Hæstiréttur íslands
Mál nr. 256/2004
Lykilorð
- Verksamningur
|
|
Fimmtudaginn 25. nóvember 2004. |
|
Nr. 256/2004. |
Steingrímur Ingvarsson(Bjarni Þór Óskarsson hrl.) gegn S.E. verktökum ehf. (Benedikt Ólafsson hdl.) |
Verksamningur.
SE gerði verksamning við Vegagerðina og fékk greitt fyrir verkið samkvæmt ákveðnum magntölum, sem komu fram í tilboðsskrá. SI tók að sér að vinna fyrir SE tiltekna verkþætti í tilboðsskrá og gerði honum þrjá reikninga vegna vinnunnar, þar sem byggt var á tilteknu einingarverði. SE taldi samning hafa tekist með honum og SI að hann myndi vinna fyrir SE á sama einingarverði og samningur hans við Vegagerðina var um. Ósannað var, að samningur hafi tekist með málsaðilum um verð fyrir vinnu SI eða að almenn venja hafi myndast um endurgjald fyrir slíka vinnu. Þá var ekki sýnt fram á að fjárhæð reikninga SI væri ósanngjörn. Var því krafa hans um greiðslu reikninganna tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. júní 2004. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.527.385 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.248.648 krónum frá 20. október 2002 til 25. nóvember sama ár, af 2.325.917 krónum frá þeim degi til 27. desember sama ár og af 2.527.385 krónum frá þeim degi til greiðsludags, að frádreginni innborgun, að fjárhæð 600.000 krónur 6. nóvember 2002. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og lýst er í héraðsdómi buðu málsaðilar báðir í verk hjá Vegagerðinni í vorið 2002. Stefndi varð lægstbjóðandi en áfrýjandi átti næst lægsta boð. Stefndi gerði verksamning við Vegagerðina 14. júní 2002 eftir að hafa fengið yfirlýsingu frá áfrýjanda um að hann myndi leigja stefnda hefil, vörubíl og önnur tæki eftir þörfum til verksins. Áfrýjandi tók að sér að vinna fyrir stefnda og fór sú vinna fram á tímabilinu frá 27. ágúst til 12. desember 2002. Áfrýjandi gerði stefnda þrjá reikninga vegna vinnunnar, dagsetta 20. október, 25. nóvember og 27. desember 2002, samtals að fjárhæð 2.527.385 krónur. Stefndi telur sig aðeins eiga að greiða áfrýjanda 1.539.193 krónur, að frádregnum 600.000 krónum, sem hann greiddi 6. nóvember 2002.
II.
Af samningi stefnda við Vegagerðina er ljóst, að hann fékk greitt fyrir verkið samkvæmt ákveðnum magntölum, sem komu fram í tilboðsskrá og voru hluti af verksamningnum. Stefndi kveðst ekki hafa ætlað að vinna verkið einn heldur hafi hann ætlað að fá aðra til að vinna suma verkþættina á sömu kjörum og samningur hans við Vegagerðina gerði ráð fyrir. Að verkinu hafi komið fleiri en stefndi. Ekki hafi hann gert sérstakan verksamning við þá, en samið munnlega um greiðslur samkvæmt reikningi, sem gerður væri samkvæmt einingarverði í tilboðsskrá. Hefðu þeir allir virt þetta munnlega samkomulag nema áfrýjandi.
Stefndi reisir kröfu sína á því, að samningur hafi tekist með honum og áfrýjanda um, að hann myndi vinna fyrir stefnda á sama einingarverði og samningur stefnda við Vegagerðina var um. Stefndi telur einnig, að reikningar áfrýjanda séu ósanngjarnir og alls ekki í samræmi við endurgjald, sem almennt sé krafist við svipaðar aðstæður. Telur hann það vart þekkjast í útboðsverkum, að undirverktakar vinni á hærra einingarverði en samningur aðalverktaka við verkkaupa geri ráð fyrir.
Áfrýjandi heldur því fram, að ekki hafi verið samið fyrirfram um endurgjald vegna vinnunnar í þágu stefnda. Telur hann endurgjald það, sem hann krefst, vera sanngjarnt og eðlilegt, en það sé byggt á viðmiðunargjaldi fyrir vörubifreiðir með 10% afslætti. Hann hafi ekki tekið að sér tiltekna verkþætti sem undirverktaki. Hann hafi aldrei vitað hvenær hann yrði kallaður til verks og hafi hann verið háður verkstjórn stefnda. Engin venja sé fyrir því í tilvikum sem þessum, að menn fái greitt samkvæmt einingarverði, sem notað sé í tilboði. Það tíðkist bæði að menn fái greitt samkvæmt tímagjaldi eða gangi inn í einingarverð.
