Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði
  • Sjálfræði
  • Málskostnaður


                                              

Föstudaginn 12. apríl 2013.

Nr. 235/2013.

A

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg, velferðarsviði

(Elín Ósk Helgadóttir hdl.)

Kærumál. Lögræði. Sjálfræði. Málskostnaður.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í eitt ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2013 þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila sviptur sjálfræði í eitt ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um þóknun skipaðs verjanda þar fyrir dómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga. Samkvæmt gögnum málsins var Elín Ósk Helgadóttir héraðsdómslögmaður skipuð talsmaður varnaraðila í héraði. Varnaraðili er sveitarfélag og var krafa um sjálfræðissviptingu sóknaraðila sett fram af lögmanni þess. Voru því ekki efni til að skipa varnaraðila talsmann samkvæmt 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga. Þar sem hún var þrátt fyrir það skipuð talsmaður varnaraðila ber samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga að ákveða henni þóknun úr ríkissjóði vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Arnars Þórs Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Elínar Óskar Helgadóttur héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2013.

Með beiðni, dagsettri 27. mars 2013, sem barst héraðsdómi sama dag, hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík, verði sviptur sjálfræði tímabundið í eitt ár á grundvelli a og b liða 4. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. Þá krefst sóknaraðili þess að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 og þar með talin hæfileg þóknun til handa skipuðum talsmanni hans.

Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað. Þá krefst hann hæfilegrar þóknunar úr ríkissjóði vegna starfa skipaðs verjanda síns, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Beiðni sú um sjálfræðissviptingu varnaraðila sem hér er til meðferðar er sett fram í kjölfar nauðungarvistunar hans á sjúkrahúsi samkvæmt ákvörðun Innanríkisráðuneytisins frá 13. mars sl. sem renna skyldi út í dag.

Með beiðni sóknaraðila fylgir læknisvottorð [...] geðlæknis á deild 33A á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Kemur þar m.a. fram að varnaraðili sé með langa sögu um geðræn veikindi og neyslu ávanabindandi efna.

Varnaraðili hafi fyrst komið á geðdeild árið 1990, þá [...] ára gamall, og hafi þá verið í vanda vegna vímuefnaneyslu. Hann hafi á árunum 1992 til 2002 lagst níu sinnum á geðdeild og hafi fengið þá greiningu að hann væri með aðsóknargeðklofa og fíkn. Honum hafi svo gengið nokkuð vel í ein fimm ár eða til 2007 þegar hann hafi aftur lagst inn á geðdeild með geðrofseinkenni. Í kjölfar þeirra veikindalotu hafi varnaraðili hótað heilbrigðisstarfsmanni lífláti og hafi í kjölfari verið sviptur sjálfræði og vistaður á lokaðri endurhæfingargeðdeild. Það hafi gengið vel og ljóst að geðrofseinkenni komi fyrst og fremst fram hjá varnaraðila þegar hann noti fíkniefni. Eftir útskrift hafi gengið nokkuð vel á meðan sjálfræðissvipting hafi verið enn í gildi en í kjölfar þess að hún hafi runnið út, fyrir um tveimur árum, hafi hann hins vegar hætt að sækja reglulega eftirfylgd.

Varnaraðili hafi svo verið lagður inn á deild 33A gegn vilja sínum 11. mars sl. Hann hafi verið sóttur af borgarlækni og lögreglu heim til sín og í kjölfarið nauðungarvistaður í 21 dag. Varnaraðili hafi verið í slæmu andlegu ástandi vikurnar fyrir innlögn. Ljóst sé að hann hafi aftur verið farinn að misnota örvandi lyf og líklega hættur að taka geðlyf. Hann hafi sýnt talsverð geðrofseinkenni og hafi haft í frammi hótanir og yfirgang við nágranna sína. Hann hafi og haft í frammi endurteknar grófar hótanir í símaskilaboðum til lækna geðdeildar á Kleppi.

Þá kemur fram í vottorðinu að varnaraðili hafi nú verið á deildinni í um tvær vikur. Hann hafi allan tímann verið mjög tortrygginn en að mestu verið til samvinnu og hafi tekið lyf undir þrýstingi. Varnaraðili sé áfram með geðrofseinkenni og ýmsar ranghugmyndir af ofsóknartoga. Hann hafi viðurkennt að hafa neytt fíkniefna fyrir komu á deildina.

Eins og áður sé stutt í hótanir við starfsfólk ef hann fái ekki að hafa hlutina eins og hann vilji. Þannig hafi varnaraðili orðið uppvís að neyslu á deild og hafi geðrofseinkenni hans þá versnað til muna. Hafi hann haft í alvarlegum hótunum við starfsfólk og hafi slegið endurtekið til læknis.

Í vottorðinu kemur og fram að varnaraðili sé með langvinnan geðrofssjúkdóm. Einkennum sjúkdómsins megi þó vel halda niðri með lyfjagjöf ef hann sé edrú. Öll fíkniefnaneysla valdi hins vegar strax miklum einkennum með ofsafenginni og óútreiknanlegri hegðun. Sé þá stutt í ofbeldishótanir og hafi varnaraðili verið talinn hættulegur í þessu ástandi.

Að mati læknisins sé mikilvægt að varnaraðili fái viðeigandi meðferð á sínum vanda. Hann þurfi aftur að ná því að vera edrú um teljandi tíma og fá viðeigandi lyf. Innsæi varnaraðila og samvinna sé hins vegar lítil á sama tíma og hann teljist hættulegur. Það sé því aðeins hægt að veita meðferð í lokuðu endurhæfingarúrræði gegn vilja hans eins og standi. Því kveðst læknirinn mæla með að varnaraðili verði sviptur sjálfræði tímabundið til að þessum markmiðum verði náð.

[...] gaf skýrslu fyrir dóminum, staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Varnaraðili gaf einnig skýrslu fyrir dómi.

Það er mat dómsins að framburður varnaraðila hafi ekki verið með þeim hætti að varpað hafi rýrð á réttmæti fyrirliggjandi læknisvottorðs [...], eða þeirra ályktana sem þar eru dregnar um heilsufar varnaraðila. Breytir hér engu um þó ekki liggi fyrir sönnunargögn um ætlaðar hótanir varnaraðila í garð annarra manna. Einnig liggur fyrir í málinu vottorð [...] geðlæknis sem aflað var í tengslum við beiðni um nauðungarvistun varnaraðila á sjúkrahúsi og er heilsufari varnaraðila þar lýst mjög á sama veg.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan og þá einkum vottorða geðlækna, sem og framburðar annars þeirra hér fyrir dómi, þykir sannað að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi sem hann hefur ekki innsæi í og verður talið að hann sé af þeim sökum ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a. lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 71/1997. Þykir einnig sýnt að varnaraðili á við fíknivanda að stríða sem eykur á veikindi hans og innsæisleysi og er það mat dómsins að af þessum sökum teljist skilyrði b. liðar síðastnefnds lagaákvæðis einnig uppfyllt í málinu. Verður af framangreindum ástæðum fallist á beiðni sóknaraðila. Með vísan til sjúkrasögu varnaraðila og fyrirliggjandi læknisvottorðs eru ekki rök til að marka sjálfræðissviptingu hans skemmri tíma en krafist er,  sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 71/1997.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem þykir hæfilega ákveðin með þeim fjárhæðum sem nánar greinir í úrskurðarorði og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...], er sviptur sjálfræði í eitt ár.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Elínar Óskar Helgadóttur hdl., 75.300 krónur, og skipaðs verjanda varnaraðila, Arnars Þórs Stefánssonar hrl. 75.300 krónur.