Hæstiréttur íslands

Mál nr. 573/2015

Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)
gegn
Stefáni Frey Thordersen (Jóhann H. Hafstein hrl.)

Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Skaðabætur

Reifun

S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa skallað A í andlitið. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að árás S hefði verið fólskuleg og beinst að ölvuðum og blóðugum manni, sem var illa leikinn eftir undanfarandi árás af hendi annarra ákærðu í héraði. Á hinn bóginn var litið til þess að S hafði ekki áður hlotið refsidóm og að nokkur dráttur hafði orðið á útgáfu ákæru af ástæðum sem S yrði ekki kennt um. Var refsing S ákveðin fangelsi í 60 daga en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var S, ásamt öðrum ákærðu í héraði, gert að greiða A sameiginlega samtals 423.056 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, til vara að refsing verði felld niður, en að því frágengnu að hún verði milduð frá því sem ákveðið var í héraði. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að dæmd fjárhæð verði lækkuð.

Brotaþoli, A, hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því að líta svo á að hann krefjist þess að ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.

I

Í lögregluskýrslu, sem gerð var árla morguns 9. júní 2013, var því lýst að skömmu fyrir klukkan 3.30 þá um nóttina hafi borist tilkynning um að slagsmál hafi brotist út á bifreiðastæði við tiltekinn söluturn í Reykjanesbæ og hafi nokkur fjöldi lögreglumanna farið á vettvang. Þar hafi Y átt í átökum við fyrrnefndan brotaþola og þeir verið skildir að. Y hafi kveðið brotaþolann hafa með tilteknum hætti átt upptök að slagsmálum, en sagst hvorki hafa kýlt brotaþolann né vita hver hafi veist að honum. Haft var eftir brotaþolanum, sem var sagður „mikið blóðugur í andliti og í annarlegu ástandi“, að vinur Y að nafni Z hafi kýlt sig í andlitið. Hafi brotaþolinn verið með miklar blóðnasir og virst sem nef hans væri brotið, en hann hafi ekki viljað frekari aðstoð lögreglu og félagi hans ætlað að aka honum á sjúkrahús. Þeir hafi haldið á brott, en lögreglumenn svo séð ákærða koma úr gagnstæðri átt og ganga „stöðvunarlaust ... með höfuð sitt í andlit“ brotaþolans. Ekki hafi verið um þungt högg að ræða, en sökum þess að sá síðastnefndi hafi verið „með mikla áverka eftir fyrri líkamsárásina“ hafi blætt töluvert úr nefi hans. Ákærði hafi verið handtekinn, en sjúkrabifreið fengin til að flytja brotaþolann á sjúkrahús.

Að lokinni rannsókn höfðaði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu mál þetta með ákæru 13. janúar 2015 á hendur ákærða, áðurnefndum Y og Z, svo og X, þar sem þeir voru bornir sökum um að hafa í félagi ráðist fyrrgreinda nótt á brotaþolann. Hafi X og Y hvor um sig slegið hann í andlitið og Z gert það sama nokkrum sinnum, en ákærði skallað hann eitt sinn í andlitið. Af þessu hafi brotaþolinn nefbrotnað og hlotið glóðarauga, fjölda yfirborðsáverka í andliti, eymsl yfir kjálkaliðum og mar á upphandlegg, en háttsemi ákærða og hinna mannanna þriggja var talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fyrir dómi neituðu þeir allir sök, en með hinum áfrýjaða dómi voru þeir sakfelldir samkvæmt ákæru, þó þannig að háttsemi X, Y og Z var færð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði var á hinn bóginn talinn einn hafa orðið valdur að broti á nefbeini brotaþolans og var verknaður hans á þeim grunni heimfærður til 1. mgr. 218. gr. sömu laga. Allir voru þeir dæmdir til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar, X og Y þrjátíu daga hvor en Z og ákærði í sextíu daga, auk þess sem þeim var í sameiningu gert að greiða brotaþolanum 423.056 krónur í skaðabætur, svo og allan sakarkostnað. X, Y og Z hafa unað þeirri niðurstöðu.

II

Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að sannað væri með framburði vitna, einkum tveggja nafngreindra lögreglumanna sem staddir hafi verið á vettvangi, að ákærði hafi áðurgreinda nótt gengið viðstöðulaust að brotaþola og skallað hann í andlitið, en þetta hafi þó ákærði ekki gert í félagi með áðurnefndum X, Y og Z. Með vísan til forsendna dómsins um þetta verður sú niðurstaða staðfest.

Svo sem ráðið verður af áðursögðu varð brotaþolinn fyrir líkamsárás í tveimur aðskildum lotum, fyrst af hendi X, Y og Z í sameiningu en síðan af hendi ákærða. Í fyrrgreindri frumskýrslu lögreglu vegna málsins var ástandi brotaþolans eftir fyrri árásina lýst þannig að hann hafi verið mjög blóðugur í andliti, með miklar blóðnasir og virst vera nefbrotinn. Vegna þessara miklu áverka hafi högg, sem ákærði veitti síðan brotaþolanum með því að skalla hann í andlitið, valdið töluverðri blæðingu úr nefi þótt höggið hafi ekki verið þungt. Fyrir dómi sagðist brotaþolinn hafa fundið eftir fyrri árásina til sársauka „bara eiginlega í öllu andlitinu, aðallega í nefinu og í tönnunum, mikið í báðum kjálkunum“ og hafi blætt mjög mikið úr andlitinu. Hann hafi fundið til verkja í nefinu strax eftir fyrri árásina en síðan meira eftir atlögu ákærða. Allir árásarmennirnir fjórir hafi beint höggum að andliti hans, en hann gerði sér ekki grein fyrir því hvort hann hafi nefbrotnað í fyrri árásinni eða þeirri síðari. Vitnið G kvað brotaþolann hafa gengið að sér eftir fyrri árásina og hafi hann verið „alblóðugur í framan“ og vitnið séð að „nefið hans var skakkt“. Vitnin H og I lýstu því bæði að brotaþolinn hafi verið blóðugur í andliti eftir fyrri árásina, en vitnið J, sem var í fylgd brotaþolans, kvað hann hafa í þeirri árás fengið „alveg slatta“ af hnefahöggum í andlitið og hafi verið „bara allt í blóði“ þannig að ekki hafi verið unnt að greina hvar hann hafi hlotið áverka. Þá lýsti lögreglumaðurinn, sem ritaði áðurnefnda frumskýrslu vegna málsins, því fyrir dómi að brotaþolinn hafi verið blóðugur í andlitinu og illa leikinn eftir fyrri árásina.

