Hæstiréttur íslands
Mál nr. 573/2012
Lykilorð
- Manndráp
- Tilraun
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 17. janúar 2013. |
|
Nr. 573/2012.
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn Guðgeiri Guðmundssyni (Björgvin Jónsson hrl. ) (Brynjar Níelsson hrl. réttargæslumaður) |
Manndráp. Tilraun. Skaðabætur.
G var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa veist að A með hnífi og stungið hann ítrekað í líkamann með þeim afleiðingum að A hlaut fimm stungusár á hægri öxl, hægra og vinstra megin á brjóstkassa, aftarlega á hægri síðu og ofan við vinstri mjaðmarspaða auk minni skurða á höndum og andliti, gekk hnífurinn gegnum þindina og í lungu bæði vinstra og hægra megin, gegnum hægra nýra, í lifur og gallblöðru, með nánar tilgreindum afleiðingum. Voru fjögur stungusáranna lífshættuleg ein og sér þó aðrir áverkar hefðu ekki komið til. Þá var G einnig ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að B með hnífi þegar hann kom A til hjálpar og stungið hann tvisvar í vinstra lærið. G var sakfelldur fyrir þá háttsemi sem hann var sakaður um í ákæru og var brot hans gegn A talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. laganna, og brot hans gegn B við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Var refsing G ákveðin fangelsi í 14 ár og honum gert að greiða miskabætur til A að fjárhæð 3.000.000 krónur og til B að fjárhæð 800.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst mildunar refsingar og að niðurstaða héraðsdóms um einkaréttarkröfur verði staðfest.
A og B krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfur þeirra.
Í vottorði 8. janúar 2013 frá Tómasi Guðbjartssyni yfirlækni á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala, sem lagt hefur verið fyrir Hæstarétt, er ástandi A, sem ákærði er borinn sökum um að hafa gert tilraun til að ráða bana, meðal annars lýst á þann veg að hann hafi verið hraustur áður en hann hlaut áverkana 5. mars 2012. Hann hafi legið á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala frá því að hann kom af gjörgæsludeild, en útskrifast 6. júní sama ár. Í vottorðinu er gerð grein fyrir ástandi A eftir að hann útskrifaðist, núverandi ástandi hans og mati á framtíðarhorfum. Þar er því meðal annars lýst að A hafi hægt og sígandi náð auknum styrk og færni. Hann sé þó ekki orðinn vinnufær, aðallega vegna verkja og stirðleika frá hægri öxl, en töluvert vanti upp á fulla hreyfifærni á hægri hendi og öxl og ólíklegt sé að hann muni ná fullri færni. Lifur hafi jafnað sig vel, þótt ekki sé hægt að útiloka nýja blæðingu frá henni síðar eða einkenni frá gallvegum. Starfsemi hjarta virðist eðlileg og lungu hafi jafnað sig býsna vel, en líklegt verði að telja að lungun verði aldrei söm og fyrir áverkana og hann gæti orðið viðkvæmari en ella fyrir sýkingum í lungum. Vinstra nýra hafi jafnað sig vel af nýrnabilun sem hann hafi fengið á fyrstu vikum eftir áverkann, en líklega verði nýrnastarfsemi aldrei eðlileg, enda hafi þurft að fjarlægja hægra nýra. Hann muni þurfa að vera í reglulegu eftirliti hjá nýrnalækni framvegis og lífslíkur einstaklinga með eitt nýra geti verið skertar. Enn sé fyrir hendi dofi á fingrum hægri handar og óljóst hvort sú tilfinning komi til baka. Þá hafi A verið andlega sterkur en hann eigi þó erfiðara með svefn en áður og stundum beri á kvíða þegar atburðurinn rifjist upp fyrir honum.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði játað sakargiftir, en hann telur að heimfæra eigi brotið sem lýst er í I. kafla ákæru undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brotið sem fjallað er um í II. kafla undir 219. gr. sömu laga. Í héraðsdómi er lýst hrottalegri og lífshættulegri atlögu ákærða að A, sem leiddi til varanlegs heilsutjóns hans og því að hending ein hafi ráðið að ekki hafi hlotist bani af. Fallist er á það mat hins áfrýjaða dóms að ákærði hafi viljað að A hlyti bana af atlögunni. Einnig er í héraðsdómi lýst átökum ákærða við B, er B kom A til hjálpar, en í þeim stakk ákærði B tvívegis í lærið og voru bæði stungusárin djúp og hið stærra 8 cm langt. Með vísan til þessa en að öðru leyti til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns beggja brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Guðgeir Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 995.075 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 564.750 krónur, og þóknun Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns brotaþolanna A og B, 125.500 krónur vegna hvors þeirra.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 8. júní 2012, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 25. maí 2012 á hendur Guðgeiri Guðmundssyni, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin að morgni mánudagsins 5. mars 2012 á lögmannsstofunni C,[...], Reykjavík.
I.
Fyrir tilraun til manndráps með því að hafa veist að A, framkvæmdastjóra C, með hnífi og stungið hann ítrekað í líkamann með þeim afleiðingum að A hlaut fimm stungusár, á hægri öxl, hægra og vinstra megin á brjóstkassa, aftarlega á hægri síðu og ofan við vinstri mjaðmarspaða auk minni skurða á höndum og í andliti, gekk hnífurinn gegnum þindina og í lungu bæði hægra og vinstra megin, gegnum hægra nýra, í lifur og gallblöðru, með þeim afleiðingum að A missti 50 lítra af blóði í framhaldi af árásinni og meðan gert var að sárum hans, fjarlægja þurfti hægra nýrað og gallblöðru hans, bæði lungu hans sködduðust, tvö göt komu á þind hans auk áverka á lifur. Voru fjögur stungusáranna lífshættuleg ein sér þó aðrir áverkar hefðu ekki komið til.
Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að B, starfsmanni C, með hnífi þegar hann kom A til hjálpar, og stungið hann tvisvar í vinstra lærið.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er krafist greiðslu miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, þ.e. 5. mars 2012, þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist viðurkenningar á bótaskyldu ákærða vegna líkamstjóns brotaþola, sbr. 1. gr. laga nr. 50/1993. Þá er krafist greiðslu lögmannsþóknunar réttargæslumanns að mati dómsins eða samkvæmt síðar fram lögðum reikningi auk virðisaukaskatts, en áskilinn er réttur til að leggja fram reikning eigi síðar en við aðalmeðferð málsins. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.
