Hæstiréttur íslands

Mál nr. 576/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 27

 

Mánudaginn 27. október 2008.

Nr. 576/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

 

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 23. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 30. október 2008 klukkan 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili lýsti yfir kæru við uppkvaðningu úrskurðarins. Litið verður svo á að hann hafi kært úrskurðinn í því skyni að hann yrði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Gæsluvarðhaldskrafa sóknaraðila er studd við a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt þessari lagaheimild verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við. Grunur á hendur varnaraðila styðst samkvæmt gögnum málsins eingöngu við óformlegar skýrslur um samtöl við stjúpdóttur hans, sem er sögð bera á hann þær alvarlegu sakir sem í úrskurði héraðsdóms greinir. Engar skýrslur hafa verið teknar fyrir dómi eða hjá lögreglu af öðrum en varnaraðila um þær. Er við svo búið ekki unnt að fallast á með sóknaraðila að fram sé kominn grunur sem talist getur rökstuddur með þeim hætti sem felst í nefndri lagaheimild. Er því óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 23. október 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [heimilisf.], Reykja­vík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 30. október nk. til kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að með bréfi Barnaverndar Reykjavíkur, dagsettu 22. október sl., hafi þess verið farið á leit við lögregluna á höfuðborgar­svæðinu að hún rannsakaði meint kynferðis- og ofbeldisbrot kærða gegn stjúpdóttur sinni A, kt. [...].

Í bréfinu sé vísað til samtals A við námsráðgjafa í skóla hennar, þar sem hún hafi borið mjög alvarlegar sakir á kærða. Kvað hún kærða hafa beitt sig bæði kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi. Þá kvað hún kærða jafnframt hafa hótað móður hennar lífláti ef hún segði frá því sem gerst hefði.

Starfsmenn barnaverndar hafi rætt við A í skólanum 21. október sl. Hafi hún m.a. greint þeim frá því að stjúpi hennar hefði „nauðgað“ henni tvisvar sinnum. Nánar spurð kvað hún nauðgun vera „þegar kynlíf væri stundað gegn vilja annars aðilans.“ Þá lýsti hún hótunum kærða um líkamsmeiðingar og líkamlegu ofbeldi gegn henni. Á sameiginlegu heimili kærða og A búi hálfsystir hennar, B, sem sé ári eldri en hún. A kvaðst ekki vita hvort að hún hefði sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu kærða. Hins vegar komi fram í ofangreindu bréfi Barnaverndar Reykjavíkur að telpan hefði sagt námsráðgjafa skólans frá því að hún hefði heyrt að eldri hálfsystir hennar, C 16 ára, hefði sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu kærða. Kvað hún C stundum skaða sjálfa sig með því að skera sig.

Telja verði að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið alvarleg brot gegn stjúpdóttur sinni A, sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Brotin séu talin varða við 1. og 2. mgr. 201. gr.,  1. og 2. mgr. 202. gr. og 217. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. laganna.

Rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarð­haldi. Málið sé á frumstigi og verði nú m.a. óskað eftir skýrslutöku af A fyrir dómi en að auki muni hún gangast undir læknisskoðun. Þá muni fara fram könnunarviðtöl í Barnahúsi af hálfsystrum hennar. Afar mikilvægt sé að kærði geti ekki náð til Ar eða annarra vitna á meðan mál þetta sé á svo viðkvæmu stigi enda hætt við að hann muni þá torvelda rannsókn þess, sbr. a- lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærði neitar sök í máli þessu. Eins og fram kemur í greinargerð lögreglu er mál þetta á frumstigi og eftir er að taka skýrslu af kæranda og einnig eru ráðgerð könnunarviðtöl í Barnahúsi af hálfsystrum hennar. Þau brot sem kærði er sakaður um eru mjög alvarleg og geta varðað allt að 16 ára fangelsi. Telja verður að hætta sé á því að kærði geti spillt fyrir rannsókn málsins ef hann gengur laus. Samkvæmt því og með vísan til rannsóknargagna og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þykir rétt að taka kröfu lögreglu­stjórans á höfuðborgarsvæðinu til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki eru efni til að gæsluvarðhaldinu sé markaður skemmri tími en krafist er.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæslu­varðhaldi allt til fimmtudagsins 30. október nk. kl. 16:00.