Hæstiréttur íslands
Mál nr. 435/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Bráðabirgðaforsjá
- Umgengni
|
|
Miðvikudaginn 17. nóvember 2004. |
|
Nr. 435/2004. |
M(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn K(Valborg Þ. Snævarr hrl.) |
Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengnisréttur.
K og M deildu um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða og umgengni við hana. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms um að K færi með forsjánna á meðan á rekstri málsins stæði. Þá var staðfest niðurstaða héraðsdóms um umgengnisrétt M við hana.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. nóvember sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 15. október 2004, þar sem skorið var úr ágreiningi aðilanna um forsjá dóttur þeirra til bráðabirgða og umgengni við hana. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess að honum verði falin forsjá barnsins til bráðabirgða og að umgengni varnaraðila og barnsins verði eina helgi í mánuði „frá fimmtudagssíðdegi eftir skóla til sunnudagskvölds“. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði er forsjá dóttur aðila hjá varnaraðila samkvæmt staðfestu samkomulagi þeirra í mars 1992. Sóknaraðili höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra með stefnu 31. ágúst 2004 og gerði kröfu um að honum verði einum falin forsjá stúlkunnar. Jafnframt gerði hann, með vísan til 1. mgr. 35. gr. barnalaga, kröfu um að honum yrði fengin forsjá hennar til bráðabirgða. Varðar málskot þetta úrlausn héraðsdómara um þá kröfu. Í niðurstöðu úrskurðarins er vísað til álitsgerðar frá 16. september 2004, sem sálfræðingur gaf að beiðni sviðsstjóra Fjölskyldu- og þjónustusviðs [...]. Stúlkan dvelst nú hjá sóknaraðila og hefur lýst vilja sínum til þess að gera það áfram. Héraðsdómari tók rökstudda afstöðu til þessa atriðis, sem er eitt af því sem ber að líta til þegar komist er að niðurstöðu í deilu aðila um hvað sé barninu fyrir bestu.
Fyrir Hæstarétti heldur sóknaraðili því fram að í áliti sálfræðingsins sé talið vafasamt að senda stúlkuna til varnaraðila gegn vilja hennar. Varnaraðili bendir hins vegar á að þar sé talið vafasamt að hún verði send norður til hennar með valdi gegn vilja sínum, haldi hún óbreyttri afstöðu. Þess sé að vænta að hún verði fengin með góðu til að fara til varnaraðila þegar barnaverndaryfirvöld kynni henni stöðu mála, verði úrskurður héraðsdóms staðfestur. Kæmi til aðfararmáls yrði afstaða hennar til flutnings könnuð fyrir héraðsdómi við fyrirtöku þess samkvæmt 45. gr., sbr. 43. gr. barnalaga.
Að þessu athuguðu og með vísan til þess sem rakið er í forsendum héraðsdóms að öðru leyti, verður staðfest niðurstaða hans um að varnaraðili fari með forsjá dóttur aðila á meðan á rekstri málsins stendur. Þá er ekki ástæða til að breyta niðurstöðu héraðsdóms um umgengnisrétt sóknaraðila við hana. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 15. október 2004.
Dómkröfur sóknaraðila.
Sóknaraðili krefst þess, að honum verði til bráðabirgða ákvörðuð forsjá, X, en hún er dóttir hans og varnaraðila. Krafan nær til þess tíma sem forsjármál sem sóknaraðili hefur höfðað á hendur varnaraðila varðandi telpuna er rekið. Þá er þess krafist að dómurinn ákveði inntak umgengnisréttar varnaraðila og dótturinnar meðan forsjármálið er rekið. Loks gerir sóknaraðili kröfu um málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti að mati dómsins úr hendi varnaraðila.
Dómkröfur varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess, að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá er gerð krafa um málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi sóknaraðila.
II
Málsatvik.