Þegar framangreint er virt er ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að brotaþolinn hafi hlotið brot á nefi í árásinni, sem hann varð fyrir af hendi ákærða, fremur en í undanfarandi árás X, Y og Z. Verður því að heimfæra verknað ákærða til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að árás þessi var fólskuleg og beindist að ölvuðum og blóðugum manni, sem var illa leikinn eftir fyrri árás af hendi annarra. Að gættu þessu ásamt því, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi í tengslum við ákvörðun refsingar ákærða, verður niðurstaða dómsins um hana látin standa óröskuð.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað verða staðfest. Um áfrýjunarkostnað fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en málsvarnarlaun verjanda ákærða eru þar ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Stefán Freyr Thordersen, greiði að ⅔ hlutum áfrýjunarkostnað málsins, sem samtals er 876.290 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum verjanda hans, Jóhanns H. Hafstein hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 806.000 krónur. Að öðru leyti skal áfrýjunarkostnaður greiddur úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. júní 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. júní 2015, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 13. janúar 2015, á hendur X kt. [...], [...], [...], Y, kt. [...], [...], [...], Z, kt. [...], [...], [...] og Stefáni Frey Thordersen, kt. [...], Krossmóa 3, Reykjanesbæ, „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 9. júní 2013, utan við veitingastaðinn Hlöllabáta við Hafnargötu 12 í Reykjanesbæ, í félagi ráðist á A, Z með því að slá A nokkrum sinnum í andlitið, Y með því að slá A í andlitið og X með því að slá A í andlitið, Stefán Freyr með því að skalla A einu sinni í andlitið, allt með þeim afleiðingum að A hlaut nefbeinabrot, glóðarauga á hægra auga, fjölda yfirborðsáverka í andliti, eymsli yfir kjálkaliðum og mar á vinstri upphandlegg.“ Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í málinu liggur fyrir bótakrafa Ómars Arnars Bjarnþórssonar hdl., fyrir hönd A brotaþola, og er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum, in solidum, bætur að fjárhæð 1.620.777 krónur að viðbættum dráttarvöxtum frá þeim tíma er mánuður er liðinn frá því að krafa þessi var kynnt kærðu, skv. IV kafla laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. laganna. Einnig að kærðu verði gert að greiða lögmannskostnað A, sbr. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Allir verjendur lögðu fram greinargerðir í málinu. Að hálfu X, Y og Z var krafist frávísunar málsins á þeim grundvelli að ákæran uppfyllti ekki ákvæði c-liðar 1. mgr. 152. gr. og 180. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt 2. mgr. 181. gr. sömu laga var felldur úrskurður um þá kröfu þann 12. mars sl., á þá leið að hafnað var kröfu um frávísun málsins. Til vara kröfðust þeir sýknu og til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti.

Ákærði Stefán Freyr krafðist þess aðallega að verða sýknaður af refsikröfu, til var að refsing verði felld niður og til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa og að

 Í öllum tilfellum var þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda.

I

Málsatvik

Í gögnum málsins kemur fram að brotaþoli hafi mætt á lögreglustöð þann 4. júlí 2013 og lagt fram kæru á hendur fjórum nafngreindum mönnum, ákærðu þessa máls. Upphaf málsins megi rekja til þess að brotaþoli slær ákærða Y á veitingastaðnum Ungó í Reykjanesbæ. Að einhverjum tíma liðnum sömu nótt, fyrir utan Hlöllabáta í Reykjanesbæ, hafi ákærði Z vinur Y, slegið brotaþola og einnig hafi annar vinur Y, ákærði X, og ákærði Y slegið hann. Að sögn brotaþola mun ákærði Z hafi slegið hann oft, meðal annars meðan hann hafi staðið með hendur fyrir aftan bak. Þegar brotaþoli hafi síðan ætlað að yfirgefa staðinn hafi komið að ákærði Stefán, sem einnig er vinur ákærða Y, og skallað brotaþola í andlitið.

Skýrslur voru teknar af öllum ákærðu hjá lögreglu og vitnum. Ákærðu, sem allir neituðu sök hjá lögreglu, báru að brotaþoli, sem hafi verið ölvaður og æstur, hafi egnt menn til þess að berja sig og bæri hann sök á málum, enda hafi hann fyrst kýlt ákærða Y og þannig stofnað til þess sem á eftir kom. Allir ákærðu báru að áverkar þeir sem voru á brotaþola gætu ekki verið eftir þá.

Í málinu liggja fyrir vitnisburðir nokkurra vitna og sem gáfu skýrslu fyrir dómi, mynddiskur sem sýnir átök og afrit sms-skilaboða en auk þess liggja fyrir læknisvottorð brotaþola, ákærða Y og ákærða Stefáns Freys.

II

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði X kom fyrir dóminn og bar að hafa verið ásamt öðru vinafólki á Ungó í samræðum er brotaþoli hafi verið að gera lítið úr klæðaburði ákærða Y. Hafi það endað með því að brotaþoli hafi kýlt Y í andlitið. Fyrir aftan Hlöllabáta hafi brotaþoli og ákærði Z byrjað í einhverjum stimpingum með ýtingum. Stimpingarnar hafi síðan færst á svæði fyrir framan Hlöllabáta og þá hafi hann og Y einnig verið orðnir þátttakendur. Y hafi haldið utan um brotaþola aftan frá en hann sjálfur hafi bara lagt hönd sína í andlit brotaþola og ýtt honum burtu og sagt við brotaþola að hætta þessu bulli. Hafi hann fyrst og fremst verið að reyna að sætta aðila. Hann hafi ekki séð hvað ákærði Z hafi gert og ekki séð ákærða Y slá brotþola. Spurður um áverka á brotaþola kvaðst ákærði ekki hafa séð nein högg og ekki séð áverka á brotaþola áður en hann fór. Sjálfur hafi hann ekki verið drukkinn og geti ekki svarað til um ástand brotaþola sem hafi verið ógnandi og æstur. Borið undir ákærða afrit sms-skilaboða, staðfesti ákærði að um væri að ræða skilaboð frá honum til brotaþola. Útskýrði hann þau þannig, að þegar fram komi í þeim skilaboðum að hann sé að biðjast afsökunar á því að hafa kýlt brotaþola einu sinni, sé átt við að hann hafi ýtt í brotaþola eins og hann hafi lýst áður. Spurður um það sem fram komi í skilaboðunum, þar sem rætt er um höggið sem ákærði Z hafi veitt brotaþola fyrir aftan Hlöllabáta, bar ákærði að hann hafi heyrt um það degi síðar en hann hafi ekki séð það.

