Hæstiréttur íslands
Mál nr. 448/2007
Lykilorð
- Líkamsárás
- Samþykki
- Ávana- og fíkniefni
- Vörslur
|
|
Fimmtudaginn 20. desember 2007. |
|
|
Nr. 448/2007. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
|
Líkamsárás. Samþykki. Ávana- og fíkniefni. Vörslur.
X var ákærður fyrir líkamsárás með því að hafa slegið A í andlitið þannig að hann nefbrotnaði en atvikið átti sér stað í knattspyrnuleik á íþróttasvæði fanga á Litla-Hrauni. Í ljósi framburðar vitna þótti varhugavert að telja að komin væri fram sönnun þess að X hefði vísvitandi slegið A. Hann var því ekki talinn hafa gerst sekur um brot samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá var í dómi Hæstaréttar vísað til þess að með þátttöku í knattspyrnu gengju menn af frjálsum vilja til leiks sem lyti ákveðnum reglum. Kynni háttsemi í leiknum, sem við aðrar aðstæður væri refsiverð, að vera refsilaus ef hún væri innan marka venjulegs leiks og í beinum tengslum við hann. Þótti ósannað að X hefði farið út fyrir það sem vænta mætti við iðkun knattspyrnu þegar leikmönnum hlypi kapp í kinn. Yrði honum því heldur ekki refsað samkvæmt 219. gr. sömu laga. X var einnig ákærður fyrir vörslu fíkniefna sem fundust í jakka við leit í klefa hans. Með hliðsjón af því hvernig staðið hafði verið að rannsókn málsins og þar sem X hafði ekki verið spurður hvort hann hefði haft vitneskju um fíkniefnin þótti ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna að hann hafi vitað eða mátt vita af þeim í klefanum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. ágúst 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms á sakfellingu og upptöku fíkniefna, en að refsing ákærða verði þyngd. Þá er þess krafist að ákærði greiði A 243.375 krónur í skaðabætur með vöxtum eins og í ákæru greinir.
Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá héraðsdómi.
I.
Óumdeilt er að í knattspyrnuleik á íþróttasvæði fanga á Litla-Hrauni 12. júlí 2006 fékk A högg í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Ákærði neitar að hafa slegið A af ásetningi en kvað mögulegt að hann hefði rekist í hann eða slegið hendinni í hann án þess þó að hafa tekið eftir því.
Samkvæmt vætti vitna var hart fram gengið í leiknum. Í vætti B kom fram að hann hefði verið í vörn ásamt A þegar ákærði kom hlaupandi í átt að þeim og hafi þeir A og ákærði síðan skollið harkalega saman. Eftir það hafi tekið að blæða úr A. Hafi þetta því verið óviljaverk. Auk A sjálfs eru ekki eru aðrir sem bera að ákærði hafi veitt A hnefahögg í andlitið en C fangavörður. Hún ber að hún hafi gengið að stórum glugga í húsi 4 á jarðhæð og litið út til þess að kanna hvort þar væri tiltekinn fangi að leik. Hefði hún fylgst með leiknum í nokkrar mínútur og séð að ryskingar hafi verið á milli ákærða og A nálægt markinu. Hafi þeir snúið að henni og axlir þeirra nuddast saman og ákærði síðan veitt A högg í andlitið. Hún gat hins vegar ekki upplýst með hvorri hendinni ákærði hefði veitt A höggið og aðspurð nánar sagði hún að sér hefði fundist að ákærði hefði gert þetta af ásetningi en hún geti kannski ekki dæmt um það.
Af framangreindu athuguðu er varhugavert að telja að fram sé komin sönnun þess að ákærði hafi vísvitandi slegið A í andlitið í fyrrnefndum fótboltaleik. Er því ekki fallist á að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem heimfærð verður undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með þátttöku sinni í knattspyrnu ganga menn af frjálsum vilja til leiks sem lýtur ákveðnum reglum. Háttsemi í knattspyrnu, sem við aðrar aðstæður væri refsiverð, kann að vera refsilaus ef hún er innan marka venjulegs leiks og í beinum tengslum við hann. Í ljósi þess að ósannað er að háttsemi ákærða hafi farið út fyrir það sem vænta má við iðkun þessarar íþróttar þegar leikmönnum hleypur kapp í kinn í hita leiksins verður heldur ekki talið að honum verði refsað á grundvelli 219. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt framansögðu verður ákærði sýknaður af lið I í ákæru 31. janúar 2007. Eftir þessum málsúrslitum verður miskabótakröfu A vísað frá héraðsdómi samkvæmt 1. málslið 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
II.
