Hæstiréttur íslands

Mál nr. 520/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útivist
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                                                                              

Fimmtudaginn 3. nóvember 2011.

Nr. 520/2011.

Íslandsbanki hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

gegn

GB-Miðlun ehf.

(Enginn)

Kærumál. Útivist. Frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Bankinn Í hf. krafði G ehf. um greiðslu gjaldfallinna eftirstöðva skuldabréfs, en útivist varð af hálfu hins síðarnefnda í héraði. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi með vísan til þess að kröfu Í hf. skorti lagastoð, enda hefði málatilbúnaður bankans verið reistur á því eingöngu að um erlent lán væri að ræða en það væri ekki í samræmi við dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum. Hæstiréttur felldi hinn kærða úrskurði úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar með vísan til þess að málsatvik væru ekki sambærileg við þau sem reynt hefði á í fyrri dómum Hæstaréttar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. september 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2011, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 10. mars 2010. Ekki var sótt þing af hálfu varnaraðila, sem þó var löglega stefnt. Málið var því að kröfu sóknaraðila tekið til dóms á þingfestingardegi í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991. Bar að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði sóknaraðila að því leyti sem samrýmanlegt var framkomnum gögnum nema gallar væru á málinu sem vörðuðu frávísun þess án kröfu.

Í forsendum hins kærða úrskurðar er talið að komist hafi verið að þeirri niðurstöðu í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 að lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla þar sem slíkt væri í andstöðu við 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laganna. Sambærilega niðurstöðu sé að finna í dómum Hæstaréttar 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010. Þá sé til þess að líta að í dómum 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 og dómi 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011 hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að lánssamningar, sem hafi haft að geyma sambærilega skilmála og fram komi í lánssamningi þeim sem hér sé til úrlausnar, hafi verið um skuldbindingar í íslenskum krónum en ekki erlendri mynt. Í dómunum 8. mars 2011 hafi Hæstiréttur staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að vísa málunum frá dómi án kröfu en útivist hafi orðið í þeim málum af hálfu stefndu.

Ekki verður fallist á að skuldabréf það sem um er fjallað í þessu máli sé sambærilegt skuldabréfum þeim sem um ræðir í nefndum dómsmálum. Meðal annars kemur fjárhæð skuldbindingar samkvæmt bréfinu í erlendum gjaldmiðlum hér skýrt fram þar sem greind er fjárhæð skuldar. Svo greinir í forsendum dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn nefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Framangreindir dómar Hæstaréttar eru því ekki fordæmi fyrir ólögmæti þeirrar skuldbindingar sem um er fjallað í þessu máli. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til meðferðar lögum samkvæmt.

Ákvörðun um málskostnað í héraði bíður efnislegrar meðferðar málsins þar, en rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. ágúst 2011.

Mál þetta var höfðað 25. febrúar 2010. Málið var þingfest 10. mars 2010 og dómtekið sem útivistarmál sama dag. Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík. Stefndi er GB-Miðlun ehf., Klukkuholti 17, Álftanesi.

Stefnandi krefst þess að stefndi, verði dæmdur til að greiða stefnanda 47.245.797 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2008 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að þola viðurkenningu á 1. veðrétti í fasteigninni, Klukkuholt 17, fastanúmer 229-0944, Álftanesi, fyrir 27.213.289 krónum, auk dráttarvaxta, samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. desember 2008 til greiðsludags og alls kostnaðar við innheimtuaðgerðir þessar. Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts. 

Stefndi mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu stefnu og boðaði ekki forföll. Því til samræmis verður málið dæmt sem útivistarmál samkvæmt reglum 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfur stefnanda teknar til greina, að því leyti sem málatilbúnaður hans er samrýmanlegur framlögðum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varða frávísun án kröfu.

