og greiðsla skaðabóta til Y að fjárhæð 1.500.000 krónur.

                        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. júlí 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, refsing hans þyngd og hann dæmdur til að greiða Y 2.500.000 krónur með vöxtum eins og greinir í ákæru.

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til héraðsdóms, en að því frágengnu verði refsing lækkuð. Hann krefst þess jafnframt að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi eða hún lækkuð.

I.

Til stuðnings sýknukröfu vísar ákærði til 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann hafi orðið fyrir slysi á ferðalagi í Egyptalandi 1999, sem hafi leitt til framheilaskaða. Telur hann að af þeim sökum hafi andlegu ástandi hans verið svo háttað þegar atvik málsins urðu í byrjun desember 2006 að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum, svo sem geðheilbrigðisrannsókn renni stoðum undir.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms beindi ákærði kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur um að dómkvaddir yrðu sérfróðir menn til þess meðal annars að leggja mat á sakhæfi hans. Af hálfu ákæruvaldsins var kröfunni mótmælt og var úrskurður kveðinn upp í málinu 5. september 2007. Samkvæmt honum skyldu tveir kunnáttumenn dómkvaddir til að meta hvort ákærði hafi orðið fyrir framheilaskaða í slysi 1999, hvort sá áverki hafi haft áhrif á sakhæfi hans samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga og hvort refsing geti borið árangur samkvæmt 16. gr. sömu laga. Þann 19. október 2007 mun Sigurður Páll Pálsson geðlæknir hafa verið dómkvaddur til að gera geðrannsókn á ákærða og María K. Jónsdóttir sálfræðingur til að gera taugasálfræðilegt mat á honum. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð geðheilbrigðisrannsókn fyrrnefnda matsmannsins á ákærða 17. janúar 2008 og taugasálfræðilegt mat síðarnefnda matsmannsins frá sama degi. Þótt niðurstöðum sé skilað í sitt hvoru lagi bera matsgerðirnar með sér að hinir dómkvöddu menn hafa haft samvinnu sín á milli við verkið. Í niðurstöðum matsmanna kemur fram að engin merki séu um framheilaskaða eða að háttsemi ákærða verði rakin til áverka af þeim toga. Mun líklegri skýring á hegðun hans og sjúklegri afbrýðisemi sé uppsöfnuð áhrif af langvarandi og mikilli áfengisneyslu. Er það afdráttarlaust mat þeirra að ákærði sé sakhæfur og að ekkert mæli gegn því að refsing beri árangur. Fellur það saman við rannsókn Tómasar Zoëga geðlæknis á ákærða 18. desember 2006, sem greint er frá í héraðsdómi. Að virtum þessum gögnum verður hafnað sýknukröfu ákærða, sem reist er á því að skilyrði um sakhæfi séu ekki uppfyllt.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var varakrafa ákærða einkum studd við það að ekki hafi verið teknar skýrslur af matsmönnunum fyrir dómi og því ekki gefist tækifæri til að spyrja þá nánar um einstök atriði í niðurstöðum þeirra. Með því hafi verið brotinn réttur á honum. Ákærði átti þess kost að leita sjálfur eftir því að skýrslur yrðu teknar af matsmönnunum og endurrit þeirra lögð fyrir Hæstarétt teldi hann þörf á að leita nánari svara. Það gerði hann ekki og ekki hefur heldur verið haldið fram að einstök atriði í matsgerðum séu óljós. Andmæli ákærða, sem á þessu eru reist, eru haldlaus.

II.

Í héraðsdómi var ákærði að hluta sýknaður af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Hann neitar jafnframt sök að hluta fyrir það, sem hann var sakfelldur fyrir, svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi. Af hálfu ákæruvalds er krafist sakfellingar fyrir öll atriði samkvæmt ákæru. Fjölskipaður héraðsdómur hefur reist úrlausn sína um sönnun á sekt ákærða á fyrirliggjandi gögnum og skýrslum fyrir dómi og verður niðurstaða hans um það í öllum þáttum ákæru staðfest. Ákærði hefur samkvæmt því gerst sekur um brot sem varða hann fangelsisrefsingu. Við ákvörðun um refsinguna verður litið framhjá ítrekunaráhrifum samkvæmt 205. gr. almennra hegningarlaga, eins og henni var breytt með 12. gr. laga nr. 61/2007, en þau lög tóku gildi eftir að ákærði framdi brot sín. Að því virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er niðurstaða hans um refsingu ákærða hæfileg. Verður jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um bætur handa Y, svo og um sakarkostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.268.575 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. júní 2007.

          Mál þetta, sem dómtekið var 29. maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 8. mars 2007 á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir eftirgreind hegningarlagabrot gagnvart Y, þá sambýliskonu ákærða, framin aðfaranótt sunnudagsins 3. desember 2006 og fram eftir sunnudegi, á sameiginlegu heimili þeirra að [...], Reykjavík:

1. Frelsissviptingu, með því að halda Y nauðugri í íbúðinni frá miðnætti aðfaranótt sunnudagsins 3. desember og fram eftir degi. Ákærði varnaði því að Y hringdi í Neyðarlínu í því skyni að leita sér hjálpar og milli þess sem ákærði beitti Y hótunum og ofbeldi, eins og lýst er í 2. til 3. tölulið ákæru, fylgdi hann Y eftir um íbúðina.

2. Stórfellda líkamsárás, með því að hafa um miðnætti ráðist að Y og slegið hana hnefahögg í vinstra gagnauga, hnefahögg í kjálka vinstra megin, rifið í hár hennar og dregið hana á hárinu inn í svefnherbergi íbúðarinnar. Fleygt Y þar í rúmið og skipað henni að fara úr fötunum og þegar hún var orðin nakin slegið hana með flötum lófa vinstra megin í andlitið. Um nóttina og fram undir morgun ítrekað beitt Y ofbeldi, ógnað henni með kjötexi og búrhníf, ítrekað slegið hana hnefahögg og lamið með flötu blaði kjötaxarinnar aðallega á upphandleggi og aftanverð læri en einnig annars staðar á líkamann og síðar einnig lamið hana á sömu líkamshluta með flötu blaði búrhnífs og í nokkur skipti þrýst kodda fyrir andlit hennar þar til hún var við að missa meðvitund.

3. Kynferðisbrot með því að hafa, í tvö aðgreind skipti á ofangreindu tímabili, með ofbeldi eða hótun um ofbeldi, þröngvað Y til samræðis.

Vegna háttsemi ákærða sem lýst er í 2. og 3. tölulið hlaut Y glóðarauga á báðum augum, mar yfir nefrót og á vinstri kinn, eymsli í hársverði og punktblæðingar á hvirfli og ofan við hnakka, mar á innanverðri neðri vör og sár vinstra megin á neðri vör, mar á upphandleggjum, framhandleggjum og handarbökum, skarpar roðalínur á þremur stöðum á vinstri handlegg og tveimur á hægri þar af eina rispu, fjölda marbletta á brjóstum og rispu undir hægra brjósti, stóra samfellda marbletti á lærum utan og innanverðum, marbletti á vinstra hné og utanvert á hægri kálfa auk rispu á kálfa, mar á hægri rist og þriggja til fjögurra cm skurð á hægra hné.

Eru brot ákærða samkvæmt 1. tölulið talin varða við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en samkvæmt 2. tölulið við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og samkvæmt 3. tölulið við 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

 

Bótakröfur:

Af hálfu Y, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur, auk vaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. desember 2006 til 9. febrúar 2007 en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar.

          Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi og að honum verði tildæmd hæfileg máls­varnarlaun. 