Gerð var leit í klefa ákærða á Litla-Hrauni 18. ágúst 2006. Í lögregluskýrslu kemur fram að fíkniefnaleitarhundur hafi merkt lykt af fíkniefnum í leðurjakka sem hékk á snaga við hurð klefans. Fundust þar sex brúnir molar. Við rannsókn kom í ljós að um hass var að ræða. Síðar sama dag var ákærði kallaður fyrir varðstjóra til skýrslugjafar. Fram kemur í skýrslunni að ákærði hafi sagst vera fús til að tjá sig um málið en vildi ráðfæra sig við lögmann sinn áður en til þess kæmi. Lauk þá skýrslutöku. Ákærði var á ný kvaddur til skýrslugjafar 14. desember 2006 og að þessu sinni hjá sýslumanninum á Akureyri. Í lögregluskýrslunni kemur fram að ákærði vilji frá nafngreindan hæstaréttarlögmann sem skipaðan verjanda og hafa hann viðstaddan yfirheyrsluna. Haft var samband við stofu lögmannsins og reyndist hann ekki viðlátinn. Lauk þá skýrslutöku. Af gögnum málsins verður ekki séð að nein lögskýrsla hafi verið tekin af ákærða um þennan ákærulið.
Við aðalmeðferð málsins kom fram hjá ákærða að klefarnir á gangi þrjú, þar sem hans klefi var, hefðu almennt verið opnir þannig að fangar á sama gangi hefðu átt greiða leið í klefa annarra fanga. Þá kom fram að hann ætti ekki leðurjakkann, sem hassið fannst í, heldur maður að nafni D. Ákærði var ekki spurður nánar um þennan mann. Þá kom fram að hann kannaðist ekki við að eiga hassið. Ákærði var á hinn bóginn ekki spurður að því hvort hann hefði haft vitneskju um að hassið væri í klefa hans.
Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni má refsa fyrir vörslur fíkniefna sé slíkt brot framið af ásetningi eða gáleysi. Þegar allt framangreint er virt þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna að ákærði hafi vitað eða mátt vita af hassinu í fangaklefa sínum enda var hann ekki sérstaklega um það spurður, sbr. 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991. Verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvalds og allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku á lyfjum og fíkniefnum eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti og standa þau óröskuð.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvalds.
Kröfu A um miskabætur er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með þar talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 18. júlí 2007.
Mál þetta, sem þingfest var þann 8. mars 2007 og dómtekið 12. júní sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 31. janúar 2007, á hendur X, [kt. og heimilsfang], en til dvalar í fangelsinu á Akureyri,
„fyrir líkamsárás og fíkniefnabrot
I
með því að hafa síðdegis miðvikudaginn 12. júlí 2006 á fótboltavelli við fangelsið á Litla-Hrauni, Eyrarbakka í útivistartíma fanga, slegið A, [kt.], eitt hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði yfir til hægri og hlaut þrjá grunna skurði og töluvert mar á nefi.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 218. gr., sbr. 1. mgr. 73. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
með því að hafa föstudaginn 18. ágúst 2006 í klefa nr. 311 í fangelsinu á Litla Hrauni, haft í vörslu sinni 5,45 g af hassi, sem fangaverðir fundu við leit í leðurjakka sem hékk á snaga við hurð klefans, eftir að fíkniefnaleitarhundur hafði „merkt“ lykt af jakkanum.
Telst brot ákærða varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, 75/1982, 13/1985, 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001 með síðari breytingum.
Í málinu gerir Sveinn Andri Sveinsson hrl., f.h. A kröfu um að ákærða verði gert að greiða skaðabætur að fjárhæð kr. 243.375,- auk vaxta frá því að hið bótaskylda atvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38,2001 og dagsetningu bótakröfu.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum fíkniefnum (efnaskrá nr. 10296), en lagt var hald á greind fíkniefni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001. Einnig er þess krafist að lyf, sem haldlögð voru við klefaleit hjá ákærða þann 18. ágúst 2006, sbr. ákærulið II., verði gerð upptæk skv. 4. mgr. 48. gr. lyfjalaga nr. 93,1994 og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30,1963 og 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88,2005.“
Ákærði kom fyrir dóminn við fyrirtöku þann 8. mars síðastliðinn og neitaði sök. Af hálfu verjanda ákærða er krafist sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krafðist hann þess að bótakröfunni yrði vísað frá dómi. Auk þess er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins úr ríkissjóði.
