Hæstiréttur íslands
Mál nr. 822/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 27. desember 2013. |
|
Nr. 822/2013
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (María Júlía Rúnarsdóttir hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. desember 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. janúar 2014 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verður markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi og skilyrðum 2. mgr. 98. gr. sömu laga um einangrun meðan á því stendur. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 25. desember 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 2. janúar 2014 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til rannsóknar meinta tilraun til manndráps, nauðgun og líflátshótanir.
Um kl. 07:30 hafi lögreglu borist tilkynning um heimilisófrið að [...], [...]. Þar hafði kærði ráðist á barnsmóður sína sem og nauðgað henni, en [...] ára dóttir þeirra hafi verið í íbúðinni á meðan. Barnsmóðirin hafi við illan leik náð að komast út úr íbúðinni til nágranna þar sem hún hafi getað hringt á lögreglu. Kærði hafi orðið eftir í íbúðinni með barnið. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi kærði verið mjög æstur. Lögreglumenn hafi talað við kærða þar sem þeir hafi staðið utan við glugga í íbúðinni, en kærði hafi neitað að hleypa þeim inn í íbúðina. Um glugga hafi lögreglumenn getað fylgst með honum. Hann hafi náð í 2 hnífa úr eldhúsinu og sagðist ætla að beita þeim gagnvart lögreglu og seinna sagðist hann ætla að drepa dóttur sína sem hafi verið í svefnherbergi íbúðarinnar. Sérsveit ríkislögreglustjóra hafi að lokum yfirbugað kærða í íbúðinni. Þegar lögregla hafi komið inn í íbúðina hafi hnífur sést liggja í barnarúmi við hliðina á rúmi sem barnið hafi legið sofandi í, en það hafi ekki verið annar af hnífunum sem ákærði hafi haldið á er lögregla hafi séð hann ganga inn og út úr svefnherberginu áður. Sé því talið að hnífurinn hafi verið inni í herberginu á meðan barnið hafi verið þar inni.
Barnsmóðir kærða hafi verið í uppnámi og með sýnilega áverka m.a. á andliti og hafi hún verið flutt á slysadeild Landspítalans. Grunur sé um að hún geti verið með beinbrot eða brákuð bein. Meðfylgjandi í gögnum málsins séu myndir frá slysadeild af henni. Sökum ástands hennar hafi ekki enn gefist færi á formlegri skýrslu af henni. Við komu á slysadeild hafi rannsóknarlögreglumaður tekið upp á band frásögn hennar. Samantekt þess framburðar fylgi gögnum málsins. Þar komi fram að kærði hafi komið á heimilið seint í gærkvöldi eða nótt. Hann hafi fljótlega ásakað hana um að hafa sofið hjá vini hans, en þegar hún hafi neitað því reif hann í hana, skallaði hana og kýldi. Seinna hafi hún sofnað með dóttur þeirra en kærði hafi þá lagst við hlið hennar í rúminu og sagði að ef hún segði núverandi kærasta hennar frá þessu myndi hann drepa hana og barnið. Seinna hafi hann byrjað að kýla hana fast og andlitið og skalla hana og henti henni í vegg og síðar á horn með þeim afleiðingum að „hún fann ekki fyrir líkama sínum og hélt þá að hún væri að deyja þar sem hún hafði ekki séð neitt“. Hann hafi haldið áfram og stappað á maganum á henni, bakinu, löppunum og höfði. Hann hafi hent henni til og frá í stofunni, upp á borð og upp í skápa. Því næst hafi hann gripið til hnífs og hótað að drepa hana og skera af henni brjóstið og sagðist ætla að leika sér að skera hana. Þá hafi hann beðið hana um að veita sér munnmök en hún hafi neitað því og þá hafi hann kýlt hana í andlitið. Því næst hafi hann rifið hana úr buxunum og nauðgað henni og lamið hana á meðan á því stóð og hafi hún tekið fram að hann hafi haft sáðlát í leggöng hennar. Þá sagði hún að hann hafi hamlað henni útgöngu úr íbúðinni og tekið af henni farsímann. Hún sagðist hafa óttast um líf sitt og barnsins, en hún hafi m.a. haldið á barninu þegar kærði hafi fyrst ráðist á hana. Hún hafi að lokum komist út úr íbúðinni með því að hlaupa undan kærða.
Brotaþoli hafi áður sætt ofbeldi af hálfu kærða og hafi þá lagt fram kæru. Það mál hafi ekki haft framgang þar sem kærði hafi frá þeim tíma þar til nú dvalið í [...]. Kærði sé mjög ofbeldisfullur og hafi hann oft verið kærður fyrir líkamsárásir. Brotaþola standi ógn af kærða. Þann [...] hafi kærði hlotið [...] mánaða dóm fyrir húsbrot, frelsissviptingu og sérstaklega hættulega líkamsárás með þremur öðrum mönnum (dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli S-[...]) en dómurinn hafi verið skilorðsbundinn að hluta. Þá hafi hann áður hlotið dóm fyrir líkamsárás á grundvelli 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Rannsókn málsins sé á frumstigi. Telji lögregla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ógna og áreita brotaþola áður en hún hafi kost á að gefa formlega skýrslu og fá öruggt skjól. Lögregla telji það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að rannsaka málið án hættu á að kærði geti spillt rannsókn þess.
Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 194. gr., 211., sbr. 20. gr., 231. gr. og 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. En við brotum skv. 211. og 194. gr. liggur allt að 16 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Niðurstaða:
Fram kom af hálfu varnaraðila fyrir dómi að hann neitaði sök varðandi flestar sakargiftir og reisir hann mótmæli sín við gæsluvarðhaldskröfunni á þeim grunni. Í rannsóknargögnum málsins eru meðal annars ljósmyndir af áverkum á brotaþola ásamt lýsingu hennar á atvikum. Ljóst er að hún er illa útleikin eftir samskipti sín við varnaraðila síðast liðna nótt. Er á það fallist með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Krafa sóknaraðila er á því reist að ætla megi að varnaraðili muni torvelda rannsókn málsins fái hann að fara frjáls ferða sinna, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Rannsóknin er á frumstigi og eftir er að taka formlega skýrslu af brotaþola. Sakargiftir á hendur varnaraðila eru alvarlegar og er á það fallist að hætta sé á því að hann muni leitast við að hafa áhrif á brotaþola verði hann ekki sviptur frelsi sínu. Að þessu gættu ber að taka kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald til greina og þykir ekki efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Jafnframt er þess krafist að varnaraðili sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til ofangreindra forsendna er á það fallist að nauðsynlegt sé að varnaraðili verði látinn vera í einrúmi meðan á varðhaldinu stendur og ber því einnig að taka þá kröfu til greina.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. janúar 2014 kl. 16:00. Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.