Hæstiréttur íslands

Mál nr. 3/2017

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
X (Óttar Pálsson hrl.), Y (Reimar Pétursson hrl.), Z (Almar Þór Möller hdl.), Þ (Gunnar Egill Egilsson hdl.) og Æ (Helgi Sigurðsson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Ráðgefandi álit
  • EFTA-dómstóllinn
  • Réttarfarssekt

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X og Y um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við rekstur máls Á á hendur X, Y, Z, Þ og Æ. Krafðist Á þess að kröfum Z, Þ og Æ yrði vísað frá Hæstarétti þar sem þeir hefðu ekki átt aðild að kröfunni sem hafnað var í hinum kærða úrskurði og gætu því ekki átt aðild að kærumálinu. Talið var að þar sem Þ og Æ hefðu báðir tekið til máls þegar krafan var tekin fyrir, tekið undir hana og fært fyrir því rök að taka skyldi hana til greina gætu þeir átt aðild að málinu. Var einnig talið eins og málinu væri háttað að Z hefði lögvarða hagsmuni af því að mega kæra úrskurðinn. Var því hafnað kröfu Á um að vísa frá kærum Z, Þ og Æ. Þá var staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu X og Y um ráðgefandi álit með vísan til þess að Hæstiréttur hefði í tveimur dómum tekið afstöðu til þeirra álitaefna sem X, Y, Z, Þ og Æ óskuðu álits á. Loks var kröfu Y um að lagt yrði fyrir héraðsdóm að úrskurða án tafa um kröfu hans um réttarfarssekt vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðilinn, Y, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru í þinghaldi 21. desember 2016, en aðrir varnaraðilar með skriflegri kæru 22. sama mánaðar, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2016, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði í tengslum við sakamál sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Auk þess var hafnað kröfu varnaraðilans, Y, um að sækjanda yrði gerð réttarfarssekt í samræmi við 223. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á þann hátt að úrlausn um það atriði skyldi bíða efnisdóms í málinu. Kæruheimild um fyrra atriðið er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Varnaraðilar krefjast þess að fyrrnefnd krafa verði tekin til greina. Þá krefst varnaraðili Y þess að „lagt verði fyrir héraðsdómara að úrskurða um kröfu varnaraðila um réttarfarssekt án tafa.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, að kærum varnaraðila Z, Æ og Þ verði vísað frá Hæstarétti sem og framangreindri kröfu Y.

Sóknaraðili færir þau rök fyrir kröfu sinni um að kæru varnaraðilanna Z, Þ og Æ verði vísað frá Hæstarétti, að þeir hafi ekki átt aðild að þeirri kröfu, sem hafnað var með hinum kærða úrskurði og þess vegna geti þeir ekki átt aðild að kærumálinu fyrir Hæstarétti. Málið var flutt í þinghaldi 15. desember 2016 um skriflega kröfu varnaraðilanna X og Y um að leitað skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Í endurriti vegna þess þinghalds er bókað að verjendur Þ og Æ hafi báðir tekið til máls og tekið undir kröfuna og fært rök fyrir því að hana skyldi taka til greina. Geta þeir því átt aðild að máli þessu. Eins og hér háttar til verður einnig talið að varnaraðilinn Z hafi lögvarða hagsmuni af því að mega kæra úrskurðinn. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila um að vísa kærunni frá að því er hann varðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur Hæstiréttur í tveimur dómum, 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 og 6. október sama ár í máli nr. 498/2015, tekið afstöðu til þeirra álitaefna, sem varnaraðilar óska eftir að leitað verði ráðgefandi álits á frá EFTA-dómstólnum. Hæstiréttur hefur í fjölda dóma hafnað því að leita ráðgefandi álits á grundvelli laga nr. 21/1994 ef rétturinn hefur í fyrri úrlausnum sínum þegar tekið afstöðu til þeirra álitaefna, sem beiðni um ráðgefandi álit hefur lotið að, sbr. til dæmis dóm frá 3. september 2002 í máli nr. 291/2002, dóm frá 30. nóvember 2012 í máli nr. 669/2012 og dóm frá 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn kærði úrskurður staðfestur um þennan þátt málsins.

