Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2006


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Sakarskipting
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. febrúar 2007.

Nr. 370/2006.

Kristinn Jónsson

(Örn Höskuldsson hrl.)

gegn

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins bs.

(Kristín Edwald hrl.)

og gagnsök

 

 Skaðabætur. Líkamstjón. Sakarskipting. Sératkvæði.

K slasaðist við vinnu sína hjá S 10. mars 2000 þegar hann ásamt öðrum starfsmanni S var að bera þunga grind með súrefniskútum í gegnum bifreiðageymslu á slökkvistöð S. Þetta þurfti K að gera nokkrum sinnum í hverjum mánuði og fór hann ávallt sömu leið með byrðina. Í umrætt sinn lágu keðjur í gangveginum og hrasaði K um þær þar sem hann gekk afturábak og sá ekki keðjurnar. K krafði S um bætur vegna þess tjóns sem hann varð fyrir. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, sagði að ætla yrði að einhver starfsmaður S hefði skilið keðjurnar eftir á gólfinu. Yrði því að fallast á með K að slysið yrði rakið til atvika sem S bæri bótaábyrgð á. Hins vegar yrði einnig að líta til þess að K þekkti vel til aðstæðna á vinnustaðnum og að honum hefði borið að sýna sérstaka aðgát þar sem hann gekk afturábak með þunga byrði og gat ekki treyst því fyrirfram að engin hindrun væri í gangvegi hans. Þótti því rétt að hvor aðili bæri helming sakar vegna þess tjóns sem K varð fyrir. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júlí 2006. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 4.044.125 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 10. mars 2000 til 5. júlí 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann lægri fjárhæðar með sömu vöxtum. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 9. ágúst 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, að öðru leyti en því að dráttarvextir skulu miðast við þingfestingu máls í héraði, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Eftir þessum úrslitum er rétt að hvor aðili beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndi, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., greiði áfrýjanda, Kristni Jónssyni, 2.022.062 krónur, með 4,5 % vöxtum af 401.479 krónum frá 23. september 2000 til 30. september 2002, en af 2.022.062 krónum frá þeim degi til 28. september 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað er staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Eins og fram kemur í héraðsdómi varð aðaláfrýjandi fyrir slysinu í bifreiðageymslu á slökkvistöð gagnáfrýjanda og voru oft fleiri en ein bifreið þar samtímis. Á þessum vinnustað starfa margir og hraði hlýtur oft að einkenna störf sem þar eru unnin. Aðaláfrýjandi hafði unnið hjá slökkviliðinu um áratuga skeið og hafði í um það bil tvö ár áður en slysið varð meðal annars annast ýmis verk sem tengdust þjónustu við sjúkra– og slökkvibifreiðar og þá sem á þeim störfuðu. Hann þekkti því vel til allra aðstæðna á slysstað. Eins og nánar greinir í héraðsdómi varð slysið er aðaláfrýjandi og annar starfsmaður voru að flytja um 90 til 100 kg þunga grind með tómum súrefniskútum út úr bifreiðageymslunni, en það þurfti aðaláfrýjandi að gera nokkrum sinnum í hverjum mánuði. Ætíð mun hafa verið gengin sama leið með byrðina og samkvæmt framlögðum teikningum var sú leið ekki löng en þröng að hluta. Aðaláfrýjandi var sjálfráður um verkið en þurfti ávallt að kalla eftir aðstoð annarra starfsmanna við burðinn. Hann og aðstoðarmaður hans umrætt sinn héldu hvor um sinn enda grindarinnar og gekk aðaláfrýjandi afturábak. Fram er komið að keðjur þær sem hann hrasaði um máttu vera þeim sýnilegar sem gengu þarna um gólfið, en aðaláfrýjandi kannaði ekki áður en lagt var af stað hvort keðjur eða aðrar hindranir væru á gangveginum, þótt honum hafi verið það í lófa lagið. Samkvæmt framlögðum gögnum frá Veðurstofu Íslands var snjólag á jörðu í Reykjavík á slysdag og daginn fyrir slysið 15-20 cm og tíðarfar nokkuð rysjótt. Í því ljósi mátti búast við að setja þyrfti keðjur undir bifreiðar sem í bifreiðageymslunni voru eða taka af þeim eftir því sem aðstæður kölluðu á. Samkvæmt framanrituðu verður það ekki talið til marks um sérstakt hirðuleysi samstarfsmanna gagnáfrýjanda að keðjur lágu á gólfi bifreiðageymslunnar einmitt á þeim tíma er aðaláfrýjandi átti leið þar um með byrði sína með þeim hætti sem áður er lýst. Þá verður ekki talið að slíkur skortur sé á upplýsingum frá gagnáfrýjanda um málsatvik að áhrif eigi að hafa á niðurstöðu málsins. Þegar litið er til framanritaðs verður ekki talið að aðaláfrýjandi hafi fært sönnur á að slysið hafi orðið með þeim atvikum að fellt geti fébótaábyrgð á gagnáfrýjanda. Samkvæmt því tel ég að sýkna eigi gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda og fella málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti á aðaláfrýjanda.

