Hæstiréttur íslands

Mál nr. 313/2017

Sjómannasamband Íslands (Björn L. Bergsson hrl.)
gegn
Þorbirni hf. (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Viðurkenningarkrafa
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

S höfðaði mál á hendur Þ hf. og krafðist viðurkenningar á því að Þ hf. hefði borið að greiða skipverjum á nánar tilgreindu fiskiskipi aflahlut af heildarverðmæti grálúðuafla sem seldur var á markaði í samræmi við ákvæði í kjarasamningi S og Landssambands íslenska útvegsmanna. Fyrir lá að aðeins hluti skipverja voru félagsmenn í félögum innan vébanda S. Taldi héraðsdómur að kröfugerð S fullnægði ekki skilyrðum 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og vísaði málinu frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt kröfugerð S væri eftir orðum sínum ekki bundin við þá skipverja sem væru félagsmenn í aðildarfélögum S yrði að líta svo á að hún sætti að þessu leyti takmörkun af því að þeir einir tækju laun eftir þeim kjarasamningi sem kröfugerðin tæki til. Væri þetta ekki slíkur annmarki á málatilbúnaðinum að varðað gæti frávísun. Þá hefði heimild til málsóknar eftir 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 í dómaframkvæmd verði talin fyrir hendi þótt sú viðurkenningarkrafa sem mál tæki til hefði einungis snúið að hluta félagsmanna í félagi eða samtökum sem eiga í hlut og jafnvel fámennum hópi þeirra. Loks samrýmdist það tilgangi S að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tæki til. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. maí 2017 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi í kjölfar aðalmeðferðar þess. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er sóknaraðili heildarsamtök og eru aðildarfélög hans stéttarfélög undirmanna í stétt sjómanna. Með málshöfðun sinni leitar sóknaraðili viðurkenningar á því að varnaraðila hafi borið að greiða skipverjum á fiskiskipinu Valdimar GK-195 aflahlut af heildarverðmæti grálúðuafla sem seldur var á markaði 29. október 2015 í samræmi við tiltekið ákvæði í kjarasamningi sóknaraðila og Landssambands íslenska útvegsmanna. Þótt kröfugerðin sé eftir orðum sínum ekki bundin við þá skipverja í áhöfninni sem eru félagsmenn í aðildarfélögum sóknaraðila verður að líta svo á að hún sæti að þessu leyti takmörkun af því að þeir einir taka laun eftir þeim kjarasamningi sem kröfugerðin vísar til. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila ber jafnframt að líta svo á að kröfugerð hans nái til undirmanna á fyrrgreindu skipi. Er þetta því ekki slíkur annmarki á málatilbúnaðinum að varðað geti frávísun.

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geta félög eða samtök manna í eigin nafni rekið mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra, enda samrýmist það tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tekur til. Þessi heimild til málsóknar hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið talin fyrir hendi þótt sú viðurkenningarkrafa sem mál tekur til hafi aðeins snúið að hluta félagsmanna í félagi eða samtökum sem eiga í hlut og jafnvel fámennum hópi þeirra, sbr. meðal annars dóma réttarins 1. júní 2017 í máli nr. 501/2016 og 3. nóvember 2005 í málum nr. 184/2005 og 185/2005. Ekki skiptir heldur máli þótt launþegi sjálfur, einn eða í félagi við aðra eftir heimild í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, gæti haft uppi fjárkröfu vegna þeirra réttinda sem málið lýtur að. Þá samrýmist það tilgangi sóknaraðila að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tekur til í ljósi þess að starfsemi hans felst meðal annars í því að veita þeim sjómannafélögum, sem í sambandinu eru, sérhverja þá aðstoð, sem hann getur látið í té til að efla starfsemi þeirra og hindra að gengið sé á rétt þeirra, og að gangast fyrir samræmdum aðgerðum sjómannafélaganna við gerð samninga um kaup og kjör, sbr. dóm Hæstaréttar 30. október 2002 í máli nr. 464/2002.

Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.    

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Þorbjörn hf., greiði sóknaraðila, Sjómannasambandi Íslands, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 3. maí 2017

                Mál þetta er höfðað með birtingu stefnu 28. september 2016.

                Stefnandi er Sjómannasamband Íslands, kt. 570269-2249, Guðrúnartúni 1, Reykjavík.