Ákærði Y kom fyrir dóminn og bar að brotaþoli hafi kýlt sig inni á skemmtistaðnum Ungó án tilefnis. Hann hafi orðið pirraður við þetta, enda brotnað framtönn í honum. Einhver rifrildi hafi síðan orðið fyrir utan Hlöllabáta milli hans og brotaþola og ákærða Z. Z hafi slegið til brotaþola einu sinni eða tvisvar. Hafi annað höggið lent í axlarhæð en hitt öðrum megin á höfði hans. Hann hafi ekki séð hvort Z hafi verið með krepptan hnefa. Sjálfur hafi hann slegið brotaþola einu sinni en mundi ekki hvar höggið lenti. Bent á að í lögregluskýrslu komi fram að hann hafi slegið brotaþola með krepptum hnefa hægra megin í höfuðið, taldi ákærði að það gæti verið en hann muni það ekki, en hann hafi ekki verið að segja rangt í lögregluskýrslunni. Sjálfur hafi hann verið búinn að drekka en viti ekki hvernig ástand brotaþola hafi verið. Brotaþoli hafi síðan farið burt en snúið við og hlaupið aftur að þeim ógnandi. Hann hafi þá haldið brotaþola með annarri hendi utan um háls hans og ekki hafi orðið frekari átök. Ákærðu X og Z hafi hjálpað honum að halda brotaþola. Hafi hann ekki séð að neitt annað hafi gerst. Lögreglan hafi komið skömmu eftir þetta og hann þá verið farinn ásamt X og Z. Aðspurður kannaðist ákærði ekki við þá áverka sem hafi reynst vera á brotaþola. Brotaþoli hafi bara verið nokkuð góður, ekki kvartað neitt og ekki litið út fyrir að vera með neitt í andlitinu.

Ákærði Z kom fyrir dóminn og bar að hafa verið að ganga Hafnargötuna og mætt ákærða Y sem hafi verið með blóð á tönnum og upplýsti Y að brotaþoli hafi kýlt hann. Við Hlöllabáta hafi hann ætlað að ræða við brotaþola og spyrja hann hvort hann ætlaði ekki að biðja Y afsökunar á því sem hann hefði gert honum. Brotaþoli hafi hins vegar verið ágengur og ögrandi sem hafi endað með rifrildum þeirra á milli. Hafi það endað í smá-átökum og hann slegið til brotaþola. Hafi annað höggið lent í öxl en hitt með opnum lófa í höfuðið, aðeins fyrir ofan eyrað. Eftir þetta hafi hann og ákærðu Y og X farið inn á Hlöllabáta en brotaþoli komið brjálaður og ætlað inn og sagst ætla að berja þá alla. Fyrir utan hafi brotaþoli síðan hlaupið að þeim og kýlt hann. Y hafi haldið brotaþola og hann sjálfur ýtt í bak brotaþola. Hann hafi lítið séð hvað ákærði X hafi gert annað en að hann hafi ýtt í brotaþola. Brotaþoli hafi aldrei farið í jörðina og eftir þetta hafi átökin verið stöðvuð. Ákærði kannaðist ekki við að áverkar á andliti brotaþola væru eftir hann og hafi hann ekki séð áverka á brotaþola. Borið undir ákærða að í lögregluskýrslu hafi hann sagt að hann hafi slegið brotaþola ofan á höfuðið tvisvar og kannaðist ákærði ekki við það og ekki heldur það sem fram komi í lögregluskýrslu að hann hafi séð þegar ákærði hafi tvisvar verið sleginn í nefið.

Ákærði Stefán Freyr Thordersen kom fyrir dóminn og bar að klukkan rúmlega þrjú um nóttina hafi hann hitt ákærða X sem hafi sagt honum að ákærði Y hafi verið laminn af brotaþola. Ákærði Y sé ekki þekktur fyrir vandræði en brotaþoli sé það. Hafi hann hitt brotaþola við Hlöllabáta og hafi brotaþoli þá verið alblóðugur. Hafi hann gengið að brotaþola, sem hafi gengið á móti honum, og hann ýtt höfðinu í brotaþola, ekki skallað en sett enni í enni eins og gerist í kappleikjum. Hann muni ekki hvort einhver orðaskipti hafi átt sér stað þeirra í milli. Ekkert frekar hafi gerst og hann verið dreginn í burtu. Hann hafi ekki séð hvort blæðing í andliti brotaþola hafi aukist við þetta og ólíklegt sé að áverkar í andliti brotaþola séu eftir hann. Hafi hann verið ölvaður en muni eftir öllu og hafi hringt í brotaþola deginum síðar og beðist afsökunar á þessu, enda ekki talið aðkomu sína alvarlega.

Vitnið A brotaþoli í máli þessu, kom fyrir dóminn og bar hafa verið að rífast við ákærða Y í „Ungó“. Hann hafi slegið Y utan undir, ekki kýlt og ekki séð blóð. Hafi Y þá hringt í vini sína. Við Hlöllabáta hafi hann verið að ganga með kærustu sinni og ákærði Z þá kýlt hann tvisvar í andlitið með krepptum hnefa. Minnti hann að þá hafi sprungið vör. Y hafi síðan tekið hann hálstaki og Z kýlt hann aftur, nokkrum sinnum að hann minnti. Þau högg hafi öll verið í andlitið, nefið og framanvert andlitið. Hann hafi þá dottið niður. X og Y hafi verið fyrir aftan hann og síðan hafi allir ákærðu barið hann og kýlt að hann minnti og hafi það einnig verið í andlitið. Hann geti þó ekki greint nákvæmlega hvar hver sló hann í andlitið, enda atvik í móðu. Hafi hann þá staðið upp og að hann minnti hafi X þá slegið hann aftur. Hann hafi þá sagt að hann vildi ekki slást, sett hendur fyrir aftan bak og ákærði Z þá kýlt hann aftur, nokkrum sinnum að hann minnti. Eftir þetta hafi hann verið að fara burt þegar ákærði Z hafi kallað í hann og hann hlaupið að honum og þeir dottið niður. Í því hafi lögreglan komið og hann gefið skýrslu. Hafi hann verið með áverka eftir þessi átök, aðallega í nefi og tönnum og báðum kjálkum. Hafi blætt mikið. Þegar hann hafi verið að ganga burt hafi ákærði Stefán komið á móti honum og hann gengið á móti Stefáni og hafi Stefán þá skallað hann í andlitið án þess að segja nokkuð. Hafi hann fundið mikið til í nefinu eftir þetta, enda verið skallað beint á nefið. Meira hafi blætt úr nefinu í kjölfar þess. Hann hafi þurft að fara í aðgerð á nefi eftir þetta. Spurður um ástand sitt þessa nótt kom fram að hann hafi verið búinn að drekka eitthvað og verið æstur eftir allt sem á undan hafi gengið. Spurður hvort hann geti sagt til um hvenær nef hans hafi brotnað, gat brotaþoli ekki fullyrt um það. Aðspurður um að í skýrslu lögreglu og hjá lækni hafi hann annars vegar nefnt að 10 manns hafi ráðist á hann og hins vegar í læknisvottorði 7 manns, bar vitnið að það hafi margir verið á staðnum en það hafi fjórir ráðist á hann.

