Hæstiréttur íslands
Mál nr. 856/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 5. janúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 12. desember 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild var í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að héraðsdómara verði gert að dómkveðja matsmenn í samræmi við matsbeiðni sína. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa 12. janúar 2018 skilað málsgögnum af sinni hálfu.
Varnaraðilar höfðuðu mál þetta fyrir héraðsdómi 25. október 2016 og krefjast þess að sóknaraðilanum, Ís og ævintýri ehf., verði að viðlögðum dagsektum, gert að fjarlægja svefnskála með tilgreindu fastanúmeri af lóð sem varnaraðilar kveðast eiga og hefur landnúmerið 160136. Þeir krefjast einnig leigugreiðslu úr hendi þessa sóknaraðila að fjárhæð 97.048 krónur sem þeir telja vangoldna vegna leigu á lóðinni á árinu 2015, auk skaðabóta úr hendi beggja sóknaraðila vegna ætlaðrar heimildarlausrar hagnýtingar þeirra á lóðinni eftir 1. janúar 2016.
Lóðin, sem um ræðir, var leigð Jöklaferðum hf. með samningi þess félags við dóms- og kirkjumálaráðuneytið 26. apríl 1992. Leigutíminn var til 25 ára frá 1. janúar 1991 og lauk því 31. desember 2015. Í 2. grein leigusamningsins sagði: ,,Leigð er lóð úr landi Kálfafellsstaðar í Borgarhafnarhreppi við jaðar Sultartangajökuls ... Lóðin er 12,25 ha. að stærð og er legu hennar lýst á uppdrætti er fylgir samningi þessum gerðum af teiknistofunni KÍM sf. dags. 19. 11. 1991. Leigutaka er heimilt að reisa á lóðinni hús eða skála vegna ferðaþjónustu.“ Á uppdrættinum kom fram að stærð lóðarinnar, sem er ferningslaga, sé 350 metrar á hverja hlið, auk þess sem fært var inn á hann vegarstæði og byggingar auk mannvirkja sem þá var áformað að reisa. Enginn ágreiningur er í málinu um staðsetningu og mörk lóðarinnar.
Með afsali 19. febrúar 2001 eignaðist sóknaraðilinn Ís og ævintýri ehf. réttindi leigutaka til lóðarinnar og allra mannvirkja sem á henni voru. Þann 20. október 2006 gerðu íslenska ríkið og þjóðkirkjan með sér samkomulag um prestsetur og afhendingu þeirra til þjóðkirkjunnar. Varð kirkjumálasjóður eigandi prestsetursjarðarinnar Kálfafellsstaðar. Gerð var eignayfirlýsing 15. apríl 2014 þar sem sagði meðal annars: ,,Ríkissjóður Íslands lýsir því hér með yfir og staðfestir að kirkjumálasjóður er eigandi framangreindrar lóðar ... landnr. 160136 í samræmi við áðurnefnt samkomulag milli ríkis og kirkju frá árinu 2006.“ Kirkjumálasjóður afsalaði 12. maí 2015 jörðinni Kálfafellsstað, sem nú er í sveitarfélaginu Hornafirði, til varnaraðila. Segir meðal annars í afsalinu að jörðinni sé afsalað að engu undanskyldu ,,þar með talin lóðin Kálfafellsstaður/Jöklasel landnúmer 160136.“
Varnaraðilar reisa kröfur sínar í málinu á því að leigutími samkvæmt framangreindum leigusamningi sé liðinn. Sóknaraðilar krefjast sýknu af framangreindum kröfum varnaraðila og reisa þá kröfu einkum á því að varnaraðilar séu ekki eigendur lóðarinnar sem um ræðir. Lóðin hafi ranglega verið talin tilheyra Kálfafellsstað og leigusamningur gerður í trausti þess, en hið rétta sé að lóðin sé á landi sem tilheyri Borgarhöfn. Sóknaraðilar ásamt fleirum höfðuðu gagnsök í héraði og kröfðust viðurkenningar á því að landamerki jarðanna tveggja yrðu ákveðin með tilgreindum hætti sem lýst var í kröfugerðinni. Gagnsökinni var vísað frá héraðsdómi og sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar 16. maí 2017 í máli nr. 264/2017. Sú niðurstaða var á því reist að gagnkrafan um viðurkenningu á tilgreindum landamerkjum milli framangreindra jarða væri hvorki samkynja dómkröfum varnaraðila í aðalsök málsins né yrðu rætur krafna í aðalsök og gagnsök raktar til sama atviks, aðstöðu eða löggernings í skilningi 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðilar munu síðar hafa höfðað sérstakt mál þar sem hafðar eru uppi kröfur um viðurkenningu á tilgreindum landamerkjum jarðanna. Er það nú rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands.