 

                                           Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 31. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Kristni Jónssyni, Barðaströnd 2, Seltjarnarnesi, gegn Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til réttargæslu með stefnu áritaðri um birtingu 23. september 2004.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 4.044.125 kr. með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. 1aga nr. 50/1993 frá slysdegi 10. mars 2000 til 1. júlí 2003 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þess er krafist að vöxtum verði bætt við höfuðstól á 12 mánaða fresti.

Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda lægri fjárhæð með sömu vöxtum og í aðalkröfu.

Í báðum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað ásamt virðisaukaskatti en stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur. Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. Til vara gerir stefndi þær dómkröfur að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.

Málsatvik

Stefnandi var starfsmaður stefnda Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Hinn 10. mars 2000 var stefnandi ásamt verkstæðisformanni bílaverkstæðis Slökkvistöðvarinnar, Benedikt Harðarsyni, að bera járngrind með súrefniskútum út í sendiferðabifreið sem stóð fyrir utan slökkvistöðina. Járngrind  þessi var um 1 metri á kant með handföngum á gagnstæðum hliðum. Grindin vó 90 – 100 kg með kútunum en hún rúmar 12-15 súrefniskúta. Báru þeir grindina með þeim hætti að hvor þeirra um sig hélt í handföng á gagnstæðum hliðum hennar og gekk Benedikt áfram, en stefnandi afturábak. Leið þeirra lá um bílskúr stöðvarinnar en þar féll stefnandi um dekkjakeðjur sem lágu þar á gólfi. Stefnandi féll aftur fyrir sig og fékk grindina yfir sig. Hvorugur þeirra sá eða vissi af keðjunum sem skildar höfðu verið eftir á gólfinu í gangveginum sem þeir þurftu að fara með grindina. Stefnandi slasaðist við þetta á öxl. Stefnandi leitaði samdægurs til trúnaðarlæknis slökkvistöðvarinnar, Helga Guðbergssonar, sem taldi eftir skoðun ekki ástæðu til myndatöku eða vísunar til sérfræðings. Stefndi tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins um slysið 13. mars 2000. Engin rannsókn fór fram á tildrögum slyssins af þess hálfu.

Tæpu ári eftir slysið, 22. febrúar 2001, leitaði stefnandi til Ágústs Kárasonar bæklunarskurðlæknis. Stefnandi fór í aðgerð á öxl 9. mars 2001 og aftur í september 2001.

Sigurjón Sigurðsson læknir mat líkamstjón stefnanda og skilaði matsgerð 11.  febrúar 2004. Niðurstöður hans voru þær að tímabundið atvinnutjón stefnanda væri 7 mánuðir, þjáningatímabil teldist vera frá 10. mars 2000 til 30. september 2002. Stöðugleikapunkt taldi hann vera 30. september 2002. Þá taldi matsmaðurinn varanlegan miska stefnanda vera 20% og varanlega örorku 25%.  

Þá liggur fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna, þeirra Stefáns Dalberg bæklunarlæknis og Páls Sigurðssonar prófessors, dags. 24. maí 2005, sem staðfestir í öllum atriðum niðurstöðu matsgerðar Sigurjóns Sigurðssonar læknis.

Þegar slysið varð var stefndi með í gildi frjálsa ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda. Stefndu hafna því að tjón stefnanda verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda og hefur réttargæslustefndi því ekki fallist á að stefnanda yrðu greiddar bætur úr ábyrgðartryggingunni.

Málsástæður og lagarök stefnanda 

Stefnandi byggir á því að hann hafi slasast alvarlega í fyrrgreindu vinnuslysi. Hann eigi enga sök á slysinu og verði engum um það kennt nema þeim sem skildi keðjurnar eftir á gólfinu umrætt sinn. Engin rannsókn hafi farið fram á slysinu eða tildrögum þess og sé því gert ráð fyrir að einhver starfsmaður Slökkviliðsins hafi skilið keðjurnar eftir á gólfinu. Mátti stefnandi treysta því að engin fyrirstaða væri á gólfinu sem hann og gerði og verkstæðisformaðurinn einnig. Beri stefndi húsbóndaábyrgð á því að einhver starfsmanna hafi skilið keðjurnar eftir umrætt sinn. Sú aðferð sem notuð var við að flytja kassann með súrefniskútunum sé og hættuleg enda hafi verið tekin upp önnur vinnubrögð eftir slysið. Verði ekki fallist á að stefndi beri húsbóndaábyrgð á slysinu kunni hann að bera ábyrgð sem eigandi fasteignarinnar.

