Hæstiréttur íslands
Mál nr. 291/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Forkaupsréttur
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
Föstudaginn 6. júní 2008. |
Nr. 291/2008. |
Bjarni Sævar Geirsson Jón Bjarnason Geir Þórir Bjarnason og Björn Vigfús Jónsson (Reynir Karlsson hrl.) gegn Erni Eriksen Reynivöllum ehf. og Jökulsárlóni ehf. (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Forkaupsréttur. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Sóknaraðilar kröfðust þess að viðurkenndur yrði forkaupsréttur þeirra við sölu varnaraðilans E á tilgreindum hlut í jörðinni F til varnaraðilans R. Þá kröfðust sóknaraðilar þess að E yrði gert að selja og afsala eignarhlutanum til þeirra í hlutfalli við eignarhluta þeirra í jörðinni. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að sú kröfugerð sóknaraðila, þar sem krafist er annars vegar viðurkenningar forkaupsréttar, en ekki tilgreint hversu hátt hlutfall hins selda sóknaraðilar eigi rétt á að fá, og hins vegar sölu og útgáfu afsals eftir eignarhlutföllum sem ekki koma fram í kröfugerðinni hver séu, uppfylli ekki skilyrði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu því vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 5. maí 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir þess að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði felldur niður.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar er nánar rakið lagði varnaraðilinn Örn Eriksen eignarhluta sinn í jörðinni Felli í Sveitarfélaginu Hornafirði fram sem hlutafjárframlag við stofnun varnaraðilans Reynivalla ehf. 15. apríl 2006, sbr. yfirlýsingu 7. mars 2007, en varnaraðilinn Örn lagði einnig fram fleiri fasteignir sem hlutafjárframlag til félagsins. Hann seldi síðan með kaupsamningi og afsali 20. mars 2007 varnaraðilanum Jökulsárlóni ehf. 95% af hlutafé Reynivalla ehf. Sóknaraðilar telja sig eiga forkaupsrétt að eignarhluta varnaraðilans Arnar í jörðinni Felli á grundvelli sameignarsamnings 22. apríl 1995. Þeir telja að sá réttur hafi ekki verið virtur við fyrrnefndar ráðstafanir varnaraðilans Arnar. Hafa þeir af því tilefni uppi þær kröfur sem lýst er í hinum kærða úrskurði.
Vilji forkaupsréttarhafi, sem telur að réttur sinn hafi ekki verið virtur við sölu til þriðja manns, höfða mál til að neyta forkaupsréttar síns verður hann að beina þeirri málsókn að aðilum þess samnings sem hann telur að gert hafi forkaupsréttinn virkan. Verður þá kröfugerð forkaupsréttarhafa að vera tvíþætt þar sem fyrri þætti kröfunnar er beint bæði að seljendum eða framseljendum og kaupendum eða viðtakendum samkvæmt viðkomandi samningi. Þessum fyrri þætti kröfugerðarinnar hefur oft verið hagað þannig að leitað sé viðurkenningar forkaupsréttar þess sem málið höfðar í tilefni umræddrar sölu en einnig hefur verið látið óátalið að hann sé látinn beinast að því að samningsaðilum verði gert að þola ógildi samningsins. Síðari þáttur kröfugerðarinnar snýr síðan að seljandanum eða framseljandanum einum og gengur efnislega út á að hann selji eða afsali umræddri eign til forkaupsréttarhafans gegn nánar tilgreindu endurgjaldi. Að þessu athuguðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Bjarni Sævar Geirsson, Jón Bjarnason, Geir Þór Bjarnason og Björn Vigfús Jónsson greiði óskipt varnaraðilum, Erni Eriksen, Reynivöllum ehf. og Jökulsárlóni ehf., hverjum um sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 5. maí 2008.