Hæstiréttur íslands
Mál nr. 317/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 13. júní 2006. |
|
Nr. 317/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans væri ólokið, þó ekki lengur en til föstudagsins 21. júlí 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að gögn málsins beri með sér að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa átt þátt í innflutningi á umtalsverðu magni hættulegra fíkniefna, þannig að varðað geti við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot á þeirri lagagrein varðar allt að 12 ára fangelsi. Með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður staðfest að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006.
Lögreglustjóri hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 21. júlí 2006, klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki meint fíkniefnabrot kærða sem varði innflutning á miklu magni af amfetamíni til landsins sem meðkærði, A, hafi flutt til landsins frá Litháen þann 4. febrúar sl. gegn greiðslu að beiðni óþekkts manns í Litháen. Lögregla hafi lagt hald á efnið sem reynst hafi vera í vökvaformi og hafi því verið komið fyrir í flöskum sem meðkærði kvaðst hafa átt að afhenda viðtakanda hér á landi.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá lyfjafræðistofnun Háskóla Íslands liggi fyrir að hið haldlagða fíkniefni hafi reynst vera 1,745 lítri af amfetamínvökva sem hafi vegið 1.619 g. Styrkleiki vökvans úr annarri flöskunni hafi verið 77% amfetamínbasi af þunga sýnis en í hinni 89%. Samanlögð þyngd efnisins í duftformi sem amfetamínsúlfat sé 1.813 g en efnið hafi þá náð 100% styrkleika. Samsvari innihald beggja flasknanna um 13,3 kg af amfetamíndufti með 10% styrkleika en það sé algengur styrkleiki amfetamíns í útþynntum neysluskömmtum.
Kærði neiti sök og segist enga aðild hafa átt að innflutningi fíkniefnanna. Kærði hafi verið missaga og framburður hans hvorki í samræmi við framburði annarra né gögn málsins. Fyrir liggi að kærði hafði í desember sl. hitt meðkærða hér á landi og móttekið frá honum svipaðar flöskur sem taldar séu hafa innihaldið sams konar fíkniefni. Gagna hafi verið aflað sem staðfesti að kærði hafi greitt fyrir hluta þeirrar ferðar fyrir meðkærða. Meðkærði hafi þekkt kærða við myndsakbendingu þann 23. febrúar sl. og hann hafi greint frá því að hann hafi ekki haft fullkomna vitneskju um hvern hann hafi átt að hitta í síðari ferðinni í því skyni að afhenda flöskurnar en einhver hér á landi hafi átt að hafa símasamband við hann eftir komuna til landsins og hafi hann allt eins átt von á því að það yrði kærði, m.a. vegna samtals þeirra við lok fyrri ferðarinnar. Lögregla hafi aflað upplýsingar um fjölda innhringinga í síma meðkærða úr tilteknu íslensku óskráðu gsm frelsisnúmeri sama dag og hann hafi verið handtekinn þann 4. febrúar sl. Fyrir liggi símagögn sem sýni að sama óskráða frelsisnúmer hafi hringt margoft í tiltekið símanúmer óþekkts aðila í Litháen á tímabilinu frá 19. janúar til 6. febrúar sl. Umrætt símanúmer í Litháen sé sama símanúmer og meðkærði hafi verið með skráð í minni í farsíma sínum, sem lögreglan hafi lagt hald á, en fram hafi komið hjá meðkærða að umrætt símanúmer sé númer þess manns sem hafi afhent honum flöskurnar í Litháen í bæði skiptin. Kærði neiti að vera notandi umrædds frelsisnúmers en fyrir liggi að lögregla hafi rakið símanúmerið til kærða vegna flugmiðakaupa hans hjá Icelandair í janúar sl. fyrir erlendan mann þar sem símanúmerið hafi verið skráð sem símanúmer kaupanda flugmiðans. Einnig liggi fyrir upplýsingar frá Landssíma Íslands hf. sem sýni að staðsetningar símtækis með hinu óskráða frelsisnúmeri, á tímabilinu frá 19. janúar til 6. febrúar sl., passi að mestu við staðsetningar annars símtækis sem kærði hafi viðurkennt að vera rétthafi að. Alþekkt sé að brotamenn noti fleiri en eitt símtæki og símanúmer, óskráð, til að dylja slóð sína. Þann 13. febrúar sl., við leit á heimili kærða, hafi lögregla lagt hald á minnismiða með leiðbeiningum um gerð amfetamíns. Útskýringar kærða á minnismiðanum þyki ekki standast.
Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið fyrir innflutningi hins haldlagða amfetamíns með samskiptum við sendanda efnisins í Litháen og að kærði hafi átt að móttaka efnið hér á landi frá meðkærða. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar á grundvelli almannahagsmuna, sbr. síðast úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-243/2006, sbr. áður dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 154/2006.
Kærði þyki hafa gegnt verulegu hlutverki í brotinu og sé um að ræða mikið magn sterks og hættulegs fíkniefnis sem mögulegt hefði verið að margfalda með frekari meðferð á því. Nær öruggt þyki að fíkniefnið hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki þannig mjög alvarlegt og einnig með hliðsjón af því að rökstuddur grunur þyki fyrir hendi um að kærði hafi með sama hætti komið að sams konar innflutningi fíkniefna í desember sl. Brotavilji kærða þyki þannig vera einbeittur. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði og reikna með að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings, sbr. danska fræðiritið Straffeprocess, eftir prófessor Eva Smith, útgefið 2003, bls. 81.
Unnið sé að lokafrágangi og gerð greinargerðar rannsóknara skv. 1. mgr. 77. gr. laga um meðferð opinberra mála. Stefnt sé að því að senda málið ríkissaksóknara til ákærumeðferðar á næstu dögum.
Lögreglan kveður sakarefnið vera talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001. Um heimild fyrir gæsluvarðhaldi er vísað til 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Samkvæmt fyrirliggjandi rannsóknargögnum þykir kærði vera undir rökstuddum grun um brot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Fram er komið að unnið sé að lokafrágangi rannsóknar málsins og mun málið sent ríkissaksóknara til ákærumeðferðar á næstu dögum. Eðli hins meinta brots og umfang þess telst slíkt að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þykja skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera uppfyllt og ber því að taka kröfu lögreglustjórans í Reykjavík til greina eins og hún er fram sett.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 21. júlí 2006, klukkan 16:00.