Hæstiréttur íslands
Mál nr. 678/2016
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Dýr
- Aðilaskýrsla
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. október 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem sér hafi verið veitt.
Fyrir héraðsdómi kvaðst stefnda aðspurð hafa talið sig vera „þokkalega vana“ hestakonu, enda hafi hún verið með hross í fimm ár. Framkvæmdastjóri og fyrirsvarsmaður áfrýjanda, B, sem gaf skýrslu fyrir dóminum, hefur lokið búfræðinámi frá Bændaskólanum á Hvanneyri og einnig prófi í hestatamningum. Fyrir dómi kvaðst hann hafa mikla reynslu af hestamennsku og unnið við hesta meira og minna allt sitt líf. Framkvæmdastjórinn sagði að það háttalag hestsins, sem stefnda sat umrætt sinn, að taka skyndilega á rás hafi virkað „eins og einhvers konar sturlun“. Upplýst er í málinu að hesturinn hafði áður en þetta gerðist verið fluttur á vegum áfrýjanda í hestakerru með öðrum hesti um 30 km leið og síðan komið fyrir í um það bil klukkustund í gerði með öðrum hrossum sem sum voru honum ókunn. Spurður fyrir dómi hvort kerruferðin hafi getað orsakað streitu hjá hestinum svaraði framkvæmdastjórinn að það væri „alveg möguleiki“. Viðbrögð hests, sem hefði orðið fyrir streitu, gætu verið þau að hann reyndi að flýja þar sem hann væri í eðli sínu flóttadýr. Þá játti framkvæmdastjórinn því að það gæti valdið ótta hjá hesti að fara í ókunnugt stóð. Vitnið D, sem var sjónarvottur að því sem gerðist umrætt sinn, bar fyrir dómi að um leið og stefnda hafi sest á hestinn hafi hann rokið af stað, mjög æstur, á næsta hóp af hestum og fest þar milli beisla áður en hann hélt áfram. Að virtum þessum vitnisburði, áðurgreindum framburði fyrirsvarsmanns áfrýjanda, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði.
Gjafsóknarkostnaður stefndu hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar segir í dómsorði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar sem í samræmi við dómvenju er ákveðin án tillits til virðisaukaskatts.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Kálfholt hestaferðir ehf., greiði 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 4. júlí 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 9. maí sl., er höfðað með stefnu birtri 29. maí 2015.
Stefnandi er A, kt. […], til heimilis að […].
Stefndi er Kálfholt hestaferðir ehf., kt. 410210-1500, Kálfholti 2, Hellu. Réttargæslustefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík og var sérstök réttargæslustefnda birt honum 3. júní 2015. Það mál var sameinað þessu máli.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði með dómi skaðabótaábyrgð stefnda vegna líkamstjóns stefnanda á framhandlegg, hendi, úlnliði, spjaldlið og mjöðm sem hún varð fyrir í skipulagðri hestaferð á vegum stefnda 19. ágúst 2013. Þá krefst stefnandi þess jafnframt að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda vegna líkamstjóns stefnanda á framhandlegg, hendi, úlnliði, mjóbaki, spjaldlið og mjöðm sem hún varð fyrir í skipulagðri hestaferð á vegum stefnda 19. ágúst 2013. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnanda var veitt gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins dagsettu 13. nóvember 2014. Réttargæslustefnda er stefnt vegna frjálsrar ábyrgðartryggingar stefnda og er gerð krafa um málskostnað úr hendi þessa stefnda en að öðru leyti eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur á hendur honum.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins. Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur.
Málavextir.