Vitnið B kom fyrir dóminn og bar að hafa sjálfur verið ofurölvi og geti því ekki vitnað um margt og viti ekki muninn á því sem hann hafi hugsanlega séð eða heyrt eftir þetta en brotaþoli hafi verið mjög drukkinn. Vitnið sé vinur allra í málinu, brotaþola og ákærðu.

Vitnið C kom fyrir dóminn og bar að atvik væru óljós, margir komið að málum og mikill æsingur. Sjálfur hafi hann verið edrú. Hafi hann reynt að komast burtu ásamt kærustu brotaþola. Brotaþoli hafi ekki viljað fara og verið mjög ölvaður og æstur. Hann geti ekki mikið greint frá átökum en hafi séð brotaþola, ákærðu Y, X og Z eigast við. Hafi hann engin högg séð. Eftir átök þeirra hafi hann séð blóð í andliti brotaþola. Borin undir vitnið skýrsla hans hjá lögreglu um að hann hafi séð X eða Y kýla eða ýta brotaþola og að eftir átökin hafi verið áverkar á nefi og vör brotaþola bar vitnið að þarna hafi verið rétt eftir sér haft.

Vitnið D kom fyrir dóminn og bar að hafa verið á bíl við hliðina á Hlöllabátum. Þar hafi hann séð hóp af fólki í átökum en viti ekki hverjir hafi tekið þátt í þeim. Borin undir hann skýrsla hans hjá lögreglu þar sem hann nafngreini ákærða Z og að Z hafi öskrað á „mann“ og ýtt honum í burtu og síðar kýlt og hafi maðurinn hnigið niður við höggið. Vitnið bar að rétt væri eftir sér haft þá.

Vitnið E kom fyrir dóminn og bar að hafa verið með ákærða Stefáni. Þeir hafi fengið ábendingu um að félagi þeirra hafi orðið fyrir líkamsárás fyrr um kvöldið. Hafi þeir þá mætt meintum geranda. Stefán hafi gefið sig á tal við hann og þeim verið heitt í hamsi, og hafi þeir mæst þannig að þegar þeir hafi verið að öskra hvor á annan hafi höfuð þeirra mæst. Hafi þetta endað með því að ákærði Stefán hafi ýtt brotaþola með höfðinu í burtu. Brotaþoli hafi þá bakkað frá og þegar lögreglu hafi borið að hafi brotaþoli látið sig detta og öskrað. Aðspurður kvaðst hann hafa séð áverka á brotaþola áður en þetta gerðist og brotaþoli verið blóðugur í framan.

Vitnið F kom fyrir dóminn og bar að hafa verið með ákærða Stefáni og þá fengið upplýsingar um að Y hafi verið laminn. Hafi þeir síðan séð brotaþola og greinilegt að eitthvað hafði gengið á því að hann hafi ekki litið vel út, hann hafi þó ekki getað greint hvaða áverkar voru á honum. Ákærði Stefán hafi þá gengið upp að brotaþola og sagt eitthvað við hann og sett ennið við enni brotaþola eins og þegar fótboltamenn eru að rífast. Annað hafi hann ekki séð. Borið var undir hann að í skýrslu hjá lögreglu hafi hann borið að hafa séð blóð og taldi vitnið að það gæti hafa verið.

Vitnið G kom fyrir dóminn og bar að hann væri kunningi allra ákærðu og hafi fengið upplýsingar um að ákærði Y hafi verið kýldur. Hafi hann komið að brotaþola og Y þar sem Y hafi viljað fá skýringu á því af hverju brotaþoli hafi kýlt hann. Hafi vitnið einnig viljað fá skýringu frá brotaþola á þessu en gefist upp á því. Þegar hann hafi gengið burt hafi brotist út slagsmál. Á staðnum hafi verið, auk ákærða Y, X og Z og hafi þeir átt í átökum við brotaþola en hann geti ekkert lýst þeim átökum. Þá hafi kærasta brotaþola verið á staðnum. Brotaþoli hafi síðan gengið upp að vitninu og spurt hvort hann vildi kýla sig og „verið ruglaður á því“. Þá hafi brotaþoli verið alblóðugur í framan og hann séð að nef brotaþola var skakkt og hafi hann nefnt það sérstaklega við lögreglumanninn N. Síðar hafi hann séð hvar ákærði Stefán stóð þétt við brotaþola og virtist honum þeir vera að tala saman, en síðan ýtti Stefán brotaþola frá sér með höfðinu. Hann mundi ekki hver viðbrögð brotaþola hafi verið eftir þetta.

Vitnið H kom fyrir dóminn og bar að vera vinkona ákærða Stefáns. Í umrætt sinn hafi hún verið að ganga með ákærða Z þegar ákærði Y hafi komið að og sagt frá því að brotaþoli hafi verið að kalla Z aumingja. Brotaþoli hafi þá verið staddur bak við Hlöllabáta og staðið með hendur fyrir aftan bak og ögrað Z: „Hvað þorirðu ekki í mig“. Á endanum hafi Z „farið í hann“ og kýlt brotaþola. Hafi hann kýlt brotaþola aðallega í andlitið með krepptum hnefa nokkur högg, líklega ein 10 högg, ekki mikið meira en það. Brotaþoli hafi ekki kýlt á móti. Spurð um ástand brotaþola eftir þetta kom fram að hann hafi verið blóðugur í andliti. Hafi það komið fram hjá lögreglumönnum, sem hafi verið að taka skýrslur, að brotaþoli hafi þá verið nefbrotinn. Aðspurð gat hún ekki svarað því hvort ákærðu X og Y hafi verið á staðnum þegar þetta hafi átt sér stað. Vitnað til lögregluskýrslu þar sem fram komi að hún hafi séð brotaþola lemja Z einu sinni eða tvisvar kvaðst hún ekki muna eftir því núna. Spurð um það hvort hún hafi séð átök milli ákærða Stefáns og brotaþola kvaðst hún hafa séð þá setja saman enni við enni eins og fótboltamenn geri. Hafi hún ekki séð frekari áverka á brotaþola eftir samskipti brotaþola og Stefáns.