Eins og fram er komið er enginn ágreiningur um staðsetningu eða mörk lóðarinnar sem leigð var og málið tekur til. Lóðin er sérstök fasteign sem sóknaraðilinn Ís og ævintýri ehf. og félag sem það leiðir rétt sinn frá hafa haft á leigu um 25 ára skeið. Verður því fallist á með héraðsdómi að matsgerð sú sem sóknaraðilar hyggjast afla og lýtur að upptökum og farvegi Staðarár og nota til sönnunar um merki Borgarhafnar og Kálfafellsstaðar sé bersýnilega tilgangslaus við úrlausn þess ágreinings sem uppi er í málinu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Ís og ævintýri ehf. og Bjarni Skarphéðinn G. Bjarnason, greiði óskipt varnaraðilum, Bjarna Maríusi Jónssyni og Þóru Guðrúnu Ingimarsdóttur, sameiginlega 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 12. desember 2017.
Mál þetta, sem Þóra Guðrún Ingimarsdóttir og Bjarni Maríus Jónsson, bæði til heimilis að Þrastanesi 24, Garðabæ, höfðuðu þann 25. október 2016 á hendur Ís og ævintýrum ehf., Vagnstöðum, Sveitarfélaginu Hornafirði, og Bjarna Skarphéðni G. Bjarnasyni, til heimilis á sama stað, var tekið til úrskurðar 24. nóvember 2017 um kröfu stefndu um dómkvaðningu matsmanna.
Í þessum þætti málsins krefjast stefndu þess, með vísan til IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir matsmenn, sérfróðir á sviðum jarðfræði og vatnafars, til þess að meta og skoða eftirfarandi;
1. Hvar séu upptök Staðarár í Vatnajökli, þar sem hún komi upp á milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu, og hver sé meginfarvegur hennar frá ofangreindum upptökum um Hálsagil til sjávar.
2. Hvort ofangreindur meginfarvegur Staðarár sé á sama stað, eða svipuðum, og þegar landamerkjabréf jarðanna Borgarhafnar og Kálfafellsstaðar í Suðursveit voru gerð á árunum 1922-1923.
Stefnendur krefjast þess að kröfu stefndu um dómkvaðningu matsmanna verði hafnað.
Er það einungis ágreiningur um dómkvaðningu matsmanna sem er til úrlausnar í úrskurði þessum. Báðir aðilar krefjast þess að tekið verði tillit til þessa þáttar málsins við ákvörðun málskostnaðar við lyktir málsins fyrir dómi.
Í efnisþætti málins krefjast stefnendur þess í fyrsta lagi, að stefnda, Ís og ævintýrum ehf., verði gert að fjarlægja svefnskála, fastanúmer 218-1954, af lóð stefnenda með landnúmerið 160136, innan 60 daga frá dómsuppsögu, að viðlögðum dagsektum. Í öðru lagi, að sami stefndi greiði stefnendum samtals 97.048 krónur í vangoldna lóðarleigu, auk dráttarvaxta. Í þriðja lagi, að stefndu, in solidum, en til vara stefndi Ís og ævintýri ehf., greiði stefnendum 3.000.000 króna eða lægri fjárhæð að álitum, í skaðabætur, auk dráttarvaxta. Byggja stefnendur kröfur sínar í málinu í meginatriðum á þeirri málsástæðu að skáli stefndu standi í óleyfi á framangreindri lóð, sem sé þinglýst eign stefnenda og sérstök fasteign, eftir að lóðarleigusamningur rann út um áramótin 2015-2016.