Stefndi er fyrirtæki í Ásahreppi sem býður upp á stuttar dagsferðir á hestbaki auk lengri ferða, frá tveimur upp í átta daga. Stefndi keypti fjögurra daga ferð hjá stefnda sem mun hafa verið auglýst fyrir fólk sem hefði einhverja reynslu af hestum og væri hún ekki fyrir byrjendur og hófst ferðin þann 18. ágúst 2013. Stefnandi kveðst hafa lagt á það áherslu að hún fengi þægan og gæfan hest þar sem hún hafi dottið illa á hestbaki árið 2012 og væri þetta fyrsta hestaferð hennar eftir það og væri hún smeyk við að fara á hestbak aftur. Stefndi heldur því fram að eiginmaður stefnanda hafi spurst fyrir um ferðina og hafi hann sagt stefnanda vana hestum en hefði nýlega misst hest sinn og langaði að komast aftur á bak. Stefndi kveður stefnanda hafa tjáð leiðbeinendum í byrjun ferðar að hún hefði farið í aðgerð á baki um það bil ári áður og vildi þess vegna mjúkan og traustan hest. Á fyrsta degi ferðarinnar segist stefnandi hafa fengið spark í sköflunginn frá meri í hópnum og hún segir sömu meri hafa sparkað í annan viðskiptavin. Hafi B, einn af eigendum stefnda, þá stöðvað ferðina og merkt með límbandi í tagl merarinnar til að vara aðra reiðmenn við henni. Stefndi kveður leiðbeinendum hafa þótt geta hópsins minni en búist hefði verið við og hefði því verið ákveðið taka inn í ferðina hesta sem hentuðu hópnum betur, þeirra á meðal hest þann sem stefnandi var á þegar hún slasaðist, Veigar frá Vetleifsholti. Á öðrum degi ferðarinnar við Brúarlund í Landsveit hafi fararstjórinn sett þennan hest undir stefnanda, en sá hestur mun hafa verið fluttur á kerru að áningarstaðnum og síðan settur í gerði með öðrum hrossum ferðarinnar. Hafi fararstjórinn, C, upplýst stefnanda um að um væri að ræða 7 vetra þægan barnahest sem bráðlega ætti að selja ungri stelpu í Þýskalandi. Hann byggi yfir miklum gæðum og þyrfti stefnandi ekkert að óttast. Stefnandi mun hafa farið á bak og C haldið í tauminn. Þegar C hafi sleppt taumnum hafi hesturinn rokið af stað með stefnanda töluverða vegalengd. Ekki er vitað til þess að nein ytri atvik hafi valdið þessu hátterni hestsins. Stefnandi mun hafa náð að halda sér á baki töluverða stund en síðan hafi hún fallið á hægri hlið og lent á höfði, síðu og aðallega baki. Hafi hún misst meðvitund við fallið og sé ljóst að hjálmur hafi bjargað því að ekki hafi farið verr, en skarð hafi komið í hann. Mun stefnandi hafa lent á milli tveggja steina og hafi hönd hennar lent á grjóti. Stefndi kveður algerlega óljóst hvers vegna hesturinn hafi skyndilega orðið ókyrr, hann hafi aldrei sýnt slíka hegðun áður. Ekkert liggi fyrir um að hvort meiðsli eða sjúkdómur hafi hrjáð hestinn eða hvort stefnandi hafi sjálf gert eitthvað sem hafi valdið þessum viðbrögðum. Stefndi taldi hestinn í góðri þjálfun og fyrr um sumarið hefði hann verið notaður í sams konar hestaferð. Hafi hann verið talinn hinn fullkomni fjölskylduhestur, góður, latur og þægur.