Vitnið I kom fyrir dóminn og bar að þekkja bæði ákærða Stefán og brotaþola og hafa verið að ganga frá Ungó og þá séð brotaþola og ákærða Stefáns ræða saman. Hann hafi ekki séð nein átök þeirra á milli. Hafi hann séð blóð á brotaþola á nefi og andliti áður en Stefán bar að. Borin undir hann skýrsla hans hjá lögreglu um að einhver orðaskipti hafi átt sér stað á milli Stefáns og ákærða og þeir verið með andlitin nánast hvor upp að öðrum bar vitnið að svo hafi verið en hann hafi ekki séð brotaþola detta eða hljóða upp eftir samskipti þeirra.

Vitnið J kom fyrir dóminn og bar að vera kærasta brotaþola. Hafi hún séð þegar brotaþoli sló til ákærða Y og hafi verið að ögra honum áður. Eftir þetta hafi hún reynt ásamt C og B að fá brotaþola til þess að fara. Í því komi ákærði Z hlaupandi og kýli brotaþola eitt eða tvö högg. Brotaþoli reyni að fá Z til að ræða málin og fari þeir bak við Hlöllabáta. Þá hafi þau heyrt læti og séð hvar Y hélt brotaþola hálstaki aftan frá og Z var að kýla brotaþola sem detti. Hún viti ekki hversu mörg högg „en alveg slatta“. Hafi höggunum verið beint að andliti brotaþola með krepptum hnefa. Ákærði X hafi kýlt brotaþola einu sinni meðan á þessu stóð en hún viti ekki hvar það högg hafi lent og það hafi ekki verið eins fast og hjá Z. Sama ætti við um Y sem hafi einnig kýlt brotaþola einu sinni í þessum átökum en hún viti ekki hvar það högg lenti. Báðir hafi verið með kreppta hnefa. Eftir þetta setji brotaþoli hendur fyrir aftan bak og segist ekki vilja slást en þá kýli Z brotaþola í andlitið fjórum til fimm sinnum. Hafi hún reynt að stöðva þetta og reynt að fá brotaþola til þess að fara. Þegar þau hafi verið að fara burtu hafi einhver af ákærðu kallað í brotaþola sem hafi þá farið til baka og brotaþoli og ákærðu detti, en ekki hafi orðið meira úr því. Hafi brotaþoli verið með áverka þegar þarna var komið sögu, allt í blóði. Hún hafi ekki séð hvar áverkarnir voru. Í því beri að lögreglu og ákærðu hafi farið burtu. Eftir skýrslutöku hjá lögreglu hafi þau verið saman á leiðinni upp á sjúkrahús en í því komi ákærði Stefán og hafi hann verið glottandi og í stað þess að ræða við brotaþola hafi hann skallað hann í nefið. Hafi hún séð það mjög vel og brotaþoli þá gripið um nefið og greinilegt að hann hafi meitt sig þá. Brotaþoli og ákærði Stefán hafi ekki átt í neinum orðaskiptum en ákærði Stefán sagt eitthvað áður við brotaþola.

Vitnið K lögreglumaður bar fyrir dómi að hafa leyst upp ágreining og við komu á staðinn hafi brotaþoli verið með ákærða Y í hálslás. Lögregla hafi á vettvangi rætt við brotaþola og tekið af honum skýrslu. Brotaþoli hafi verið talsvert ölvaður, æstur og illa áttaður, enda óviðræðuhæfur og hafi ekki viljað þiggja aðstoð lögreglu um að fara upp á sjúkrahús og gengið í átt frá lögreglubifreiðinni ásamt einhverri stúlku. Í þann mund mæti hann ákærða Stefáni sem hafi þar verið með öðru fólki. Einhver orðaskipti verði á milli ákærða Stefáns og brotaþola. Hafi vitnið fylgt brotaþola eftir með augunum vegna ástands hans en hann var blóðugur í andliti og svolítið illa leikinn. Vitnið hafi ekki heyrt orðaskipti en ákærði Stefán hafi viðstöðulaust skallað brotaþola, eiginlega gengið í hann eða stangað hann. Ákærði hafi hallað sér fram áður, ekki stoppað, verið á gönguhraða og tekið brotaþola í skrefinu, það hafi orðið högg, hann viti ekki hversu mikið. Skömmu síðar „limpist“ brotaþoli niður og hafi virst kenna til eftir samskipti þeirra. Vitnið gat ekki borið hvort brotaþoli hafi sett undir sig höfuðið en ákærði Stefán hafi verið neðar með höfuðið. Hann hafi ekki séð nákvæmlega hvar höfuð ákærða lenti en það hafi verið blóðblettur ofarlega á andliti ákærða. Spurt hvort sjáanlegir hafi verið aðrir áverkar á brotaþola eftir samstuð hans við ákærða Stefán, bar vitnið að eftir þetta hafi blóð dropað niður af brotaþola en það hafi ekki gert það áður þótt það hafi verið blóð á nefsvæði hans áður. Hann vissi ekki hvort blóð hafi verið á enni ákærða.

Vitnið L lögreglumaður bar fyrir dómi að hann hafi séð þegar brotaþoli hafi verið skallaður af ákærða Stefáni. Stefán hafi gengið í beinni línu að brotaþola og skallað hann, rekið ennið í andlit brotaþola. Hann geti ekki vitnað um það hvort ákærði hafi reigt aftur höfuðið, en augljóst hafi verið hvað ákærði ætlaði að gera. Þetta hafi ekki verið eins og tveir menn hafi gengið saman. Brotaþoli hafi snúið sér við höggið og hann hafi séð þegar blóð byrjaði að renna úr brotaþola og brotaþoli hnigið niður. Hann hafi ekki séð hvar ennið hafi lent í andliti brotaþola og ekki séð hvort blætt hafi úr brotaþola áður en þetta hafi gerst. Hann vissi ekki hvort einhver orðaskipti hafi átt sér stað á undan. Hafi það verið mat lögreglu á þessum tíma að ákærði Stefán hafi skallað brotaþola og hann því verið handtekinn á vettvangi.

Vitnið M lögreglumaður bar fyrir dómi að hafa rætt við brotaþola á vettvangi. Hafi brotaþoli, sem hafi verið með einhverja áverka á nefi, verið æstur og ölvaður og ekki orðið við tilmælum hans og gengið í átt að ákærða Stefáni. Hafi brotaþoli gengið meira til ákærða Stefáns en ákærði til brotaþola. Þar hafi átt sér stað einhver orðaskipti en hann ekki séð hvað síðar átti sér stað. Hafi ákærði Stefán verið handtekinn þar sem K lögreglumaður hafi talið að ákærði hafi veitt brotaþola aukna áverka.

Vitnið N lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að hafa séð brotaþola eftir samskipti hans við ákærða Stefán og hafi brotaþoli verið blóðugur um munn og nef. Í því hafi borið að vitnið G sem hafi sagt honum að brotaþoli hafi verið með blóð á nefinu áður en Stefán gekk í andlitið á honum.

