Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Lífsgjöf
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2001: |
|
Nr. 305/2001. |
Dánarbú Sigríðar Erlu Jónsdóttur(Guðmundur Kristjánsson hrl.) gegn Arnheiði Ragnarsdóttur (Hallvarður Einvarðsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Lífsgjöf.
Við opinber skipti á dánarbúi S (D) kom upp ágreiningur milli erfingja. Stefndi D erfingjanum A til endurgreiðslu skulda sem S hafði tekist á herðar í þágu A, alls að fjárhæð 2.839.464 kr. D var ekki talinn hafa fært sönnur á að um lánafyrirgreiðslu hafi verið að ræða og umræddar skuldbindingar S voru ekki taldar dánargjafir í skilningi 54. gr. laga nr. 8/1962, þar sem hvorki varð af gögnum málsins séð að ætlast hefði verið til að þær kæmu til framkvæmda að S látinni né að þær hafi verið gefnar á dánarbeði. Þá var ekki talið að þessar ráðstafanir S færu í bága við ákvæði erfðaskrár hennar og eiginmanns hennar. A var því sýknuð af kröfu D.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2001, þar sem varnaraðili var sýknuð af kröfu sóknaraðila um greiðslu á kröfu að fjárhæð 2.839.464,80 krónur. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili verði dæmd til að greiða sér 2.839.464,80 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur af nánar tilteknum fjárhæðum frá 23. mars 1998 til greiðsludags. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti er þess þó allt að einu krafist að endurskoðuð verði niðurstaða úrskurðarins um málskostnað og hann hækkaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, þar með talið ákvæði hans um málskostnað, enda hefur varnaraðili ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, dánarbú Sigríðar Erlu Jónsdóttur, greiði varnaraðila, Arnheiði Ragnarsdóttur, 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2001
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. febrúar sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 11. júlí sl.
Sóknaraðili er dánarbú Sigríðar Erlu Jónsdóttur, kt. 120333-2679.
Varnaraðili er Arnheiður Ragnarsdóttir, kt. 040960-2369, Hagalandi 4, Mosfellsbæ.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að varnaraðila verði gert að endurgreiða 2.839.464,80 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.446.000 krónum frá 23. mars 1998 til 26. s.m. og af 2.839.464,80 krónur frá þ.d. til greiðsludags. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða allan málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að hún verði sýknuð af öllum kröfum sóknaraðila og að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.
I
Málsatvik
Málavextir eru þeir að hinn 17. febrúar 1999 andaðist Sigríður Erla Jónsdóttir fædd 12. mars 1933. Sigríður Erla sat í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, Ragnar Bergstein Henrýson, sem lést 9. nóvember 1987. Lögerfingjar þeirra eru eftirlifandi tvö börn þeirra, þau varnaraðili, Arnheiður Ragnarsdóttir, og Jón Ingi Ragnarsson, og þrjú barnabörn, þau Bryndís Erla og Gylfi Þór Pálsbörn og Sandra Björk Ragnarsdóttir. Sigríður Erla og Ragnar gerðu erfðaskrá 1. júlí 1981 þar sem fram kom að það langlífara skyldi erfa allar eftirlátnar eigur þess skammlífara “þannig að 1/3 hluti falli til eftirlifandi maka til viðbótar lögleyfðs 1/3 hluta búshelmings þess og komi þá einungis 1/6 hluti allra eigna búsins í hlut barna.” Þá segir þar einnig að það langlífara megi ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum þeim, sem það fær með erfðaskránni þannig að í bága fari við réttindi erfingja þess sem fyrr lést.