          Þriðjudaginn 5. desember 2006 kl. 12.49 mætti Y á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot. Greindi Y þannig frá málavöxtum að hún hafi verið í sambandi við ákærða síðan fyrir um sex mánuðum áður. Um mánuði fyrir kæruna hafi ákærði flutt inn í íbúð Y að [...] 30 í Reykjavík. Sambúð þeirra hafi verið tíðindalítil en undir lok hennar hafi verið farið að gæta aukinnar tortryggni af hennar hálfu í garð ákærða. Að kvöldi laugardagsins 2. desember 2006 hafi Y verið búin að drekka tvo eða þrjá bjóra um kvöldið. Ákærði hafi drukkið pela af vodka og einhvern slatta af bjór. Ákærði hafi skroppið út í skamman tíma en Y verið ein heima og talað í síma. Hafi hún fundið til lítilla áfengisáhrifa. Um miðnættið hafi ákærði komið heim aftur en Y þá verið að ræða í síma við vinn sinn E. Ákærði hafi þá gengið beint inn í stofuna til Y, rifið af henni símann og hent honum burt. Síðan hafi hann slegið Y með krepptum hnefa hægri handar og hafi höggið lent á gagnauga Y vinstra megin. Hafi Y vankast við höggið. Eftir þetta hafi ákærði veitt henni annað högg með krepptum hnefa hægri handar og hafi það högg lent vinstra megin á kjálka Y. Við það hafi efri vör vinstra megin sprungið. Atlaga þessi hafi verið með öllu tilefnislaus og ekki átt sér neinn formála. Hafi virst sem ákærði hafi fyrir fram verið búinn að ákveða hvernig hann myndi haga gerðum sínum eftir að inn í íbúðina væri komið. Í beinu framhaldi af þessu hafi ákærði farið inn á salerni íbúðarinnar og dvalið þar í nokkrar mínútur. Hafi Y verið nokkuð vönkuð eftir árásina en kvaðst telja að hún hafi um síðir tekið heimasímann enda ekki fundið farsíma sinn eftir atlöguna. Hafi hún hringt í Neyðarlínuna úr símanúmerinu 5514472. Væri hún ekki viss um hvað klukkan hafi verið þá en hún hafi sennilega verið um miðnættið. Ekki væri Y viss um hvort hún eða ákærði hafi slitið símtalinu áður en Neyðarlínan hafi svarað. Kvaðst hún þó telja að ákærði hafi tekið af sér símtólið og lagt á. Ákærði hafi þá rifið í hár hennar og spurt hana hvort hún hafi verið að hringja í lögregluna. Hafi Y orðið skelfingu lostin og öskrandi hrædd við ákærða og því svarað honum því til að hún hafi verið að hringja í móður sína. Ákærði hafi þá dregið hana á hárinu inn í svefnherbergi íbúðarinnar. Ákærði hafi verið mjög ógnandi og Y gríðarlega hrædd.

          Eftir að inn í svefnherbergið kom hafi ákærði fleygt Y upp í rúm og sagt henni að fara úr fötunum. Ákærði hafi staðið yfir henni gríðarlega ógnandi í fasi og Y því farið úr fötum og legið í hnipri í rúminu. Hafi hún áður verið klædd í náttbuxur, bol og flíspeysu. Hafi hún skriðið nakin upp í horn í rúminu. Þar hafi ákærði slegið Y flötum lófa hægri handar og hafi höggið lent í andliti vinstra megin. Ákærði hafi þá gengið út úr svefnherberginu og að öllum líkindum farið inn í eldhús því skömmu síðar hafi hann komið til baka með stóran kjöthníf, eins konar kjötöxi. Hafi hann lagt öxina á náttborðið en þá verið kominn með farsíma Y í hendi. Hafi ákærði klætt sig úr öllum fötum og verið nakinn. Hafi ákærði farið að fletta í símaskrá farsímans en þegar hann hafi rekist á símanúmer er hann hafi ekki þekkt hafi hann kýlt Y og lamið til hennar þannig að flatt blað kjötaxarinnar hafi lent á henni. Hafi höggin verið ótalmörg og flest lent á upphandleggjum og aftanverðum lærum. Hafi ákærði reynt að fá Y til að segja frá ætluðu framhjáhaldi hennar og samböndum hennar við ýmsa karlmenn. Hafi hann m.a. neytt Y til að segja að hún hafi verið tvígift, sem ekki væri rétt. Í hvert sinn sem hún hafi ekki svarað rétt að mati ákærða eða nægjanlega hratt hafi hann lamið hana aftur og fastar. Kvaðst Y vera með mikla marbletti upp um handleggi og fætur vegna þessa. Ekki hefði hún hugmynd um hversu lengi þetta hafi staðið, en það hafi líklega verið í einhverjar klukkustundir. Á einhverjum tíma hafi ákærði farið á snyrtinguna en á meðan hafi hún tekið öxina og stungið henni niður með rúminu til að fela hana. Er ákærði hafi komið til baka hafi hann orðið óður og hlaupið fram í eldhús og sótt stóran búrhníf. Hafi hann þá verið kominn í slopp sem hann hafi farið jafnharðan úr. Ekki muni hún nákvæmlega hvernig það hafi gerst en skyndilega hafi ákærði setið klofvega ofan á henni með hnífinn á lofti og hafi hann hótað að ganga frá henni ef hún gæfi ekki frekari skýringar í þeim málum sem hann hafi verið að ræða við hana um en hann hafi verið mjög upptekinn af sambandi Y við fyrrverandi eiginmann hennar sem hann hafi viljað vita hvort beitt hafi hana ofbeldi. Ákærði hafi verið með miklar ranghugmyndir um slík mál. Á þessum tímapunkti hafi hún náð að draga sæng yfir hluta af sér en ákærði hafi þá m.a. þrykkt hnífnum niður þannig að hann hafi numið við sængina eins og hann ætlaði að stinga hana. Á þeim tímapunkti hafi farsími hennar slökkt á sér og ákærði reynt að kveikja á honum aftur. Það hafi gengið illa og ákærði farið að neyða Y til að setja hann í hleðslu. Hafi hún þá verið orðin svo skjálfhent að hún hafi ekki getað það. Hafi ákærði þá hent símanum út um glugga og síminn lent í þakrennu.

          Hafi þá orðið smáhlé í atlögunni og ákærði lagst við hlið Y í rúmið. Hafi hún ekki séð neina undankomuleið enda hafi vantað hurðarhún á hurðina inn í svefnherbergið en í gangi hafi verið vinna við að mála hurðina. Hafi því verið svolítið ,,bras” að komast út úr herberginu. Hafi hún nauðsynlega þurft að komast á salernið en þá hafi ákærði opnað fyrir henni hurðina og farið með henni. Hafi hún verið búin að ákveða að reyna að komast út úr íbúðinni en hún hafi vitað af pels við dyrnar inn í íbúðina. Hafi hún aldrei átt þann möguleika að flýja þar sem ákærði hafi staðið yfir henni allan tímann.

          Eftir einhverja stund hafi ákærði þurft að fá skýringar á einhverju en er hann hafi ekki fengið þau svör er hann hafi viljað hafi hann haldið áfram að lemja Y. Hann hafi einnig notað búrhnífinn og lamið hana aðallega í upphandleggi og á læri. Hafi Y hljóðað við atganginn enda fundið gríðarlega mikið til. Við það hafi ákærði tekið púða úr rúminu og sett yfir andlit hennar. Ekki átti hún sig á hve lengi það hafi staðið en það hafi verið nægjanlega lengi til að henni hafi fundist sem hún væri að missa meðvitund. Hafi hún brotist um og talið að hún væri að detta út. Loks hafi ákærði lyft púðanum og haldið yfirheyrslum áfram. Hafi ákærði lamið Y bæði með hnefum og hnífsblaðinu og sett koddann aftur yfir andlit Y er hún hafi hljóðað. Þannig hafi hlutirnir gengið í nokkur skipti. Ákærði hafi sagt við Y ,,helvítis lygatussan þín, nú ætla ég að ríða þér, leggstu á bakið.” Hafi ákærði verið búinn að leggja hnífinn á náttborðið við höfðagaflinn og átt auðvelt með að ná í hann. Hafi hún því ekki þorað öðru en að láta að vilja hans. Hafi ákærði haft við hana samfarir um leggöng og skipað henni fyrir á meðan. Eftir nokkurn tíma hafi ákærði hætt. Hafi hún vonast til að hann myndi sofna í framhaldinu, en það hafi ekki orðið. Eftir þetta hafi ofbeldið haldið áfram. Líkt og áður hafi ákærði yfirheyrt Y um ætluð sambönd, lamið hana með hnefa og hnífnum og í tví- eða þrígang sett koddann yfir vit Y þannig að hún hafi nánast misst meðvitund. Kvaðst hún telja að hún hafi aftur fengið að fara á salernið, en líkt og áður hafi ákærði opnað fyrir henni svefnherbergishurðina og staðið yfir henni á salerninu. Hafi hún aldrei átt færi á því að sleppa.