Af hálfu B er krafist skaða- og miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.138.200 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað, þ.e. 5. mars 2012, þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu lögmannsþóknunar réttargæslumanns að mati dómsins eða samkvæmt síðar fram lögðum reikningi, auk virðisaukaskatts. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól bóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af II. lið ákæru, en dæmd vægasta refsing er lög leyfa vegna I. ákæruliðar. Verði ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í II. ákærulið er þess krafist til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er krafist frávísunar bótakrafna, en til vara er krafist lækkunar þeirra. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá mánudeginum 5. mars 2012 barst tilkynning klukkan 9:52 um líkamsárás og hnífstungu á skrifstofu C, lögfræðiþjónustu, að [...] í Reykjavík. Er lögreglumenn komu á vettvang fjórum mínútum síðar var þeim vísað inn á skrifstofu við hlið móttökuborðs, þar sem tveir karlmenn héldu ákærða á gólfinu rétt við dyrnar. Þar fyrir innan lá A á bakinu og rann mikið blóð frá brjósti hans og hægri síðu, en starfsmenn skrifstofunnar reyndu að hlúa að honum. Var ákærði handtekinn, en hann virtist rólegur og mælti ekki orð frá munni. A var með fullri meðvitund er lögreglumenn bar að, en hrakaði ört og virtist meðvitundarlítill er sjúkralið flutti hann á slysadeild. Kemur fram að A hafi blætt stanslaust og hafi hann legið í stórum blóðpolli. Hafi tvö stungusár verið greinileg á líkama hans, á brjósti og hægri síðu. B, sem hélt ákærða í tökum er lögreglumenn bar að, reyndist vera með tvö stungusár ofan við hné og blæddi nokkuð úr þeim. Fram kom hjá vitnum á vettvangi að ákærði hefði komið í móttöku lögfræðiskrifstofunnar og óskað eftir viðtali við lögfræðing vegna skuldamála. Hefði A rætt við manninn inni á skrifstofu sinni, en þaðan hefðu síðan heyrst neyðaróp. B hefði verið fyrstur inn á skrifstofuna til aðstoðar og hefði hann lent í átökum við ákærða, en fleiri starfsmenn síðan borið að og hefði ákærði verið yfirbugaður. Var lögreglumönnum vísað á hnífinn, sem ákærði hefði notað við verknaðinn, en honum hafði verið sparkað fram á gang og bréfakörfu hvolft yfir hann.
Í skýrslu tæknideildar lögreglu um vettvangsrannsókn kemur fram að mikið blóð hafi verið á skrifstofu A. Blóðferlar á vettvangi hafi bent til þess að upphaf atlögunnar hafi verið við skammenda skrifborðs við suðurgafl skrifstofunnar. Gerandi og árásarþoli hafi farið að hurð skrifstofunnar eftir suðurveggnum þar sem árásarþoli hafi hlotið a.m.k. tvær stungur til viðbótar. Fáeinir frákastsblettir hafi verið sjáanlegir á suðurveggnum, en slíkir blettir framkallist við að blóð kastast af áhaldi sem er sveiflað af krafti. Skýrslunni fylgja ljósmyndir, sem teknar voru á vettvangi.
Hnífurinn sem lögregla lagði hald á reyndist vera 23,8 cm á lengd og vega 64,60 g. Hnífsblaðið var með ávölum bakka og egg. Blaðlengd var 12,7 cm og mesta breidd blaðs 2,7 cm. Blóð var á hnífsblaði og skefti.
Sýni sem tekin voru af vettvangi, höndum ákærða og fatnaði sem hann klæddist voru send til DNA-greiningar hjá Statens Kriminalteknisk Laboratorium í Svíþjóð. Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu um niðurstöðu rannsóknarinnar reyndist blóð vera til staðar í öllum þeim sýnum sem tekin voru á vettvangi og höfðu þau öll sama DNA-snið og var það snið eins og DNA-snið A. Eitt sýni sem tekið var frá hnífnum reyndist hafa blöndu DNA-sniða, sem samrýmdust DNA-sniðum A og B. Þá reyndist eitt sýni sem tekið var frá fatnaði ákærða hafa DNA-snið eins og DNA-snið B. Greining á öðrum sýnum sem tekin voru frá hnífnum og fatnaði ákærða leiddi í ljós að þau höfðu öll sama DNA-snið og var það snið eins og DNA-snið A.
Ákærði gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun á lögreglustöð í kjölfar handtöku. Í skýrslu læknis kemur fram að ákærði hafi verið rólegur við skoðunina. Hann var með 1 cm langt skurðsár á vísifingri vinstri handar, sem hann sagðist hafa veitt sér sjálfur með hnífnum, sem hann notaði. Hann bar ekki aðra nýja áverka. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði fannst hvorki alkóhól né ávana- og fíkniefni eða lyf í blóðsýnum sem tekin voru af ákærða við læknisskoðun.
Samkvæmt vottorði Tómasar Guðbjartssonar, yfirlæknis hjarta- og lungnaskurðdeildar Landspítala, dagsettu 24. maí 2012, var A fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku slysadeildar Landspítala og kom þangað klukkan 10:10. Hann var með fimm meiriháttar áverka sem allir samrýmdust því að vera eftir hnífstungu, sem hér greinir:
- Fimm cm skurður neðst á hálsi hægra megin, rétt aftan við viðbein, sem blæddi ríkulega úr.
- Fjögurra cm skurður hægra megin á brjóstholi, í hæð við 6. rifbein, við fremri holhandarlínu. Var hægt að stinga fingri í gegnum gatið inn í brjósthol. Út um gatið kom ferskt blóð og loft.
- Fjögurra cm skurður vinstra megin á brjóstholi í hæð við 7. rifbein, nokkrum cm aftar en gatið á brjóstholi hægra megin.
- Fimm cm skurður á síðu hægra megin, rétt undir hægri rifjaboga og í hæð við enda á tólfta rifi. Mikið blæddi frá skurðinum og var hægt að stinga fingri í gegnum kviðvegginn.
- Fjögurra cm og næstum 10 cm djúpur skurður á vinstra mjaðmasvæði. Hægt var að stinga fingri inn um skurðinn í átt að mjaðmarlið. Úr sárinu blæddi, en mun minna en frá hinum sárunum.
Einnig sáust eftirfarandi áverkar:
- Eins til tveggja cm skurðir á fingrum beggja handa, mest áberandi yst á fjórða og fimmta fingri hægri handar. Lítillega blæddi úr skurðunum.
- Tveggja cm skurður á hægri framhandlegg, sem ekki var djúpur og blæddi lítillega úr.
- Tveggja cm tiltölulega grunnur skurður á hægri kinn sem blæddi úr.