                Stefndi er Þorbjörn hf., kt. 420369-0429, Hafnargötu 1, Grindavík.

                Dómkröfur stefnanda eru þær viðurkennt verði að stefnda hafi borið að greiða skipverjum á fiskiskipinu Valdimar GK-195 aflahlut af heildarsöluverðmæti grálúðuafla er seldur var á markaði 29. október 2015, í samræmi við gr. 1.28.1 í gildandi kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.

I

Stefndi er útgerðarfélag sem meðal annars gerir út fiskiskipið Valdimar GK-195. Skipið er 344,33 brúttólestir, 41,6 metra langt og heimahöfn þess er í Vogum. Skipið stundar línuveiðar og er búið beitningavél. Fjórtán manns eru í áhöfn skipsins og því fer um hlutaskipti skipverja eftir grein 2.06 í kjarasamningi stefnanda, fyrir hönd aðildarfélaga sinna, og Landssambands íslenskra útvegsmanna (nú Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi) sem undirritaður var 17. desember 2008. Samkvæmt ákvæðinu skal hundraðshluti áhafnar af afla vera 32,3%.

Hinn 28. október 2015 var landað 1.574 kílóum af grálúðu úr fiskiskipinu Valdimar GK-195 og var aflinn seldur daginn eftir sem svokallaður VS-afli á fiskmarkaði Siglufjarðar. Fyrir aflann fékkst að meðaltali 441 kr. fyrir kg. Í stefnu kemur fram að samkvæmt launauppgjöri við Sigurjón Má Stefánsson háseta á skipinu, og félagsmanns Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur, fyrir tímabilið 1. október til 3. nóvember 2015, hafi við útreikning á aflahlut hans verið miðað við að verð á grálúðu í þetta sinn hafi numið 88,20 krónum á kíló. Hafi hásetahlutur skipverjans því verið reiknaður af um 20% af verðmæti aflans og laun hans og annarra skipverja því sætt skerðingu sem numið hafi mismun þessa og heildarverðmætis grálúðuaflans.

Uppgjör á aflanum byggði stefndi á 9. og 10. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, sem kveður á um heimild skipstjóra fiskiskips til ákveða að hluti afla skipsins, upp að tilteknu marki, skuli ekki reiknast til aflamarks þess ef aflanum er haldið aðskildum frá öðrum afla og að hann sé seldur á uppboðsmarkaði fyrir sjávarafurðir og andvirði hans renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla með síðari breytingum. Í stefnu kemur fram að stefnandi líti svo á að uppgjör til sjómanna á þessum grunni fái ekki staðist. Stefnandi kveðst ítrekað hafa gert kröfur um að stefndi og aðrar útgerðir sem bundnar séu af kjarasamningi Landsambands íslenskra útvegsmanna, greiði skipverjum sínum laun í samræmi við umsamin skiptakjör samkvæmt grein 1.28.1 í samningnum. Með bréfi stefnanda 10. desember 2015 skoraði hann á stefnda að gera réttilega upp við Sigurjón Má Sigurjónsson án árangurs og var lögmanni í kjölfarið falið mál skipverjans til innheimtu. Með bréfi lögmannsins 14. mars sama ár var var þess krafist að skipverjanum yrðu greiddar samtals 25.671 krónur í ógreidd laun, dráttarvexti og innheimtukostnað.

II

Stefnandi byggir aðild sína að máli þessu á 3. tölulið 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem félagi eða samtökum manna sé heimilað í eigin nafni að reka mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna sinna eða til lausnar undan tilteknum skyldum. Í málinu sé leitað viðurkenningar á rétti félagsmanna aðildarfélags stefnanda samkvæmt kjarasamningi sem stefnandi hafi gert á grundvelli lagaskyldu í 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, en tilgangur stefnanda sé meðal annars að annast um samningagerð fyrir félög sambandsins og hagsmunagæslu fyrir þau. Að mati stefnanda eigi ákvæði 3. tölul. 25. gr. laga nr. 91/1991 því við í þessu tilviki.

Stefnandi byggir á því að um kjör félagsmanna aðildarfélaga hans skuli fara samkvæmt kjarasamningi Landsambands íslenskra útvegsmanna (nú Sambands fyrirtækja í sjávarútvegi) og stefnanda sem undirritaður hafi verið 17. desember 2008 og gilt frá 1. janúar 2009. Kjarasamningurinn hafi að geyma lágmarkskjör í skilningi 1. gr. laga nr. 55/1980. Stefndi sé bundinn af samningnum og geti ekki undan honum vikist.