Aðilar máls þessa bjuggu saman í óvígðri sambúð í um níu ára skeið og eignuðust á þeim tíma tvær dætur. Við sambúðarslitin var ákveðið að varnaraðili færi ein með forsjá telpnanna og var það samkomulag staðfest í mars 1992. Sóknaraðili hefur haft umgengnisrétt við telpurnar og mun umgengnin að mestu hafa gengið eðlilega fyrir sig. Þó heldur sóknaraðili því fram að fyrir hafi komið að varnaraðili hafi brotið gróflega á umgengnisrétti hans. Varnaraðili heldur því aftur á móti fram að sóknaraðili hafi ítrekað hótað því að ná af henni börnunum og þannig gert henni erfitt fyrir og a.m.k. fyrstu árin lítið sinnt umgengnisskyldum sínum. Sóknaraðili er búsettur í [...] en varnaraðili á [...] þar sem telpan er uppalin.
Í byrjun júlímánaðar síðastliðið sumar fór X til til Svíþjóðar og dvaldi þar í nokkrar vikur en kom þaðan um miðjan ágúst og fór þá í umgengni til sóknaraðila. Hún kom hins vegar ekki norður til [...] í haust þegar skólar byrjuðu. Er dvöl stúlkunnar hjá sóknaraðila í óþökk varnaraðila en stúlkan hefur lýst því að hún vilji dvelja hjá föður sínum.
Af hálfu félagsmálayfirvalda á [...] var hlutast til um að dr. Gunnar Hrafn Birgisson klínískur sálfræðingur talaði við telpuna og foreldra hennar og hefur skýrsla hans verði lögð fram í málinu.
III
Málsástæður og lagarök sóknaraðila.
Sóknaraðili heldur því fram að telpan hafi nú í sumar áður en hún kom í umgengni til hans dvalið í Svíþjóð um nokkurt skeið. Allan þann tíma og í sumar, alls í tæpa þrjá mánuði, hafi varnaraðili ekki reynt að hafa samband við stúlkuna. Þá heldur sóknaraðili því fram að telpan hafi ítrekað komið í umgengni til hans með sjáanlega áverka og hún hafi jafnframt greint frá miklu andlegu ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir á heimili varnaraðila. Sóknaraðili kveðst ítrekað hafa tilkynnt barnaverndarnefnd og félagsmálayfirvöldum [...] um aðstæður dætra sinna en lítil viðbrögð fengið. Sóknaraðili byggir kröfu sína á 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Telur hann að í ljósi vilja stúlkunnar, sem harðneitar að fara til varnaraðila, og þeirra gagna sem fyrir liggja um ofbeldisfulla hegðun varnaraðila sé brýnt að honum verði til bráðabirgða falin forsjá stúlkunnar. Sóknaraðili telur nauðsynlegt að hann fari með forsjá stúlkunnar þar til forsjármál sem nú er rekið verði til lykta leitt. Þá lýsir sóknaraðili því yfir að hann muni leggja sig fram um að stuðla að friðsamlegum samskiptum við varnaraðila og fúslega leyfa dótturinni að umgangast varnaraðila.
Málsástæður og lagarök varnaraðila.
Varnaraðili vísar til 35. gr. barnalag nr. 76/2003 og telur það vera andstætt hagsmunum telpunnar að verða við kröfum sóknaraðila. Stúlkan dvelji nú hjá sóknaraðila í óþökk varnaraðila og heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili hafi áður haldið telpunni hjá sér með sama hætti. Varnaraðili heldur því fram að í framburði fóstru eldri dóttur aðila, sem lagður hefur verið fram í málinu, komi vel fram hvernig sóknaraðili reyni að koma dætrum þeirra upp gegn móður sinni. Þá bendir varnaraðili á að dr. Gunnar Hrafn komi inn á þessa annmarka á forsjárhæfni sóknaraðila og sé mat hans í samræmi við skoðun varnaraðila í þessu efni. Í skýrslu Gunnars Hrafns komi fram að framkoma sóknaraðila í máli þessu sé ámælisverð, hans innsýn í siðferðisbresti telpunnar takmarkaða og framferði hans í vinnu með telpunni beri vott um skort á skilningi á ábyrgð foreldris.