Skýrsla vitna fyrir dómi.
Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði sök varðandi báða ákæruliði. Kvaðst hann, varðandi fyrri ákæruliðinn, hafa verið við fótboltaæfingu og hafi hann verið sjálfur í sókn en A í vörn. Mikil átök hafi verið og hart barist. Kvað ákærði þá A hafa oft snerst í leiknum. A hafi klárlega átt upptökin á því að þeir snertust í leiknum og þarna hefði A lent harkalega á sér. A hafi oft í leiknum reynt að tækla ákærða en ákærði alltaf getað hoppað frá því, auk þess að hann hafi ítrekað skorað eftir þessar tæklingar og hefði A verið orðinn pirraður. A hafi verið með hótanir í sinn garð í leiknum og veitt ákærða mörg högg í leiknum. Aðspurður um það hvort ákærði hafi getað slæmt hendinni í A, sagði ákærði það vera hugsanlegt en kvaðst þó ekki hafa orðið var við það. Ákærði kvaðst ekki hafa spilað fótbolta áður en hann kom á Litla-Hraun og því ekki þekkja annað en þennan „harða“ bolta. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við að A væri meiddur fyrr en hann hljóp út af vellinum í átt til fangavarða. Ákærði kvað nánast alla leikmenn hafa verið inni í teignum þegar atvikið átti sér stað.
Ákærði neitaði sök varðandi ákærulið II og kvaðst ekki hafa átt þau fíkniefni sem fundust í klefa hans. Kvað hann tíu samfanga sína hafa haft aðgang að klefanum sínum á þessum tíma. Ákærði kvaðst ekki vera í fíkniefnaneyslu og telji hann að þessum efnum hafi verið komið fyrir í klefa sínum. Þá kvaðst ákærði ekki hafa átt jakkann sem fíkniefnin fundust í, sá heiti D sem hafi komið jakkanum fyrir í klefa sínum.
C fangavörður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið stödd í húsi fjögur og verið að fylgjast með fótbolta fanganna. Hún hafi séð að einhverjar ryskingar hafi verið á milli A og X, þeir hafi verið að ýta öxlum saman. Því hafi hún staðnæmst við gluggann til að fylgjast með og þá hefði ákærði slegið A í andlitið, hún hafi séð það greinilega þar sem hún var að fylgjast með þeim tveimur. Kvað hún fjarlægðina hafa getað verið um tuttugu metra. Kvað hún ákærða og A hafa verið mjög þétt saman og snúið baki í varðskýlið þar sem varðstjórar voru. Kvaðst hún hafa upplifað þetta sem að A hafi verið að áreita ákærða og ákærði hafi „misst“ sig. Kvaðst hún hafa haft mjög skýra sýn yfir atvikið. C staðfesti lögregluskýrslu, sem hún gaf eftir atvikið, fyrir dóminum.
E fangavörður kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa orðið vitni að því þegar ákærði átti að hafa veitt umrætt högg. Hún hefði fyrst vitað um atvikið þegar A kom af vellinum og hefði verið blóðugur. Hún kvaðst þó hafa vitað til þess að einhver spenna hefði verið á milli þeirra í leiknum. Kvað hún orðróm hafa verið um að ákærði hafi slegið A.
F fangavörður kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa orðið vitni að umræddu tilviki. Hún hafi fyrst orðið vör við atvikið þegar A kom gangandi að varðskýlinu þar sem hún var og hafi hann verið blóðugur. Kvað hún orðróm hafa verið meðal fanganna að ákærði hafi slegið A.
G fangavörður kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa séð umrætt tilvik. Hann hafi fyrst tekið eftir A þegar hann kom gangandi að varðskýlinu en hann hafi verið blóðugur. Kvað hann fótboltaleikinn ekki hafa verið harðari en gerist og gengur í fótbolta meðal fanganna.
H, fangi á Litla-Hrauni, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa tekið þátt í umræddum fótboltaleik en ekki séð þegar umrætt atvik varð en hann hafi verið liðstjóri liðsins. Kvaðst hann ekki muna til þess að leikurinn hafi verið sérstaklega harður en X og A hafi verið með einhver læti. Hefði hann af þeim sökum tekið þá báða tali. Þá hafi A verið með tæklingar á X og verið að gefa honum olnbogaskot í leiknum og X reynt að forðast A af þeim sökum. Þá hafi hann heyrt A vera með hótanir í garð X.
