Hæstiréttur íslands

Mál nr. 347/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 347/2011.

Merlin ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Landsbankanum hf.

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

M ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu L hf. á grundvelli árangurslauss fjárnáms. Byggði M ehf. á því að fjárnámið gæfi ekki rétta mynd af fjárhag félagsins, bent hefði verið á lausafé sem verið hefði næg trygging fyrir kröfu L hf. auk þess sem væri félagið þinglýstur eigandi fasteigna og kröfur L hf. hefðu verið tryggðar með veði í þeim. Í úrskurði héraðsdóms sagði að árangurslaust fjárnám hefði verið gert hjá M ehf. og félaginu hefði ekki tekist að sýna fram að gerðinni hefði verið ranglega lokið sem árangurslausri eða að kröfur L hf. væru nægilega tryggðar. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur í Hæstarétti með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Merlin ehf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2011.

Sóknaraðili, Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík, krefst þess að bú varnaraðila, Merlin ehf., kt. 460904-2850, Hverfisgötu 105, Reykjavík, verði tekið til gjaldþrotaskipta.  Þá krefst hann málskostnaðar. 

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað. 

Krafa sóknaraðila barst dóminum 6. janúar 2011.  Hún var tekin fyrir á dóm­þingi 9. mars 2011 og mótmælti varnaraðili kröfunni.  Var þingfest ágreiningsmál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 6. maí sl., en meðferð málsins hafði þá frestast um skeið vegna veikindaforfalla. 

Sóknaraðili kveðst eiga tvær fjárkröfur á hendur varnaraðila.  Annars vegar er skuld á tékkareikningi að fjárhæð samtals 13.831.088 krónur.  Hins vegar er skuld samkvæmt viðskiptasamningi að fjárhæð samtals 731.996.292 krónur. 

Að kröfu Securitas ehf. var gert fjárnám hjá varnaraðila 28. október 2010.  Krafist var fjárnáms fyrir kröfu að fjárhæð 325.208 krónur.  Í gerðarbók er skráð: 

„Fyrirsvarsmaður gerðarþola er inntur eftir því hvort fyrirtækið eigi eignir, sem hægt væri að gera fjárnám í til tryggingar kröfunni.  Fyrirsvarsmaður gerðarþola bendir á frystiskáp, staðsettan að Drangahrauni 3, Hafnarfirði (húsnæði í eigu gerðar­þola).  Fyrirsvarsmanni gerðarþola er leiðbeint um í hverjum réttindum og eignum fjárnám verði gert.  Gerðarbeiðandi hafnar þeirri ábendingu og krefst þess að fjárnámi verði lokið án árangurs.  Fulltrúi sýslumanns spyr hvort fyrirsvarsmaður gerðarþola geti lagt fram kvittun eða annað, sem sýni verðgildi frystiskápsins.  Fyrirsvarsmaður gerðarþola er ekki með neina pappíra um lausaféð.  Fulltrúi sýslumanns metur það sem svo að gerðarþoli hafi ekki sýnt fram á að hann eigi lausafé, sem nægi til tryggingar kröfunni.  Fjárnámi er lokið án árangurs …“

Sóknaraðili vísar til 65. gr. laga nr. 21/1991.  Segir hann að ekkert bendi til þess að varnaraðili geti greitt kröfurnar nú þegar eða innan skamms. 

Við munnlegan flutning málsins lagði sóknaraðili fram frekari gögn.  Þar á meðal er verðmat löggilts fasteignasala á fasteigninni Hestavaði 1-3 í Reykjavík, ljós­rit tryggingabréfa, upplýsingar um fasteignamat og fleiri skjöl. 

Varnaraðili segir að umrædd aðfarargerð gefi ekki rétta mynd af fjárhag sínum.  Krafist hafi verið fjárnáms til lúkningar kröfu að fjárhæð 325.208 krónur.  Bent hafi verið á frystiskáp, sem sé að verðmæti 1.500.000 krónur.  Hefur varnaraðili lagt fram mat starfsmanns VK vörukaupa frá 14. mars 2011.  Þar segir að matið sé byggt á verði sambærilegs búnaðar á markaði. 