Stefnandi var flutt á Selfoss til rannsóknar og þar kom í ljós brot í framhandleggsbeini nálægt úlnlið, rifbeinsbrot, bólgur og mar á baki og hálsi. Stefnandi kveðst hafa orðið óvinnufær eftir atburðinn og glími hún við varanlegar afleiðingar eftir slysið. Vátryggingafélag stefnda hafi hafnað því að stefndi hefði brugðist skyldum sínum á nokkurn hátt, hvorki við val á hesti fyrir stefnanda, undirbúning ferðarinnar né á nokkurn hátt. Hafi félagið talið að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að slysið megi rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda eða annarra atvika eða aðstæðna sem hann beri ábyrgð á. Taldi félagið um óhappatilvik að ræða og hafnaði bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir málshöfðun sína á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og telur sig eiga lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um skaðabótaskyldu stefnda þar sem ljóst sé að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni. Um sé að ræða bakeinkenni og einkenni frá spjaldliðum og mjöðmum. Hafi verkirnir valdið henni umtalsverðri skerðingu á lífsgæðum, sér í lagi í athöfnum daglegs lífs. Telji sjúkraþjálfari ósennilegt að stefnandi nái fullum bata eða muni lifa einkennalausu lífi. Þá telji hann stefnanda munu eiga erfitt með að vinna líkamlega krefjandi störf og hún muni áfram finna fyrir óþægindum í athöfnum daglegs lífs. Stefnandi telur ljóst að bein orsakatengsl séu milli slyssins og tjóns hennar.
Stefnandi byggir á því að um saknæma og ólögmæta háttsemi hafi verið að ræða af hálfu stefnda. Stefnandi hafi óskað eftir því í upphafi ferðar og ítrekað það síðar að fá gæfan og þægan hest, enda hefði hún dottið af baki áður. Hafi því verið sérstakt tilefni fyrir stefnda að sýna ríka aðgæslu við val á hesti. Ferðin hafi verið kynnt sem ferð fyrir lítið vana knapa og eðli málsins samkvæmt verði gæði hestanna og þjónustan að taka mið af því, en það hafi brugðist í þessu tilfelli. Stefndi hafi mátt gera sér grein fyrir því að hesturinn sem valinn hafi verið fyrir stefnanda væri ekki til þess fallinn að vera notaður í skipulögðum hestaferðum fyrir óvana einstaklinga. Hesturinn hafi verið ungur og óreyndur og því ekki komin reynsla á það hvort eiginleikar hans samrýmdust þeim kröfum sem hestar þurfi að uppfylla til að ferðast með óvant ferðafólk í löngum hestaferðum. Val stefnda hafi brugðist, enda hefðu aðrir hestar í ferðinni ekki rokið og verði stefndi að bera ábyrgð á óforsvaranlegu vali sínu. Umrætt hross hefði ekki áður verið með í ferðinni, heldur verið flutt á bíl að áningarstað hópsins. Stefndi hafi borið ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt sakarreglunni sem eigandi hestsins og sem rekstraraðili hestaleigunnar sem annast hafi framkvæmd, undirbúning, skipulagningu og fararstjórn. Vegna sérfræðiþekkingar starfsmanna og fyrirsvarsmanna stefnda og miðað við þann hest sem valinn hafi verið handa stefnanda sé ljóst að hann hafi brugðist skyldu sinni til að tryggja öryggi stefnanda sem viðskiptavinar með gáleysislegum hætti.
Stefnandi byggir á því að líta verði til þess hvernig hinum góða og gegna fararstjóra beri að haga sér. Stefndi bjóði upp á skipulagðar ferðir fyrir lítt vana knapa og í slíkum ferðum eigi eingöngu að vera gæfir, ófælnir og reynslumiklir hestar til notkunar. Umræddur hestur hafi verið óreyndur og ekkert verið notaður áður í ferðalaginu og engin reynsla komin á hann. Hefði verið eðlilegra að reynslumesti knapinn hefði verið látinn sitja hestinn. Hafi stefndi því sýnt af sér saknæmt gáleysi.
Stefnandi telur sjónarmið er varða óhappatilvik ekki geta átt við þar sem í þeim tilvikum sé einungis um að ræða tilvik þar sem tjóni er valdið og orsakatengsl milli háttsemi og tjóns séu sönnuð án þess að unnt sé að kenna neinum um, t.d. vegna þess að tilviljun ein valdi því að tjón verði. Ljóst sé að svo sé ekki, stefndi hafi ekki sýnt þá varkárni og aðgæslu sem ætlast hafi mátt til af sérfræðingum sem bjóði upp á slíkar ferðir. Sé því ljóst að háttsemi stefndu sé saknæm og ólögmæt og beri því að viðurkenna skaðabótaskyldu. Þá beri að geta þess að umræddur hestur hafi verið felldur eftir slysið og því ljóst að hann hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera eigi til hesta sem notaðir séu í sambærilegri starfsemi. Þá telur stefnandi að með tilliti til kringumstæðna í máli þessu beri að snúa sönnunarbyrðinni við þannig að stefndi beri að sýna fram á að tjón stefnanda verði ekki rakið til atvika eða kringumstæðna sem hann beri ábyrgð á.