B, fangi á Litla-Hrauni, kom fyrir dóminn. Hann kvaðst ekki hafa orðið vitni að umræddu tilviki. Kvaðst hann hafa verið þátttakandi í umræddum leik. Kvaðst hann hafa verið í vörninni með A og séð þrjá liðsmenn koma hlaupandi, X hafi fengið sendingu rétt fyrir framan teiginn en snúið baki í sig. A hafi ætlað að stöðva sóknina en um leið og hann hafi verið kominn í boltann hafi X snúið sér mjög hratt við. Hann hafi ekki séð greinilega hvað gerðist en öxlin á X hafi skollið mjög harkalega á A.
Tryggvi Ágústsson fangavörður kom fyrir dóminn og lýsti því þegar leit fór fram í fangaklefa ákærða umrætt sinn eins og greinir í ákærulið II. Kvað hann fíkniefnaleitarhund hafa verið í fangelsinu umræddan dag og verið í klefa ákærða þar sem hann hefði verið grunaður um að meðhöndla fíkniefni og ábendingar borist um það. Kvaðst Tryggvi hafa farið með leitarmanni og hundinum í klefa ákærða og hefði hundurinn „merkt“ á jakka í klefa ákærða. Í jakkanum hefðu fundist sex brúnir molar og ákærða verið sýndir þeir en hann hefði verið viðstaddur leitina. Þá hefðu fundist í svokölluðum „flakkara“ sprautur og nálar sem klárlega voru eign ákærða. Aðspurður um það hvort ákærði hefði ekki gert athugasemdir við umræddan jakka í klefa sínum, kvað hann að ákærði hefði ekki gert neinar athugasemdir við jakkann en hann hefði ekki kannast við fíkniefnin þegar honum voru sýnd þau. Í umrætt sinn hefði verið leitað í þremur klefum á deildinni en ákærði hefði legið undir sterkum grun um að höndla með fíkniefni.
Ásmundur Á. Sigurgíslason fangavörður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið viðstaddur leit í klefa ákærða í umrætt sinn. Fíkniefnahundur hefði verið við leitina og hefði „merkt“ á fíkniefni á jakka sem var í klefa ákærða og í flakkara. Hefði meint fíkniefni fundist í jakkanum. Aðspurður um það hvort ákærði hefði gert einhverjar athugasemdir við jakkann í klefa hans, kvað Ásmundur ákærða ekki hafa gert það.
Baldur G. Tryggvason fangavörður kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa verið viðstaddur í klefa ákærða þegar fíkniefni fundust í jakka ákærða en hann hefði verið í klefa hans þegar nálar og fleira fannst í flakkara í klefa hans. Baldur kvaðst ekki minnast þess að ákærði hefði gert neinar athugasemdir við jakkann sem efnin fundust í.
Jóhann Ágústsson fangavörður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið viðstaddur umrædda leit í klefa ákærða. Aðspurður um það hvort hann minntist þess að ákærði hafi ekki kannast við að eiga jakkann, kvaðst hann ekki minnast þess.
Sævar Örn Arason fangavörður kom fyrir dóminn og kvaðst ekki muna sérstaklega eftir umræddri leit. Hann kvaðst muna eftir því að flakkarinn var opnaður. Hann kvaðst ekki muna eftir leitinni í jakkanum.
A kom fyrir dóminn og kvað meinta líkamsárás hafa orðið með þeim hætti að hann og ákærði hefðu verið í fótbolta og þeir verið að nuddast öxl í öxl og ákærði í framhaldi gefið honum högg beint í andlitið. Kvað hann sig og ákærða ekki hafa þekkst áður. A neitaði því alfarið að hafa verið að reyna að fella ákærða í fótboltaleiknum.
I, [kt.] fangi á Litla-Hrauni, kom fyrir dóminn. Spurður af verjanda hvort A hafi óskað eftir því við hann að segja frá því að ákærði hafi slegið A og boðið honum greiðslur fyrir, kvað I það rétt. I kvaðst ekki hafa séð atburðinn að öðru leyti en að hann hefði séð ákærða og A skella saman í leiknum og í framhaldi hefði A gengið blóðugur af velli.
Niðurstöður.