Varnaraðili segir að fjárhæð aðfararmálsins hafi verið afar lág og því sé varhugavert að álykta um of af henni.  Þá bendir varnaraðili á staðfestingu MP banka um inneign hans á bankareikningi.  Hafi hún numið 1.726.399 krónum þann 1. nóvember 2010.  Þá hafi krafan sem fjárnámið var gert fyrir nú verið greidd.  Aðfarar­gerðin bendi því ekki til þess að félagið sé ógjaldfært. 

Varnaraðili bendir á að það sé ekki bókað eftir talsmanni hans við gerðina að félagið sé eignalaust að öðru leyti en um þann lausafjármun sem bent var á.  Hann hafi bent á eign sem hafi dugað fyrir kröfunni.  Þá hafi félagið átt meiri eignir. 

Varnaraðili kveðst eiga fasteignir í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, sem hann leigi út.  Hann sé fær um að standa skil á kröfum sóknaraðila með tekjum af rekstrinum og þá séu til staðar fasteignir sem benda megi á til fjárnáms er krafist yrði. 

Þá segir varnaraðili að kröfur sóknaraðila séu tryggðar með veði í fasteignum varnaraðila.  Því geti sóknaraðili ekki krafist gjaldþrotaskipta, sbr. 2. tl. 4. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. 

Í munnlegum málflutningi breytti varnaraðili áherslum sínum lítillega.  Hann lagði fram þinglýsingarvottorð um fasteignir sem hann er þinglýstur eigandi að í Drangahrauni 3 í Hafnarfirði og Hamraborg 7 í Kópavogi.  Þá gerði hann athugasemd við útreikning vaxta og dráttarvaxta í gjaldþrotabeiðni.  Upphafsdagur dráttarvaxta væri til dæmis ekki tilgreindur.  Þá mótmælti hann skyldu til greiðslu dráttarvaxta yfir­leitt.  Sagði hann ákvæði lánasamningsins um dráttarvexti of óákveðið.  Ekki væri vísað til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga. 

Niðurstaða

Varnaraðili mótmælti ekki fjárhæð kröfu sóknaraðila fyrr en í munnlegum málflutningi.  Þau mótmæli hans eru haldlaus.  Útreikningur vaxta er nægilega skýr í gjaldþrotabeiðni og skylda til greiðslu dráttarvaxta leiðir af lögum, en ekki er nauðsynlegt að semja um að þeir skuli greiddir. 

Gert var árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila.  Því mati sýslumanns að umræddur frystiskápur væri ekki næg trygging fyrir kröfunni hefur ekki verið hnekkt.  Óstaðfest utanréttarvottorð dugar ekki til þess.  Þá er bókað við gerðina að talsmanni varnaraðila hafi verið leiðbeint.  Þrátt fyrir það benti hann ekki á aðrar eignir til fjár­náms, hvorki fasteignir né inneignir í bönkum.  Þá breytir það engu um sönnunargildi gerðarinnar þó skuld sú sem fjárnáms var krafist fyrir hafi verið greidd upp síðar. 

Fram er komið að varnaraðili er þinglýstur eigandi fasteigna.  Á sóknaraðili veð í fasteignum sem hann telur að dugi ekki til að tryggja greiðslu krafna sinna að fullu.  Varnaraðili ber sönnunarbyrðina fyrir því að kröfur sóknaraðila séu nægilega tryggðar með veðum þessum.  Þinglýsingarvottorð duga hér ekki sem sönnun fyrir því.  Frekari gögn hefur varnaraðili ekki fært fram og er ósönnuð þessi fullyrðing hans. 

Þannig er byggt á því að árangurslaust fjárnám hafi verið gert og hefur varnar­aðila ekki tekist að sýna fram á að gerðinni hafi ranglega verið lokið sem árangurs­lausri eða að kröfur sóknaraðila séu nægilega tryggðar.  Verður því að taka bú varnar­aðila til gjaldþrotaskipta.  Honum verður einnig gert að greiða sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.  Er þá tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Að kröfu sóknaraðila, Landsbankans hf., er bú varnaraðila, Merlin ehf., tekið til gjaldþrotaskipta. 

Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.