Varnaraðili bendir á að framferði sóknaraðila komi í veg fyrir að stúlkan sæki skóla en sóknaraðili hafi blekkt skólayfirvöld í [...] til samvinnu við sig. Sóknaraðili hefði, þegar fyrir lá að telpan fengi ekki skólavist í [...], átt að senda hana norður þannig að hún gæti hafi skólaárið og síðan beðið niðurstöðu í forsjármálinu eða því máli sem hér er til umfjöllunar. Varnaraðili heldur því fram að ábyrgð á skólamálum telpunnar hvíli alfarið hjá sóknaraðila. Þá heldur varnaraðili því fram að sóknaraðili hafi með einhverjum hætti komið því að hjá telpunni að það sé varnaraðila að kenna að hún sé ekki í skóla og þetta segi nokkuð um það hvernig sóknaraðili talar við telpuna. Varnaraðili segir heimili sitt ávallt opið fyrir stúlkuna og hún eigi vísa skólavist á [...]. Þar eru forsvarsmenn skólans líkt og varnaraðili tilbúnir til að hjálpa telpunni við að vinna upp það tjón sem hún hefur orðið fyrir í skólastarfi og þessir aðilar séu best til þess fallnir vegna góðrar þekkingar á stöðu og þörfum telpunnar. Þá sé mikilvægt að koma telpunni sem fyrst í það stöðuga uppeldisumhverfi sem hún hefur vanist. Varnaraðili bendir á að dr. Gunnar Hrafn taki undir sjónarmið þessi í álitsgerð sinni.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að skólar í [...] hafi litla þekkingu á stöðu telpunnar og vandamálum. Af þeim sökum sé hætta á að skólaárið færi fyrir lítið. Þetta skólaár sé telpunni mjög mikilvægt enda sé hún nú á síðasta ári í grunnskóla. Dr. Gunnar Hrafn hafi komist að þeirri niðurstöðu, eftir viðtöl við telpuna og eftir fyrri kynni hans af hennar málum, að best sé fyrir hana að fara aftur til varnaraðila og halda áfram námi sínu fyrir norðan. Telur varnaraðili að framhjá rökum dr. Gunnars Hrafns sé ekki unnt að horfa við úrlausn máls þessa.
Varnaraðili bendir á að við ákvörðun forsjár til bráðabirgða sé það grundvallarsjónarmið að raska sem minnst högum barns. Með því að taka kröfu sóknaraðila til greina verði högum telpunnar raskað verulega og það rask geti haft varanleg áhrif til hins verra á allt líf hennar og framtíðarhorfur. Miðað við fyrri reynslu af dvöl stúlkunnar hjá sóknaraðila megi búast við að hann gefist fljótlega upp á að hafa hana, þar sem hann hefur ekki viðurkennt siðferðisbresti telpunnar sem taka þarf á og vinna með og sérstaklega þurfi að taka skólamál hennar föstum tökum. Fráleitt sé að verðlauna sóknaraðila fyrir hina ólögmætu sjálftöku.
Varnaraðili heldur því fram að vilji telpunnar einn og sér verði ekki lagður til grundvallar í máli þessu þar sem sá vilji sé bersýnilega andstæður hagsmunum hennar. Telur varnaraðili að líta beri framhjá meintum vilja telpunnar þar sem hún sé ekki fær um að meta hvað sé henni fyrir bestu og hún velji þann kost sem feli í sér mesta lausung, mesta óreglu og mest agaleysi. Festa, regla og agi séu einmitt þeir þættir sem telpan þurfi mest á að halda til að ná árangri í lífi og námi.
Varnaraðili kveðst reiðubúinn til að takast á við þann vanda sem leiða kann af því að telpan verður látin koma til hans gegn vilja hennar og lýsti varnaraðili því yfir að hann muni leita eftir þeirri aðstoð sem nauðsynleg er í því sambandi. Varnaraðili telur að þessi sjónarmið eigi auk þess ekki við í málinu því eingöngu skuli hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Þá heldur varnaraðili því fram að telpan muni koma til hennar án atbeina yfirvalda enda sýni sagan að hún dvelji aldrei lengi í einu fjarri heimahögum. Leitað verði eftir aðstoð barnaverndaryfirvalda við að koma telpunni heim til sín með góðu.
IV
Niðurstaða
Báðir aðilar vísa máli sínu til stuðnings til 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 en í 1. mgr. greinarinnar er heimild fyrir dómara að úrskurða um forsjá til bráðabirgða eftir því sem barni er fyrir bestu. Hér skal því eins og ávallt í málum er varða forsjá barns niðurstaðan verða eftir því hvað kemur barninu sjálfu best.