Dánarbú Sigríðar Erlu Jónsdóttur var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 12. mars 1999. Við skiptin kom upp ágreiningur milli erfingja um ráðstafanir hinnar látnu í þágu varnaraðila en við skiptameðferðina var upplýst að 26. nóvember 1996 gaf varnaraðili út skuldabréf að upphæð 1.500.000 kr., verðtryggt, vegna lántöku sinnar hjá Íslandsbanka hf. Var skuldin tryggð með 4. veðrétti í íbúð Sigríðar Erlu, Efstalandi 4, Reykjavík. Skuldaraskipti urðu síðan á bréfi þessu þ. 26. mars 1998 á þann veg að Sigríður Erla varð eftir það greiðandi skuldarinnar í stað varnaraðila. Stóð skuldin þá í 1.393.464,80 krónum. Þá var einnig upplýst að 18. mars 1998 gaf Sigríður Erla út skuldabréf að upphæð 1.500.000 kr., verðtryggt, til Íslandsbanka. Var bréfið tryggt með veði í fyrrnefndri íbúð hennar og auk þess í Álfastekk 4, Þingvallasveit. Andvirði bréfsins, 1.446.510 kr., var síðan lagt inn á tékkareikning hennar nr. 110249. Hinn 23. mars 1998 innleysti varnaraðili tékka að fjárhæð 1.446.000 kr., sem Sigríður Erla hafði gefið út á nefndan reikning. Varnaraðili kveður Sigríði Erlu hafa gefið sér andvirði lánanna.
Á skiptafundi í búinu 9. desember 1999 var heimilað að rekið yrði mál í nafni dánarbúsins á hendur varnaraðila.
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 24. janúar 2001, sendi skiptastjóri öll málsgögn með ósk um að dómurinn tæki ágreiningsefnið til úrlausnar samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 20/1991. Stefna var út gefin 18. desember 2000 og var málið þingfest þann 9. febrúar 2001.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Endurgreiðslukrafa sóknaraðila sundurliðast þannig:
Tékki útg. af Sigríði og innleystur af varnaraðila 23. mars 1998 1.446.000,00 kr.
Skuldaraskipti á skuldabréfi, útg. af varnaraðila 26. nóv. 1996
en yfirteknu af Sigríði 26. mars 1998 1.393.464,80 kr. Samtals 2.893.464,80 kr.
Sóknaraðili byggir kröfugerð sína um endurgreiðsluna á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum:
1. Að varnaraðili hafi fengið andvirði beggja lánanna sem lán frá Sigríði Erlu og beri að endurgreiða þau. Vísar sóknaraðili hér til meginreglna íslensks samninga- og kröfuréttar.
2. Að varnaraðili hafi ekki fært fram nein gögn því til staðfestingar að tilgreindar eftirstöðvar lánanna ættu að falla til hennar án endurgjalds og sé á því byggt að á henni hvíli sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið samkvæmt meginreglum samninga- og kröfuréttar.
3. Að jafnvel þótt sannað væri, að eftirstöðvar lánanna hafi átt að falla án endurgjalds til varnaraðila þá sé ljóst að slík gjöf yrði metin sem dánargjöf sem lyti þá samkvæmt 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962 reglum VI. kafla laganna um form, þ.e.a.s. reglur um erfðaskrár skuli einnig gilda um þau gjafaloforð, sem ekki er ætlast til að komi til framkvæmda fyrr en að gefandanum gengnum. Í þessu sambandi telur sóknaraðili að Sigríður Erla hafi ekki haft fjárhagslega burði til að standa undir greiðslubyrði lánanna. Sú byrði hefði bæði gengið of nærri greiðsluþoli og skert um of framfærslumöguleika hennar.
4. Að jafnvel þótt talið yrði að um gilda dánargjöf væri að ræða þá hljóti hún að vera andstæð þeim ákvæðum erfðaskrárinnar frá 1. júlí 1981, sem fyrr voru nefnd og einnig lagaskilyrðum fyrir leyfi Sigríðar Erlu til setu í óskiptu búi. Er einkum vísað í þessu sambandi til 20. gr. og 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Kröfu sína um dráttarvexti byggir sóknaraðili á ákvæðum III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum.
Kröfu um málskostnað byggir sóknaraðili á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir sýknukröfu sína á því að hér hafi verið um lífsgerning að ræða "inter vivos" af hálfu þeirra látnu til handa dóttur sinni og sé slíkur gerningur óendurkræfur.
Gjafir þær sem hér sé um ræða í þessu máli hafi ekki verið gefnar á dánarbeði og hafi þær komið til framkvæmda í lifanda lífi gefanda. Gjöf sé örlætisgerningur, að jafnaði endurgjaldslaus afhendingargerningur sem ætlað sé að auka efni gjafþegans, en skerði efni gefandans.