 Stefnandi, sem kominn sé á eftirlaun, hafði hugsað sér að vinna við smíðar en geti það ekki vegna afleiðinga slyssins. Um afleiðingar slyssins á heilsu og lífsgæði stefnanda er vísað til örorkumats Sigurjóns Sigurðssonar.

Dómkröfur stefnanda sundurliðast svo:

Tímabundið atvinnutjón kr. 242.896 x 7 mán.

Kr.    1.700.272

Til frádr. greiðsla frá lífeyrissj. kr. 1.143.801 x 60%

-         686.281

Til frádr. greiðsla frá Tryggingast. Ríkisins

-         211.032

Alls

           802.959

 

 

Þjáningabætur hámark 200.000 ÷3282 x 4632

kr.      282.300

Varanlegur miski  5.166.500 x 20%

-      1.033.300 

Varanleg örorka kr. 3.129.927 x 4942 x 25%

-      3.867.297

Til frádr.greiðsla frá Tryggingast. Ríkisins

-         429.476

Til frádr. ½  greiðslna úr samningsbundnum slysatr

.-       1.512.256

 

kr.    4.044.124

              

Í kröfugerðinni séu laun stefnanda árin 1997-1999, að viðbættu 6% framlagi  vinnuveitanda í lífeyrissjóð, notuð sem tekjuviðmiðun. Launin séu verðbætt samkvæmt launavísitölu júnímánaðar hvers árs til september 2002. Aðeins helmingur samningsbundinna slysatrygginga sé dreginn frá þar sem Landssamband slökkviliðsmanna hafi greitt helming iðgjalda og sé því tryggingataki til hálfs.

Stefnandi vísar til almennu skaðabótareglunnar og skaðabótalaga nr.

50/1993 með áorðnum breytingum. Um fjárhæð tjóns vísar stefnandi til 5. gr., 6.gr. og 2. mgr. 7. gr. svo og 16. gr. laganna. Um dráttarvexti vísar stefnandi til 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda

I.    Aðalkrafa

Stefndi byggir á því að um ábyrgð stefnda fari samkvæmt almennu skaðabótareglunni (sakarreglunni). Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda þar sem tjónið verði ekki rakið til atvika sem hann beri ábyrgð á að lögum. Orsök tjónsins sé að rekja til óhappatilviljunar og/eða eigin sakar stefnanda.

 Stefndi byggir á því að stefnandi hafi þekkt vel til aðstæðna á slökkvistöðinni enda búinn að vinna hjá slökkviliðinu um áratuga skeið. Stefnandi hafði margoft borið súrefnisgrindur þá leið sem farin var. Honum hafi verið kunnugt um að keðjur væru tíðum losaðar af slökkvibílum og geymdar á gólfi upp við vegg í slökkvistöðinni, á þeirri leið sem stefnandi fór umrætt sinn, enda tíðarfarið með þeim hætti að setja þurfti keðjur undir ef hálka var á vegum. Stefnanda bar því að fylgjast vel með því hvort keðjur eða aðrar hindranir væru í gangveginum, einkum í ljósi þess að hann gekk afturábak með þunga byrði. Þegar gengið sé afturábak beri mönnum að sýna sérstaka aðgæslu enda aldrei að vita hvað fyrir fætur ber. Stefnandi hafi alls ekki getað gengið út frá því í blindni að gólf væru algerlega auð og án nokkurra hindrana þarna inni. Það hafi verið vítavert af stefnanda að líta ekki um öxl og niður fyrir fætur sér. Stefnandi hafi því sjálfur sýnt af sér saknæma háttsemi og verði að sæta niðurfalli bóta á grundvelli eigin sakar vegna þess.

Þá byggir stefndi á því að ekki sé fyrir að fara saknæmri háttsemi hjá sér eða þeim sem stefndi beri ábyrgð á að lögum. Samstarfsmaður stefnanda, Benedikt Harðarson, hafi ekki orðið keðjanna var og verði tjónið því ekki rakið til saknæmrar háttsemi af hans hálfu. Þá verði tjónið heldur ekki rakið til saknæmrar háttsemi af hálfu þess starfsmanns sem skildi keðjurnar eftir enda alvanalegt á þessum vinnustað að gera slíkt. Loks hafi aðferðin sem beitt var við burðinn ekki verið hættuleg, ef rétt var farið að. Stefndi beri því ekki ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglna um húsbóndaábyrgð. Stefndi beri heldur ekki ábyrgð á tjóni stefnanda „sem eigandi fasteignarinnar“, enda hafi stefnandi í engu haldið fram eða sýnt fram á í málatilbúnaði sínum í stefnu að fasteignin hafi verið vanbúin á nokkurn hátt. Stefndi áréttar að hann verði ekki látinn bera skaðabótaábyrgð á grundvelli hlutlægra skaðabótareglna.  