          Um morguninn hafi hún heyrt son sinn, A, koma heim. Hafi hún ekki getað kallað á hjálp enda búrhnífurinn alltaf nálægur og hún talið að ákærði myndi stinga hana eða skera hana á háls ef hún myndi kalla á hjálp. Kvaðst hún telja að hún hafi sofnað stuttlega eftir kl. 8.00 um morguninn en hún hafi heyrt í kirkjuklukkunum í Hallgrímskirkju. Hafi hún síðan vaknað við að ákærði hafi viljað hafa við hana samfarir. Hafi það orðið og með svipuðu sniði og áður. Hafi hún talið að hún gæti ekki spornað við þeim enda hafi búrhnífurinn alltaf verið við höndina fyrir ákærða. Ekki gerði hún sér grein fyrir hvernig ákærði hafi hætt en hún hafi verið gríðarlega hrædd á meðan á þessu hafi staðið. Eftir þetta hafi þau bæði sofnað og sofið til kl. 13.30 en þá tímasetningu tengi hún við að ákærði hafi þá sagt sér hvað tímanum liði. Hún hafi ekki farið út úr íbúðinni og ákærði áfram fylgt henni á salernið í að minnsta kosti eitt skipti. Um kl. 16.30 hafi ákærði farið fram úr og út úr íbúðinni til að kaupa í matinn. Á þeim tímapunkti hafi henni liðið eins og hún vildi deyja. Hún hafi verið í einhvers konar móki og losti. Hafi hún ekki getað farið. Skömmu síðar hafi ákærði komið heim aftur en hún legið í einhvers konar móki það sem eftir lifði dagsins.

          Næsta dag hafi hún vaknað og sagt við sig að hún yrði að koma sér af stað. Því hafi hún farið í vinnuna en ákærði verið áfram heima. Hafi hann síður viljað að hún færi, enda hún borið þess merki að hafa verið beitt ofbeldi. Ákærði hafi þó ekki reynt að stöðva hana. Hafi hún áttað sig á því að hún yrði að leita sér aðstoðar. Hafi vinnufélagar hennar spurt hana hvað hafi komið fyrir en hún svarað því til að hún hafi lent á mælaborði bifreiðar. Hafi hún skammast sín of mikið til að segja rétt frá. Hafi hún um kvöldið farið á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar þar sem hún hafi fengið aðstoð. Eftir skoðun á Neyðarmóttöku hafi hún farið aftur heim til sín en þar hafi sonur Y og ákærði verið fyrir og hún viljað vernda son sinn. Hafi hún spurt ákærða hvort hann vildi koma með sér í kvikmyndahús, en hún hafi viljað halda honum utan við heimilið og í fjölmenni þar sem hann gæti ekki skaðað hana. Eftir kvikmyndahúsið hafi þau sofið í íbúðinni en að morgni þriðjudagsins hafi hún verið búin að ákveða að kæra ákærða til lögreglu. Hafi hún viljað halda honum góðum þangað til hún kæmist til lögreglu. Að morgni þriðjudagsins hafi hún vaknað með ákærða. Ákærði hafi þá farið að veiða farsíma Y upp úr þakrennu er hann hafi lent í. Er honum hafi tekist það hafi hann farið að skoða símann og Y séð hann byrja að æsast upp aftur vegna hringinga í símann. Hafi hún náð að kaupa sér tíma, sagt við ákærða að hún yrði að ná í póstinn sinn, en í raun hafi hún farið niður og hringt í lögreglu. Hafi lögregla komið á vettvang og farið með Y á lögreglustöð. Ákærði hafi náð að forða sér út áður en lögregla hafi komið á vettvang. 

          Lögregla hefur ritað skýrslu vegna húsleitar í íbúð Y á efstu hæð að [...] en leitin fór fram 5. desember 2006. Fram kemur að haldlagður hafi verið sængurfatnaður í íbúð Y og hafi verið greinilegt blóðkám á hluta sængurfatnaðarins. Leitað hafi verið að kjötexi er Y hafi sagt að ákærði hafi notað til að berja hana með. Umrædd kjötöxi hafi fundist þar sem hún hafi verið skorðuð á milli rúms og veggjar í svefnherbergi. Hafi öxin verið haldlögð. Samkvæmt framburði Y hafi hún tekið brauðhníf sem ákærði hafi verið með og sett hann í næst efstu skúffu í eldhúsi. Hafi hnífurinn fundist þar og verið haldlagður. Líklegt sé að hnífurinn hafi ekki verið á sínum hefðbundna stað þar sem annars konar borðbúnaður hafi verið í skúffunni. Í stofu hafi verið farsími af gerðinni Sony-Ericsson og hafi mátt greina rakaskemmdir á skjá hans.   

          Í lögregluskýrslu frá mánudeginum 11. desember 2006 eru skráð samskipti lögreglu við Neyðarlínuna. Fram kemur að hringt hafi verið í Neyðarlínuna 3. desember 2006 kl. 02.20.43 úr símanúmerinu 5514472. Fyrir því símanúmeri sé skráð Y.

          Rituð hefur verið skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun vegna komu Y á Neyðarmóttöku mánudaginn 4. desember 2006. Í skýrsluna er færð frásögn Y af atvikum. Í umfjöllun um ástand við komu á Neyðarmóttöku er skráð að um sé að ræða illa útleikna konu með marbletti stóra og smáa um nær allan líkamann. Sé hún eins og lurkum lamin og aum hér og hvar. Lýsi hún miklum dofa í viðbrögðum og sé ráðvillt. Gefi hún skýra sögu og lýsi vel ótta og ógn sem hún hafi upplifað og hvernig hún hafi brugðist við lömun og skelfingu. Í reiti er merkt við að Y hafi verið í losti, vöðvaspennt, skýr í frásögn og framsetning samhengislaus. Skráð er að myndir hafi verið teknar af Y. Helstu áverkar séu glóðarauga á báðum augum, en meira vinstra megin. Mar yfir nefrót. Mar yfir vinstri kinn. Eymsli í hársverði og punktablæðingar á hvirfli og aftan til ofan við hnakka. Sé með stóra dökkbláa marbletti á báðum upphandleggjum og ljósleitari á víð og dreif um framhandleggi. Sé með mar á báðum handarbökum. Allir blettir séu með eymslum og margir með þrota. Séu blettirnir nýlegir. Á handleggjum á a.m.k. þrem stöðum á vinstri og tveim á hægri sjáist skörp roðalína eins og eftir skarpa brún og á einum stað sé þar hrúður, þ.e. rispa. Marblettir hér og hvar á brjóstum. Rispa skálæg undir hægra brjósti. Stórir samfelldir dökkbláir marblettir á lærum utan og aftanvert. Mikill þroti og eymsli. Marblettir utanvert á vinstra hné og utanvert á hægri kálfa og þar í neðri kanti sé grunn rispa. Mar á hægri rist. Skurður ca 3 – 4 cm sé á hægra hné. Mar og eymsli komi heim og saman við að séu eftir þung högg á andlit og útlimi og séu skörp merki um markalínur sem geti verið eftir áhald með skörpum kanti. Að minnsta kosti einn skurður á hné eins og eftir skarpt áhald eða eggvopn. Húðblæðingar í hársverði eins og eftir hárreytingu. Í niðurstöðu læknis er tekið fram að áverkar komi vel heim og saman við lýsingu Y þar sem marblettir séu stórir og djúpir og komi vel heim og saman við þung högg og á nokkrum stöðum sjáist línur sem ummerki eftir áhald eða vopn með skörpum kanti. Á hné sé rispa eins og eftir eggvopn. Enga áverka sé að sjá á kynfærum.

          Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur hefur 3. janúar 2007 ritað réttarmeina­fræðilega greinargerð vegna mats á tilurð og áverkum Y. Fram kemur að við skoðun sé stuðst við 36 ljósmyndir frá Neyðarmót­töku. Í ályktun segir að glóðarauga vinstra megin, mar á vinstri kinn og mar og rifa á hægri vör vinstra megin samrýmist sljóum áverkum. Áverki á vinstri kinn geti samrýmst því að vera undan höggi með opnum lófa. Hinir tveir samrýmist því að vera undan hnefahöggum. Hafi Y verið veitt a.m.k. þrjú högg í andlit. Áverkar á báðum upphandleggjum og aftanvert á vinstra læri samrýmist því að vera veittir af flötu blaði kjötaxar af þeirri tegund er Þóra hafi fengið mynd af frá tæknideild lögreglu. Á hægri upphandlegg hafi Y verið veitt a.m.k. fimm högg með kjötexi og vinstra megin að minnsta kosti þrettán högg og hafi þau verið veitt af a.m.k. meðalmiklum krafti. Umfang og lögun marblettanna geti samrýmst því að Y hafi einnig verið veittir sljóir áverkar á báðum upphandleggjum af öðru tagi en bara með kjötexi. Á hægri og vinstri framhandlegg og handarbökum séu auk þess skrámur og marblettir með staðsetningu sem séu dæmigerðir fyrir varnaráverka. Áverki á hægri kálfa Y og ofarlega á vinstra læri samrýmist því að vera undan sljóu blaði kjötaxar og hafi Y verið veitt eitt högg á kálfann hægra megin og að minnsta kosti eitt högg með kjötexi á vinstra læri. Útlit marbletta og umfang á báðum lærum Y samrýmist að öðru leyti sljóum áverkum en ekki sé frekar unnt að segja hvað hafi valdið þeim áverkum. Marblettir á báðum brjóstum séu undan sljóum áverkum og skráma milli brjósta hafi útlit sem samrýmist því að vera undan nögl. Ekki sé unnt að staðfesta eða útiloka að kodda hafi verið þrýst yfir vit Y því slíkt skilji yfirleitt engin ummerki eftir sig. Í niðurstöðu segir að áverkar samrýmist sögu þeirri er Y hafi gefið í lögregluskýrslu.

          Ákærði var handtekinn á veitingastað í Reykjavík þriðjudaginn 5. desember 2006 kl. 18.26. Sama dag kl. 19.00 framkvæmdi Jón Aðalsteinn Jóhannsson læknir réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða. Fram kemur að ákærði hafi verið rólegur og samvinnuþýður, en áfengislykt hafi lagt af honum. Hann hafi þó ekki verið áberandi drukkinn. Sé hann með áverka sem séu mar, rispur og klór. Áverkar þessir hafa verið færðir inn á teikningu í rannsóknargögnum málsins. Noti ákærði gleraugu og séu engir áverkar á höfði, hálsi, höndum eða ganglimum.     

          Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 5. desember 2006. Kvaðst hann hafa þekkt Y síðan 10. júní 2006 og hafi þau verið saman síðan 1. júlí 2006. Hafi þau fyrst búið saman á [...] þar sem ákærði hafi verið með íbúð á leigu, en síðan á [...] þar sem Y eigi íbúð. Samband þeirra hafi verið tíðindalítið og áfallalaust fyrir utan að um miðjan júlí hafi Y borist hótanir frá C sem hafi hótað því að drepa hana. Hafi ákærði tekið þessar hótanir alvarlega. Fyrir nokkrum vikum síðan hafi Y síðan sagt ákærða að hún hafi verið að ,,kela” við mann á tilteknum veitingastað í Reykjavík. Við allt þetta hafi ákærði farið að efast um að Y væri honum trú. Á laugardeginum 2. desember 2006 hafi ákærði og Y verið að ræða um allar þessar uppákomur. Um kvöldið hafi þau eldað saman og drukkið bjór. Einnig hafi þau skipt með sér einum pela af vodka. Kvaðst ákærði hafa fundið til lítilsháttar áfengisáhrifa. Y hafi verið eitthvað ölvuð. Hafi ákærði þá farið að spyrja Y um samband hennar við fyrrgreindan C og hafi ákærði spurt hana hvort hún væri sannanlega að segja sér satt, væri heiðarleg við ákærða eða hvort hún stæði jafnvel í sambandi við manninn. Hafi ákærði gengið hart að Y um þessi mál enda hafi hann grunað að Y væri ekki að segja sér satt. Hafi ákærði yfirheyrt hana um þetta og þráspurt og spurt um hvort C hafi hótað þeim. Hafi Y þá skyndilega reiðst og sagt honum að hætta að spyrja sig að þessum spurningum. Hafi hún ráðist á ákærða með höggum sem flest hafi hæft ákærða í brjóstkassann. Einnig hafi hún klipið hann í handlegginn. Hafi ákærði hlotið einhverja áverka vegna þessa. Hafi hann þráðfaldlega beðið Y um að hætta en hún ekki gert það. Er Y hafi haldið áfram að veitast að ákærða hafi hann reiðst og tekið á móti höggum Y. Hafi þau farið að slást og kvaðst ákærði kannast við að hafa slegið Y og hafi höggin lent á báðum upphandleggjum og öðru læri. Flest höggin hafi verið með krepptum hnefa en einhver með flötum lófa. Ekki gæti ákærði lýst því hve mörg höggin hafi verið, enda hafi hann fundið til áfengisáhrifa er þar var komið. Rifrildið og slagsmálin hafi ef til vill staðið í einar 20 mínútur. Ekki geri ákærði sér grein fyrir hvað klukkan hafi verið er þar var komið en komið hafi verið fram á seinni part nætur. Undir lokin, er þau hafi verið við að hætt að slást, hafi ákærði viljað fá Y til að sýna sér hringingar úr og í farsíma hennar en þá hafi Y ekki viljað sýna honum símtölin og reynt að segja honum að síminn væri ónýtur. Hafi hann þá í stríðni spurt hana hvort ekki væri þá í lagi að henda símanum út um glugga og er Y hafi jánkað því hafi hann sleppt símanum sem við það hafi runnið niður í þakrennu.

          Y hafi loks sagt að hún ætlaði að segja honum satt og að hún hafi í raun verið gift nefndum C í átta mánuði og að hún hafi logið því til að C hafi hótað þeim. Hafi ákærði spurt hana af hverju hún væri að segja ósatt en Y enga skýringu gefið á því. Eftir þetta hafi þau loks hætt að slást og farið upp í rúm og ,,kúrt” saman og sofnað. Sunnudagurinn 3. desember hafi verið tíðindalítill en Y hafi mestmegnis verið uppi í rúmi, en einnig hafi sonur Y verið heima. Ákærði hafi farið út milli kl. 15.00 og 16.00 og náð í pizzu handa sér og Y. Hafi þau borðað hana tvö saman enda hafi sonur Y ekki getað borðað með þeim. Einhverjir áverkar hafi verið á Y eftir rimmuna en hún hafi verið með mikið mar á upphandleggjum. Að auki hafi verið einhverjir áverkar við rass, auk þess sem hún hafi verið með smávægilega áverka á nefi. Kvaðst ákærði ekki viss um hvort þeir væru eftir rimmu þeirra, en hann kvaðst ekki minnast þess að hafa slegið Y í andlitið. Á mánudagsmorgun hafi Y farið til vinnu en að loknum vinnudegi hafi þau farið saman í Kringluna þar sem þau hafi keypt afmælisgjöf og síma. Að því loknu hafi Y farið að hitta frænku sína. Þá hafi þau farið saman í kvikmyndahús og á [...] að því loknu. Þar hafi þau gist. Eftir að þau hafi vaknað á þriðjudeginum hafi ákærði farið að bjástra við að ná farsíma Y upp úr þakrennunni. Þá hafi Y verið veik heima og frá vinnu. Er hann hafi verið búinn að þurrka símann og hlaða hafi hann kveikt á honum. Hann hafi farið í ,,call list” en þar hafi hann séð að hringt hafi verið í Benna, sem ákærði kvaðst telja að væri E, 3. desember 2006 kl. 5.30 að morgni. Hafi ákærði þá gengið á Y og spurt hana hvort hún væri enn að tala við fyrrverandi eiginmann sinn. Hafi hún neitað því, farið undan í flæmingi og ekkert viljað kannast við það. Hafi ákærði þá ætlað að sýna Y þetta á símanum en við það hafi slokknað á honum. Hafi Y ekki getað kveikt á honum aftur. Hafi hún rétt ákærða símann og sagt honum að reyna á meðan hún næði í póstinn. Y hafi farið út í tvær til þrjár mínútur. Hafi hann opnað hurðina og kallað til hennar. Er hún hafi ekki svarað hafi ákærði farið niður en þá séð hvar Y hafi verið að tala við konu. Er ákærði hafi spurt hvað væri í gangi hafi Y sagt að hún væri búin að hringja í lögregluna. Hafi ákærða dauðbrugðið, farið í úlpuna og yfirgefið íbúðina, enda hafi hann þá átt mál í kerfinu þar sem hann hafi verið dæmdur fyrir nauðgun. Ákærði kvaðst hafa sent nefndum C sms símaskilaboð sem hafi verið ruddaleg enda hafi Y þá verið búin að segja ákærða frá hótunum E. Hafi ákærði á þriðjudeginum sent C afsökunarbeiðni, enda hafi hann þá verið búinn að fá á hreint frá Y um lygar hennar. Hafi hann fengið svar frá C þar sem afsökunarbeiðnin hafi verið tekin til greina. Ákærði kvað skrýtið að Y væri að kæra ákærða fyrir nauðgun og frelsissviptingu, enda væri það allt ósatt. Ákærði kvaðst hafa haft samfarir við Y eftir ferðina í kvikmyndahúsið á mánudagskvöldinu.