Brotaþoli gekkst undir bráðaaðgerð á skurðstofu. Við aðgerðina kom í ljós að þrír djúpir skurðir voru í lifur og hafði einn þeirra rofið gat á gallblöðruna, sem varð að fjarlægja. Margúll var í kringum æðar nálægt skurðsári hægra megin á hálsi. Djúpir skurðir voru í gegnum neðri blöð hægra og vinstra lunga og göt á þind vinstra og hægra megin. Á brjóstkassa báðum megin voru göt, þar sem rif höfðu kubbast í sundur og blæddi frá aðlægum rifjaslagæðum. Þá voru blæðingar frá hægra nýra, auk annarra áverka. Skurðaðgerðin varði tæpar sex klukkustundir, en brotaþoli gekkst undir þrjár aðgerðir til viðbótar um kvöldið og næstu daga. Varð m.a. að fjarlægja nýrað, sem hafði skaðast. Kemur fram að brotaþoli hafi misst sem nemur 50 lítrum af blóði eftir atlöguna og meðan á aðgerðum stóð. Hann var síðan fluttur af skurðdeild á gjörgæsludeild og lá í öndunarvél í rúmar þrjár vikur.
Í vottorðinu er rakið að skurðáverkar á hálsi, brjóstholi og síðu hafi að mati læknisins verið lífshættulegir og hefði hver og einn þeirra hæglega getað dregið brotaþola til dauða, ef læknismeðferð hefði ekki verið veitt jafn skjótt og raunin varð. Áverkar á hægra nýra og lifur hafi einnig verið lífshættulegir, fyrst og fremst vegna blæðingar.
Um horfur brotaþola segir m.a. í læknisvottorðinu að þótt lungu og lifur hafi jafnað sig vel muni þessi líffæri líklega aldrei verða söm. Þá hafi gallblaðra og hægra nýra verið fjarlægt og sé líklegt að vinstra nýra eigi aldrei eftir að verða jafn gott og áður. Brotaþoli beri mörg ör, á hálsi, brjóstholi beggja vegna og hægra megin á kvið. Þá séu ör eftir aðgerð á brjóstholi og kviðarholi. Áverkar á fingrum hafi valdið skertri tilfinningu og dofa, en telja megi líklegt að úr því muni draga með tímanum. Fyrirsjáanlegt sé að samvextir muni myndast í kviðarholi eftir áverkana og blæðingu sem henni fylgdi, sem geti valdið truflun á starfsemi garna síðar meir. Áverkar á hálsvöðva muni gróa, en geti valdið örmyndun og skertri hreyfigetu. Heila- og taugakerfi virðist hafa sloppið ótrúlega vel og hjarta virðist að mestu óskaddað. Brotaþoli hafi verið andlega sterkur, en ljóst sé að þessi atburður og veikindi sé meiri háttar áfall. Sé líklegt að hann muni þurfa hjálp sérfræðinga vegna þessa á næstu misserum.
Þá liggur fyrir vottorð Ólafs R. Ingimarssonar, yfirlæknis á bráða- og göngudeild Landspítala, dagsett 5. mars 2012, þar sem kemur fram að B hafi komið á deildina 5. mars 2012 klukkan 10:15 og hafi hann verið með tvö sár eftir hníf á vinstra læri. Stærri skurðurinn hafi verið 8 cm langur, framan á lærinu aðeins ofan við miðju, gegnum húð og undirhúð og gegnum vöðva bandvef (fasciu) og niður í rectus vöðvann. Annað skurðsár og minna hafi verið utanvert á neðri hluta læris og náð niður að fasciu en ekki í fasciuna sjálfa. Sárin hafi verið djúp, en ekki lífshættuleg. Þau hafi verið saumuð. Brotaþoli hafi komið aftur á deildina eftir að hafa fengið blæðingu frá skurðinum framan á lærinu og hafi verið gert að sárinu á nýjan leik. Hann hafi komið í lokaeftirlit 15. mars og hafi sárin þá verið gróin og saumar teknir.
Ákærði gekkst undir geðheilbrigðisrannsókn hjá Sigurði Páli Pálssyni geðlækni. Í tengslum við þá rannsókn vann Brynjar Emilsson sálfræðingur persónuleikamat á ákærða. Í skýrslu sálfræðingsins, dagsettri 28. mars 2012, kemur m.a. fram að ákærði hafi verið lagður í einelti í æsku og hafi það, ásamt öðrum áföllum, mótað hugsanahátt hans. Lífsviðhorf hans sé þannig að engum sé treystandi og að fólk muni svíkja hann. Hann hafi lágt sjálfsmat og neikvæðan og þunglyndislegan hugsanahátt. Hann bæli niður reiði og gremju þangað til hann „springi“. Þá sé hann með talsvert mörg einhverfueinkenni. Persónuleiki hans sé nokkuð sambærilegur kleyfhugapersónuleikaröskun. Hann hafi enga ánægju af mannlegum samskiptum, hafi flatar tilfinningar og engin geðtengsl við aðra. Ljóst sé að hann hafi enga eftirsjá varðandi glæp sinn, sem hann telji réttlætanlegan. Hann hafi fastmótuð neikvæð viðhorf til fólks, sem hann treysti ekki og telji vera spillt. Hann hafi einnig mjög einstrengingslegar og öfgakenndar hugmyndir um ýmsa hluti eins og trúmál og lögfræðinga. Slíkar neikvæðar reiðihugsanir, ásamt óttaleysi, geti valdið ofbeldishegðun á borð við þá sem hann hafi sýnt.
Í skýrslu Sigurðar Páls Pálssonar um geðheilbrigðisrannsóknina, dagsettri 22. apríl 2012, er að finna svohljóðandi samantekt geðskoðunar og viðtala við ákærða:
1. Guðgeir sýnir góða samvinnu frá upphafi geðskoðana og virðist einlægur í svörum. Hann er enn reiður yfir uppboðsbeiðni í fyrsta viðtali.
2. Engar vísbendingar komu fram um einkenni geðrofs, ranghugmynda, rugls eða ofskynjana.
3. Guðgeir er að upplagi örugglega eðlilega gefinn, en hefur þó verið lesblindur sem barn.
4. Guðgeir hefur verið reglusamur og engin saga er um misnotkun áfengis eða eiturlyfja.
5. Guðgeir uppfyllir skilmerki fyrir persónuleikaröskun, bæði af kleyfhugagerð (schizoid) og tortryggni (paranoid). Þetta er samofið vægum einhverfu einkennum, sem virðast tilkomin á efri árum og því tengjast mótun persónuleika hans en ekki einhverfu sem slíkri.
6. Guðgeir er talsvert mótaður af upplifunum sínum frá árum áður af miklu einelti. Heimsmynd hans er fremur neikvæð og þröng. Hann viðurkennir í raun að vissar aðstæður þar sem hann telur „svínað á sér“ skapi hjá sér ofbeldishugsanir.