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfur stefndu 14. apríl 2008, er höfðað með stefnu, birtri 6. nóvember 2007, af Bjarna Sævari Geirssyni, kt. 090461-5409, Norðurtúni 24, Bessastaðahreppi, Jóni Bjarnasyni, kt. 210437-2909, Hlíðartúni 6, Hornafirði, Geir Þóri Bjarnasyni, kt. 210437-3049, Hörðukór 5, Kópavogi og Birni Vigfúsi Jónssyni, kt. 100861-4619, Sunnubraut 1, Hornafirði á hendur Reynivöllum ehf., kt. 430506-1290, Kirkjubraut 7, Hornafirði, Erni Eriksen, kt. 170533-5859, Hlíðartúni 2, Hornafirði og Jökulsárlóni ehf., kt. 430699-2299, Kirkjubraut 7, Hornafirði. Fyrir hönd hinna stefndu einkahlutafélaga er stefnt stjórnarformanni þeirra beggja, Einari Birni Einarssyni, kt. 221165-3739, Kirkjubraut 7, Hornafirði.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að „viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur þeirra við sölu stefnda Arnar Eriksen á 10,3583 % hluta í jörðinni Felli, Hornafirði, Austur-Skaftafellssýslu, til stefnda Reynivalla ehf.,“ sbr. yfirlýsingu um eigendaskipti á jörð, dags. 7. marz 2007. Þá krefjast stefnendur þess, að stefnda Erni verði gert skylt að selja og afsala framangreindum hlut í jörðinni til þeirra í hlutfalli við eignarhluta þeirra í jörðinni, að uppfylltum kaupskilmálunum, þ.m.t. greiðslu kaupverðsins, 1.294.652 króna.
Til vara krefjast stefnendur þess, að viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur þeirra við sölu stefnda Arnar Eriksen á hlutum sínum í Reynivöllum ehf. til stefnda Jökulsárlóns ehf.
Þá krefjast stefnendur málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, allt að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndu krefjast þess aðallega að „vísað verði frá dómi báðum kröfuliðum í aðalkröfu stefnenda, þ.e. „að viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur þeirra við sölu stefnda Arnar Eriksen á 10,3583 % hluta í jörðinni Felli, Hornafirði, Austur-Skaftafellssýslu, til stefnda Reynivalla ehf.“ og „að stefnda Erni Eriksen verði gert skylt að selja og afsala framangreindum hlut sínum í jörðinni til þeirra í hlutfalli við eignahluta þeirra í jörðinni að uppfylltum kaupskilmálum þ.m.t. greiðslu kaupverðsins kr. 1.294.652.“, en að stefndu verði að öðru leyti sýknaðir af kröfum stefnenda.“
Fyrsta varakrafa stefndu er, að vísað verði frá dómi kröfu stefnenda þess efnis að „stefnda Erni Eriksen verði gert skylt að selja og afsala framangreindum hlut sínum í jörðinni til þeirra í hlutfalli við eignahluta þeirra í jörðinni að uppfylltum kaupskilmálum þ.m.t. greiðslu kaupverðsins kr. 1.294.652“, en stefndu verði að öðru leyti sýknuð af kröfum stefnenda.
Önnur varakrafa stefndu er, að þau verði alfarið sýknuð af kröfum stefnenda.
Þriðja varakrafa stefndu er, að verði krafa um skyldu stefnda Arnar til að selja og afsala hlut í Felli tekin til greina, verði viðmiðunarkaupverð hækkað verulega.
Í öllum tilvikum krefjast stefndu málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnenda in solidum.
Málavextir
Mál þetta varðar jörðina Fell í Austur-Skaftafellssýslu. Samkvæmt gögnum málsins eru allmargir aðilar eigendur hennar í sameign. Nær allir þessara aðila hafa með samningi myndað með sér sameigendafélag um eignina. Í 7. gr. þess samnings segir meðal annars: „Milli sameigenda skal gilda gagnkvæmur forkaupsréttur. Forkaupsréttinn skulu aðrir sameigendur en sá sem selja vill, eiga að tiltölu við eignarhlutdeild sína. Kjósi einhver sameigenda eða einhverjir að hafna neyslu forkaupsréttar eykst réttur annarra sameigenda hlutfallslega.“
Samkvæmt þinglýsingarvottorði sem liggur frammi í málinu, dags. 2. júlí 2007, og öðrum gögnum eru stefnendur máls þessa meðal þessara eigenda og aðilar að sameigendafélaginu. Þá kemur fram í gögnum málsins að stefndi Örn var einn þeirra er stóðu að gerð umrædds sameigendafélagssamnings.
