Hæstiréttur íslands
Mál nr. 322/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. maí 2017 þar sem sóknaraðilum var gert að greiða varnaraðilum 800.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðilar verði „dæmd til greiðslu málskostnaðar bæði í aðalsök og gagnsök“. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði keyptu varnaraðilar fasteignina að Tjaldhólum 21 á Selfossi af sóknaraðilum 22. janúar 2016 og fengu hana afhenta 5. maí sama ár. Skömmu eftir afhendingu eignarinnar beindu varnaraðilar erindi til sóknaraðila þar sem þau gerðu athugasemdir við ástand þaks hússins. Vísuðu varnaraðilar í þeim efnum til skýrslu svokallaðs fasteignamatsfræðings sem þau höfðu aflað, en þar kom meðal annars fram að töluverður raki mældist í þakrými hússins og að mestallt timbur í þakklæðningunni væri þakið myglusvepp. Þá væri einnig kominn myglusveppur í burðarvirki þaksins. Væri því nauðsynlegt að fjarlægja allt járn og pappa af þakinu, hreinsa allan myglusvepp af burðarvirkinu og endurnýja alla einangrun og klæðningu á þaki. Með bréfi 13. júlí 2016 buðu sóknaraðilar helmings afslátt af eftirstöðvum kaupverðs fasteignarinnar, eða sem nam 500.000 krónum, til lúkningar á málinu. Því boði höfnuðu varnaraðilar með bréfi sama dag og boðuðu jafnframt að þau myndu óska eftir dómkvaðningu matsmanns til að leggja mat á umfang og kostnað þeirra viðgerða sem fram þyrftu að fara.
Með matsbeiðni 11. október 2016 óskuðu varnaraðilar eftir því að dómkvaddur yrði sérfróður og óvilhallur matsmaður til að staðreyna þá galla sem fasteignin væri haldin og meta fjártjón þeirra af þeim sökum. Voru byggjandi hússins og byggingarstjóri þess matsþolar samkvæmt beiðninni auk sóknaraðila. Með stefnu, birtri 13. október 2016, höfðuðu sóknaraðilar mál þetta á hendur varnaraðilum til heimtu eftirstöðva kaupverðs fasteignarinnar. Með gagnstefnu, birtri 16. nóvember sama ár, höfðuðu varnaraðilar gagnsök á hendur sóknaraðilum og kröfðust skaðabóta úr hendi þeirra án tiltekinnar fjárhæðar en tóku fram að endanleg fjárhæð skaðabótakröfunnar yrði sett fram þegar matsgerð lægi fyrir.
Hinn dómkvaddi matsmaður skilaði mati sínu 10. febrúar 2017. Var það niðurstaða hans að það myndi kosta 4.276.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, að framkvæma nauðsynlegar endurbætur á þaki hússins. Að matsgerðinni fenginni greiddi Tryggingamiðstöðin hf. bætur samkvæmt henni til varnaraðila, úr lögboðinni starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hússins. Gerðu aðilar í kjölfarið réttarsátt þar sem varnaraðilar féllust á að greiða sóknaraðilum eftirstöðvar kaupverðs fasteignarinnar. Þá lögðu aðilar ágreining um málskostnað í úrskurð dómsins.
Svo sem fyrr greinir var sóknaraðilum gert að greiða varnaraðilum 800.000 krónur í málskostnað með hinum kærða úrskurði og leita sóknaraðilar endurskoðunar á þeirri niðurstöðu.
Að virtum þeim aðdraganda málsins sem hér hefur verið lýst sem og niðurstöðu þess þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður bæði í aðalsök og gagnsök, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Varnaraðilar, Karen Öder Magnúsdóttir og Óskar Jón Hreinsson, greiði óskipt sóknaraðilum, Hönnu Valdísi Garðarsdóttur og Antoni Karli Þorsteinssyni, sameiginlega 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. maí 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 7. apríl 2017 um kröfur aðila um málskostnað, er höfðað af Hönnu Valdísi Garðarsdóttur, kt. [...] og Antoni Karli Þorsteinssyni, kt. [...], bæði til heimilis að Vörðulandi 6, Selfossi, á hendur Karen Öder Magnúsdóttur, kt. [...] og Óskari Jóni Hreinssyni, kt. [...], báðum til heimilis að Tjaldhólum 21, Selfossi, með stefnu birtri 13. október 2016.
Dómkröfur stefnenda voru að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnendum 1.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2016 til greiðsludags. Af hálfu stefnenda beggja er þess krafist að stefndu verði dæmd in soldium til að greiða málskostnað auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu voru að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda en til vara að stefnufjárhæð verði lækkuð verulega. Þá gera stefndu þá kröfu að stefnanda [sic.] verði gert að greiða stefndu málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Með gagnstefnu, birtri 16. nóvember 2016, höfðuðu stefndu mál á hendur stefnendum og gerðu svofelldar kröfur: „að gagnstefndu verð [sic.] gert að greiða sér skaðabætur ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, sem nema óbættu tjóni, þ.á.m. útlögðum kostnaði, sem gagnstefnendur urðu fyrir vegna galla á fasteign að Tjaldhólum 21 á Selfossi, skv. kaupsamningi dags. 22.01.2016.