I.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að skuld þessi sé samkvæmt skuldabréfi í erlendum gjaldmiðlum, útgefnu 20. júlí 2007 af GB-Miðlun, til Glitnis banka hf., nú Íslandsbanka hf., en Íslandsbanki hf. hafi tekið yfir skuldabréfið, sbr. ákvörðun fjármálaeftirlitsins dags., 14. október 2008. Skuldabréfið sé að fjárhæð 175.341 svissneskur franki (CHF) og 17.816.567 japönsk jen (JPY). Jafnvirði 17.250.000 krónur. Jafnframt beri að greiða LIBOR-vexti af láninu, LIBOR vextir séu vextir á millibankamarkaði í London eins og þeir séu auglýstir kl. 11:00 að staðartíma í London á BBA síðu Reuters. Fyrsta vaxtatímabil beri að greiða Libor CHF 2,72% og Libor JPY 0,77781%. Fast vaxtaálag sé 2%. Vegnir meðaltalsvextir hafi verið 3,748905%. Skuldabréf þetta skyldi greiða með 300 afborgunum á mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. september 2007. Skilmálar skuldabréfsins kveði svo á um að verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta af skuldabréfinu eða aðrar vanefndir sé lánveitanda heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Enn fremur að lánveitanda sé heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingar­dags miðað við skráð sölugengi lánveitanda á þeim myntum sem skuldin samanstandi af. Einnig sé kveðið á um að greiða beri dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Skuldabréf þetta hafi verið í vanskilum frá 1. desember 2008. Skuldabréfið sé gjaldfellt og eftirstöðvar skuldabréfsins umreiknaðar þann dag í íslenskar krónur, í samræmi við 10. gr. í skil­málum bréfsins, vegna vanskila. Uppreiknaðar eftirstöðvar skuldabréfsins við gjald­fellingu séu samtals 47.245.797 krónur sem sé stefnufjárhæð máls þessa. Stefnu­fjárhæðin 47.245.797 krónur sé þannig fundin að þann 1. desember 2008, á gjald­fellingardegi skuldabréfsins, séu eftirstöðvar þess færðar yfir í íslenskar krónur, sbr. heimild í 10. gr. skuldabréfsins en á þeim degi hafi svissneskir frankar verið, þ.e. leggur nr. 851157, CHF 167.088,53. Gengi CHF á gjaldfellingardegi hafi verið 122,69. Uppreiknaðar eftirstöðvar þess leggjar í íslenskar krónur séu því 20.500.092 krónur. Japönsk jen þ.e. leggur nr. 851174, hafi verið á gjaldfellingardegi JPY 16.964.166,56. Gengi JPY á gjaldfellingardegi hafi verið 1,5766. Uppreiknaðar eftir­stöðvar þess leggjar í íslenskar krónur séu því 26.745.705 krónur. Heildareftirstöðvar skuldabréfsins við gjaldfellingu þess 1. desember 2008 hafi því verið 47.245.797 krónur sem sé stefnufjárhæð málsins. Allar tilraunir til innheimtu skuldarinnar hafi reynst árangurslausar. Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu skuldabréfsins á almennum reglum kröfu- og samningaréttar um efndir fjárskuldbindinga auk skýrra ákvæða skuldabréfsins. Með tryggingarbréfi, útgefnu 17. júlí 2007 af hinu stefnda félagi, hafi fasteignin Klukkuholt 17, Álftanesi, fastanúmer 229-0944, verið veðsett með 1. veðrétti, til tryggingar á skuldum útgefanda við Glitni banka hf., nú Íslandsbanka hf., að fjárhæð 23.000.000 krónur, verðtryggt með vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 272,4 stig, auk dráttarvaxta og alls kostnaðar við innheimtuaðgerðir, hverju nafni sem nefnist. Við gjaldfellingu 1. desember 2008 hafi vísitala neysluverðs verið miðað við grunnvístölu þá 322,3 stig og þar af leiðandi sé uppreiknaður höfuðstóll nú 27.213.289 krónur eins og getið sé í dómkröfum. Tryggingarbréfinu sé því stefnt gjaldfelldu miðað við fyrstu vanskil skuldabréfsins og dráttarvextir miðaðir við þá dagsetningu í dómkröfum, sbr. heimild í  tryggingar­bréfinu er segi að við vanefnd sé heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og ganga að veðinu. Stefndi sé eigandi hinnar veð­settu eignar samkvæmt þinglýsingarbók, sbr. tilgreiningu á meðfylgjandi þinglýsingar­vottorði, dagsettu 12. febrúar 2010. Stefnanda beri nauðsyn til að nýta veðrétt sinn sam­kvæmt tryggingarbréfinu, þar sem útgefandi þess hafi ekki staðið í skilum við stefnanda með greiðslu skulda sem bréfið hafi átt að tryggja.