Óumdeilt er í málinu að A fékk högg í andlit með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði í fótboltaleik þann 12. júlí 2006 eins og greinir í ákærulið 1. Engin vitni sem komu fyrir dóminn hafa getað borið að þau hafi séð umrætt högg fyrir utan C fangavörð. Kvaðst hún hafa verið stödd í húsi fjögur og verið að fylgjast með fótbolta fanganna. Hún hefði séð að einhverjar ryskingar voru á milli A og X, þeir hefðu verið að ýta öxlum saman og því hafi hún staldrað við gluggann til að fylgjast með þeim og þá hefði ákærði slegið A í andlitið. Kvaðst hún hafa séð það greinilega þar sem hún var að fylgjast með þeim tveimur. Kvað hún fjarlægðina frá húsi fjögur að þeim hafa getað verið um tuttugu metra. Kvað hún ákærða og A hafa verið mjög þétt saman og snúið baki í varðskýlið þar sem varðstjórar voru. Kvaðst hún hafa upplifað þetta sem að A hafi verið að áreita ákærða og ákærði hafi „misst“ sig. Kvaðst hún hafa haft mjög skýra sýn yfir atvikið. Er framburður hennar í samræmi við skýrslu sem hún gaf hjá lögreglu eftir atburðinn.
Ákærði neitaði stöðugt að hafa slegið A en kvað það mögulegt að hann hafi slengt hendinni í hann án þess þó að hafa tekið eftir því. Vitni báru fyrir dómi að umræddur fótboltaleikur hefði verið harður og hefði sérstaklega verið stirt á milli ákærða og A en vitnið H, sem var liðstjóri á þeim tíma, kvaðst hafa tekið báða aðila tali vegna framkomu þeirra í leiknum. Með þátttöku í fótboltaleik, ganga liðsmenn til leiks með þá vitneskju að meiðsl geta hlotist af, eðli leikjarins vegna. Veita þeir, með þátttöku sinni, samþykki sitt fyrir því að geta hlotið líkamleg meiðsl af hálfu annarra leikmanna, án þess að það teljist refsiverð háttsemi. Þrátt fyrir það er leikmönnum ekki heimilt að fara út fyrir þá háttsemi sem viðurkennd er í leiknum sjálfum og öll sú háttsemi sem viðhöfð er til að valda af ásetningi líkamstjóni, er komin út fyrir samþykkt atferli leikmanna og getur því verið refsiverð. Telur dómarinn að með framburði C fangavarðar, þó svo að hún sé ein til frásagnar, séu nægjanlegar sannanir fram komnar til að telja hafið yfir allan skynsamlegan vafa, að ákærði hafi veitt A hnefahögg í andlit eins og greint er í ákæru af ásetningi og í þeim tilgangi að veita honum líkamlega áverka. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi. Er brot ákærða réttilega fært til refsiákvæða.
Við ákvörðun refsingar verður þó litið til þess að A virðist hafa ítrekað áreitt ákærða í leiknum eins og vitni báru.
Ákærði neitaði fyrir dómi að hafa átt fíkniefni er fundust í klefa hans þann 18. ágúst 2006 og kvað annan fanga hafa átt jakkann sem efnin fundust í en jakkanum hefði verið komið fyrir í klefa hans. Í skýrslu sem gerð var í fangelsinu á Litla-Hrauni þann 18. ágúst 2006 óskaði ákærði eftir því að ráðfæra sig við lögmann áður en hann tjáði sig um málið. Við skýrslutöku hjá lögreglu þann 14. desember 2006 neitaði ákærði að svara spurningum lögreglu varðandi sakarefnið og að undirrita lögregluskýrsluna. Það var fyrst við aðalmeðferð málsins sem ákærði kvað samfanga sinn hafa átt jakkann sem efnin fundust í auk efnanna. Þykir sá framburður ákærða ekki trúverðugur enda verður að líta til þess að ákærði hafði aldrei komið með þá skýringu fyrr en við aðalmeðferð málsins. Þá hafði ákærði lykil að klefa sínum og gat læst honum að eigin sögn þegar hann vildi. Kvað ákærði það hins vegar venju að hafa klefana opna yfir daginn. Þá staðhæfðu fangaverðir að ákærði hefði ekki haft á orði við leitina, sem hann var viðstaddur, að hann ætti ekki umræddan jakka, sem þó hefði verið ærið tilefni til ef sú hefði verið staðreyndin. Ekkert í þessu máli gefur til kynna að ætla megi að samfangar ákærða hafi komið fíkniefnunum fyrir eins og ákærði heldur fram. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í ákærulið II og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hlaut hann átján mánaða fangelsi, þar af fimmtán mánuði skilorðsbundna til fimm ára, þann 11. mars 1997 fyrir brot gegn 252. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var sá dómur staðfestur í Hæstarétti. Þá hlaut ákærði átján mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, þann 6. mars 1998 fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 245. gr. hegningarlaga. Í desember 2000 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun vegna brota á umferðar- og fíkniefnalöggjöfinni. Þann 5. september 2003 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn fíkniefnalögum og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og þann 16. júní 2005 var ákærði dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir líkamsárásir og umferðarlagabrot. Ákærði hefur fjórum sinnum áður fengið dóm fyrir brot gegn 218. gr. hegningarlaga og tvisvar frá árinu 2000 verið gerð refsing fyrir brot gegn fíkniefnalögum.
