Hæstiréttur íslands
Mál nr. 212/2003
Lykilorð
- Fjármögnunarleiga
- Lausafé
- Galli
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2003. |
|
Nr. 212/2003. |
Körfubílaþjónustan ehf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) gegn Glitni hf. (Ásgeir Magnússon hrl.) |
Fjármögnunarleiga. Lausafé. Galli.
Í málinu krafðist G leigu samkvæmt fjármögnunarleigusamningi og hafði héraðsdómur fallist á kröfur hans. Um var að ræða leigu á svokallaðri skæralyftu en armar lyftunnar brotnuðu þegar hún var í notkun á árinu 1999. Taldi K að lyftan hefði verið haldin leyndum galla og því hefði honum verði heimilt að rifta samningnum. K lagði fyrir Hæstarétt skýrslu vinnueftirlitsins og úttekt iðntæknistofnunar frá árinu 1999 um ástæður bilunarinnar. K aflaði ekki matsgerðar dómkvaddra manna um orsakir tjónsins á lyftunni. Var talið að K hafi ekki getað gefið haldbærar skýringar á því hvers vegna framangreind gögn höfðu ekki verið lögð fram við meðferð málsins í héraði, sem þó hefði verið mjög brýnt þar sem málið hafi þar verið til meðferðar fyrir tveimur sérfróðum meðdómendum auk embættisdómara. Héraðsdómur hafi talið ósannað að gallar hafi verið á burðarvirki lyftunnar þegar K hafi fengið hana afhenta haustið 1998 og gögn þau sem hann hafi lagt fyrir Hæstarétt voru ekki talin breyta þeirri niðurstöðu. Héraðsdómur var því staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. maí 2003. Hann krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnda og sér dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi höfðaði mál þetta í héraði til heimtu leigu samkvæmt fjármögnunarleigusamningi aðila 29. október 1998 um Sky King lyftu. Aðila greinir ekki á um skuldina sjálfa en haustið 1999 brotnuðu tveir af örmum lyftunnar. Heldur áfrýjandi því fram að það hafi orðið fyrir leyndan galla, sem á henni hafi verið við afhendingu til hans. Fram er komið að lyftan varð fyrir óhappi 1997 og mun undirvagn hennar hafa laskast. Hafði verið gert við hana og hún skoðuð af Vinnueftirliti ríkisins eftir þá viðgerð og áður en hún var afhent áfrýjanda. Lyftan varð ónothæf eftir óhappið 1999 og þar til gert var við hana árið 2000 og telur áfrýjandi því að honum hafi verið heimil riftun samningsins. Viðgerð fór fram á vegum stefnda hjá Bíla- og Vagnaþjónustunni ehf. eftir að hann hafði árangurslaust skorað á áfrýjanda að láta gera við hana samkvæmt ákvæðum samningsins. Stefndi hefur ekki gert áfrýjanda reikning fyrir viðgerðinni en mótmælir því að óhappið 1999 hafi gerst fyrir leyndan galla, sem á henni hafi verið við afhendingu.
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt tvö ný gögn. Er þar í fyrsta lagi um að ræða skýrslu Vinnueftirlits ríkisins 16. september 1999 um skoðun á lyftunni eftir að lyftiarmarnir brotnuðu. Þar er til þess vitnað að óháður aðili þurfi að gefa vottorð um styrkleika lyftiarma og að þykktarmæling þurfi að fara fram. Í öðru lagi er lögð fram úttekt Iðntæknistofnunar á lyftunni 25. nóvember sama ár, en áfrýjandi hafði óskað eftir tjónagreiningu sem útskýrði ástæður brotsins.
Í úttektinni segir að áfrýjandi hafi átt lyftuna í eitt ár, en smíðaár hennar sé hins vegar 1984. Þar er það haft eftir áfrýjanda að lyftan hafi verið í notkun í einn mánuð hjá honum. Áður en hann hafi eignast lyftuna hefði verið gert við undirvagn hennar. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að næstefstu bitar burðarvirkis lyftunnar hafi brotnað og fylgja myndir af brotsárunum. Segir stofnunin að þau séu á milli tjakkafestinga á bitunum og liðar sem gangi í gegnum þá miðja. Við brotsárin séu einnig ferningslaga stýfur, sem soðnar séu við bitana. Þær séu beggja vegna annars brotsins en öðru megin við hitt. Tekið er fram að ekki hafi sést skemmdir á handriði lyftunnar sem bent hafi til þess að hún hefði lent á fyrirstöðu þegar lyft var. Hins vegar hafi verið tekið eftir niðursveigju á burðarbitum.