                Um lagarök er vísað til almennra reglna kröfu- og samningarréttar um greiðslu fjárskuldbindinga. Um rétt stefnanda vísast einnig til almennra reglna veðréttarins auk aðfararlaga. Samkvæmt lögum þessum sé stefnda nauðsyn að fá viðurkenningu fyrir veðrétti sínum svo fullnusta megi veðið með aðför. Dráttarvaxtakrafa byggist á III. kafla laga nr. 38/2001. Málskostnaðarkrafa styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni, en samkvæmt 10. tölulið 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 sé stefnandi ekki virðisauka­skattskyldur. Því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um varnarþing er vísað til 32. gr. laga nr. 91/1991.

II.

Hið stefnda félag gaf út skuldabréf til Glitnis banka hf. 20. ágúst 2007. Ber skuldabréfið heitið „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum.“ Samkvæmt ákvæðum skulda­bréfsins viðurkennir stefndi að skulda forvera stefnanda „eftirfarandi erlendar fjár­hæðir eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum eða mynteiningum, sem birtar eru í almennri gengistöflu Glitnis banka hf., eða í íslenskum krónum: CHF 175.341, JPY 17.816.567. Jafnvirði í íslenskum krónum 17.250.000.“ Á skuldabréfinu er bankareikningurinn 537-26-11129 tilgreindur, bæði sem ráðstöfunar- og skuldfærslureikningur vegna lánsins, en reikningurinn ber með sér að vera tékka­reikningur í íslenskum krónum. Í stöðluðum skilmálum skuldabréfsins er meðal annars fjallað um myntbreytingu og vanskil. Þar kemur meðal annars fram að lán­veitandi geti „leyft færslu skuldarinnar yfir á aðra gjaldmiðla og/eða breytt skiptingu á milli þeirra síðar á lánstíma.“ Þá segir að við myntbreytingu skuli „við umreikninginn í aðrar myntir taka mið af kaup- og sölugengi samkvæmt síðustu almennu gengis­skráningu Glitnis banka hf. á íslensku krónunni miðað við þá mynt/þær myntir sem myntbreytingin tekur til...“ Þá segir að við myntbreytinguna fái „lánið, allt eða að hluta, ný númer, eitt númer fyrir hverja nýja mynt“. Síðar í bréfinu kemur fram að við vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta sé heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Lánveitenda sé þá „heimilt að umreikna skuldina í íslenskar krónur í lok gjaldfellingardags miðað við skráð sölugengi Glitnis banka hf. á þeim myntum sem skuldin samanstendur af.“