Við málflutning vegna kröfu um að leitað skyldi ráðgefandi álits taldi einn verjenda að sækjandi í málinu hefði staðhæft að verjandanum væri uppsigað við Hæstarétt og að verjandinn hafi viðhaft ,,ómaklegar og ómerkilegar árásir á Hæstarétt.“ Gerði verjandinn kröfu um að sækjandi yrði dæmdur í réttarfarssekt fyrir þessi ummæli sín. Í 222. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sem er í XXXV. kafla laganna, segir að dómari ákveði sektir samkvæmt reglum kaflans ,,af sjálfsdáðum“ og að þær skuli renna í ríkissjóð. Ekki er gert ráð fyrir að ákæruvald eða ákærðu geti gert slíka kröfu, sbr. dóm Hæstaréttar 25. febrúar 2010 í máli nr. 90/2010. Í úrskurðarorðum kemur fram að úrlausn um réttarfarssekt skuli bíða efnisdóms. Úr því að héraðsdómur kaus að fjalla á þennan hátt um framangreint atriði hefði hann átt að bóka um það í þingbók, enda er um að ræða ákvörðun um atriði sem varðar rekstur máls, í stað þess að tiltaka í úrskurðarorði að þessi háttur yrði á hafður. Eins og þessi þáttur málsins liggur fyrir á kæruheimild í y. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 ekki við og verður því að vísa kröfu, sem að þessu lýtur, frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu ákæruvaldsins um að vísa frá Hæstarétti kærum varnaraðilanna Z, Þ og Æ.

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að hafna kröfu varnaraðilanna X og Y um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.

Vísað er frá Hæstarétti kröfu varnaraðilans Y um að lagt verði fyrir héraðsdóm að úrskurða án tafa um kröfu hans um réttarfarssekt.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2016 

I

Mál þetta er höfðað með ákæru héraðssaksóknara 4. mars 2016. Ákærðu eru gefin að sök brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti og almennum hegningarlögum. Ákæran er þrískipt en samkvæmt I. kafla ákæru er ákærðu öllum gefið að sök að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun, með hlutabréf útgefin af [...], á tímabilinu frá og með 1. júní 2007 til og með 26. september 2008. Samkvæmt II. kafla ákæru er ákærða X gefin að sök markaðsmisnotkun með því að koma á viðskiptum með hluti í [...] 15. og 16. maí 2008 og samkvæmt III. kafla ákæru eru honum gefin að sök umboðssvik með því að hafa í maí 2008 misnotað aðstöðu sína sem forstjóri bankans þegar hann fór út fyrir heimildir til lánveitinga.

Í þinghaldi 21. nóvember sl. lögðu ákærðu X og Y fram kröfu um að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum varðandi ákæruefnið. Sækjandi mótmælti dómkvaðningunni. Var málið flutt um ágreininginn 15. desember sl. og málið tekið til úrskurðar í framhaldi. Undir flutningi um álitsumleitan hafði verjandi ákærða Y til viðbótar uppi þá kröfu að sækjandi yrði dæmdur í réttarfarssekt fyrir tiltekin ummæli um verjandann, sbr. 223. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II

Ákærðu X og Y telja nauðsynlegt við úrlausn málsins að taka afstöðu til skýringa á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Af þeim sökum hafa þeir krafist þess að héraðsdómur afli álits EFTA-dómstólsins á því hvort það samrýmist ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 2003/6/EB um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik), að viðskipti fjármálafyrirtækis með eigin hluti á skipulögðum verðbréfamarkaði, í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim, teljist ólögmæt í sjálfu sér nema að um sé að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga. Um grundvöll kröfunnar er vísað til laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. einnig 3. gr. EES-samningsins, sem hafi lagagildi, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Einnig vísa ákærðu, um grundvöll álitsumleitunar, til 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Aðrir ákærðu taka undir þessa kröfu ákærðu X og Y.