Til vara er þess krafist að skaðabótaábyrgð verði viðurkennd án sakar. Stefndi stundi atvinnurekstur sem sé hættulegur í eðli sínu, enda snúist hann um að setja ferðafólk, sem jafnvel sé óvant hestum, upp á slík dýr og fara með það í hestaferðir í atvinnuskyni. Eigi stefndi sem atvinnumaður á þessu sviði að hafa yfirsýn yfir alla hættueiginleika starfsins og sem slíkur eigi hann að haga framkvæmd á þann hátt að takmarki tjónshættu sem sé starfseminni samfara. Eigi viðskiptavinir að geta treyst sérfræðiþekkingu stefnda á þessu sviði, enda jafnan reynslulitlir eða reynslulausir á sviði hestamennsku. Stefnda hafi borið skylda til að haga atvinnurekstri sínum á þá lund að sem minnst hætta væri á tjóni. Í því felist jafnframt að hann verði að bera bótaábyrgð á tjóni sem hlýst í atvinnurekstri hans, enda ljóst að tjónið verði með beinum eða óbeinum hætti rakið til vanrækslu hans á þessari skyldu. Sé því sanngjarnt og eðlilegt að leggja bótaskyldu á stefnda þar sem hann geti í rekstri sínum dreift fjárhagslegri áhættu af tjóni sem þessu.
Til þrautavara er krafist viðurkenningar á skaðabótaábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni, með venjulegri sönnunarbyrði en með hertu sakarmati og byggir stefnandi á því að stefndi hafi brugðist skyldum sínum sem góður og gegn hestaleigjandi og sérfróður leiðsögumaður/fararstjóri. Þá hafi stefndi borið ábyrgð á vali hestsins, enda megi rekja tjónið til þess.
Stefnandi byggir tjón sitt á vottorði löggilts sjúkraþjálfara þar sem fram komi að ósennilegt sé að stefnandi nái fullum bata eða muni lifa einkennalausu lífi þegar komi að mjóbaks- eða spjaldliðaeinkennum. Líklegt sé að hún muni eiga erfitt með að vinna líkamlega krefjandi störf og þá sé líklegt að hún muni áfram finna fyrir óþægindum í athöfnum daglegs lífs. Stefnandi telur því ljóst að hún hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni og varanlegu líkamstjóni og þá hafi hún orðið fyrir miska vegna slyssins.