7. Guðgeir hefur tilhneigingu til þunglyndis (óyndi, dysthymia) á veturna. Slíkt getur ýft upp og gert persónuveikleika verri. Hann hafði auk þess sofið illa og leið almennt illa. Reiði bæði inn á við (sjálfsvígsáform), en líka út á við (ofbeldishugsanir), voru í aðdraganda atburðar. Hann taldi sig miklum órétti beittur og var reiður á verknaðarstund. Missti þá alla stjórn á sér.
8. Guðgeir viðurkennir gerðir sínar frá upphafi geðrannsóknar. Reiði virðist helsta ástæða verknaðarins.
9. Guðgeir iðrast vægt gerða sinna og sýnir engin merki djúprar sektarkenndar. Guðgeir á hins vegar erfitt með að sýna tilfinningar að öllu jöfnu. Þetta virðist liggja í persónuleikaveilu hans.
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir eftirfarandi:
- Það er niðurstaða mín að Guðgeir sé sakhæfur.
- Guðgeir hefur engin merki geðrofs, sturlunar, frá upphafi skoðunartíma. Heimildir og gögn eru þessu samhljóða.
- Grunnpersónuleiki Guðgeirs einkennist af tortryggni, en þó mest af því að vera einrænn og fáum trúa eða treysta. Mjög neikvæðar hugmyndir um lífið og möguleika þess fyrir hann.
- Ekki koma fram merki um svo alvarlega persónuleikaröskun, heilaskaða eða greindarskort af þeirri gráðu að þau firri hann ábyrgð gerða sinna.
- Guðgeir var allsgáður á brotadegi.
- Geðræn einkenni sem að ofan er lýst leiða ekki til ósakhæfis samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga.
- Þau útiloka ekki fangelsisvist né að refsing komi að gagni.
- Mikilvægt er þó að Guðgeiri verði leiðbeint að skoða hlutina í jákvæðara samhengi og ætti sálfræðilegur stuðningur að geta komið honum að góðu gagni auk reiðistjórnunar. Matsmaður telur að þunglyndi hans sé æskilegt að meðhöndla.
- Ástand þetta hefði aldrei þróast ef Guðgeir hefði leitað sér aðstoðar fremur en taka hlutina í eigin hendur.
- Nýti Guðgeir sér aðstoð eru horfur hans góðar.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu síðdegis mánudaginn 5. mars. Hann viðurkenndi að hafa veist að A og stungið hann með hnífi. Ákærði kvaðst hafa fengið innheimtubréf frá C vegna vangoldinnar brunatryggingar og hefði komið fram að íbúð hans yrði boðin upp ef hann greiddi ekki skuldina. Hann hefði fengið þetta bréf fyrir einni eða tveimur vikum, en það hefði svo verið síðastliðinn þriðjudag að hann hefði ákveðið að ráðast á þann mann hjá lögfræðistofunni, sem hefði með innheimtuna að gera. Spurður hvenær hann hefði ákveðið að ráðast á manninn með hnífi kvað ákærði það hafa verið degi fyrr, eða á sunnudeginum, en þó ekki endanlega fyrr en á skrifstofu A, skömmu áður en hann stakk hann. Ákærði kvað A hafa verið í afgreiðslu lögfræðistofunnar þegar hann kom þangað. Hefði A vísað honum inn á skrifstofu sína og farið að semja við hann um lækkun skuldarinnar. Borið var undir ákærða útprentað bréf, sem fannst í úlpuvasa hans, skuldakrafa tryggingarfélags, stíluð á ákærða vegna brunatryggingar. Í bréfinu var heildarfjárhæð skuldarinnar tilgreind 83.375 krónur, en strikað hafði verið yfir þá tölu með penna og ritað í þess stað 57.000 krónur. Þá höfðu verið ritaðar á bréfið greiðsluupplýsingar og netfangið A@C.is. Ákærði kvað A hafa prentað þetta bréf út á skrifstofu sinni og ritað á það. Hefði komið fram hjá A að hann hefði boðið honum góðan samning með því að lækka skuldina niður í 57.000 krónur. Ákærði kvaðst hafa stungið blaðinu í vasa sinn eins og hann hefði samþykkt þetta, til þess að fá A til að standa upp og taka í hönd sér. Hann hefði fengið A til að standa upp til að fá betra færi á honum. Hann hefði tekið upp hnífinn, sem hann hefði verið með í vasanum, en þetta væri eldhúshnífur, sem hann hefði átt lengi. Hann hefði heilsað A með hægri hendi, en tekið hnífinn með þeirri vinstri úr vinstri úlpuvasa sínum. Hann hefði stungið A í kviðinn. A hefði þá sleppt hendi hans og tekið utan um hann. Ákærði kvaðst hafa haldið áfram að ráðast að A með hnífnum, en ekki geta sagt til hve margar stungur hann veitti honum í átökunum. Hann hefði tekið um axlir eða höfuð A og þeir hefðu lent í gólfinu. Þá hafi annar maður komið inn á skrifstofuna og þrifið hann ofan af A. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að sá maður hefði verið stunginn í lærið og kvað það hafa verið óviljaverk. Hann neitaði því að það hefði verið vilji sinn að bana manninum sem hann veittist að. Nánar spurður um atvik kvaðst hann hafa ákveðið síðastliðinn þriðjudag að ráðast á einhvern sem hefði með innheimtumál hans að gera. Hann hefði ákveðið á sunnudagskvöldið að ráðast á þann mann með hnífi og tekið með sér hníf í því skyni að ráðast á starfsmann lögfræðistofunnar.
Ákærði var yfirheyrður á ný 9. mars og 4. apríl. Við yfirheyrsluna 9. mars kom m.a. fram hjá honum að hann minntist þess að á meðan á atlögunni stóð hefði A sagt við hann: „Ertu brjálaður.“ Síðan hafi hann ekki gert neitt og hafi virst vera búinn að gefast upp, eins og hann vissi að hann ætti eftir að deyja og ekki þýddi að berjast á móti. Kvaðst ákærði minnast þess að A lá undir honum og hann hafi séð hnífsblaðið við háls hans. Hann hefði þá hugsað að hann ætti að „klára þetta“, en einnig hugsað með sér hvað hann væri búinn að gera. Þá hefði B skyndilega verið kominn ofan á hann og haldið um úlnliði hans.
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.