Í ályktun stofnunarinnar segir síðan að brotin hafi verið skoðuð um mánuði eftir óhappið og hafi ryð verið komið í brotsárin sem hindrað hafi nákvæma skoðun á þeim. Einnig hafi verið erfitt að komast að þeim. Við fyrstu skoðun beri brotsárin merki um yfirálagsbrot en til að ákvarða nákvæmlega um eðli brotanna sé nauðsynlegt að skera brotsvæðin úr bitunum og setja í nákvæma skoðun þar sem ryð verði hreinsað af brotsárunum og þau skoðuð undir stækkun. Síðan er frá því greint að við skoðun hafi lyftan verið sett í gang og látin lyfta. Við þá aðgerð hafi verið tekið eftir því að efra tjakkasettið hafi dregist úr um 15 cm á meðan það neðra hafi ekkert hreyfst. Full ástæða sé til að kanna nánar hvort tjakkarnir hafi verið ósamstíga við notkun, því að mikil spenna geti myndast í lyftibitunum ef þeir vinni ekki saman. Einnig sé ástæða til að kanna hvort liðir hafi verið í lagi vegna þess að lyftan hafi verið búin að standa lengi og stirðleiki í liðum geti valdið auknu álagi á lyftubitana. Stýfurnar sem voru á báðum hliðum við annað brotið og annarri við hitt hafi verið soðnar þvert yfir lyftibitann, en slíkt valdi spennuhækkun í þeim og auki líkur á sprungumyndun. Ekki liggur fyrir frekari skoðun á óhappinu eða tildrögum þess.
Áfrýjandi hefur ekki aflað matsgerðar dómkvaddra manna um orsakir tjónsins á lyftunni. Hann hefur engar haldbærar skýringar gefið á því hvers vegna framangreind gögn voru ekki lögð fyrir héraðsdóm um leið og greinargerð af hans hálfu, sbr. 95. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og í allra síðasta lagi fyrir aðalflutning málsins, sbr. 5. mgr. 102. gr. sömu laga. Var það þó mjög brýnt þar sem í héraði var málið til meðferðar fyrir tveimur sérfróðum meðdómendum ásamt embættisdómara. Héraðsdómur hefur metið það svo að ósannað sé að gallar hafi verið á burðarvirki lyftunnar þegar áfrýjandi fékk hana haustið 1998, eins og haldið er fram af hans hálfu. Gögn þau sem hann hefur fært fram fyrir Hæstarétti breyta ekki þeirri niðurstöðu. Með framangreindum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsenda héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Körfubílaþjónustan ehf., greiði stefnda, Glitni hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 21. febrúar sl., er höfðað 15. maí sl. af Glitni hf., Kirkjusandi 1, Reykjavík, á hendur Körfubílaþjónustunni ehf., Trönuhrauni 3, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.086.942 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 51.725 krónum frá 15. september 1999 til 15. október sama ár, af 102.837 krónum frá þeim degi til 15. nóvember s.á., af 153.711 krónum frá þeim degi til 15. desember s.á., af 205.294 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2000, af 256.426 krónum frá þeim degi til 15. febrúar s.á., af 306.687 krónum frá þeim degi til 15. mars s.á., af 357.997 krónum frá þeim degi til 15. apríl s.á., af 409.337 krónum frá þeim degi til 15. maí s.á., af 538.216 krónum frá þeim degi til 15. júní s.á., af 589.897 krónum frá þeim degi til 15. júlí s.á., af 642.456 krónum frá þeim degi til 15. ágúst s.á., af 695.519 krónum frá þeim degi til 15. september s.á., af 748.959 krónum frá þeim degi til 15. október s.á., af 803.182 krónum frá þeim degi til 15. desember s.á., af 859.581 krónu frá þeim degi til 15. janúar 2001, af 917.711 krónum frá þeim degi til 15. febrúar s.á., af 975.962 krónum frá þeim degi til 15. mars s.á., af 1.034.044 krónum frá þeim degi til 7. apríl s.á., af 1.042.132 krónum frá þeim degi til 15. apríl s.á., af 1.103.092 krónum frá þeim degi til 15. maí s.á., af 1.170.007 krónur frá þeim degi til 15. júní s.á., af 1.237.625 krónum frá þeim degi til 15. júlí s.á., af 1.303.391 krónu frá þeim degi til 15. ágúst s.á., af 1.365.101 krónu frá þeim degi til 15. september s.á., af 1.430.346 krónum frá þeim degi til 15. október s.á., af 1.496.104 krónum frá þeim degi til 14. nóvember s.á. og af 1.086.942 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórlega og að málskostnaður verði felldur niður.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Málsaðilar gerðu samning um fjármögnunarleigu hinn 29. október 1998 en með honum tók stefndi á leigu Sky King lyftu, svokallaða skæralyftu, hjá stefnanda sem stefndi notaði til útleigu. Fyrir leiguna skyldi stefndi greiða stefnanda mánaðarlega og greiddi hann samkvæmt því til 15. september 1999. Stefnandi hefur höfðað málið til innheimtu á skuldinni sem fallið hefur á frá þeim degi til 14. nóvember 2001.