Um rökstuðning fyrir kröfunni vísa ákærðu til þess að eitt af aðalmarkmiðum með EES-samningnum sé einsleitni. Það komi fram í 4., 8. og 15. lið inngangsorða samningsins. Jafnframt komi þetta fram í 3. gr. samningsins og í bókun 35 um framkvæmd EES-reglna. Í 3. gr. laga nr. 2/1993 segi að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Þá segi í 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls að EFTA-dómstóllinn hafi lögsögu til að gefa ráðgefandi álit varðandi túlkun á EES-samningnum.

Í 1. gr. laga nr. 21/1994 komi fram að sé mál rekið fyrir héraðsdómstóli, þar sem þurfi að taka afstöðu til skýringa á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókana með honum, viðauka við hann eða gerða sem í viðaukunum sé getið, þá geti dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna, um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu sé ráðið til lykta. Þó svo ákvæðið kveði á um heimild til handa dómstólum til að leita eftir áliti séu fræðimenn fremur þeirrar skoðunar að um sé að ræða skyldu. Í dómaframkvæmd hér á landi hafi því verið slegið föstu að til að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins þurfi þrjú skilyrði að vera uppfyllt. Fyrir hendi þurfi að vera raunverulegur vafi um túlkun EES-reglna. Í annan stað þurfi álit EFTA-dómstólsins að hafa raunverulega þýðingu fyrir úrlausn þess máls sem sé til meðferðar og í þriðja og síðasta lagi þurfi staðreyndir málsins að vera nægilega skýrar. Í því máli sem sé til úrlausnar sé ákærðu, í I. kafla ákæru, gefið að sök að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun með hlutabréf útgefin af [...] á tímabilinu frá og með 1. júní 2007 til og með 26. september 2008, samtals 331 viðskiptadag, með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í viðskiptakerfi Kauphallarinnar sem tryggt hafi óeðlilegt verð, búið til verð á hlutabréfum og gefið til kynna eða verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Eru brotin talin varða við a- og b-lið 1. tl. 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tl. 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, sbr. áður a- og b-lið 1. tl.  1. mgr. 55. gr., sbr. 1. tl. 78 gr. a þágildandi laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 fyrir tímabilið 1. júní til 31. október 2007.

Með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 842/2014, svonefndu Landsbankamáli, og máli nr. 498/2015, svonefndu Kaupþingsmáli, hafi verið dæmt um samskonar álitaefni og beitingu reglna laga nr. 108/2007. Hafi atvik verið sambærileg því máli sem hér sé til meðferðar. Ákærðu hafi verið sakfelldir í þessum málum fyrir markaðsmisnotkun. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði XII. kafla laga nr. 108/2007, um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði, yrðu skýrð á þann hátt með gagnályktun frá 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. og 116. gr. laganna að fjármálafyrirtækjum, sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta, væri óheimilt að stunda viðskipti með eigin hluti á slíkum markaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim, sbr. niðurlag 1. mgr. 116. gr., nema um væri að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. Í máli nr. 498/2015 hafi síðan verið vísað til fyrri lögskýringar úr máli nr. 842/2014 varðandi þetta atriði.

Lög nr. 108/2007 hafi verið sett í tilefni af innleiðingu markaðssvikatilskipunar Evrópusambandsins 2003/6/EB. Þá hafi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sett reglugerð nr. 2273/2003 á grundvelli tilskipunarinnar. Af skýringu á tilskipuninni og reglugerðinni verði ráðið að gagnályktun Hæstaréttar í málum nr. 842/2014 og 498/2015 væri í andstöðu við rétta skýringu á markaðssvikatilskipuninni. Þannig væri rétt skýring á henni að fjármálafyrirtækjum, sem heimild hefðu til verðbréfaviðskipta, væri heimilt að stunda viðskipti með eigin hluti á slíkum markaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapaðist á þeim.

