Hæstiréttur íslands

Mál nr. 679/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði


Miðvikudaginn 2

 

Miðvikudaginn 2. desember 2009.

Nr. 679/2009.

A

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

gegn

B

(enginn)

 

Kærumál. Lögræði.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem A var svipt sjálfræði í tólf mánuði á grundvelli a. liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2009, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila svipt sjálfræði tímabundið í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Erlendar Þórs Gunnarssonar héraðsdómslögmanns, 124.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2009.

                Með beiðni, sem dagsett er 13. þ.m., hefur Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. krafist þess fyrir hönd sóknaraðila, B, kt. [...], að dóttir hennar, A, kt. [...], til lögheimilis í [...], verði svipt sjálfræði í tólf mánuði.  Var málið þingfest 17. þ.m. og tekið til úrskurðar í dag.  Um aðild sóknaraðila vísast til a- liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Varnaraðili mótmælir kröfunni.

           Samkvæmt staðfestu vottorði Guðrúnar Geirsdóttur geðlæknis er varnaraðili haldin geðhvörfum með geðrofsívafi.  Hafi hún ekkert innsæi í sjúkdóm sinn, vilji ekki taka nauðsynleg lyf við honum og sé haldin ranghugmyndum.  Nauðsynlegt sé að svipta hana sjálfræði til þess að tryggja það að hún taki viðeigandi lyf við sjúkdóminum.  Fyrir liggur að varnaraðili var á geðdeild um skeið í Bandaríkjunum og að hún hefur nú verið vistuð nauðug á geðdeild Landspítala frá 27. október sl.  Varnaraðili hefur komið fyrir dóminn.  Kveðst hún ekki vera haldin geðsjúkdómi og ekki vilja taka þau lyf sem henni sé ætlað að taka.

          Dómurinn álítur vafalaust af því sem rakið er hér að framan að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi sem hún fáist ekki til þess að taka nauðsynleg lyf við.  Sé hún ófær um að ráða persónulegum högum sínum, sbr. a- lið 4. gr. lögræðislaga.  Ber því að svipta hana sjálfræði í 12 mánuði, eins og krafist er í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. þóknun til skipaðra talsmanna aðilanna, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 100.000 krónur, og Erlends Þórs Gunnarssonar hdl., 75.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...],[...], er svipt sjálfræði í tólf mánuði.

Úr ríkissjóði greiðist allur málskostnaður, þ.m.t. þóknun til skipaðra talsmanna málsaðila, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 100.000 krónur, og Erlends Þórs Gunnarssonar hdl., 75.000 krónur.