Hæstiréttur íslands
Mál nr. 257/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Málshöfðunarfrestur
- Frávísun frá héraðsdómi felld úr gildi
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 257/2003. |
Þrotabú SJS verktaka ehf. (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn Byko hf. (Jóhann H. Níelsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Ágreiningur var milli þrotabús S ehf. og B hf. um hvort frestur til málshöfðunar hefði verið liðinn þegar þrotabúið höfðaði mál á ný til riftunar á ráðstöfun en slíku máli hafði verið vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að í 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er kveðið á um að mál til riftunar á ráðstöfun þrotamanns samkvæmt XX. kafla laganna þurfi að höfða áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að skiptastjóri í þrotabúi eigi þess kost að gera riftunarkröfu, en aldrei byrji þessi frestur þó að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests við gjaldþrotaskiptin. Engin sérstök fyrirmæli væru í fyrrnefndu ákvæði um frest til að höfða riftunarmál öðru sinni ef upphaflegu máli, sem höfðað er í tæka tíð, hefur verið vísað frá dómi eða það verið fellt niður. Þegar metið væri hvernig bregðast ætti við skorti á sérstakri reglu um þetta efni yrði að líta meðal annars til þess að fresturinn, sem mælt er fyrir um í 148. gr. laga nr. 21/1991, væri settur öðru fremur til að koma í veg fyrir óvissu viðsemjanda þrotamanns um hvort þrotabú muni una við ráðstöfun hans fyrir upphaf gjaldþrotaskipta. Með málshöfðun til riftunar á ráðstöfun þrotamanns lýsir þrotabú skýrri afstöðu sinni til þessa, þótt máli sé síðan vísað frá dómi eða það fellt niður. Að öllu þessu athuguðu og með því að ekki væri beinlínis mælt fyrir á annan veg í lögum yrði að líta svo á að við frávísun eða niðurfellingu máls, sem þrotabú hefði höfðað til riftunar á ráðstöfun þrotamanns, hefjist aftur sex mánaða frestur handa því til að höfða nýtt mál í sama skyni. Samkvæmt því höfðaði þrotabú S ehf. mál þetta í tæka tíð. Yrði því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Eins og greinir nánar í hinum kærða úrskurði var bú SJS verktaka ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 11. apríl 2001 og er sá dagur frestdagur við skiptin. Innköllun í þrotabúið mun hafa verið birt fyrra sinni í Lögbirtingablaði 9. maí 2001 og lauk þannig kröfulýsingarfresti 9. júlí sama árs. Fyrsti skiptafundur í þrotabúinu mun síðan hafa verið haldinn 1. ágúst 2001. Fyrir liggur að sóknaraðili höfðaði mál 8. janúar 2002 gegn varnaraðila til riftunar á nánar tilteknum ráðstöfunum, sem sóknaraðili telur hafa leitt til þess að varnaraðili hafi fengið kröfu á hendur SJS verktökum ehf. greidda 19. október 2000. Aðilana greinir ekki á um að það mál hafi verið höfðað innan þess frests, sem mælt er fyrir um í 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málinu var á hinn bóginn vísað frá dómi með úrskurði 13. september 2002. Sóknaraðili höfðaði síðan þetta mál 28. febrúar 2003 til riftunar á sömu ráðstöfun og fyrra málið tók til. Ágreiningur er milli aðilanna um hvort frestur til málshöfðunar hafi verið liðinn þegar mál þetta var höfðað, en með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á kröfu varnaraðila um að því yrði vísað frá dómi af þeim sökum.