Stefndu krefjast sýknu af dómkröfum í stefnu og er sú krafa einkum byggð á þeirri málsástæðu að lóðin sem skálinn stendur á sé ekki eign stefnenda, því að landsvæðið sem myndi lóðina hafi ranglega verið talið tilheyra jörðinni Kálfafellsstað og hafi lóðinni verið skipt út úr þeirri jörð, en í reynd tilheyri landið jörðinni Borgarhöfn, sem nú mun hafa verið skipt upp í fleiri jarðir.
Stefndu, ásamt fleiri aðilum (eigendum Borgarhafnarjarða), höfðuðu gagnsök í máli þessu á hendur stefnendum, til viðurkenningar á landamerkjum á milli framangreindra jarða, en stefnendur eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Kálfafellsstaðar, auk framangreindrar lóðar. Gagnsökinni var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 16. maí 2017 í máli nr. 264/2017. Höfðuðu stefndu þá nýtt mál til viðurkenningar landamerkja milli jarðanna og er það mál, nr. E-36/2017, nú rekið fyrir Héraðsdómi Austurlands. Jafnframt kröfðust stefndu þess að máli þessu yrði frestað uns niðurstaða lægi fyrir í landamerkjamálinu nr. E-36/2017. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði, uppkveðnum 20. júní sl.
Krafa stefndu um dómkvaðningu matsmanna sem hér er til umfjöllunar var lögð fram í þinghaldi 3. október sl. Verður hér eftir vísað til stefndu sem matsbeiðenda og til stefnenda sem matsþola.
I
Málsatvikum er ítarlega lýst í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 264/2017 og verða þau ekki rakin hér nema að því marki sem þörf krefur vegna þess ágreinings sem hér er til úrlausnar.
Lóðarleigusamningur milli matsþola og matsbeiðandans Íss og Ævintýra ehf., um þá lóð sem umræddur svefnskáli stendur á, gilti til 25 ára frá 1. janúar 1991 og rann því út í lok árs 2015. Samningurinn var upphaflega gerður á árinu 1992 á milli dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem eiganda leigulóðarinnar og Jöklaferða hf. Matsbeiðanda mun hafa staðið til boða að gera áframhaldandi lóðarleigusamning gegn greiðslu hærri lóðarleigu en gilti skv. fyrri samningi, en ekki náðist samkomulag þar um.
Í matsbeiðni kemur fram að í tilefni af þessum ágreiningi hafi matsbeiðendur farið að kanna betur réttarstöðu sína, og hafi þá komið í ljós að eldri menn á svæðinu hafi ekki kannast við að skálinn Jöklasel stæði á landi Kálfafellsstaðar, heldur væri hann á landi jarðarinnar Borgarhafnar.
Við nánari skoðun á fyrirliggjandi gögnum, viðræðum við staðkunnuga menn og skoðun á landfræðilegum aðstæðum, þá hafi matsbeiðendur talið að ljóst mætti vera að lóðin sem skálinn Jöklasel standi á (landnr. 160136) sé í landi Borgarhafnar, en ekki Kálfafellsstaðar. Þetta megi meðal annars ráða af eldri kortum af svæðinu og loftmyndum, auk rannsóknar á vatnafari. Einnig megi ráða þetta af skoðun á örnefnaskrám fyrir jarðirnar, sem lýsi merkjum í samræmi við landamerkjabréf jarðanna, sem tilnefna að Staðará sé á mörkum jarðanna frá jökli, þar sem hún komi upp á milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu. Lóðarleigusamningurinn frá árinu 1992 hafi því verið gerður fyrir vankunnáttu í upphafi og leiga verið greidd af vangá og misskilningi.