Stefnandi vísar um lagarök til skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra ólögfestra reglna íslensks réttar um skaðabætur, þar á meðal til sakarreglunnar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð. Þá vísar stefnandi til reglunnar um hlutlæga ábyrgð. Stefnandi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 og gjafsóknarleyfis síns.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á það í málinu að stefndi eða starfsmenn hans hafi valdið slysinu með saknæmum og ólögmætum hætti, en sönnunarbyrðin um það hvíli á stefnanda. Byggir stefndi á því að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Stefndi bendir á að fram að slysinu hafi umræddur hestur ekki sýnt neina hegðun eða gefið á annan hátt til kynna að hann væri varasamur. Hafi ekki annað legið fyrir en að hesturinn væri öllum nauðsynlegum kostum búinn, enda hefði stefndi ekki notað hann í hestaferðina hefði hann haft vitneskju um annað. Hann hafi verið notaður í sams konar hestaferðir áður og hafi hann verið talinn hinn fullkomni fjölskylduhestur. Ekkert liggi fyrir sem sýni fram á að hesturinn hafi verið haldinn ágöllum eða hafi verið óhæfur til reiðar fyrir óvana, jafnvel þótt hann hafi ókyrrst umrætt sinn. Algerlega sé ósannað að hesturinn hafi verið varasamur, engar mats- eða álitsgerðir sérfróðra og óvilhallra aðila um skapgerð eða geðslag hestsins liggi fyrir. Ýmislegt geti valdið því að hestar láti allt í einu ófriðlega, þeir séu lifandi dýr og alltaf felist í því hætta þegar farið sé á bak. Þetta ætti öllum að vera kunnugt og sérstaklega stefnanda sem hafi verið vön hestum. Þá mótmælir stefndi því að hann hafi gefið út einhverja ábyrgðaryfirlýsingu varðandi val á hesti. Aldrei sé hægt að ábyrgjast að fólk detti ekki af baki eða að hestur sýni ekki af sér tiltekna óæskilega hegðun. Stefndi bendir á að við val á hestum hafi verið tekið mið af því að um lítið vana knapa væri að ræða og hafi starfsmenn stefnda valið hesta sem vitað væri að væru góðir og traustir. Það hafi verið gert og hafi háttsemi hestsins í umrætt sinn verið mjög óvænt.
Stefndi mótmælir því að um ungan og óreyndan hest hafi verið að ræða og því ekki komin reynsla á hvort eiginleikar hans samræmist þeim kröfum sem hestar þurfi að uppfylla til ferðar með óvant ferðafólk í löngum hestaferðum. Það að aðrir hestar hafi ekki rokið sýni best hversu vel hafi verið vandað til vals á hestum, en mjög algengt sé að aðrir hestar fylgi á eftir ef hestur rýkur. Aldrei sé hægt að koma í veg fyrir að svona gerist, enda um lifandi skepnur að ræða. Komin hafi verið góð reynsla á hestinn, hann hafi áður verið notaður í sams konar hestaferðir af eiganda sínum.
Stefndi mótmælir því að vegna sérfræðiþekkingar starfsmanna stefnda á hestum almennt og umræddum hesti hafi hann brugðist skyldu sinni með gáleysislegum hætti við að tryggja öryggi stefnanda sem viðskiptavinar síns. Ekkert hafi gefið til kynna að hesturinn myndi sýna af sér hegðun eins og þá þegar slysið hafi orðið. Þá hefði stefndi þekkt vel til hestsins og hefði aldrei notast við hann hefði hann talið líkur á að hesturinn myndi ókyrrast. Þá telur stefndi aldur hesta ekkert hafa með gæði þeirra að gera. Það sem skipti máli sé skapgerð og atferli hestsins sem komi fram strax á unga aldri. Þá sé það ekki saknæmt að nota hest í fyrsta skipti í umræddri ferð. Miðað við þá röksemdafærslu væri aldrei hægt að hefja slíka ferð þar sem eðli málsins samkvæmt hefði í upphafi ferðar enginn hestur verið notaður áður.
Stefndi mótmælir því að snúa eigi sönnunarbyrðinni við og standi engin lög til þess og þá sýni dómaframkvæmd að almennar reglur skaðabótaréttar gildi. Sá sem krefjist bóta verði að sanna saknæmi og ólögmæti ætlaðs tjónvalds og að sú saknæma og ólögmæta hegðun hafi valdið tjóninu. Þá bendir stefndi á lög nr. 80/1994 um alferðir en í 13. gr. þeirra sé kveðið á um rétt farmiðakaupa til skaðabóta vegna þess að ferð hafi verið ófullnægjandi. Í greinargerð sem fylgt hafi frumvarpi til laganna komi skýrt fram að sönnunarbyrðin um að ferð hafi verið ófullnægjandi hvíli á farkaupa.