Stefnandi byggir jafnframt á grundvallarreglunni um samningsfrelsi en í reglunni felist að aðilar ráði efni samnings sín á milli. Þá sé frelsi stefnanda sem stéttarfélags til þess að gera samninga við viðsemjendur sína sérstaklega varið af 2. mgr. 75 gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem kveði á um að löggjafanum beri með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Af þessu leiði að kjarasamningi verði ekki vikið til hliðar nema skýr áskilnaður þar um komi fram í lögum, en sú sé ekki raunin í þessu tilviki. Í máli þessu hátti svo til að stefndi hafi kosið að reikna ekki aflahlut af söluverðmæti tiltekins afla í tiltekinni veiðiferð, þ.e. grálúðu sem landað hafi verið 28. október 2015, samkvæmt kjarasamningi, heldur aðeins af 20% verðmæti grálúðuaflans. Stefndi hafi talið sér þetta heimilt með vísan til 9. og 10. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006. Að mati stefnanda fái það ekki staðist enda hafi löggjafinn ekki kveðið á um að þau lög skuli ganga framar kjarasamningum sem aðilar hafa gert sín á milli um skiptakjör, í krafti lagaheimilda og stjórnarskrárvarinna réttinda þar að lútandi.

Í 1. gr. kjarasamningsins komi fram að samningurinn gildi fyrir öll skip sem gerð séu út til veiða sem skilgreindar séu í samningnum, þar með taldar línuveiðar eins og stundaðar væru á Valdimar GK-125. Um skiptakjör sé fjallað ítarlega í kjarasamningnum og byggir stefnandi á því að ákvæði kjarasamningsins kveði á um lágmarkskjör sem ekki verði vikist undan, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 sbr. 7. gr. laga nr. 80/1938. Ákvæði kjarasamningsins geri ráð fyrir því að aflahlut skuli skipt milli áhafnar og útgerðar og að aflahlut skuli aldrei skipt í fleiri staði en menn séu á skipi í veiðiferð, sbr. gr. 1.02 í kjarasamningnum. Stefnda Þorbirni ehf. hafi því ekki verið heimilt að deila hluta aflaverðmætisins með þriðja aðila. Með því að ákveða að 80% verðmætis grálúðu rynni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins hafi skipverjar á skipinu farið á mis við umsaminn hlut sinn í aflaverðmæti meðan opinber stofnun hafi notið góðs af. Skylda stefnda gagnvart Verkefnasjóði sjávarútvegsins breyti ekki inntaki skyldu stefnanda gagnvart skipverjum sínum. Slíkt sé hvergi áskilið eða umsamið.

Í þessu samhengi byggir stefnandi á því að kjarasamningurinn leggi útgerðarmanni á herðar þá skyldu að tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, sbr. gr. 1.28. Ákvæði samningsins miði að auki við að tryggja sem best að skiptahlutur skili sér til áhafnar með því að skorður séu settar við afdrátt útgerðar af heildarverðmæti t.d. vegna kaupa á veiðiheimildum, sbr. gr. 1.28 og einnig hvað sé heimilt að draga af söluverðmæti sé afli seldur á uppboði, sbr. gr. 1.29.1 í kjarasamningnum. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi hagað því þannig að ákvörðun um ráðstöfun afla hafi ekki tekið mið af þessum skyldum útgerðarinnar samkvæmt kjarasamningi heldur hafi stefndi ákveðið út frá eigin hagsmunum hvort og hvaða tegundir sem komið sé með að landi skuli falla undir skipti. Með öðrum orðum hafi stefndi ákveðið, í því tilviki sem hér um ræði, einhliða að einungis 20% andvirðis grálúðuaflans skyldi ekki koma til skipta, en 80% andvirðisins skyldi renna til fyrrgreinds sjóðs. Með þessu móti geti stefndi stýrt notkun aflamarks einstakra fisktegunda sem hann hafi til veiða á kostnað áhafnar, sem þó hafi innt af hendi alla þá sömu vinnu og endranær án þess að fá endurgjald vinnu sinnar nema að litlu leyti og alls ekki í samræmi við ákvæði kjarasamningsins um skiptakjör. Áréttað sé í þessum efnum að aflahæfi manna feli í sér stjórnarskrárvarin eignarréttindi sem ekki verði skert nema fullar bætur komi fyrir. Með þessu móti telji stefnandi að stefndi hafi farið gegn óumdeildum ákvæðum kjarasamningsins um það hvernig laun sjómanna, eins og Sigurjóns, skuli reiknuð með hliðsjón af þeim afla sem fiskast og seldur er hverju sinni.