Í málinu liggur fyrir þinglýsingarvottorð um eignina, dagsett 19. maí 2006, og kemur þar meðal annars fram, að meðal eigenda sé stefndi Örn og eigi hann 10,3583 % eignarhlut og sé eignarheimild hans afsal dagsett 20. nóvember 1960. Í áðurnefndu þinglýsingarvottorði um eignina frá 2. júlí 2007 er stefndi Örn ekki lengur á lista yfir eigendur en þar er hins vegar komið inn, sem eigandi 10,36 % hlutar, stefnda Reynivellir ehf., samkvæmt afsali dags. 7. marz 2007. Þinglýsingarvottorð þessi eru að því leyti ólík að í hinu fyrra er eignarhluti hvers tilgreindur með fjórum aukastöfum en í hinu síðara með tveimur.
Stefnendur halda því fram í málinu að stefndi Örn hafi við stofnun einkahlutafélagsins Reynivalla ehf., hinn 15. apríl 2006, lagt inn í félagið 10,3583 % hlut sinn í Fellsjörðinni og fengið í staðinn hluti í umræddu einkahlutafélagi, stefndu Reynivöllum ehf. Stefndu segja að sínu leyti að þennan dag hafi stefndi Örn yfirfært einkarekstur sinn í umrætt einkahlutafélag og hafi hlutafjárframlag hans falizt í þremur eignarhlutum hans í fasteignum, það er þriðjungshlut hans í fasteigninni Reynivöllum I, Hornafirði, allri fasteigninni Reynivöllum III að undanskildu íbúðarhúsi, og 10,3583 % hlut hans í fasteigninni Felli. Hafi hér verið um að ræða yfirfærslu samkvæmt 56. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Stofnverð gagngjalds hluta í einkahlutafélaginu hafi ákvarðazt 1.294.652 krónur sem hafi samsvarað hlutafé félagsins. Hafi sú fjárhæð samsvarað bókfærðu fé ræktunar, 229.471 krónu, útihúsum og mannvirkjum, 909.046 krónum, og dráttarvél, 156.135 krónum, og sé ljóst að þessar fjárhæðir gefi enga mynd af verðmæti eignarhlutans í Felli. Stefndu segja að við stofnun stefnda Reynivalla ehf. hafi stefndi Örn orðið eigandi allra hlutabréfa í félaginu.
Þá segja stefndu að stefndi Örn hafi hinn 20. marz 2007 selt 95 % hlutafjár í stefnda Reynivöllum ehf. til stefnda Jökulsárlóns ehf. og hafi kaupverð verið 45.000.000 krónur. Stefnendur segja fyrir sitt leyti að stefndi Örn hafi selt hluti sína í stefndu Reynivöllum ehf. til stefnda Jökulsárlóns ehf. og hafi bæði sá gerningur, sem og yfirfærslan til stefnda Reynivalla ehf. verið gerð án vitundar sameigenda stefnda Arnar í sameigendafélaginu og hafi uppgötvazt fyrir tilviljun á vormánuðum 2007.
Stefndu segja að nefndur eignarhlutur í Fellsjörðinni sé enn í eigu stefnda Reynivalla ehf.