Í 148. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um að mál til riftunar á ráðstöfun þrotamanns samkvæmt XX. kafla laganna þurfi að höfða áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að skiptastjóri í þrotabúi átti þess kost að gera riftunarkröfu, en aldrei byrji þessi frestur þó að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests við gjaldþrotaskiptin. Gagnstætt því, sem dæmi eru um í öðrum lagareglum um málshöfðunarfresti, svo sem í 3. mgr. 29. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, eru engin sérstök fyrirmæli í 148. gr. laga nr. 21/1991 um frest til að höfða riftunarmál öðru sinni ef upphaflegu máli, sem höfðað er í tæka tíð, hefur verið vísað frá dómi eða það verið fellt niður. Þegar metið er hvernig bregðast eigi við skorti á sérstakri reglu um þetta efni verður að líta meðal annars til þess að fresturinn, sem mælt er fyrir um í 148. gr. laga nr. 21/1991, er settur öðru fremur til að koma í veg fyrir óvissu viðsemjanda þrotamanns um hvort þrotabú muni una við ráðstöfun hans fyrir upphaf gjaldþrotaskipta. Með málshöfðun til riftunar á ráðstöfun þrotamanns lýsir þrotabú skýrri afstöðu sinni til þessa, þótt máli sé síðan vísað frá dómi eða það fellt niður. Að öllu þessu athuguðu og með því að ekki er beinlínis mælt fyrir á annan veg í lögum verður að líta svo á að við frávísun eða niðurfellingu máls, sem þrotabú hefur höfðað til riftunar á ráðstöfun þrotamanns, hefjist aftur sex mánaða frestur handa því til að höfða nýtt mál í sama skyni. Samkvæmt því höfðaði sóknaraðili mál þetta í tæka tíð. Verður því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2003.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 5. þ.m., er höfðað 28. febrúar 2003.
Stefnandi er þrotabú SJS verktaka ehf., Gránufélagsgötu 4 á Akureyri.
Stefndi er Byko hf., Skemmuvegi 2A, Kópavogi.
Stefnandi gerir þá kröfu að rift verði með dómi greiðslu á þeim hluta skuldar stefnanda við stefnda sem fram fór með skuldajöfnun 19. október 2000 á móti inneign stefnanda hjá Rúmfatalagernum hf. í Kópavogi, alls að fjárhæð 2.778.450 krónur. Þá gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.778.450 krónur „ásamt dráttarvöxtum frá 25. nóvember 2001 til greiðsludags skv. III. kafla vaxtlaga nr. 25/1987, en skv. lögum nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001“. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi hefur aðallega krafist þess að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af kröfum stefnanda. Að því frágengnu er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefnandi gera þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda vegna þessa þáttar málsins.
I.
Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. apríl 2001 var bú SJS verktaka ehf., Furuvöllum 11 á Akureyri, tekið til gjaldþrotaskipta. Þann sama dag hafði stjórn félagsins óskað eftir því að það yrði tekið til gjaldþrotaskipta og er sá dagur því frestdagur við skiptin. Fyrsta innköllun skiptastjóra birtist í Lögbirtingablaðinu 9. maí 2001 og rann kröfulýsingarfrestur út við lok dags 9. júlí 2001. Samkvæmt kröfuskrá var lýst í þrotabúið kröfum að fjárhæð samtals 96.943.257 króna. Í stefnu kemur fram að við skoðun á bókhaldi félagsins hafi meðal annars komið í ljós að inneign þess hjá Rúmfatalagernum hf. hafi verið ráðstafað með skuldajöfnun upp í skuld þess við stefnda 19. október 2000. Inneign SJS verktaka ehf. hjá Rúmfatalagernum hf. hafi verið tilkomin vegna vinnu sem síðarnefnda félaginu hafi verið gerðir reikningar fyrir 30. september 2000, samtals að fjárhæð 2.778.450 krónur. Í bókhaldsgögnum hafi ekki verið að finna samkomulag um framangreinda skuldajöfnun, né að þríhliða samningur hafi verið gerður um millifærslu eða skuldajöfnun af þessu tagi á milli SJS verktaka ehf. annars vegar og stefnda og Rúmfatalagersins hf. hins vegar. Með bréfi 15. nóvember 2001 hafi skiptastjóri stefnanda gert kröfu um að stefndi endurgreiddi búinu þá fjárhæð sem skuldajafnað var með framangreindum hætti. Í bréfinu hafi komið fram að krafa um endurgreiðslu væri byggð á því að hér væri um í óvenjulegan greiðslueyri að ræða, en auk þess hafi skuldajöfnun átt sér stað svo skömmu fyrir gjaldþrotið að hún væri riftanleg af þeim sökum. Engin viðbrögð hafi orðið við þessu bréfi. Hafi stefnandi því höfðað mál á hendur stefnda, sem þingfest hafi verið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 7. febrúar 2002.