Þá verði að líta til þess að uppi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að draga úr fordæmisgildi framangreindra Hæstaréttardóma. Því hafi verið haldið fram á opinberum vettvangi nýverið að tveir dómendur Hæstaréttar, sem dæmt hafi í máli nr. 842/2014, hafi átt hlutabréf í Landsbankanum á því tímabili er ákært var fyrir í því máli. Þeir kunni því að hafa verið vanhæfir til að dæma í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans. Dragi það úr fordæmisgildi þess dóms.

Eins og áður segi hafi íslenskir dómstólar gert að skilyrði fyrir álitsumleitan hjá EFTA-dómstólnum að réttlætanlegur vafi léki á um túlkun EES-reglna, sem hefði raunverulega þýðingu fyrir úrlausn máls og að staðreyndir máls væru nægilega skýrar. Þessum skilyrðum sé fullnægt í málinu. Svo sem fyrr greini leiki vafi á um túlkun markaðssvikatilskipunarinnar og skýringu dómstóla hér á landi á lögum nr. 108/2007. Skýringin hafi raunverulega þýðingu fyrir úrlausn málsins, en ákærðu standi frammi fyrir fangelsisrefsingu verði þeir sekir fundnir í málinu. Þá liggi staðreyndir málsins nægilega skýrar fyrir, en atvik málsins séu að mestu óumdeild. Mikilsverður þáttur í réttlátri málsmeðferð sé aðgangur að dómstólum þar sem hluti af þeirri málsmeðferð sem þar fer fram sé lögsaga EFTA-dómstólsins til að gefa ráðgefandi álit um túlkun EES-samningsins. 

III

Sækjandi hefur mótmælt því að umbeðin álitsumleitan EFTA-dómstólsins fari fram. Hæstiréttur hafi í fyrrgreindum dómum í málum nr. 842/2014 og 498/2015 fjallað um álitaefni það sem hér sé uppi. Álits EFTA-dómstólsins verði ekki leitað nema slíkt álit geti breytt þeirri niðurstöðu sem fyrir liggi. Þá liggi fyrir dómafordæmi um að ekki sé þörf á álitsumleitan sé regla skýr eða túlkun óumdeild. Í ljósi skýrra fordæma Hæstaréttar sé reglan í þessu tilviki bæði skýr og túlkun óumdeild. Þar sem Hæstiréttur hafi tekið skýra afstöðu til álitaefnisins beri að hafna álitsumleitaninni. Þá séu engin efni til að taka til greina sjónarmið um vanhæfi Hæstaréttardómara í Landsbankamálinu nr. 842/2014.

IV

Í dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016, í máli nr. 842/2014, var dæmt um markaðsmisnotkun með hlutabréf útgefin af Landsbankanum hf. á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem áttu að hafa tryggt óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfunum og gefið eða verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Í dómi Hæstaréttar sagði að þegar eldri lög um verðbréfaviðskipti, nr. 33/2003, hafi tekið gildi hafi í fyrsta skipti verið kveðið á um viðskiptavakt í lögum á sama hátt og gert væri í 116. gr. núgildandi laga. Gagngerar breytingar hafi síðan verið gerðar á lögum nr. 33/2003, þar á meðal ákvæðum þeirra um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði, með lögum nr. 31/2005 þegar tilskipun Evrópusambandsins, nr. 2003/6/EB, um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (markaðssvik) hafi verið innleidd hér á landi. Við það hafi skilgreiningunni á markaðsmisnotkun verið breytt í það horf, sem nú væri kveðið á um í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007, auk þess sem tekið hafi verið fram, eins og nú væri gert í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna, að ákvæðin um markaðsmisnotkun ættu ekki við þegar um væri að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga. Eftir þessar breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti yrðu ákvæði XII. kafla laga nr. 108/2007 um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði skýrð á þann hátt, með gagnályktun frá 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. og 116. gr. þeirra, að fjármálafyrirtækjum, sem hefðu heimild til verðbréfaviðskipta, væri óheimilt að stunda viðskipti með eigin hluti á slíkum markaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapaðist á þeim, sbr. niðurlag 1. mgr. 116. gr., nema um væri að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. Í a. lið 2. töluliðar 1. gr. fyrrgreindrar tilskipunar, þar sem hugtakið markaðsmisnotkun væri skilgreint, væru ákvæði sem svöruðu til a. og b. liða 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Þó væri sá munur á að eftir tilskipuninni næði undantekningarákvæðið, sem væri í síðari hluta b. liðarins, til þeirrar háttsemi sem lýst værir í báðum stafliðunum. Af þeim sökum væri rétt að skýra 1. tölulið svo að það að eiga viðskipti eða gera tilboð, sem gæfu eða væru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, teldist ekki markaðsmisnotkun ef sá, sem í hlut ætti, gæti sýnt fram á að ástæður að baki viðskiptunum eða fyrirmælum um þau væru lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði.