Í samræmi við ofangreint hafi aflahlut skipsins verið skipt milli 14 skipverja 29. október 2015. Samkvæmt grein 1.29.1 kjarasamningsins skuli skiptaverðmæti vera 70% og þar sem um hafi verið að ræða skip á línuveiðum með beitningarvél skuli hundraðshluti af aflaverðmæti sem eftir standi vera 32,3%, sbr. grein 2.06. Enginn ágreiningur sé með aðilum um þessar útreikningsforsendur. Aflahlutur skipverja af grálúðu í tilgreindri veiðiferð hafi á hinn bóginn ekki verið reiknaður með þessum hætti heldur aðeins af 20% aflaverðmætisins og skiptaverð af því aflaverðmæti einungis 70% af 20% aflaverðmætisins. Af þeirri ástæðu hafi hásetahlutur á skipinu vegna þess afla aðeins verið 2.242 krónur en ekki 11.210 krónur eins og borið hafi samkvæmt ákvæðum kjarasamningsins. Engin málefnaleg rök séu fyrir slíkri eftirgjöf skipverja á launum sínum.

Loks byggir stefnandi á því að 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 kveði ekki á um að ákvæðinu megi beita skipverjum til tjóns þannig að þeir fái ekki gagngjald fyrir vinnu sína. Í ákvæðinu sé aðeins mælt fyrir um að skipstjóra sé heimilt að halda tilteknu hlutfalli afla skips utan aflamarks þannig að viðkomandi afli skerði ekki það magn afla sem skipinu hafi verið úthlutað í upphafi fiskveiðiárs. Hvorki í lagaákvæðinu sjálfu né í kjarasamningi aðila sé því gefið undir fótinn að úrræði þetta skuli verða á kostnað áhafnar. Gagnvart útgerðinni megi einu gilda hvernig uppgjör einstakra veiðiferða sé, þar sem aflamarkið haldist óbreytt og megi veiða síðar á fiskveiðiárinu. Á hinn bóginn sé það ekki raunin hvað áhöfn varðar, þar sem ekki sé víst að sama áhöfn njóti þess í launum þegar útgerðin kjósi að nýta kvóta sinn að fullu. Þannig sé ekki gefið að hagsmunir útgerðar og áhafnar fari saman í þessu efni, en hvorki lög né kjarasamningar standi til þess að útgerð geti ákveðið að áhöfn vinni launalaust við að draga fisk úr sjó telji útgerð sér hagfelldara af ástæðum er varða reksturinn að láta aflann renna í VS-sjóð.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar um skyldu til að efna samninga og meginreglna vinnuréttar um réttar efndir ráðningarsamninga og rétt stefnanda til endurgjalds fyrir vinnu sína. Þá er vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör  launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sérstaklega 72., 74., og 75. gr. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988.

III

Stefndi telur vandséð að stefnandi eigi aðild að málinu og geti farið fram með viðurkenningarkröfu fyrir skipverja á skipi stefnda Valdimari GK. Stefndi sé ekki félag skipverja heldur samtök sjómannafélaga og því sé enginn skipverja félagsmaður stefnanda. Þá sé það ekki tilgangur eða starfsemi stefnanda að fara með launakröfur fyrir sjómenn heldur styðja við aðildarfélög sambandsins og almennt stuðla að fræðslu og bættri löggjöf sem snúi að störfum sjómanna, sbr. 2. gr. laga stefnanda. Þar sem það falli ekki að tilgangi stefnanda að fara með launakröfur einstakra sjómanna geti hann ekki byggt heimild sína til að koma fram í málinu fyrir hönd einstakra sjómanna á samþykktum félagsins. Verði þó talið að stefnandi geti farið með kröfur fyrir einstaka skipverja sem væru félagsmenn í aðildarfélögum stefnanda, liggi fyrir að ekki allir skipverjar á Valdimari GK séu félagsmenn í félögum innan vébanda stefnanda. Þannig séu skipstjóri og stýrimenn félagsmenn í Vísi, stéttarfélagi skipstjóra- og stýrimanna á Suðurnesjum, en það félag eigi ekki aðild að stefnanda. Stefnandi geti ekki rekið mál til viðurkenningar á réttindum skipverja sem ekki eru innan vébanda hans. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi byggir jafnframt á því að málatilbúnaður stefnanda sé ómarkviss og erfitt sé að átta sig á því hver sé grundvöllur málshöfðunar stefnanda.

