Hæstiréttur íslands

Mál nr. 724/2016

Þrotabú Starfsmanna ehf. (Sigurður Sigurjónsson hrl.)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem þrotabúi S ehf. var gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli þess á hendur SA hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2016 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu varnaraðila um málskostnaðartryggingu en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð. Þá krefst sóknaraðili aðallega kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila, en til vara að kærumálskostnaður falli niður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Starfsmenn ehf. höfðaði mál þetta gegn varnaraðila með stefnu 5. nóvember 2015 og var það þingfest 12. sama mánaðar. Krafðist félagið þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér aðallega 14.606.225 krónur með nánar tilgreindum vöxtum en til vara aðra lægri fjárhæð. Varnaraðili tók til varna með greinargerð sem var lögð fram í þinghaldi 7. janúar 2016 en í henni krafðist hann aðallega sýknu og til vara að fjárkrafa Starfsmanna ehf. yrði lækkuð. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði vakti varnaraðili athygli héraðsdóms á því með tölvubréfi 8. júlí 2016 að bú Starfsmanna ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og lýsti varnaraðili því að hann myndi krefjast tryggingar fyrir greiðslu málskostnaðar þegar málið yrði næst tekið fyrir 26. september sama ár ef sóknaraðili kysi að halda því áfram. Í þinghaldi síðastgreindan dag tók sóknaraðili við aðild að málinu og krafðist þá varnaraðili málskostnaðartryggingar. Við þeirri kröfu varð héraðsdómur með hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Slíka kröfu getur stefndi og gert ef líkur á þessu koma fram síðar undir rekstri máls, enda sé þeirri kröfu haldið fram svo fljótt sem verða má. Bú Starfsmanna ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 4. maí 2016. Eru því bæði uppi líkur á því að sóknaraðili verði ófær um að greiða málskostnað og hefur varnaraðili haft tímanlega uppi kröfu um tryggingu fyrir þeim kostnaði. Að öðru leyti er þess að gæta að af vátryggingarskilmálum þeim, sem sóknaraðili reisir kröfu sína á hendur varnaraðila á, verður með engu móti ráðið að þeir standi því í vegi að varnaraðili krefjist þess að sóknaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Þá verður hvorki fallist á að meginreglur um neytendavernd girði fyrir slíka kröfu né að krafa þessa efnis sé röng og bersýnilega ósanngjörn, svo sem sóknaraðili hefur haldið fram. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur, enda eru ekki efni til að verða við varakröfu sóknaraðila.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að í hinum kærða úrskurði hefur héraðsdómur nefnt stefnda í málinu sóknaraðila og stefnanda varnaraðila, en hvorki styðst sú tilhögun við lög né er hún til glöggvunar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Starfsmanna ehf., greiði varnaraðila, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2016.

Mál þetta var tekið til úrskurðar um kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu. Úrskurðurinn var kveðinn upp í sama þinghaldi með vísan til 3. mgr. 112. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Kæra barst dóminum 18. október sl.

Krafa sóknaraðila er reist á því að bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 4. maí sl. en þá hafði mál þetta verið þingfest og aðalmeðferð ákveðin. Sóknaraðili hafi upplýst dóminn um þetta með tölvubréfi 8. júlí sl. auk þess sem hann hafi leitað afstöðu skiptastjóra til þess hvort þrotabúið myndi reka málið eftirleiðis. Sóknaraðili vísar til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, máli sínu til stuðnings.

Varnaraðili mótmælti kröfunni og krafðist þess að henni yrði hafnað en til vara að fjárhæð hennar verði hófleg. Varnaraðili byggir á því að skilja megi ákvæði í vátryggingaskilmálum sem gildi um vátryggingu varnaraðila hjá sóknaraðila á þann veg að sóknaraðila sé skilyrðislaust heimilt að vísa ágreiningi um vátrygginguna til dómstóla. Það feli í sér, að hans mati, að ekki sé heimilt að krefjast málskostnaðartryggingar enda geti það hindrað eða torveldað slíka málsókn. Þá vísar varnaraðili til sjónarmiða um neytendavernd.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.

Fyrir liggur staðfesting um að bú varnaraðila hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í kjölfar þess leitaði sóknaraðili svara við því hvort þrotabúið myndi taka við málarekstrinum en aðalmeðferð í málinu var fyrirhuguð 26. september sl. Afstaða skiptastjóra lá ekki fyrir fyrr en í þinghaldi þann sama dag en aðalmeðferðinni var þá frestað. Verður því að líta svo á að krafa sóknaraðila hafi komið fram við fyrsta tækifæri eftir þingfestingu málsins.

Varnaraðili hefur ekki sýnt fram á, eða gert sennilegt, að hann sé fær um að standa straum af kostnaði við málarekstur þennan. Dómurinn hafnar ofangreindum sjónarmiðum varnaraðila en þau girða á engan hátt fyrir að sóknaraðili setji fram kröfu um málskostnaðartryggingu. Hefur sóknaraðili tilefni til að krefjast hennar og eru skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 uppfyllt.

Með vísan til framangreinds verður krafa sóknaraðila tekin til greina þannig að varnaraðili skal setja tryggingu fyrir málskostnaði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili leggi fram málskostnaðartryggingu sem ákveðin er 1.000.000 kr. í formi bankaábyrgðar eða peninga innan tveggja vikna frá uppkvaðningu úrskurðarins.