Framangreindu máli, sem var höfðað 8. janúar 2002, var að kröfu stefnda vísað frá dómi með úrskurði 13. september sama árs. Var frávísun byggð á því að málið hefði verið höfðað á röngu varnarþingi. Í því máli sem hér er til úrlausnar, sem var eins og fram er komið höfðað 28. febrúar 2003, hefur stefnandi uppi sömu kröfur á hendur stefnda og í hinu fyrra máli.
II.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að frestur til að höfða málið hafi verið liðinn þá er það var höfðað. Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skuli höfða dómsmál til að koma fram riftun áður en sex mánuðir eru liðnir frá því að skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfu. Fresturinn byrji þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Frestur til að lýsa kröfum í bú stefnanda hafi runnið út 9. júlí 2001. Mál þetta hafi því borið að höfða fyrir 9. janúar 2002. Það hafi hins vegar ekki verið gert fyrr en 28. febrúar 2003, eða rúmum þrettán og hálfum mánuði eftir að frestur til þess rann út. Verði því að vísa málinu frá dómi. Birting stefnu hinn 8. janúar 2002 í öðru máli sem stefnandi hafi höfðað á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi enga þýðingu í þessu máli. Málshöfðun með birtingu stefnu í því máli geti ekki leitt til þess að annað mál, það er það sem nú sé rekið á milli aðila, teljist höfðað innan málshöfðunarfrests. Jafnvel þótt unnt væri með einhverjum hætti að líta svo á að um sömu málssókn væri að ræða sé ekki unnt að líta svo á að málshöfðunarfrestur 148. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið rofinn með birtingu stefnu 8. janúar 2002 enda hafi málið verið höfðað fyrir röngu varnarþingi. Geti málshöfðunarfrestur samkvæmt ákvæðinu ekki rofnað nema rétt sé staðið að málshöfðun. Það hafi ekki verið gert og hafi frestur til málshöfðunar því verið löngu útrunninn þegar þetta mál var höfðað. Engin skilyrði séu að lögum til að líta svo á að upphaf málshöfðunarfrests eigi að miðast við annað tímamark en lok kröfulýsingarfrests. Á því sé heldur ekki byggt af hálfu stefnanda. Sé því engan veginn hægt að líta svo á að nýr málshöfðunarfrestur hafi byrjað að líða við uppkvaðningu úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2002. Jafnvel þótt svo yrði litið á að stefnanda yrði viðurkenndur frekari tímafrestur til að bæta úr mistökum sínum við hina fyrri málssókn og höfða nýtt mál á hendur stefnda sé ljóst að stefnandi hafi dregið þá málssókn mjög úr hófi. Mál þetta hafi ekki verið höfðað fyrr en með birtingu stefndu 28. febrúar 2003, eða um fimm og hálfum mánuði eftir að hinu fyrra máli var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Stefnandi hafi þannig í öllu falli sýnt af sér slíkt hirðuleysi að hugsanlegur réttur hans til að höfða nýtt mál á hendur stefnda um sama sakarefni hafi verið fallinn niður löngu áður en það var gert.