Stefndi kveður það óumdeilt að um kjör skipverja fari samkvæmt kjarasamningum, að kjarasamningar hafi að geyma ákvæði um lágmarkslaun, réttur stéttarfélaga til að semja um kaup og kjör njóti verndar stjórnarskrár og að ákvæðum kjarasamninga verði ekki vikið til hliðar nema með skýrum ákvæðum í lögum.

Í stefnu sé því haldið fram að í tilvikinu séu ekki fyrir hendi skýr lagaákvæði án þess að það sé skýrt nánar eða fjallað um viðeigandi lagaákvæði og hvers vegna stefnandi telji þau ekki vera nægilega skýr. Stefndi kveðst gera athugasemdir við umfjöllun stefnda og kveður sölu á aflanum og ráðstöfun á söluandvirði hans ekki á forræði stefnda heldur bundin í lög. Í lokamálslið 10. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða sé með nokkuð skýrum og afdráttarlausum hætti kveðið á um það að 20% endurgjald til útgerðar fyrir VS-afla skuli skipt milli útgerðarinnar og áhafnar í samræmi við samninga þar um. Af ákvæðinu sjálfu og skýringum með því leiði að umrædd hlutdeild eigi að koma til skiptingar milli útgerðar og áhafnar, en ákvæði þetta hafi verið skýrt svo í greinargerð við lögfestingu þess: „Hér er lagt til að uppistaða andvirðis aflans, sem ekki reiknast til kvóta, renni til Hafrannsóknastofnunarinnar og að útgerð skips og áhöfn hafi ekki hag af veiðunum en verði þó greitt eitthvað fyrir þann kostnað og vinnu sem felst í að skila honum að landi.“

Stefndi kveður markmið reglunnar í 9. og 10. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 vera að vinna gegn brottkasti og þar með sóun á verðmætum. Af málatilbúnaði stefnanda verði ekki ráðið hvort stefnandi geri ágreining um stjórnskipunarlegt gildi þessa lagaákvæðis. Í stefnu sé áréttað að aflahæfi manna séu stjórnarskrárvarin eignarréttindi án þess að skýrt sé nánar eða fjallað um hvort og af hvaða ástæðum stefnandi telji brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum skipverja. Verði því fremur að telja að stefnandi sé með almennum hætti að minna á að aflahæfi njóti verndar stjórnarskrár en að um sé að ræða málsástæðu þess efnis að ákvæðin brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Stefndi kveður málatilbúnað stefnanda virðast byggja á þeirri forsendu að í 10. mgr. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða sé ekki kveðið á um það með nægilega skýrum hætti að 20% af aflaverðmæti svonefnds VS-afla komi til skipta milli útgerðar og áhafnar. Í stað þess að fjalla um óskýrleika lagaákvæða kjósi stefnandi að setja mál sitt fram eins og engin lagaákvæði séu fyrir hendi og að ákvörðun um að 20% af söluverði VS-aflans komi í hlut útgerðar og áhafnar sé einhliða ákvörðun stefnda. Stefnandi haldi því ítrekað fram að stefndi, þ.e. „útgerðin“ taki ákvörðun um það hvort heimild til að landa VS-afla sé nýtt hverju sinni. Samkvæmt 9. mgr. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða sé það hins vegar alfarið á valdi skipstjóra að ákveða það. Ástæða þess að skipstjóra sé falið þetta vald, en ekki útgerð skips, sé væntanlega sú að ákvæðinu sé ætlað að færa skipstjórum tæki til að bregðast við þegar skipið fær afla sem það hafi ekki aflaheimildir fyrir. Í tilviki stefnda sé það algilt að skipstjórar á skipum hans fara einir með þetta vald og því sé ekki rétt að útgerðin hafi tekið eða komið að ákvörðunum um löndun á svonefndum VS-afla.