Dr. Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur vann álitsgerð vegna málsins. Hann átti viðtal við telpuna svo og aðila málsins sitt í hvoru lagi og saman. Hann leitaðist við að kanna vilja telpunnar og lét einnig í ljós álit sitt á því hvernig væri best að fara með málið. Þá kom fram hjá dr. Gunnari að hann hefði áður, bæði á vegum sýslumannsins í Hafnarfirði og Fjölskyldu- og þjónustusviðs Skagafjarðar, átt viðtöl við þær mæðgur bæði saman og sitt í hvoru lagi og einnig eitt viðtal við föður.
Í niðurstöðu og mati dr. Gunnars Hrafns kemur m.a. fram að hann telji það telpunni fyrir bestu að fara aftur til móður sinnar og halda námi sínu áfram þar. Móðirin þekki telpuna, styrkleika og veikleika hennar betur en aðrir, þar með talinn faðirinn sem hafi takmarkaða innsýn í siðferðisbresti telpunnar. Dr. Gunnar Hrafn telur að sóknaraðili hafi unnið með telpunni í því að fara á bak við varnaraðila og slíkt beri vott um skort á skilningi á ábyrgð foreldris. Þá telur hann að sóknaraðili hafi ekki gert nægilega vel grein fyrir því hvers vegna hann hafi ekki fyrr en nú haft uppi kröfu um forsjá telpunnar fyrr ef hann vissi um harðræði sem telpan var beitt heima fyrir. Þá telur hann sóknaraðila og telpuna ýkja sögur um andlegt og líkamlegt ofbeldi móður gagnvart telpunni og að sóknaraðili horfi framhjá því sem varnaraðili hefur gert vel. Í álitsgerðinni kemur ennfremur fram að vilji telpunnar byggist annars vegar á því að hún vilji komast undan uppeldi móður sem setur henni mörk og að hún geti farið sínu fram hjá föður. Telur dr. Gunnar Hrafn að stúlkan hafi ekki gott af því að komast undan foreldravaldi á þann hátt sem hún ætlar sér. Reynslan sýni að föður og konu hans muni reynast erfitt til lengdar að veita telpunni það aðhald sem hún þarf.
Fyrir liggur að telpan hefur á ákveðinn hátt lýst áhuga sínum á að dvelja hjá sóknaraðila. Dr. Gunnar Hrafn hefur lýst því að hann telji að sá vilji hennar markist nokkuð af því að hún sé að reyna að losna undan agavaldi móður. Að teknu tilliti til þessa og þegar horft er til þeirra atriða sem að framan eru rakin úr áliti dr. Gunnars Hrafns svo og þess að engin gögn hafi verið lögð fyrir dóminn sem styðja fullyrðingar sóknaraðila um alvarlegt líkamlegt og andlegt ofbeldi varnaraðila gagnvart telpunni eru ekki efni til að verða við kröfu sóknaraðila í máli þessu. Þá ber einnig að hafa í huga að stúlkan hefur nánast alla sína tíð gengið í skóla á Sauðárkróki og í málinu liggur fyrir vottorð skóla hennar um góðan árangur af stuðningi við hana. Ætla verður að líkur séu til þess að henni muni sækjast betur námið í sínum gamla skóla þar sem þarfir hennar náms- og félagslegar eru vel þekktar og unnið með þær. Fyrir liggur að í forsjármáli því sem rekið er fyrir dóminum mun verða gerð ítarlegri úttekt á högum aðila og með nánari hætti leitað eftir afstöðu telpunnar sem vissulega að teknu tilliti til aldurs hennar hefur mikið að segja um úrlausn þess máls.
Ekki er að svo stöddu tilefni til að gera breytingu á umgengnisrétti frá því sem nú er.
Rétt þykir að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms í forsjármáli aðila.
Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan. Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist nokkuð vegna dvalar dómarans erlendis.
ÚRSKURÐARORÐ
Kröfu sóknaraðila, um breytingu á forsjá X til bráðabirgða er hafnað.
Kröfu um breytingu á umgengnisrétti er hafnað.
Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í forsjármáli aðila.