Þá telur stefndi það ekki leiða til þess að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þó að hesturinn hafi verið felldur í kjölfarið og mótmælir stefndi því að það þýði að hesturinn hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gera eigi til hesta sem almennt séu notaðir í sambærilegri starfsemi. Hesturinn hafi ekki verið í eigu stefnda og þá hafi eigandi hans ákveðið áður en slysið varð að selja hann þar sem hann hafi ekki verið nógu viljugur. Eftir atvikið hafi eigandinn ákveðið að selja hann ekki ef sams konar atvik mynda gerast aftur.
Stefndi kveður fall af hestbaki og slys í tengslum við hestamennsku ekki vera fátíð og þekkt að áhætta fylgi reiðmennsku og hestaferðum. Um óhappatilvik hafi verið að ræða og hafi stefnandi tekið áhættu þegar hún hafi ákveðið að taka þátt í hestaferðinni. Þá verði við sakarmatið að horfa til þess sem starfsmenn stefnda hafi vitað um hestinn áður en slysið varð.
Stefndi byggir á því að lög standi ekki til þess að viðurkenna eigi skaðabótaábyrgð án sakar og bendir aftur á 13. gr. laga um alferðir. Beri stefndi því ekki ábyrgð án sakar vegna tjóns sem fólk kunni að verða fyrir í hestaferð. Þótt notast sé við góða og trausta hesta sé aldrei hægt að tryggja eða koma í veg fyrir að fólk detti af baki eða að hestur sýni af sér hegðun eins og í umrætt sinn. Hafi stefnandi átt að vita þetta sem reynd hestamanneskja.
Stefndi mótmælir því að beita eigi hertu sakarmati í málinu enda standi engin lög til þess og vísar stefndi enn til laga um alferðir. Þá skipti engu máli þótt hertu sönnunarmati yrði beitt þar sem stefndi eða starfsmenn hans hafi ekki sýnt af sér neina saknæma háttsemi.
Stefndi byggir á því að sýkna beri hann af kröfu stefnanda um að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda á grundvelli aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Kröfunni sé ekki beint að réttum aðila og því beri að sýkna stefnda af henni. Til vara byggir stefndi á því að um bótarétt úr ábyrgðartryggingu fari eftir sakarreglunni og vísar þar að lútandi til sömu málsástæðna og að framan greinir.
Stefndi og réttargæslustefndi vísa um lagarök til almennra reglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, einkum um sönnun, sönnunarbyrði, orsakasamband og áhættuþátttöku. Þá vísar hann til 13. gr. laga nr. 80/1994 og laga nr. 91/1991, einkum 16. gr. Þá er vísað til vátryggingarskilmála AA20 og krafa um málskostnað er reist á 129.-130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Ekki er ágreiningur um það í máli þessu að stefnandi hafi slasast í umræddri hestaferð eftir að hestur sem fyrirsvarsmenn stefnda útveguðu henni rauk af stað. Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennd verði skaðabótaábyrgð stefnda vegna líkamstjóns stefnanda og í öðru lagi krefst hún þess að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda vegna líkamstjóns stefnanda. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í samræmi við gjafsóknarleyfi sitt. Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og telur sig ekki bera ábyrgð á slysinu, um hafi verið að ræða óhappatilviljun. Þá krefst hann sýknu á grundvelli aðildarskorts af þeirri kröfu að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda. Fallast ber á sýknukröfu stefnda að þessu leyti með vísan til 16. gr. laga nr. 91/1991, þar sem réttargæslustefndi er ekki aðili málsins.