Í öðru lagi er frávísunarkrafa á því byggð að innbyrðis ósamræmi sé í málatilbúnaði stefnanda og erfitt sé fyrir stefnda að gera sér grein fyrir á hvaða grundvelli málið sé í raun rekið. Þá sé málatilbúnaðurinn ennfremur í ósamræmi við gögn málsins. Sé þetta í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í þriðja lagi er krafa stefnda um frávísun málsins studd þeim rökum að í kröfugerð stefnanda sé ekki skírskotað til lagagreina að því er varðar kröfu um dráttarvexti. Sé það í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um skýra og ljósa kröfugerð, sbr. f-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Í stefnu er sérstaklega tekið fram og á því byggt af hálfu stefnanda, að með birtingu stefnu í hinu fyrra máli aðila 8. janúar 2002 hafi verið fullnægt skilyrði 1. mgr. 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga um málshöfðunarfrest. Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu var þessu til viðbótar vísað til þess að með því að mál á hendur stefnda hafi þannig verið höfðað innan málshöfðunarfrests geti málalok í því engu skipt þegar afstaða er tekin til þess hvort þessa skilyrðis hafi nægilega verið gætt. Svo framarlega að mál sé höfðað innan málshöfðunarfrests sé ekki í lögum nr. 21/1991 að finna frekari skilyrði er lúti að málshöfðunarfresti. Allt að einu megi líta svo á að frestur til að höfða mál að nýju, komi til þess að fyrra mál ónýtist, sé takmarkaður með þeim hætti að gera verði kröfu til þess að nýtt mál sé höfðað innan sex mánaða frá niðurfellingu eða frávísun fyrra málsins. Megi leiða þessa reglu af 6. málslið 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, en þar sé mælt fyrir um það að sé máli vísað frá dómi eða það fellur niður af öðrum ástæðum án þess að dómur gangi hafi kröfueigandi rétt til, þótt fyrningarfrestur sé liðinn, að höfða nýtt mál innan sex mánaða frá því málinun var frávísað eða það var á annan hátt niðurfellt. Ekki hafi liðið fullir sex mánuðir frá því að Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði hinu fyrra máli aðila frá dómi og þar til þetta mál var höfðað. Samkvæmt þessu eigi ekki að þurfa að koma til þess að málinu verði vísað frá dómi. Þá er því mótmælt að málatilbúnaður stefnanda og kröfugerð hans fari í bága við ákvæði réttarfarslaga, svo sem stefndi haldi fram. Engin rök séu því til þess að taka frávísunarkröfu stefnda til greina á þessum grunni.
IV.
Ekki er ágreiningur um að sex mánaða málshöfðunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 til að ná fram riftun á þeirri greiðslu sem kröfugerð stefnanda tekur til hafi byrjað að líða 9. júlí 2001. Svo sem fram er komið höfðaði stefnandi fyrra riftunarmál sitt á hendur stefnda 8. janúar 2002 og þar með innan málshöfðunarfrests. Endanlegar lyktir þess máls urðu þegar því var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur með úrskurði 13. september 2002. Með þeim úrskurði glataði stefnandi ekki rétti sínum til að ná fram riftun á umræddri greiðslu enda þótt þá væru liðnir rúmir fjórtán mánuðir frá því að sex mánaða málshöfðunarfrestur byrjaði að líða. Naut hann samkvæmt þeirri meginreglu, að leggja megi nýtt einkamál fyrir héraðsdóm í framhaldi af því að fyrra mál um sama sakarefni er vísað frá dómi, heimildar til að höfða mál að nýju. Það bar honum hins vegar að gera rakleitt eftir frávísun fyrra málsins, sbr. til hliðsjónar H.1998.560. Er ekki fallist á það með stefnanda að til þess hafi hann haft sex mánaða frest, svo sem mælt er fyrir um í 6. málslið 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, enda verður fyrningarfresti kröfu ekki í þessu tilliti jafnað við fresti sem í lögum eru settir til höfðunar dómsmáls. Mál þetta höfðaði stefnandi svo sem fram er komið 28. febrúar 2003, eða fimm og hálfum mánuði eftir að hinu fyrra máli lauk. Varð að þessu virtu slíkur dráttur á höfðun þessa máls að ekki er unnt að fallast á það með stefnanda að við það megi miða við úrlausn þess að málshöfðunarfrestur hafi verið rofinn með fyrri málshöfðuninni. Málshöfðunarfrestur var því liðinn þá er mál þetta var höfðað. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að taka til greina kröfu stefnda um frávísun málsins.
Eftir framangreindum málsúrslitum og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, þrotabú SJS verktaka ehf., greiði stefnda, Byko hf., 150.000 krónur í málskostnað.