Hvorki er ágreiningur um fjárhæðir né skuldina að öðru leyti en því að stefndi telur að á lyftunni hafi verið leyndur galli. Það er komið til af því að við notkun hennar haustið 1999, þegar unnið var að uppsetningu á stálgrindarhúsi fyrir Íslenska álfélagið hf. í Straumsvík, brotnuðu tveir af örmum lyftunnar. Var lyftan ónothæf þar til gert var við hana á árinu 2000 að beiðni stefnanda hjá Bíla- og vagnaþjónustunni ehf. en Iðntæknistofnun hafði umsjón með viðgerðinni.
Stefnandi hefur mótmælt að óhappið verði rakið til leyndra galla á tækinu. Af stefnda hálfu er því haldið fram að armarnir hafi brotnað þegar lyftan var notuð til að lyfta tveimur mönnum, en af hálfu stefnanda er hins vegar haldið fram að stefndi verði að bera hallann af því að óupplýst sé hver atvik urði til þess að armarnir brotnuðu. Byggt er á af hálfu stefnanda að stefndi beri ótvírætt ábyrgð á því sem gerst hafi við notkun tækisins. Verði hins vegar talið að tækið hafi verið gallað þegar óhappið varð er ágreiningslaust að grundvöllur kröfu stefnanda sé ekki fyrir hendi.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af stefnanda hálfu er vísað til þess að skuldin sem um ræði sé til komin vegna fjármögnunarleigusamnings frá 29. október 1998 milli stefnanda, sem leigusala, og stefnda, sem leigutaka. Samkvæmt samningnum hafi stefnandi leigt stefnda Sky king lyftu. Skyldi samningurinn greiðast með 36 mánaðarlegum leigugreiðslum, 15. hvers mánaðar, í fyrsta sinn 15. nóvember 1998.
Stefndi hafi greitt umsamdar leigugreiðslur til 15. september 1999 en frá og með þeim tíma hafi hann ekki fengist til að greiða gjaldfallnar greiðslur þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir þar um. Hið leigða tæki hafi verið tekið af stefnda 9. janúar 2002 og miðist því uppgjör málsaðila við þann dag. Verðmæti hins leigða tækis hafi að frádregnum kostnaði reynst vera 473.147 krónur.
Skuld stefnda miðað við 9. janúar 2002, reiknuð samkvæmt 16. gr. skilmála samningsins, sé eftirtaldar gjaldfallnar leigugreiðslur og aðrar greiðslur :
15. september 1999 51.725 krónur
15. október “ 51.112 “
15. nóvember “ 51.874 “
15. desember “ 51.583 “
15. janúar 2000 51.132 “
15. febrúar “ 51.261 “
15. mars “ 51.310 “
15. apríl “ 51.340 “
15. maí “ 128.879 “
15. júní “ 51.681 “
15. júlí “ 52.559 “
15. ágúst “ 53.063 “
15. september “ 53.440 “
15. október “ 54.223 “
15. desember “ 56.399 “
15. janúar 2001 58.130 “
15. febrúar “ 58.251 “
15. mars “ 58.082 “
7. apríl “ 8.088 “
15. apríl “ 60. 960 “
15. maí “ 66. 915 “
15. júní “ 67.618 “
15. júlí “ 65.766 “
15. ágúst “ 61.710 “
15. september “ 65.245 “
15. október “ 65.758 “
Samtals gjaldfallnar greiðslur 1.496.104 “
Gjaldfelldar leigugreiðslur 63.985 “
Andvirði leigumunar til lækkunar -473.147 “
Samtals 1.086.942 “
Reikningur með gjalddaga 7. apríl 2001, 8.088 krónur, sé fyrir vinnu vegna skoðunar auk gjalda.