Meðal framlagðra gagna er skjal sem ber heitið „Staða skuldabréfs,“ en skjalið ber með sér að vera útbúið af stefnanda og sent stefnda. Þar koma meðal annars fram „stofnupplýsingar“ skuldabréfsins, en þar segir meðal annars að upphafleg fjárhæð þess sé 17.250.000, en nafnverð eftirstöðva sé 16.367.843. Svo virðist sem í báðum tilvikum sé átt við íslenskar krónur. Í skjalinu er fjárhæð skulda­bréfsins að sama skapi sundurgreind í „CHF–legg“ og „JPY-legg“ og getið er um upp­haflegar fjárhæðir hvors leggjar um sig. Þar segir meðal annars að upphafleg fjárhæð CHF-leggjarins sé 8.602.229, en í mynt CHF 175.340,99. Í fyrra tilvikinu virðist aftur sem átt sé við íslenskar krónur. Þá kemur fram að „grunnverðtrygging“ sé CHF, að „grunngengi“ sé 49,06 og er nafnverð eftirstöðva sagt 8.143.813, í mynt CHF 165.997,00. Einnig er getið um gildandi vaxtaprósentu CHF-leggjarins og gengi svissnesks franka við gerð stöðuskjalsins. Þá koma fram uppreiknaðar eftirstöðvar CHF-leggjarins sem eru sagðar 20.366.172 en gjaldfallið ógreitt er sagt 133.920. Í báðum til­vikum virðist átt við íslenskar krónur. Upphafleg fjárhæð JPY-leggjarins er sögð 8.687.358 en í mynt JPY 17.816.566,86. Í fyrra tilvikinu virðist aftur sem átt sé við íslenskar krónur. Þá kemur fram að „grunnverðtrygging“ sé JPY, að „grunngengi“ sé 0,4876 og er nafnverð eftirstöðva sagt 8.224.030, í mynt JPY 16.866.345,37. Einnig er getið um gildandi vaxtaprósentu JPY og gengi japansks jens við gerð stöðuskjalsins. Þá koma fram uppreiknaðar eftirstöðvar JPY-leggjarins sem eru sagðar 26.591.480, en gjaldfallið ógreitt er sagt 154.225. Í báðum tilvikum virðist aftur átt við íslenskar krónur.

Með dómum Hæstaréttar Íslands 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var skorið úr ágreiningi lánveitenda og lántaka um höfuðstól skulda vegna svonefndra bílalána. Niðurstaðan var sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og að tenging höfuðstóls skuldanna við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt þar sem hún stríddi gegn ákvæðum 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá var með dómum Hæstaréttar Íslands 14. febrúar 2011 í málum nr. 603/2010 og 604/2010 skorið úr ágreiningi um hvort skuldbindingar samkvæmt skuldabréfum með fasteignaveði væru í íslenskum krónum eða erlendum gjald­miðlum. Var þar um að ræða svonefnd jafnvirðislán. Þar var niðurstaða Hæstaréttar Íslands sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og talið að þar skipti mestu að lánsfjárhæðin væri ákveðin í íslenskum krónum og hana bæri að endurgreiða í sama gjaldmiðli. Þá er til þess að líta að Hæstiréttur Íslands tók í dómum sínum 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 og í dómi 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, afstöðu til þess að lánssamningar, sem höfðu að geyma sambærilega skil­mála og fram koma í lánssamningi í því máli sem hér er til úrlausnar, hafi verið um skuldbindingar í íslenskum krónum, en ekki í erlendri mynt. Í dómum Hæstaréttar frá 8. mars s.l. staðfesti rétturinn niðurstöðu héraðsdóms, sem vísað hafði málum lánveitanda frá dómi, án kröfu, en útivist var af hálfu stefndu í þeim málum.