Stefnandi heldur því fram að hún hafi skýrt fyrirsvarsmönnum stefnda frá því að hún hafi beðið um þægan og gæfan hest þar sem hún hefði dottið af hestbaki árið áður og væri hún smeyk við að fara á hestbak aftur. Leiðsögumenn stefnda munu hafa gert sér grein fyrir þessu, a.m.k. eftir fyrsta dag ferðarinnar þegar ástæða þótti til að setja annan hest undir stefnanda. Bar stefnda eftir að þetta lá ljóst fyrir að vanda sérstaklega valið á fararskjóta fyrir stefnanda. B, fyrirsvarsmaður stefnda, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið leiðsögumaður í ferðinni og hefði hann séð umrætt atvik. Hann kvað umræddan hest hafa verið notaðan sumarið áður og hafi hann virkað latur og yfirvegaður. Hann kvað aldrei neitt hafa komið í ljós hver orsök hegðunar hestsins hafi verið og hafi hann aldrei sýnt slíka hegðun áður. Hann kvað ekki hafa verið óskað eftir rannsókn á slysinu og hafi eigandi hans tekið þá ákvörðun að fella hestinn þar sem hún hafi ekki getað hugsað sér að nota hann eftir þetta atvik. Umræddur hestur hafi ekki áður verið með hestunum í stóði sem í ferðinni hafi verið að undanskildum hestinum sem hafi komið með honum í kerrunni. Hann kvað hestinn hafa verið sóttan í Kálfholt og hafi hann verið fluttur í hestakerru um 30 km vegalengd. Hann kvað mögulegt að hesturinn hafi sýnt streituviðbrögð eftir þessa ferð í kerrunni. Hann hafi fyrst verið í gerðinu með öðrum hestum en fljótlega hafi hann verið settur undir stefnanda. Hann kvað þetta í fyrsta sinn sem hesturinn hefði verið notaður í hestaferð hjá stefnda þetta sumar.
Engin skýring hefur fengist á því hvers vegna hesturinn rauk af stað með stefnanda á baki. Fyrirsvarsmaður stefnanda útilokar ekki að hesturinn hafi sýnt streituviðbrögð eftir 30 km langa ferð í hestakerru og þá ber að hafa í huga að hesturinn var settur í gerði með hestum sem honum voru að mestu ókunnugir. Fram kom í skýrslutökum fyrir dómi að slíkt gæti einnig valdið streituviðbrögðum hjá hestum. Þá hlutaðist stefndi ekki til um að hesturinn yrði rannsakaður af óvilhöllum aðilum en telja verður að það hafi staðið honum næst sem skipuleggjandi ferðarinnar og umráðamaður hestsins. Þá er í ljós leitt að eigandi hestsins lét fella hann eftir þetta atvik og því engin tök á því að rannsaka nánar orsök hegðunar hans og verður stefndi að bera hallann af því. Þegar litið er til reynsluleysis stefnanda verður að meta það stefnda til gáleysis að láta undir hana umræddan hest nánast strax eftir komu hans á svæðið án þess að kanna nánar hvernig ástand hans væri og hvort hann í raun hentaði stefnanda.
Þegar allt framanritað er virt verður að telja sannað að stefndi hafi sýnt af sér gáleysi við val á hesti fyrir stefnanda og ber hann því bótaábyrgð á tjóni hennar.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði í samræmi við gjafsóknarleyfi hennar, þar með talin gjafsóknarlaun fyrri lögmanns hennar, Jónasar Arnar Jónassonar hdl., 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og gjafsóknarlaun núverandi lögmanns hennar, Eiríks Gunnsteinssonar hrl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða málskostnað í ríkissjóð sem telst hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.
DÓMSORÐ:
Viðurkennt er að stefndi, Kálfholt hestaferðir ehf., beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda, A, vegna líkamstjóns stefnanda á framhandlegg, hendi, úlnliði, spjaldlið og mjöðm sem hún varð fyrir í skipulagðri hestaferð á vegum stefnda 19. ágúst 2013.
Stefndi er sýknaður af þeirri kröfu stefnanda að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda vegna líkamstjóns stefnanda.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði í samræmi við gjafsóknarleyfi hennar, þar með talin gjafsóknarlaun fyrri lögmanns hennar, Jónasar Arnar Jónassonar hdl., 1.000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og gjafsóknarlaun núverandi lögmanns hennar, Eiríks Gunnsteinssonar hrl., 800.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Stefndi greiði 1.000.000 króna í málskostnað til ríkissjóðs.