Vitnið O læknir gaf símaskýrslu fyrir dómi. Beðinn um að lýsa áverkum brotaþola kom fram að nef brotaþola hafi verið brotið og mar í kringum auga, hann hafi verið með áverka á efri vör hægra megin þar sem húð hafi rifnað frá eftir högg. Þessi áverki á vör sé svolítið sérstakur og gæti verið eftir hnúajárn, enda bylgjuför í áverkanum. Þá hafi brotaþoli verið með áverka á höfði og mar á handlegg. Hafi brotaþoli þurft að fara í aðgerð á nefi. Framangreindir áverkar séu tilkomnir vegna ítrekaðra högga.

III

Niðurstöður

Óumdeilt er að sú atburðarás sem fór af stað í máli þessu hófst með því að brotaþoli sló ákærða Y á skemmtistaðnum Ungó fyrr sömu nótt. Brotaþoli var með dómi Héraðsdóms Reykjaness þann 2. júní sl., í málinu nr. S-25/2015, sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þá er sannað, meðal annars með framburði ákærðu sjálfra, að skömmu eftir þann atburð áttu sér stað líkamleg samskipti á milli þeirra og brotaþola, með misjöfnum hætti þó, en ákærðu báru að þau samskipti hefðu ekki getað leitt til þeirra áverka sem reyndust síðan vera á brotaþola.

Ekkert hefur komið fram í málinu um að brotaþoli hafi verið með áverka áður en hann átti í samskiptum við þá X, Y og Z. Brotaþoli hefur borið að ákærðu X, Y og Z hafi allir kýlt hann í andlitið. Strax eftir samskipti þeirra bar að lögreglu og meðan hún var á staðnum átti sér stað atvik á milli ákærða Stefáns og brotaþola. Farið var með brotaþola í beinu framhaldi af því á sjúkrahús. Þótt brotaþoli hafi sjálfur borið á vettvangi eða hjá lækni að hann hafi átt í útistöðum við marga aðila og nefnt í því sambandi 10 eða 7 manns, þá er ekkert í málinu sem gefur tilefni til að ætla að svo hafi verið. Er að mati dómsins ljóst að áverkar brotaþola komu í samskiptum hans við ákærðu þessa máls og verði að meta þau samskipti í heild, enda hliðstæðar athafnir í nánum tengslum í tíma og rúmi.

Í málinu liggur fyrir afrit sms-skilaboða frá ákærða X, sent til brotaþola degi eftir atvik málsins. Í því kemur fram að ákærði X er að biðja brotaþola afsökunar á því að hafa kýlt hann einu sinni og að hann hafi aldrei slegið frá sér áður. Ákærði, sem viðurkenndi að hafa sent skilaboðin, gaf þá skýringu fyrir dómi að hann hafi með þessu átt við það, að hann hafi lagt hönd sína á andlit brotaþola og ýtt honum burtu. Sú skýring ákærða er að mati dómsins ekki trúverðug og þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði X hafi, í stað þess að leggja hönd sína á andlit brotaþola, kýlt einu sinni í andlit brotaþola. Fær sú skýring nokkra stoð í vitnisburði J sem bar fyrir dómi að ákærði X hafi kýlt brotaþola einu sinni með krepptum hnefa þótt hún hafi ekki getið vitnað um hvar það högg lenti. Þá bar ákærði X að hafa ekki séð neina áverka á brotaþola eftir samskipti hans, Y og Z við brotaþola.

Ákærði Y hefur viðurkennt fyrir dóminum að hafa verið reiður brotaþola eftir samskipti þeirra fyrr um kvöldið og hafi hann kýlt brotaþola einu sinni og vel gæti verið að það hafi verið með krepptum hnefa hægra megin í höfuð brotaþola. Vitnið J bar í skýrslu sinni fyrir dómi að ákærði Y hafi kýlt brotaþola einu sinni með krepptum hnefa en hún viti ekki hvar það högg lenti. Er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun þess að ákærði Y hafi kýlt brotaþola í höfuðið, þótt ekki liggi fyrir hvar það högg lenti. Þá bar ákærði einnig að hafa haldið utan um háls brotaþola. Um ástand brotaþola eftir þetta bar ákærði Y að það hafi bara verið nokkuð gott, brotaþoli ekki kvartað neitt og ekki litið út fyrir að vera með neitt í andlitinu.

Ákærði Z bar fyrir dómi að hafa lent í smá-átökum við brotaþola og hafi hann slegið brotaþola tvisvar. Hafi annað höggið lent í öxl en hitt aðeins fyrir ofan eyra hans og að hann hafi ýtt brotaþola eftir að brotaþoli hafi kýlt hann. Brotaþoli bar að Z hafi kýlt sig oft. Vitnið D bar fyrir dómi að ákærði Z hafi í umrætt sinn kýlt mann og hafi maðurinn hnigið niður við höggið. Vitnið H bar að ákærði Z hafi kýlt brotaþola oft í andlitið með krepptum hnefa, líklega ein 10 högg, meðan brotaþoli stóð með hendur fyrir aftan bak. Vitnið J bar fyrir dómi að ákærði Z hafi komið hlaupandi og kýlt brotaþola eitt eða tvö högg. Stuttu síðar hafi Z kýlt brotaþola mörg högg, „alveg slatta“. Hafi höggunum verið beint að andliti brotaþola með krepptum hnefa. Eftir þetta setji brotaþoli hendur fyrir aftan bak, en þá slái Z í andlit brotaþola, fjórum til fimm sinnum. Á myndbandi sem liggur fyrir í málinu má sjá ákærða Z slá brotaþola tvisvar sinnum í andlitið, meðal annars meðan brotaþoli stendur með hendur fyrir aftan bak. Er fram komin lögfull sönnun þess að ákærði Z hafi ítrekað slegið brotaþola í andlitið. Ákærði Z kvaðst ekki hafa séð áverka á brotaþola eftir þetta.

Í málinu liggja fyrir skýrslur fjölda vitna, þar á meðal frá lögreglumönnunum K og M, sem öll hafa borið á einn veg, að áverkar og blóð hafi verið í andliti brotaþola eftir samskipti hans við ákærðu X, Y og Z. Framburður þeirra um að engir áverkar hafi verið á brotaþola eftir samskipti þeirra við hann eru því ótrúverðugir.