Hér að framan er framlögðum gögnum lýst að því marki sem máli skiptir við úrlausn þessa máls. Af skuldabréfi aðila og öðrum gögnum málsins verður ekki ótvírætt ráðið hvort aðilar hafi samið um skuld í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum og þá gengistryggða miðað við gengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Heiti skuldabréfsins eitt og sér gefur hið fyrra til kynna, en ákvæði bréfsins um skuldaviðurkenningu gefur til kynna að skuldin kunni að vera eitt af þrennu í japönskum jenum og svissneskum frönkum, jafngildi í öðrum erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum. Verður þá að líta til annarra atriða. Tilgreining bréfsins um ráðstöfunarreikning bendir hins vegar til þess að láninu hafi átt að ráðstafa í íslenskum krónum inn á tékkareikning skuldara, en engin gögn hafa verið lögð fram um að lánið hafi átt að greiða út eða verið greitt út í öðrum gjaldmiðlum. Þá ber tilgreining bréfsins á skuldfærslureikningi sömuleiðis með sér að endurgreiðsla afborgana lánsins hafi átt að fara fram í íslenskum krónum. Engin gögn hafa verið lögð fyrir dóminn sem skýra frekar tilhögun aðila á endurgreiðslum og ekki liggur fyrir að stefndi hafi endurgreitt lánið með öðrum hætti. Telur dómurinn því að tilhögun á útgreiðslu og endurgreiðslu afborgana lánsins bendi til þess að lánað hafi verið í íslenskum krónum, bundið við gengi japansks jens og svissnesks franka.  Samkvæmt stöðluðum skilmálum skuldabréfsins hafði lántaki haft heimild til myntbreytinga á samningstíma skuldabréfsins. Að teknu tilliti til ­fyrirkomulags aðila á endurgreiðslum afborgana virðist lántaki þannig hafa haft heimild til breytinga á gengisviðmiði skuldabréfsins. Að sama skapi hafi lánveitandi haft heimild til að festa skuld lántakanda í ákveðinni íslenskri krónutölu við vanefndir skuldara, þannig að skuldin í íslenskum krónum væri eftirleiðis ekki háð gengi erlendra gjaldmiðla. Við það er kröfugerð stefnanda miðuð. Í skjalinu „staða skuldabréfs“ koma fram upplýsingar af hálfu stefnanda um stöðu skuldabréfsins við útgáfu skuldabréfsins og í desember 2008. Í skjalinu er getið um upphaflegar fjárhæðir hvors „leggjar“ um sig sem og uppreiknaðar heildareftirstöðvar bréfsins. Hvor leggur um sig ber með sér að vera uppreiknaður með hliðsjón af „grunnverðtryggingu“, sem ýmist er svissneskur franki eða japanskt jen. Getið er um grunngengi hvors gjaldmiðils sem og gengi hvors gjaldmiðils á gjalddaga. Þannig virðist uppreiknuð íslensk fjárhæð leggjanna fundin út með hliðsjón af gengismun íslensku krónunnar gagnvart gengi hinna erlendu gjaldmiðla, við lántöku annars vegar og á gjalddaga hins vegar. Skjalið ber þannig berlega með sér að upphafleg fjárhæð bréfsins í íslenskum krónum hafi verið uppreiknuð til skuldar stefnda í íslenskum krónum í desember 2008, en að fjárhæð bréfsins hafi verið verðtryggð í íslenskum krónum með hliðsjón af gengi svissnesks franka og japansks jens. Þannig hafi skuld stefnda í íslenskum krónum tekið breytingum í samræmi við breytingar á gengi þessara gjaldmiðla gegnvart íslensku krónunni.

Að mati dómsins er hér um sambærilega lántöku og fjallað er um í áðurnefndum dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010, 153/2010, 603/2010, 604/2010, 30/2011, 31/2011 og 155/2011. Samkvæmt framangreindu verður því að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið hafi verið í íslenskum krónum, en verðtryggt með því að binda það við gengi erlendra gjaldmiðla. Með vísan til dóma Hæstaréttar Íslands verður að telja gengis­tryggingu skuldabréfsins ólögmæta. Samkvæmt því skortir lagastoð fyrir kröfu stefnanda. Af málatilbúnaði stefnanda verður ekki annað ráðið en hann telji efni tilvitnaðs skuldabréfs lögmætt að öllu leyti og miðast dómkrafa stefnanda við það. Í stefnu eða öðrum málsgögnum er ekki gerð grein fyrir því hverjar séu eftirstöðvar skuldabréfsins án tillits til ákvæða um gengistryggingu og vexti. Að þessu leyti er málatilbúnaður stefnanda vanreifaður og vegna þessara annmarka þykir rétt að vísa máli þessu frá dómi án kröfu.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.                                                     

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.