          Ákærði var aftur yfirheyrður um atvik mánudaginn 11. desember 2006. Kvaðst hann vilja halda við fyrri framburð sinn hjá lögreglu að því gættu að Y hafi sagt ákærða frá hótunum af hálfu C í lok júní 2006. Um miðjan júlí hafi Y farið til London en hún hafi tjáð ákærða að hún hafi farið að hitta vinkonu sína. Í ágúst 2006 hafi hún hins vegar sagt ákærða að hún hafi verið að hitta ástmann sinn til langs tíma en hún hafi tjáð ákærða að ekkert hafi gerst á milli þeirra. Umrædd ferð til London hafi verið eitt af þeim atriðum er þau hafi deilt um að kvöldi laugardagsins 2. desember 2006. Hafi þetta verið eitt af þeim atriðum er ákærði hafi orðið var við er hafi ýtt undir það að hann hafi talið hana ljúga á stundum. Þá vildi ákærði taka fram að Y væri alltaf með rispur enda væri hún með kláðaofnæmi. Rispaði hún sig oft til blóðs og skýrði það sennilega rispur á líkama hennar. Þá kvaðst ákærði vilja taka fram að hann hafi skroppið út í um 20 mínútur þegar hann og Y hafi verið farin að rífast, en áður en þau hafi slegist. Þetta hafi líklega verið eftir miðnættið. Kvaðst ákærði vera með klíp á vinstri upphandlegg eftir Y, rispu undir vinstra brjósti og smávægilegt mar á hægri upphandlegg. Ákærði kvaðst ekki hafa notað neitt áhald er hann hafi flogist á við Y. Hafi hann hvorki slegið hana með kjötexi eða búrhníf. Er ákærða voru sýndar ljósmyndir teknar á Neyðarmóttöku af Y kvaðst ákærði kannast við að hafa veitt henni umrædda áverka enda hafi verið slegið hressilega. Er ákærða var gerð grein fyrir því að kjötöxi hafi fundist á bak við rúm í svefnherbergi á [...] kvaðst ákærði ekki kannast við það. Ákærði kvaðst hafa sent C og bróður sínum sms símaskilaboð umrædda nótt. Staðfesti ákærði að hafa sent C skilaboð er lögregla bar undir hann að C hafi tjáð lögreglu að ákærði hafi sent. Ákærði kvaðst ekki kannast við að Y hafi hringt eða ákærði hafi stöðvað hana í að hringja í Neyðarlínuna þessa nótt. Er undir ákærða var borin hljóðupptaka af neyðarlínusamtali kl. 02.40 þann 3. desember 2006 kvaðst ákærði eftir sem áður ekki kannast við umrætt símtal. Er undir ákærða var borinn framburður er Y gaf hjá lögreglu við kæru kvað ákærði Y segja ósatt. Kvaðst ákærði algerlega hafna framburði Y.

          Ákærði var loks yfirheyrður af lögreglu þriðjudaginn 9. janúar 2007. Kvaðst ákærði vilja ítreka fyrri framburð sinn hjá lögreglu. Ákærði kvað geta staðist að hann hafi sent Y sms símaskilaboð þann dag sem hún hafi kært hann til lögreglu. Er undir hann voru borin sex sms símaskilaboð staðfesti ákærði að hafa sent þau.

          Fyrir dómi greindi ákærði svo frá að hann hafi þekkt Y frá 10. júní 2006 og búið með henni frá 1. júlí s.á. Hafi þau verið í sambúð er atburðir þeir er væru sakarefni málsins hafi átt sér stað. Þennan dag hafi þau drukkið saman bjór. Um kvöldið hafi þau eldað saman og ákærði þá farið að inna Y eftir fyrri samböndum hennar. Við það hafi þau komist í uppnám. Úr því hafi orðið rifrildi og síðan slagsmál. Kvaðst ákærði hafa lamið Y með hnefa, en sjá mjög eftir því. Hafi hann aldrei misst stjórn á sér. Ákærði kvaðst hafa farið út úr íbúðinni um miðnættið. Þá hafi þau verið byrjuð að þrasa, en átök ekki byrjuð. Hafi hann komið aftur inn í íbúðina um kl. 12.30. Hafi hann ætlað á veitingastað en séð að sér og ákveðið að fara aftur heim. Er hann hafi komið inn í íbúðina hafi Y verið að tala í síma. Um leið og ákærði hafi opnað hurðina hafi hún skellt á og sagt að hún hafi verið að ræða við dóttur sína. Í framhaldinu hafi brotist út slagsmál sem hafi byrjað í stofu og endað inni í svefnherbergi. Bæði hafi þau verið mjög drukkin. Þau hafi þrifið í hvort annað á víxl en ákærði slegið miklu meira en Y. Hafi ákærði gengið fast að Y með C þar sem hann hafi fengið margar útgáfur frá henni hvernig sambandi hennar við þann mann væri háttað. Y hafi líka slegið frá sér þessa nótt og ekki sérstaklega beðið ákærða um að hætta barsmíðunum. Kvaðst ákærði skammast sín fyrir framgöngu sína. Megnið af höggum þeim er hann hafi veitt Y hafi lent á handleggjum hennar. Sennilega hafi einnig einhver högg lent á lærum hennar. Ákærði kvaðst ekki geta borið um hvort einhver högg hafi lent í andliti. Kvaðst hann engu að síður vilja viðurkenna að hafa veitt henni einhver högg í andlit. Ákærði hafi oftast slegið Y með krepptum hnefa, en einhver högg hafi verið veitt með flötum lófa. Ákærði kvaðst muna eftir að lögregla hafi sýnt honum myndir er teknar hafi verið af Y þar sem sjá mætti áverka á henni. Kvaðst hann muna eftir að hafa svarað því játandi að áverkarnir væru eftir sig. Varðandi átökin í svefnherberginu þá kvaðst ákærði hafa setið í hjónarúminu með Y. Hafi hann sífellt spurt hana út í sambönd hennar við tiltekna menn. Kvaðst hann hafa haft samfarir við Y síðar um nóttina eftir að þau hafi orðið vinir. Það hafi verið einu sinni og hafi ákærði ekki nauðgað Y. Öllum barsmíðum hafi þá verið lokið. Bæði hafi þau verið miður sín eftir atburðina. Ekki kvaðst ákærði hafa séð að Y væri slösuð, en hún hafi t.a.m. ekki verið með blæðandi áverka að því er hann hafi tekið eftir. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa ekki leyft Y að komast undan sér þessa nótt og að hún hafi verið frelsissvipt af þeim sökum. Þá væri það rangt að hann hafi fylgt henni á snyrtinguna um nóttina til að varna því að hún kæmist á brott. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að reynt hafi verið að hringja í Neyðarlínuna úr íbúðinni þessa nótt. Slagsmálin hafi nánast verið samfelld um nóttina, en þó hafi verið hlé á þeim um kl. 3.00. Þeim hafi síðan lokið undir morgun. Ákærði kvaðst hafa verið að vinna við að mála í svefnherbergi íbúðarinnar. Hafi hann verið búinn að losa um hurðarhún á hurð inn í herbergið. Hurð herbergisins hafi ekki verið lokað þetta kvöld. Þó svo hurðinni hafi verið lokað hafi ekki átt að vera neitt vandamál að opna hana. Ákærði kvað alfarið rangt að hann hafi verið með hníf um hönd þessa nótt. Hafi hann ekki notað nein áhöld er hann hafi tekist á við Y. Þau hafi sofnað undir morgun en Y vaknað og séð son sinn koma heim um morguninn. Undir hádegi hafi þau rætt saman. Hafi þeim báðum þótt leiðinlegt hvernig atburðir hafi þróast um nóttina. Ákærði hafi farið út og keypt pizzu um kl. 15.00. Hafi hann drukkið tvo bjóra og sofnað í framhaldinu. Ákærði kvaðst vera áfengissjúklingur. Hafi hann aldrei sett kodda yfir andlit Y þessa nótt. Þá kvaðst ákærði aldrei hafa rifið í hár Y eða hafa dregið hana inn í svefnherbergið eða hafa fleygt henni í rúmið.  