Þá sagði í dóminum að fjármálafyrirtæki, sem hefði heimild til verðbréfaviðskipta, gæti skuldbundið sig samkvæmt 116. gr. laga nr. 108/2007 með samningi við útgefanda fjármálagerninga til að vera viðskiptavaki í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapaðist á þeim. Skyldi viðskiptavaki tilkynna um samninginn og væri samið um viðskipti fyrir reikning útgefanda skyldi tryggt að honum væri ekki unnt að hafa áhrif á ákvarðanir um viðskipti á grundvelli samningsins. Með gagnályktun frá þessari lagagrein væri fjármálafyrirtæki, sem annaðist verðbréfaviðskipti, óheimilt að takast á hendur viðskiptavakt með eigin hluti. Þá yrðu ákvæði laga nr. 108/2007 skýrð með þeim hætti að lagt væri bann við því að slíkt fyrirtæki stundaði skipuleg viðskipti með eigin hluti í þeim tilgangi að greiða fyrir því að markaðsverð skapaðist á hlutunum nema í þeim tilvikum, sem vísað væri til í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna, og þá með því að tilkynna þær fyrirhuguðu ráðstafanir opinberlega.

Í beiðni ákærðu um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins er leitað svara við þeirri spurningu hvort það samrýmdist ákvæðum framangreindrar markaðssvikatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins að viðskipti fjármálafyrirtækis með eigin hluti á skipulegum verðbréfamarkaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapaðist á þeim teldist ólögmætt í sjálfu sér nema um væri að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga. Með vísan til þess sem hér að framan hefur verið rakið úr dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 hefur Hæstiréttur þegar skorið úr þessu álitaefni og í þeirri niðurstöðu meðal annars stuðst við skýringu á framangreindri markaðssvikatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins. Liggur því fyrir skýrt dómafordæmi um álitaefnið.

Ekki verður í niðurstöðu um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins leyst úr því hvort einhverjir dómenda Hæstaréttar kunni að hafa verið vanhæfir til meðferðar Hæstaréttarmálsins nr. 842/2014. Verður það ekki gert nema með beiðni um endurupptöku Hæstaréttarmálsins. Með hliðsjón af þessu verður hafnað kröfu ákærðu X og Y um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í samræmi við dskj. nr. 23.

Ekki verður í þessum þætti leyst úr kröfu verjanda ákærða Y um að sækjanda verði gerð réttarfarssekt í samræmi við ákvæði  223. gr. laga nr. 88/2008, vegna þeirra ummæla um verjandann að honum væri uppsigað við Hæstarétt, og að verjandinn hefði viðhaft ómaklega og ómerkilega árás á Hæstarétt. Úr því álitaefni verður fyrst leyst í endanlegum efnisdómi í málinu.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Hafnað er kröfu ákærðu, X og Y, um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í samræmi við dskj. nr. 23.

Úrlausn um réttarfarssekt bíður efnisdóms.