Ljóst virðist af aðilaskýrslu fyrirsvarsmanns stefnda, að málsaðilar hafi ekki samið fyrirfram um verð fyrir vinnu áfrýjanda og er slíkt með öllu ósannað. Einn þeirra, sem vann að verkinu fyrir stefnda, kom fyrir dóm og bar, að enginn fengi fullt verð, þegar um tilboðsverk væri að ræða og kvaðst ekki vita til, að menn ynnu á taxta í verkum sem þessum. Annað liggur ekki fyrir í málinu um þetta efni. Verður ekki talið, að stefnda hafi tekist að sýna fram á að ákveðin venja um greiðslu hafi myndast í tilvikum sem þessum.
Því er ómótmælt, að vinna sú, sem áfrýjandi innti af hendi, var vegna tiltekinna verkþátta í tilboðsskrá. Samkvæmt gögnum þeim, sem fyrir liggja í málinu, er ljóst, að áfrýjandi vann aðeins hluta af þessum verkþáttum, aðrir komu einnig að þeim. Í aðilaskýrslu sinni lýsti fyrirsvarsmaður stefnda því yfir, að hann hafi ekki haft neinar athugasemdir við reikning þann, sem dagsettur er 27. desember 2002. Á þeim reikningi, eins og einnig á hinum reikningunum, kom fram það einingarverð, sem áfrýjandi miðaði við. Við málflutning hér fyrir dómi var því lýst yfir, að stefndi viðurkenndi reikninginn umfram skyldu en héldi fast við mótmæli sín að því er hina reikningana snertir.
Samkvæmt framansögðu er ósannað, að samningur hafi tekist með málsaðilum um verð fyrir vinnu áfrýjanda eða að almenn venja hafi myndast um endurgjald fyrir slíka vinnu. Ekki hefur verið sýnt fram á að fjárhæð reikninga áfrýjanda sé ósanngjörn. Verður því krafa hans tekin til greina á þann hátt, sem í dómsorði segir. Dráttarvextir verða dæmdir frá 1. febrúar 2003, en fram er komið, að stefndi hafði fengið reikningana í hendur ekki síðar en í byrjun janúar 2003.
Rétt er, að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, S.E. verktakar ehf., greiði áfrýjanda, Steingrími Ingvarssyni, 1.927.385 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2003 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 3. maí 2004.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 18. mars sl., er höfðað af Steingrími Ingvarssyni, Stóru-Giljá, Sveinsstaðahreppi, Austur-Húnavatnssýslu með stefnu birtri 23. ágúst 2003 á hendur S.E. verktökum, Fornósi 10, Sauðárkróki.
Dómkröfur stefnanda.
Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.527.385 krónur með dráttarvöxtum af 1.248.648 krónum frá 20. október 2002 til 25. nóvember 2002, af 2.325.917 krónum frá þeim degi til 27. desember 2002, af 2.527.385 krónum frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni innborgun þann 6. nóvember 2002 að fjárhæð 600.000 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar stórlega. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Málavextir.
Í júnímánuði 2002 gerði stefndi verksamning við Vegagerð ríkisins þar sem hann tók að sér framkvæmdir við Vatnsnesveg frá Skarði að Hamarsá. Samningurinn var gerður á grundvelli tilboðs sem stefndi hafði gert að undangengnu almennu útboði en stefndi átti lægsta tilboð í verkið 88,5% af kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Næst lægsta tilboðið átti stefnandi sem bauð 91,4% af kostnaðaráætlun. Stefndi átti ekki allar þær vinnuvélar sem þurfti til að vinna verkið og af þeim sökum gaf stefnandi þann 3. júní 2003, að ósk stefnda, út yfirlýsingu um að hann mundi leigja stefnda hefil, vörubíl og önnur tæki sem hann þyrfti til að vinna verkið. Fyrirtækið Stjörnublástur ehf. gaf einnig út yfirlýsingu, dagsetta 2. júní 2002, um að það fyrirtæki eða önnur í eigu þess myndu leggja stefnda til tæki til verksins. Samkvæmt samningi stefnda við Vegagerð ríkisins fékk stefndi greitt fyrir verkið eftir ákveðnum magntölum sem fram komu í tilboðsskrá sem var hluti af verksamningi milli hans og Vegagerðarinnar. Að sögn stefnda stóð ekki til að hann inni verkið einn heldur hafi hann ætlað að fá aðra til að vinna suma verkþættina á sömu kjörum og samningur hans við Vegagerðina gerði ráð fyrir. Verkið var unnið frá því í seinnipart ágústmánaðar og fram í desember 2002.