          Y bar þannig um atvik fyrir dómi að hún hafi verið búin að vera í sambúð með ákærða í um 6 mánuði er atburðir hafi átt sér stað. Hafi hún drukkið tvo bjóra á kaffihúsi umræddan dag. Um hafi verið að ræða venjulegt laugardagskvöld. Um kvöldið hafi hún eldað mat og drukkið tvo bjóra. Ákærði hafi drukkið úr vodkapela og talsvert af bjór. Þau hafi farið að rífast en um hafi verið að ræða ,,pex” út af ekki neinu. Ekki hafi það verið vísbending um neitt stórfellt í vændum. Ákærði hafi farið úr húsi um kvöldið. Hann hafi síðan komið aftur. Er hann hafi komið inn í íbúðina hafi Y verið að tala í farsíma sinn. Hafi hann slegið símann úr hendi Y og lamið hana á gagnaugað. Hann hafi í framhaldinu lamið hana aftur. Við höggin hafi hún vankast. Hafi hún reynt að komast að heimasímanum til að hringja. Einhverju síðar hafi ákærði farið á snyrtinguna. Eftir það hafi hann aftur slegið síma úr hendi Y. Hann hafi síðan dregið hana á hárinu inn í svefnherbergi íbúðarinnar. Þar hafi hann skipað henni að afklæðast. Þá hafi klukkan sennilega verið um miðnættið, eða skömmu eftir það. Hafi atburðarásin í stofunni ekki tekið nema á bilinu 5 til 10 mínútur. Í svefnherberginu hafi Y afklæðst, farið upp í rúm og þar út í horn. Þar hafi ákærði lamið hana í andlitið. Síðan hafi hann farið út úr herberginu og komið aftur inn með farsíma Y og öxi. Hann hafi í kjölfarið flett símanúmerum í símanum og yfirheyrt Y um sambönd hennar við aðra karlmenn. Hafi hann lamið hana fast ef hún svaraði ekki með þeim hætti er honum líkaði. Hafi hún því gert sér far um að vera ekki missaga. Þannig hafi gengið á með höggum af hálfu ákærða. Y hafi kveinkað sér og grátið. Hafi ákærði þá sett púða yfir andlit hennar. Hafi henni fundist sem hún væri að kafna við það. Einhverju síðar hafi ákærði farið á snyrtinguna. Hafi hún þá sett öxina undir rúm. Er ákærði hafi komið til baka hafi hann ekki fundið öxina. Hafi hann þá brugðið á það ráð að sækja hníf inn í eldhús. Þannig hafi hlutirnir gengið klukkustundum saman. Ákærði hafi þrýst púðanum fjórum sinnum yfir andlit Y, en það hafi hann alltaf gert er hún hafi kveinkað sér of mikið undan höggum ákærða. Hafi hún ekki getað dregið andann er það hafi verið. Í svefnherberginu hafi ákærði sagt að hann vildi hafa við Y samfarir. Hnífur hafi þá legið á náttborði í herberginu. Hafi hún af þeim sökum verið mjög óttaslegin. Undir morgun hafi Y vonast til að ákærði myndi sofna. Hann hafi þá sest klofvega yfir Y með hnífinn reiddan til stungu. Hafi hún talið að ákærði myndi þá drepa hana. Hafi í gegnum huga hennar farið hugsun um að hún gæti hugsanlega komist undan. Hurð svefnherbergisins hafi hins vegar verið lokið, en málningarvinna hafi verið í gangi. Af þeim sökum hafi verið bras að opna hurðina. Handfangið hafi verið laust í hurðinni og ákærði lagt það á gólfið. Hafi henni ekki fundist hún eiga undankomuleið. Undir morgun, sennilega um kl. 7.00, hafi þau bæði sofnað. Hafi þau vaknað kl. 13.30. Hafi ákærði þá tjáð Y að hann hafi verið nærri því að drepa hana um nóttina. Hafi Y verið í ,,trauma” er þar var komið og allt virkað óraunverulegt. Hafi hún heyrt son sinn koma heim undir morgun. Hún hafi ekki viljað raska ró hans en hann hafi verið í prófum á þessum tíma. Síðar þennan dag hafi ákærði farið út til að kaupa pizzu. Hafi henni fundist sem hún væri að deyja á þeim tímapunkti. 

          Y kvaðst hafa farið tvisvar sinnum á salernið um nóttina, en salernið væri við útgang út úr íbúðinni. Hafi hún haft í huga að reyna að komast út úr íbúðinni en hún hafi vitað af pels fyrir utan dyr íbúðarinnar. Í bæði skiptin hafi ákærði farið með henni og hún því ekki getað komist á brott. Þá hafi ástand hennar orðið verra eftir því sem liðið hafi á nóttina og hún orðið dofin. Ákærði hafi haft samfarir við hana tvisvar sinnum um nóttina. Barsmíðarnar hafi haldið áfram eftir fyrri samfarirnar, en hætt eftir þær síðari. Hún kvað síma sinn hafa dottið út um nóttina og hún ekki getað hlaðið hann rafmagni. Ákærði hafi þá hent honum út. Hafi hún aldrei getað komist til að hringja eftir aðstoð. Y kvaðst hafa verið óvinnufær í vikur eftir atburðina. Vinnuveitandi hennar hafi sýnt henni einstaka lipurð. Hafi orðið að samkomulagi með þeim að hún mætti til vinnu hálfan daginn á meðan hún væri að jafna sig. Hafi hún viljað komast af stað aftur. Hafi hún í kjölfar atburða sótt sér sálfræðiaðstoðar og væri hún enn í slíkri meðferð.     

          A kvaðst hafa verið að vinna aðfaranótt sunnudagsins 3. desember 2006 en hafa hitt móður sína og ákærða á sunnudeginum. Hafi hann komið heim milli kl. 7.00 og 8.00 um morguninn. Þá hafi hann ekki orðið var við móður sína eða ákærða. Hafi hann farið að sofa og sofið fram eftir degi. Eftir að hann hafi vaknað hafi hann farið niður í miðbæ Reykjavíkur. A kvaðst lítillega hafa rætt við móður sína og ákærða. Þau hafi þá enn verið uppi í rúmi. Ekki hafi hann tekið eftir neinu óeðlilegu á sunnudeginum. Á mánudeginum hafi móðir hans komið til hans og sýnt honum áverka sem hún hafi verið með í andliti. Hafi hún verið með glóðarauga á hægra auga. Hún hafi sagt að áverkann hafi hún fengið við að bremsa bifreið harkalega. Á þriðjudagskvöldinu, eftir að hafa kært atburðinn til lögreglu, hafi hún sagt sér hvers kyns væri.