Í samræmi við framangreint hafi lögmaður matsbeiðenda ritað lögmanni matsþola bréf, dags. 5. apríl 2016, og bent á að svo virtist sem ágreiningur væri kominn upp um landamerki milli jarðanna. Matsþolar væru að gera kröfu um að fá greidda leigu af landi sem þau ættu ekki, heldur tilheyrði Borgarhöfn, en samkvæmt þinglýstum landamerkjabréfum og öðrum heimildum frá bændum á svæðinu, þá skipti Staðará mörkum, þar sem hún renni milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu, jarðanna Borgarhafnar og Kálfafellsstaðar, allt frá ósi til upptaka í Vatnajökli. Þessum sjónarmiðum hafi í kjölfarið verið andmælt af lögmanni matsþola.
Matsbeiðendur hafi leitað til sýslumannsins á Suðurlandi um að leitað yrði sátta í þeirri landamerkjadeilu sem upp væri komin, en matsþolar hafi hafnað sáttameðferð. Í kjölfarið hafi matsþolar höfðað mál þetta fyrir Héraðsdómi Austurlands, til viðurkenningar á því að skálinn skyldi fjarlægður, ásamt því að gerð sé krafa um greiðslu leigu fyrir landsvæðið sem um ræði og skaðabætur vegna heimildarlausra afnota af landsvæðinu.
Matsbeiðendur hafi tekið til varna á grundvelli þess að meginupptök Staðarár úr Jökli séu vestan við lóð þá sem matsþolar, eigendur Kálfafellsstaðar, vilji nú gera nýjan lóðarleigusamning um við matsbeiðandann Ís og Ævintýri ehf. og því tilheyri land það sem umræddur svefnskáli standi á Borgarhöfn, en ekki Kálfafellsstað.
Þar sem ágreiningur sé uppi um hvar ofangreindan farveg Staðarár sé að finna sé matsbeiðendum nauðsynlegt að fá álit dómkvaddra matsmanna á því hvar hann sé að finna, svo leiða megi deilu þessa til lykta.
Óskað sé skriflegra og rökstuddra svara við eftirfarandi matsspurningum:
1. Hvar eru upptök Staðarár í Vatnajökli, þar sem hún kemur upp á milli Hálsatinds og Þormóðarhnútu, og hver er meginfarvegur hennar frá ofangreindum upptökum um Hálsagil til sjávar?
2. Er ofangreindur meginfarvegur Staðarár á sama stað, eða svipuðum, og þegar landamerkjabréf jarðanna Borgarhafnar og Kálfafellsstaðar í Suðursveit voru gerð á árunum 1922-1923?
Við munnlegan málflutning kom fram að matsbeiðendur byggðu á því að stofnun lóðarinnar með landnr. 160136 úr landi jarðarinnar Kálfafellsstaðar teldist markleysa, sökum vanheimildar og misskilnings um rétt landamerki þeirrar jarðar og Borgarhafnar. Matsþolar væru því ekki réttmætir eigendur lóðarinnar, þrátt fyrir þinglýsta eignarheimild. Þá hafnaði lögmaður matsbeiðenda því að matsspurningar væru leiðandi, villandi eða óskýrar, enda styddist orðalag þeirra við orðalag í landamerkjabréfum beggja jarðanna.