Málsástæður
Stefndu rökstyðja aðalkröfu sína um frávísun svo, að krafa sú sem stefnendur geri „aðallega um að viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur þeirra við „sölu“ stefnda Arnar á 10,3583 hlut í jörðinni Felli“, lúti að sama efni og krafa stefnenda um að stefnda Erni verði gert skylt að selja og afsala hluti í jörðinni Felli til stefnenda. Við úrlausn um þessa kröfuliði sé verið að leysa úr sama sakarefni, það er því hvort forkaupsréttur hafi orðið virkur í umrætt skipti. Ekki verði séð að unnt sé að verða við báðum þessum kröfuliðum í senn og ekki geti átt undir dómstóla að velja hvora kröfuna eigi að dæma. Sé því óhjákvæmilegt að vísa báðum kröfuliðunum frá dómi.
Þá segja stefndu að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr báðum þessum kröfuliðum í senn þar sem í úrlausn um síðari kröfuliðinn, sem gangi lengra, sé tekin afstaða til hins fyrri. Verði því, hvað sem öðru líði, að vísa fyrri kröfuliðnum frá dómi.
Enn fremur segja stefndu að hvorugur kröfuliðurinn sé dómtækur. Í hinum fyrri sé „talað um að viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur við „sölu“ stefnda Arnar á 10,3583 % hluta í jörðinni Felli til stefnda Reynivalla ehf.“ Ljóst sé að hér sé ekki um sölu að ræða heldur yfirfærslu við það að stefndi Örn hafi lagt eignarhlut sinn í Felli til einkahlutafélags í sinni eigu, stefnda Reynivalla ehf., það er yfirfærslu einstaklingsrekstrar í einkahlutafélag. Verði að vísa þessum kröfulið frá dómi, þegar af þessum sökum.
Þá sé síðari kröfuliðurinn ekki dómtækur heldur, en samkvæmt orðum sínum beinist sá kröfuliður að stefnda Erni einum, en hann sé ekki lengur eigandi umrædds hlutar í fasteigninni. Sé honum því ómögulegt einum síns liðs að efna kröfuna eftir orðanna hljóðan enda þyrfti jafnframt til þess atbeina skráðs eiganda hennar, stefnda Reynivalla ehf. Hafi stefnendum því jafnframt borið að beina þessari kröfu að stefnda Reynivöllum ehf., annað hvort með því að krefjast þess að stefndu yrði báðum gert að þola ógildingu á afsali um eignarhlutann eða að stefnda Reynivöllum yrði gert að þola að stefnendur fengju útgefin afsöl fyrir eigninni. Þessa hafi ekki verið gætt og krafan sé ódómtæk enda ekki á því formi að henni yrði fullnægt með aðför ef í það færi.
Að lokum segja stefndu að kröfuliðurinn sé óljóst orðaður þar sem talað sé um að stefnda Erni verði gert skylt að afsala hlut í jörðinni Felli til stefnenda „í hlutfalli við eignarhluta þeirra í jörðinni“. Ekki sé þar tilgreint hvert þetta hlutfall sé og hver hlutur hvers og eins stefnenda í þessari afsölun skuli vera. Verði því að vísa þessum kröfulið frá dómi. Þá sé þessi kröfuliður vanreifaður. Liggi ekkert fyrir um að stefnendur séu þeir einu af eigendum jarðarinnar Fells sem vilji nýta sér umræddan forkaupsrétt, en ekki aðrir eigendur í Felli, til að mynda Einars Björn Einarsson sem eigi rúm 11 % í jörðinni, en afstaða hans til forkaupsréttar virðist ekki hafa verið könnuð þrátt fyrir ákvæði 7. gr. sameignarsamningsins þar sem segi að milli sameigenda skuli gilda gagnkvæmur forkaupsréttur. Þá sé kröfuliðurinn vanreifaður með tilliti til þess kaupverðs, 1.294.652 króna, sem þar sé lagt til grundvallar. Ljóst sé að sú fjárhæð sé þannig sett saman að hún samsvari bókfærðu fé ræktunar, 229.471 krónu, útihúsum og mannvirkjum, 909.046 krónum, og dráttarvél, 156.135 krónum, og gefi þessar fjárhæðir enga mynd af verðmæti eignarhlutans í Felli. Megi þar benda á, að kaupverð einkahlutafélagsins stefnda Reynivalla ehf. hafi verið 45.000.000 króna en einu eignir þess séu eignarhlutarnir í Reynivöllum I, Reynivöllum III og Felli. Ljóst sé að stefnendur hafi ekki gefið raunhæfa mynd af því sem þeim bæri að greiða fyrir eignarhlutann í Felli við forkaupsrétt. Sé kaupverð það sem tilgreint sé í kröfugerð stefnenda því vanreifað og þegar af þeim sökum beri að vísa kröfuliðnum frá dómi.