Af stefnanda hálfu er því mótmælt að lyftan hafi verið haldin leyndum göllum er stefndi fékk hana í hendur. Hún hafi verið nýyfirfarin og skoðuð sem staðfesti að ekki geti verið um galla að ræða. Stefndi hafi ekki skýrt stefnanda frá því að hann teldi tækið haldið leyndum galla fyrr en löngu síðar.
Stefnandi byggi kröfur sínar á tilgreindum fjármögnunarleigusamningi málsaðila og þeirri grundvallarreglu kröfu- og samningsréttarins að samninga beri að halda. Kröfu um dráttarvexti, þar með talda vaxtavexti, styðji stefnandi við reglur III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af stefnda hálfu er atvikum lýst þannig að málsaðilar hafi hinn 29. október 1998 gert fjármögnunarleigusamning um svokallaða skæralyftu af gerðinni Sky King með skráningarnúmerið VL-0111. Í samningnum hafi verðmæti lyftunnar verið ákveðið 1.350.000 krónur og hafi stefndi átt að greiða það með 36 jöfnum mánaðarlegum greiðslum. Við samningsgerðina hafi ekkert komið fram um að vélin hafi verið haldin göllum eða að hún hefði sætt nokkurri meiriháttar viðgerð vegna bilunar eða slits. Um ástand vélarinnar hafi það eitt komið fram að hún hefði verið nýgegnumtekin.
Stefndi hafi notað lyftuna til útleigu en fyrstu mánuðina hafi hún lítið sem ekkert verið í leigu þar sem ýmislegt hafi þurft að lagfæra í henni. Einkum hafi drifbúnaður og gagnverk þarfnast viðgerðar en auk þess hafi vélin verið heilmáluð. Einn fyrsti leigutaki vélarinnar hafi verið Stálrammi ehf. en það félag hafi annast innflutning á stálgrindarhúsum frá Pólandi og séð um uppsetningu þeirra. Verkefnið hafi verið uppsetning stálgrindarhúss fyrir Íslenska álfélagið hf. og hafi áætlaður leigutími vélarinnar verið 2-3 mánuðir. Skömmu eftir að leigutaki hafi byrjað að nota vélina hafi orðið óhapp er verið var að lyfta tveimur mönnum upp í lyftunni þannig að hún hrundi niður. Mikil mildi hafi verið að ekki hlaust af stórslys. Í ljós hafi komið að tveir af örmum í skærum lyftunnar hefðu brotnað án þess að lyft hafi verið nokkrum þungum hlutum, aðeins tveimur mönnum og nokkrum skrúfboltum. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að soðin hefðu verið styrktareyru á nokkur af skærum vélarinnar. Suðurnar hafi verið þvert í gegnum arma vélarinnar og hefðu skærin brotnað við suðurnar. Vélin hafi umsvifalaust verið tekin úr notkun og hafi stefnda verið vísað af athafnasvæði Íslenska álfélagsins hf. með vélina. Stefndi hafi ekki fengið nein verkefni fyrir félagið síðan en það hafi um árabil verið einn stærsti viðskiptavinur stefnda.