Að mati dómsins telst sannað að ákærðu X, Y og Z hafi, í félagi, ákveðið að refsa brotaþola fyrir að hafa skömmu áður slegið Y, og hafi allir, í mismiklum mæli þó, slegið brotaþola í andlit eða höfuð og á einhverjum tímapunkti allir ýmist haldið eða slegið brotaþola. Virðist sem sú aðgerð hafi á einhvern hátt farið úr böndum. Ekki liggur fyrir að ákærðu hafi hlotið áverka í þessum átökum, en sannað er að brotaþoli var með áverka í andliti, alblóðugur, meðal annars á nefsvæði áður en samskipti brotaþola við ákærða Stefán áttu sér stað.

Ákærði Stefán bar að hafa sett enni sitt í enni brotaþola en hann hafi ekki skallað, og beri ekki ábyrgð á nefbroti brotaþola. Vitnin E, F og G sem öll hafa borið að vera vinir ákærða Stefáns, og H, vinkona hans, báru á þann veg að Stefán hafi sett enni sitt við enni brotaþola, eins og þegar fótboltamenn eru að rífast. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af ákærða Stefáni eftir atburði næturinnar þann 9. júní 2013, kom fram að hann hafi skallað brotaþola, þó að það hafi ekki verið fast. Ákærði ber nú með öðrum hætti fyrir dómi. Vitnið J, vinkona brotaþola, bar að hafa séð greinilega þegar ákærði Stefán hafi skallað brotaþola í nefið. Vitnið K lögreglumaður bar að ákærði Stefán hafi viðstöðulaust skallað brotaþola, eiginlega gengið í hann eða stangað hann, og vitnið L lögreglumaður bar fyrir dómi að hann hafi séð þegar brotaþoli hafi verið skallaður af ákærða Stefáni. Hvorugur þeirra hafi þó séð hvar skalli ákærða hafi lent í andliti brotaþola. Var það mat lögreglumanna á vettvangi að ákærði Stefán hafi gerst brotlegur um það sem hann er nú ákærður fyrir og var hann handtekinn á vettvangi. Með vísan til framangreinds, sérstaklega vitnisburða tveggja óvilhallra lögreglumanna, um að ákærði Stefán hafi skallað brotaþola, telst hafið yfir skynsamlega vafa að ákærði Stefán hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir, að skalla brotaþola í andlitið. Háttsemi hans verður hins vegar ekki talin hafa verið gerð í félagi með öðrum ákærðu.

Alvarlegasti áverki brotaþola er nefbrot hans. Vitnið G bar að hafa séð að nef brotaþola var skakkt og hafi hann sérstaklega nefnt það við lögreglumanninn N. Hafi þetta verið áður en atvik á milli ákærða Stefáns og brotaþola hafi átt sér stað. Í vitnisburði lögreglumannsins N kom fram að hann hafi séð brotaþola eftir atvikið milli ákærða Stefáns og brotaþola og að það hafi verið þá sem vitnið G hafi komið til hans og sagt honum að brotaþoli hafi áður verið með blóð á nefinu. Vitnið H vinkona ákærða Stefáns, bar fyrir dómi að fram hafi komið hjá lögreglumönnum sem hafi tekið skýrslu af brotaþola á vettvangi eftir samskipti hans við ákærðu X, Y og Z, að brotaþoli hafi þá verið nefbrotinn. Ekkert í málinu styður þann framburð.

Brotaþoli segir í lögregluskýrslu þann 4. júlí 2013, spurður um áverka eftir samskipti hans við ákærðu X, Y og Z: „Og nefið er allt í smalli sko, eða þú veist ég var alveg vel bólginn allstaðar í kringum nefið sko, náttúrulega búinn að fá höggin á nefið“. Spurður um afleiðingar af skalla ákærða Stefáns kom fram: „..., ég eiginlega datt bara niður úr sársauka sko. Ég fann alveg bara, þetta var alveg eina eða þarna fann ég fyrst svona alveg mikinn sársauka í nefinu sko“. Í skýrslu sinni fyrir dómi bar hann að hafa fundið mikið til í nefinu eftir samskipti hans við ákærða Stefán, enda hafi hann verið skallaður beint á nefið og meira hafi blætt úr nefinu eftir þetta. J, vinkona brotaþola, bar fyrir dómi að brotaþoli hafi þá gripið um nefið og greinilegt að hann hafi þá meitt sig. Vitnið K lögreglumaður bar fyrir dómi að blóð hafi verið á nefsvæði brotaþola áður en hann hitti ákærða Stefán. Eftir að ákærði Stefán hafi skallað brotaþola, hafi brotaþoli fallið niður og virst hafa kennt til og blóð þá dropað niður. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af K þann 31. mars 2014, bar vitnið að brotaþoli hafi eftir samskipti hans við ákærðu X, Y og Z verið blóðugur í andliti, nánar tiltekið í munni og með blóðnasir, en erfitt hafi verið að greina hvort nefið hafi þá verið bólgið eða brotið. Eftir samskipti ákærða Stefáns hafi blætt meira úr nefinu og greinileg breyting hafi orðið á líðan brotaþola eftir það. Vitnið L lögreglumaður bar fyrir dómi að hann hafi séð þegar brotaþoli hafi verið skallaður af ákærða Stefáni, brotaþoli hafi þá snúið sér við og hann hafi séð þegar blóð byrjaði að renna úr brotaþola og brotaþoli hnigið niður. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af L þann 2. apríl 2014, bar vitnið að hafa séð örlítið blóð í kringum nef brotaþola eftir samskipti hans við ákærðu X, Y og Z og taldi hann áverkana ekki hafa verið mikla. Um áverka eftir samskipti brotaþola við ákærða Stefán bar hann að töluverðar breytingar hafi þá verið á brotaþola og þá farið að fossblæða úr nefi brotaþola. Með vísan til þess sem að frama er rakið, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði Stefán hafi í umrætt sinn, skallað í nef brotaþola en ekki ýtt í enni hans. 

Í málinu hefur ekki verið leitt í ljós að ákærðu X eða Y hafi kýlt brotaþola í nefið, þó að sannað sé að þeir hafi kýlt hann í andlitið. Brotaþoli bar að ákærði Z hafi kýlt hann í nefið. Engin vitni hafa staðfest það fyrir dómi að ákærði Z hafi slegið brotaþola í nefið, þótt sannað sé að hann hafi ítrekað slegið hann í andlitið. Gegn andmælum ákærða Z verður ekki fullyrt að hann hafi slegið brotaþola í nefið. Þá verður ekki fullyrt af framangreindum vitnisburði um ástand brotaþola eftir samskipti hans við ákærðu X, Y og Z að nef brotaþola hafi verið brotið eftir átök hans við þá. Vera kann að nef brotaþola hafi verið orðið viðkvæmt fyrir hnjaski þegar ákærði Stefán skallar í það og ekki hafi því þurft mikið högg til þess að það brotnaði. Telur dómurinn miðað við fram kominn vitnisburð um aukna áverka og það hvernig brotaþoli brást við, að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að nef brotaþola hafi brotnað við skalla ákærða Stefáns.

