Hæstiréttur íslands

Mál nr. 432/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 6. júlí 2010.

Nr. 432/2010.

Ákæruvaldið

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

Davíð Garðarssyni

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júlí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. júlí 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ákæra var gefin út 2. júlí 2010 á hendur varnaraðila og fjórum öðrum mönnum meðal annars vegna ætlaðra brota á a. lið 173. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan dóms Hæstaréttar 22. júní 2010 í máli nr. 396/2010 og til forsendna hins kærða úrskurðar að öðru leyti verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans þó eigi lengur en til föstudagsins 30. júlí nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að í dag hafi  Ríkissaksóknari höfðað sakamál á hendur ákærða, ásamt fjórum öðrum mönnum, með útgáfu ákæru fyrir stórfellt fíkniefnabrot, sjá nánar meðfylgjandi ákæruskjal.

Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 11. apríl sl., nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands 22. júní 2010 nr. 396/2010, og þá á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé ákærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem varði allt að 12 ára fangelsi og þá sé brot hans svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjist þess að honum verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, uns dómur gengur í máli hans.

Þá liggi og fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum almannagæslu sé fullnægt varðandi þátt ákærða í málinu og ekkert nýtt komið fram sem breytt geti því mati. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt framansögðu og gögnum málsins að öðru leyti verður fallist á það með lögreglustjóra að ákærði sé undir sterkum grun um að hafa framið stórfellt fíkniefnabrot, sem varðað geti allt að 12 ára fangelsi, og að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður því fallist á kröfu ákæruvaldsins um að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til endanlegur dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til 30. júlí 2010, kl. 16.00.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 30. júlí nk. kl. 16.