II
Í bókun sem matsþolar lögðu fram í þinghaldi 17. október sl. kemur fram að þeir hafni því að lagaskilyrði séu til dómkvaðningar matsmanna skv. lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í fyrsta lagi hafi matsbeiðendur byggt á því, í efnisþætti málsins, að matsþolar séu ekki eigendur landsins sem skáli í þeirra eigu, sem sé án lóðarréttinda, standi á, þ.e. lóðinni Kálfafellstaður/Jöklasel, landnr. 160136. Fyrir liggi þó þinglýst eignarheimild matsþola stefnenda að lóðinni. Eignarheimild stefnenda sé því alveg skýr. Stefnendur hafi fest kaup á jörðinni Kálfafellsstað, landnr. 160134, og með jörðinni hafi fylgt lóðin Jöklasel, landnr. 160136. Umrædd lóð sé sérstök fasteign, með sérstakt landnúmer sem sé ekki hið sama og landnúmer Kálfafellsstaðar. Lóðin sé þinglýst eign stefnenda og breyti landamerki Kálfafellsstaðar og Borgarhafnarjarða engu þar um. Verði ekki annað séð en að matsbeiðni þessari sé ætlað til sönnunarfærslu um legu landamerkja á milli jarðanna Kálfafellsstaðar og Borgarhafnarjarða. Í ljósi þess að dómkröfum stefndu í gagnsök hafi verið vísað frá dómi verði að telja það bersýnilega tilgangslaust til sönnunar í máli þessu, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þessu máli séu engar dómkröfur uppi er lúti að viðurkenningu réttra landamerkja jarðanna. Matsbeiðni þessari sé því mótmælt af hálfu stefnenda þar sem henni sé ætlað að vera til sönnunar um dómkröfur sem þegar hafi verið vísað frá auk þess sem ekki fáist séð á hvaða hátt það þjóni tilgangi að meta upptök Staðarár í Vatnajökli og hvar meginfarvegur hennar liggi í máli þar sem til úrlausnar sé krafa um að svefnskáli verði fjarlægður af þinglýstu eignarlandi stefnenda, ásamt kröfum um vangreidda leigu og skaðabætur.
Þá verði að telja matsbeiðnina tilgangslausa þar sem óskað sé eftir mati á upptökum Staðarár þar sem hún komi úr Vatnajökli í dag og feli síðari matsspurningin í sér fyrirspurn um hvort farvegur hennar nú sé á sama stað eða svipuðum og þegar landamerkjabréf jarðanna Kálfafellsstaðar og Borgarhafnar hafi verið gerð á árunum 1922-1923. Ekki sé hægt að ráða af matsbeiðninni með hvaða hætti framangreindum spurningum sé ætlað að styðja við kröfu stefndu um sýknu af dómkröfum stefnefnda um að fjarlægður verði svefnskáli af þinglýstu landi þeirra, ásamt kröfu um vangreidda lóðarleigu og skaðabætur. Af matsbeiðninni verði því ekki ráðið hvað stefndu hyggjast sanna með því að afla mats um upptök Staðarár.
Í öðru lagi sé matsbeiðni þessari mótmælt á þeim grundvelli að hún feli í sér leiðandi spurningar, sem séu í senn óskýrar og villandi. Sé í því sambandi vísað sérstaklega til orðalags í fyrri matsspurningunni, en þar sé orðalag hennar viljandi þrengt þar sem m.a. sé ljóst af framlögðum gögnum í öðru máli milli eigenda Borgarhafnarjarða og Kálfafellstaðar að aðalfarvegur Staðarár sé í Sultartungnagili. Matsbeiðni þessi sé því leiðandi og einungis til þess fallin að hafa áhrif á hlutdrægni matsmanna, en ekki að varpa hlutlægu ljósi á álitaefni um uppsprettu jökulárinnar Staðarár. Þannig sé spurningin til þess fallin að fá viðkomandi matsmenn til að gefa sér fyrirfram forsendur um hvar upptök árinnar sé að finna. Þegar sé ljóst að fyrirhuguð matsgerð hafi ekki gildi sem sönnunargagn og því sé hún markleysa. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna matsbeiðni.
Lögmaður matsþola reifaði framangreindar röksemdir nánar við munnlegan málflutning og mótmælti sérstaklega staðhæfingum um að stofnun umræddrar lóðar sem skáli matsbeiðenda stendur á teljist „markleysa“.