Í kjölfar þessa óhapps hafi forsaga vélarinnar verið könnuð betur. Þá hafi komið í ljós að í júlímánuði 1998, á meðan hún var í umsjá stefnanda, hefði vélin sætt gagngerri viðgerð á burðargrind. Alls hefðu verið unnar 96 klukkustundir á verkstæði við þessa viðgerðarvinnu. Stefndi hafi af þessum ástæðum gert þá kröfu á hendur stefnanda að hann tæki vélina þegar í stað til baka og að samningurinn yrði felldur niður. Jafnframt hafi stefndi krafist þess að fá endurgreiddar þær leigugreiðslur sem hann hefði innt af hendi. Stefnandi hafi í upphafi ekki tekið því illa að taka vélina til baka en hafi síðar ákveðið að láta gera við vélina. Sú ákvörðun hafi verið tekin gegn vilja stefnda. Stefnandi hafi séð um og greitt fyrir viðgerð á lyftunni en stefnda hafi ekki verið kunnugt um hvað sú viðgerð hafi kostað. Þrátt fyrir þessa viðgerð hafi vélin aldrei verið í lagi, hún hafi hvorki lyft eðlilega né keyrt með góðu móti, auk þess sem gangsetningarbúnaður hennar hafi stöðugt verið til vandræða. Það sem mestu skipti þó sé að vélin hafi verið stefnda, sem stundi útleigu slíkra tækja, fullkomlega ónýt sem rekstrartæki þar sem viðskiptavinirnir hafi ekki treyst henni, bæði vegna þessara bilana á burðarvirki hennar og vegna þess hve lyftibúnaður hennar hafi verið ótraustur. Stefndi hafi af þessum sökum engin not haft af vélinni síðan óhappið varð og hafi hún þar af leiðandi ekki skapað stefnda neinar tekjur.
Eftir stöðugar viðræður við stefnanda og lögmann hans hafi stefndi lýst yfir riftun samningsins við stefnanda hinn 12. október 2001. Í riftunarbréfinu hafi stefndi lýst því yfir að ef stefnandi samþykkti riftunina myndi stefndi ekki gera kröfu um endurgreiðslu þess leigugjalds sem þegar hefði verið innt af hendi. Stefnandi hafi hafnað þessari tillögu stefnda en hafi tekið vélina og hafi nú látið meta hana til verðs. Verðmæti vélarinnar sé 595.000 krónur samkvæmt niðurstöðu matsins og hafi hún því lækkað í verði um tæpar 800.000 krónur síðan samningur aðila var gerður, þrátt fyrir að hún hafi nánast ekkert verið notuð. Stefndi áskilji sér rétt til að endurkrefja stefnanda um þær fjárhæðir sem hann hafi innt af hendi.
Stefndi byggi aðalkröfu sína á því að umrædd vinnuvél, sem ætluð sé til að lyfta mönnum og verkfærum þeirra upp í miklar hæðir, hafi verið haldin leyndum göllum á burðarvirki og gangvirki þegar samningur aðila var gerður. Fram hafi komið að bilun hafi verið í burðarvirki lyftunnar sumarið áður en aðilar gerðu samninginn um vélina. Jafnframt sé ljóst að sú viðgerð hafi ekki nægt til að gera við vélina og jafnvel sé spurning hvort hún hafi valdið meiri skemmdum á vélinni en bótum. Allt að einu sé ljóst að vélin hafi ekki virkað eðlilega og sé hún nánast ónothæf vegna bilunar í drifbúnaði og beinlínis lífshættuleg vegna galla í burðarvirki. Óhapp líkt og það sem hafi orðið á umræddri vél í Straumsvík valdi fyrirtækjum eins og stefnda miklum og ófyrirséðum skaða. Fyrsta krafa sem gerð sé til slíkra véla af hálfu leigutaka sé að þær séu öruggar í notkun. Komist það orð á að vélar og tæki stefnda séu það ekki líði ekki á löngu þar til enginn skipti við hann.
Gallar þessir hafi verið stefnanda kunnir við samningsgerðina en hann hafi kosið að upplýsa stefnda ekki um þá. Því sé um leyndan galla að ræða á vélinni. Með því að annast á sinn kostnað viðgerð á vélinni eftir að hún féll niður í Straumsvík hafi stefnandi viðurkennt í verki að þessi galli hafi verið til staðar við söluna og því alfarið á hans ábyrgð. Gallinn sé verulegur og heimili stefnda því riftun samningsins samkvæmt lögjöfnun frá 42. gr. þágildandi laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Stefnanda hafi, þrátt fyrir umtalsverðar viðgerðir á tækinu, ekki tekist að koma því í starfshæft ástand. Því séu engar forsendur fyrir því að halda kaupunum upp á stefnda. Allar forsendur fyrir þessum viðskiptum hafi brostið er lyftan féll niður og í ljós hafi komið að burðarvirki hennar hafi verið gallað.