Stefndi kveðst að öðru leyti hafna málsástæðum stefnanda og kveðst telja sig hafa við uppgjörið fylgt ákvæðum 10. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, 1. gr. laga um 24/1986 um skiptaverðmæti og ákvæðum kjarasamnings aðila.

Stefndi byggir á því að ákvörðun skipstjóra Valdimars GK um að landa grálúðuafla í október 2015 sem VS-afla og uppgjör við áhöfn vegna þessa afla hafi verið í samræmi við ákvæði 9. og 10. mgr. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða. Stefndi byggir á því að ákvæðin kveði með afdráttarlausum hætti á um það að 20% af andvirði selds afla skiptist milli útgerðar og áhafnar samkvæmt samningum þar um. Er óumdeilt að uppgjör við skipverja vegna þessa afla hafi farið fram með þeim hætti.

Stefndi byggir á því að það heildarverðmæti sem útgerðin hafi fengið fyrir aflann hafi komið til skipta. Því hafi að öllu leyti farið að 1. gr. laga um skiptaverðmæti nr. 24/1986 og ákvæði 1.29 í kjarasamnings aðila. Í grein 1.29 í kjarasamningi aðila sé vísað til laga nr. 24/1986 um skilgreiningu á því aflaverðmæti sem koma skuli til skipta. Í 1. gr. laga nr. 24/1986 sé kveðið á um það að við útreikning á hlut eða aflaverðlaunum skuli taka mið af því heildarverðmæti sem útgerðin fái fyrir aflann. Það „heildarverðmæti“ sem útgerð fái fyrir VS-afla sé 20% af söluverði hans á uppboði, en hin 80% fari til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Sú greiðsla sem fari til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins komi því ekki frá stefnda eða fari í gegnum stefnda eins og ætla megi af málatilbúnaði stefnanda. Ekki sé því rétt að aflaverðmæti sem komið hafi í hlut útgerðarinnar hafi verið meira en þau 20% sem skipst hafi milli útgerðarinnar og áhafnarinnar.

Stefndi byggir á því að ekki sé heimilt samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða að landa afla utan aflamarks nema sem VS-afla. Krafa stefnanda um löndun og sölu á afla utan aflamarks með öðrum hætti en samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða sé ekki varin af lögum. Aflamark skips stefnda, Valdimars GK, í grálúðu fyrir fiskveiðiárið 2015/2016 hafi verið 733 kíló, en landaður VS-afli í grálúðu í umræddri veiðiferð hafi verið 1.574 kíló.

IV

Stefnandi er heildarsamtök sjómanna á landinu og eru aðildarfélög stefnanda, samkvæmt því sem fram kom hjá lögmanni stefnanda við aðalmeðferð málsins, öll íslensk stéttarfélög undirmanna í stétt sjómanna utan Sjómannafélags Íslands. Stefnandi kveður stefnda hafa við uppgjör vegna tiltekinnar veiðiferðar fiskiskipsins Valdimars GK-195 virt að vettugi kjarasamning stefnanda og Landsambands íslenskra útvegsmanna og vangreitt áhafnarmeðlimum laun. Í málinu krefst stefnandi þess að dæmt verði að stefnda hafi borið að greiða skipverjum á fiskiskipinu aflahlut af heildarsöluverðmæti grálúðuafla, sem seldur var á markaði 29. október 2015, samkvæmt grein 1.28.1 í kjarasamningnum.

Samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 geta félög eða samtök manna í eigin nafni rekið mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna eða lausnar undan tilteknum skyldum þeirra ef það samrýmist tilgangi félagsins eða samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem dómkrafan tekur til. Viðurkennt er að heildasamtök geti átt aðild að máli samkvæmt ákvæðinu að því uppfylltu að aðildarfélög þess geti látið hagsmunina til sín taka og að nægileg stoð sé fyrir umræddri hagsmunagæslu í lögum heildarsamtakanna.