Ákærði kvaðst hafa fengið innheimtubréf frá C þar sem kom fram að fyrirhugað væri nauðungaruppboð á íbúð hans. Hann kvaðst halda að hann hafi ákveðið á sunnudagskvöldinu að taka með sér hnífinn á skrifstofu C. Hann hefði farið til vinnu eins og venjulega á mánudagsmorgninum og geymt hnífinn í úlpuvasa sínum. Hann hefði síðan gengið frá vinnustað sínum að skrifstofu C, farið þangað inn og spurt konu í móttöku við hvern hann ætti að ræða vegna innheimtumálsins. A hefði boðið honum inn á skrifstofu sína og farið yfir málið með honum. A hefði prentað út afrit af innheimtubréfinu og ritað á bréfið um lækkun kröfunnar. Ákærði kvaðst telja að hann hefði samþykkt að ljúka málinu með þeim hætti. Þeir hefðu risið á fætur og tekist í hendur. Eftir það hefði hann misst stjórn á sér og stungið A fyrstu hnífstungunni. Komið hefði til átaka og þeir fallið í gólfið og hefði ákærði lent ofan á A. Þá hefði hurðin á skrifstofunni opnast og einhver gægst þar inn. Ákærði kvaðst hafa sparkað hurðinni til baka. Hann hefði haft hnífinn í vinstri hendi þegar þetta var og hefði hann litið niður á A og séð að hnífurinn var rétt við háls hans. Hann hefði þá farið að hugsa um hvað hann hefði gert. Allt í einu hefði svo maður verið kominn ofan á hann og búið að draga A undan honum. Síðan hefði lögregla komið og handjárnað hann.
Ákærði kvaðst ekki muna hvernig B hlaut áverka á læri, en tók fram að miðað við það ástand sem hann var í ætlaði hann ekki að neita að hafa verið valdur að áverkunum. Það væri mjög líklegt að hann hefði gert þetta.
Ákærði kvað C hafa haft fleiri kröfur á hendur sér til innheimtu, m.a. kröfu vegna láns sem hann hefði tekið til að fjármagna kaup á mótorhjóli. Hann hefði ekki ráðið við afborganir af lánunum. Hann kvaðst hafa verið reiður þegar hann fór á skrifstofu C. Hann hefði lítið sofið næstu tvær vikur á undan og hefðu þær verið „móðukenndar“. Hann hefði ákveðið að fara á lögfræðiskrifstofuna á þriðjudeginum í vikunni á undan. Þá hefðu verið einhverjar hugsanir með honum að gera einhverjum mein. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa verið búinn að ákveða hvað hann ætlaði að gera með hnífnum sem hann tók með sér. Ákærði kannaðist við að hafa sagt við lögregluyfirheyrslu að hann hefði tekið í hönd A til að fá betra færi til að stinga hann. Hann kvaðst þó ekki vita hvort þetta hefði verið tilgangurinn. Hann kvaðst vera rétthentur, en hafa haft hnífinn í vinstri vasa. Hann kvað geta verið að hann hefði séð þá atburðarás fyrir að A myndi taka í hægri hönd hans og hann taka hnífinn úr vasanum og stinga hann. Hann kvaðst þó ekki geta svarið fyrir að hann hefði verið búinn að ákveða að gera þetta svona. Ákærði lýsti því að þegar þeir tókust í hendur hefði hann séð örlítið lúmskt bros hjá A, svipað og þegar einhver segir: „Flott ég náði þér“, eins og A hefði verið að hugsa: „Ha ha náði þér“, þ.e.a.s. að hann hefði náð að níðast á ákærða. Kvaðst ákærði telja að þetta hefði „sett stjórnleysið af stað“.
Ákærði kvaðst muna eftir að hafa stungið A einu sinni, en kvaðst telja hinar stungurnar hafa komið þegar A hefði staðið á bak við hann og hann sveiflaði eða fálmaði með hnífnum aftur fyrir sig. Hann kvað það ekki hafa verið í huga sínum að drepa A. Hann kvaðst ekki vita hvort hann beitti afli við stungurnar, en taldi það mjög líklegt miðað við ástandið sem hann var í, reiði og gremja hefðu verið búin að ná yfirhöndinni.
Ákærði lýsti því að þeir A hefðu fallið í gólfið og legið við hlið skrifborðsins. Hefði vinstri hönd ákærða verið við háls A og hnífurinn undir hendinni. Hann kvaðst þá hafa séð svipbrigði hjá A eins og hann væri búinn að gefast upp. Þá hefði hurðin opnast og andlit komið í gættina. Ákærði kvaðst hafa sparkað hurðinni til baka, en litið síðan aftur á A og farið að hugsa um hvað hann væri búinn að gera. Frá þeim tímapunkti tæki við algjört minnisleysi hjá honum. Kvaðst hann næst muna eftir því að maður hefði verið kominn á bakið á honum. Hann hafi verið á fjórum fótum og A horfinn undan honum. Hnífurinn hefði enn verið undir hendi hans. Hann hefði heyrt mikinn hávaða og öskur og einhver hefði sagt: „Náið hnífnum af honum.“ Kvaðst ákærði þá hafa hent hnífnum frá sér. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa verið í átökum við B. B hefði verið á bakinu á honum og haldið um báða framhandleggi hans, en hnífurinn verið undir vinstri hendi hans. Ákærði kvað vera rétt sem hann hefði lýst við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði horft niður á A og hnífsblaðið verið rétt hjá hálsinum á honum og eitthvað hefði sagt honum að „klára, klára, klára“. Hann kvað þó tvær andstæðar raddir hafa hljómað í höfði sér, önnur hefði verið að reyna að ná stjórn á meðan hin reyndi að halda æsingnum og tryllingsskapnum áfram.
Ákærði kvaðst aldrei hafa heyrt neitt gott eða jákvætt um lögfræðinga. Kvaðst hann byggja þessa skoðun sína á reynslusögum annarra, en sjálfur hefði hann forðast að hafa samskipti við þessa tilteknu starfsstétt. Spurður hvaða hug hann bæri til þessa atburðar kvaðst hann vilja að þetta hefði ekki gerst. Hann vildi að hann hefði ekki látið undan stundarlöngun til að kaupa farartæki. Hann kvaðst sjá eftir því að hafa farið á lögfræðiskrifstofuna. Þá kvaðst hann sjá eftir því að hafa skrifað undir lánasamning. Hann kvaðst óska að hann hefði ekki hitt A. Hann játaði því að hann sæi eftir því að hafa veitt A áverka. Þetta væri eitthvað sem ekki ætti að gera. Kvaðst ákærði taka fulla ábyrgð á gerðum sínum.