Stefnendur mótmæla framkomnum frávísunarkröfum stefndu. Stefnendur halda því fram að það sé þýðingarlaus orðhengilsháttur að ekki hafi farið fram sala heldur yfirfærsla eignarhlutar stefnda Arnar til stefnda Reynivalla ehf. Eignarhluti hafi verið lagður inn í félag og eignarréttindi í félaginu komið á móti.
Stefnendur mótmæla því að hvor kröfuliður aðalkröfu sinnar útiloki annan og vísa stefnendur því máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 154/2001. Stefnendur fullyrða að þeir hafi lögvarða hagsmuni af báðum kröfuliðum sínum og sé sá síðari í eðlilegu framhaldi af hinum fyrri. Ef ekki megi koma þeim báðum að í sama málinu kynnu stefnendur að neyðast til að höfða tvö mál til að ná fram rétti sínum. Þá kveða stefnendur að síðari kröfuliður þeirra sé vel dómtækur og að ekki hafi þurft að beina kröfu vegna hans að stefnda Reynivöllum ehf. þar sem samningur stefnda Arnar og stefnda Reynivalla ehf. ógildist við það að forkaupsréttur stefnenda sé viðurkenndur. Þessum skilningi sínum til stuðnings vísa stefnendur til dóms Hæstaréttar Íslands frá 18. október 2001 í máli nr. 207/2001.
Stefnendur segja að krafa sín sé alls ekki til þess fallin að valda vafa eða misskilningi. Í stefnu sé eignarhlutur hvers og eins stefnenda talinn upp. Þeir eigi einfaldlega misstóran hlut, en rétt til að nýta sér forkaupsrétt í hlutfalli við eign sína.
Vegna þeirra sjónarmiða stefndu, að í stefnu sé ekkert fjallað um mögulegan forkaupsrétt Einars Björns Einarssonar, segja stefnendur að forkaupsrétturinn sé samningsbundinn og fenginn úr áðurnefndum sameignarsamningi vegna eignarinnar. Einar Björn sé ekki aðili að þeim samningi, þrátt fyrir ítrekuð boð um það, en hann hafi eignazt hlut sinn með kaupum af aðila sem ekki hafi tekið þátt í stofnun sameignarfélagsins á sínum tíma. Eigi Einar Björn því engan forkaupsrétt.
Þá mótmæla stefnendur því að tilgreining þeirra á kaupverði sem lagt skuli til grundvallar valdi frávísun þess kröfuliðar. Stefnendur hafi ítrekað en árangurslaust óskað eftir því við stefndu að fá uppgefið rétt kaupverð. Umrædd fjárhæð hafi verið sú eina sem stefnendur hafi haft aðgang að og verði þeim ekki virt til vanrækslu að fjalla ekki frekar um kaupverð en haldbær gögn hafi gefið tilefni til.
Niðurstaða
Fallast má á það með stefndu, að í íslenzkum rétti gildi almennt sú regla, að séu um sama efnisatriði gerðar fleiri en ein krafa sem mislangt gangi, og í kröfugerð sé ekki greint á milli þeirra í forgangsröð sem aðalkröfu og varakrafna, verði ekki á dómstóla lagt að velja milli þeirra, heldur beri að vísa þeim öllum frá dómi. Í íslenzkri dómaframkvæmt hefur hins vegar verið viðurkennt, að heimilt sé að gera í einu og sama máli jafnstæða kröfu um að viðurkenndur verði forkaupsréttur svo og um að gagnaðila verði gert skylt að efna hinn viðurkennda forkaupsrétt. Má um það vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 20. september 2001 í máli nr. 154/2001. Verður aðalkröfu stefnanda því ekki vísað frá af þessum sökum.