Með vísan til framangreinds verður ákærði Stefán sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, fyrir nefbrot brotaþola og er brot hans réttilega heimfært til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Honum verður hins vegar ekki gert að sök aðrir áverkar sem voru á brotaþola og greinir um í ákæru. Ekki er fallist á þá málsástæðu ákærða Stefáns að um neyðarvörn samkvæmt 12. gr. almennra hegningarlaga hafi verið að ræða.

Með vísan til framangreinds verða ákærðu X, Y og Z sakfelldir fyrir þá háttsemi og þá áverka sem um getur í ákæru, ef frá er talið nefbrot. Verður brot þeirra heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu telja að 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga eigi við í málinu, enda leitt í ljós að brotaþoli hafi verið upphafsmaður átakanna. Eigi því að fella niður refsingu eða að öðrum kosti að lækka refsingu. Við það verður að miða að ákvæðið eigi við um átök sem áttu sér stað eða hófust í beinu framhaldi af árás eða ertingu, en eigi ekki við um hefnd brotaþola og vina hans, sem á sér stað nokkru síðar eins og stóð á í þessu máli. Hins vegar þykir mega horfa til atvika allra um hegðun brotaþola á vettvangi sem var ekki til þess fallin að draga úr tjóni hans.

IV

Refsingar

Ákærði X er fæddur í október árið 1994. Samkvæmt sakavottorði hefur hann aldrei orðið uppvís að refsiverðri háttsemi fyrr. Horft verður til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar. Til lækkunar kemur að ákærði er með hreint sakavottorð. Þá varð nokkur dráttur á útgáfu ákæru sem ákærða verður ekki um kennt. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga sem þykir með vísan til framangreinds, mega binda skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákærði Y er fæddur í október árið 1994. Samkvæmt sakavottorði, hefur hann aldrei orðið uppvís að refsiverðri háttsemi fyrr. Horft verður til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar. Til lækkunar kemur að ákærði er með hreint sakavottorð. Þá varð nokkur dráttur á útgáfu ákæru sem ákærða verður ekki um kennt. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, sem þykir, með vísan til framangreinds, mega binda skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákærði Z er fæddur í júlí árið 1994. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum einu sinni verið gerð refsing áður fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga. Það brot hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Horft verður til 2. mgr. 70. gr. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar, en ekki aðeins var verkið unnið í sameiningu með öðrum, heldur slær ákærði brotaþola ítrekað, meðal annars meðan brotaþoli stendur með hendur fyrir aftan bak. Til lækkunar refsingu kemur sakaferill ákærða og þá varð nokkur dráttur á útgáfu ákæru sem ákærða verður ekki um kennt. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, sem þykir, með vísan til framangreinds, mega binda skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákærði Stefán Freyr Thordersen er fæddur í mars árið 1992. Samkvæmt sakavottorði, hefur hann aldrei orðið uppvís af refsiverðri háttsemi fyrr. Horft verður 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar. Til lækkunar refsingar kemur að ákærði er með hreint sakavottorð og þá varð nokkur dráttur á útgáfu ákæru sem ákærða verður ekki um kennt. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, sem þykir, með vísan til framangreinds, mega binda skilorði eins og í dómsorði greinir.

V

Einkaréttarkrafa

Af hálfu brotaþola hefur verið gerð sú krafa að ákærðu greiði honum óskipt 1.620.777 krónur í bætur auk vaxta, og jafnframt lögmannskostnað skipaðs réttargæslumanns. Í máli brotaþola kom fram að brot ákærðu hafi verið stórhættuleg og til þess fallin að valda miklu tjóni með varanlegum afleiðingum, þó að ekki væri hægt að fullyrða um varanlegar afleiðingar á þessu stigi. Fram kom að bótakrafan hafi verið birt ákærðu þann 16. og 20. júlí 2014. Bótakrafan er sundurliðuð þannig:

  1. Sjúkrakostnaður skv. 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga    23.056 krónur

  2. Tímabundið atvinnutjón                                                 35.000 krónur

  3. Þjáningabætur                                                                                   62.721 króna

  4. Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga                        1.500.000 krónur

    Með 1. tl. bótakröfu fylgdi afrit reikninga og verður ákærðu gert að greiða brotaþola þá kröfu að fullu, 23.056 krónur. Með 2. tl. bótakröfu fylgdi yfirlýsing ætlaðs atvinnurekanda um að brotaþoli hafi verið frá vinnu í tvo daga og ekki fengið greidd laun fyrir þá daga. Engin gögn fylgdu kröfu í 3. tl. Samkvæmt 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 skulu fylgja þau gögn sem varða málatilbúnað brotaþola. Ekki þykja nægileg efnistök að baki kröfum í 2. og 3. tl. og verður þeim því vísað frá dómi.

    Með broti því sem ákærðu eru sakfelldir fyrir hafa þeir bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Miski brotaþola þykir hæfilega metinn 400.000 krónur og ber að dæma ákærðu til þess að greiða brotaþola þá fjárhæð óskipt í miskabætur ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

    VI

    Sakarkostnaður

    Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til að greiða óskipt allan sakarkostnað málsins, sem er samkvæmt yfirliti sækjanda  96.722  krónur auk þess sem þeim verður gert að greiða óskipt þóknun til réttargæslumanns brotaþola eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærðu hverjum fyrir sig gert að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir dóminum, eins og í dómsorði getur. Við ákvörðun þóknunar og málsvarnarlauna, hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

    Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

    D ó m s o r ð:

    Ákærði X, skal sæta fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

    Ákærði Y, skal sæta fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

    Ákærði Z, skal sæta fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

    Ákærði Stefán Freyr Thordersen, skal sæta fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

    Ákærðu, X, Y, Z og Stefán Freyr greiði A óskipt, skaðabætur að fjárhæð 23.056 krónur og miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá 9. júní 2013 til 20. ágúst 2014, en frá þeim degi til greiðsludags, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga.

    Ákærði X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Theodórs Kjartanssonar héraðsdómslögmanns, 980.000 krónur.

    Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Garðars K. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, 980.000 krónur.

    Ákærði Z greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Snorra Snorrasonar héraðsdómslögmanns, 980.000 krónur.

    Ákærði Stefán Freyr Thordersen greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Karls Eyjólfssonar héraðsdómslögmanns, 850.000 krónur.

    Annan sakarkostnað að fjárhæð kr. 696.722 greiði ákærðu, X, Y, Z og Stefán, óskipt, þar af þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ómars A. Bjarnþórssonar hdl., 600.000 krónur.