Vitnið, A, kvaðst hafa verið á leið út af skrifstofunni þegar hann hefði séð ungan mann, ákærða, frammi í móttöku. Hann hefði séð á útliti ákærða að ekki var allt með felldu hjá honum. Því hefði hann tekið að sér að ræða við hann um þetta innheimtumál. A kvaðst hafa boðið ákærða inn á skrifstofu sína, boðið honum sæti og sest gegnt honum við skrifborðið. Hann hefði farið yfir málið með honum og prentað út bréf sem það varðaði. Ákærði hefði ekki mælt orð frá munni. A kvaðst síðan hafa rétt honum blaðið, þeir hefðu risið á fætur og hann hefði tekið í hönd ákærða og gert sig líklegan til að opna dyrnar. Hann hefði ekki fundið fyrir því að vera stunginn, en skyndilega séð að blóðbuna stóð úr hægri síðu hans. Hann hefði sagt við ákærða: „Hvað gengur þér til drengur?“ Ákærði hefði litið á hann með miklu hatri í augum og sagt: „Ég hata lögfræðinga.“ A kvaðst hafa svarað: „En ég er ekki lögfræðingur“, en þá hefði virst sem ákærði æstist allur upp. Hann kvaðst hafa verið klár á því að ákærði myndi drepa hann. Hann hefði rokið í ákærða, en runnið í blóði á gólfinu. Þeir ákærðu hefðu lent á gólfinu og hefði ákærði legið ofan á honum. Þá hefði B komið inn og rifið ákærða ofan af honum. A sagði þetta hafa gerst ótrúlega hratt. Hann hefði ekki fundið fyrir stungunum, aðeins fundið lítillega fyrir einhverju undir handarkrikanum eftir fyrstu stunguna. Hann kvaðst ekki muna til þess að ákærði hefði snúið baki í hann í átökunum sem áttu sér stað á milli þeirra og stungið aftur fyrir sig, eins og ákærði hafði lýst. Hann kvaðst hins vegar muna eftir því að hafa borið hönd fyrir andlit sér til að verjast hnífstungum og hefði hann við það fengið skurðsár á höndina og kinn.
A lýsti líðan sinni og kvað aðeins um mánuð liðinn frá því hann gat gengið á ný eftir atburðinn. Þó væri hreyfigeta hans mjög skert, einkum í vinstri hönd, sem háði honum mjög í daglegu lífi og skerti möguleika hans á tómstundaiðkun. Þá væri hann dofinn í fingrum og á hægri vanga, auk þess sem hann fyndi fyrir innri áverkum með ýmsum hætti.
Vitnið, B, kvaðst hafa verið nýkominn til vinnu á skrifstofu sinni þegar hann heyrði óp frammi á gangi og hávaða eins og átök ættu sér stað. Starfskona við móttökuborð hefði hrópað að eitthvað væri að inni hjá A. B kvaðst hafa hlaupið í átt að skrifstofu A, heyrt örvæntingarfullt hróp koma þaðan og séð að menn voru þarna að takast á. Hann hefði gert sér grein fyrir því að ráðist hefði verið að A og þegar hann opnaði hurðina hefði verið ljóst að um mjög alvarlega árás var að ræða og mikið blóð var á vettvangi. A hefði verið undir veggnum vinstra megin á skrifstofunni og ákærði yfir honum með hníf í hendi. B kvaðst hafa stokkið að mönnunum og komið að þeim á hlið aftan frá. Kvaðst hann telja að A hefði verið á hnjám sér og að ákærði hefði verið bograndi yfir honum. B kvaðst hafa reynt að ná ákærða af A. Ákærði hefði haldið á hnífnum í vinstri hendi og hefði hann reynt að ná tökum á hendinni. Hann hefði náð taki á ákærða og keyrt hann í gólfið. Þá hefði hann náð tökum á báðum höndum hans. Ákærði hefði enn haldið á hnífnum í vinstri hendi og kvaðst B hafa barið þeirri hendi ítrekað í gólfið og æpt: „Slepptu hnífnum, slepptu hnífnum.“ Ákærði hefði loks sleppt eða misst tak á hnífnum. Í þann mund hefði fleiri starfsmenn borið að og hefði hann sagt þeim að sparka hnífnum fram á gang, sem þeir hefðu gert. D og E hefðu dregið A frá og hlúð að honum, en B kvaðst hafa haldið ákærða uns lögreglumenn komu á vettvang.
B kvaðst ekki hafa áttað sig á því fyrr en átökin voru yfirstaðin að hann hefði verið stunginn með hnífnum. Hann hefði tekið eftir því þegar hann hélt ákærða niðri við gólf að buxurnar hans voru rifnar og hefði hann fundið fyrir sviða í lærinu. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir því hvernig það hefði gerst að hann særðist, en kvaðst telja líklegast að ákærði hefði slengt hendinni með hnífnum aftur fyrir sig í átökunum. Allt hefði gerst mjög hratt og þetta hefði verið mikil barátta við ákærða. Hann hefði þurft að hafa fyrir því að ná af honum hnífnum, en ákærði hefði ekki verið hættur árásinni.
B kvaðst hafa spurt ákærða, þegar hann hélt honum í tökum, hvað hann hefði verið að gera. Ákærði hefði sagt: „Þið áttuð þetta skilið.“ Þegar B spurði við hverja hann ætti hefði ákærði svarað: „Þið á lögfræðistofunni.“ Síðan hefði færst einhver ró yfir ákærða eins og honum væri létt.
Borið var undir B það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu sem tekin var af honum, að ákærði og A hefðu legið í gólfinu þegar hann kom inn. Kvaðst hann ekki muna þetta nákvæmlega. Þegar hann hefði komið inn hefði hann séð ákærða yfir A, með hnífinn í vinstri hendi, mikið blóð hefði verið á skrifstofunni og ákærði hafi verið að „gera frekari árás“ á A. Hann hefði séð að ákærði var ekki hættur atlögunni. Ákærði hefði streist á móti þegar hann tók hann tökum og hefðu þeir tekist á í 20 til 30 sekúndur. Hann kvaðst hafa þurft að hafa fyrir því að ná ákærða af A og frá honum og berja hnífinn úr hendi hans. Hann hefði upplifað það svo að ákærði hefði ekki verið hættur atlögunni á þeim tímapunkti og að hann hefði ekki lokið því sem hann vildi gera. Ákærði hefði streist á móti þegar hann tók hann af A og reyndi að ná hnífnum af honum. Hann hefði upplifað þetta þannig að þeir væru í slag og að þeir væru að berjast um yfirráðin á hnífnum.