Varakrafa stefnda um lækkun dómkrafna styðjist við sömu málsástæður og lagarök og að framan eru rakin að breyttu breytanda.
Sýknukröfuna byggi stefndi á samningi aðila, sbr. einnig 42. gr. eldri kaupalaga nr. 39/1922, sbr. 39. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Varakrafa stefnda styðjist við sömu lagaheimildir. Krafan um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Óljóst er hverjar voru ástæður þess að tveir af örmum lyftunnar sem um ræðir brotnuðu en í málinu er deilt um hvernig það gerðist. Af stefnda hálfu er því haldið fram að þetta hafi gerst þegar lyftan var notuð til að lyfta tveimur mönnum við vinnu í stálgrindarhúsi hjá Íslenska álfélaginu hf. í Straumsvík en af stefnanda hálfu er því haldið fram að það sé bæði óstaðfest og óupplýst. Fyrirsvarsmaður leigutakans, Stálramma ehf., sem stefndi leigði tækið, upplýsti við munnlega skýrslutöku fyrir dóminum að hvorki hafi Vinnueftirlit ríkisins verið kallað til þegar armarnir brotnuðu né öryggisaðilar á vegum Íslenska álfélagsins hf. Hann hafi óskað eftir því að stefndi fjarlægði lyftuna þegar í stað af svæðinu og var það gert. Hann var ekki sjálfur á staðnum þegar þetta gerðist en starfsmenn hans höfðu notað lyftuna við störf sín í umræddu tilviki. Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu frá þeim. Eftir að stefndi hafði tekið tækið í sínar vörslur skoðaði Vinnueftirlitið það en engin skýrsla liggur fyrir í málinu um þá skoðun. Ekki liggur fyrir hvenær stefndi skýrði stefnanda frá því að hann ætlaði að bera fyrir sig að lyftan hefði verið haldin leyndum galla. Ljóst er þó af gögnum málsins að það var fyrir 5. apríl 2000. Eftir það lét stefnandi lagfæra lyftuna á sinn kostnað en samkvæmt 1. gr. skilmála samnings málsaðila frá 29. október 1999 var stefnandi eigandi hennar á þeim tíma. Í skoðunarskýrslu Þórðar Antonssonar, starfsmanns Bíla- og vagnaþjónustunnar ehf., dagsettri 3. apríl 2000, sem hann staðfesti fyrir dóminum, kemur fram að skoðun á lyftunni hafi leitt í ljós að tveir bitar í skærum hefðu brotnað og tveir aðrir hefðu bognað. Telur hann að þetta hefði eingöngu getað gerst vegna yfirálags en margt geti þar komið til, t.d. að lyftan hafi verið látin lyfta langt yfir leyfilega hámarksþyngd eða að hún hafi verið keyrð undir eitthvað fast, svo sem svalir eða þakbita.
Fram hefur komið að burðargrind lyftunnar hafi laskast þegar hún féll við það að henni var lyft á vörubílspall á árinu 1997. Í skýrslu Sigurðar Arnar Karlssonar vélaverkfræðings, sem dagsett er 8. nóvember 2002, kemur fram að hann hafi fyrst skoðað vélina á árinu 1998. Burðargrind hennar hafi þá verið brotin og hafi Vinnueftirlit ríkisins bannað notkun hennar vegna þessa. Gert hafi verið við lyftuna af Nýju Bílasmiðjunni undir eftirliti Iðntæknistofnunar og hafi hún fengið fulla skoðun hjá Vinnueftirlitinu eftir það. Í málinu hefur verið lagt fram ljósrit reiknings Nýju bílasmiðjunnar hf., sem dagsettur er 21. júlí 1998. Á reikningnum kemur fram að gert hafi verið við burðargrind í vinnulyftu stefnanda og allt annað lagfært að kröfu Vinnueftirlits. Lyftan var skoðuð af Vinnueftirlitinu 23. júní 1998 og voru þá gefin tiltekin fyrirmæli um úrbætur. Einnig er staðfest af Vinnueftirlitinu 25. júní sama ár að úrbætur hefðu verið framkvæmdar. Ósannað er að gallar hafi verið á burðarvirki lyftunnar þegar stefndi fékk hana haustið 1999 eins og haldið er fram af hans hálfu.