Stefndi segir að nokkrir aðilar hafi komið að verkinu með honum en við þá hafi ekki verið gerður sérstakur verksamningur. Hann hafi gert við þá munnlegt samkomulag um að honum yrði gerður reikningur í samræmi við magntölur í tilboðsskrá. Allir aðrir en stefnandi hafi virt þetta samkomulag og gert reikninga í samræmi við tilboðsverð sem hann notaði í tilboði sínu. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ekkert samkomulag hafi verið gert um verð.
Fyrir dómi kom fram hjá stefnanda að hann ætti nokkur tæki til jarðvinnu sem hann leigi oft út. Hann segir tvennt til við leigu á tækjunum annað hvort sé samið fyrirfram eða reikningur gerður eftir á. Hann kvaðst ekki oft gera skriflega samninga en venjulega vinni hann samkvæmt tímagjaldi þegar hann hafi ekki gert tilboð í verk. Stefnandi bar að hvorutveggja tíðkist í verkum sem þessu, það er að greitt sé samkvæmt tímagjaldi eða að menn ganga inn í einingarverð sem notað er í tilboði, þó sé ekki algengt að greitt sé eftir tímagjaldi.
Að sögn stefnanda hringdi stefndi í hann og spurði hvort hann gæti útvegað tæki sem stefndi þurfti að hafa til að geta fengið samninginn við Vegagerðina. Hann hafi faxað yfirlýsinguna til stefnda og skuldbundið sig til að skaffa þau tæki sem hann þurfti en ekki tiltekið nákvæmlega hvaða tæki. Ekki hafi verið rætt um vinnuna nákvæmlega eða hvernig greiðslum yrði háttað. Hann hafi þannig rennt blint í sjóinn varðandi það hversu mikil vinna hans yrði og hvaða tæki hann þyrfti að útvega. Að sögn stefnanda stjórnaði forsvarsmaður stefnda sjálfur verkinu og hann hafi tekið við fyrirmælum frá honum. Stefnandi bar að stefndi hafi aldrei rætt um að verð sem hann miðaði við í tilboði sínu ættu að gilda um vinnu stefnanda fyrir stefnda og stefndi hafi aldrei kynnt þau einingarverð sem hann notaði við tilboðsgerðina.
Stefnandi bar að stefndi hafi ekki mótmælt reikningunum, sem miðist við taxta Landssambands vörubifreiðastjóra að frádregnum 10% afslætti, en þó hafi hann sagt í febrúar 2003 að honum þætti þeir háir. Stefndi hafi ekki skorað á hann að lækka reikningana eða mótmælt þeim formlega. Hann hafi ekki reiknað umframgjald og ekki tekið aukalega fyrir yfirvinnu. Þá hafi hann ekki krafið stefnda um greiðslu fyrir ferðir til og frá vinnustað en frá heimili hans að vinnustaðnum hafi verið rúmir 60 km. Hann telur sig því hafa gefið stefnda nokkurn afslátt.