Varnaraðili mótmælir málsástæðum sóknaraðila.
Því er mótmælt að um hafi verið að ræða lán sem beri að endurgreiða. Þvert á móti bendi öll málsatvik til þess að um hafi verið að ræða lífsgjöf sem gefin hafi verið án endurgjalds. Ekkert í málatilbúnaði sóknaraðila bendi til þess að um sé að ræða lán sem beri að endurgreiða og eigi því meginreglur íslensks samninga- og kröfuréttar ekki við. Sönnunarbyrðin hvíli á sóknaraðila að sanna það að hér hafi verið um lánveitingu að ræða.
Þá er því mótmælt að slík gjöf yrði metin sem dánargjöf og lyti 54. gr. erfðalaga nr 8/1962. Skilyrði þeirrar lagagreinar sé ekki fyrir hendi. Gjöfin hafi ekki átt að koma til framkvæmda að gefandanum látnum. Gjöfin hafi tekið þegar í stað gildi. Peningar (tékki) voru afhentir þann 23. mars 1998 án skilyrða þ.e. 1.466.000 kr. að frádregnum 350.000 kr. sem varnaraðili hafi haldið fram að hún hafi endurgreitt móður sinni. Varnaraðili hafi því tekið við samtals 1.116.000 kr. Skuldaraskipti hafi orðið á láni 26. mars 1998 að upphæð 1.393.465 kr. með því að móðir varnaraðila hafi tekið að sér lánið frá og með þeim degi og greitt af því til dánardægurs, sbr. skattskýrslu ársins 1999. Báðir gerningarnir hafi verið óafturkræfir og hafi þegar tekið gildi frá gjafadegi.
Ekki verði hægt að sjá að ráðstafanir þær sem Sigríður Erla hafi framkvæmt hafi verið gerðar á dánarbeði. Þvert á móti hafi Sigríður Erla verið í fullu starfi þegar hún afhenti gjafirnar og hafi haft góðar tekjur sbr. skattframtal fyrir árið 1999. Því er mótmælt sem ósönnuðu að Sigríður Erla hafi ekki haft fjárhagslega burði til að standa undir greiðslubyrði lánanna. Þvert á móti hafi hún haft fulla burði til þess að standa undir greiðslubyrði lánanna, sbr. skattframtal fyrir árið 1999. Sigríður Erla hafi haft 2.750.105 kr. í tekjur fyrir árið 1998 sbr. skattframtal 1999. Fyrir sama ár hafi afborganir lána hjá Sigríði Erlu verið eftirfarandi:
Afborganir Vextir Samtals
LSR lífeyrissjóður 56.000 76.099 = 132.099
Lífeyrissjóður verslunarmanna 16.000 53.507 = 69.507
Íslandsbanki 66.666 92.507 = 159.173
Íslandsbanki 100.000 124.666 = 224.666
Samtals = 585.445
Í framangreindri töflu séu bæði lánin sem ágreiningur í þessu máli snúist um. Ekki verði séð á þessum samanburði að ráðstöfun Sigríðar Erlu hafi verið umfram getu hennar og skert framfærslumöguleika hennar. Þvert á móti staðfesti það getu hennar til að aðstoða dóttur sína til að fjármagna íbúðarkaup en dóttirin sé einstæð móðir með þrjú börn á framfærslu hafi og hafi Sigríður Erla þar með í leiðinni treyst framfærslumöguleika dóttur sinnar til framtíðar með þessari ráðstöfun sinni.
Með hliðsjón af heildarstöðu Sigríðar sé hægt að fullyrða að hún hafi verið vel aflögufær að veita dóttur sinni þá aðstoð sem hún veitti af heilum hug.