Með stoð í d-lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður endanleg fjárhæð skaðabótakröfu ásamt vaxta- og dráttarvaxtakröfu sett fram þegar matsgerð dómkvadds matsmanns eða eftir atvikum matsmanna eða yfirmatsmanna liggur fyrir, en matsöflun mun fara fram undir rekstri málsins á grundvelli ákvæða IX. Kafla laga nr. 91/1991.
Þá krefjast gagnstefnendur málskostnaðar úr hendi gagnstefndu eftir málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins, eða að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.“
Dómkröfur gagnstefndu í gagnsökinni voru eftirfarandi: „Gangstefndu [sic.] gera aðallega kröfu um að gagnsök þessari verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum gagnstefnenda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu auk álags er nemur virðisaukaskatti að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti sem áskilinn er réttur til að leggja fram á síðari stigum málsins.“
Eftir að málflutningur hafði farið fram um frávísunarkröfu gagnstefndu um kröfur gagnstefnenda í gagnsök varð sátt með aðilum þann 7. apríl 2017 þess efnis að aðalstefndu greiði aðalstefnendum óskipt kr. 1.098.125 eigi síðar en 15. apríl 2017, en í því felist eftirstöðvar kaupverðsins með vöxtum. Féllu aðilar að öðru leyti frá öllum kröfum í málinu nema kröfum sínum um málskostnað, bæði í aðalsök og gagnsök. Var málið tekið til úrskurðar um málskostnaðarkröfurnar eftir að lögmenn höfðu tjáð sig um þær.
Forsendur og niðurstöður
Upphaflega er mál þetta höfðað af aðalstefnendum til greiðslu eftirstöðva kaupverðs fasteignarinnar nr. 21 við Tjaldhóla á Selfossi, sem aðalstefndu höfðu keypt af aðalstefnendum. Var eignin afhent 1. maí 2016.
Þann 8. júní 2016 kvörtuðu aðalstefndu bréflega við aðalstefnendur vegna þess að ekki væri allt með felldu í þaki hússins og að húsið væri heilsuspillandi. Var í bréfinu krafist úrbóta og vísað til skýrslu Ástráðs Guðmundssonar fasteignamatsfræðings þar sem því var lýst að myglusveppur væri í nær allri þakklæðningu í þaki hússins og að endurnýja þyrfti alla þakklæðninguna og einangrunina í þakinu.
Með bréfi lögmanns aðalstefnenda til aðalstefndu, dags. 13. júlí 2016, var boðinn helmings afsláttur á lokagreiðslunni sem átti að vera kr. 1.000.000, þ.e. 500.000 kr. afsláttur, en tekið fram að með því væri ekki fallist á að fasteignin væri gölluð í skilningi fasteignakaupalaga og tekið fram að boðið væri umfram skyldu. Þessu boði var samdægurs hafnað af aðalstefndu með bréfi lögmanns þeirra.
Undir rekstri málsins öfluðu aðalstefndu matsgerðar dómkvadds matsmanns, Hjalta Sigmundssonar byggingatæknifræðings og húsasmíðameistara, um ástand hússins og var niðurstaða matsins í stuttu máli sú að mikil mygla væri í þaki hússins og þakklæðningin væri að hluta sýnilega þakin. Metinn kostnaður vegna endurbóta án virðisaukaskatts var kr. 3.448.549, en með virðisaukaskatti kr. 4.276.000.
Eftir að matsgerð lá fyrir bauðst tryggingafélag til að greiða bætur á grundvelli starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra til aðalstefndu í málinu og voru greiddar kr. 4.363.403. Eftir þetta varð framangreind sátt með aðilum málsins.
Að teknu tilliti til þeirrar matsgerðar hins dómkvadda matsmanns, sem aðalstefndu öfluðu, þykir ljóst vera að aðalstefndu höfðu nokkuð til síns máls um að fasteigninni væri áfátt, en samkvæmt matsgerðinni nemur ætlaður kostnaður við úrbætur meira en 10% af kaupverði eignarinnar, sem var kr. 36.200.000. Verður því að telja að aðalstefndu hafi verið í nokkrum rétti við að halda eftir eftirstöðvum kaupverðsins kr. 1.000.000 og krefjast úrbóta. Viðbrögð aðalstefnenda við umkvörtunum aðalstefndu voru þau að bjóða fram kr. 500.000 í afslátt. Að þessu virtu þykir rétt að aðalstefnendur greiði aðalstefndu málskostnað í aðalsök og er hann ákveðinn kr. 800.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Vegna málskostnaðar í gagnsök verður litið til þess að aðalstefndu hafa fengið framangreinda greiðslu úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hússins, málatilbúnaðar aðila og atvika málsins að öðru leyti. Þykir rétt að málskostnaður í gagnsök falli niður.
Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Aðalstefnendur, Hanna Valdís Garðarsdóttir og Anton Karl Þorsteinsson, greiði aðalstefndu, Karen Öder Magnúsdóttur og Óskari Jóni Hreinssyni, í einu lagi in solidum kr. 800.000 í málskostnað í aðalsök.
Málskostnaður í gagnsök fellur niður.