          B kvaðst hafa verið yfirmaður Y í byrjun desember 2006. Y hafi komið til vinnu á mánudeginum 4. desember 2006. Á morgunfundi hafi B strax tekið eftir að Y hafi verið ,,krambúleruð” í andliti, auk þess sem hún hafi virst slegin út af laginu eins og hún hafi orðið fyrir áfalli. Hafi Y skýrt útlit sitt með því að hún hafi lent í bílslysi. Ekki kvaðst B hafa lagt trúnað á þá skýringu hennar. Á miðvikudeginum 6. desember 2006 hafi Y tjáð honum að henni hafi verið nauðgað.                   

          C kvað Y hafa hringt í sig aðfaranótt sunnudagsins 3. desember 2006. Þau hafi rætt um heima og geima en hann hafi haft á tilfinningunni að enginn hafi verið nærri Y. Skyndilega hafi Y þagnað og mjög stuttu síðar hafi símtalið rofnað sem hafi verð mjög óvenjulegt. Skömmu síðar hafi hann reynt að hringja í Y í heimasíma hennar og farsíma en enginn hafi svarað. Þessir atburðir hafi gerst um kl. 2.00 um nóttina. Síðar um nóttina hafi hann fengið afskaplega undarleg sms símaskilaboð úr síma ákærða. Skilaboðin hafi verið ógeðfelld. Þann 5. desember 2006 hafi C fengið önnur símaskilaboð frá ákærða þar sem ákærði hafi beðist afsökunar á fyrri skilaboðum sínum. C kvaðst hafa verið ,,kunningi” Y en samband þeirra hafi verið orðið lítið á þessum tíma.

          Jón Aðalsteinn Jóhannsson læknir staðfesti skoðun á ákærða sem fyrir liggur í rannsóknargögnum málsins. Ósk Ingvadóttir læknir staðfesti skýrslu um réttarlæknis­fræðilega skoðun á Neyðarmóttöku. Ósk kvað Y hafa verið í miklu áfalli við komu á deildina. Hafi ástand hennar verið eins og einstaklings sem sloppið hafi úr lífsháska. Hún hafi verið með verulega áverka um allan líkamann.

          Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur staðfesti réttarmeinafræðilega greinar­gerð sína frá 3. janúar 2007. Kvaðst Þóra hafa stuðst við frásögn Y í kæru­skýrslu er hún hafi gert greinargerðina, auk þess sem hún hafi stuðst við myndir er teknar hafi verið af Y á Neyðarmóttöku. Hún hafi hins vegar ekki talað við Y sjálfa. Beinar línur hafi verið í tilteknum áverkum á Y, en skarpar línur kæmu undan hlut sem veitt hafi áverkann. Hafi Þóra fengið myndir af kjötexi frá lögreglu. Geti áverkar á Y hafa komið frá gagnstæðri brún við egg á exinni. Á annarri mynd komi fram skráma í sári og komi það heim og saman við að egg axarinnar hafi verið notuð.

          Rannsóknarlögreglumennirnir Ragnar Jónsson, Þórir Ingvarsson og Sigurður Sigurjónsson staðfestu allir þátt sinn í rannsókn málsins. Ragnar tók m.a. ljósmyndir á vettvangi. Staðfesti Ragnar að sennilega hafi eitthvað verið átt við hurð á svefnherbergi íbúðarinnar. Þórir stjórnaði rannsókn málsins. Kvað hann lögreglu hafa fengið sendar ljósmyndir af áverkum Y frá Neyðarmóttöku. Sigurður fór m.a. á heimili Y til að gera leit að vopni er Y hafði fullyrt í kæruskýrslu að ákærði hafi notað við atlöguna. Sigurður kvaðst hafa verið í sambandi við Þóri vegna þess en Þórir hafi tekið skýrslu af Y. Stór kjötöxi hafi átt að vera milli rúms og veggjar í svefnherberginu. Það hafi reynst vera tilfellið.

          John Donne De Niet geðlæknir kvað ákærða vera sjúkling sinn í fangelsinu á Litla-Hrauni. Hafi John sent frá sér bréf vegna sjúkdómsgreiningar á ákærða sem byggðist á skoðun John á einkennum er ákærði sýndi og reynslu John af svipuðum tilvikum. Ákærði hafi verið sendur í sneiðmyndatöku til athugunar á hugsanlegum heilaskaða, en ákærði hafi fengið alvarlegt höfuðhögg í Egyptalandi fyrir nokkrum árum síðan. Í þeim rannsóknum hafi ekki verið unnt að sannreyna slíkan framheilaskaða. Hafi John hins vegar í rannsóknum sínum fundið tiltekin einkenni hjá ákærða sem gæfi tilefni til að álykta að hann gæti engu að síður hugsanlega búið við framheilaskaða. Þyrfti að mati John að rannsaka ákærða frekar m.t.t. þess. Ef ákærði byggi við framheilaskaða gæti það vissulega haft áhrif á sakhæfi ákærða m.t.t. 15. og 16. gr. laga nr. 19/1940.     

          Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sitt frá 20. maí 2007 vegna sálfræðilegs mats og áfallahjálp vegna Y. Gerði hún fyrir dóminum grein fyrir mati sínu á Y. Kvaðst hún hafa tekið hana í meðferð í beinu framhaldi af komu Y á Neyðarmóttöku. Þá hafi Y verið í stjörfu ástandi og greinilega liðið mjög illa. Ástand hennar hafi verið líkt og hjá einstaklingum sem hafi gengið í gegnum mjög alvarleg áföll. Berglind kvað þær hafa tekið hlé á meðferðinni þar sem Y hafi farið til útlanda. Óvíst væri hve langan tíma meðferðin tæki. Meðferðin snérist um að viðkomandi einstaklingur lærði að lifa með fortíð sinni.

           

          Niðurstaða:

Ákærði játar að hafa valdið Y þeim áverkum er í ákæru greinir. Hefur hann viðurkennt að hafa veitt henni þá með því að slá hana með krepptum hnefa og flötum lófa. Ákærði neitar að hafa svipt Y frelsi. Þá neitar hann að hafa veitt Y líkamsáverka með kjötexi eða búrhníf eða að hafa fleygt henni í rúm eða dregið hana á hárinu. Þá neitar ákærði að hafa þrýst kodda fyrir andlit hennar. Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft samfarir við Y einu sinni um nóttina en kveður það hafa verið með hennar vilja. 

Í máli þessu liggur fyrir skýrsla Y frá þriðjudeginum 5. desember 2006, þar sem hún greindi lögreglu frá atburðum aðfaranætur sunnudagsins 3. desember 2006. Þá liggur fyrir skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á Y, en hún fór á Neyðarmóttöku að kvöldi mánudagsins 4. desember 2006. Þar voru teknar ljósmyndir af Y er frammi liggja í rannsóknargögnum málsins. Myndir þessar hefur Þóra Steffensen réttarmeinafræðingur haft til skoðunar, flokkað áverka og lýst hugsanlegri tilurð einstakra áverka með hliðsjón af framburði Y í kæruskýrslu. Einnig liggur fyrir skýrsla lögreglu um rannsókn á húsnæðinu að [...]. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að kjötexi hafi fundist milli rúms og veggjar í svefnherbergi í íbúðinni. Búrhnífur hafi fundist í næstefstu skúffu í eldhúsi þar sem Y hafi sagt að hún hafi sett hann. Myndir tæknideildar lögreglu af vettvangi sýna svo ekki verður um villst að hurðarhún vantar í hurð á svefnherbergi í íbúðinni.

Hringt var úr heimasíma Y í Neyðarlínuna kl. 02.20 aðfaranótt sunnudagsins 3. desember 2006. Markar tími þess símtals upphaf þeirrar alvarlegu atburðarásar er í hönd fór, en Y hefur fullyrt að hún hafi reynt að hringja í Neyðarlínuna eftir að ákærði hafi slegið hana fyrstu tvö höggin. C kveður Y hafa hringt í sig þessa nótt um kl. 2.00, en símtalinu hafi verið slitið fyrirvaralaust. Ákærði hefur sjálfur borið að hann hafi talið Y vera að hringja í mann er hann hafi komið inn í íbúðina eftir að hafa brugðið sér út áður en til átaka hafi komið þeirra á milli. 