Sigurður Sigfús Eiríksson framkvæmdastjóri stefnda bar að við útboð meti Vegagerðin tilboðsgjafann og skoði m.a. hvort hann hafi tæki til að vinna verkið. Hann hafi ekki átt öll þau tæki sem þurfti til að vinna verkið og því hafi hann fengið yfirlýsingu frá stefnanda og Stjörnublæstri ehf., sem hann hafi á þessum tíma verið að vinna með í verki á Austurlandi, þess efnis að þeir gætu útvegað honum tækin. Stefndi bar að þó svo að yfirlýsing liggi fyrir sé hann ekki skuldbundinn til að taka tækin og að sama skapi hafi hann mátt búast við að tækin væru ekki til staðar þegar hann vantaði þau. Hann hafi ákveðið að fá tækin hjá stefnanda vegna þess að hann var mun nær verkstað en Stjörnublástur ehf. Stefndi kvaðst í upphafi hafi spurt stefnanda hvort hann gæti útvegað tækin miðað við tilboðið og það hafi ekki verið rætt neitt nánar. Skömmu eftir að byrjað var á verkinu hafi hann gert stefnanda grein fyrir einingaverðum sem hann notaði í tilboðinu og stefnandi hafi þá sagt að honum þætti þetta frekar lágt. Hann hafi þá sagt stefnanda að annað væri ekki í boði og þeir ekki rætt málið nánar. Stefndi kveðst ekki hafa gert skriflega samninga þegar hann hafi verið að vinna fyrir aðra heldur unnið á þeim einingarverðum sem miðað er við í tilboði og sama hafi verið þegar hann hafi fengið menn til að vinna fyrir sig. Stefndi taldi að stefnandi hefði átt að gera honum grein fyrir því að hann ætlaði að vinna samkvæmt taxta en ekki þeim einingarverðum sem tilboðið miðaðist við. Eftir að þetta mál kom upp hafi hann spurst fyrir hjá kollegum sínum og verið tjáð að menn væru farnir að gera skriflega samninga, enda hafi svona deilur komið upp víðar. Að sögn stefnda fékk hann í febrúar 2003 ítrekun frá Búnaðarbankanum á Blönduósi vegna innheimtu á reikningum sem hann hafði ekki séð og fljótlega eftir það hafi komið til hans reikningur að fjárhæð 201.000 krónur. Hann hafi þá hringt til stefnanda og spurt hvaða tölur þetta væru sem hann væri að innheimta. Stefnandi hafi sagt að þetta væri samkvæmt reikningum sem hann hafi sett í innheimtu. Hann hafi sagt stefnanda að hann hafi ekki fengið fyrstu tvo reikningana og beðið hann um útskýringar. Stefnandi hafi þá sent honum ljósrit reikninganna. Hann hafi viljað fá upplýsingar um það hvernig stefnandi fékk þessar tölur því þær hafi ekki verið í samræmi við einingaverðin sem gengið var út frá í upphafi en stefnandi hafi ekki viljað ræða þetta neitt.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Stefnda hafi verið gerðir reikningar sem hann hafi ekki greitt. Stefndi hafi greitt 600.000 krónur inn á skuldina og tekið verið tillit til þess við uppgjör. Stefnandi reisir kröfu sína um dráttarvexti á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað byggir hann á 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Af hálfu stefnda er byggt á því að gert hafi verið munnlegt samkomulag við stefnanda þess efnis að stefnandi fengi greitt fyrir vinnu sína í samræmi við þær fjárhæðir sem stefndi miðaði við í tilboði sínu til Vegagerðar ríkisins. Heldur stefndi því fram að hann hafi kynnt stefnanda tilboð sitt líkt og hann hafi kynnt það öðrum verktökum sem unnu fyrir hann að þessu verki. Þá heldur stefndi því fram að ekki sé venja að gera skriflega samninga við verktaka sem vinna hluta af útboðsverki á þeim einingarverðum sem tilboð miðast við. Skriflegir samningar tíðkist frekar þegar ekki er miðað við að endurgjald sé í samræmi við einingaverð í tilboði. Stefndi heldur því fram að hann hafi mótmælt reikningum stefnanda þegar þeir bárust honum og skorað á stefnanda að leggja fram reikninga í samræmi við það sem um var samið en hann hafi ekki skorast undan því að greiða stefnanda í samræmi við samkomulag þeirra. Stefndi heldur því fram að krafa stefnanda sé ekki gjaldfallin fyrr en réttir reikningar berast frá honum.
Hvað lagarök varðar vísar stefndi til venju og almennra reglna kröfu- og samningaréttar. Hann vísar og til 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda byggir hann á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða.
Í máli þessu er eingöngu deilt um endurgjald fyrir vinnu stefnanda í þágu stefnda en fyrir liggur að aðilar gerðu ekki með sér skriflegan samning. Aðilar eru ekki sammála um hversu marga tíma stefnandi vann fyrir stefnda en þeir eru sammála um að sú vinna sem stefnandi vann fyrir stefnda hafi verið fullnægjandi. Af framburði aðila verður ekki annað ráðið en að yfirlýsingu stefnanda um að útvega stefnda tæki til verksins væri ekki annað og meira en viljayfirlýsing af hans hálfu og ekki bindandi samningur. Niðurstaða málsins veltur á sönnun á því um hvað aðilar sömdu.