Stefndu halda því fram, að stefnendur geti ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá bæði dóm fyrir fyrri kröfulið sínum og hinum síðari. Beri því að vísa hinum fyrri frá, en hann gangi skemur. Ekki verður á þetta fallizt, því við efnisúrlausn málsins kann að fara svo að sýknað verði af kröfu um útgáfu afsals og við þær aðstæður hefðu stefnendur hagsmuni af því að viðurkenndur yrði margnefndur forkaupsréttur þeirra.
Þau sjónarmið stefndu, að stefnendur tali í kröfum sínum um sölu eignarhluta stefnda Arnar í Fellsjörðinni en hið rétta sé að eingöngu hafi verið um að ræða yfirfærslu sem hafi snúizt um það eitt, að stefndi Örn hafi lagt eignarhlut sinn til einkahlutafélags í sinni eigu, varða það efnisatriði málsins hvort meta beri umræddan gerning, þar sem eignarréttindi að hluta úr Fellsjörðinni færðust frá stefnda Erni til stefnda Reynivalla ehf., skuli hafa þau áhrif að forkaupsréttur stefnenda verði virkur. Veldur þetta orðalag kröfugerðar stefnenda ekki frávísun málsins.
Þá bera stefndu því við að ekki tjái að beina kröfu um sölu og útgáfu afsals að stefnda Erni einum, því eignarhluturinn sé nú eign stefnda Reynivalla ehf. Sé stefnda Erni ómögulegt að gefa einn og sér út það afsal sem stefnendur krefjist af honum. Á það verður ekki fallizt. Í íslenzkum rétti hefur verið byggt á því, að seljanda fasteignar verði þvert á móti gert að selja og gefa út afsal til forkaupsréttarhafa, þrátt fyrir að seljandinn hafi þegar gefið út afsal til viðsemjanda síns í þeim samningi sem forkaupsréttarhafinn gangi inn í. Má til marks um þetta vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 15. desember 2005 í máli nr. 214/2005. Hitt er svo annað mál, að slík niðurstaða getur verið hörð aðgöngu fyrir þann aðila sem hefur fengið gefið út til sín afsal samkvæmt kaupsamningi við seljandann. Er því rétt að stefna honum sérstaklega til að þola að gefið sé út afsal til forkaupsréttarhafans. Má um þetta einnig vísa til umrædds dóms Hæstaréttar frá 15. desember 2005. Hefði stefnendum hér verið rétt að stefna stefnda Reynivöllum ehf. til að þola það að gefið yrði út afsal fyrir umræddum eignarhluta til stefnenda. Í máli þessu, er sem áður segir stefnt þeim Erni Eriksen og Reynivöllum ehf. báðum og verður að líta svo á, að beint sé að þeim báðum kröfu stefnenda um viðurkenningu forkaupsréttar vegna umræddrar færslu á eignarhluta stefnda Arnar til stefnda Reynivalla ehf. Ef fallizt yrði á þá kröfu, fælist í slíkum dómi að stefnendur ættu rétt á að ganga inn í þá eignaréttaryfirfærslu. Yrði slíks réttar neytt, leiddi af því að til stefnenda féllu þau eignarréttindi sem stefnda Reynivöllum ehf. voru ætluð. Þykir því sem síðari kröfulið stefnenda verði ekki vísað frá dómi af þeim sökum að kröfum samkvæmt honum sé ekki beint að stefnda Reynivöllum ehf.