Vitnin, D og E, komu inn á skrifstofu A næstir á eftir B. D kvað A hafa verið að skríða undan ákærða þegar hann bar að, en B hefði legið ofan á ákærða og hefði hnífurinn verið við hönd hans. D kvaðst hafa ýtt hnífnum frá og farið að hlúa að A. Hann kvaðst hafa heyrt B spyrja ákærða af hverju hann hefði verið að þessu og hvað hann hefði verið að gera. Hefði ákærði svarað einhvern veginn á þá leið að þetta væru bara þau, eða að þetta væri bara lögfræðistofan. E kvaðst hafa komið inn á skrifstofuna á eftir D og hefði B þá verið búinn að yfirbuga ákærða. Hann hefði séð hnífinn á gólfinu og sparkað honum fram á gang, en síðan farið að hlúa að A.
Vitnið, Brynjar Emilsson, gerði grein fyrir helstu niðurstöðum persónuleikamats, sem hann vann í tengslum við geðheilbrigðisrannsókn á ákærða. Hann kvað ákærða ekki hafa virst hafa eftirsjá varðandi það sem hann hefði gert. Brynjar lýsti því að í viðtölum við ákærða hefði komið fram að hann sæi mest eftir því að hafa tekið myntkörfulán til að fjármagna kaup á bifhjóli. Hann hefði hins vegar réttlætt atlöguna í viðtölum. Komið hefði fram hjá honum að það sem hann gerði hefði ekki verið réttlætanlegt gagnvart manneskjunni sem fyrir varð, en það hefði verið réttlætanlegt gagnvart manneskjunni sem lögfræðingi, eða vegna stöðu hans. Hefði ákærði virst greina þarna á milli. Ákærði hafi mjög öfgakenndar skoðanir á lögfræðingum og telji ekkert gott hægt að segja um þá starfsstétt. Hann hafi undirbúið verknaðinn, komið hafi fram hjá honum að hann hafi verið búinn að hugsa um þetta í nokkra daga. Hann hafi mætt með hníf á lögfræðiskrifstofuna, en óljóst hafi verið af viðtölum við hann hvað hann hafi nákvæmlega ætlað að gera. Brynjar kvað einelti sem ákærði varð fyrir í æsku, ásamt öðrum erfiðleikum, hafa mótað persónugerð hans. Hann sé haldinn langvarandi reiði, sem hann hafi ekki unnið úr. Hann kvaðst telja að ákærði geti verið hættulegur.
Vitnið, Sigurður Páll Pálsson, gerði grein fyrir niðurstöðum geðheilbrigðisrannsóknar á ákærða. Hann kvað ákærða ekki haldinn eiginlegum geðsjúkdómi, en eiga við geðrænan vanda að stríða. Ákærði hafi mótast mjög af einelti sem hann varð fyrir í æsku. Hann sé haldinn persónuleikaröskun af kleyfhugagerð og tortryggni. Slíkir einstaklingar eigi það til að bregðast mjög illa við og verða mjög reiðir ef þeir telji brotið á sér. Það hafi verið mikið áfall fyrir ákærða að fá innheimtubréf. Hann hafi ekki gert ráð fyrir því að hann ætti á hættu að missa íbúðina vegna vanskila. Hafi hugsanir hans snúist upp í mikla reiði, sem hafi legið að baki verknaðinum. Sigurður kvaðst ekki hafa orðið var við djúpa eftirsjá hjá ákærða vegna þess sem hann hefði gert, en tók fram að hann ætti erfitt með að sýna tilfinningar. Þegar leið frá atburðinum og ákærði fór að róast hefði komið fram hjá honum að hann væri hissa yfir því að hafa misst stjórn á sér. Hann hafi hins vegar ekki dýpri merki samviskubits eða sorgar vegna þess sem hann gerði. Ákærði hafi mjög neikvæða afstöðu til lögfræðinga og fleiri sérfræðinga, s.s. lækna. Þetta hafi háð honum þar sem hann hafi ekki leitað til sérfræðinga vegna vanda síns. Sigurður kvað engan vafa leika á sakhæfi ákærða.
Vitnið, Ólafur R. Ingimarsson, lýsti áverkum B. Hann hefði verið með blæðandi sár eftir hnífstungu, annað um 8 cm langt framanvert á lærinu, en hitt um 3 cm langt neðarlega á utanverðu læri. Sárið framan á lærinu hefði verið um 5 til 6 cm djúpt og hefði það gengið í gegnum vöðva og flötu sinina sem afmarkar vöðvahylkið, inn í vöðvakjötið. Ólafur sagði áverkana hafa virst vera eftir oddhvassan hníf. Þá kom fram hjá honum að mun alvarlegri áverkar hefðu hlotist ef hnífstungurnar hefðu farið í lærið innanvert vegna slagæða og tauga sem þar eru.
Vitnið, Tómas Guðbjartsson, lýsti áverkum A, sem raktir eru í læknisvottorði. Hann sagði að skurðirnir sem A hlaut hefðu ekki verið ýkja langir, eða um 5 til 6 cm, en þeir hefðu verið djúpir. Hann hefði þreifað með fingrum inn undir áverka á hálsi og fundið að hann var djúpur. Við aðgerðina hefði einnig komið fram að aðrir skurðir voru mjög djúpir og gengu þeir um 10 til 15 cm inn í líkamann. Þannig hefði hnífslagið gengið inn í lifur og hægra nýra, en einnig hefðu orðið áverkar á lungum og þind beggja vegna. Miðað við hnífinn, sem beitt var, væri ljóst að allt hnífsblaðið hefði gengið inn í líkama A. Þá hefðu rifbein kubbast í sundur beggja vegna og höfðu æðar þar fyrir neðan augljóslega verið sagaðar í sundur. Væri þetta til marks um að hnífnum hafi verið beitt af afli, en talsvert átak þurfi til að rif fari í sundur. Tómas kvað fjóra af fimm stunguáverkum sem A hlaut hvern um sig hafa getað valdið bana. Þá kom fram hjá honum að ef hnífurinn hefði farið í hjarta eða í stóru hálsslagæðina, sem liggur upp í heila, hefði vart verið hægt að bjarga lífi A, en tilviljun hefði ráðið því að sú varð ekki raunin. Ekki hefði munað nema nokkrum sentímetrum að hnífurinn færi í hjartað. Þá hefði hnífslagið farið í gengum lungu og þind báðum megin, en lungnaslagæð sé þar mjög nálægt.
Tómas kvað hafa verið ljóst frá fyrstu mínútu að A var í bráðri lífshættu, en honum hafi blætt mikið og öndun hafi verið orðin skert. Hann hafi því verið drifinn tafarlaust í aðgerð, sem hafi verið viðamikil. Hafi A misst um 50 lítra af blóði eftir atlöguna og í aðgerðum, sem sé um sjö eða áttfalt blóðmagn líkamans. Mikil hætta sé fylgjandi svo mikilli blóðgjöf. Tómas kvaðst telja að það hafi skipt sköpum að A gekkst undir aðgerð þegar í stað, án þess að eyða tíma í röntgenrannsóknir, tölvusneiðmyndatöku eða annan venjubundinn undirbúning.