Þá er því mótmælt að þótt talið yrði að um gilda dánargjöf væri að ræða þá hljóti hún að vera andstæð ákvæðum erfðaskrárinnar frá 1. júlí 1981. Sigríður Erla hafi ekki á neinn hátt ráðstafað með erfðaskrá eða dánargjafagerningi eignum búsins. Búinu verði skipt upp á milli erfingja líkt og erfðareglur bjóða. Hún hafi hins vegar nýtt sér þær heimildir sem hún hafði á eignarráðum búsins í lifanda lífi þegar hún vildi rétta dóttur sinni hjálparhönd. Meginreglan í erfðarétti sé sú að langlífari maki hafi fulla heimild til að ráðstafa eignum búsins til annarra einn síns liðs og með bindandi hætti, hvort heldur með sölu eða gjöfum eða með öðrum löggerningum. Þessi meginregla sé þó bundin við þá löggerninga að þeir komi til efnda í lifanda lífi löggerningsgjafans. Sigríður Erla hafi í reynd beitt þessari meginreglu. Hún hafi ráðstafað með lífsgerningum gjöfum til handa dóttur sinni sem hafi þegar komið til framkvæmda. Sigríður Erla hafi verið í fullu starfi og með góðar tekjur og ekkert bent til þess að hún væri að yfirgefa þennan heim. Ekki verði því hægt að segja að gjöfin hafi verið gerð á dánarbeði né heldur verði hægt að segja að hún hafi átt að koma til framkvæmda að henni látinni. Því eigi reglur um dánargjafir ekki við.
Þótt framangreindar málsástæður einar sér hljóti að leiða til sýknu, þá hafi sóknaraðili á sínum tíma átt væntanlega riftunarheimild samkvæmt 2. mgr. 15. gr. erfðalaga. Þeirri heimild hafi erfingjar ekki beitt innan tilskilins frests og af þeim sökum hafi þeir glatað rétti sínum sökum tómlætis ef hann hafi þá nokkurn tíma verið til staðar.
Krafa um málskostnað er byggð á 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Niðurstaða
Fyrir liggur að skuldaraskipti urðu þann 26. mars 1998 á skuldabréfi sem varnaraðili gaf út þann 26. nóvember 1996 til Íslandsbanka, sem tryggt var með 4. veðrétti í íbúð Sigríðar Erlu Jónsdóttur, Efstalandi 4, Reykjavík. Með þeirri skuldskeytingu varð Sigríður Erla eftirleiðis greiðandi skuldarinnar í stað varnaraðila, en þá var skuldin að eftirstöðvum 1.393.465 kr. Þá gaf Sigríður Erla út þann 18. mars 1998 skuldabréf til Íslandsbanka hf. sem tryggt var með veði í fyrrnefndri íbúð hennar og auk þess í Álfastekk 4, Þingvallasveit, og rann andvirði þess, 1.446.000 kr. til varnaraðila. Ekki hefur annað komið fram en að Sigríður Erla hafi greitt afborganir beggja lánanna í lifanda lífi, en eftirstöðvar þeirra voru greiddar af eignum dánarbúsins eftir andlát hennar. Samkvæmt ofangreindu var Sigríður Erla skuldari beggja lánanna og var íbúð hennar til fullnustu þeirra beggja. Þá komu bæði lánin fram á skattframtali hennar frá árinu 1999. Sóknaraðili hefur ekki fært sönnur á að um lánafyrirgreiðslu hafi verið að ræða. Samkvæmt 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skulu reglur laganna um erfðaskrár einnig gilda um þau gjafaloforð, sem ekki er ætlast til að komi til framkvæmda fyrr en að gefandanum látnum. Framangreindar skuldbindingar Sigríðar Erlu verða ekki taldar dánargjafir í skilningi greinds ákvæðis erfðalaga þar sem hvorki verður séð af gögnum málsins að ætlast hafi verið til að þær kæmu til framkvæmda að gefanda látnum né að þær hafi verið gefnar á dánarbeði. Ekki verður talið að greindar ráðstafanir Sigríðar Erlu Jónsdóttur fari í bága við ákvæði erfðaskrár hennar og eiginmanns hennar frá 1. júlí 1981.
Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á kröfu sóknaraðila um endurgreiðslu á framangreindum lánum og ber að sýkna af öllum kröfum sóknaraðila í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað, sem telst hæfilegur vera 60.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Varnaraðili, Arnheiður Ragnarsdóttir, skal vera sýkn af kröfum sóknaraðila, dánarbús Sigríðar Erlu Jónsdóttur, í máli þessu.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 60.000 kr. í málskostnað.