Við úrlausn málsins er óhjákvæmilegt að stefndi beri hallann af því hve óljós málsatvik eru um ástæður þess að armar lyftunnar brotnuðu. Þegar það gerðist var hvorki kallað til Vinnueftirlit né aðrir öryggis- eða eftirlitsaðilar. Ósannað er að armarnir hafi brotnað við suðurnar eins og stefndi heldur fram en engin gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta það. Stefnandi lét gera við lyftuna sumarið 1998 eftir óhappið á árinu 1997, en viðgerð fór fram undir eftirliti Iðntæknistofnunar eins og áður er komið fram. Engar athugasemdir voru gerðar, hvorki af Iðntæknistofnun né Vinnueftirliti ríkisins sem skoðaði lyftuna eftir viðgerðina. Verður ekki vefengt að lyftan hafi fengið fullnægjandi skoðun með tilliti til þess óhapps sem þá hafði hent hana. Verður einnig við það að miða að viðeigandi úttekt hafi farið fram á lyftunni áður en stefndi fékk hana afhenta. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn sem staðfesta að galli hafi verið á lyftunni þegar hann fékk hana í hendur. Viðgerð á örmunum, sem fram fór á vegum stefnanda á árinu 2000, verður ekki talin jafngilda viðurkenningu stefnanda á því að um galla hafi verið að ræða. Samkvæmt þessu er ósannað að umrædd lyfta hafi verið haldin leyndum galla er stefndi fékk hann frá stefnanda samkvæmt framangreindum fjármögnunarleigusamningi. Skilyrði riftunar af hálfu stefnda eru því ekki fyrir hendi. Verður ekki fallist á að greiðsluskylda stefnda hafi fallið brott af þeim sökum eins og haldið er fram af hans hálfu. Ber því að taka kröfu stefnanda, sem er óumdeild að öðru leyti, til greina. Dráttarvexti ber að greiða frá 15. september 1999 til 1. júlí 2001 samkvæmt III. kafla þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987 en frá þeim degi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og að öðru leyti eins og krafist er.
Rétt þykir með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Dóminn kveða upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari og meðdómendurnir Jan Jansen og Þórhallur Steinsson bifvélavirkjameistarar.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Körfubílaþjónustan ehf., greiði stefnanda, Glitni hf., 1.086.942 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 51.725 krónum frá 15. september 1999 til 15. október sama ár, af 102.837 krónum frá þeim degi til 15. nóvember s.á., af 153.711 krónum frá þeim degi til 15. desember s.á., af 205.294 krónum frá þeim degi til 15. janúar 2000, af 256.426 krónum frá þeim degi til 15. febrúar s.á., af 306.687 krónum frá þeim degi til 15. mars s.á., af 357.997 krónum frá þeim degi til 15. apríl s.á., af 409.337 krónum frá þeim degi til 15. maí s.á., af 538.216 krónum frá þeim degi til 15. júní s.á., af 589.897 krónum frá þeim degi til 15. júlí s.á., af 642.456 krónum frá þeim degi til 15. ágúst s.á., af 695.519 krónum frá þeim degi til 15. september s.á., af 748.959 krónum frá þeim degi til 15. október s.á., af 803.182 krónum frá þeim degi til 15. desember s.á., af 859.581 krónu frá þeim degi til 15. janúar 2001, af 917.711 krónum frá þeim degi til 15. febrúar s.á., af 975.962 krónum frá þeim degi til 15. mars s.á., af 1.034.044 krónum frá þeim degi til 7. apríl s.á., af 1.042.132 krónum frá þeim degi til 15. apríl s.á., af 1.103.092 krónum frá þeim degi til 15. maí s.á., af 1.170.007 krónur frá þeim degi til 15. júní s.á., af 1.237.625 krónum frá þeim degi til 1. júlí s.á. en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 15. júlí s.á., af 1.303.391 krónu frá þeim degi til 15. ágúst s.á., af 1.365.101 krónu frá þeim degi til 15. september s.á., af 1.430.346 krónum frá þeim degi til 15. október s.á., af 1.496.104 krónum frá þeim degi til 14. nóvember s.á. og af 1.086.942 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.