III
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hafa aðilar forræði á sönnunarfærslu í einkamálum. Í dómaframkvæmd hefur aðilum verið játaður víðtækur réttur til að afla matsgerðar undir rekstri máls til að færa sönnur á staðhæfingar sínar, enda bera þeir áhættu af sönnunargildi matsgerðar og standa straum af kostnaði af öflun hennar. Þessi réttur takmarkast hins vegar af ákvæðum 3. mgr. sömu lagagreinar, þar sem segir að dómari geti meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Ákvæði 3. mgr. felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 46. gr. um málsforræði aðila og ber því að skýra það þröngt.
Eins og rakið hefur verið eru matsþolar þinglýstir eigendur lóðarinnar Kálfafellsstaðar/Jöklasels, landnr. 160136, sem svefnskáli matsbeiðandans Íss og Ævintýra ehf. stendur á. Við munnlegan málflutning skýrði lögmaður matsbeiðenda málsástæður sem hafðar eru uppi í greinargerð, eins og rakið er hér að framan, þannig að byggt sé á því að stofnun lóðarinnar sem skáli matsþola stendur á, úr landi Kálfafellsstaðar, teljist „markleysa“ sökum vanheimildar og misskilnings um rétt landamerki þeirrar jarðar og Borgarhafnarjarða.
Til málsástæðna og dómkrafna í efnisþætti málsins verður ekki tekin afstaða fyrr en við lyktir málsins, þ.e. í dómi, nema málinu ljúki með öðrum hætti, s.s. sátt. Fyrir dóminum liggur nú einungis að taka afstöðu til þess hvort umbeðin sönnunarfærsla uppfylli skilyrði IX. kafla sömu laga, eins og þau hafa verið túlkuð í dómaframkvæmd og hvort hún sé bersýnilega þarflaus í skilningi 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Við mat á hinu síðarnefnda er þó óhjákvæmilegt að horfa til þeirra dómkrafna sem hafðar eru uppi í málinu og málsástæðna til stuðnings þeim.
Umbeðinni matsgerð virðist ætlað að færa sönnur á legu landamerkja Kálfafellsstaðar og Borgarhafnar, en engar dómkröfur í málinu lúta að legu landamerkja eftir að gagnsök málsins var vísað frá dómi með dómi Hæstaréttar í máli nr. 264/2017.
Þá hafa engar dómkröfur verið hafðar uppi í málinu sem lúta að þinglýstu eignarhaldi lóðarinnar með landnr. 160136, stofnun hennar eða skráningu í fasteignaskrá og verður auk þess ekki séð að umbeðinni matsgerð sé ætlað að færa sönnur á slíkar málsástæður.
Vegna þess ágreinings sem hér er til umfjöllunar er til þess að líta að eins og ávallt getur niðurstaða dómsmáls ráðist af sönnunarreglum, m.a. um það hvor aðila skuli bera hallann af sönnunarskorti. Matsbeiðendur hafa þegar lagt fram ýmis gögn til sönnunar málsástæðu sinni um landamerki jarðanna og hefur gagnaöflun ekki verið lýst lokið. Þá mun matsbeiðendum gefast kostur á að leiða vitni við aðalmeðferð málsins, auk þess sem þeir hafa krafist þess að gengið verði á vettvang við aðalmeðferð.
Liðlega ár er liðið frá því að málið var höfðað og greinargerð var lögð fram. Ekki var hafður uppi áskilnaður í greinargerð um að dómkveðja matsmenn. Ljóst þykir að öflun umbeðinnar matsgerðar væri til þess fallin að tefja málið enn frekar.
Að öllu framanrituðu virtu verður fallist á það með matsþolum að öflun umbeðinnar matsgerðar dómkvaddra matsmanna um upptök og farveg Staðarár sé bersýnilega óþörf til sönnunar í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu verður beiðni matsbeiðenda um dómkvaðningu matsmanna hafnað, með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins bíður efnisdóms.
Af hálfu matsbeiðenda flutti málið Ólafur Björnsson hrl. en af hálfu matsþola Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.
Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfu matsbeiðenda, Íss og Ævintýra ehf. og Bjarna Skarphéðins G. Bjarnasonar, um dómkvaðningu matsmanna er hafnað.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.