Stefndi hafi tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins um óhappið 13. mars 2000, en á honum hafi ekki hvílt tilkynningarskylda á grundvelli reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa enda hafi óhappið ekki valdið fjarveru frá vinnu í einn eða fleiri daga, sbr. 2. gr. reglnanna, og ekki mátti ætla, eftir skoðun Helga Guðbergssonar læknis samdægurs, að áverkar sem kynnu að hljótast af óhappinu gætu valdið langvinnu eða varanlegu heilsutjóni, sbr. 3. mgr. 1. gr. reglnanna. 

Það sé ekki við stefnda að sakast um það að Vinnueftirlitið rannsakaði ekki tildrög óhappsins og ekki hafi hvílt skylda á honum sjálfum að rannsaka tildrögin. Auk þess séu málsatvik að fullu ljós. Hafi skortur á rannsókn því ekki áhrif á sönnunarstöðu í málinu og gildi því almennar reglur skaðabótaréttarins um að tjónþoli hafi sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði bótaskyldu séu uppfyllt.

II.   Varakrafa

Ef ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda er gerð varakrafa um lækkun bóta byggð á því að bætur eigi að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda. Er vísað til þess sem fyrr segir um eigin sök stefnanda eftir því sem við á.

Því er mótmælt að krafa stefnanda um bætur vegna varanlegrar örorku beri vexti frá fyrra tímamarki en stöðugleikapunkti, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga.

Þá er því mótmælt að skaðabótakrafa stefnanda beri dráttarvexti frá fyrra tímamarki en dómsuppsögudegi. Loks byggir stefndi á því að vextir sem féllu fjórum árum fyrir birtingu stefnu í málinu, þ.e. 23. september 2000 eða fyrr, séu fyrndir, sbr. 2. tölul. 3. gr. og 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Varðandi lagarök vísar stefndi einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra reglna skaðabótaréttar um saknæmi, orsakasamhengi, sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola, reglna nr. 612/1989 um tilkynningu vinnuslysa, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Svo sem fram er komið slasaðist stefnandi við vinnu sína hjá stefnda 10. mars 2000 þegar hann ásamt öðrum starfsmanni stefnda var að bera þunga grind með súrefniskútum. Þeir gengu með þessa grind, sem vegur um 100 kg, við þröngar aðstæður og gekk stefnandi afturábak. Í gangveginum lágu keðjur, sem hvorugur þeirra sá, stefnandi datt um keðjurnar og fékk grindina yfir sig. Við slysið varð stefnandi fyrir meiðslum í hægri öxl, sem m.a. hefur leitt til 25% varanlegrar örorku samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna.

      Ekki liggur fyrir hver skildi keðjurnar eftir á þessum stað, en stefnandi segir að keðjurnar eigi ekki að liggja á gólfinu heldur vera hengdar upp á snaga á vegg innar í stöðinni. Ljóst er að starfsmenn geta þurft að bregðast skyndilega og skjótt við vegna útkalls hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem getur skýrt það að keðjurnar voru á gólfinu en hafði ekki verið komið fyrir á sínum stað. Um þetta atriði liggja þó engar upplýsingar fyrir en ætla verður að einhver starfsmaður stefnda hafi skilið keðjurnar eftir á gólfinu. Verður því fallist á með stefnanda að slysið verði rakið til atvika sem stefndi beri bótaábyrgð á. Hins vegar verður einnig að líta til þess að stefnandi þekkti vel til aðstæðna á vinnustaðnum og honum bar að sýna sérstaka aðgát vegna þess að hann gekk afturábak með þunga byrði og hann gat ekki treyst því fyrirfram að engin hindrun væri í gangvegi hans. Þykir hann því sjálfur eiga einnig sök á slysinu. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri helming sakar vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir við slysið.

Bótakrafa stefnanda er studd við framlagðar matsgerðir varðandi líkamstjón af völdum slyssins. Hefur tölulegur útreikningur dómkröfunnar ekki sætt andmælum af hálfu stefnda, sem taka ber til greina í samræmi við greinda sakarskiptingu. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda 2.022.062 kr. í bætur. Við ákvörðun vaxta og dráttarvaxta af bótafjárhæð er, auk laga nr. 14/1905 um fyrningu, tekið mið af 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, eins og í dómsorði greinir. 

Þá ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst  350.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, greiði stefnanda, Kristni Jónssyni, 2.022.062 kr., með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, af 401.479 kr.  frá 23. september 2000 til 30. september 2002, af 2.022.062 kr. frá þeim degi til 11. mars 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 350.000 kr. í málskostnað.