Samkvæmt lögum Sjómannasambands Íslands felst í starfsemi þess að gangast fyrir stofnun sjómannafélaga, styðja og styrkja sjómannafélög, efla hagsmunabaráttu þeirra og starfsemi og tryggja að þau séu í sambandinu. Einnig ber stefnanda að veita aðildarfélögum sínum sérhverja þá aðstoð sem það getur látið í té til að efla starfsemi þeirra og hindra að gengið sé á rétt þeirra. Ennfremur er stefnanda ætlað að gangast fyrir samræmdum aðgerðum sjómannafélaganna við gerð samninga um kaup og kjör, svo og gagnkvæmum stuðningi félaganna hvert við annað í verkföllum, verkbönnum og hverskonar deilum, enda séu þær deilur viðurkenndar af sambandsstjórn eða hafnar að tilhlutan hennar. Loks ber stefnanda að gangast fyrir aukinni fræðslu sjómanna um félagsmál og vinna að því að komið verði fram bættri löggjöf um hagsmunaréttinda-, öryggis – og menningarmál sjómanna.

Dómkrafa stefnanda í máli þessu lítur samkvæmt orðalagi sínu að rétti skipverja fiskiskipsins Valdimars GK-195 til tiltekinnar hlutdeildar í söluverðmæti grálúðuafla sem seldur var á markaði tiltekinn dag. Ætla verður að þeir skipverjar sem voru í áhöfn Valdimars GK-195 í umræddri veiðiferð hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um réttindi sín að þessu leyti.

Í máli þessu liggur fyrir að skipverjar í veiðiferðinni voru 14 talsins og er óumdeilt að flestir þeirra eru félagsmenn stéttarfélaga sem eiga aðild að stefnanda, og taka laun samkvæmt kjarasamningi stefnanda og Landssambands íslenskra útvegsmanna, en utan standi skipstjóri og stýrimenn áhafnarinnar. Liggur því fyrir að einungis hluti skipverja á fiskiskipinu Valdimar GK-195 eru félagsmenn í félögum inna vébanda stefnanda. Þrátt fyrir það tekur viðurkenningarkrafa stefnanda til allra skipverja á fiskiskipinu óháð því hvort þeir taka laun samkvæmt kjarasamningi þeim sem vísað er til í dómkröfum stefnanda ekki. Ljóst þykir að stefnandi hefur hvorki umboð né heimild til að setja fram kröfur í dómsmáli fyrir hönd skipverja sem ekki eru félagsmenn í félögum innan vébanda stefnanda. Samræmist kröfugerð stefnanda að þessu leyti því ekki skilyrðum 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Þá kom fram við munnlegan flutning málsins af hálfu lögmanns stefnanda að þau réttindi sem á reyndi í málinu varði nánast alla félagsmenn aðildarfélaga stefnanda. Krafa stefnanda í málinu, eins og hann hefur kosið að haga henni, snýr hvað sem því líður að viðurkenningu á því að tilteknir einstaklingar eigi ógreidd laun úr hendi stefnda vegna tiltekinnar veiðiferðar. Krafan snýr því í reynd að því að knýja á um uppgjör við skipverja fiskiskipsins Valdimars GK-195 vegna einnar veiðiferðar. Er þessi málatilbúnaður stefnanda í andstöðu við ákvæði 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sem flytur í hendur félags eða samtaka manna aðild að máli um hagsmuni ótiltekinna félagsmanna þeirra. Verður innheimtumál ekki klætt í búning viðurkenningarmáls, með þeim hætti sem stefnandi leitast við að gera, og rekið í nafni sambandsins samkvæmt 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, enda verður heimild þeirrar málsgreinar ekki beitt til að ná fram afmörkuðum hagsmunum einstakra félagsmanna. Breytir þá engu þótt niðurstaðan kunni að vera fordæmisgefandi fyrir aðra félagsmenn stefnanda í sambærilegri aðstöðu. Stefnandi hefur ekki haldið því fram að hann haldi á málsóknarumboði frá skipverjum fiskiskipsins né að lagaheimild eða dómvenja standi til þess.

Loks verður að mati dómsins ekki talið að það samrýmist tilgangi stefnanda, eins og hann er markaður í lögum sambandsins, að hafa uppi kröfu fyrir dómi um viðurkenningu á launakröfu einstakra sjómanna.

Vegna þeirra annmarka á málatilbúnaði stefnanda, sem að framan greinir, og með vísan til dómaframkvæmdar þykir bera að vísa máli þessu frá dómi ex officio.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Stefnandi, Sjómannasamband Íslands, greiði stefnda, Þorbirni hf., 600.000 krónur í málskostnað.