Stefnandi hélt því fram fyrir dómi að stefndi hefði ekki kynnt honum að þau verð sem stefndi miðaði við í tilboði sínu til Vegagerðarinnar ættu að gilda um endurgjald hans hjá stefnda. Hann bar að hvorutveggja væri til að menn ynnu á tímagjaldi í vinnu sem þessari en þó væri algengara að gengið væri inn í þau verð sem notuð væru í tilboði. Stefndi bar að allir þeir sem unnu með honum að verkinu hefðu fengið greitt miðað við þau verð sem hann notaði í tilboði sínu. Eina vitnið sem kom fyrir dóminn, Þórður Hansen vörubifreiðastjóri, bar að stefndi hefði aðspurður sagt honum hvað hann fengi fyrir sína vinnu og hann hafi samþykkt þá fjárhæð. Vitnið bar að enginn fengi greitt full verð þegar um tilboðsverk væri að ræða og kvaðst ekki vita til þess að menn ynnu á taxta í verkum sem þessum. Af gögnum málsins má ráða að verð það sem vitnið fékk fyrir sína vinnu er í samræmi við tilboð stefnda til Vegagerðarinnar. Í málinu liggur frammi yfirlýsing frá Stjörnublæstri ehf. þess efnis að það félag hefði verið tilbúið að útvega stefnda tæki gegn því að fá greitt fyrir þau í samræmi við tilboð stefnda til Vegagerðarinnar. Stefnandi hélt því ekki fram að hann hafi innt stefnda eftir því hvað hann fengi greitt fyrir vinnu sína. Stefndi hélt því hins vegar fram fyrir dóminum að hann hefði kynnt stefnanda hvað hann myndi greiða honum fyrir vinnu hans og leigu fyrir tæki.
Áður er rakið að stefnandi bar sjálfur að það væri ekki algengt að unnið væri eftir tímagjaldi í verkum sem þessum. Vitnið Þórður Hansen kvaðst ekki vita til þess að unnið væri samkvæmt taxta í verkum sem þessum og fyrir liggur yfirlýsing frá Stjörnublæstri ehf. sem áður er getið. Þetta bendir til þess að óalgengt sé að í tilboðsverkum sé unnið á tímagjaldi og verður ekki annað ráðið en stefnanda hafi verið fullkunnugt um það. Að þessu virtu telst stefnandi hafa sönnunarbyrgði fyrir því að samkomulag aðila hafi verið með þeim hætti sem hann heldur fram. Slík sönnun hefur ekki tekist og verður því ekki fallist á með stefnanda að hann eigi að fá greitt samkvæmt reikningum þeim sem fyrir liggja í málinu og miðaðir eru við tímagjald.
Stefndi hefur viðurkennt að hann skuldi stefnanda fyrir vinnu og tækjaleigu. Hefur stefndi lagt fram útreikninga á því sem hann heldur fram að stefnandi hafi átt að fá greitt í samræmi við tilboð hans til Vegagerðarinnar og þykir rétt að leggja þessa útreikninga til grundvallar við úrlausn málsins en samkvæmt þessu ber stefnda að greiða stefnanda 1.539.193 krónur fyrir verkið. Ekki eru efni til að taka kröfu stefnda um sýknu til greina þó svo reikningar stefnanda séu ekki í samræmi við kröfu stefnda. Til að fyrra sig greiðsluskyldu bar stefnda að greiða stefnanda þá fjárhæð sem stefnanda bar.
Stefnandi greindi frá því að sennilega hafi hann farið með fyrstu tvo reikningana saman til viðskiptabanka síns sem hafi tekið þá til innheimtu og sent til stefnda. Stefndi kannast ekki við að hafa fengið þessa reikninga og bar að hann hafi fyrst vitað af tilvist þeirra þegar honum barst ítrekun frá banka stefnanda í febrúar 2003 og þá hafi hann beðið stefnda um útskýringar en ekki fengið. Þykir rétt að miða upphaf dráttarvaxta við 1. mars 2003.
Með hliðsjón af málavöxtum öllum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans. Lögmenn beggja aðila hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins vegna þessa.
DÓMSORÐ
Stefndi, S.E. verktakar ehf. greiði stefnanda, Steingrími Ingvarssyni, 1.539.193 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2003 til greiðsludags allt að frádreginni 600.000 króna innborgun þann 6. nóvember 2002.
Málskostnaður fellur niður