Að öllu ofansögðu virtu, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna og hún falla niður að þremur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þá skulu 5,45 grömm af hassi gerð upptæk í ríkissjóð.
Hafnað er kröfu ákæruvaldsins um upptöku á lyfjum, sem haldlögð voru við klefaleit hjá ákærða þann 18. ágúst 2006 með vísan til 4. mgr. 48 gr. lyfjalaga nr. 93/1994 og 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005, þar sem ekki er ákært fyrir vörslur á öðru en 5,45 grömmum af hassi eins og kemur fram í ákærulið II.
Í málinu gerir Sveinn Andri Sveinsson hrl. kröfu um að ákærða verði gert að greiða A skaðabætur að fjárhæð 243.375 krónur auk vaxta frá því að hið bótaskylda atvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laganna frá því að mánuður var liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.
Bótakrafan sundurliðast þannig:
Miskabætur kr. 150.000
Lögfræðiaðstoð kr. 93.375
Samtals kr. 243.375
Í málinu liggur fyrir áverkavottorð Daggar Hauksdóttur, læknis hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, dagsett 31. júlí 2006. Segir í vottorðinu: „... Kemur strax í skoðun á heilsugæslustöðina á Selfossi kl. 17:22. Við skoðun þá er hann greinilega með brotið nef, septum nasi skagar yfir til hægri. Það er greinilega beygt og við palpatio er einnig að finna að það sé brotið. Við nánari skoðun þá er hann með pínulítinn skurð utan á nefi vi. megin og skurðurinn mjög grunnur og er honum lokað með því að setja steri-stip yfir hann. Skurðir á tveimur stöðum á sama svæði, báðir superfixial. Töluvert mar á nefi. Nef er rétt með einu taki við komu. Liggur beint í kjölfar þess en er laust og ekki hægt að stífa það af á neinn hátt.“
Árásin átti sér stað í hita leiks og að öllum líkindum eftir sífellt áreiti árásarþola. Árásin var þó unnin af ásetningi og með því gerðist ákærði sekur um grófa og ólögmæta meingerð gegn friði og persónu kæranda, sbr. a- og b-liði 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að hafa slegið kæranda á þeim stað og tíma og með þeim afleiðingum sem í ákæruskjali greinir. Ber ákærði skaðabótaábyrgð á því tjóni brotaþola sem rekja má til hinnar refsiverðu háttsemi. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna árásarinnar á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem ákvarðast að atvikum máls virtum og í samræmi við dómvenju 150.000 krónur. Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála á brotaþoli rétt til bóta vegna lögmannskostnaðar sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni í málinu. Bætur til kæranda á grundvelli nefnds ákvæðis þykja hæfilega ákveðnar 70.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Ekki liggur fyrir í málinu að ákærða hafi verið kynnt bótakrafan fyrr en við þingfestingu málsins þann 8. mars sl. Miskabótakrafa kæranda ber því vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júlí 2006 til 8. apríl 2007, en dráttarvexti skv. 9. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 6. gr., frá þeim degi til greiðsludags. Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað málsins. Hann dæmist því til að greiða 6.750 krónur vegna öflunar áverkavottorðs. Að auki verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem hæfilega teljast ákveðin 164.340 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagðan ferðakostnað verjanda, 16.440 krónur. Ákærði greiði því sakarkostnað samtals að fjárhæð 187.530 krónur.
Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Dóm þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Dómsuppsaga hefur dregist lítillega vegna anna dómarans.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Upptæk skulu gerð í ríkissjóð 5,45 grömm af hassi.
Hafnað er kröfu ákæruvaldsins um upptöku á lyfjum sem haldlögð voru við klefaleit hjá ákærða þann 18. ágúst 2006.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 187.530 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 180.780 krónur eins og segir í forsendum dómsins.
Ákærði greiði A 220.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júlí 2006 til 8. apríl 2007, en dráttarvöxtum skv. 9. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 6. gr., frá þeim degi til greiðsludags.