Stefndu halda því að lokum fram, að síðari kröfuliður stefnenda sé vanreifaður af nokkrum ástæðum. Sé í honum þess krafizt, að stefnda verði gert skylt að afsala til stefnenda hlut í jörðinni Felli í hlutfalli við eignarhluta þeirra í jörðinni, en ekki sé tilgreint hvert þetta hlutfall sé og ekki hver hlutur hvers og eins stefnanda skuli vera. Þá sé ekkert vikið að forkaupsrétti Einars Björns Einarssonar en hann sé einn sameigenda með stefnendum þó ekki sé hann félagi í sameigendafélaginu og beri honum forkaupsréttur að tiltölu við eignarhlutdeild sína í samræmi við sameignarsamninginn. Þá sé kröfuliðurinn vanreifaður með tilliti til þess kaupverðs, 1.294.652 króna, sem þar sé lagt til grundvallar. Loks liggi ekkert fyrir um það hvort aðrir sameigendur en stefnendur vilji nýta sér forkaupsrétt sinn. Af þessu öllu leiði að krafan sé ódómtæk, og eða vanreifuð.
Í málavaxtalýsingu stefnenda í stefnu er tiltekið hversu mikinn eignarhlut hver og einn stefnenda eigi í Fellsjörðinni en sú sundurliðun kemur ekki fram í kröfugerðinni sjálfri. Þar er, eins og áður er rakið, látið sitja við það að krefjast annars vegar þess að viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur þeirra „við sölu stefnda Arnar Eriksen á 10,3583 % hluta í jörðinni Felli, Hornafirði Austur-Skaftafellssýslu, til stefnda Reynivalla ehf. sbr. yfirlýsing um eigendaskipti á jörð dags. 7. mars 2007“, og hins vegar þess að stefnda Erni verði „gert skylt að selja og afsala framangreindum hlut sínum í jörðinni til þeirra í hlutfalli við eignahluta þeirra í jörðinni, að uppfylltum kaupskilmálum, þ.m.t. greiðslu kaupverðsins kr. 1.294.652.“ Er það álit dómsins að nánari tilgreining hefði þurft að koma fram í dómkröfum stefnenda, enda í íslenzku réttarfari við það miðað að kröfugerð stefnanda þurfi að jafnaði að vera svo ákveðin og skýr að taka megi hana óbreytta upp sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu, þyki málavextir á annað borð leyfa slík málalok. Kemur þessi meginregla fram í d lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er það niðurstaða dómsins að sú kröfugerð stefnenda, þar sem krafizt er annars vegar viðurkenningar forkaupsréttar, en ekki tilgreint hversu hátt hlutfall hins selda stefnendur eigi rétt á fá selt sér, og hins vegar krafizt sölu og útgáfu afsals eftir eignarhlutföllum sem ekki koma fram í kröfugerðinni hver séu, uppfylli ekki skilyrði d liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Sú staðreynd að eignarhlutföll stefnenda eru rakin í greinargerð þeirra þykja ekki fá breytt þessari niðurstöðu. Af þessum sökum verði ekki hjá því komizt að vísa kröfum stefnenda frá dómi.
Til vara hafa stefnendur krafizt þess að „viðurkennt verði með dómi forkaupsréttur þeirra við sölu stefnda Arnar Eriksen á hlutum sínum í Reynivöllum ehf. til stefnda Jökulsárlóns“ og af hálfu stefndu hefur verið krafizt sýknu en ekki frávísunar þessarar kröfu. Með vísan til framanritaðs verður ekki hjá því komizt að vísa henni frá dómi án kröfu, enda er þessi kröfugerð að sínu leyti sama marki brennd og aðalkrafa stefnenda.
Eftir þessum úrslitum verður að fallast á kröfur stefndu um málskostnað úr hendi stefnenda. Verða stefnendur dæmdir til að greiða in solidum 100 þúsund krónur til hvers stefndu um sig.
Af hálfu stefnenda flutti málið Reynir Karlsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefndu Arnar Þór Stefánsson héraðsdómslögmaður.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Bjarni Sævar Geirsson, Jón Bjarnason, Geir Þórir Bjarnason og Björn Vigfússon, greiði in solidum stefndu Reynivöllum ehf., Erni Eriksen og Jökulsárlóni ehf málskostnað, 100.000 krónur til hvers.