Ákærði hefur synjað fyrir að hafa beitt neinum áhöldum, svo sem hnífi, er hann hafi veist að Y. Fer það gegn gögnum málsins. Ljósmyndir af Y sýna svo ekki verður um villst skýrar og áberandi línur í áverkum Y. Í skýrslu Þóru Steffensen kemur fram að hún telji áverka sem Y beri samrýmast því að hafa verið veittir henni með kjötexinni, en kjötexi fannst við rúm í svefnherberginu. Ákærði fullyrti í lögregluskýrslu að hann hafi ekki lamið Y í andlitið umrædda nótt. Kvaðst hann fyrir dómi ekki kannast við að hafa lamið hana í andlitið en kveðst engu að síður ekki bera í mót að hafa valdið henni áverkunum. Þá liggur fyrir skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða í kjölfar handtöku. Ákærði hefur fullyrt að hann og Y hafi verið í slagsmálum mest alla nóttina og valdið hvoru öðru áverkum. Fær sá framburður ákærða með engu móti staðist þegar litið er til ljósmynda af Y, mynda af ákærða og skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða í rannsóknargögnum málsins. Í ljósi framanritaðs er það mat dómsins að framburður ákærða sé ekki trúverðugur.

Framburður Y hefur verið afdráttarlaus og skýr um málavöxtu og innbyrðis samræmi í honum um öll meginatriði málsins. Renna öll þau gögn sem hér hefur verið vísað til stoðum undir þann framburð Y, sem var að mati dómsins trúverðug, um að ákærði hafi aðfaranótt sunnudagsins 3. desember 2006, í íbúð að [...] í Reykjavík, beitt hana miklu líkamlegu ofbeldi. Þykir dóminum hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi frá því um klukkan 2.00 um nóttina og fram undir morgun haldið Y nauðugri í íbúðinni, slegið hana samfellt víðsvegar um líkamann með krepptum hnefa, kjötexi og búrhníf og ógnað henni með exinni og hnífnum, sem allt hafi leitt til þeirra áverka sem ákæra tilgreinir og fram koma í læknisvottorði. Í læknisvottorði kemur fram punktablæðing í hársverði Y. Þóra Steffensen kveður það samrýmast því að Y hafi verið dregin á hárinu, en Y hefur staðhæft að ákærði hafi dregið hana á hárinu úr stofu inn í svefnherbergið. Með vísan til þessara sönnunargagna er sannað að ákærði hafi rifið í hár Y og dregið hana á hárinu svo sem honum er gefið að sök í ákæru. Ekki verður hins vegar talið fyllilega sannað að ákærði hafi þrýst kodda fyrir andlit Y sem hafi leitt til þess að hún hafi verið við að missa meðvitund. Um það nýtur engra annarra sönnunargagna en framburðar Y. Ákærði hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa haft samræði við Y undir morgun. Í ljósi þess líkamlega harðræðis sem hann hafði þá beitt Y verður með engu móti annað lagt til grundvallar en að það samræði hafi verið gegn vilja Y, svo sem hún staðhæfir, en til þess er að líta að kjötöxi fannst í svefnherbergi íbúðarinnar og Y hefur borið um búrhníf sem ákærði hafi haft hjá sér, en hún kvaðst hafa óttast að ákærði myndi grípa til hnífs léti hún ekki að vilja hans. Verður miðað við að ákærði hafi nauðgað Y einu sinni um nóttina. Samkvæmt öllu þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru, að teknu tilliti til þess að ósannað er að hann hafi þrýst kodda fyrir andlit hennar og ósannað er að hann hafi nauðgað henni oftar en einu sinni. Er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru, sbr. og 3. gr. laga nr. 61/2007, sbr. 2. gr. laga nr. 19/1940.

Ákærði er fæddur í maí 1951. Samkvæmt sakavottorði á hann að baki nokkur umferðarlagabrot, sem ekki skipta máli við ákvörðun refsingar. Hann var í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. október 2006 dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir nauðgun, frelsissviptingu, húsbrot og líkamsárás. Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm héraðsdóms í dómi sínum 26. apríl 2007 í máli nr. 630/2006.

Tómas Zoëga geðlæknir hefur framkvæmt geðrannsókn á ákærða og er rannsóknin dagsett 18. desember 2006. Í niðurstöðu kemur fram að ákærði hafi orðið fyrir höfuðslysi fyrir sjö árum síðan. Sú spurning hafi vaknað hvort ákærði hafi orðið fyrir framheilaskaða í slysinu. Framheilaskaði geti haft í för með sér hömluleysi, dómgreindarbrest og ákveðnar persónuleikabreytingar. Lýsingar á hegðunar­breyting­um ákærða í kjölfar slyssins líkist ekki algengum afleiðingum framheilaskaða. Rann­sóknir í tengslum við geðrannsóknina hafi engin merki sýnt um heilaskaða í kjölfar áverka. Miklu líklegra sé að breytingar sem orðið hafi á ákærða undanfarin ár megi rekja til mjög mikillar áfengisneyslu ákærða. Ekkert bendi til þess að ákærði hafi nokkurn tíma haft þau einkenni sem talin séu upp í 15. gr. laga nr. 19/1940. Við geðrannsóknina hafi ekkert læknisfræðilegt komið fram sem útiloki að refsing geti borið árangur.  

Verjandi ákærða hefur lagt fyrir dóminn vottorð John Donne De Niet geðlæknis, sem kveður fram þurfa að fara frekari rannsóknir á ákærða með hliðsjón af sakhæfi hans. Kom geðlæknirinn fyrir dóminn og skýrði þessi atriði frekar. Þessi gögn lágu fyrir Hæstarétti Íslands þegar dómur var upp kveðinn í máli nr. 630/2006 þann 26. apríl sl. Verður ekki við annað miðað en að þau hafi ekki gefið tilefni til að efast um sakhæfi ákærða, en þá lá geðrannsókn fyrir í málinu. Með vísan til geðrannsóknar Tómasar Zoëga geðlæknis er það niðurstaða dómsins að ákærði sé sakhæfur. 

Brot ákærða gagnvart Y voru sérlega hrottafengin og langvinn en hann olli henni miklum líkamlegum áverkum og nauðgaði henni. Þá verður litið til þess að hann notaði kjötöxi og búrhníf í atlögunni. Gögn bera málsins með sér að brot ákærða hafi haft í för með sér alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar fyrir Y. Ákærði hafði 11. október 2006 verið dæmdur í 5 ára fangelsi m.a. fyrir nauðgun, frelsissviptingu og líkamsárás gagnvart þrem konum. Var brot hans einkar svívirðilegt í því ljósi, sbr. 205. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 12. gr. laga nr. 61/2007. Á hann sér engar málsbætur. Er refsing hans, að teknu tilliti til 1., 2., 3., 6. og 7. tl. 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940, ákveðin fangelsi í fimm ár. Til frádráttar refsingu kemur 53 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.

Y hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að um sé að ræða alvarlegt kynferðislegt ofbeldi, hrottalega líkamsárás og frelsissviptingu. Atlagan hafi verið sérlega hrottafengin. Brotin séu gróft brot gegn persónu, friði og frelsi Y og óvíst hvort hún muni nokkru sinni ná sér að fullu. Krafist sé bóta fyrir brot sem muni hafa mjög mikil áhrif á andlega og þar með líkamlega heilsu konunnar um ókomna framtíð. Um lagarök er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993.

Í vottorði Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings er lagt mat á sálræn einkenni og líðan Y. Í samantekt kemur fram að allt viðmót Y bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og niðurlægingu í kjölfar líkamsárásar. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýni að Y þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar árásarinnar. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem séu þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið Y miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakar­kostnað að fjárhæð 505.377 krónur. Þá greiði hann fyrir vinnu sálfræðings vegna vottorðs á dskj. nr. 8 samtals 63.000 krónur. Hann greiði 221.802 krónur í þóknun vegna verjandastarfa Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns á rannsóknarstigi málsins. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Loks greiði ákærði tildæmd málsvarnar­laun og þóknun réttargæslumanns brotaþola, hvorutveggja að viðbættum virðis­aukaskatti, sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari.

Héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Arngrímur Ísberg og Greta Baldursdóttir kváðu upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fimm ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða í 53 daga.

Ákærði greiði Y, 1.500.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. desember 2006 til 9. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 1.567.059 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 492.024 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdóms­lögmanns, 284.856 krónur.