Tómas lýsti því að mikil sýkingarhætta fylgdi aðgerðum af þessu tagi og hafi A dvalið í margar vikur á gjörgæslu. Á þeim tíma hefði hann verið talinn í lífshættu. Þá hefðu jafnframt orðið bilanir í líffærum og A hafi átt erfitt með öndun. Staðan nú væri sú að hægri hönd A væri léleg vegna áverka sem hann hlaut á hálsi. Þá finni hann fyrir áverkum á fingrum. Miklar blæðingar hafi verið í lifur og hafi hann þurft að gangast undir tvær aðgerðir vegna þess. Enn sé blóð í lifur og ekki útséð um lifrarstarfsemi til lengri tíma. Þá sé nýrnastarfsemi áhyggjuefni, en A sé nú aðeins með eitt nýra og hafi það gefið sig. Nýrað sýni batamerki, en erfitt sé að segja til um framtíðarhorfur. Enn séu bólgur í lungum, sem geri að verkum að A mæðist, en góðar horfur séu á því að það muni jafna sig.
Niðurstaða
I. kafli ákæru
Með játningu ákærða, sem er í samræmi við framburð vitna og læknisfræðileg gögn í málinu, er sannað að ákærði veittist að A með hnífi og stakk hann ítrekað í líkamann eins og lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Ákærði hefur borið að hann hafi íhugað það nokkrum dögum fyrir atburðinn að vinna einhverjum starfsmanni lögfræðistofunnar mein. Þá hafi hann ákveðið kvöldið áður að hafa hnífinn með sér er hann færi þangað. Verður við það miðað að ekki síðar en þá hafi myndast ásetningur hjá ákærða til að stinga starfsmann lögfræðistofunnar með hnífi.
Ákærði stakk A ítrekað með hnífi með tæplega 13 cm löngu blaði. Að mati dómsins er framburður ákærða um að hann hafi veitt A áverka með því að stinga eða fálma með hnífnum aftur fyrir sig óljós og ótrúverðugur. Framburður ákærða að þessu leyti samrýmist hvorki lýsingum A á því hvernig atlagan gekk fyrir sig, né læknisfræðilegum gögnum í málinu. Af framburði A, læknisvottorði og framburði vitnisins Tómasar Guðbrandssonar, verður hins vegar ályktað, að ákærði hafi gengið ákveðið til verks og beitt hnífnum af afli. Þá bar B að ákærði hefði ekki látið af atlögunni fyrr en hann var yfirbugaður. Atlaga ákærða að A var lífshættuleg og réð hending því að ekki hlaust bani af. Var atlagan með þeim hætti að lagt verður til grundvallar að ákærði hafi viljað að A biði bana af. Hefur ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem í I. kafla ákæru greinir og varðar við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
II. kafli ákæru
Ákærði kveðst ekki muna eftir því að hafa stungið B með hnífi í lærið, svo sem lýst er í ákæru, en dregur það hins vegar ekki í efa. Fyrir liggur að ákærði og B tókust á og kom fram hjá B að hann hefði orðið þess var eftir að hann náði að yfirbuga ákærða, að hann hefði verið stunginn. Með hliðsjón af framansögðu, og vísan til læknisvottorðs og framburðar Ólafs R. Ingimarssonar, er sannað að ákærði hafi í tvígang stungið B með hnífnum í lærið, með þeim afleiðingum að hann hlaut skurðsár, svo sem í ákæru greinir. Ákærða mátti vera ljóst að áverkar gátu hlotist af því að hann veitti B viðnám með hníf í hendi. Verður verknaðurinn virtur honum til ásetnings. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt II. kafla ákæru og varðar háttsemi hans við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur árið 1977. Hann hefur ekki áður sætt refsingu. Ákærði hafði einbeittan ásetning til verksins og réð hending því að ekki hlaust bani af ofsafenginni atlögu hans á A. Þá var atlaga hans að B stórhættuleg. Það er mat dómsins að ákærði eigi sér engar málsbætur og kemur ekki til álita að milda refsingu á grundvelli 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1., 2., 3., 6. og 7. tölul. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 14 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 6. mars 2012 til frádráttar refsingu.
Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna auk vaxta. Jafnframt er krafist viðurkenningar á bótaskyldu ákærða vegna líkamstjóns. Ákærði hefur alfarið hafnað bótakröfunni. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir tilraun til manndráps. Atlaga hans að A var fyrirvaralaus, ofsafengin og lífshættuleg. Hlaut A gríðarlega áverka af atlögunni, en ekki liggur fyrir hverjar afleiðingar verða af líkamstjóni hans. Ber ákærði skaðabótaábyrgð gagnvart brotaþola vegna þess tjóns sem af verknaði hans hefur hlotist, sbr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga verður ákærði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna, svo sem krafist er, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.
Af hálfu B er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð 1.138.200 krónur auk vaxta, sem sundurliðast þannig:
1. Miskabætur skv. 26. gr. skaðabótalaga kr. 1.000.000
2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga kr. 18.200
3. Jakkaföt kr. 120.000
Ákærði hafnar bótakröfunni. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart B og verður hann dæmdur til greiðslu miskabóta. Þykir fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 800.000 krónur, með vöxtum sem í dómsorði greinir. Krafa um þjáningabætur og bætur vegna tjóns á fatnaði er ekki studd fullnægjandi gögnum og verður þeim liðum bótakröfu vísað frá dómi.
Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 1.255.000 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Brynjars Níelssonar hrl., 313.750 krónur, og tilnefnds réttargæslumanns við lögreglurannsókn málsins, Valtýs Sigurðssonar hrl., 188.250 krónur. Við ákvörðun þóknunar til lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 1.175.024 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari.
Málið dæmdu héraðsdómararnir Ragnheiður Harðardóttir, sem dómsformaður, Guðjón St. Marteinsson og Ingimundur Einarsson.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Guðgeir Guðmundsson, sæti fangelsi í 14 ár. Gæsluvarðhald ákærða frá 6. mars 2012 kemur til frádráttar refsingu.
Ákærði greiði A 3.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 5. mars 2012 til 4. maí 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Viðurkennd er bótaskylda ákærða vegna líkamstjóns A.
Ákærði greiði B 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 5. mars 2012 til 4. maí 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 1.255.000 krónur, og þóknun réttargæslumanna brotaþola, Brynjars Níelssonar hrl., 313.750 krónur, og Valtýs Sigurðssonar hrl., 188.250 krónur. Ákærði greiði 1.175.024 krónur í annan sakarkostnað.